Draumar sem rætast ... seint og um síðir

SérsveitinEinhvern tímann á fyrrihluta níunda áratugarins, jafnvel fyrr, dreymdi mig æsispennandi draum um svartklædda lögreglumenn í köðlum hangandi utan á Nýju blokkinni á Akranesi (við Höfðabraut), þar bjó ég í nokkur ár sem krakki. Til skýringar er himnaríki í Gömlu blokkinni, fyrstu blokkinni á Skaganum, sú Nýja var önnur blokkin og fæstir gerðu ráð fyrir því að innan einhverra áratuga yrðu blokkirnar orðnar óteljandi og ómögulegt að nefna þær eftir aldri þeirra. En draumurinn var ákaflega spennandi þótt ég muni ekki neitt nema sérsveitarklæddar löggur í köðlum í spennandi verkefni. Mundi þó að þegar ég vaknaði hugsaði ég að drauminn yrði ég að muna og skrifa síðan spennubók um efni hans. Á þeim tíma var nánast ekkert í boði í spennubókadeildinni nema Alistair MacLean.

 

Mynd: Sem brjálaður bloggari varð ég að taka laumulegar myndir svo mér yrði trúað að draumar gætu ræst svona löngu seinna, ég ýki stundum og plata á þessum vettvangi sem hefði komið mér í koll núna ef ég hefði ekki sannanir. Vona samt að mér verði fyrirgefið.  

 

Það var síðan eins og við manninn mælt, að fjörutíu árum seinna rættist þessi draumur, nema í öðru húsi þannig að mig dreymir greinilega fyrir daglátum, eitthvað sem ég vissi ekki. Um hálfátta í gærkvöldi hringdi dyrabjallan, svo var barið þéttingsfast á dyrnar að auki. Ég hljóp til dyra, kíkti í gegnum gægjugatið og sá tvær stórhuggulegar löggur fyrir utan. Í síðasta bloggi bað ég um að ef einhver ætlaði að kæra mig fyrir grasrækt ætti að senda síðmiðaldra ... æ, sjáið bara síðasta blogg. Vil að komi fram að þetta er saklaust kattagras.

 

Sérsveitin 3„Megum við fara út á svalir hjá þér?“ spurði sérsveitin, þetta voru alvörugaurar með byssur. Ég varð ofsaspennt en hélt aðdáunarskrækjunum niðri í mér, sagði bara kurteislega: „Gjörið svo vel,“ og galopnaði dyrnar. Krummi og Mosi lágu uppi í skáp og ég vissi að þeir myndu halda sig þar.

 

Mynd: Sönnun nr. 2.

 

Ég hef horft á nógu margar glæpamyndir og lesið enn fleiri glæpasögur, til að vita að það þýddi ekkert að spyrja þá hvað gengi á. Mögulega æfing í klifri í köðlum fram undan og bankað á mína íbúð til að gefa lífi mínu meira gildi og spennu sem er hverri manneskju nauðsynlegt til að blóðið haldi áfram að renna í æðunum? Ekki reyndist nefnilega vera þörf á kaðlahangelsi svo þeir fóru tveir að pakka dótinu saman, algjörir ljúflingar, rólegir og fagmannlegir. Alltaf velkomnir í kaffi. 

 

Ég var ótrúlega fegin yfir því að það var eiginlega ekkert drasl heima hjá mér ... reyndar óuppvaskað í eldhúsinu og vissulega kominn smátími frá því ég ryksugaði síðast en það var komið kvöld og í augum sérsveitar sem er vön að fara inn í alræmdustu viðbjóðsgreni, grunar mig að þeim hafi fundist ofboðslega fínt hjá mér, bara eins og í höll. Hugga mig við það. Ég hafði verið að horfa á fréttir, var löt við að fara að vaska upp eftir kvöldmatinn og skipti á milli stöðva, stoppaði við Fóstbræður sem voru á þegar bjallan hringdi. Svo var lítil maltogappelsín-dós á sófaborðinu sem ég var að klára úr. Enginn landi í glasi eða grasrækt í eldhúsglugganum ... nema kattagras auðvitað. En hver man ekki eftir Lása kokki sem sagði: „Ó, ó og æ, æ, skipið er að sökkva og ég ekki búinn að vaska upp.“ Ég er svolítið þarna.

 

Það var nú samt ekki fyrr en þeir voru farnir sem ég áttaði mig á því að þeir væru enn meiri hetjur en mig grunaði ... ég leit nefnilega út eins og argasti vélsagarmorðingi, komin í þrjár peysur vegna kulda (sjá síðasta blogg), hárið ógreitt og ég var bara algjör hryllingur, búin að sofa úr mér allt vit í flótta undan komandi jólaflensu sem þorði síðan ekki að láta sjá sig. Fagmennska þeirra sýndi sig í því að ég var ekki handtekin á staðnum sem gangandi umhverfisslys. Það er allt annað að sjá mig í dag, svo ég vona innilega að þeir komi aftur. 

 

JólatrúlofunEina sem ég frétti eftir lymskulegar njósnir mínar í dag var að nokkrum hæðum neðar hafi verið staddur maður sem var álitinn ógn, ekki íbúi. Í slíkum tilfellum fer allt í gang, og líka plan B, C, D, E, F og G. Ég var sennilega plan G, eða svalirnar mínar. Skýjahöllin hvað! Þetta var Ævintýrahöllin í gær.

Ohh, hvað mig langaði til að þeir settust niður í kaffi hjá mér og segðu mér spennandi sögur úr vinnunni ... ég hefði getað sagt þeim sitt af hverju spennandi um fyndnar stafsetningarvillur úr minni vinnu ... eins og þegar Vikan var með Danska kúrinn og ég fór yfir uppskriftirnar fyrir prent ... mig hefur aldrei langað jafnmikið til að sleppa því að leiðrétta villu og þegar kom: Pyntið með brómberjum. (í staðinn fyrir puntið). Þeir hefðu sko hlegið ... 

 

Mynd: Tengist ekki draumi, en ég leitaði á náðir véfréttarinnar sem vildi meina að ég játaðist einhverjum núna yfir jólin. Það var alls ekki á dagskrá en mögulega var lögguheimsóknin í gær bara yfirvarp, samsæri og feður þessara flottu sérsveitarmanna í leit að almennilegri kellingu ... hef heyrt miklu ótrúlegri samsæriskenningar en það. 

 

Mig dreymir líka oft brim og mikinn öldugang sem mikill aðdáandi hafs í ham. Núna fyrir nokkrum dögum, í draumi, átti ég íbúð (á Akranesi, held ég) sem lenti í tjóni vegna óláta í sjónum, húsið fór nánast í kaf, aumingja leigjandinn minn. Svo ég hringdi í tryggingarfélag þar sem Andrés (hjá mbl) svaraði í símann og tók mér ljúfmannlega. Ég gúglaði nafnið Andrés, hvað það þýddi í draumi og það táknar víst óveður. Það var eins og við manninn mælt, gul viðvörun um nánast allt land strax um morguninn - enn hvít jörð. Var það ekki í fyrradag? Svo eftir þessi tvö skipti get ég sagt með sanni að ég sé berdreymin, nánast með miðilsgáfu.    


Varkárni, vondur smekkur og skýjahöll í sjötta himni ...

WTFSat rafrænan fund í gærkvöldi og skemmti mér vel, þegar ég var loks búin að setja hljóðið á í Settings - sem þurfti án þess að ég vissi að væri slökkt á því. Hélt að hljóðið væri á ... en ekki ÞETTA HLJÓÐ. Dæs. Hef ekki verið á svona fundi síðan á covid-tímum. Skrifaði líka fundargerðina, varð að handskrifa því lætin í mér á lyklaborðinu höfðu áhrif á gæði hljóðsins. Tækniheft hvað ... en mér fer fram, um leið og ég læri eitthvað, man ég það framvegis, verð bara grautfúl ef gert er lítið úr mér fyrir að kunna ekki eitthvað sem ég hef aldrei lært.

 

Nú á nýju ári og á tveimur til þremur nýjum vinnustöðum þarf ég án efa að tileinka mér ýmislegt nýtt sem er bara gaman ... en vissuð þið að ársbyrjun bendir til þess að árið verði ansi hreint ... eitthvað svakalegt kannski. Sjá efstu mynd! 

  ------    ----- ----- --- 

Höfuðverkur í gær gerði að verkum að ég kappklæddi mig fyrir nætursvefninn, peysa og allt, þunn sæng en líka teppi, fór að sofa snemma (miðnætti) og vaknaði upp úr hádegi í dag, um eittleytið, með þá fullvissu að ég hefði sofið af mér hroðalegt jólakvef. Lyf sem ég tek gera mig kulsækna (sem var ekki áður, langt í frá) og ég hef síðan dottið ofan í alls konar ofkælingarveikindakvef síðan í júlí. Ekki hefur hjálpað til að ónæmiskerfið hrynur oft hjá fólki sem stendur í stórræðum eins og flutningum milli landshluta. Ég geri nánast allt; sker hráan lauk í tvennt og hef uppi á kommóðu í svefnherberginu mínu, tek inn bæði C- og D-vítamín og passa upp á svefninn. Líka löngu hætt að kyssa nokkurn mann í litlu lyftunni (hún býður upp á rómantík) og þannig smitast, reyni svo sem yfirleitt, ef ég er ekki með þunga poka, að ganga upp stigana en tek stundum lyftuna frá fimmtu upp á sjöundu ... játa það hér með.

 

Göngutúr eða sundEitt það versta við að flytja var að missa Einarsbúð sem færði mér allt sem mig vantaði upp að dyrum. Í gær kom sendill frá Gæludýr.is (gaeludyr.is) með mat og sand fyrir kisurnar og einnig grasfræ í bakka ... en ég stunda nokkuð umfangsmikla grasrækt í eldhúsglugganum (ef þið sendið lögguna á mig, hafið það þá ógiftan og sætan, síðmiðaldra karl). Svo fæ ég matinn sendan með Eldum rétt upp að dyrum ... og prófaði núna síðast að kaupa annan réttinn tilbúinn, kjúkling með sætfrönskum og koníakssósu ... þurfti bara að setja kjúkling og kartöflur á ofnplötu í korter í heitan ofn og hita sósuna í potti, rífa niður salatið. Ögn fljótlegra og minna subbulegt. Nýjung hjá Eldum rétt. Hinn rétturinn sem var í boði og ég þáði EKKI, var saltfiskréttur, eitthvað sem er í sama flokki hjá mér og þverskorin ýsa, svið, súrt slátur og kæst skata ... Ég fæddist samt ekki í röngu landi. Svona er smekkur misjafn. Ég með góðan smekk, allir aðrir vondan, eða öfugt? Frábært dæmi um misjafnan smekk: Ég sá á Facebook nýlega auglýsingu frá Geðhjálp þar sem tveir hlutir voru taldir upp - sem báðir áttu að vera dæmi um að hlúa vel að sér ... göngutúr eða sundferð. Bloggvinir mínir vita að hvorugt á upp á pallborðið hjá mér, svo vægt sé til orða tekið. Get ekki valið um hvort er hræðilegra. Allir vinir mínir og ættingjar, held ég, elska gönguferðir og sund. Sumir splæsa meira að segja í Sky Lagoon-ferðir ... ætla samt að sjá til með gönguferðir þegar fer að hlýna og þá með góða sögu í eyrum. Þarf að skoða umhverfið og fara í rannsóknarferðir í allar áttir. Það geri ég alltaf þegar ég flyt í nýtt umhverfi, á um það bil 18 ára fresti.

 

Get víst seint sagt að ég sé mikið tæknitröll. Systur mína fór að lengja eftir að ég sendi henni miðana okkar á Vitfirringana þrjá í Hörpu, jólatónleika 21. des., svo hún gæti prentað út og haft tilbúna, og í ljós kom að ég hafði aldrei klárað kaupferlið. Þetta átti sem sagt að vera afmælisgjöf frá mér til hennar. Hef aldrei nennt á jólatónleika nema með Kór Langholtskirkju um árabil en nú átti aldeilis að breyta til. Hún tók í kjölfarið að sér að panta eigin afmælisgjöf og tónleikarnir verða 22. des., kl. 17, minnir mig. Ég geri ekki mikil kaup á netinu og kýs yfirleitt alltaf að millifæra inn á alvörureikning hjá alvörufyrirtækjum, í mín örfáu skipti, eins og Gæludýr.is. Veit að ýmsir hafa farið illa út úr kaupum með því að gefa upp kortanúmer, eins og Friðrik Ómar sem glataði töluverðum fjármunum nýlega, í stressi og fljótfærni, reyndar í "viðskiptum" við þaulvana tölvuþrjóta. Eflaust enn auðveldara að plata óvant fólk á borð við mig.

 

Komst aldeilis í feitt nýlega ... eða fann safaríka og langa glæpasögu til að hlusta á. Hún er nýútkomin, heitir Miðnæturstelpur og er eftir Jonas Mostöm. Hef lesið fleira eftir hann og get mælt með bókum hans. Þessi er rúmlega 26 klukkutíma löng (jessssssss) og nú hef ég enga afsökun fyrir að setja íbúðina ekki í jólabúning, þrífa fyrst samt. Það er svo gott ef maður er með góða bók að hlusta á. Ég geri ekki þá kröfu til bóka að þær gefi jólastemningu á meðan ég skreyti ... Þessi er líka afskaplega vel lesin af Margréti Örnólfsdóttur. 

 

Téð fatahengiÁ morgun verður afsalsdagurinn mikli. Þá afsala ég mér himnaríki (snökt) og Skýjahöllin verður mín (er aðeins að máta þetta nafn á nýju íbúðina). Það eru allir hjartanlega sammála um að þessi íbúð mín sé vel staðsett, bæði upp á útsýni (haf, Esju, Kjalarnesið í norður og Breiðholtið, 104 Rvík og stundum eldgos í norðurátt) því flestir vinir og vandamann eru bara í kringum tíu mínútur á leiðinni til mín, hvort sem þeir eru í Kópavogi eða Reykjavík. Skýjahöllin passar í raun vel því ég er í skýjunum yfir íbúðinni og hún er skemmtilega hátt uppi, höll er kannski full drambsamt orðaval en ég er í ljónsmerkinu og við Ljónin lítum víst á okkur sem algjörar hefðardúllur, ef marka má stjörnuspekina. Undirnafn gæti svo verið: Í sjötta himni! Eða bara Í skýjunum. Sko, íbúðin er á sjöttu hæð og lyftan stoppar bara á annarri hverri hæð, í alvöru, svo ég þarf að taka hana upp á sjöundu og ganga hálfa hæð niður - svona þegar ég treysti mér ekki til að ganga næstum alla leiðina upp) Hvað finnst ykkur? Þarf að skrolla niður fésbókina mína til að skoða góðar tillögur sem þar komu frá fb-vinum, t.d. Skýjahöllin.

 

Myndin er af stórfrægu fatahengi mínu sem hangir nú uppi bara til að hylja nýleg göt á hryllingsveggnum ... ég get sett þar lauflétta úlpu mína og trefilinn (sem ég heklaði fyrir mörgum árum) en ekkert annað. Í næstu heimsókn vissra engla úr Kópavogi verður betri borvél tekin með og almennileg töng til að ná föstum skrúfum.

 

Önnur fasteignasalan vill hafa undirskriftirnar rafrænar en hin ekki ... býst því við að taka leigubíl þangað í þessari ömurlegu hálku og veseni og líka á barmi þess að detta í enn eitt stórkvefið sem ég geri nú samt pottþétt ekki vegna stórvirkra varnaraðgerða - en nú bara verð ég að eignast lopapeysu. Sit hér við tölvuna í tveimur peysum, annarri þykkri og samt eru handleggirnir á mér kaldir viðkomu. Ofninn við hliðina á mér er heitur ... Ég er samt manneskjan sem pantaði fokdýra silkisæng frá útlöndum eitt árið til að geta sofið vegna hita (sumar). Heimilishitinn í himnaríki var alltaf í kringum 18 gráður sem er vissulega ágætur hiti fyrir rauðvín en ekki gesti mína sem skulfu oft úr kulda og þurftu stundum peysur og ullarsokka að láni. Vissulega ávani hjá mér að hafa kalt og það kostaði líka að á sumrin þurfti ég viftur til að lifa af. 

 

Dans - dans - dans

Enn eitt sem ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af, er dans en það er eitthvað í gangi núna með mig. Ég sá myndbandið hér fyrir neðan á netinu fyrir skömmu og hreifst ansi mikið af dansgleðinni sem þar ríkir. Góða skemmtun, elskurnar. Í næsta bloggi gæti ég farið að tala fallega um sund, gönguferðir og kæsta þverskorna ýsu ... ekki missa af þegar geimverur yfirtaka líkama minn og smekk ... 

  


Hryllingsveggur, tvisvar í kosningakaffi og eldklár frænka

Hlauptu ef þér finnst ég sexíKosningasjónvarpið fór eiginlega alveg fram hjá mér í gær, sitt af hverju gott kom vissulega út úr kosningunum og líka ýmislegt minna gott. Það verður til dæmis mikil eftirsjá að VG, svo margt gott sem þau standa fyrir, fúlt líka að missa t.d. Lilju í Framsókn, Þórhildi Sunnu í Pírötum og fá ekki alla vega Sönnu og Davíð Þór inn hjá Sossum, þau hefðu lífgað upp á þingið. Svona getur maður nú hrifist af alls konar fólki úr alls konar flokkum. Fjölbreytni er góð.

 

 

Það var frábært að sjá Óla - „okkar“ vinsæla apótekara á Akranesi, komast á þing. Ein ansi hress vinkona fór í apótekið eitt sinn skömmu fyrir einhverjar bæjarstjórnarkosningar og Óli spurði hana hvort hún ætlaði ekki að kjósa "rétt". „Ég hef alveg sofið hjá Sjálfstæðismönnum en set mörkin við að kjósa þá,“ svaraði hún blákalt, öðrum viðskiptavinum til mikillar kátínu.

 

Myndin er skjáskot úr myndbandi þar sem þessi hressa kona hrópar aftur og aftur á hlauparana: "Takk kærlega, takk innilega." Mig langar að verða þessi týpa og er þegar búin að panta miða til Boston (Boston-maraþonið) í apríl árið 2050. Verð með svona skilti.

 

Í gær fór ég með tveimur vinkonum í kosningakaffi ... Önnur kom upp úr kl. 13 og sótti mig og við fórum í kaffið hjá VG á Suðurlandsbraut, bæði góðar veitingar og svakalega gott kaffi (Jólakaffið frá Te og kaffi). Fór heim upp úr tvö, nálægt hálfþrjú, og næsta vinkona mætti klukkan 16 og sótti mig. Við fórum líka í kaffið hjá VG. Ég gætti þess ekki að dulbúa mig þarna í seinna skiptið, vera að minnsta kosti með annan trefil, og svo gerði ég þau mistök að setjast á sama stað og fyrr um daginn. Ónefndur fyrrum ráðherra sem mætti líka aftur, sagði hlessa en kátur: „Þú enn hérna?“

„Nei, fór en kom aftur því ég átti eftir að smakka vöfflurnar,“ sagði ég næstum því sannleikanum samkvæmt. Fór heim og beið eftir úkraínskri heimsókn sem átti að koma í tímagapið milli 15 og 16 (ómældar vinsældir mínar) en það náðist því miður ekki að hittast í þetta sinn, sé Svitlönu vonandi næst þegar hún kemur í bæinn. Snökt. 

 

Mér datt ekki í hug að biðja vinkonurnar að koma með mér í önnur kosninga"köff", taka út staðina og gefa einkunn eins og ég vissi að sumir gerðu án nokkurrar miskunnar en ég er ekki sama óhemjan og ég var upp úr tvítugu. Svo var ég líka eiginlega frekar södd og þorði heldur ekki að taka sénsinn á því að fá kannski vont kaffi með kræsingum annars staðar. Allt of algengt í hinum ýmsu veislum að hafa fullkomnar veitingar en vont kaffi ... Ég var reyndar duglegri að fara á milli staða á Skaganum á kosningadegi.

 

HrukkukremÞað stóð upp úr í seinni heimsókninni til VG að þangað kom maður sem ég hafði ekki hitt í hálfa öld - var að vinna með honum í Ísfélagi Vestmannaeyja sumarið 1974, þegar ég var rétt orðin unglingur. Það urðu fagnaðarfundir, hann er alveg jafnskemmtilegur og í denn, með smitandi hláturinn sinn og góða músíksmekkinn (Jethro Tull með meiru), hann er líka hljómsveitargæi og allt (í Spöðum) og sestur í helgan stein. Hann sagði tvisvar: „Þú ert nú svo ung ...“ sem gjörsamlega bjargaði deginum því ég hef verið fórnarlamb aldursfordóma* síðan ég varð fertug, alla vega annað slagið. Ein vinkona mín fer oft til útlanda og segir gríðarlega mikinn mun á því að vera þar eða hér upp á aðdáun strákanna ... það er enn blístrað á hana erlendis, en á Íslandi er löngu búið að stimpla hana út. Ég sé svo illa frá mér, þótt ég sé með gleraugu, að mér finnst allir sætir karlar gefa mér hýrt auga.

*Fékk þarna rétt rúmlega fertug, meðal annars sendan heim bækling um alls konar vörur sem henta eldri borgurum; sokkaífæru, göngugrindur, fullorðinsbleyjur, pillubox með áminningartækni ... vörur sem móðir mín var allt of ung til að nota næstu tuttugu árin.

 

Mynd: Ég nota vissulega gott andlitskrem til að halda mér unglegri.

 

Eigimaður minn á þessum tíma (40 ára) sagðist ekki treysta sér til að vera kvæntur konu sem ætti svona stutt í fimmtugsaldurinn (41 árs) og við fórum hvort sína leið. Svo löngu, löngu síðar fór hann á stefnumótasíðu og fann þar unga og fallega erlenda konu. Þau urðu ástfangin, hann fór til hennar í útlandið og þau giftu sig örfáum mánuðum eftir að þau kynntust. Einhverju seinna fór hún fram á skilnað, fékk helming eigna hans, eins og lög gera ráð fyrir, eða kaupmáli. Hann komst svo að því síðar að þarna hefði skipulögð glæpastarfsemi verið að verki ... allt fólkið hennar í brúðkaupinu, foreldrar, systkini og fleiri, voru leigðir leikarar - allt gabb nema giftingin sjálf sem var lögleg, til að hafa af honum fé. Hann gat ekkert gert, svo passið ykkur, elskurnar. Sönn saga og ekkert einsdæmi víst.  

 

Krummi elskar EllenÍ dag var gerð úrslitatilraun til að hengja upp fatahengið mitt létta og löðurmannlega úr Jysk. Tvær skrúfur og málið dautt. Steindautt, enda betri borvél núna. Síðast kom snjall þroskaþjálfi á staðinn ... það kom gat í vegg, skrúfa brotnaði inni í veggnum og lélega lánsborvélin sem hann notaði nánast bræddi úr sér. Í dag fékk ég svo deja vu-tilfinningu, því nákvæmlega það sama gerðist hjá snjalla, handlagna og klára húsgagnasmiðnum, þessum með betri borvélina. Ég þarf greinilega að losa mig við þennan vegg sem glímir við mótþróaþrjóskuröskun. Tveir menn: tvær holur, tvær skrúfur fastar í vegg sem heldur að hann sé utan um neðanjarðarbyrgi á stríðstímum.

Ég er búin að panta loftpressu frá Byko og svo veð ég bara í þetta sjálf. Spurning um að hafa samband við Tækniskólann og bjóða vegginn til leigu, nota hann til að brjóta niður nemendur í trésmíði, svo þeir ofmetnist ekki, heldur læri að til séu svo viðbjóðslega sterkir veggir að ekkert virki á þá nema dínamít. Þá ná þeir þessari auðmýkt sem þarf til að þeir mæti í verkefni á þeim tíma þegar þeir segjast ætla að gera það ...

 

Mynd: Ellen frænka knúsaði heppinn Krumma í dag á meðan Elvar hennar boraði í hryllingsvegginn hroðalega. Ég kveinaði yfir því að þægilegi sófinn sem hún sat í væri of lágur fyrir langa leggi mína og nákvæmlega ekkert gaman að láta sig falla ofan í hann ... svo ég nennti því ekkert og það færi aldrei vel um mig í lífinu. Ellen kíkti í símann sinn, pikkaði ögn og sagði svo: Ég er búin að panta 5 cm lengri fætur undir sófann þinn, fást hjá Jysk og kosta bara nokkra þúsundkalla. Svona lánsöm er ég með fólkið í kringum mig. Fatahengið getur bara hoppað upp í ómögulegheitin í sér. 

 

Fór seinna í dag með systur minni í litla jólabúð við Gylfaflöt í Grafarvogi. Keypti ansi skemmtilegar og snjallar jólagjafir handa stráksa og minnstu elskunum mínum á Skaganum og einnig nokkra gyllta poka undir jólagjafir (á 100 kall stykkið). Ég er vön að endurnýta þá jólapoka sem ég fæ sjálf en sennilega hef ég ekki tekið neina með í flutningunum til borgarinnar (á reyndar eftir að fara niður í geymslu og athuga hvort þeir séu í stóru ferðatöskunni). Ef ég finn þá, get ég samt pottþétt endurnýtt þá síðar eða gefið. Það var orðið svo kvíðvænlegt og ömurlega leiðinlegt að klippa niður jólapappír, pakka gjöfum inn og vesenast í óratíma, að ég fór að pakka inn í dagblöð sem var mjög fljótlegt, reyndi að velja fagrar jólaauglýsingar til að hafa pakkann samt fallegan. Gjafaþegar mínir þurftu í kannski tvö eða þrjú ár (á aðfangadagskvöld) að þvo af sér prentsvertu en eitt árið átti ég svo allt í einu heilan helling af jólagjafapokum sem ég endurnýtti þau jólin og hef gert það síðan. Það var bæði ódýrt (ókeypis) og ljómandi fínt. Vistvænt að auki.    


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 854
  • Frá upphafi: 1515949

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 716
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband