12.2.2025 | 18:13
Tískuslys, miðja alheimsins og tónleikar 2025
Tískuslys ársins átti sér stað í gær ... og ég sem passa svo vel upp á að skapa frekar tísku (trendsetter) en misþyrma henni. Ég held ógurlega upp á gulu og svörtu Wu Tang Clan-sokkana mína sem ég fékk í jólagjöf og fór í þá þótt ég væri í skærblárri peysu og með sérdeilis bláan trefil. Þetta skiptir ekki nokkru máli þegar snjór og hálka hrella borgarbúa en í gær var veður fyrir strigaskó. Og þegar ég tölti létt í spori úr á stoppistöðina mína tók ég skyndilega eftir þessum hroðalega skorti á smartheitum því sokkarnir voru nánast sjálflýsandi við túrkísbláa trefilinn og ég hafði ekki tíma til að snúa við að fara í svarta sokka sem hefði verið hið eina rétta!!!
Vetrarskórnir hylja ætíð sokkabúnað minn og þegar komið er til vinnu fer ég í gervi-Crocksinniskóna úr Jysk og verð þá hvort eð er alveg hræðileg, svo litasétteringar skipta í raun engu. Heldur ekki heima, kettirnir eru sem betur fer litblindir, eða hafa ekki nokkra tískuvitund. Ætla samt að muna að kaupa einhvern tímann gulan bol eða gula peysu til að sokkarnir njóti sín stundum, get síðan verið með appelsínugula trefilinn við. Hann er alveg eins og sá blái, nema gulur og appelsínugulur, mjög flottur.
Skeifan verður sífellt meiri miðja alheimsins í mínu lífi, fyrirgefið, Holtagarðar, en ykkur er nær að vera hinum megin við eina mestu umferðargötu landsins! Mjóddin var það um margra ára skeið (Akranes-Rvík-Akranes, leið 57) en missti aðdráttaraflið þegar Íslensk hollusta hætti að framleiða Fasta, frábæra safann sem var svo hollur og góður að ég tvíefldist að kröftum og hætti að naga neglurnar eftir þann ávana til áratuga. Hann seldist ekki af því að hann var eiginlega hvergi til sölu. Ég fór sérferð í bæinn, í Mjóddina, á föstudögum til að kaupa hann en svo varð sífellt erfiðara að finna hann. En hva ...
In da Skeif er fínasta gleraugnabúð, matvöruverslanir, Jysk, apótek, Elko og ... vá, vá, vá. Ég prófaði að gúgla gamla góða sjúkranuddarann minn sem hélt mér lengi sprækri eins og léttfættri hind þrátt fyrir bakvesen frá unglingsaldri. Hún var síðast með aðsetur á Suðurlandsbraut, c.a. tveimur strætóstoppistöðvum frá minni við Skeifuna, eða þarna hjá Glæsibæ - en hvar ætli hún sé núna? hugsaði ég, kannski á sama stað? Ja, ótrúlegt en satt, hún er rétt við gleraugnabúðina í Bláu húsunum, í svona tveggja mínútna göngufjarlægð frá vinnunni minni. Nú þarf ég greinilega að gúgla gamla kærasta og fleira gott, ég hef á tilfinningunni að besta lið mitt síðan í denn leynist þarna. Það er stutt í að ég þurfi að fara í "framköllun" eða lit á augabrúnir og augnhár og ég er eiginlega milljón prósent viss um að snyrtistofur leynast þarna allt í kring. Reyndar, þegar ég þeysti úr vinnunni, kl. 15.05 og stefndi á að ná strætó kl. 15.10 og missti af honum (hleyp ekki til að hlífa vissri hásin sem er samt að verða súpergóð (takk, B1-vítamín og viss dásemdarkona sem færði mér það) en tek ekki sénsinn á að "rífa" nokkuð upp því það kemur alltaf annar strætó eftir korter. Þetta aukakorter gaf mér líka tíma til að skoða umhverfið, Glæsibæ, enn betur ... Einhverjir gætu haldið að ég hafi farið í Ölver til að drekkja miss-af-strætó sorgunum, en ég var stoppuð af, ekki af Iceland-búðinni sem ég kom fyrst að, heldur Tokyo Sushi-veitingastaðnum og keypti þar girnilegan japanskan kvöldverð. Ég sá svo grilla í girnilega snyrtistofu ögn fjær - svo ég er ekki bara með alla Skeifuna, heldur líka Glæsibæ. Svo er örstutt að fara upp á Háaleitisbraut frá Skeifunni, yfir Grensásveg, ganga í þrjár mínútur, og þá er t.d. geggjuð hárstofa - mig langar að halda mig við mína konu á Skaganum en válynd veður vetrarins hrekja mig á aðrar lendur þegar gular, jafnvel rauðar viðvaranir eru ríkjandi.
Fimman kom svo á réttum tíma (15.25) og ók mér á Höfðatorg, síðan kom tólfan og mér til mikillar gleði kom inn í þann vagn kona með lítinn hund í fanginu og tók sér stöðu við hliðina á mér. Ég fékk ekki sæti en það var í fínu lagi, ekki langt að fara. Þvílík gleði að hitta hund. Voffi var nú samt svo ofboðslega hræddur að hann þorði ekki einu sinni að horfa í kringum sig, grúfði sig bara upp að eigandanum. Ég fékk nú samt að klappa og vona að það hafi róað svarta krúttið eitthvað.
Margt að breytast hér á landi í svo mörgu - og til góðs. Mér finnst mannlífið orðið miklu skemmtilegra og fjölbreytilegra en var þegar ég var mun yngri ... á þeim tíma þegar ríktu boð og bönn, höft og leiðindi (Makkintoss og Smartís bannað!), stranglega bannað t.d. að vera með nokkurt líf á Lækjartorgi, og í þau örfáu skipti sem eitthvað slíkt var leyft, tóku sig upp gömul bros og sólin fór að skína þótt væri skýjað. Núna er orðið svo mikið líf sem fylgir ferðafólki og þeim sem kjósa að flytja hingað á ísakalda klakann. Mér finnst alltaf gaman í strætó, fínasti ferðamáti, og í dag heilsaði einn bílstjórinn mér, sá er frá Sýrlandi. Ég er ekki mannglögg (minn eini galli) en hann bjó á Skaganum og þekkir nokkra vini mína þar. Afskaplega brosmildur og ljúfur bílstjóri sem farþegarnir virðast kunna að meta - hann fékk marga til að brosa á móti og bjóða góðan dag - og hann kann að keyra líka sem er auðvitað stór kostur ... keyrir sem sagt vel, engir rykkir og bremsulæti ... en það er reyndar ansi langt síðan ég hef lent á slíkum bílstjóra ... ár og aldir.
Út þennan mánuð verð ég starfsmaður á plani í skólanum, eða til aðstoðar, en í mars verður mér hrint út í djúpu ... og ég er farin að hlakka til. Allir svo hjálpsamir að kenna mér og gefa góð ráð. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi og slíkt er ekki sjálfgefið. Eftir febrúar ætla ég að vera búin að læra að bjóða góðan dag á úkraínsku ...
Annað sem jók á sístækkandi hamingju mína var spjall á messenger í gærkvöldi: Ætlar þú á Smashing Pumpkins-tónleikana í ágúst? Ég lýsti yfir miklum áhuga (ég viðurkenni að ég staðnaði svolítið músíklega einmitt á tíunda áratugnum æðislega) og ef vinkona mín og maður hennar ákveða að fara, fæ ég að vera samfó. Held að ég sé aðeins of háöldruð fyrir stæði (var síðast í stæði í Laugardalshöll á Travis-tónleikunum um árið, eða var það Sting? Var með fínt sæti á Rammstein-tónleikunum (2001) þótt stuðið hafi verið talsvert meira á gólfinu). Það varð uppselt á Rammstein á nokkrum mínútum, minnir mig, á tvenna tónleika sko, og ég komst ekki á þá fyrri þar sem Ham hitaði upp. Það var frekar fúlt en Rammstein bættu það svo sem upp.
Hér fyrir neðan er uppáhaldslagið mitt með SP - sonur minn gaf mér einmitt plötuna (geisladiskinn), þar sem þetta lag er, í afmælisgjöf eitt árið undir aldamót. Þekkti móður sína - en smekkur okkur mæðgina fór svolítið sitt í hvora áttina með tímanum. Hann var nánast ekkert fyrir þungarokk eins og ég, hlustaði þó mikið sem unglingur á Guns og Roses sem ég var ekki eins hrifin af, en ég þakka honum þó alfarið fyrir að ég staðnaði ekki og festist í Led Zeppelin, Jethro Tull, Pink Floyd, King Crimson og allri þeirri dýrð sem ég elska enn, en heimilið fékk sér MTV árið 1995 að hans ósk, og það breytti tónlistarlífi mínu algjörlega. Þvílíkur fjölbreytileiki og dásamlegheit sem bættust við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2025 | 22:48
Sigur í orrustu, móðgandi umbúðir og gagnleg hjátrú
Taugaveiklunarhlátur, efasemdir, ótti, tortryggni og margt fleira í þeim dúr lýsir svolítið þessari helgi ... sem hófst á fínasta bröns hjá ónefndri systur. Ég náði nefnilega, held ég, að vinna mikilvæga orrustu í rúsínustríði okkar systra. Sennilega þá fyrstu með glæsibrag sem gæti endað í sögubókum. SKÝRING: Systir mín hefur keypt litla, rauða rúsínupakka og komið þeim laumulega fyrir heima hjá mér eða ofan í töskunni minni. Henni finnst það sennilega fyndið af því að ég hata rúsínur. Hún er sem sagt hætt að setja þá laumulega í innkaupakörfuna hjá mér, ef við förum saman í búð, eftir visst vesen og læti í Netto ... sem hefur neytt mig til að versla bara í Hagkaup, alla vega á næstunni. Löng saga.
Hún heldur án efa að ég hafi ekki fundið pakkann sem var ofan á ísskápnum (1,80 m á hæð), bara þennan sem var ofan í handtöskunni minni og ég gerði viljandi lítið úr ... eins og mér þætti þetta bara fyndið og svolítið krúttlegt. Glætan.
Alla vega, á föstudaginn, á meðan hún kvaddi bröns-frænkurnar, ég stoppaði ögn lengur og var búin að kveðja þær, leitaði ég örvæntingarfullt að góðum felustað, ekki samt OF góðum, fyrir annan rúsínupakkann ... og fann hann í eldhúsinu. Setti hann á hlið til að hann yrði minna áberandi ... hinn pakkinn fór, án nokkurrar miskunnar, á ljósan en dimman stað. Ekki ólíklegt að báðir séu fundnir og hefnd sé í grennd. Síðast þegar ég sagði sigri hrósandi: Hah, ég faldi rúsínupakkann í veskinu þínu - sagði systirin: Ég fann hann áður en ég fór frá himnaríki og faldi hann ... og það svo vel að ég fann hann í október, þegar ég var að klára að pakka niður, mánuðum seinna.
Ég veit ekki hvernig ég fór að því að vera eðlileg í fasi, ég var svo stressuð, rak í sífellu upp lágværan og bældan tryllingshlátur þegar viss systir var úr heyrnarfæri en setti upp alvörusvip inn á milli. Ég var vissulega í Skagaleikflokknum seint á áttunda áratug síðustu aldar. Leikræn þjáning upp á tíu.
Þessi hlátur og taugaveiklun hélt áfram eftir að heim var komið og ég þorði ekki einu sinni að kveikja ljósin í íbúðinni. Til að gera langa sögu stutta ... Ég flutti í gær. Komin með háleynilegt heimilisfang og hef líka breytt aðeins um útlit til öryggis. Er svo hrædd við hefndina. Því hún verður, ég slepp ekki nema vera snjallari ... sem ég tel mig vera núna. Ég myndi ekki lifa af að hafa rúsínupakka, jafnvel fleiri en tvo, á hinum ýmsu leynilegu stöðum heima hjá mér.
Myndin af mér uppi í rúmi með köttum er alveg sönn ... og gangi henni vel að finna mig þar sem ekkert sést í Hallgrímskirkjuturn sem blasir annars við út um gluggann þarna vinstra megin ... úps.
Það var ekkert mál að flytja. Mér fannst nefnilega eitt svolítið óþægilegt við að búa á "gamla" staðnum, á Kleppsvegi, að ef ég gúglaði eitthvað og setti inn póstnúmerið 104 kom iðulega upp orðið SUND. Í gamla daga hét leið fjögur Hagar-Sund ... ég var bara búin að gleyma því. Eins og fb-vinir mínir vita þá hata ég sund og heita potta og allt svona blautt, nema sturtuna mína heima.
Á síðasta ári fékk ég þessa fínu sturtusápu í jólagjöf. Ég hef notað hana næstum daglega síðan og hún hefur glatt mig mikið, enda virkilega fín og góð. Það tók mig alveg heila 47 daga að átta mig á því að þetta er í raun afar spælandi jólagjöf, eins og sést á myndinni. Fór sem sagt í sturtu áðan og rak þá augun í þetta. Hef ekki orðið svona móðguð síðan ég móðgaði sjálfa mig óvart með því að taka með mér bókina Vatn fyrir fíla til að lesa í baði (þetta var þegar enn var baðkar í himnaríki).
Hvernig dettur Elizabeth Arden í hug að koma svona fram við viðskiptavini sína? Kaupendur vara hennar sem eflaust verða allir fyrrverandi kaupendur um leið og þessi bloggfærsla fer í loftið! Að hugsa stórt passar frekar á námskeiði hjá lífsstílsráðgjafa en á sturtusápu!
Munið þið líka eftir kvenfatabúðinni sem seldi föt í stærri stærðum (og ég hef bloggað um) og merkti innkaupapoka sína með: Fegurðin kemur innan frá ... því ekki var nokkur séns að "stóru" kúnnarnir gætu verið sætir að utan ... Vel meint en hrottalega móðgandi. Ég er sannarlega ekki eina manneskjan sem læt umbúðir og annað slíkt koma mér úr jafnvægi. Man eftir því þegar vinkona mín fór eitt árið í sjúkraþjálfun í Kvennalistabol þar sem bakhliðin á bolnum sýndi með tölum skelfilegan launamun kynjanna. Karlkynssjúkraþjálfarinn hennar reifst allan tímann við bolinn.
Ég fæ oft skemmtileg og fjölbreytt verkefni sem verða þess valdandi að ég þarf að setja mig inn í ýmislegt sem ég hef frekar lítið vit á. Nýlega las ég yfir texta þar sem fjallað var m.a. um vatnslitun en ég bý svo vel að eiga vinkonu sem er listakona og gat svarað öllum mínum spurningum um hvort textinn "meikaði sens" (afsakið). Nýlega fékk ég texta þar sem féll dómur yfir einni söguhetjunni - og haldið að ég hafi ekki getað haft samband við lögmann í ættinni ... Fyrir síðustu jól gat ég spurt sálfræðing (allt morandi af þeim í fjölskyldunni) um visst mál. Gott að þekkja marga með mismunandi þekkingu, reynslu og menntun ... meira að segja var eini (held ég) stjarneðlisfræðingur landsins með mér í bekk frá c.a. sjö til tólf ára, þótt ég efist um að fá endilega slíkan texta ... En þetta víkkar sjóndeildarhringinn og gaman að geta slegið um sig með yfirborðsþekkingu ... Múahahaha. Það halda svo ótrúlega margir að ég sé súperklár af því að ég kann flest póstnúmer landsins en ég er nú bara dugleg að koma því að í samtölum og bloggfærslum.
Mig hefur alltaf langað að vita miklu meira um veður, eldgos og jarðskjálfta og naut þess sérlega vel að búa í himnaríki og verða svona mikið vör við þetta allt saman, eins og veðurofsann sem gat ríkt við opið Atlantshafið, eldgos þarna hinum megin ... og ég sakna þess svo mikið, nema jarðskjálftanna. Ég hef þó lært ýmislegt sniðugt, eins og að skilja eftir hrífu með tindana upp ef ég fæ algjört ógeð á snjó og hálku. Myndi aldrei gera slíkt í sveitinni að sumri til. Núna er snjórinn að fara, þökk sé mér, það er rok og rigning í augnablikinu og 6 stiga hiti, en mér tókst einhvern veginn, ef marka má tímavélina yr.no, að koma í veg fyrir úrkomu í svona tvo daga áður en fer að frysta aftur. Það gulltryggir hálkuleysi. Held að ég geti þakkað gamalli íslenskri hjátrú þetta. Ég reyni samt að ofgaldra ekki, en setti samt nýja bleika vatnsbrúsann þarna líka og það gerði útslagið líklega með magn rigningarinnar sem hraðaði bráðnun íss á gangstéttum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2025 | 17:16
Drama hjá köttum, gefandi Skeifa og beljandi brimsöknuður
Hefðarköttum skýjahallar, Krumma og Mosa, hefur enn ekki tekist að koma sér saman um hvor þeirra ætti að vera alfakötturinn sem öllu ræður. Nú hef ég sterkt á tilfinningunni að ég hafi verið kosin í það hlutverk. Þeir taka mjálmandi á móti mér þegar ég kem heim úr vinnu og látbragðið segir: "Okkur leiðist, hvað eigum við að gera núna?" Hnén á mér eru nánast ónýt eftir óhappið um árið á ógæfumölinni rétt við íþróttahúsið á Jaðarsbökkum á Akranesi (annað laskað, hitt saumað), svo ekki get ég skorað á þá í eltingarleik. Leiser dugir skammt ... en Mosi hleypur samt þessa dagana ... í spik.
Keli stjórnaði þeim harðri loppu og var langsamlega sprækastur þótt elstur væri, slóst við þá (gamnislagur) og þeir voru iðulega í eltingarleik sem er ekki raunin hjá Krumma og Mosa, og þegar Keli var orðinn veikur undir það síðasta, og dó svo í ágúst 2024, 14 ára, misstu Krummi (bráðum 14)) og Mosi (bráðum 11) nánast fótfestuna í lífinu. Í desember sl., eftir að Mosi þaut/slapp fram á stigaganginn og gerði tilraun til að finna himnaríki upp á áttundu hæð hér, án árangurs, hætti hann að reyna að komast fram á gang, sjúkk. Ef ég reyni að hlaupa um íbúðina til að æsa þá upp í leik, verða þeir skelfingu lostnir og stara á mig. Letin (aldurinn) sér til þess að leiserleikur við Mosa (Krummi nennir ekki) stendur yfir í eina mínútu, í mesta lagi tvær. Þigg öll góð ráð, nema að fá þriðja köttinn inn á heimilið, sprækan og hressan. Sandmálin færu þá í flækju og ekkert pláss er fyrir viðbótarsandkassa. Þeir sofa þó mikið sem er bót í máli. Vilja varla kattanammi og eru farnir að fúlsa við blautmat, fínasta lúxusmat sem þeir vildu áður. Keli var alltaf svo brjálaður í allt slíkt (enda á sjúkrafæði og fékk sjaldan nammi) og þeir eiginlega bara hermdu eftir honum. Þeir drekka vel og vilja bara þurrmat, þeir verða bara að ráða því. Villikettir í Rvík græddu fullt af blautmat núna í nóvember þegar ég gafst endanlega upp á því að reyna að gefa þeim slíkt.
Mynd hér ofar: Keli (fjær) og Mosi, ásamt stökkvandi Krumma, staðnir að verki við blómaát. Ástæðan fyrir því að ég er farin að afþakka blóm eftir bestu getu, sést nákvæmlega á þessari mynd. Ég veit að það er plebbalegt að vera bara með gerviblóm en það þarf að fórna kúlheitum fyrir kettina sína.
Alveg hreint stórfín gleraugu mín duttu í tvennt nýlega, eða önnur spöngin fór af. Sennilega álag á þau vegna þess að ég set þau svo oft upp á haus, því ég á erfitt með að lesa með þau, skoða símann minn og annað slíkt. Sem er víst ástæðan fyrir algjörum skorti á ellifjarsýni (mikill lestur án gleraugna). Nota þau nú samt við lestur á efni í tölvunni en les allt annað gleraugnalaust. Nú voru góð ráð dýr ... hvergi ein einasta gleraugnabúð í nýja nærumhverfi mínu (bara Partíbúðin (Partíland?), Dorma, Bónus og Bakarameistarinn, já, og fín dýrabúð) og eiginlega fáránlegt að taka strætó upp á Skaga þar sem gleraugnabúð mín til síðustu ára er til húsa. Gúglið kom mér til aðstoðar og í aðeins tveggja mínútna göngufæri við vinnustað minn í Skeifunni (sem gefur og gefur), í einu af bláu húsunum, reyndist vera gleraugnaverslunin Gleraugað. Þar fékk ég glimrandi þjónustu í fyrradag, nýja vinstri spöng og kaffi. Einnig róandi spjall ... forsaga: þegar ég fór og leysti út jólagjöf um árið, augnmyndatöku á Skólavörðustíg, spurði ég hvort gulu blettirnir í mynduðu auga mínu táknuðu að ég væri af ætt Ísfólksins. Nei, alls ekki, svaraði stúlkan, mér til vonbrigða, þetta eru fæðingarblettir. Jæks! Ég spurði sem sagt sjóntækjafræðinginn hvort þetta þýddi eitthvað hræðilegt og hann hélt nú ekki. Hann mælti með að ég færi til augnlæknis, ekki út af þessu samt, það væri alltaf sniðugt að láta kíkja á augun, sérstaklega ef ég hefði ekki farið lengi. Sjónin hefur versnað með árunum, ég nota vinstra augað meira, loka því hægra þá á meðan sem hefur valdið hvimleiðum misskilningi þegar sumir karlar halda að ég sé að daðra með því að blikka þá. Ég sé eiginlega of illa til að geta fjardaðrað af nokkru viti svo ég sleppi því.
Hinn gallinn við mig er heyrnin, þessi "valkvæða" sem ég hef samt ekkert val um. Ég heyri mjög vel alla jafna. En ... ef það er t.d. hávær tónlist í bakgrunni er ekki nokkur leið fyrir mig að heyra það sem fólkið í kringum mig segir. Öll þessi "HA, HVAÐ VARSTU AÐ SEGJA?" á Borginni í gamla daga, urðu til þess að karlamálin voru oft upp á sitt versta og uppskeran dræm. Hvernig átti ég að vita hvort þeir væru að bjóða mér upp í dans, tjá mér ást sína eða hrósa fegurð minni og yndisþokka. Þeir hefðu alveg eins getað verið að tala um t.d. landhelgismálið sem var mál málanna á áttunda áratug síðustu aldar, eða tíu árum áður.
Já, þetta er opinskátt blogg, allt fær að fjúka, gallar, kostir og allt þar á milli.
Stráksi sendi mér SMS áðan og sagði að hann hefði ekki farið í vinnuna í morgun vegna rauðrar viðvörunar. Ég var mjög fegin, en þótt húsið sem hann býr í sé í skjólsælu hverfi, er vinnustaðurinn það ekki, heldur alveg í útjaðri Akraness, skammt frá Bónushúsinu, og svakalegur vindur þar stundum.
Ég fylltist nánast öfund út í nýju íbúana í himnaríki í gær, sem hafa útsýni yfir brjálað brimið sem iðulega kemur í suðvestanátt, hvað þá þegar vindurinn er upp á 23 m/sek ... Ég upplifði aldrei svona sunnanveður árin mín þarna, það var frekar að það kæmi suðaustanstormur, án svona brims.
Fólkið í fyrrum húsinu mínu er ekki nógu duglegt að taka myndir og myndbönd og dreifa á samfélagsmiðlum, nema elsku húsfélagsformaðurinn sjálfur, sem setti lifandi brimmynd á snappið hjá sér í gær, við taumlausan fögnuð minn. Einnig hefur Hilmar vitavörður verið duglegur við að sýna brimið í kringum Akranesvita í gær og í dag og ég bind vonir við Kristjönu ...
Fyrra forsetatímabil Trumps einkenndist af frekar fyndnum hlutum, eins og t.d. þegar hann hélt því fram að klórblanda gæti virkað sem lækning við kórónuveirunni. Ég gleymi aldrei svipnum á landlækni USA sem var á staðnum þegar hann sagði þetta.
Ég er orðin virkilega efins um að hægt verði að brosa út í annað næstu fjögur árin. Þau verða lengi að líða og enginn veit hvað þau bera með sér. Fasískar skoðanir virðast eiga upp á pallborðið westra og víðar, og samsæriskenningum er gert hátt undir höfði. Hver hefði trúað þessu?
FACEBOOK:
Þegar appelsínugular viðvaranir voru ríkjandi vegna veðursins sem síðan breyttust í rauðar, skrifaði einn Facebook-vinur minn, undir einmitt mynd af appelsínugulu Íslandi:
Undirlægjuhátturinn gagnvart Bandaríkjaforseta á sér greinilega engin takmörk.
Þetta verða vonandi ekki áhrínsorð ...
Nú í mars kemur bandarísk vinkona okkar Ingu í fimm daga heimsókn til Íslands. Ég er mjög spennt að heyra hvað henni finnst um þetta allt saman sem er í gangi í heimalandi hennar. Þetta er vinkonan sem kommentaði við mynd af Mosa þar sem hann var að prófarkalesa við tölvuna mína og flott brim var í baksýn ... vantaði bara eldgos á Reykjanesskaganum til að fullkomna myndina sem fékk 118 þúsund læk á síðunni View from YOUR window og gerði Mosa heimsfrægan.
Sjá myndina frægu af Mosa!
Í kjölfarið kom konan, ásamt vinkonu sinni, í heimsókn í himnaríki og fékk flatkökur með hangikjöti, malt og appelsín-blöndu með (eða mjög svo ritskoðaðan þorramat) og svo fórum við á flotta byggðasafnið á Akranesi, stúdíóið hans Bjarna Þórs og í antíkskúrinn.
Nú fæ ég hana (og vonandi Ingu líka) í heimsókn hingað á Kleppsveginn og finnst ansi hreint líklegt að hún taki einn pakka af flensulyfjum með sér til að færa mér. Fæ sjaldan kvef (nema í aðdraganda flutninga milli landshluta) en það er svo mikið öryggisatriði að eiga svona pillur, þær lækna kannski ekkert en manni líður bara betur og er vinnufær í stað þess að snýta sér heima í eymd og volæði. Að vísu passa ég mig núorðið á því að eiga íslenska munnúðalyfið ColdZyme, og úða því ofan í hálsinn á mér ef ég finn fyrir kvefi á byrjunarstigi - það fæst í öllum apótekum, held ég, er frekar dýrt en það svínvirkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 2
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 669
- Frá upphafi: 1524363
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 567
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni