Arfaslæmar jólagjafir ...

StráksiJólasveinninn sló í gegn í afmælinu í gær, eins og vanalega, og tókst meira að segja að galdra smávegis sem við áttum ekki von á. Hann breytti heilum spilastokki í 52 laufaníur!!! Ég legg ekki meira á ykkur. Við stráksi trúðum ekki eigin augum. Ég fékk ekki nammipoka en stráksi fékk auðvitað, enda finnst vart meiri aðdáandi en hann. Aðdáunaraugnaráð mitt féll í grýttan jarðveg.

 

Til að fá aukajólagjöf frá systur minni prófaði ég að segja að hún liti ekki út fyrir að vera degi eldri en fertug. Held að það hafi verið yfir strikið ... þótt ég meinti auðvitað hvert orð. Hefði sennilega átt að segja tvítug.

Margir góðir gestir mættu, ættingjar, vinir og alls konar vandamenn, suma sér maður bara 18. des. ár hvert og frábært að geta gengið að þeim vísum þá.

Veislan var mjög flott, fullt af girnilegum tertum og alls konar, ég fékk rækjubrauðtertusneið heim í nesti og hún var einmitt í hádegismat á þessu heimili í dag.

 

 

Vegna óvæntrar hálsbólgu (ekki minnar) breyttust plön dagsins úr því að verða jólaskemmtiflækingur um borgina yfir í að verða heimahangelsi. Ég á reyndar eftir að pakka inn örfáum jólagjöfum - svo berst hingað fyrra jólaverkefnið á morgun svo það er eins gott að halda vel á spöðunum. Mér finnst ég alltaf vera syfjuð (ekki döpur, svo það komi nú fram), tek samt vítamín, vonandi nóg. Þyrfti að komast fljótlega í búð til að kaupa dagsljósslampa, held að það virki vel á syfjuslen þrátt fyrir nægan svefn. Úps, nema auðvitað að ég hafi verið björn í fyrra lífi og þurfi að liggja í híði mínu meira en átta tíma á sólarhring þessa dagana. Finn sennilega fyrir þessu af því ég er ekki í vinnu sem krefst þess að ég vakni fyrr og þjóti út í strætó, sem gerist strax eftir áramótin. Svo er ég líka Ljón sem smitast af sambýlismönnum mínum, öðrum kattardýrunum sem sofa út í eitt ...    

 

Mín fyrsta strætóferð eftir flutningana til Reykjavíkur var farin í nótt. Ég sýndi debitkortið mitt spennt og glöð en það var gert upptækt af bílstjóranum sem sagði þetta vera jóla-debitkort og ekki gilt - sem var sannarlega ekki rétt. Ég er enn pirruð út í hann og mæli ekki með svona asnalegum draumum þar sem maður býr t.d. enn á Hringbrautinni þótt bráðum séu liðin 20 ár frá flutningunum þaðan. Draumar uppfæra sig ekki eins og tölvan mín ... sem slekkur á sér í tíma og ótíma og er með vesen og leiðindi ... af því að hún er að uppfæra sig! Það er sennilega stillingaratriði, spyr minn mann í þessum málum.

 

Facebook

 

StraujárnVersta jólagjöf sem hægt væri að fá?

Margir nefndu ryksugu og straujárn en það er greinilega margt verra en það.

 

- Keilukúla.

- Að fá ekkert. Narsinn - minn fyrrverandi - gaf mér aldrei neitt eftir að börnin okkar fæddust svo ég fór að kaupa mér mínar eigin jólagjafir. Sú síðasta var að skilja við hann. 

- Naglasnyrtivörur frá ömmu sem vissi að ég nagaði neglurnar.

- Bók um létt fæði þótt ég væri ekki í megrun. 

- Hnetusúkkulaði. Ég er með ofnæmi fyrir hnetum.

- Jólaskraut, framleitt á vinnustaðnum mínum.

- Biblíu frá afa og ömmu. Ekki einu sinni, heldur tvisvar, með nokkurra ára millibili.

- Eitt vetrardekk í brúðkaupsafmælisgjöf 22. des. Hitt dekkið um jólin. Við erum skilin. 

- Góðgerðar-eitthvað í mínu nafni.

- Faðir minn og illa stjúpmóðirin sendu mér eitt sinn úrklippu úr pöntunarlista, mynd af kápu sem þau ætluðu að gefa mér. Síðan eru liðin 47 ár og ekkert bólar á kápunni. 

- Ég fékk herðatré þegar ég var tólf ára, ekki ánægður með það.

- Pabbi gaf mömmu straujárn og skildi ekkert í því hvers vegna hún varð svona sár.

- Skilnaðarpappírar - jólin valin til að særa enn meira.

- Bækur nr. 2 og 7 í 12 bóka seríu.

- Nefháraplokkari frá pabba. Ég var 13 ára og ekki ánægður sem reitti pabba til reiði.

- Baðvigt, myndi ég halda. Mín uppáhalds vonda gjöf er þó klósettbursti frá tilvonandi tengdamömmu.

- Allt sem mágkona mín gefur. Ekki bara mér, heldur öllum. Það þarf sérstaka hæfileika til að finna svona skelfilega ósmekklega hluti. Hún er samt ekki að grínast.

- Ég fékk eyrnalokka frá kærastanum mínum. Komst að því að fyrrverandi kærasta hans hafði gleymt þeim hjá honum. Í rúminu hans. 

- Við systkinin fengum skrítnar gjafir frá afasystur okkar. Eitt árið fékk bróðir minn dós af grænum baunum frá henni. 

- Ávaxtakaka.

- Púsluspil ... ég púsla ekki. 

- Konan mín á eftir að elska nýju moppuna sína. Ég bara veit það!


Óvænt gjöf, strætósjokk og hættulegt hnetusmjör

Óvænt gjöfJólavinnulotan sú fyrri hefst ekki fyrr en á föstudaginn, smávegis tafir sem urðu þess valdandi, í raun, að fólkið mitt fær jólagjöf frá mér í ár. Ég pakkaði nefnilega mestu inn í dag á milli þess sem ég reyndi að skreyta örlítið. Flotta græna mósaíkjólatréð kemst hvergi í samband við rafmagn, ekki í fjöltengið, ekki beint í vegginn svo ég þarf að kaupa rétta kló og blikka svo einhvern með viti. Sennilega litlu systur Önnu vinkonu, hún er sú sem kemst næst því að vera kjarneðlisfræðingur af þeim sem ég þekki, fyrir auðvitað Gulla stjarneðlisfræðing, gamla bekkjarbróður minn. Hún gat alla vega sett ljós inn í forstofuskáp og alltaf þegar hún opnaði skápinn kviknaði ljósið. Það kalla ég snilli. Kannski kunna fleiri að skipta um klær. Kannski þarf ég ekkert að hafa kveikt á því.

 

Dyrabjallan hringdi snemma kvölds, ég átti ekki von á neinum, ekki sendingu, engu, en í mynd-dyrasímanum sást vingjarnleg kona sem sagðist vera með sendingu til mín frá ... haldið ykkur ... aðdáanda! Ég beið þó ekki spennt eftir rósavendi á meðan lyftan fór upp á sjöundu, því kettirnir tryllast alltaf þegar koma blóm í hús; fella niður vasann og eyðileggja blómin með því að narta í þau með tilheyrandi gubbelsi stundum. Nei, þetta var svo miklu betra en blóm ... þetta var B1-vítamín! Hundrað töflur af vítamínínu sem á eftir að kýla niður hásinarvesenið. Ljúfa konan sem kom með pillurnar lofaði að skila miklu þakklæti og knúsi frá mér til gefandans. 

 

Ég með HilduLitla systir, þessi sem er svo rosalega ung miðað við mig (16 mánuðum yngri) minnkar aldursmuninn á milli okkar niður í eitt ár frá og með morgundeginum og það stendur til 12. ágúst nk. þegar ég verð allt í einu sérlega aldurhnigin miðað við hana, eða tveimur árum eldri. Hún á sem sagt afmæli. Stráksi mætir að sjálfsögðu, kemur með strætó frá Akranesi, það tímir ekki nokkur hræða að missa af jólasveininum sem mætir alltaf í afmælið, okkur gestum til sérstakrar gleði og ánægju. Stráksi sagði á sambýlinu sínu að systir mín ætti stórafmæli og gerði hana nokkrum árum yngri sem gladdi hana svo mikið, þegar ég sagði henni það, að hún ætlar að kaupa enn eina jólagjöf handa honum. Fínt trix, kæru bloggvinir. Ég ætla svo sannarlega að segja eitthvað sérlega fallegt við hana á morgun svo hún kaupi fleiri jólagjafir handa mér. 

 

Myndin af okkur systrum sannar mál mitt. Þarna erum við á unglingsaldri, fyrir ekkert svo mörgum árum, myndin greinilega tekin milli 12. ágúst og 18. desember þegar aldursmunurinn er sem mestur. Hún svona líka ungleg en ég gæti verið 26 ára.

 

Mánudagur 16. desember 2024

Staður: Hestháls, 110 Reykjavík ... eða kannski 116 Rvík?

 

„Almáttugur, nú verðum við að drífa í að gera Gurrí kleift að nota debitkortið sitt í strætó, ég hélt að við hefðum alveg tíma til að redda því fram til 5. janúar, eða svo.“ Ásgerður stikaði um stjórnstöðina og neri hratt saman höndum. Svitaperlur féllu hratt af enni hennar niður á gólf. 

„Bíddu, bíddu, er hún flutt frá Akranesi?“ Barði virtist hlessa.

„Fylgist þú ekki með því helsta sem gerist í heiminum?“ spurði allt hitt starfsfólkið í einum kór.

„Hún keypti áfyllingarkort síðasta föstudag í Kringlunni og ég var bara að frétta það núna! Eins og við vorum búin að fela upplýsingaborðið vel ... hún er bara of klár fyrir okkur, fyrir þennan heim!“ Það mátti sjá tár á ýmsum hvörmum.

„Við sem héldum að það dygði að flytja aðalstöðvar og tapað/fundið í Hestháls, þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi og fólk á bíl!“ sagði Siggi mæðulega. „Hún á eftir að koma og hella sér yfir okkur og fá bloggvinina með sér!“

„Borgarstjórinn ætlar að koma okkur til bjargar og setja Hestháls tímabundið í póstnúmer 116 Reykjavík, hún veit að það er á Kjalarnesi sem dregur vonandi úr löngun hennar til að mæta á staðinn.“ Elísabet var þó svolítið efins á svip en reyndi að bera sig vel.

„Eigum við að endurgreiða henni þúsundkallinn sem kortið kostaði? Hún mun ekki nenna að skrá sig inn á Mínar síður-það dæmi allt saman, eða finna út úr því hvernig það er gert, til að leggja pening inn á það ef hún getur bara veifað debitkortinu, ætli hún gráti þann þúsundkall.“ Guðjón var samt orðinn áberandi fölur. 

„En hvað gerir hún næst? Bloggar hún brjáluð um þetta? Hvar eru rússneskir eða ísraelskir hakkarar þegar maður þarf að láta eyðileggja moggabloggið í heild?“ Jóhann var farinn að nötra af ótta.

„Hættið að tala, farið að vinna í því að gera allt klárt fyrir vísa og debit í vögnunum. Hún er reið, við vitum það! Við getum ekki annað en vonað að hún hafi ekki verið búin að fylla á kortið. Annars eigum við ofsareiði hennar yfir höfði okkar og þá getum við alveg eins lokað sjoppunni! Vinnum í alla nótt og höfum þetta tilbúið eldsnemma í fyrramálið, ég panta pítsu og bý til espressó á línuna,“ sagði Ásgerður ákveðin.

- - - - - - - - - - - -

Frétt 17. desemberÞriðjudagur, 17. desember 2024

Staður: Allir fjölmiðlar landsins:

 

Hægt að borga með korti í strætó

Frá og með deginum í dag er hægt ...

Sjá mynd.

 

Þvílík dásemd og dýrð. Loksins, ég er ekkert reið en ég hefði samt sleppt því að kaupa kort á þúsundkall á föstudaginn ef ég hefði vitað að þetta yrði málið fjórum dögum seinna.

 

Þetta verður án efa útfært og gert betra með tímanum svo að t.d. öryrkjar og eldri borgarar geti borgað rétta (lægri) upphæð með kortinu sínu, eða jafnvel einhver krúttmolinn borgað fyrir bæði mig og sjálfan sig í strætó, það þarf nú ekki meira núorðið til að heilla mig upp úr skónum. Ég þarf ekki þyrluferðir eða limmósínur þótt það gæti vissulega verið gaman. Er orðin svo lífsreynd að ég man hreinlega ekki hvort hef setið í limmósínu en það var ógleymanlegt að fara í þyrlu um árið. Ég hef að minnsta kosti aldrei komist nær Justin Bieber en þá ... (sami þyrluflugmaður).

 

HnetusmjörViðurkenni að ég les stundum bara fyrirsagnir og hef stundum of lítinn tíma eða nennu til að lesa betur. En þannig afla ég mér yfirborðsþekkingar á ýmsum málum og einnig get ég notað fyrirsagnirnar á ýmsan máta ... eins og nú á blogginu til að tala um mögulega skaðsemi hnetusmjörs.

 

(Ath. Ég er ekki að tala um Herra Hnetusmjör.)

 

 

Ég er með ofnæmi fyrir jarðhnetum, fæ aukinn hjartslátt bara við að finna lyktina af salthnetum (takk, Icelandair, fyrir að bjóða ekki upp á þær lengur) þótt sumt fólk, illa haldið af mannvonsku, myndi kalla þetta matvendni. Rúsínur og döðlur falla frekar undir það.

 

Ég hreinlega man ekki hvers vegna ég tók skjáskot af þessari frétt, það var á þessu ári og ekkert langt síðan, en fréttin er samt rúmlega ársgömul. Mér fannst þetta sennilega fyndið (af því að ég veit ekkert ógeðslegra en hnetusmjör og þetta var líka svona Vissiégekki-móment).

 

Núna er ég ferlega forvitin að vita hvernig í ósköpunum svona fyrirsagnir verða til. Hvaða spekúlasjónir urðu þess valdandi ... kannski að apapiss komist í snertingu við jarðhnetur með afleiðingum ... eða Bill Gates múti stærstu hnetusmjörsframleiðendum heims til að eitra fyrir okkur, fækka okkur? Maður hefur nú heyrt annað eins um hann ... blikk, blikk.

 

Ég legg til að Íslendingar hætti að flytja þetta inn, bara til öryggis (tíhí), og við borðum mysing í staðinn, mögulega blandaðan saman við kotasælu. Hugsa sér, það er heilt fylki/ríki í Bandaríkjunum sem helgar sig jarðhneturækt! Það er Georgíuríki með 42% af allri ræktun USA. Ef ég hefði nú fæðst í Georgíu og jafnvel orðið að vinna í hnetusmjörsverksmiðju alla tíð, og það væri alltaf hnetusmjör á borðum í staðinn fyrir venjulegt smjör, kokteilsósu eða sveppasósu, svo væri kannski hnetusmjörsgrautur í matinn í hádeginu á laugardögum, eins og grjónagrautur í denn, hnetusmjörsmaríneraðir hamborgarar í sjoppunum og svo framvegis ...

Mikið er ég heppin að hafa fæðst á Íslandi - þrátt fyrir kæsta skötu, þverskorna ýsu, siginn fisk, brauðsúpu, nætursaltaðan þorsk, súrt slátur og annað í þessum dúr sem yrði mögulega (sennilega) skilgreint sem efnavopn ef maður lenti í öryggisleit á erlendum flugvelli með slíkt í töskunni.


Jólakúlublæti, fúlar gæsir og óvænt jólavinna

Nóg að geraSíðasti fáránlega rólegi dagurinn í bili ... ég hef kvartað stöðugt yfir því að hafa ekki nóg að gera, eða að fá ekki fasta vinnu (tvær) fyrr en EFTIR áramót. Ég var orðin sæmilega sátt við rólegheitin, að skreyta og jólast í (drepleiðinlegum) hægagangi þegar ég fékk símtal undir hádegi í dag. Heljarinnar yfirlestur fram undan, svipað og sl. haust þegar ég átti að vera að pakka niður og var að auki með leikskólakvef. Alveg dæmigert, hugsaði ég, akkúrat þegar ég ætti að fara að skreyta jólatréð og svona ... en hló nú samt ofsaglöð innra með mér, hrikalega ánægð með að geta unnið eitthvað spennandi.

Á morgun berst mér fyrra handritið svo ég verð meira og minna föst yfir því á næstunni. Það síðara kemur svo á milli jóla og nýárs og því verður skilað áður en önnur vinnan af tveimur hefst snemma í janúar. Gleði, gleði.

 

Þessi "önnur vinnan" er eftir hádegi í u.þ.b. mánuð sem þýðir að ég get ekki pantað frá Eldum rétt á meðan. Bílstjórinn kemur iðulega um kl. 13.30 á mánudögum. Það verður gífurleg áskorun því ég er ekki sérlega góð í að elda nema með sérvöldu hráefni og uppskrift (sem sagt Eldum rétt) - spurning um að ganga smáspöl eftir vinnu og kaupa eitthvað tilbúið; sushi, Lemon eða slíkt. Veit ekki um gott kaffihús í grennd, þyrfti samt að kanna það, oft hægt að fá súpu á slíkum stöðum. Gæti reyndar búið til fullt af lasagne, grænmetissúpu og annað í þeim dúr sem ég kann án uppskriftar, fryst og hitað, nenni ég því? Það er eiginlega allt núna sem beinir mér út á hjónabandsmarkaðinn aftur, ég sem hélt að ég væri hætt þessu strákaveseni. Vissulega algjör dýrð að koma heim úr vinnunni og einhver búinn að elda. Ef þið vitið um einhvern myndi það spara mér mikinn tíma sem ég myndi annars eyða í bakaríum og bókabúðum, sérstaklega í Skotlandi.

 

Fann ljómandi fína lausn fyrir jóladag, fyrir hangikjötshatandi fólkið (já, það er til, svo fer hangikjöt líka illa í suma), pantaði tvöfaldan skammt af ljómandi góðum kjúklingarétti sem ég elda á jóladag, spennandi meðlæti líka. Frá Eldum rétt, sem sagt, kemur á Þorláksmessu. Kvöldmatur fyrir okkur stráksa og svo stór skammtur fyrir jóladag.

 

GæsirFór út í garð í dag, bak við hús, með heilan helling af matarleifum til að gefa svöngu gæsunum sem halda hér til. Þegar ég var búin að stappa niður snjóinn í smáparti af garðinum og byrjuð að dreifa kræsingum þar, tók ég fyrst eftir gæsahópnum sem var við Sæbrautarenda blokkarinnar, ég var garðmegin. Ég kallaði á þær en eitthvað vandamál með traust virtist hamla þeim frá því að koma hlaupandi. Til að sýna að ég væri sauðmeinlaus fór ég að fleygja smávegis mat í áttina til þeirra sem virtist ætla að virka. Alfa-gæsin í hópnum virtist ánægð í fyrstu en þegar hún nálgaðist enn meira fór hún að hvæsa grimmdarlega á mig, sennilegast af vanþakklæti. Gæsir nútímans eru ekki jafnljúfar og þessar sem voru við Tjörnina í denn. Algjörar frekjur, eflaust að skammast yfir því að brauðið hafi ekki verið nógu nýtt eða ekki nógu mikið krem á kökunni, of mikið kolvetni, e-efni, kakó á kostnað súkkulaðis ... 

Þótt ég sé brjáluð út í gæsirnar, aðallega alfa-kvikindið, sleppa þær ekkert við mig. Mér finnst að afgangar eigi að fara í gæsir og aðra fugla yfir vetrartímann og máva og fleiri á sumrin. Ég er rosalega glöð yfir því að hafa fundið fínan fuglamatarstað fyrir matarleifarnar, eins og ég átti á Akranesi. Elsku krumminn sem ég sá uppi á þaki í blokkinni í dag, lagði eflaust ekkert í hvæsandi gæsir eða kýs bara vegan og ketó.

 

Fór fyrst með rusl í tunnurnar niðri/úti. Er búin að finna út að það fer meira plast frá mér en pappi og ansi lítið fer í það óflokkanlega sem er það eina sem við getum fleygt beint í sorplúgu á hverri hæð. Skagamenn eru nýkomnir í "nýja" kerfið svo ég byrjaði ekki að flokka almennilega og rétt fyrr en við flutningana í bæinn í október. Þetta var mjög þægilegt á Akranesi ... pappi og plast saman í stórar tunnur, allt hitt í minni tunnurnar. Kerfið venst mjög fljótt og ég keypti nýlega í Bónus bunka af bréfpokum undir matarúrgang. Fæst frítt hjá Sorpu, skilst mér, en mun seint nenna að taka strætó í Sorpu til að fá ókeypis poka.

 

DavidBorgarlífið er ljómandi fínt - og alveg frábært að hitta fólkið mitt svona miklu, miklu oftar - en ég fæ nú samt reglulega sting í magannn af söknuði eftir Skaganum - bara öllu þar. Er meira að segja enn meðlimur í sérstökum Skagahópum á fb (sem gerir aðskilnaðinn léttbærarari) þótt ég skipti mér lítið af sem brottflutt.

Er byrjuð að skreyta örlítið fyrir jólin, það var svo hárrétt ákvörðun hjá mér að geyma jólaskrautið í skápum hér uppi í stað þess að fara með það niður í geymslu.

 

Ein jólakúla lifði ekki af flutningana í bæinn ... nokkuð gömul sú, með málaðri mynd af Akraneskirkju og ártalinu 2006, ég fékk hana í jólagjöf það sama ár. Ég er ekki vanþakklát gæs svo í staðinn fyrir að gráta þá kúlu gleðst ég frekar yfir því að eiga margar ótrúlega flottar kúlur, m.a. eftir listakonuna Tinnu Royal. Eins og þessa með elskunni honum Hasselhoff. Sjá mynd.

 

 

Enn er jólakúlan með Donald Trump í sérstöku uppáhaldi en hana keypti ég 2018 í jólabúð úti í Flórída ... af því að mér fannst hún svo hræðileg. Þá var Trump forseti og myndin af honum með fágætt jólabros á vör. Svo held ég líka rosalega mikið upp á kúlurnar eftir Tinnu - bláan ópalpakka, dós með Orabaunum, malt-og-appelsín, kókosbollu, Die Hard-kúluna og bara alls konar. Fæ stráksa til að skreyta jólatréð með mér á Þorláksmessu og þá fá allar þessar skemmtilegu jólakúlur að njóta sín.    


Þú ert samt feit - og ýmsar jólajátningar

Útsvar 2007Gærdagurinn hófst með hálfgerðu áfalli. Vinkona hafði sent mér skilaboðin: Geturðu sent mér símanúmerið þitt! sem er öruggt dæmi um að feisbúkksíða viðkomandi hafði verið hökkuð. Ég hringdi strax í hana:

„Vissirðu að það er búið að hakka þig?“ spurði ég döpur.

„Ha, nei, af hverju dettur þér það í hug?“

„Hakkarinn bað um símanúmerið mitt í messenger. Algengasta gabbið á fb og hefur verið lengi.“ 

„Nei, þetta var nú bara ég,“ sagði hún. „Áttaði mig á að ég er með rangt númer en nú er ég komin með það fyrst þú hringdir,“ sagði vinkonan alsæl. Hún er nýflutt aftur til Íslands og samskipti okkar hafa iðulega verið í gegnum messenger en alltaf gott að vera með rétt símanúmer.

 

Við ákváðum að bregða undir okkur betri fætinum og fara í Kringluna. Mig vantaði strætókort, hana vantaði sundhettu og andlitskrem. Kortið fékkst á upplýsingaborði Kringlunnar sem var svo vel falið á 2. hæð að það þurfti að ganga alla Kringluna, báðar hæðir, til að finna það. Hefði þurft annað upplýsingaborð til að spyrja um staðsetningu þess. Leiðbeiningar á íslensku fylgdu með kortinu, takk, strætó. Ég þarf sem sagt að skrá mig inn á Klappið til að fá að kaupa miða og látið þá á kortið. Þetta var öðruvísi í gamla daga: „Fá fullorðinsmiða, takk (eða mánaðarkort).“ Já, gjörsovel, það gera mörgþúsundkrónur.“ Og ég hoppa upp í strætó, borga með einum miða af miðakorti sem dugar í mánuð, og ekkert vesen. En auðvitað er ég sjúklega þakklát fyrir þessi tækniundur öll sem auðvelda lífið til muna ... Ég er alla vega sérlega þakklát fyrir að Strætó skyldi hafa fyrir því að vera með leiðbeiningar á íslensku, ekki gerir Elko það þótt maður kaupi fordýra þvottavél hjá þeim. Það var ekki troðfullt í Kringlunni, enda klukkan bara rétt um hálftvö, svo löngunin til að hlaupa út kviknaði ekki. Náði meira að segja að kaupa jólahandsápu (með sítrónugrasi, sjúklega góð lykt) fyrir heimilið af elskunum í Sólheimum sem voru þarna með flottu vörurnar sínar.

 

Mynd 1: Í gær endursýndi RÚV Útsvarsþátt - ég fékk skilaboð um það þar sem ég sat í vinkonukaffi, búin að steingleyma sjónvarpsstjörnuferlinum, sem er ólíkt okkur Þingeyingum að gera. Við höfum leyfi til að monta okkur, neimdroppa og hvaðeina, hefur mér skilist af ættingjum mínum. Ég þorði ekki að horfa nema rétt á byrjunina en held að þetta sé þátturinn sem ég brilleraði í Oliver Twist-spurningunum þremur, nema var aðeins of stressuð að muna að Oliver vann ekki hjá líkkistusmiði, heldur útfararstjóra. Dómarinn svo grjótharður ... en við unnum nú samt, minnir mig. Sigrún vissi allt um Indland, Bjarni allt um landafræði.

 

Sé á myndinni að ég var ekki offitusjúklingur þarna, eins og mér fannst ég vera (oftast). Hvernig hef ég nennt að eyða stórum hluta af lífinu í áhyggjur af aukakílóum sem gerðu mér ekkert slæmt heilsufarslega? Skilst reyndar að heilbrigðiskerfið geti verið slæmt í fitufordómum, ég var t.d. skömmuð fyrir að hafa bætt of miklu á mig þegar ég var komin níu mánuði á leið árið 1980, samt var ekki arða af aukaspiki á mér og ekki mikill bjúgur ... Ég var alveg miður mín yfir því. Ég lét ekki tékka á stórum fæðingarbletti því ég óttaðist skammir fyrir offitu, bletturinn reyndist svo vera skaðlaus þegar ég loksins þorði ... þá hvort eð er á leið í eina uppskurð lífs míns (teratoma) en enginn skammaði mig. Ég bætti á mig eftir að ég hætti að reykja fyrir bráðum fimm árum en þau kíló eru að mestu farin núna. Ég fann vel fyrir þeim (erfiðara að ganga upp stigana) og vildi losna við þau.  

 

Fitufordómar1Ég fylgist með Kötlu (Systur&makar) á Instragram og hún sýnir oft fötin sem hún hannar og selur á hinum ýmsu samfélagsmiðlum. Nýlega setti hún inn auglýsingamynd af sér á Facebook, í fallegum kjól sem hún sagði vera klæðilegan, klæddi af ... eitthvað slíkt. Einhver fyndinn karl setti athugasemd: "Þú ert samt feit!" Hún var komin næstum sjö mánuði á leið á myndinni og hann tók eflaust ekkert eftir því vegna þess líklega að kjóllinn var svo klæðilegur, honum fannst hún bara ekki nógu mjó og fann sig knúinn til að benda henni á það.

Þetta er svolítið íslenskt ... vinkona mín, búsett í USA, vill meina það. Hún fór í matarboð ytra þar sem önnur íslensk kona var viðstödd og þeirri konu fannst hún knúin til að benda bandarískum manni sem hún þekkti ekkert, á að hann yrði að gera eitthvað í sínum málum, hann væri allt of feitur. Kanar eru mjög kurteisir, hann lét þetta yfir sig ganga án þess að drepa hana, en bandarísk vinkona vinkonu minnar, var stórhneyksluð á þessum dónaskap ... eins og maðurinn vissi ekki af þessu sjálfur. Ég get varla ímyndað mér að hann hafi drifið sig í megrun við þetta.

Ef einhver gefur mér óumbeðin ráð (þú myndir virka grennri ef þú létir minnka á þér brjóstin, þú ættir að gera þetta, gera hitt, bla bla) finnst mér það bara pirrandi en ekki hvetjandi. Ráð eins og: Ég hef heyrt að B1-vítamín sé gott við hásinarveseni, er aftur á móti mjög gagnlegt og virkilega vel þegið. Hef kíkt eftir B1-vítamíni síðan ég heyrði þetta en ekki fundið. Mér myndi t.d. ekki þykja það vera dónaleg afskiptasemi ef einhver segði mér hvar það fengist.

 

Í bók sem ég hlustaði nýlega á, kom fram að flestir karlar óttist mest af öllu þegar þeir fara á Tinder-stefnumót, að konan reynist vera feit. Þeim finnst víst skipta minna máli hvernig þeir líta út ... Í Jurassic Park, fyrstu myndinni, var bara "útlitsgallað" fólk étið af risaeðlum. Þybbinn karl (of kors) og svo strákur sem gekk með gleraugu. Ekki skrítið þótt þetta síist inn í mann, þetta er svo víða! Gjörsamlega óþolandi.     

 

JólastressNú eru víst börn og barnafjölskyldur að fara yfir um af jólastressi því það er svo mikið að gera áður en jólin koma. Ef börnin eru í tómstundum, skóla, tónlistarskóla, íþróttum er brjálað að gera. Ekki bara tónleikar, jólastund, jólaföndur, heldur bara jóla-allt í tengslum við þær! Það þarf líka að fara út í skóg og höggva niður jólatréð. Það eru litlu jólin, stóru jólin, jólahlaðborðin, jólaglögg ... Mikið skil ég að þetta sé stressandi. Og mikið hefur allt breyst á ekkert svo rosalega mörgum árum ... 

 

Þegar ég var lítil þurfti sko að hafa fyrir því að finna einhverja oggulitla jólastemningu á aðventunni. Í desember beið ég í örvæntingu (koma jól?) eftir því að upplýst risastór stjarna kæmi upp á þak á síldarturni við Akraneshöfn. Þegar hún kom upp, kæmu sennilega jól. Samt komu þau ekki fyrr en eftir óbærilega langan tíma, alveg tvær eða þrjár vikur. Það tíðkaðist ekki að gera neitt jólalegt fyrr en nánast á Þorláksmessu og varla það!!! Það var vissulega bakað fyrir jólin en það mátti ekki smakka neitt fyrr en jólin komu og þá var svo mikill matur alltaf og ekkert pláss fyrir eldgamlar smákökur þá. Svo voru ótrúlega oft bein (lærisneiðar?) í jólamatnum og hræðilega erfitt að skera í kringum það fyrir sjö ára krakka sem fannst matartíminn og uppvaskið á eftir bara tefja jólin (gjafirnar) frá því að koma. Maður slapp oftast við að skræla brúnuðu kartöflurnar, til að sýna smájákvæðni.

Jólin í gamla dagaÞað þurfti að fara ógeðslega snemma að sofa frá 11. desember svo jólasveinninn gæfi manni eitthvað í skóinn, sem var samt aðallega eitthvað drasl (innflutningshöft) eins og mandarínur og minnsti skammtur sem hugsast getur af súkkulaði (þarna voru lögð drög að súkkulaðifíkn fullorðinsáranna). Svo fékk bara mamma að skreyta og stofan var harðlæst þangað til klukkan sló sex á aðfangadagskvöld. Þá fyrst mátti kveikja á jólatrénu og þá varð allt rosalega heilagt. Held að fáir hafi áttað sig á einu ... en hún er engin tilviljun þessi tíska að hafa stofur nútímans alveg galopnar og tengdar eldhúsi og borðstofu, og ekki nokkur möguleiki að loka hana af eða læsa ... Arkitektar nútímans eru fyrrverandi svekktir krakkar sem fengu ekki jól fyrr en kl. 18 á aðfangadag.

Að opna eina gjöf fyrir mat? Nei, þessi börn mættu ekki vera ofdekruð, það gerði þau bæði óþæg og vanþakklát. Við systkinin getum samt þakkað fyrir hvað mamma var mikið jólabarn, annars hefði bernska okkar verið enn hroðalegri. 

 

Ekki bara jólin voru skelfileg í gamla daga ... Ég get varla minnst á það ógrátandi enn þann dag í dag hvað það var lífshættulegt að fara út, komast í skólann. Ég reyndi að fela mig undir rúmi með bók til að lifa af en var dregin undan því og hent út. Á unglingsárunum var það í raun bara áskorun að komast lifandi yfir Snorrabraut, frá Norðurmýri að Austurbæjarskóla. Á Akranesi man ég eftir djúpum síkjum (ekki allar götur voru steyptar þá) sem þurfti að stökkva yfir, ísbjörnum sem átu lötu börnin sem voru léleg í leikfimi, hagléli sem gat handleggsbrotið mann ... 

Því var börnum ekki bara skutlað í skólann? Sko, ekki allir áttu bíla og það var álitið gera okkur svo gott að takast á við hætturnar, lífið sem biði okkar væri ekki dans á rósum ... Þetta var allt síðan þaggað niður (fréttafölsun) með ýmsum ráðum til að heilu kynslóðirnar færu ekki fram á skaðabætur frá ríkinu. Mín kynslóð er búin að vera á fullu við að passa að börn nútímans lendi ekki í þessu sama og hviss bang - þannig varð bílaþjóðin Ísland til.

Næsta kynslóð á eftir minni, foreldrar nútímans, tók jólin skrefinu lengra og nú er bara of gaman, of mikið við að vera, of mikið stress.     

 

Konur tortímaÍ dag er Reynum að gera allt vitlaust-dagurinn. Tveir menn, annar kenndur við frost og hinn við eld, fengu sömu snilldarhugmyndina - að tæta og trylla smávegis í lýðnum. Held að sá fyrrnefndi eigi vinninginn, með því að draga upp á dekk Indverja, búsettan á Íslandi sem hefur sterkar skoðanir á íslenskum konum. Þær indversku vita að þeirra staður er á bak við eldavélina. Þarna átti aldeilis að berja á fjandans femínistunum (kerlingum almennt) og í leiðinni blása í elda hatursbáls rassistanna. Tvær flugur í einu höggi! Sá "heiti" óskaði svo síonistum gleðilegra jóla á fb-síðu Sósíalistaflokksins, ekki við mikla gleði þar, en kaus samt pottþétt Arnar "lýðræðis" í kosningunum um daginn. 

Það vantaði bara skáldið, kennt við fjörð skerjanna, til að toppa fjörið ... sem samt misheppnaðist, það varð ekki allt vitlaust, nefnilega, flest fólk orðið vant svona rugli og skilur tilganginn, oft pjúra illgirni, sem liggur að baki. 

 

Liv Ful 3 3Þar sem ég sat í rólegheitum og snæddi síðbúinn hádegisverð (Eldum rétt) hringdi dyrabjallan. Frammi var sölumaður sem reyndi að fá mig til að styrkja Krabbameinsfélagið. Ég lét ekki bitna á honum "langrækni" mína í garð félagsins sem lagði niður brjóstaskimum fyrir Skagakonur, eða skerti þjónustuna þannig að konur þurftu að fara til Reykjavíkur til þess, og sumar hættu alveg að fara, eins og lagt var upp með, hlýtur að vera. Það vantaði lækna til að lesa í myndirnar (sem þeir gerðu fyrir framan tölvu í Rvík) og því varð með öllum ráðum að fækka konum.

 

Vegagerðin er í sömu vegferð, ætlar að draga mjög úr strætóþjónustu við Akranes, leið 57 mun svo á endanum pottþétt hætta að stoppa á Skaganum ... til að hjólkoppunum verði ekki stolið ... (Vegagerðin svaraði aldrei bréfinu frá mér þótt það væri skrifað á kurteislegu, hálfgerðu stofnanamáli, en þar komu fram skoðanir farþega sem benti á að eðli strætó væri að stoppa oft til að taka farþega upp í. Það væri afturför að breyta í rútusamgöngur þar sem fólki var skutlað í veg fyrir rútuna. Missti við þetta allt álit á Vegagerðinni. Hefur Akraneskaupstaður getu og vilja til þess að láta innanbæjarstrætó ganga langt fram á kvöld og allar helgar, eyði stórfé til að Vegagerðin geti sparað?

 

Ég sagði manninum frá Krabbó að allir mínir styrkir væru í gegnum netið. Hann brosti fallega, sennilega með samviskubit yfir því að trufla fólk svona á laugardegi, og spurði svo: „En ... ertu nokkuð vildarvinur félagsins?“ Eins og það væri ofboðslega eftirsóknarvert. Þá sagðist ég vera vildarvinur svo margra, sem er rétt, að ég gæti alls ekki bætt við mig, sem er líka rétt. Svo kvaddi ég og óskaði honum alls hins besta í huganum. Ég er ekki langrækin að eðlisfari, en hét því bara þarna í denn að styrkja aldrei framar félag sem gerði fólki erfiðara fyrir, viljandi.

 

Ætlunin var að byrja að jólaskreyta í dag en hver nennir því þegar Liverpool og Fulham keppa í fótbolta (og heilum níu mínútum bætt við)? Annars hékk ég í símanum í sófanum og fékk alltaf skilaboð í gegnum FotMob-appið: um rauða spjaldið, skoruðu mörkin og það allt nokkrum sekúndum ÁÐUR en sjónvarpið sýndi það, svo ég gat risið upp og horft ... Sem betur fer unnum við frækilegan varnarsigur (3-3), einum manni færri.


Tvö störf, ein kattkynsstjarna og mörg ráð

Starf nr. 2Upp úr hádegi í dag skellti ég mér í skjört og bomsur, pantaði bíl hjá Hreyfli og hélt síðan af stað í atvinnuviðtal í ljómandi fínni drossíu. Starfið er á sama sviði og það sem ég vann við hjá elsku Símenntun Vesturlands, eða að kenna útlendingum íslensku. Samt allt öðruvísi, aðrar kennsluaðferðir og sannarlega ekki síðri. Gaman að mæta í dag því þetta var lokadagur og mikil gleði ríkti með útskriftina. Hitti þar óvænt gamlan nemanda og það urðu fagnaðarfundir. Þetta var mjög langt atvinnuviðtal (mátti samt ekki vera styttra) og ég varð sífellt hrifnari, langaði mikið til að vinna þarna. Og ... viti menn, fyrsti vinnudagur minn þarna verður 6. janúar á nýju ári.

 

Nú bara verð ég að fara að læra á reykvíska strætókerfið, er svo illilega dottin út úr því eftir að hafa kunnað nánast allar leiðir utanbókar (sem unglingur), en giska á að til að sleppa við langar göngur í hálku eða án hálku (Klappið gefur 17 mín. í fyrsta strætóvali) væri hreinlega einfaldast að taka strætó nr. 12 hér á hlaðinu (2-3 mín. labb skv. Klappinu) og fara með honum upp í Breiðholt, í Mjóddina - og síðan þaðan með einhverjum vagni sem ég er ekki búin að finna út enn, í vinnuna sem er í 108 Reykjavík. Hitt nýja starfið mitt er í 200 Kópavogi og ég gæti gert nákvæmlega það sama með tólfuna, nema leið 4 fer þangað frá Mjódd. Sá í dag myndir frá biðstöðinni í Mjódd ... ekki fögur sjón, enda tekur því varla að ýta undir gleði og hamingju hjá strætólúserum, þeir enda hvort eð er flestir á því að kaupa sér bíl.

 

Sennilega hef ég ekki tíma til að finna mér þriðja starfið, það finnur mig vanalega, eða ég fær sendar bækur eða annað til yfirlestrar sem er alltaf mjög skemmtilegt. Fyrstir komu, fyrstir fengu ... mig. Svo þau sem ætla að hafa samband eftir áramót (tvö störf sem ég hef ekki fengið svar við) verða víst að sætta sig við eitthvað annað fyrst þau gripu ekki gæsina strax (tíhíhí).

 

Hvernig heldur maður svo upp á að hafa fengið góða vinnu, tvö áhugaverð og pottþétt skemmtileg störf frá og með janúar? Jú, með því að fá sér kaffibolla og rommkúlur.

 

Diego í A4Ég uppgötvaði allt í einu að  jólin eru alveg að koma og ég eftir að vera með jólahlaðborð fyrir mig og leynivinaleik, nema ég sleppi jólaglögg út af rúsínum. Mamma varð eitt sinn mjög "lasin" þótt hún borðaði bara ávextina í bollunni ... svo það væri ábyrgðarhluti að láta aðra starfsmenn mína, sem eru alltaf ég, borða rúsínurnar. Ég setti undir mig hausinn og stefndi á Skeifuna, fengist ekki örugglega eitthvað flott og algjörlega óvænt sem ég gæti gefið sjálfri mér, t.d. í Hagkaup?

 

En ... fyrst var það Diego, sæti Skeifukötturinn í A4. Ég keypti einn jólagjafapoka undir fyrirferðarmestu jólagjöfina frá mér í ár og einhenti mér síðan í að klappa frægustu kattkynsstjörnu landsins. Diego nennti ekki einu sinni að vakna, svo upptekinn var hann við að vera sætur og steinsofandi köttur ofan í körfu á ljósritunarpappírsbunkanum vinstra megin þegar komið er inn.

 

Hagkaup tók mér með kostum og kynjum. Ég ætlaði ekki að kaupa neitt sérstakt en tókst þó eyða ansi hárri upphæð þar. Nokkrar jólagjafir fengust þar (svona sætt aukadót) og sjálft hangikjötið. Tók sénsinn og keypti Hagkaupshangikjöt með minna saltmagni. Það er hamingjusamlega komið inn í ísskáp ... jólaís í frysti og ég keypti líka litlar frosnar vöfflur, meira upp á von og óvon, lét stráksa vita að mig vantaði brauðrist á heimilið ... en hann er ólíkindatól og kaupir eflaust gjafakort í Bláa lónið handa mér ... djók. Allir sem þekkja mig vita að ég er ekki hrifin af neinu svona blautu nema þá helst kaffi. Alls ekki neinu spa-dóti, hrollur!

 

Einnig keypti ég rommkúlurnar, eina vínsælgætið sem mér finnst gott, á þessum fyrra degi leynivinaviku. Ég er mjög spennt að vita hvað ég gef sjálfri mér á morgun, seinni dag leynivinavikunnar. Í kvöldmat snæddi ég jólahlaðborð ... en viðurkenni að mig langaði bara í sushi og keypti það, og það var æðislegt. Veit samt ekkert hvort ég geri eitthvað varðandi jólaglöggdæmið en hlýt að leysa það einhvern veginn.

 

Vildi að ég hefði tekið með mér í 108-túrinn í dag, sjúklega fallega vatnslitamynd sem ég fékk í innflutningsgjöf - það er víst afar gott innrömmunarverkstæði þarna í Ármúla 20. Ég þurfti eiginlega að velja á milli Kringlu og Skeifu, og valdi það sem þýddi styttri gönguferð (auðvitað). Í Kringlunni, uppi á annarri hæð, er víst hægt að kaupa sér fyrirframgreidd strætókort. Held að mig langi mest í þannig en svo gæti ég auðvitað þurft að fá mér mánaðarkort. Íslenskukennsluvinnan er fjórum sinnum í viku, frí á föstudögum, og hin vinnan meira eftir samkomulagi. Kannski næ ég fjögurra daga vinnuviku? Er það samt ekki of lítið fyrir vinnualka? Ég gæti farið að þrífa eftir kúnstarinnar reglum eða skreyta kökur - og birta á Instagram. Þá fæ ég loksins ókeypis skyr og snyrtivörur, kannski. Föstudagsfegurð - ef ég verð með snyrtivörukynningar. Föstudagsfínirí fyrir þrifin, föstudagsflottheit ef ég fer í kökurnar. Er hægt að læra almennilega á Instagram t.d. á YouTube? Kann eiginlega ekkert.       

 

Facebook rifjar upp:

Bubbi Morthens varð fimmtugur 6. júní 2006. Afmælistónleikarnir hans hétu 06.06.06. Svo kom 12. des. 2012, og þá skrifaði Matti Matt úr Dúndurfréttum m.meiru: „12.12.12. Er þá Bubbi Morthens ekki 100 ára í dag?“ (Elska svona (pabba-)brandara)

 

Ég var frekar dugleg að skrifa um sætukarlana mína og stoppistöðina kennda við þá, á feisbúkk í denn. Þeir komu inn í leið 57 (frá Akranesi) í Mosó og voru líka samferða smáspotta í leið 24 frá Mjódd (þegar ég vann í Garðabæ). Ég man að annar starfaði sem lögga á Dalvegi.

Fyrir 11 árum á Facebook:

Á Dalvegi: „Horfðuð þið á Sirkus Billy Smart í sjónvarpinu á gamlárskvöld þegar þið voruð litlir?“ spurði ég tvo töffara af sætukarlastoppistöðinni í Mosó. Þeir svöruðu hissa: „Þegar við vorum litlir var ekki komið sjónvarp á Íslandi.“ Þessi óformlega könnun breyttist óvart í hið mesta skjall.

Þarna ætlaði ég að fá þá í lið með mér ... ég þoldi ekki þessa þætti nefnilega og fékk nokkra smekklega fb-vini til að samsinna mér í því fyrir neðan þessa gömlu stöðufærslu. Ég þjáðist yfir þessum þáttum, fannst þeir tefja áramótin frá því að koma svo ég get ekki horft á neitt sirkustengt nema kannski mögulega í hryllingsmyndum.

Matthea: Alveg sammála, þoldi ekki Billy Smart.

Hildigunnur: Úff já, í minningunni voru þetta bara fáklæddar en glimmervæddar stúlkur sem róluðu sér. Leiðindin uppmáluð. 

Þórdís: Þeir klikka ekki MOSÓkarlarnir.

Þorkell: Þér til gamans ... (og svo fylgdi slóðin á wikipedia-síðu sirkussins.)

--------

Konan mín bað mig um að fara með kóngulóna út í stað þess að drepa hana. Ég fór út, fékk mér nokkra drykki. Næs gaur. Hann er vefhönnuður.

 

Bókamálin:

Bækur 2Ég er á síðustu millimetrunum í bók á Storytel, þeirri annarri sem telur niður dagana til jóla. Rómantísk dramasaga, smáfyndin á köflum, rembist samt aðeins við léttleikann. Rithöfundar, nefni engin nöfn, þurfa að fara að gyrða sig í brók varðandi rómantíska sögustaði. Einu staðirnir sem þeim dettur í hug eru bakarí og bókabúðir, helst í Skotlandi en Svíþjóð kemur líka til greina. Hvað varð um skrifstofur eða skemmtiferðaskip, fiskbúðir eða fóðurblöndur?

Svo verð ég alltaf pínkupirruð á sögupersónum (kvenkyns) sem ofhugsa hlutina. (Við áttum dásamlega ástarnótt í gær en hann virkar svo kuldalegur í dag, sama þótt hann sé á kafi í vinnu, hvað ætli mágkona mín hafi sagt um mig við hann í gær þegar hann sótti hana á rútustöðina? Örugglega eitthvað slæmt ...)

 

Mynd: Bókahilla í vinnuherberginu, þar leynist engin spjaldtölva en ég ætla samt að leita aftur, hillu fyrir hillu, um helgina, tvær hillur við vegginn á móti. Sjá umfjöllun ögn neðar.  

 

Þoli heldur ekki þegar konur í bókum tala illa um t.d. fótbolta, eins og það sé algild skoðun okkar stelpnanna. Aldeilis ekki! Ég þekki karla sem nánast hata fótbolta og myndu eflaust fá hroðalega útreið í rómantísku bakarís- og bókabúðabókunum fyrir vikið. Ég er ekki að biðja um bækur á borð við Ástir og örlög á holdsveikrahælinu ... ég þarf bara nýjar hugmyndir ... fyrir sjálfa mig. Ég hef prófað að hanga í bakaríum, alveg árum saman og það er sko það fitandi að aðeins undirborðslegir karlar litu við mér! Vann meira að segja eitt sinn í bakaríi (fyrir milljón árum) en uppskar ekki hið minnsta daður. Bókabúðir eru ögn skárri en hér í 104 finnst ekki bókabúð, eða jú, Nexus í Álfheimum sem er samt ekki hefðbundin bókaverslun - en hér eru tvö bakarí, í Holtagörðum og Álfheimum. Sjáum til þegar ég nenni að fara að ganga svolítið um hverfið, svona þegar vorið nálgast.

Í dag fór skrefafjöldinn vel yfir 2.000, samt var vont veður - og þungar byrðar (hangikjöt og fleira) sem urðu til þess að ég gekk ekki alla leið upp við heimkomu. Það er erfiðara að fylgjast með skrefum hér heima, ég hreyfi mig helling, mun meira en í himnaríki, veit ekki hvað veldur, en þyrfti að venja mig á að geyma símann í vasanum því hann mælir auðvitað engin skref á meðan hann liggur kyrr einhvers staðar. Ég tími varla að kaupa mér heilsuúr, sjáum til á nýju ári þegar ég verð farin að vinna á fullu. 

 

Bækur IPóstkassinn minn hérna niðri er nú meiri dýrðin og iðulega uppspretta margslunginna gleðitilfinninga. Þangað rata velkomnar bækur, jólakort (bráðum, þetta eina), tilkynning frá borginni um vegleg fasteignagjöld (svo dásamlegt að vera boðin velkomin til borgarinnar af borginni) og í dag beið mín geisladiskur og fallegt bréf! Ég VISSI að það hefði verið rétt ákvörðun að fara með vinkonum mínum í kosningakaffi hjá VG þar sem ég hitti elskuna hann Gumma eftir 50 ára aðskilnað, þennan sem vann með mér nánast ófæddri, ég var svo ung, í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. Ég vissi svo sem að hann væri í Spöðum, þeirri flottu töffarahljómsveit, en ... hann var að senda frá sér geisladiskinn Ferhendur Tjaldarans (Bergþór Pálsson syngur lög Guðmundar Guðmundssonar við ljóðaþýðingar Magnúsar Ásgeirssonar og fleiri kvæði). Hlakka til að hlusta, jafnvel þótt þetta líkist ekki Jethro Tull, eins og hann bendir á!

Inni í stofu, í hillu fyrir neðan sjónvarpið, bíður þessi fíni ghettoblaster sem hefur alveg bjargað mér þegar mig langar að hlusta á tónlist í stofunni. Youtube-tónlistarveitan hefur bjargað tónlistarhungri mínu í vinnuherberginu en veggir hér eru svo þykkir að ég yrði að stilla á hæsta ef mig langaði að hlusta á tónlist við t.d. eldamennskuna. Það er ekki fallegt að gera í fjölbýlishúsi. Á reyndar tól og tæki til þess að hlusta víðar með aðstoð símans en þau eru sennilega á sama stað og týnda spjaldtölvan. Ég fékk annars fínar ábendingar á feisbúkk í gær um mögulegan felustað tölvunnar:

 

Ertu búin að leita í fötunum þínum, t.d. nærfötum?

komment: Gurrí er einmitt sú manngerð sem er útsett fyrir að týna raftækjum innanklæða ...

komment: ... meinti sko í fataskápnum.

Er hún í blaðagrindinni eða í bókaskápnum?

Ein sagðist tala við meinstríðinn löngu látinn afa eiginmannsins (sem hún hitti aldrei) og biðja hann um að skila hlutnum ... getur svo gengið að honum skömmu seinna. (Þetta er svona Harry Potter-hjálp, eins og mig vantar)

 

Önnur sem kommentaði þekkir konu, Chippewa-indjána, sem heldur því fram að hús eigi það til að taka hluti ... og skila þeim svo þegar þeim sýnist. Og þegar þau skila taka þau jafnvel eitthvað annað í staðinn!

 

Mynd: Helgin fer líka í að grannskoða þessar hirslur, bæði hvítu og svörtu. Búin með skúffur og skáp: engin tölva, hillur skoðast um helgina, tvöfaldar raðir nefnilega ... og svo eru blaðabunkar (tímarit) neðst í svarta skápnum.

 

Það var styst frá borðtölvunni inn í svefnherbergi til að opna efstu skúffuna í kommóðunni og gramsa í nærfötum og náttfötum. Engin tölva. Blaðagrindin: tékk, ekki þar. Bókahillur eru þrjár í vinnuherberginu, tvær háar, ein lág. Sjá mynd hér ofar af annarri háu við hliðina á skrifborðinu. Svo enn meira af bókum í samstæðunni inni í stofu. Ég myndaði mögulega staði ... en fataskápurinn inni í herberginu mínu liggur líka undir grun ef ekkert finnst í bunkum og hillum. Þarf að sækja jólaskraut inn í skápinn og ætla að leita vandlega í leiðinni. Helgin fer í að skreyta og leita ... fínasta plan. Gestir samt velkomnir, nóg kaffi til, ef ég fæ nægan fyrirvara baka ég smákökur! Passið ykkur á hálkunni fram undan, elskurnar.


Týnda tölvan og möguleg tilvistarkreppa kattanna ...

SpjaldtölvaFurðulegt háttarlag húsmóður ræður hér ríkjum að mati kattanna. Þeir stara á mig þegar ég veð um íbúðina og opna hinar ýmsu hirslur til að gramsa í þeim. Horfi annað slagið rannsakandi, jaðrar við grimmdarlega, á bókahillurnar í stofunni og kíki líka á aftari bókaraðirnar í leit að einhverju svörtu (hulstrið) í bókarstærð. Jú, spjaldtölvan er týnd og hefur ekki sést síðan í október. Ég hafði samband við þau sem hjálpuðu mér við að koma mér fyrir en ekkert þeirra gekk frá spjaldtölvunni neins staðar, eins og ég vonaði. Mér var bent á að leita í blaðabunkum (tímarit) ... sem eru reyndar núna komnir í snyrtilega bunka á smekklegum stöðum, auðvitað, og ein giskaði á að hún væri enn ofan í kassa - held samt ekki því ég man eftir henni hér í litla vinnuherberginu þegar allt var í kössum og drasli. Held að ég hafi stungið henni einhvers staðar á sniðugan stað og kannski finnst hún ekki fyrr en eftir 18 ár, þegar ég flyt næst, ef ég held í hefðir. Hvar er Harry Potter þegar maður þarf á honum að halda? Hlusta núna á Sálumessu Mozarts en það er tilviljun, tengist ekki hvarfinu, ég hef ekki gefið upp alla von. Ég er vissulega berdreymin (sjá nýlegt blogg) en miðað við árafjöldann á milli þeirra tveggja drauma er fljótlegra að flytja eftir 18 ár til að finna hana.

 

7. okt.Annars eru kettirnir enn svolítið að finna taktinn eftir flutningana, og kannski aðallega að eftir hafa misst Kela sem öllu stjórnaði. Hann lék við Mosa (10) og Krumma (13) til skiptis, þeir tveir hafa aldrei verið sérstakir vinir (alls ekki samt óvinir en stundum abbó ef hinn fékk meiri athygli) eða leikið sér saman, þeir gert tilraunir nokkrum sinnum hér en það verður svo ekkert úr því. Mögulega tilvistarkreppa.

Krummi hefur orðið enn meira kelinn og vill nánast liggja ofan á andliti mínu til að komast enn nær mér, svo mikla ást sýnir hann. Hann nánast kæfir gesti mína í gæsku og suma meira en aðra.

Mosi vill alltaf vera nálægt manni, eltir mig nánast í sturtu, og sækist eftir klappi. Báðir sofa mikið sem er kannski eðlilegt, enda svo sem farnir að eldast. Ég nota rauðan leiserpunkt fyrir Mosa til að elta svo hann hreyfi sig meira en ... hann hleypur mestmegnis í spik, elsku karlinn. Ég, gúglmeistarinn sjálfur, kíkti á netið og leitaði að fræðslu. Sá þar ráð um að sniðugt væri að leika við þá á daginn til að örva þá, ég keypti reyndar upptrekkjanlega mús nýlega sem Mosi nennir að elta í tíu sekúndur, þriðja hvern dag. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af þeim, þeir eru heilsuhraustir en kannski aðeins of ungir til að leggjast í kör. Hluti af þjálfun þeirra af minni hálfu er að hafa opnað aftur fyrir efri skápana - þeir þurfa að hoppa svolítið hátt upp, reyndar ekki alla leið af gólfinu, heldur af stól, og svo niður aftur, það gerir þeim vonandi bara gott.

 

Myndin af köttunum var tekin tveimur dögum eftir flutningana, þeir búnir að uppgötva ævintýraskápinn sem hefur verið griðastaður þeirra þegar hundar og litil börn koma í heimsókn. Þeir eru vinalegir hvor við annan en ég vona að þeir fari að leika sér saman. Ég fór að rannsaka allar ljósmyndir sem ég tók eftir að ég flutti, eða þarna í október, en sé ekki spjaldtölvuna á neinni þeirra. Hún er á of "góðum" stað. 

 

CultFacebook

Hvað bendir til þess að þú sért í "sértrúarsöfnuði" þótt þú gerir þér ekki grein fyrir því sjálf/ur?

Margir svöruðu einhverju sem tengdist Trump, MAGA (make America great again) og öðru í bandarísku samfélagi, um Vísindakirkjuna, babtista og fleiri kirkjur, byssueign ofl. en sitthvað fleira fékk að fylgja með: 

- Þú veist svo miklu betur um flest málefni en sérfræðingar með langt nám að baki.

- Þú veist að það er merki um sjálfstæða hugsun að synda móti straumnum í hvaða máli sem er. 

- Þú ferð að hatast við eitthvað sem þú gerðir ekki áður, til að falla betur inn í nýja hópinn þinn.

- Leiðtoginn hefur alltaf rétt fyrir sér.

- Þú gengur bara í pilsi/serk og ert hætt að láta klippa þig.

- Þú hættir að fylgjast með fréttum, enda hvort eð er allt falsfréttir til að hræða almenning til hlýðni. 

- Þú veist að ýmsar reglur samfélagsins eru til þess gerðar að ná enn meiri stjórn á okkur.

- Þér er ráðlagt að vera í minna sambandi við gamla vini og ættingja, enda eru þau ekki jafnupplýst og þú.

- Nýju vinir þínir vita nákvæmlega hvernig á að leysa vandamál heimsins.

 

T 2Tíu bíómyndir ... með mesta áhorf allra tíma

1. Titanic

2. E.T.

3. Galdramaðurinn í Oz

4. Stjörnustríð

5. Hringadróttinssaga

6. Mjallhvít

7. Terminator 2 (sem hét hvað á íslensku?)

8. The Lion King (var það þýtt yfir?)

9. The Jesus Film (?)

10. Guðfaðirinn.

 

Man hreinlega ekki hvort ég var búin að birta þennan lista yfir bíómyndir áður hér á bloggi ... og veit heldur ekki hvort þetta er rétt, eða að þessar tíu myndir eigi áhorfsmetin. Það er alveg trúlegt svo sem. Ég fór með mömmu í bíó til að sjá Titanic og mig hefur aldrei langað til að sjá hana aftur. Svona sannsögulegar myndir enda svo margar illa og lífið er of stutt fyrir slíkar sorgir. Mig langar að fara að horfa á ofsavæmnar jólamyndir og til þess vantar mig týndu spjaldtölvuna.


Ástarleiðrétting, uppgötvun korter í jól og útlitsfordómar

Auðvelt að ruglastBloggfærsla gærdagsins innihélt alvarlega villu ... Mér varð virkilega á í messunni þegar ég hélt því fram að ég hefði verið í sambandi við David Gilmour, gítarleikara Pink Floyd. Svo margir kærastar, svo stuttur tími, svo mikil gleymska. Það hef ég mér til afsökunar.

Frekar slæm mynd af Ginger hægra megin með David var það lík mér (vinstra megin), svona fljótt á litið, að ég gleymdi að kíkja í Handbók veiðikonunnar sem ég hef haldið nokkuð samviskusamlega síðan 1978. Ég var auðvitað au pair í London 1976, ekki byrjuð að halda skrá þá, og þekki þar að auki nokkra tónlistarmenn (Gummi bróðir kann t.d. á gítar) og ákaflega eðlilegt að ruglast. Ég bið Ginger og David innilega afsökunar og einnig Polly, núverandi eiginkonuna. Þetta kennir mér bara að fá mér aldrei framar ljósar strípur og permanent!

Ég er komin af afskaplega dökkri yfirlitum-móðurætt og hefði aldrei átt að lýsa á mér hárið. Mun snjallara að gera það núna þegar gráum hárum er farið að fjölga.

 

ÞvottavélinÞvottavélarsérfræðingur minn, snillingurinn hún Jenný, fékk líka á sig lygi nýlega hér á bloggi þegar ég sagði hana vera búsetta úti í Noregi. Auðvitað býr hún í Svíþjóð, ég vissi það en skrifaði samt Noregur. Afsakaðu þúsundfalt! Getur verið að gervigreindin sé farin að rugla svona í manni? Jafnvel rússneskir eða fyrrum ísraelskir leyniþjónustumenn sem eru víst til alls vísir þegar kemur að því að rugla í ríminu? 

Reyndar er víst bara greindarmerki að vera utan við sig og bulla, skilst mér og sennilega hefur greindin bara þvælst fyrir mér þegar ég "ranglendaði" hana.

 

Elsta vinkona mín, ekki að árum samt, kíkti loksins í kaffi til mín í dag í Ævintýrahöllina. Við kynntumst í Nýju blokkinni á Akranesi, kannski fjögurra eða fimm ára gamlar, lentum í sama bekk í barnaskóla og höfum haldið tryggð hvor við aðra alla tíð síðan. Hún er yfir sig hrifin af íbúðinni (eins gott), mætti með himneskar veitingar, eins og heimabakaðar smákökur, snúða og svo brauð sem hún greip með úr frystinum hjá Brauð&co. Við þiðn kom í ljós að brauðið var með ekki bara rúsínum heldur kúrennum líka. Ég hélt ró minni, merkilegt nokk, en hún var hugsandi yfir skorti á innihaldsmerkingum. Hún hefði aldrei keypt brauð með þessu innihaldi, en hún gat svo sem borðað það, viðurkenndi þessi mikla hetja og tók afganginn með heim, enda er ég ekki enn búin að koma mér upp fuglum hér í bænum sem þiggja afganga.

Það er náttúrlega ekki nokkur hemja að geta ekki borðað hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur. Þetta fyrsta og annað er svo sem ofnæmistengt en hitt matvendni. Ég beit reyndar óvart í gráfíkjustykki um daginn og varð samstundis flökurt svo fíkjur eru í hópnum og hafa svo sem alltaf verið.

 

JólaboðÉg er að uppgötva þessa dagana, mér til hryllings, að ég er ömurleg húsmóðir, kann vissulega að halda afmælisveislur og ryksuga en matarboð ... bara alls ekki. Man eftir tveimur í fljótu bragði, á Hringbrautinni (1988-2006). Skellti hrygg inn í ofn og allt var tilbúið klukkan 19 ... gestirnir þrír mættu klukkan 23 og áttu varla orð yfir hvað mjúki, ofeldaði hryggurinn var góður, það var ekki búið að finna upp gemsa þá svo ég beið hugstola eftir andlátsfréttum af þeim. Svo hef ég kannski tvisvar eða þrisvar, fyrir löngu, boðið upp á bestu súpu í heimi, grænmetis með chili ... mér finnst hún mjög góð þótt ég sé ekki mikil súpukona. Jú, eitt sinn stóð ég heilan dag og undirbjó indverskan mat fyrir 2-3 vini - allt í lagi maturinn en samt var ein sósan þunn en átti ekki að vera það. Hefði ég keypt Korma-sósu í krukku og sett yfir kjúkling hefði það bragðast betur og einnig litið betur út ...

 

Ég hef árum saman fengið nokkra ættingja í hangikjöt á jóladag. Það getur ekkert klikkað þar, ég sýð hangikjötið á Þorláks eftir leiðbeiningum á umbúðum, kæli það og geymi í ísskáp. Mamma bjó alltaf til uppstúfið en systir mín tók við af henni með það. Svo tókst mér af mikilli snilld að opna dósir með baunum og rauðkáli, og kaupa laufabrauð ásamt malti og appelsíni. Ógurlega gaman, alltaf. En ... hangikjöt fer ekkert sérlega vel í fólk (ég fæ t.d. bjúg en læt mig hafa það einu sinni á ári) og sífellt færri borða það, virðist mér. Ég yrði að finna eitthvað annað með því Pálínuboð kemur ekki greina. Lausnamiðaða systir mín stakk upp á að ég hefði t.d. lítið lambalæri líka og ... mér hefur nánast verið flökurt af stressi síðan.

 

 

Eldum réttÖll eldamennska mín miðast nefnilega við hversdagsmat og síðustu árin oft Eldum rétt-rétti. Ég kíkti á jólamatseðilinn 2024 hjá Eldum rétt og íhugaði að kaupa kannski af þeim auka-jólamat og elda eins og meistari ... Eina sem kemur til greina fyrir jóladag er Wellington-steik ... og hnetueftirréttur - AFTUR, sá sami og í fyrra og um páskana og bara alltaf á hátíðum. Hnetuofnæmi er eitt algengasta ofnæmi í heimi, elsku Eldum réttið mitt!!!

 

 

Ég kann auðvitað ekki við að bjóða upp á lasagna eða plokkfisk um jólin svo ég verð bara að játa vanmátt minn þegar kemur að matarboðum. Með aðstoð hjálpsamrar systur sem hristir veislur fram úr erminni án þess að blikna eða svitna, og þolinmóðra gesta býst ég við að þetta gangi samt upp. Ég viðraði áhyggjur mínar við litháíska nágranna minn í gær og hann vill meina, eins og systir mín, að læri sé auðvelt að elda og gott að borða, kannski ekki með uppstúfi samt - en það er hægt að kaupa góðar sósur og nýta meðlætið með hangikjötinu! 

Þetta er alla vega sagan á bak við uppgötvun mína um hversu hræðileg húsmóðir ég er. Ég hef ekki hugsað út í þetta áður - fer sorglega sjaldan í matarboð og held sjálf aldrei matarboð. Hvernig er hægt að lifa í rúm 50 ár (aldursleynd nema í afmælisveislunni) og komast upp með svona? Ætli sé hægt að fara á skyndi-örnámskeið í Hússtjórnarskólanum? Ef einhver fær hugmynd að einhverju fínu (ekki reyktu), enn einfaldara en læri, þigg ég öll ráð til að taka vel á móti elsku fólkinu mínu án þess að fara yfir um á taugum.

 

Passa illa samanNýlega sá ég ljósmynd af leikaranum Sean Penn (64) ásamt kærustu sinni, Valeriu Nicov (30) og yfirlýsingu um að þau litu svo bjánalega út saman, ættu illa saman útlitslega ...

 

 

Mér finnst svona lagað alltaf bæði hallærislegt og illgjarnt en gat þó ekki annað en hugsað um sjónvarpspar/-hjón sem mér fannst aldrei og finnst ekki enn passa saman útlitslega. Bæði alveg stórhugguleg og svakalega góð og allt það, en ... samt. Sem sagt pabbinn og mamman í Húsinu á sléttunni. Ég legg ekki meira á ykkur ... Ég hugsaði þetta alltaf þegar ég horfði (stundum) á Grenjað á gresjunni í gamla daga en hef ekki hugmynd um af hverju þau passa bara alls ekki saman í mínum huga. Mér finnst þetta ekki oft, hjón og pör iðulega mjög ólík í útliti en passa fínt saman, en í þessu tilfelli hefði ég valið annan leikara með henni eða aðra leikkonu með honum.        


Endalaus heppni og gæfa, eða hvað ...

FyrirsætuferillBúin að fara í tvö atvinnuviðtöl, fæ annað starfið og byrja eftir áramót, og svo er annað viðtal í vikunni sem ég er spennt fyrir og þar hefst vinnan líka eftir áramót. Spurning hvort ég láti ekki tvö störf duga, ef ég fæ þetta ... langar vegalengdir og þar með tímafrekar strætóferðir spila inn í. Reyndar helgarfrí í báðum svo auðvitað gæti ég bætt við mig vinnu þá. Hvað er að mér? Alveg óvart valdi ég starfsvettvang (eða hann mig) sem ég get næstum verið í til dauðadags.

 

Ég er svoooo fegin að ég lagði t.d. ekki fyrir mig atvinnumennsku í hnefaleikum eða fótbolta. Vissulega voru fyrirsætustörf áberandi um tíma ... forsíðan á völvublaði Vikunnar 2007 (mamma hélt að ég væri völvan það árið og sagði það öllum!), svo var heilsíðumynd í heilsutímariti um áhrif járnskorts á líkamann. Sjá mynd. Stjörnuljósmyndarinn Raggi Th. tók myndina en hann hefur hlotið mikla frægð um heim allan fyrir rosalega flottar eldgosamyndir. Þessi myndataka var fín æfing fyrir hann, þarna á síðustu öld, svo heit var ég. En mér skilst að maður hætti að þykja fagur eftir því sem árum og hrukkum fjölgar svo fyrirsætubransinn reyndist ekki henta mér þótt ég hafi verið hrukkulítil ótrúlega lengi. 

 

Við DavidÉg hef svo sem ekkert verið að flíka frægum eiginmönnum eða kærustum lífs míns nema þá í gríni en ég rakst á þessa mynd nýlega og þurfti virkilega að hugsa mig um hvort við David hefðum náð að giftast eða ekki. Þetta var á hryllilega permanent-tímabilinu þegar ég reyndi að verða ljóska sem klæddi mig ekki en ég var líka undir áhrifum frá Önnu frænku sem sagði alltaf að ég myndi giftast manni með ættarnafn. Gurrí Gilmour hljómaði svo vel en mig minnir að við höfum ekki náð svo langt því prinsinn af- æ, sleppum því, ég skrifaði undir þagnareið. En það var gaman að sjá þessa löngu gleymdu mynd af okkur þegar allt lék í lyndi, vikuna góðu sem við rugluðum saman reytum.

 

Það er reyndar heilt myndaalbúm á Facebook-síðu minni sem heitir Með fræga fólkinu en eftir hótanir um lögsóknir er það ekki nema svipur hjá sjón og engar djarfar myndir eftir. Og þar eru alls ekki endilega gamlir kærastar. Þarna erum t.d. við Sverrir Stormsker (alls ekki kærasti) ... við Gummi bróðir (hann lék pabba Benjamíns dúfu í bíómyndinni), við Nanna Rögnvaldar, við Jason Statham leikari (reyndar ljósmynd af honum), við Jón Viðar og svo framvegis. Ég ætla að taka sénsinn á því að bæta þessari mynd við þar, sennilega í skjóli nætur einhvern daginn til að sleppa við reiði Pollyar núverandi. Náði aldrei að kynnast hinum í Pink Floyd en hef alveg átt gott spjall við strákana í t.d. Gildrunni fyrir tónleika eitt sinn, tók útvarpsviðtal við Dúndurfréttagaura einu sinni, tímaritsviðtal við Baggalút líka, svo ég þekki sko alveg hljómsveitagæja.

 

BankagjöldMér líður stundum eins og ég sé fáránlega heppin manneskja en verð að viðurkenna að heppnin er stundum bara vegna einhvers sem ég jafnvel misskildi eða hafði rangar forsendur fyrir og slíkt ... Ég var orðin frekar stressuð þegar ég hélt ranglega að lokagreiðslan fyrir Ævintýrahöllina myndi fara illa með fjárhaginn og rúmlega það ... ég var búin að fá hátt yfirdráttarlán (sem kostaði mig næstum þúsundkall þótt ég hefði algjörlega séð um vinnuna sjálf, rafrænt) og eitthvað stóð þar um að ég mætti ekki nota yfirdrátt til fasteignakaupa sem jók á stressið ... en áður en ég hafði náð að hringja í bankann og ráðfæra mig við einhvern þar, kom í ljós að engin þörf var á yfirdrætti, einhver hafði skrifað ranga tölu á skjal og ég tekið hana trúanlega án þess að taka upp reiknistokkinn minn. Hélt bara að það hefði verið svona brjálæðislega dýrt að flytja. Mér leið samt þarna eins og ég hefði unnið í happdrætti, þannig var líka líðanin þegar ég fann vel falinn og gleymdan lífeyrissparnað á besta tíma núna í sumar, hafði skilist á konu í símtali að hún ætlaði að kalla eftir öllu slíku svo ég hélt að ekkert meira væri til.

Þótt ég hafi keypt nokkuð minni íbúð, þurfti ég að borga á milli, póstnúmer skipta nefnilega máli og 104 er póstnúmer fallega fólksins. Þetta var samt ekkert annað en gleðileg stórheppni, fannst mér, hver þarf lottóvinning þegar fé leynist svona út um allt? Nú hef ég fundið alla mína fjársjóði, og tilveran miðast við að fara að vinna í janúar, tvö störf, þrjú auðvitað ef ég tel verkefnin með sem berast reglulega, eða yfirlestur í tölvunni minni. Næsta ár ætti að verða skemmtilega annasamt. Heilanum fer nefnilega aftur í svona rólegheitum og blóðið hættir líka að renna almennilega, finnst mér, svo ég hlakka virkilega til komandi árs. Leti og rólegheit eru dásamleg blanda um helgar en ég kýs lætin og annríkið á virkum dögum.

 

Kóngur og kisaÞau sem þekkja mig vita að ég er bókasjúk og t.d. á covid-tímum þegar allt var lokað og læst í samkomubanni slökkti ég á sjónvarpinu, full af mótþróaþrjóskuröskun (sjónvarpsgláp átti að bjarga þjóðinni, munið) og lagðist í lestur bóka með malandi ketti allt í kringum mig.

 

Heppnin eltir mig nefnilega líka í bókheimum þótt ég sé ekki lengur í þeirri aðstöðu að fá sendar bækur í tugatali (sjúkk samt, ekkert pláss) hef ég fengið nokkrar mjög girnilegar gefins á aðventunni. Ég keypti auðvitað Voðaverk í Vesturbænum þar sem höfundur (Jónína Leósdóttir) gerir okkur Gísla Martein ódauðleg í hreint út sagt æðislegri bók ... keypti líka ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Aðlögun. Eva frænka gaf mér dásemdina Í skugga trjánna (Guðrún Eva Mínervudóttir) sem ég er búin að lesa ... svo bíða mín fleiri: bók Nönnu Rögnvaldar, Þegar sannleikurinn sefur, spennubók með dassi af torfbæjarklámi, bók eftir Einar Örn Gunnarsson, Krydd lífsins, bók eftir Skúla Sigurðsson, Slóð sporðdrekans ... og nú niðri í póstkassa liggur bókin ÓKEI ... uppruni og saga þekktasta orðatiltækis í heimi, eftir Sigurð Ægisson. Gæfa að þekkja rétta fólkið - hver þarf svo sem bókabúðir eða bókasöfn ... tíhíhí, grín. Næstu daga ætti ég að geta hellt mér út í lestur því minna verður um slíkt í janúar ef að líkum lætur.

 

FACEBOOK 

- ætíð með puttann á púlsinum:

Held að valkyrjurnar þrjár; Kristrún, Inga og Þorgerður Katrín, ættu bara að hætta þessu spjalli sínu um stjórnarmyndun. Hann Frosti Logason hefur sagt opinberlega (sá það á Facebook) að hann hafi enga trú á því að þetta gangi.

- - - - - - - - - - - - - - -

lofthraedsla-1Spurning á bandarískri síðu:

Hvað hræðir þig núna en gerði ekki þegar þú varst barn?

Ansi margir kváðust vera orðnir lofthræddir og voru líka hræddir við að detta en hér koma önnur svör:

- Þegar síminn og dyrabjallan hringja.

- Að meiða mig þegar ég geri eitthvað ævintýralegt.

- Framtíð heimalands míns.

- Að missa heilsuna.

- Framtíðin.

- Að fá óvæntan póst.

- Missa vinnuna, þá heimilið og þurfa að búa í bílnum.

- Framtíð barnabarnanna.

- Næstu fjögur árin ...

- Að Bandaríkin verði fasistaland. 

- Dauðinn. 

- Að missa vini og fjölskyldu.

- Einvera í ellinni.

- Apar.  

- Stríð.

- Að lifa of lengi og klára alla peningana mína.

- Fólk. 

- Húsaleiga.

- Konur.

- Trúarbrögð.

- Að lifa börnin mín.

- Karlar.  


Góður gestagangur, alheimsnaflinn og válynd veður

Mín dásamlega þvottavélTilraunastarfsemi er í gangi núna í Ævintýrahöllinni en rúmteppið er í þvotti og þurrkun ... Þarf ekki að koma alveg þurrt út en bíð spennt, tekur bara klukkutíma þetta prógramm.

Well ... þvotturinn búinn (20 mín.) en vélin gerir enga tilraun til að fara að þurrka ... takk, Elkó, fyrir að láta ekki þýða leiðbeiningar og ljósrita handa Íslendingum, fokdýr þvottavél en við þurfum sjálf að finna út úr þessu, leita að leiðbeiningum á ensku með gúgli (þær komu á Norðurlandamálunum) eða þekkja konu í Noregi sem er snillingur í öllu sem viðkemur þvottavélum og leiðbeiningum með þeim. Það ætti samt ekki að þurfa. Þjónustuskortur er víða, eykst bara, ef eitthvað er, og fátt pirrar mig meira. Ég man svo vel eftir þeim tíma þegar t.d. kaupmenn kepptust við að bjóða bestu þjónustuna. Það var ekkert endilega allt best í gamla daga, síður en svo en þetta mætti laga.

 

VIÐBÓT:

Systir: Er of mikill þvottur í vélinni?

Ykkar einlæg: Bara eitt lauflétt rúmteppi.

Rúmteppið: Ég er reyndar svolítið þungt svona blautt, sorrí.

Systir: Trúlega of stórt.  

 

Stríðinn kaktusFékk dásamlega gesti af Skaganum í dag, aðra sýrlensku fjölskylduna mína, hin hefur þegar komið (með máltíð í farteskinu, auðvitað). Ég keypti gjafir handa litlu dúllunum (líka þeim á Skaganum), valdi syngjandi stríðinn kaktus sem hermir eftir öllum hljóðum. Bið foreldrana samt innilega afsökunar á látunum ... Þetta leikfang sést oft á samfélagsmiðlum þar sem foreldrar stríða ómálga börnum sínum á fyrsta ári og hræða. Þessar dúllur mínar eru orðnar nógu stórar til að hafa bara skemmtun af þessu. Mér láðist að láta vita með opnunartíma gjafa en efast samt um að krúttin mín hefðu samþykkt að bíða til jóla, enda algjörlega allt í lagi að opna þegar þær vilja. EvuLaufeyjar-kökurnar runnu ljúflega niður með malti og appelsíni sem stelpurnar eru vitlausar í. Að mínu mati langbesti jóladrykkurinn. Mikið hlýja allar þessar góðu heimsóknir undanfarið mér um hjartarætur. Ég held hreinlega að ég hætt að vera intróvert. 

 

Fór í stórskemmtilegt frænkukaffi í gærmorgun, samt mæting kl. 10!!! og horfði hrifin af 6. hæð heima hjá frænkunni í Grafarvogi, beint yfir á 6. hæð í ævintýrablokkinni minni. Lyftan heima hjá henni er lítil EN hún er stækkanleg, svona ef fólk þarf að flytja eitthvað á borð við rúmið sitt ... mínir flutningamenn þurftu, eins og frægt er orðið, að bera rúmið mitt alla leið upp, og tvennt annað sem komst ekki í lyftuna, þar sem ekki er séns að stækka hana. Fólki finnst almennt sniðugt að lyftan mín stoppi á milli hæða hér. Að það þurfi að ýta á 7 og ganga svo niður átta tröppur til að komast á hæðina mína. Eða upp átta tröppur til að komast upp á næstu fyrir ofan. Þetta gæti auðvitað verið gömul leyniþjónustubygging þar sem allt var gert til að rugla ókunnuga í ríminu svo ég ætti kannski ekkert að vera að gefa of miklar innanhússupplýsingar hér.

 

KókakólalestinÉg heyrði brjálæðislega háværa tónlist áðan, eins og verið væri að spila tónlist inni í íbúðinni minni, mögulega hávaða frá trylltum nágranna, og stökk á fætur til að taka betur til ef sérsveitin þyrfti að komast aftur inn til mín en ... þetta var víst bara kókakóla-lestin sem brunaði ótrúlega hratt eftir Sæbrautinni - sem sagði mér samt að ég byggi nánast í nafla alheimsins. Er fasteignaverð ekki örugglega hærra þar sem kókakóla-lestin ekur um einu sinni á ári?

 

Orkan hefur aukist hjá mér upp á síðkastið (kannski síðan sérsveitin mætti?) en ég ætla samt að fá mér dagsljósalampa til að hressa mig enn meira við. Ótrúlega gaman að vera til í nánast allt nema giftingu (sorrí, strákar) og geta nú vaskað upp strax eftir kvöldmat í stað þess að geyma það til næsta morguns eins og hefur þurft stundum ... Gæti verið að vítamínin séu að kikka inn - loksins. Er ekki byrjuð að skreyta samt, langar að klára að ganga betur frá sumu sem hefur ekki fundið endanlegan stað og ég hætt að sjá - en ekki lengur. 

 

Anddyri ÆvintýrahallarBókin ofurlanga sem ég skrifaði um nýlega, Miðnæturstelpur, og sagði að hún væri 27 klst. löng í lestri á Storytel var nú ekki nema rétt rúmir 13 tímar, ég veit ekki hvaða tölu ég sá og misskildi. Biðst innilega afsökunar og vona að ég hafi ekki eyðilagt vongleði mjög margra með þessu. Langar bækur á Storytel eru eitthvað sem auðvelt er að elska, ef þær eru sæmilega skemmtilegar og þessi er það. 

 

Vitlaust veður á morgun, skv. vedur.is, en áður en hvessir fyrir alvöru langar mig svolítið (í hitanum sem spáð er) til að þvo suðurgluggann hjá mér, veit samt ekki hvort lárétt og hraðfara rigning geri jólahreingerninguna á glugganum, eina suðurglugga íbúðarinnar, hann er stór og nær yfir allar svalirnar og gefur ágæta birtu, stundum of mikla sól ... Svo eru þrír fínir gluggar í norður, eldhús, herbergi, litla herbergi. Ég er svo góðu vön síðan úr himnaríki að hafa haft glugga á baði og tvo á gangi (fyrrum þvottahúsinu og í kósíhorninu) eða í hverju herbergi hússins og rúmlega það. Ég þarf, þrátt fyrir ágæta glugga, að laga lýsinguna hér, það er of dimmt. Loftljós sem lýsa allt of lítið. Sérstaklega finnst mér áríðandi að hafa góða lýsingu þar sem fólk kemur inn í íbúðina. Lýsing er mjög mikilvæg.

 

Myndina tók ég áðan og sneri bakinu í dyrnar fram á gang. Þessi sjón mætir mér og gestum mínum þegar gengið er inn og horft beint fram. Skápurinn á móti, efri einingin er iðulega hæli kattanna fyrir gestkomandi hundum og börnum. Krummi (13) náðist í dag áður en honum tókst að stökkva upp í skápinn en slapp svo undir rúm í herberginu mínu. Mosi (10) var örlítið stressaður en vissi samt að hann væri öruggur í skápnum. Stóllinn er þarna fyrir neðan af góðri ástæðu en ég verð auðvitað, sem klikkuð kattakerling, að kaupa fínan kattastiga handa þeim, kannski hringstiga til að spara pláss. Hægra megin fremst, bak við blaðakörfuna, sést í spegil sem ég er að reyna að finna nýtt heimili fyrir, vonandi sem fyrst.

Ástæða myndatöku var auðvitað lýsingin. Hún virðist þó meiri á myndinni en hún er. Lagast mikið þegar ég kveiki á lampanum á píanóinu vinstra megin. Sams konar leiðindaljós (dauft, fúlt, leiðinlegt) er í stofunni og herbergjunum. Er með lampa nánast um allt. Mig vantar góðan lampa í eldhúsið til að gera það bæði vinnuvænna og notalegra. Ég hef ekki notað Pinterest og kann því lítið á það, ákvað fyrir löngu að sleppa sumum miðlum til að eyða ekki of miklum tíma í tölvu eða síma ... en þegar ég leita á Pinterest er eins og ég finni bara greinar, ekki ljósmyndir sem gefa hugmyndir. Þekki ekki marga sem hanga þar og gætu aðstoðað, en ég er reyndar arfaléleg í allri leit, alls staðar á netinu. Næst þegar ég hitti Davíð frænda ætla ég að biðja hann um að kenna mér að tala við gervigreindina og fæ hana þannig til að kenna mér að leita á Pinterest, eða gefa mér góðar hugmyndir almennt varðandi lýsingu og mögulega líka lykilinn að eilífri æsku, endalausri hamingju, tilgangi lífsins (42, ég veit), hver myrti Kennedy Í ALVÖRU og sitt af hverju fleira. Leyfi ykkur auðvitað að fylgjast með.        


Stór dagur afsals, Batman-bíll en skortur á sérsveit

TeslaAfar rólegur og lítt æsandi dagur miðað við undanfarið ... og þó. Ég vaknaði fyrir allar aldir, meira að segja fyrir tíu, og ákvað að drífa mig í afsalsgerðina fyrir hádegi. Gestakomur eftir hádegið ollu því að ég þurfti að klára að ryksuga og taka aðeins til. Ég var afar orkumikil í allan dag, ofsaglöð og ótrúlega fljót að gera allt fínt (kannski 20 mín. með ryksugun). Tókst að slá út ljósum í eldhúsi en fékk litháíska aðstoð (góður granni sem vinnur frá kl. 5 á morgnana fram yfir hádegi) við að ýta á réttan takka frammi - svo nú kann ég þetta.

 

Tók leigubíl til krúttmolanna hjá Gimli, frábært fólk að vinna þar. Ég skipulagði allt ógurlega vel. Fékk að leggja lokagreiðsluna inn á reikning þeirra áður en ég pantaði bíl frá Hreyfli og í annað sinn á ævinni fékk ég Teslu. Í þetta sinn með geggjuðum dyrum ... sem opnuðust eins og bíldyr í framtíðarmyndum. Það klingdi svo í einhverju fram í, ég gleymdi í hrifningu minni að spenna beltið, í fyrsta sinn í áratugi. Áfram glumdi í viðvörunarbjöllu en þá hafði ég hvílt höndina á sætinu við hliðina ... útskýrði bílstjórinn. Sjúklega næmt kerfi, sagði hann.

„Má ég eiga von á því að að bíllinn opinberi t.d. að ég borðaði súrmjólk og kornflex í morgunmat,“ spurði ég. Too much information-svipur kom á annars mjög hressan bílstjórann og í huganum barði ég sjálfa mig nokkrum sinnum með blautu handklæði í andlitið.

 

Ég eignaðist skýjahöllina (ævintýrahöllina) rétt fyrir hádegi í dag með því að undirrita nokkur skjöl og láta af hendi stórfé, leigubíllinn beið fyrir utan Gimli og ók mér síðan beinustu leið heim aftur. Þegar ég gekk að húsinu, kallaði flottasti húsvörður í heimi (Bryndís) á mig út um gluggann: "Kemurðu á Batman-bíl!" Ég svaraði játandi, auðvitað var þetta Batman-bíll (sjá mynd) og ég sagðist ýmist ferðast um á slíkum bílum eða þyrlum ... næstum satt (ógleymanlegt þegar ég tók strætó í bæinn um árið og kom heim á Skagann á þyrlu en eftir þá þyrluferð get ég með sanni sagt að ég hafi komið upp á Esjuna því þyrlan kom við þar áður en mér var skutlað heim. Lúxuspía.

 

SjúkFyrri heimsókn dagsins var um þrjúleytið, verulega indæl hjón, Þóra og Dagbjartur, og ég sló auðvitað í gegn hjá þeim með nýbökuðum smákökum (takk aftur, Eva Laufey). Ég aðstoðaði með yfirlestur á bók sem Þóra var að gefa út. Sjúk, heitir bókin og er krimmi um sálfræðing í klemmu.

 

Bókin er um sálfæðinginn Emmu sem lifir góðu lífi með eiginmanni og dóttur þegar fortíðin bankar harkalega upp á - atvik sem hún hefur reynt að gleyma í nokkur ár minnir á sig ... spennandi bók með óvæntum endi. Eitt ansi áhugavert í bókinni, var um arfgengu persónuleikakenninguna sem aðalpersóna bókarinnar er spennt fyrir, eins og höfundurinn, í eftirmála kemur góð útskýring á kenningunni. Þar skiptir t.d. máli hvar við erum í systkinaröðinni. Ég er, samkvæmt því, eins og mamma. Elsta systirin eins og pabbi, því hún er stelpa, hefði annars snúist við. Ég hef reynt að máta ýmsa vini og vandamenn við þetta. Ég erfði vissulega sitt af hverju frá mömmu en líka svartan húmor frá pabba, enda er þetta ekki alveg klippt og skorið frekar en annað og líka gert ráð fyrir umhverfi, uppeldi og fleira. Mér finnst þetta alla vega mjög skemmtilegt og gaman að fá þetta inn í spennubók. Dagbjartur er víst duglegur að sannreyna þessa kenningu, jafnvel á ókunnugum sem halda sumir að hann sé einhvers konar sjáandi, svo oft passar þetta hjá honum.

 

Spáin fyrir 2024Seinni heimsókn dagsins var frá húsfélagsskvísum af Skaganum, formanni og gjaldkera. Ég, eitt sinn riddari húsfélagsins, yfirgaf þær í október og síðan hefur víst verið afskaplega rólegt í húsinu, að þeirra sögn. Ekkert bold and the beautiful-ástand, allir stilltir. Sem segir kannski ýmislegt. Þeim finnst ég flutt í hálfgert háskahús, það eru 32 íbúðir í stigaganginum sem býður hættunni heim og að auki er vínbúð handan götunnar (hélt að þær vissu að ég hata gönguferðir). Samt held ég að þær öfundi mig rosalega af heimsókn sérsveitar í fyrrakvöld - og mér sýndist á augnaráðinu að þær héldu að þetta hefði verið eins konar vígsluathöfn, nú væri ég viðurkenndur íbúi fyrst ég fríkaði ekki út. Kannski misskildi ég alveg augnaráð þeirra og þær bara svona yfir sig hrifnar af nýbökuðum smákökum og Nóakonfekti sem ég bauð upp á. Norðmennirnir sem eiga Nóa Síríus núna ættu nú samt að passa sig, að okkar mati, að verðleggja sig ekki út af markaðnum. Ef einhver stefnir á að gefa mér kíló af Nóakonfekti í jólagjöf, bendi ég á minni og þar af leiðandi ódýrari konfektpakka með bara fylltum molum, en það eru nefnilega einu molarnir sem ég borða. Stórtap fyrir Ingu vinkonu því hún fékk alltaf "vondu" molana mína sem hún leit á sem bestu molana.

 

Myndin (neðsta) birtist fyrir nákvæmlega einu ári á feisbúkksíðu minni og var spá fyrir árið 2024. Ég ákvað að reyna að láta allt rætast, bara upp á grín, aðallega þó til að gleðja véfréttina, en verð mögulega að játa mig sigraða, eitt atriði af fimm er nú bara alveg frábært ... það eru 26 dagar eftir af árinu og lífið hér í borginni fullt af óvæntum atburðum til þessa.

 

Dagsbirtuljós frá EirbergiÉg veit hvað ég ætla að gefa sjálfri mér í jólagjöf ... Ekki bók, að þessu sinni (ja, kannski bara eina eða tvær) heldur svokallað dagsbirtuljós.

Kona hér í húsinu mínu fer í ljósbað í svona 20 mín. á dag og segir það gefa sér mikla orku í skammdeginu. Ég hef verið frekar syfjuð og dösuð (en glöð samt) undanfarið sem gæti verið myrkrinu að kenna, samt er ég alls ekki sóldýrkandi.

Þar sem ég þarf ekki að hlaupa út í vinnu á morgnana hef ég svo sem lítið gert til að laga þetta, vissulega tekið D-vítamín sem er gott en tvö sprey á dag nægja kannski ekki yfir myrkasta tímann.

 

 

Skilst að svona lampar séu ekki svo dýrir en geri ótrúlega mikið fyrir orkuna. Mér veitir ekki af meiri orku. Ég er bara komin með eitt jólaskraut, lítið tré sem þyrfti nú samt að skreyta ... ja, reyndar tvö skraut, elskurnar af Skaganum færðu mér bleikan, mjög fallegan hnotubrjót í innflutningsgjöf.

 

Mosi viðstaddur jólapökkunMér finnst nú allt í lagi að leyfa jólunum í ár að koma og fara áður en fólk fer að pæla í þeim næstu, en ég sá í dag á samfélagsmiðlum að jólin 2025 verða stórubrandajól. Þá verður 24. des. á miðvikudegi, jóladagur og annar í jólum á fimmtudegi og föstudegi. Svo kemur helgin ...

 

 

Ég kíkti fram í tímann á almanakinu í gemsanum til öryggis, rétt skal vera rétt á þessu bloggi, og sá einnig að ég á afmæli á þriðjudegi 2025. Finnst líklegt að ég haldi upp á það með því að bjóða 70 eða 80 allra nánustu í kaffi og tertur. Fyrst ég kom yfir 90 manns í 56 fermetra íbúðina mína á Hringbraut ætti að fara ágætlega um gestina í 70 fermetrum, eða svo. Stórar svalir og allt.

 

 

Hef bara Mosa í búri, því hann hoppar út um alla glugga (alla vega einn, einu sinni) og niður af öllum svölum (alla vega niður af einum, einu sinni). Hann fannst sem ungur kettlingur lafhræddur ofan í bílvél á Akranesi, enginn veit hvaðan hann kom. Allt þetta vesen á honum þýðir bara eitt: hann á aðeins 6 líf eftir.


Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 851
  • Frá upphafi: 1515946

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 713
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband