Óvænt útsýni, hæfileikakeppni og ... tónleikarnir

Útsýni í norður í fyrsta snjó vetrarinsMargbreytileika veðurs gætir sannarlega hérna líka, eins og í himnaríki, og meira en ég hélt, útsýnið breytist endalaust, mér til mikillar gleði. Viðurkenni samt að ég sakna sjávarniðar af Skaganum og þess að sjá ekki öldur nema með kíki. Af því að það er svo innilega kolrangt að konur rati eftir innsæi og karlar eftir kortum, verð ég ekki almennilega sátt við útsýnið héðan fyrr en ég veit nákvæmlega hvert ég horfi, og þarf kort til þess, eins og vanalega. Þegar ég fór með mömmu og Hildu til Dublin eitt árið, áttu þær (alla vega mamma) ekki orð til yfir ratvísi mína. Ég leit á kort og þá varð þetta allt mjög auðvelt. Kannski er ég með karlaheila, þoli ekki mikið búðaráp ... en ég held samt í alvöru að við séum bara misjöfn og asnalegt að draga okkur í dilka; Þú ert kona, þú hefur gaman af því að versla. Þú ert karl, þú ert mikið fyrir fótbolta ... Ég kýs fótbolta allan daginn! 

 

Esjan í fjarskaJá, útsýnið, ég trúi því eiginlega ekki en í dag þegar ég gaf mér tíma í fyrsta sinn til að skoða nágrennið með kíki (ekki nágrannana) sá ég mér til undrunar að ég sé Kjalarnesið og Grundahverfi ... virðist vera, ég þarf bara að losa mig við eina háa blokk til að sjá alveg upp á Skaga. Mögulega fleiri blokkir en den tid, den sorg. Þegar ég keyri (með strætó yfirleitt) upp úr Kollafirði yfir á Kjalarnes á leið á Skagann sé ég auðvitað ljósin í Reykjavík, og nú eru mín ljós orðin þátttakendur. Hef margsinnis ekið (ekki sjálf) Sæbrautina og ekki haft svona sjöttuhæðar-útsýni svo ég var eiginlega ekkert að hugsa um hvað væri á bak við Viðey og þar, ég hef aldrei séð Kjalarnes og Kollafjörð frá þessu sjónarhorni. Á samt eftir að skoða almennileg kort og næst þegar ég fer á Skagann mun ég kíkja eftir Kleppsvegi (krönunum í Sundagörðum) á leiðinni, tek kíkinn bara með - eða spjalla við indæla fólkið hjá Landmælingum. Ég er vissulega manneskja sem ferðast afar sjaldan og sé að auki frekar illa, þrátt fyrir gleraugu. En svona hluti vil ég vita. Í hina áttina, út um stofugluggann, sé ég Breiðholt og ef mamma væri enn á lífi og byggi í Asparfellinu gæti ég veifað henni, við yrðum þó báðar að vera með sérlega góða sjónauka. Mögulega hefði mamma orðið að losa sig við Asparfell 4 til að sjá örugglega heim til mín, er ekki frá því.  

 

Frú Gurrí, ég velti fyrir mér ...Í gær fór ég í eins konar atvinnuviðtal, nánast hæfileikakeppni þar sem alveg var horft fram hjá útliti, greind, kurteisi, kollhnísagetu og sönghæfileikum ... svo fátt eitt sé talið. Spennandi að vita hvað kemur út úr því.

(Myndin er vissulega pínku lýsandi, ég bjó á landsbyggðinni í næstum 20 ár en var reyndar allan tímann í tveimur til þremur störfum)

Ég hef svo sem litlar afkomuáhyggjur en ég vil frekar hafa of mikið að gera en of lítið, vinnualkinn ég ... Ég finn eftir sumarið (sem var allt of rólegt) að ég þarf að hafa alla vega tvær vinnur, helst þrjár. Að hlusta á sögur á daginn á meðan ég pakka upp úr kössum (mjög fáir eftir af þessum milljón) er vissulega mjög gaman en ég óttast að gamanið geti kárnað og að þetta verði að ávana eða fíkn ... ef eitthvað er að marka vissan leigubílstjóra ... Ég tók sem sagt leigubíl í gær í næsta póstnúmer þar sem viðtalið fór fram, hef heyrt svo margar hryllingssögur af geðillum höfuðborgarstrætóbílstjórum sem henda fyrst óvönum farþegum út og spyrja svo! Þótt ég hafi hlaðið Klappinu niður (reyndar óvart, fyrir tveimur árum) og tengt það við greiðslukort, veit ég ekki hvort það virkar, og ég var ekki (er aldrei) með peninga (650 kr.) á mér svo leigubíll var eini kosturinn. Hvern þekki ég sem tekur strætó reglulega og getur uppfrætt mig um einfaldleika Klappsins? Væri svo einfalt og gott að geta borgað með debit- eða kreditkorti eins og í landsbyggðarstrætó. 

 

Frír matur fyrir 80 plúsEftir viðtalið sem gekk vel, sló ég öllu upp í kæruleysi, sá hvergi banka í grennd, og tók leigubíl til baka (einhver er nú innkoman). Við bílstjórinn fórum að spjalla um sitt af hverju; stjórnmál, landhelgismálið, kvótann, mikla umferð, verðtrygginguna og fótaferðartíma síðmiðaldra fólks, ég ráðlagði honum alla vega að nota Storytel eins og svefnlyf, ég léti lesa mig í svefn hvert kvöld, eins og litlu börnin gera ... Þá sagði hann mér sögu um að vinkona hans og konu hans, hefði orðið alveg háð því að láta lesa fyrir sig. Hún hætti að nenna að hitta vini sína, hékk bara heima alla daga og hlustaði á bækur. Þau heyra orðið aldrei í henni, hún nennir ekki lengur neinu, lífið er bara á bið hjá henni, vildi hann meina. Hann og konan hans eru með Storytel en ætla sannarlega ekki að enda eins og vinkonan. Ég var ótrúlega snjöll þarna á heimleiðinni og hafði vit á að biðja leigubílstjórann um að fara í Dýraríkið í Holtagörðum með mig og bíða í smástund á meðan ég keypti niðþungan kattasand sem ég þurfti þá ekki að bera nema bara rétt úr bílnum og inn í lyftu heima.

 

Mynd, bara upp á djókið: Ókeypis matur fyrir áttræða og eldri ... ef þau eru í fylgd með báðum foreldrum sínum. ... 

 

Þetta með "söguháðukonuna" fékk mig samt svolítið til hugsa ... ver ég of miklum tíma í að hlusta á bækur? Bæti ég það upp með því að vera að dedúa og vesenast á meðan, elda, taka til og slíkt? Hefur þetta bitnað á hlustun á tónlist? Já, já og já.

Í dag kom fyrsti snjórinn og þá valdi ég ekki jólasögu til að hlusta á, heldur setti auðvitað Jólaóratóríu Bachs "á fóninn" - enn mjög hugsandi. Svo valdi YouTube-rásin alls konar flotta músík í kjölfarið ... gæti verið að ég hafi í algjöru ógáti verið að kolefnisjafna tónleika morgundagsins?

 

Skálmöld og vinir mínirJamm, tónleikarnir með Skálmöld eru á morgun. Keypti miðana snemma á þessu ári, eða 3. janúar, á sex ára ártíð sonar míns, fannst einhvern veginn mjög viðeigandi að gera eitthvað æðislegt þann dag, eitthvað sem gleður ... Ég veit að ég hefði aldrei getað dregið hann með mér á svona þungarokkstónleika. Hann kom með okkur mömmu á Töfraflautuna í Hörpu um árið og fannst það æði, hann fór á Skunk-tónleikana og einhverja fleiri en þótt hann hafi kennt mér að meta rapp og margt fleira breyttist (þróaðist) smekkur hans ... ég er t.d. enn að hlusta á Wu Tang og Eminem, en ég fílaði þó aldrei Guns'n Roses eins og hann gerði á unglingsárunum, enda fyrirmyndir mínar á sama sviði, Led Zeppelin og Deep Purple, talsvert betri, finnst mér.

 

Ég hringdi áðan í þrítugsafmælisbarnið sem ég gaf Skálmaldartónleikana í afmælisgjöf (ég fylgi með), og hún hafði beðið spennt allan tímann, ætlar að mæta klukkutíma fyrir tónleika á morgun að sækja mig því þetta er of mikið ævintýri ... maður mætir ekki sekúndu of seint. Gaman líka að ná að virða fyrir sér sálufélagana í Hörpu, smekkfólkið dásamlega áður en dýrðin skellur á. Tvær fyrstu plötur sveitarinnar verða teknar á morgun; Sorgir og Börn Loka. Finnst sú seinni skemmtilegri, enda er Hel þar. Tímdi hreinlega ekki að fara á þrenna tónleika sem Skálmöld verður með, en hinar fjórar plöturnar skipta sér á laugardags- og sunnudagskvöld.

 

 

Ég er mjög sátt við þetta ... vissulega verða kappræður á RÚV sama kvöld, eða á morgun, sem ég var algjörlega viss um að væri eitt stórt samsæri gegn mér - til að ég kysi eitthvað bull (aldrei Snorra samt út af hryllilegu strætófréttinni, sama í hvaða flokki hann væri) ... en svo mundi ég að ég horfi nánast aldrei á línulega dagskrá, heldur bara þegar ég nenni. Og ég mun nenna að horfa á kappræður frambjóðenda á laugardeginum. Nema ég fái gesti. Það hefur verið gestkvæmt um helgar síðan ég flutti og gestir ganga fyrir pólitík.

 

Geri fastlega ráð fyrir að það verði álíka stemning á morgun og hér í vídjóinu, þori ekki að vona að Edda í Angist mæti, svo er engin sinfó eða stór kór ... en þetta verður nú samt sturlað. Stigvaxandi stuð frá 4:20 mín. í myndbandinu en sá kafli og til enda náði mér strax og gerði mig að æstum aðdáanda.  

    


Móðgandi listi, súpergóð slökunarhelgi og frjósamur september

Elsku stráksiSkemmtileg og ljúf helgi að baki, elsku stráksi minn kom í heimsókn og gisti eina nótt. Hún var ekki þétt dagskráin ... letin yfirtók allt. Í gær fórum við nú samt í skemmtilegt afmæli hjá nágrönnum mínum (myndin af honum tekin í afmælinu) og héngum svo í sófanum og hægindastólnum þar til hungrið svarf að, horfðum á mjög sæta jólamynd, við erum bæði nokkuð hrifin af jólunum og svo var kvöldið bara búið. Við ætluðum í rannsóknarferð um hverfið, ganga niður í Holtagarða, kíkja á Minigarðinn eða eitthvað en letin var svo yfirgengileg að við fórum ekkert. Svo kom vinkona okkar um þrjúleytið í dag og bjargaði okkur á kaffihús í Borgartúni. Ég kvartaði við hana yfir því að orðaforði minn yrði einhæfari og fátæklegri með árunum, einhverra hluta vegna (konur tala ekki bara um barnauppeldi og mataruppskriftir) og hún ráðlagði mér að lesa Þórberg ... Það ætla ég að gera og ég á ýmislegt í bókahillunum líka sem gneistar af orðsnilld. Átti bæði Þórberg og Laxness en glataði þeim fyrir um aldarfjórðungi. Vinkonan stakk upp á í framhaldinu að endurnýta orðið forpokuð/forpokaður og nota það yfir þau sem taka margnota poka með sér í búðir. Því er hér með komið á framfæri.

 

Hagkaup í Skeifunni var næsti skemmtistaður (það þarf ekki mikið til að gleðja okkur stráksa) og eftir smávegis innkaup (græna, venjulega ÖnnuMörtu-pestóið var búið!!!) var það bílabiðröð við KFC, uppáhald stráksa sem fékk sér vefju og franskar. Held að hann hafi farið ansi hreint sáttur og saddur heim með 19.59-strætó á Skagann. Eins gott að ég fylgdi honum alla leið að vagninum því leið 57 stóð þar sem Selfoss-strætó (leið 51) er vanalega, því stór og tómur vagn var í plássi leiðar 57 (eins og köttur í bóli bjarnar). Ég sagði við ungan mann sem stóð og beið við tóma vagninn að ef hann ætlaði á Skagann væri það fremri vagninn. Sá ungi maður þakkaði kærlega fyrir, ætlaði svo sannarlega upp á Skaga, eins og allt almennilegt fólk. Svona get ég nú verið afskiptasöm. 

 

Ofurslökun með KrummaÍbúðin er orðin svo ótrúlega fín, þakka mér það þó ekki, heldur þeirri frábæru aðstoð sem ég hef fengið. Finn líka hvað orkan eykst með hverjum deginum og þarf ekki lengur að hlaða mig með því að leggja mig - sem ég hef aldrei á ævinni þurft að gera fyrr en nú seinnipart sumars. Hvaða pestir voru þetta eiginlega sem ég nældi mér í?

 

Ég hef nú lokað efri skápnum í svefnherberginu, ekki við mikla gleði Mosa (10) en Krummi (13) missteig sig þegar hann stökk niður fyrir nokkrum dögum og meiddi sig, ekki samt alvarlega, virtist vera. Hann nánast haltraði í u.þ.b. einn og hálfan dag og ég var alveg á nippinu með að redda mér bílfari með hann til dýralæknis, hann haltrar ekki lengur og er bara mjög sáttur við að liggja á extramjúku og góðu teppi (fyrir kettina) ofan á rúmteppinu á rúminu mínu. Ég hef misstigið mig sjálf og jafna mig yfirleitt mjög hratt, sama virðist gilda um ketti. Hann er auðvitað kominn á virðulegan aldur og mætti svo sem vera ögn léttari sem skýrir kannski af hverju hann sveif ekki mjúklega niður, eins og eðlilegt telst hjá köttum.

 

Fannst á Facebook

 

Alla tíð hef ég verið ótrúlega veik fyrir fjölbreytilegum listum yfir ýmsa hluti ... mest lesnu glæpasögur allra tíma ... ríkustu lönd heims ... og allt þar á milli. Nýlega rak á fjörur mínar listi yfir löndin 25 sem eiga myndarlegustu karla heims. Þarna hlaut Ísland að skora hátt. Mjög hátt! En ... spennið beltin og takið róandi áður en þið lesið þennan fáránlega asnalega lista, pottþétt að löndin á honum hafi borgað sig inn á hann:

1. Spánn, 2. Svíþjóð, 3. Frakkland, 4. Brasilía, 5. Ítalía, 6. Tyrkland, 7. Indland, 8. Bandaríkin, 9. Japan, 10. Þýskaland, 11. Saudi-Arabía, 12. Bretland, 13. Kanada, 14. Danmörk. 15. Suður-Afríka, 16. Kína, 17. Noregur, 18. Líbanon, 19. Pakistan, 20. Tékkland, 21. Vensúela, 22. Víetnam, 23. Sómalía, 24. Angóla, 25. Suður-Kórea.

 

Þarna komst Ísland ekki á blað (hefði ekki sætt mig við 26. sætið ef við hefðum lent þar), þrátt fyrir mikla fegurð og myndarlegheit hérlendra karla, t.d. af Skaganum, svo ég nefni nú einn kaupstað á Fróni af handahófi. Insidemonkey er heimildin.

 

Við Mosi að horfa á Gísla MarteinVið Íslendingar náum þó 20. sæti yfir ríkustu þjóðir heims árið 2024, erum ofar en t.d. Austurríki, Svíþjóð og Þýskaland, Kanada og Bretland, já, og Frakkland ... Ríkasta landið skv. þessum lista er Lúxemborg, þá Liechtenstein ... og þarna eru líka Sviss, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Holland á undan okkur, við þurfum að gyrða okkur í brók. Heimild þarna er CeoWorld.

 

Myndin sem er af Mosa að horfa með mér á Gísla Martein a föstudaginn, tengist listunum ekki neitt. Við skemmtum okkur bara svo vel.

 

Enn einn listinn birtist mér svo um helgina en hann vill meina að aðventan og jólin séu nú ekki bara hátíð barnanna, heldur líka foreldranna, hmmmm ...

 

Tíu algengustu afmælisdagar fólks:

1) 9. sept.

2) 19. sept.

3) 12. sept.

4) 17. sept.

5) 10. sept.

6) 7. júlí

7) 20. sept.

8) 15. sept.

9) 16. sept.

10) 18. sept.

 

ÞvottamerkiSjötta sætið! Hvað hefur október fram að færa sem rekur fólk í rúmið í unnvörpum? Eru það Vökudagar á Akranesi, fyrsti vetrardagur eða bara næturfrostatíminn að hefjast? Ef er þá nokkuð að marka þetta. Að sjálfsögðu leitaði ég ráða hjá Vísindavefnum og kom sannarlega ekki að tómum kofanum þar.

Fyrst í stað hló ég því við Íslendingar skárum okkur svo úr ... Sko, miðað við áramótin 2002-2003 og afmælisdaga allra þálifandi með íslenska kennitölu (líka útlendinga og fólks sem var búsett erlendis) þá var 23. júní 1966 dagurinn sem flestir fæddust á, eða 31 einstaklingur. Næst 15. des. 1959 og 30 fæddir þann dag. Ef ártalinu er alfarið sleppt er dagurinn 28. apríl með 1.010 fædda og næsti á eftir reyndar 25. sept. en þá hafa fæðst 1.003.

 

Svo las ég áfram ... um að sumarmánuðirnir væru heldur vinsælli til barneigna en hinir, flestir eiga afmæli í júlí, 28.964 (eða 934 á dag)), nánast jafnmargir í ágúst, eða 28.816 (930 á dag). Svo kemur: September, með sína þrjátíu daga, á hins vegar vinninginn því að meðaltali eiga 943 manneskjur afmæli á dag þann mánuð, desember er óvinsælastur til að hlaða niður barni, en einungis 832 eiga að meðaltali afmæli á dag í þeim mánuði. Ég hef því miður ekki nýrri upplýsingar en þetta ... enda léleg í gúgli. Mér finnst þetta samt spennandi. Og allir listar nema kannski kjánalistar sem gefa í skyn að íslenskir karlar séu ófríðir.

 

Neðsta myndin tengist færslunni ekki beint ... en aldrei nógu oft minnst á Pink Floyd.        


Uppþvottur í gestagangi , Vegagerðin í ruglinu og kannski véfréttin líka

uppvaskUppþvottavél fyrirfinnst hvergi í nýju íbúðinni svo ég nýt þess bara að þvo fornaldarlega upp sem er í fínasta lagi, í alvöru. Byði kannski ekki í það ef fleiri byggju hjá mér. En það hefur verið nokkuð gestkvæmt síðan ég flutti og stundum margir bollar sem þarnast þvottar eftir daginn.

 

Eftir að stráksi flutti hélt ég áfram að kaupa Eldum rétt, tvo rétti í viku sem dugðu í fjórar til fimm máltíðir, og skolaði alltaf leirtauið voða vel, skellti síðan uppþvottavélinni í gang um það bil vikulega. Fínt fyrir eina manneskju ... sem eldar. Mér finnst ég þurfa að vanda mig svakalega við uppvaskið, til að allt verði tandurhreint, eins og úr uppþvottavél og hef mikinn metnað þar.

 

MYND: Mér hafa verið gefnir þessir fallegu múmínbollar og á, held ég, sex eða sjö. Vel af sér vikið hjá konu sem er ekki að safna þeim ... en ég nota þá daglega og finnst þeir æði. 

 

UpphengidæmiLokaupphengiathöfn fór fram í gær, vissulega án smiðsins sem komst ekki, en mikið varð allt miklu heimilislegra. Næstu vikur fara síðan í að opna restina af kössunum og ganga frá dóti þar, eða losa mig við það. Ég var svo lasin á pakkaniður-tímanum að ég gat ekki grisjað eins og ég vildi, með svo duglegt aðstoðarfólk að t.d. Græna þruman sem ég ætlaði að gefa Ingu vinkonu kom með mér í bæinn án þess að ég gæti rönd við reist. Ég á bara gerviblóm, kettirnir éta allt grænt nema grænmeti og húsgögn og sumar plöntur eru hreinlega hættulegar fyrir þá. Eins og ég var mikil blómakerling í gamla daga. Fyrsti eiginmaður minn taldi eitt sinn blómin í hneykslan sinni eftir að eitt þeirra reyndi að éta hann, og komst upp í áttatíu og fimm. Þá bjuggum við reyndar í einbýlishúsi ...

 

MYND-mósaík: Ég biðst afsökunar ... ég kann ekkert í fótósjoppi svo ég set myndirnar inn á Facebook, vel for my eyes only, tek skjáskot af því og nota það til að birta.

Efri myndin sýnir eldhúskrókinn þar sem má sjá gamlar klukkur og alls kyns myndir. Sú stóra af kisunum er eftir kattahvíslarann minn frá Úkraínu, elskuna hans Svitlönu (guð forði okkur frá menningarblöndun samt) Þessi til hliðar er eftir Bjarna Þór, stórlistamann Akraness, og efsta er kort sem fylgdi Húsum og híbýlum fyrir nokkrum árum, ægilega flott. Man ekki nafn listakonunnar. Anna vinkona (Ólafsdóttir Björnsson) gerði tvær skemmtilegar bollamyndir sem hanga hjá klukkunum og á þeim eru spennandi stærðfræðiformúlur, notaðar af mér sem nokkurs konar próf fyrir aðdáendur.  

Neðri myndin er frá vinnuherberginu pínkuoggulitla, hillurnar hægra megin troðfullar af bókum og punti (nýja íbúðin er minni) og í gær komu upp myndahillur sem lífga mikið upp á.

 

Véfréttin um 2024Rifjaði upp spádóma véfréttarinnar fyrir árið 2024 og þeir eru loks byrjaðir að rætast. Reyndar eru tveir mánuðir eftir af árinu og í raun nægur tími til að trúlofa mig, giftast, eignast sætt barn og nýjan bíl. Allt annað hefur ræst. Sjá mynd. 

 

Er ekki enn búin að kaupa þvottavél til að hafa inni á baði svo ég er að þvo núna niðri í kjallara. Eina sem þarf að gera eftir þvott og þurrkun er að tæma síuna á þurrkaranum. Það þarfnast sterkra vöðva, óslasaðra hnjáa og hreinlega hugrekkis, enda stór iðnaðarþurrkari fyrir stórt hús. Ég þvoði krumpuðu bolina aftur þótt þeir væru hreinir og þeir eru að þorna á þurrkgrind hérna uppi í sjötta himni ... óveðrið sem spáð var er frekar í rólegra lagi en ég þori samt ekki að setja grindina út á svalir. (Ég náði að taka síuna úr, hreinsa hana en tókst ekki að koma henni aftur á, reyndi í tíu mínútur. Frábæri húsvörðurinn var á eftir mér með þvottahúsið og bjargaði málum).

 

Mér sýnist á öllu að það sé að koma nýtt kaffihús á Skagann minn góða. Það verði staðsett í gamla stúkuhúsinu sem er á Safnasvæðinu. Það eru frábærar fréttir og vonandi verður boðið upp á gott kaffi. Sko alvörugott. Það laðar ekki minna að en gott bakkelsi. Ég mæti sannarlega á staðinn fyrr en síðar.

 

Hálka við himnaríkiEn ég hef svo sem hvorki tillögurétt né málfrelsi varðandi Skagann og kaffið ... þar sem ég er flutt ... og Vegagerðin var ekki sein á sér eftir að ég var farin, mér skilst að strætó, eins og hann hefur verið sl. 18 ár, heyri brátt sögunni til og breytist í rútu ... með einni stoppistöð á Skaganum sem er næs fyrir bílstjórana en hreint ekki fyrir farþegana. Kannski á að fá Akraneskaupstað til að láta innanbæjarstrætó sem er helst ætlaður skólakrökkum (dregur mjög úr skólaskutli), fara að ganga öll kvöld og helgar og breyta áætluninni til að fólk þurfi ekki að fara langar leiðir í alls konar veðri. 

Sparnaður verður tæplega nokkur því svona aðgerðir fækka bara farþegum enn meira, það hefur sagan sannað. Þegar strætó byrjaði, árið 2006 og ég flutti á Skagann, strætóferðirnar gerðu það mögulegt, fóru tveir troðfullir vagnar (rútur) í fyrstu ferð dagsins, um hálfsjö og þótt þarna í upphafi hafi kostað sama fyrir Skagamenn og Reykvíkinga skilst mér að ferðirnar hafi samt staðið undir sér og vel það. Þá var auðvitað farið í breytingar, fargjald hækkað sem fækkaði farþegum ... ýmsir fjölmenntu í bíla sem var ódýrara svo strætóferðum var fækkað í kjölfarið (orsök-afleiðing). Ekki bætti covid-tíminn úr skák en til að ná upp farþegafjölda var ekkert gert ... viss Snorri, nú oddviti Miðflokksins í NV, komst að þeirri niðurstöðu í mikilli furðufrétt á Stöð 2 að þar sem stoppistöðvar á milli Reykjavíkur og Akureyrar væru svo margar, væri kannski ekkert skrítið að farþegum hefði fækkað ... döh, það er eðli strætisvagnaferða að hafa ekki of langt á milli stoppistöðva, við búum á Íslandi! Átakanlega hálkumyndin sem hér fylgir minnir mig á dagana þegar ég var í um það bil korter að staulast út á stoppistöð, en ekki tvær til þrjár mínútur. Að þurfa að verjast fótbroti lengri leiðir en bara út á Garðabraut er martraðarkennt.

 

Eftirlitsmaður himnaríkisÉg veit að þetta táknar að það verði erfiðara fyrir stráksa að koma í heimsókn til mín. Við völdum ferðina til Reykjavíkur á morgun út frá því að hún færi frá Akratorgi, þá er stutt að fara fyrir hann, og sömuleiðis heimferðina á sunnudag - en stundum fer vagninn ekki alla leið þangað (hægt að þakka ónefndri prestsfrú frá Stykkishólmi fyrir það, hún kvartaði sáran yfir því að strætó stoppaði á Akranesi, hvað þá færi alla leið á torgið).

Ég sendi Vegagerðinni kurteislegt erindi í tölvupósti fyrir kannski ári eða tveimur, þegar ég fór að heyra minnst á þessar mögulegu breytingar. Ég er enn hissa og hneyksluð á því að hafa ekki verið virt svars. 

 

Það verður vissulega mun auðveldara fyrir mig að viðhalda bíllausa lífsstílnum hér í bænum - enda er ég vel staðsett. Myndin sýnir eftirlitsköttinn Mosa sem veitti iðnaðarmönnunum mínum mikið aðhald þegar þeir gerðu upp himnaríki fyrir fjórum árum. Það fór ekkert fram hjá honum. Ég vildi óska þess að einhver á borð við hanm (alþingisfólk, ráðherrar?) geti veitt stofnunum það aðhald sem þarf til að ekki sé vaðið yfir almenning, heldur forgangsraðað með hag okkar allra í huga.         

Vatn DevilleHvað segir Facebook annars gott?

 

„Þegar finna átti nafn á barnabarn Hálfdáns og Þorgerðar voru nú ekki vandræðin. Barnið fékk nafnið Hálfgerður.“

 

 

Hrós sem mörgum finnst eðlilegt en er í raun frekar krípí ...

 

- Þú ert svo andlitsfríð (ef þú værir bara ekki svona feit)

- Ef ég væri yngri værum við að deita! (held ekki ...) 

Þú hlýtur að hafa verið rosalega myndarleg/ur þegar þú varst yngri ...

- Þú værir svo miklu sætari ef þú bara brostir ...

- Ef hún væri ekki dóttir mín værum við saman á föstu ...

- Hún á sko eftir að skilja eftir sig mölbrotin hjörtu þegar hún eldist.

- Ég elska þig og mun bíða eftir þér (þegar þú ert að reyna að losa þig við manneskjuna)

- Þú ert svo mikið æði, hvers vegna ertu ekki gift/ur?

- Ef þú værir konan mín myndi ég ekki hleypa þér úr húsi (þess vegna er ég ekki konan þín)

Þú ert í raun og veru klár, ég átti ekki von á því. 


Góð heimsókn, vond súpa og ævintýraríkt nýja lífið

HryllingsmaturinnSkelfilegur, hroðalegur matur var á boðstólum hér í gærkvöldi, kenni helst um kunnáttuleysi mínu í matargerð og á eldavélina, og ofni sem neitaði að hitna. Ég hef of sjaldan fengið góða lauksúpu í lífinu, sem er algjör synd því ég er svo hrifin af lauk og ætlaði aldeilis að bæta úr því í gegnum Eldum rétt, en í gær hefði ég alveg eins getað skorið lauk og soðið hann í vatni í klukkutíma ...

Ekkert var minnst á að krydda í uppskriftinni (Ég þarf: kryddið með salti og pipar eftir smekk, annars sleppi ég því) fyrir utan kryddjurtirnar sem fylgdu, ég hélt að eitthvað nauta-dæmi sem fylgdi líka með væri fullt af kryddi og því þyrfti hvorki salt né pipar.

Gat ekki leikið listir mínar með ostabrauðið ofan á súpunni og hitað það saman inni í ofni, heldur hitaði brauðið sér í litlum ofni og skellti ofan á ... alveg sama, ekkert gott. Svo stóð EINFALT sem erfiðleikastig ... hrmpf! Ég leyfði megninu að flakka í vaskinn og ofan í lífræna pokann í gærkvöldi, eftir góða sigtun og ofan á eldhúsrúllublöð, en geymdi eina skál fyrir hádegisverðinn í dag og hyggst krydda vel og vandlega og rista brauðið betur og brúna ostinn vel ofan á. 

 

Góðir gestirÉg er langt komin með að hreiðra um mig hér á Kleppsvegi. Kisum líður rosalega vel, sofa út í eitt, helst uppi í skáp í herberginu mínu.

Stráksi kemur í heimsókn um helgina og gistir eina nótt sem er mikið tilhlökkunarefni. Það verður kósí hjá okkur, veit ég, svo er stefnan að skreppa með vinkonu okkar á kaffihús um miðjan sunnudag áður en hann hoppar upp í strætó og siglir heim á elsku Skagann.

 

Þessa dagana er ég aðallega í því að endurhlusta á kósíbækur, til að þurfa ekki að hugsa of mikið við lokaflokkun á dótinu mínu, sem var reyndar langt komin á Skaganum. Hvað fer upp í skápa, hvað fer niður í geymslu? Það eru lúxusvandamálin þessa dagana.

 

Það er svolítið sérstakt hjá bókaforlögum að velja lesara sem tala t.d. dönskuna reiprennandi til að lesa sögur sem gerast þá í Danmörku. Það var ruglandi að hlusta á slíkt í einni, ég skildi varla nafnið Rasmus, en mörg önnur nöfn, borin fram á bestu dönsku fóru forgörðum hjá mér. Ugggrrrasmusss skildist fyrir rest. Það eru nefnilega ekki Danir sem hlusta á upplesturinn, halla undir flatt og segja svo hrifnir: „Ansi ber þessi lesari nöfnin á fólki, götum, hverfum og borgum vel fram ...“ Svo finnst mér að það ætti að fallbeygja nöfn í íslenskum þýðingum, ekki segja: Við ætlum að fara til Mona. Heldur ... til Mónu. Annars elska ég Storytel og lét framburðinn svo sem ekkert pirra mig, sagan sem ég hlustaði á var fín en hefði orðið enn betri í mínum huga með smávegis íslenskun, svona eins og við landsmenn berum orðin alltaf fram. Í nýju bókinni eftir Jussi (hún fékk að fljóta með kósíbókunum) heitir aðalpersónan til dæmis Kal Mök (Carl Mörck) og það tók mig smátíma að skilja hver þetta var, því ég hef bara lesið (ekki hlustað á) þessar bækur - en þessi nýja er hrikalega spennandi og lesturinn fínn ... Mæli með. Síðasta bókin um Deild Q - sakn, sakn.

 

Myndin var tekin síðasta sunnudag, þá komu Hilda og Júlíana í heimsókn, einnig frændhundarnir Herkúles og Golíat. Útsýnið til suðurs er líka ansi fínt og mér skilst að ég þurfti bara að fara út á svalir og horfa til hægri til að sjá roðann af eldgosi, ef Reykjanesskaginn heldur þessu gosveseni áfram.

 

SkóbekkurinnMig vantaði örfáa hluti til að koma heimilinu í stand, meðal annars snaga bak við hurðina fram, skóbekk, rúllugardínu í svefnherbergið og þrjár myndahillur sem verða fyrir ofan skrifborðið. Þar geta fjölskyldumyndir og önnur fegurð notið sín vel. Elsku Erla granni bauðst til að skutla mér í Jysk - sem ég valdi fram yfir Ikea vegna minni fjarlægðar og ... allrar göngunnar í Ikea. Maður getur nú verið latur ...

 

Á fimmtudaginn verður svo allt (nánast) klárað, alla vega myndir og málverk og þá verður nú gaman. Ánægð með veggina hérna. Nóg pláss fyrir allar stærðir af myndum.

 

Smávegis áhyggjur voru af því að ná ekki að setja skóbekkinn saman á þessu ári, svo ég sendi "tengdasyni" mínum (ég er tengdó2 hjá honum) ljúf skilaboð, hvort hann gæti verið svo indæll og dásamlegur að hjálpa mér við að setja saman ... til öryggis bætti ég við: "Ég drep þig ef þú segir nei. Djók." Hann las á milli línanna og skildi ... mætti strax eftir vinnu í gær og var varla hálftíma að gera þetta, elsku dúllan. Hann fær svo miklu flottari jólagjöf fyrir bragðið. 

 

Hér á myndinni sést skóbekkurinn góði úr Jysk í Skeifunni. Ég hafði augastað á öðrum á netinu, með leðurveseni og allt, en get alveg notað þennan tíuþúsundkall sem munaði í verði. Ég klippti myndina ögn til, svo ekki sæist jvað lan-snúran ógurlega breiðir enn úr sér þarna á ganginum. Hef troðið mottum yfir hana til að sleppa við fótbrot. En það er bara svo gaman að hlusta á tónlist (í tölvunni), að ég tími ekki að taka úr sambandi og hafa þá bara ofurveikt wifi ...  

 

HLÉ ...

 

Borg óttansDyrabjallan hringdi óvænt klukkan rúmlega 12, í miðri bloggun og fyrrum ástkær ritstjóri minn mætti með fangið fullt af brauði, köku, rjóma og listaverki eftir elsku Lindu Guðlaugs. Ég hafði átt von á henni, en ekki fyrr en eftir klukkan fjögur svo þetta var óvænt ánægja, ég var ekki byrjuð að hita súpuna frá helvíti, svo ég geri það bara í kvöld. Eftir skemmtilegt spjall og þegar hún gerði sig líklega til að kveðja át ég allan handlegginn á henni (hún hafði rétt mér litla fingur) og plataði hana til að skutla mér í Dýraríkið hérna á móti, hefði auðvitað getað farið gangandi en tilvonandi afar þungar byrðar myndu eflaust gera að verkum að ég næði ekki yfir gangbrautina á meðan græni karlinn/kerlan? logaði og ég myndi líka missa allan séns með allt of langa handleggi.

Við hittum uppáhaldsnágrannana (Erla er líka uppáhalds) þegar við komum út úr lyftunni á fyrstu hæð (yfirleitt hoppa ég niður en býð ekki virðulegum gestum mínum upp á slíkt skopp) og þegar ég sá þau skældi ég yfir ónýtri eldavél (gömul AEG) en ég vissi að eiginmaðurinn væri snjall, ef einhver gæti lagað eldavélina væri það hann. Jú, jú, við heimkomu lét ég hann vita að ég væri komin til baka með sand og kisumat, hann stökk yfir, fiktaði í öllum tökkum og "vúlla" - ofninn virkar. Svo allt er fullkomið hér.

 

 

Eins og sést á spennumyndinni sem náðist af mér (með öryggismyndavél sérsveitarinnar) á Kleppsveginum er lífið hér mun ævintýraríkara en á Skaganum þar sem ég bjó þó við hliðina á þyrlupalli.

 

ÖryggiskeðjaBýst við að ég haldi mig bara við strætó héðan í frá. Nenni ekki að láta æpa endalaust á mig í gegnum gjallarhorn: Stoppaðu í hvelli, fagra kvendið þitt! Það verður svo leiðigjarnt. Hef þó kynnst suddalega sætri löggu og hrikalega flottum þyrluflugmanni. Þeim síðarnefnda þótti æðislegt að ég ætti sama afmælisdag og Ásdís Rán sem er ekki bara fyrrum forsetaframbjóðandi, heldur líka þyrluflugmaður, eins og hann, og fyrirsæta.

Eitt furðulegt. Ég hef ekki fengið boð um að fara í framboð, samt með hreina sakaskrá! Mikill missir fyrir flokkana.

 

 

Nú er atkvæði mitt ekki jafndýrmætt og þegar ég tilheyrði Norðvesturkjördæmi, með tvöfalt vægi á við vesæla Reykvíkinga ... en þessu hlýtur að verða breytt fyrst ég er flutt í bæinn. Held að ég sé í Reykjavík norður-kjördæmi og þarf sennilega að kjósa í Laugardalshöll ... eða Holtagörðum ef ég vil kjósa utankjörstaðar. Allt svo spennandi fram undan: Tónleikar með Skálmöld 1. nóv., kosningar 30. nóv., aðventan og svo bara jólin! Þá er nú orðið stutt í bolludaginn! Svo eru verkefni farin að berast sem er gott, ég er nýbúin að senda fullt af peningum til fyrri eiganda íbúðarinnar (er víst að kaupa íbúðina af viðkomandi) og finnst ömurlega tómlegt að fara inn á heimabankann minn núna, það bergmálar þar. Það er svo dýrt að flytja, borga sölulaunin, flutningana og ótal margt fleira. Er svo fegin að hafa ekki freistast til að fara í afar girnilega utanlandsferð sem var farin í morgun ...

Er líka mjög fegin að hafa ekki náð að kaupa í Kópavogi, þær íbúðir sem ég girntist þar voru nokkuð dýrari en þessi (2-3 milljónum) samt svipað stórar ... nema mín er samt svo miklu betur farin en þær, svo ég skil ekki alveg verðlagninguna hjá sumum.   

 

Síðasta myndin sýnir Mosa taka stöðuna á umferðinni um tvöleytið í dag. Ef vel er gáð má sjá, hægra megin við hausinn á honum, grilla í keðjuna sem passar að glugginn opnist ekki nógu mikið fyrir hann til að hann geti fengið sér flugferð.


Píslarganga í Ikea, kaffipjatt og upphengisérsveit

Eldhúsborð og stólarSamstarfskona síðan 1995 plús hafði samband í gær og bauðst til að skutla mér í Ikea (og víðar), í leit að fyrirheitna eldhúsborðinu. Það fannst í Ikea, eða minnsta eldhúsborðið á höfuðborgarsvæðinu, aðeins 75x75 en mátti samt ekki stærra vera. Ég keypti það samt, enda á góðu verði. Frú Sigríður og frú Guðríður gerðu þó víðreist, heimsóttu Húsgagnahöllina og kíktu líka í Jysk þótt vitað væri að eina litla borðið þar passaði ekki. Dásamlegi afgreiðslumaðurinn í Húsgagnahöllinni sagðist geta sérpantað fyrir mig eldhúsborð (um 250 þúsund) ógurlega fínt merki, en ég bar mig mjög vel og sagðist hreinlega ekki geta beðið eftir sérpöntun ... Fór til baka og keypti IKEA-borðið á innan við tíuþúsundkall. Frú S fannst smart hjá mér að klæðast sænsku fánalitunum (gulur bolur, ljósblár trefill) til að tryggja mér betri afgreiðslu, en sú snilld var nú bara óvart.

 

MYND: Eldhúsborðið nýja og stólarnir ... eldhúsklukkurnar ekki komnar upp á vegg, og myndir.

 

Einhvers staðar inn á milli búðaferða fórum við í kaffi, Kastalakaffi, þar sagði frú S að fengist suddalega gott kaffi. Meðlætið væri líka gómsætt og allt á fínu verði. Það var allt rétt ... nema kaffið var ekki suddalega gott, greinilega búið að skipta um tegund, sagði frú Sigríður hugsandi. Ég hef alltaf sagt að maður eigi ekki að spara í kaffi en þarna hafði einhver ákveðið að kaupa inn Gevalia (njósnir mínar leiddu það í ljós á innan við 15 sekúndum) til að bjóða upp á þarna, fínasta heimiliskaffi en mér finnst það ekki gott val hjá kaffihúsi. Við erum að tala um örfáar krónur sem sparast á hvern bolla. Meðlætið var gott og afgreiðslan einstaklega hlýleg og góð, ég var líka í góðum félagsskap svo þetta var mjög gaman.

 

 

Frú S með KrummaEldhússtólarnir fengust í Ilvu og eru sennilega þægilegustu stólar sem ég hef setið á, þeir eru svo háir sem er geggjað fyrir konu með langa fætur. Sölukonan í Ilvu, nýbyrjuð að vinna þar, hætti ekki fyrr en hún fann réttu stólana fyrir mig, ég verð henni ævinlega þakklát. Frú S gerði sér svo lítið fyrir og setti saman fyrir mig bæði borðið og stólana sem var mikið góðverk, hún fór líka ótrúlega létt með það, verk sem hefði tekið mig marga daga (vikur, ár), ef ég þekki mig rétt. Á meðan spjölluðum við saman. 

„Aha, ertu intróvert? Mér datt það í hug,“ sagði hún, „þess vegna leið þér svona illa inni í Ikea.“

„Það var nú bara allt labbið,“ hugsaði ég klökk en kinkaði kolli, ég setti örugglega skrefamet, pottþétt 10 þúsund skref sem ég gekk bara við að leita að einu pínulitlu borði. Nú loksins skil ég orðið píslarganga. Ég vann í stuttan tíma (3 mán.) í Ikea á síðustu öld, þegar verslunin flutti frá Kringlunni í Holtagarða og kunni því á allar flóttaleiðir þar, hraðreinar fyrir innkaupafælna gesti - sem kom sér oft mjög vel. Ég vil geta farið inn í búð, gengið (ekki of mörg skref) að því sem ég ætla að kaupa, borga og fara út. Samt öfunda ég fólk sem er kannski með mér í búð og finnur eitthvað æðislegt sem ég missti af í öllum flýtinum við að komast hratt út.

 

Myndin er af frú Sigríði þar sem hún setti saman eldhúsborðið, búin með stólana. Krummi hélt hálsinum á henni heitum á meðan. Frú S er afar góð í pabbabröndurum sem falla alltaf í góðan jarðveg hjá mér. Hún flýtti til dæmis fyrir sér með því að setja seinni stólinn saman á undan hinum ... sem mér fannst mjög fyndið. 

 

Gardínur og myndirSeinnipartinn í dag komu nokkrir hjálparkokkar til að aðstoða mig við að hengja upp gardínur, myndir og slíkt ... elsku upphengisérsveitin mín. Hirðsmiðurinn kom síðan ótrúlega seint, það seint að dyrabjallan hringdi klukkan 20.30 og mér tjáð að það mætti ekki bora og negla eftir klukkan 20 á kvöldin virka daga, 18 um helgar. Mig hafði minnt að það mætti vera með læti til kl. 21 ... en gengið mitt mætir bara aftur í næstu viku. Hellingur búinn og hefði náðst fyrir níu en ég vil ekki brjóta húsreglur. Smiðurinn er mjög hrifinn af húsreglum hér, sagðist búa í húsi þar sem væri borað og neglt á öllum tímum - það væri mjög þreytandi. Hann var það hrifinn að það kæmi mér ekki á óvart þótt hann keypti sér íbúð í húsinu mínu.

 

Gerum eitthvað skemmtilegt fyrst Gurrí er flutt héðan-hópurinn á Akranesi hefur haft nóg fyrir stafni frá 5. október sl. við að bjóða upp á æsispennandi viðburði á Skaganum, eins og ég hef vælt undan. Núna síðast sá ég boðað til stórdansleiks á hlaðinu hjá himnaríki (Jaðarsbökkum), reyndar lokahóf ÍA en alveg sama. Svo var víst mjög stór æfing í dag hjá Lögreglunni á Vesturlandi, sérsveitin og allt, og ég föst á Kleppsveginum! Svo flytur Kór Akraneskirkju verkið Misa Criolla núna laugardaginn 26. okt. akkúrat þegar ég verð upptekin við að læra texta Skálmaldar utanbókar fyrir tónleikana 1. nóv. Bara fyrstu tvær plöturnar ...

Stundum væri svo hagkvæmt að geta teleportað sig á milli staða. Stráksi minntist á það í gær en hann kemur fljótlega í heimsókn, ekki þessa helgi samt, og gistir. Þá verður nú gaman hjá okkur. Ef hann getur ekki teleportað sig tekur hann strætó í Mjódd og þar mun ég bíða eftir honum.         


Flutningar, netháski, geymslugleði og undarlegar tilviljanir ...

Allt að komaNetvesenistíma lokið ... það dugði ekkert minna en lan-snúra til að tengja tölvuna við netið ... allt annað sem ég prófaði virkaði ekki. Maðurinn frá Mílu ráðlagði mér, þegar hann tengdi mig fyrir tíu dögum, að vera þráðlaus sem ég gerði með aðstoð (kostaði fimmþúsundkall). Það dugði nú samt ekki, heldur ekki lán á "magnara" nágrannans góða sem er vinur vinkonu minnar á Akranesi. Síminn þarf kannski að gyrða sig í brók varðandi netmál sín, eða er þetta bara svona ef maður dirfist að hafa tölvuna sína of mörgum metrum frá ráder? Fyrri íbúi var með sína tölvu (og tvo skjái) nákvæmlega á sama stað, greinilega tölvukarl. Davíð frændi mætti með margra metra snúru áðan sem verður notuð aðeins á meðan ég vinn og blogga. Þess á milli uppvafin á bak við píanóið til að sjokkera ekki gesti og gangandi. Snúra sem flækist um fætur og lækkar fegurðarstuðul heimilisins stórlega. „En ... Gurrí, þú verður að geta bloggað og hlustað á þungarokk,“ sagði frændi svo innilega réttilega. „Geturðu íhugað að fá þér Makka?“ spurði hann mjög varlega. „Sannarlega ekki,“ svaraði ég önug, snúðug og grautfúl. Hnusssss! Elska iPhoninn minn samt.

 

Myndin sýnir stofuna eftir blóð, svita og tár, fyrir nokkrum dögum, fékk æðislega hjálp þá, og núna á fimmtudaginn verða svo hengdar upp myndir og málverk og þá kemst lokamynd á allt. 

 

Maður bjargar sérFlutningarnir, hvernig gengu þeir og hvernig er nýja húsið, hvernig líður kisum og er nokkuð spanhella í nýja eldhúsinu? eru spurningar sem ég veit að ásækja margan bloggvininn ...

 

Á föstudeginum (4. okt) fórum við nokkur saman á tveimur bílum með "eldhús" himnaríkis og brothætt punt í margnota pokum frá t.d. bónus og krónu, eitthvað sem hafði verið safnað um hríð og er miklu þægilegra að burðast með en kassar. Þarna voru Hilda, Inga, stráksi og Júlíana. Það gekk allt saman ljómandi vel og svo fengum við stráksi bílfar heim í kringum kvöldmat. Ég var allt of þreytt til að geta farið með honum eitthvað út að borða og líka of seint að panta frá Galito eins og ég hafði lofað. Fékk nú samt snilldarlega góða hugmynd, eða að hita skyndirétt frá Bónus, kjötdæmi sem ég vissi að stráksa myndi líka. Hitaði hann þessar lögbundnu þrjár eða fjórar mínútur og þegar ég tók hann út úr örbylgjuofninum mundi ég eftir því að öll hnífapör voru komin á Kleppsveginn ... Ég hljóp á milli herbergja, nánast allt komið í kassa nema úti í glugga sá ég þennan fína gráðuboga sem ég tók og þvoði með heitu vatni og sápu, mjög vandlega og rétti stráksa. Þrátt fyrir að ég minnti hann á að seinna meir myndum við skellihlæja að þessu hafði þetta neikvæð áhrif á matarlystina, enda hafði hann búist við einhverju mun betra en skyndirétti sem þyrfti að snæða með einhverju af ætt reglustika. Sjá átakanlega mynd ...

 

Flutt frá HimnaríkiRéttilega kaus ég að fara snemma að sofa um kvöldið og klára að pakka í þessa þrjá kassa og fimm svörtu ruslapoka við fyrsta hanagal. Ég rauk á fætur um hálfsjö og á skömmum tíma varð allt tilbúið fyrir fyrstu burðardýrðirnar mínar. Íslenska deildin (4), eða Mömmur.is, elsku Hjördís ásamt eiginmanni, móður og syni, riðu á vaðið fyrir klukkan níu, en flutningabíllinn mætti með fyrra falli, kom korter í sem var bara fínt.

Þá var ég búin að setja Mosa og Krumma í búrin og þegar litháíska deildin (2) mætti tók vinkona mín þaðan við stjórninni sem flutningastýra og sýrlenska klanið mitt (1) skutlaði okkur kisunum í bæinn. Þá var úkraínska gengið (3) mætt í öllu sínu veldi í himnaríki og mér sýndist ég sjá tár á hvarmi bílstjórans (íslenskur en samt ágætur) ... (djók) - því allt gekk svo hratt og vel. Mun hraðar en ég bjóst við. Fyrst voru stóru hlutirnir teknir, síðan kassar og annað smádót sem er snjallt þangað til komið er á nýja staðinn, þá er kössum og smádóti hent inn og svo þarf að koma stóru hlutunum fyrir en það reddaðist allt saman, auðvitað. Ég svaf þó á skrítnum stað fyrstu nóttina, rúmið í réttu herbergi en við rangan vegg, en náði að laga það daginn eftir. 

 

Elsku BasselVið Bassel drifum okkur í bæinn með Krumma og Mosa, hrædda og vælandi, komum örsnöggt við í matvörubúð í Holtagörðum, og rétt náðum í skottið á flutningabílnum ... í alvöru, hann var kominn. Eins og við vissum þurfti að bera svarta speglaskápinn alla leið upp á sjöttu hæð ... og líka rúmið mitt og rauða antíksófann. Þar tóku Úkraína, Litháen og Ísland höndum saman og það var ekki einu sinni kvartað! Þvílík heppni að eiga svona gott fólk að. Geymt en ekki gleymt!

 

Nýi eigandi himnaríkis (annar tveggja) trúði ekki sínum eigin eyrum þegar ég hringdi um hálfþrjúleytið og sagði að hann gæti flutt inn ... þá var búið að þrífa himnaríki hátt og lágt. Hann spurði mig hvort hann gæti fengið lánað eitthvað af fólkinu mínu þegar hann flytti sjálfur. Hérna syðra var klukkan varla orðin tvö þegar flutningabíllinn var orðinn tómur og ofsaglaður bílstjórinn komst í síðbúinn hádegismat með samstarfsmönnum sínum. Hann var mjög hjálplegur, skapgóður og skemmtilegur, mæli hástöfum með þessu fyrirtæki, Flutningaþjónustunni. Fann það með léttu gúgli snemma í september og pantaði bílinn þá. Allt gekk eins og lofað var, fékk meira að segja símtal þann fjórða, eða daginn fyrir flutninga, til að staðfesta að bíllinn kæmi, mikið sem ég kann vel við svona fagmennsku.

 

Nýja lífiðKrummi og Mosi voru ansi hreint stressaðir fyrst í stað, enda lokaðir inni í pínulitlu herbergi (vinnuherbergi mínu) með mat, vatn, kattasand og mjúkt teppi. Það var ekki fyrr en elskan hún Júlíana fór inn til þeirra og klappaði þeim að þeir róuðust. Hirðsmiðurinn minn var búinn að "skítmixa" gluggana, eins og hann kallaði það, eða festa keðju þannig að gluggar gætu ekki opnast nema takmarkað. Mosi slapp ómeiddur eftir fall (stökk?) af fjórðu hæð um árið, en ég veit ekki með sjöttu hæð. Við tökum enga sénsa hér. Þeir urðu stressaðir aftur á mánudeginum þegar ég fékk góða hjálp við að taka upp úr kössum og lætin voru svo mikil að þeir héldu sennilega að ég væri að flytja aftur, en þeim líður samt afskaplega vel á nýja heimilinu, það er eins og þeir sofi fastar, betur og lengur en áður, algjör slökun. Eins og sést kannski á samsettu myndinni er Mosi búinn að helga sér efri skápinn hægra megin inni í svefnherberginu mínu, ég bíð um tíma með að koma fyrir meira dóti þar en er komið. Krummi situr  á gluggakistunni inni í stofu, þar er suðurgluggi og mikil sól, hvítu gardínurnar úr himnaríki eru í síkkun, og út um gluggana í hina áttina, eða norður, sést friðarsúlan. Hvað annað? Annaðhvort eldgos eða friðarsúla ... sætti mig ekki við neitt minna.

Mér fannst svolítið sjokkerandi að finna hvergi geymsluna mína. Vissulega 32 íbúðir í stigaganginum en samt, númerið mitt var hvergi finnanlegt ... en svo er annar geymslugangur sem ég vissi ekki af, inn af hjólageymslunni. Þar fann ég elskuna mína og mun heldur betur njóta þess að hafa geymslu sem ég hafði ekki í himnaríki. Ferðatöskurnar farnar niður, og afgangsmálningin á leiðinni. Svo geggjað!

 

Villa eða villaÉg prófaði þvottahúsið niðri í gær og fékk góða hjálp við þurrkarabaráttu frá húsverðinum sem er afskaplega flott og töff listakona, bráðskemmtileg í þokkabót. Hef líka hitt húsfélagsformanninn sem er frábær líka. Svo býr gömul samstarfskona á fyrstu hæð ásamt dóttur sinni. Hún færði mér bók og kex í innflutningsgjöf, þessi elska, og við höfum farið saman í matvörubúð tvisvar. Gott fyrir hásinina sem varð fyrir smáhnjaski í látunum og hreyfingunni í kringum flutningana.

Varðandi þvottahúsið sem er afar snyrtilegt, tvær þvottavélar, önnur stór, hin venjuleg, og stærðarinnar þurrkari, held ég samt að ég muni kaupa mér þvottavél til að hafa hér uppi, mögulega þessa flottu með bestu meðmælin frá Electrolux, með innbyggðum þurrkara, ég er orðin of góðu vön eftir 18 ár ... svo held ég að ég hafi haft þurrkarann niðri á of háum hita í gær, sumt er hræðilega krumpað ... en ég á svo sem straubretti og -járn. 

 

Ég náði, með aðstoð fb-vina að skipta um lögheimili. Gúglaði og fann hvar ætti að gera það, en það var samt röng slóð svo ég spurði bara á feisbúkk og fékk svar að vanda. Ég er svo vön að gera allt í tölvunni minni (ekki gemsanum) og hún ekki nettengd. Svo þjáðist ég ógurlega á sunnudaginn yfir því að geta ekki kosið til Alþingis í mínu nýja kjördæmi en ... það er víst ekki lengur miðað við lögheimili 1. des., ég rétt slapp inn á kjörskrá í bænum. 

 

 

MYND: En ef netið átti nú við flotta óskilgreinda villu til að búa í, t.d. flott einbýlishús við hafið með spennandi leyniheimilisfangi, en ekki mistakatengda villu ...  

 

Lítið eldhúsborðÉg er enginn samsæriskenningasmiður en sumt af þessu veseni mínu getur ekki við tilviljun ... að fá ekki nettengingu fyrr en núna fimmtánda, tíu dögum eftir flutninga, er ekki eðlilegt, ég sá meira að segja, í lok sept., löggubíl sem var lagt Akranesmegin, eða við Garðabraut, akkúrat þannig að ég gæti ekki flutt þann daginn ... og að fá upp villu þegar ég reyndi að skipta um lögheimili ... eitthvað furðulegt í gangi. Ég skildi þetta auðvitað um leið og stjórnin féll ... en í fyrstu hélt ég að Akranes væri að stríða mér, þér var nær að flytja, Gurrí, því menningarstrætó mun ganga á milli listviðburða á Vökudögum, AKKÚRAT ÞEGAR ÉG ER FLUTT, og eitthvað fleira flott í gangi. Samt, mjög seint á sunnudagskvöldið fékk ég upphringingu frá stráksa um að það væri rafmagnslaust á Akranesi. Eftir stutt spjall og blíðlega áminningu um að það væri ekki sérlega sniðugt að hringja svona rosalega seint, það væri eiginlega tilviljun að ég væri enn vakandi, kvöddumst við með kærleikum, eins og alltaf. Tæpum klukkutíma seinna hringdi hann svo aftur til að láta mig vita að rafmagnið væri komið aftur á ... Mér fannst það mjög sætt - og ég var ekki sofnuð, bara ofurspennt í Millenium-þríleiknum sem hefur bjargað mér í netleysinu.

 

Varla tilviljun ... í hvaða bíl (félagsskap) haldið þið að ég hafi verið á sunnudaginn þegar ríkisstjórnin féll og ég í búð að leita að litlu einföldu eldhúsborði? Jú, í bíl þeirrar sömu og ég var með 11. september 2001 á leið til Borgarness. Fyrsti stafurinn í nafninu er ... Hilda systir. Við erum greinilega magnaðar. Þar sem systurnar sætu eru ferð, gerast hlutirnir!

 

Já, og ég held að þetta séu ekki spanhellur, ég hef ekki enn þorað að prófa eldavélina sem virkar ógeðslega flókin ... hef bara borðað til skiptis á Argentínu steikhúsi og Grillinu á Hótel Sögu. Auðvitað frítt, sem áhrifavaldur. 

 

Myndin (fannst á netinu, ekki mitt eldhús) sýnir svipað borð og ég leita að, svona tveggja manna borð, rétt fyrir súrmjólkina á morgnana og kaffisopa með vinkonu. Fannst litla borðið í Jysk fínt, en of áberandi/afgerandi, svart og viðarlitað, til að það gæti fallið vel inn í allt hérna, en held áfram leit. Tillögur vel þegnar.  


Rúsínuhrekkurinn ... og bergmál í himnaríki

BloggaðstaðanSkrifborðið mitt fína og fallega var sótt í kvöld af nýjum eiganda svo ég sit við gluggann og horfi yfir til Reykjavíkur á meðan ég skrifa, lyklaborð og skjár í gluggakistunni, mjög skrítið. Sjá má ljósin í Reykjavík í fjarlægð, einnig snúruhrúguna viðurstyggilegu á gólfinu, sem ég þarf að reyna að fá vit í ... en býst við að einhver frændasnillingurinn aðstoði mig svo við komuna til Reykjavíkur. Fæ samt ekkert net fyrr en á mánudaginn.

 

Bæði Rahaf (Sýrland) og Inga (Ísland) gerðu algjört kraftaverk í pökkunarmálum í dag og gær og Svitlana (Úkraína) sér um stöðugar ferðir með dót frá mér í Búkollu og bauð mér að auki í kvöldmat í gær, Rahaf hafði mætt með svakagóðan hádegismat handa mér. Mikið elska ég þær allar og fleiri sem hafa komið mér til hjálpar. Í dag var nefnilega fyrsti sæmilega góði dagurinn minn eftir þessi langdregnu veikindi og slappheit ... hef svo sem verið að þyrla upp ryki og er með rykofnæmi sem bætir varla úr skák. Meiningin er að taka sem allra minnst Skagaryk með í bæinn, vil eitthvað annað til minningar um elsku Akranes. Fasteignasalinn sem fékk sömu pestina var ögn á undan í batanum, eða náði sæmilegri heilsu á mánudaginn í þessari viku ... en konan hans er orðin veik. Covid hvað! Ég hef horft áhyggjufull á sambýlismenn mína, Krumma og Mosa, en þeir eru fílhraustir, sofa þó mikið og eru frekar áhyggjufullir yfir þessum látum, þessu drasli og tilfæringum.

 

Í dag festi ég kaup á fínasta sófa frá Dorma, á góðu tilboði, og ísskáp frá Smith og Norland. Ekkert fleira verður keypt í bráð - ja, mögulega eldhúsborð og tveir stólar. Eitt af því sem fer í Búkollu næst er heimasíminn minn, nú getur enginn hringt í 552-1039 lengur (eftir 38 ára samfylgd) og reynt að selja mér bækur eða fá mig til að styrkja enn eitt góða málefnið ... ég notaði heimasímann nánast aldrei nema bara til að hringja í gemsann minn ef ég fann hann ekki heima ... Hússjóðurinn er svo gríðarhár í nýja húsinu, verið að safna fyrir vissu verki, að þar til hann lækkar mun ég sýna grimmd og enga miskunn við þá sem dirfast að hringja í gemsann til að biðja um pening.

 

Rúsínupakkinn endalausiEitt af því sem fannst í flutningaveseninu var rúsínupakkinn pínulitli sem systir mín skildi eftir hér af mikilli grimmd, hún veit að ég hata rúsínur. Fann hann í fyrra inni í eldhúsi og hélt að ég hefði hefnt mín með því að lauma honum í veskið hennar ... en hún fann hann áður en hún fór heim, og laumaði honum í körfuna sem geymir blöð og tímarit, í fatahenginu. Sá bunki hefur nú eiginlega bara hækkað og voðalega lítið um að vera þar, engin furða þótt ég hafi ekki fundið hann. Hef bara sofið illa og næstum nagað neglurnar af pirringi yfir því að finna hann ekki.

 

Stráksi kom í stutta heimsókn í dag, eiginlega bara til að fara út með rusl (svo mikill pappír, svo lítið plast). Hann kemur með í fyrramálið í eldhúsferðina í bæinn. Ég hef eignast dásamlegan hirðsendibílstjóra sem ætlar að sækja fyrir mig sófann og ísskápinn og koma með á Kleppsveginn á morgun. Það' er nánast allt komið í kassa og poka nema föt úr kommóðu og þremur hillum í skáp, dót í litlu kommóðu, og svo eldhúsið ... en margar hendur vinna létt verk og þetta klárast allt annað kvöld. Kl. níu á laugardagsmorgun þegar flutningabíll frá Flutningaþjónustunni mætir verða hér sterkir gaurar sem þjóta hér upp og niður stigana. Svo kemur elsku Bassel minn og sækir mig og kettina.

 

Um miðjan dag í dag byrjaði að bergmála í stofunni, þá vissi ég að þetta myndi allt saman nást á réttum tíma. Vonandi gengur allt hitt vel þarna sunnan við sjóinn minn. Nýju íbúarnir fá sennilega gos í nóvember og þá verð ég að sætta mig við að sjá það í sjónvarpinu. En ... yfir og út í bili, næsta blogg sennilega á mánudaginn kemur. Ég er líka svo spennt í sögunni ... Karlar sem hata konur, samt hef ég lesið bókina nokkrum sinnum og séð myndina alla vega tvisvar. Fín bók, vel lesin og dásamlega löng.


Afhending í dag, fín dýrabúð og aukin tilhlökkun

Álman til hægriDásemdardagur í dag sem hófst með ónauðsynlegum göngutúr út á stoppistöð við gömlu bæjarskrifstofurnar. Garðabraut er lokuð og ég áttaði mig ekki á snilli strætó sem fer bara krókaleiðir frekar en að skilja Gurrí sína eftir. Vagninn fór kl. 13.15 frá Akranesi og var kominn rétt rúmlega tvö í bæinn. Elskan hún Anna besta Anna beið eftir mér í Mjódd og eftir smámisskilning varðandi lyklamál hjá fasteignasölunni drifum við okkur á kaffihús í Borgartúni. Jú, afhending íbúðarinnar á Kleppsvegi fór fram klukkan 16 í dag. Fasteignasalinn bað mig að skoða allt mjög vel, til dæmis athuga hvort leyndust nokkuð brenndir lambaskankar inni í ofninum, hann vissi af slíku dæmi, hann vildi að allt gengi vel fyrir sig, annars fengi hann ekki deyfingu næst þegar hann færi til tannlæknis ... (skýring: tannlæknirinn hans seldi mér íbúðina). Íbúðin var eiginlega fallegri og fínni þegar ég sá hana svona auða og útúrskúraða ... gardínur sem gera dimmt í íbúðum eru hreinlega af hinu illa. Það vantar vissulega betri lýsingu, það eina sem ég get sett út á. Þegar maður skoðar íbúðir sem aðrir búa í er argasti dónaskapur að rífa upp alla skápa og kíkja. Ég gerði það fyrst í dag og er ansi mikið sátt við fínan búrskáp vinstra megin við komandi ísskáp en hægra megin við hann er ryksugu- og sópaskápur, það er virkilega gott skápapláss í íbúðinni og að auki lítil geymsla í kjallaranum.

 

Myndin sýnir herbergja-"álmuna". Baðherbergi t.h., vinnuherbergi á móti og svefnherbergi. Útsýni fínt, Esjan alveg sjúkleg, ég dirfist ekki að gera kröfur um meira sjávarútsýni en þetta, finnst þetta bara ansi fínt. Tek kíki með mér og get dundað mér við að fylgjast með skemmtiferðaskipum á milli verkefna hjá mér, samráði skipafélaganna og öllu þar á milli. 

 

Sjórinn minnVið Anna skruppum í dýraverslunina í Holtagörðum skömmu fyrir afhendingu. Tólf ára gömul tík tók á móti okkur af virðuleik og fylgdi okkur inn. Mig vantaði kattasandskassa með loki, kattasand og kattamat. Svo þegar við erum flutt, ég og kettirnir, verða keypt ný bæli handa þeim. Vinnuherbergið er svakalega lítið (1,80 X 2,20) en þangað kem ég auðveldlega pínulitla tekkskrifborðinu sem ég er búin að festa mér, já, og tekkskrifborðið sem ég auglýsti til sölu er mjög sennilega selt. Alla vega frátekið. Ég mun sakna þess, enda fallegur gripur, en þetta litla er líka mjög fallegt og passar betur inn í smáa skrifstofuna. Lyftan er minni en mig minnti ... svarti skápurinn kemst ekki inn í hana og heldur ekki rúmið mitt. Sennilega ekki antíksófinn rauði heldur ... vá, hvað ég ætla að láta flutningamennina borga mér mikið fyrir þessa líkamsrækt sem þeir fá sunnan megin rörs.

 

Mynd: Ég á eftir að sakna þessa útsýnis verulega en á milljón myndir af því sem ég get yljað mér við. 

 

Kattaheldar svalirKrummi og Mosi eru að leika sér! Og það í fyrsta sinn. Núna á meðan ég blogga. Alfakötturinn, elskan hann Keli, stjórnaði öllu með harðri loppu og lék við þá til skiptis nánast til dauðadags. Þeir tveir dirfðust ekki að reyna að leika sér saman ... en núna er það að breytast sem er gjörsamlega æðislegt! Smiðurinn minn er enn að reyna að pæla í því hvernig hann geti gert svalirnar kattheldar án þess að það sjáist utan frá. Svo ætlar hann að sansa opnanlegu gluggana þannig að Mosi ævintýraglannaköttur geti ekki ýtt þeim upp og stokkið niður, honum er trúandi til þess, hann skortir alla rýmisgreind.

Smiðurinn er snjall og snöggur málari líka og ætlar að mála fyrir mig veggina og loftið á flísaklæddu baðinu. Guðný sem hannaði fyrir mig himnaríki valdi litinn sem fer á veggina. Svona mjúkur hvítur, hlýlegur, svo þarf ég að finna eitthvað út úr lýsingunni. Mjög fallegur sófi í Dorma freistar mín, er á góðu tilboði sem er ekki verra. Stráksi getur sofið á honum þegar hann kemur í heimsókn og vill gista.

 

DraumarÞetta tók allt tímann sinn og það munaði bara nokkrum mínútum að ég næði 17.30-strætó heim, umferðarsultur um allt, en þá hefði ég náð í afmælismat hjá vinkonu minni ...

 

Þar sem ég sat í 18.30-vagninum sá ég á snappinu þegar afmælissöngurinn var sunginn fyrir hana. Mikið hefði verið gaman að ná ... en maður flýtir ekki afhendingarathöfn og málningarkaupum. Elskan hún Anna vildi endilega að ég sæti hjá henni í bílnum þennan tæpa klukkutíma í næsta strætó og við höfðum um nóg að tala.

 

Mjög gaman að flytja í bæinn og hitta hana enn oftar, og aðra vini og vandamenn ... en svo fæ ég öðruvísi sting í hjartað við tilhugsunina um að flytja frá elsku Akranesi.

 

Eldhúsborð og stólarMiðað við hvað gerðist eftir að ég flutti af Hringbrautinni finnst mér ekki ótrúlegt að fljótlega fari allt í gang á Akranesi, það komi gjöðveikt kaffihús (það fæst auðvitað kaffi í Kallabakaríi og Costa-kaffi í Frystihúsinu - ísbúð) OG að Akraborgin fari að ganga á milli. Hún tengdi Skagann svo miklu betur við umheiminn en allt annað. Um leið og ég var flutt af Hringbraut var póstnúmerinu breytt úr 107 í 101 og Kaffi Vest opnaði skammt frá, í húsinu þar sem áður var pósthúsið á Hofsvallagötu, eða apótekið. 

 

Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri byrjuð að reykja, og það eins og strompur, var hneyksluð á sjálfri mér en reykti samt! Í nótt var ég komin með fósturbarn, einstaklega erfitt ... Ég kíkti á netið til gamans til að vita hvað reykingadraumurinn merkti en fannst merkingin þar algjört bull, eða viðvörun um óvin ... ég spurði manneskju sem veit mikið um drauma og hún sagði báða draumana merkja að ég væri undir álagi og stressi, mikið væri í gangi og ... já, ég get sko tekið undir það.

Mikið verður gaman að "dúlla sér" við að taka upp úr kössum án nokkurrar streitu í næstu viku. Þetta niðurpakkelsi inniheldur milljón handtök og þótt ég hafi gefið margt og mikið í allar áttir á ég samt allt of mikið dót. Hélt að ég væri grimm í grisjun en ekki nógu grimm. Á morgun og hinn verð ég að klára. Elsku Hilda mín kemur síðan á föstudag og við flytjum ásamt Ingu, Júlíönu og stráksa, brothætt dót t.d. úr eldhúsinu og komum fyrir í nýju íbúðinni. Sennilega verð ég að nota tækifærið og kaupa bæði sófann og ísskápinn þá. Líka lítið borð og stóla í eldhúsið.

 

Neðsta myndin: Mig vantar svona borð og stóla í eldhúsið. Það er pláss fyrir það. Sýndist ég sjá svona borð hjá Jysk.is og veit að þar fást mjög góðir og þægilegir eldhússtólar. Ath. þetta er mynd af netinu, ekki úr nýja eldhúsinu mínu.         


Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband