12.4.2025 | 14:07
Blekking en samt ekki og notaleg sófabreyting
Uppistandið í fyrradag var bráðskemmtilegt og við Ólöf nutum þess að hlæja nánast stöðugt í klukkutíma. Við sátum frekar aftarlega því allt var nærri orðið fullt þegar við mættum, en ég borgaði þúsundkalli meira fyrir miðann til að fá bestu sæti ...
Þú hefur verið blekkt, sagði eitt skyldmenni uppistandarans, það eru engin bestu eða verstu sæti hér. Ég ákvað að taka þessu sem aukabrandara (ég var tekin!) en svo þegar ég kom út eftir skemmtunina, hitti ég samstarfsfólk sem tjáði mér (já, ég furðaði mig á þessu við þau) að ódýrari miðarnir hefðu verið fyrir námsmenn og aldraða. Þar sem ég uppfylli hvorugt var þetta hárrétt verðlagning, og ekki einu sinni há fyrir svona góða skemmtun.
Held að uppistand sé uppáhaldsdjammið mitt ... Er enn afar þakklát RÚV fyrir að birta slíkt í sjónvarpinu fyrir þarsíðustu áramót, Snjólaug er sjúklega fyndin og þau öll bara sem fórna sér svona fyrir okkur hin. Ólöf fór á barinn á Sykursalnum og splæsti á okkur appelsíni og kitt-katti sem hefði varla þurft því einn brandarinn, sá langsætasti, var að undir hverjum stól leyndist Mars-súkkulaði. Ég er svo heiðarleg að eini lausi stóllinn í salnum, við borðið okkar Ólafar, er enn með Mars-súkkulagði límt undir setunni.
Ég var svo yfirfull af orku og krafti eftir skemmtunina að ég fór að breyta í stofunni heima hjá mér. Já, ég veit, sumir segja að breytingaþörf á heimili tengist skorti á kynlífi, en ég er svo sem ekki neinn síbreytari, sannarlega ekki. Ég prófaði að færa sófann undir gluggann (hef gott bil samt út af ofninum) og hér eru fyrir- og eftir-myndir. Gætti þess að taka ykkur á sálfræðinni, að hafa dagsbirtu á eftir-myndinni og flottan kött í forgrunni til að ykkur þyki breytingin miklu flottari. Sko, stofan minnkar svolítið sjónrænt við þetta svo ef ég set íbúðina á sölu (ef ég vinn í happdrætti og kemst í fokdýran Kópavog - er samt mjög ánægð hér) mun ég færa sófann aftur svo hann standi við vegginn vinstra megin. Stofan er örlítið notalegri svona, finnst mér og meira bjóðandi: Komdu og sestu, Gurrí mín, láttu fara vel um þig, sæta beib, svona eins og stofur segja.
Eftir brjálað hámhorf mitt á Ludwig (mæli með) um síðustu helgi áttaði ég mig á því að stofan var ekki hönnuð fyrir slíkt gláp, eða uppröðun húsgagnanna (sjá fyrir-mynd, t.v.), eiginlega meira fyrir virðulega setu í þægilegum sófa með tebolla í annarri og eitthvað fínt skoskt kex í hinni, jafnvel skonsu með hleyptum rjóma og sultu. Hálsrígur var nefnilega ein uppskeran af glápinu svo annaðhvort þurfti að færa sófann svo hægt væri að liggja í honum við áhorf eða halda áfram sjónvarpsforðun minni sem hefur staðið í nokkur ár. Ég var oggulítið farin að óttast að ég notaði Storytel eins og dóp, væri orðin háð því að láta róandi rödd (með lágmarksleiklestri) leiða mig um lífið í leiðslu í gegnum húsverk, strætóferðir og slíkt. Fokkings lífið yrði að halda áfram, og hvað er hversdagslegra en að henda sér í sófa á kvöldin og horfa á sjónvarpsþætti? Ég spurði Kópavogs-systur mína síðast þegar ég var í heimsókn hjá henni: Hvað á ég svo að horfa á?
Ég gafst reyndar alltaf upp á öllu (nema Twenty Four) þegar seríum sumra ágætra þátta fór að fjölga ... Eins og til dæmis Prison Break, þar var lopinn aldeilis teygður, skilst mér, ég gafst upp strax í upphafi fyrsta þáttar í seríu tvö. Ég hafði líka orðið fyrir ákveðnu áfalli þegar ég ætlaði að horfa á girnilega seríu, tónlistarþætti með uppáhaldshljómsveitinni minni, Skálmöld í Sherwood, hélt að þetta væru heimildaþættir, vandlega músíkskreyttir ... en nei, þetta var lögguþáttasería sem tengist ekki þungarokki á nokkurn hátt, held ég. Hrmpf ...
Það sem systir mín lagði til að ég horfði á var:
RÚV
- Skálmöld í Sherwood
- Undir yfirborðið (úkraínskir spennuþættir)
- Hamingjudalur
- Sekúndur
- Leynibruggið (eitthvað fyrir okkur stráksa um páskana)
Stöð 2
- Moonflowers Murders
- Sullivans Crossing
- True Detective (sá fyrstu þáttaröðina, hún var æði)
- Coma sem er sennilega á Sjónvarpi Símans en við systur höfðum ekki tíma til að hanga lengur yfir sjónvarpsþáttaleit sem ég skráði samviskusamlega í gemsann minn, svo SSímans bíður betri tíma. Ég er einmitt með Premium hjá þeim ... svo er ég með Netflix líka og Disney plus og Amason Prime ... Hef ég kannski ekki tíma til að stunda atvinnu?
Í dag hefði ástkær sonur minn, Einar, orðið 45 ára, sem er eiginlega hálfundarleg tilhugsun fyrir móður sem er sjálf ekki mikið eldri en það ... en hver telur svo sem árin? Þessi dagur vekur alltaf upp mun fleiri tilfinningar en dánardagurinn (3. jan. 2018) og hefur verið frekar erfiður síðustu árin. Mér finnst gott að verja honum í eitthvað allt annað en hátíðarhöld og læti til að minnast hans og ætla í dag að leggjast yfir góða þáttaröð í sjónvarpinu - jafnvel góða bíómynd ef ég dett niður á einhverja. Fæ mér góðan kaffibolla honum til heiðurs, en hann átti sameiginlegt með mér að finnast kaffi besti drykkurinn. Einar var sjálfur algjör sjónvarps-kall og hafði sérlega gaman af því að fylgjast með náttúrulífsþáttum um villt dýr, helst kattardýr af ýmsu tagi, og styrkti ýmis samtök sem vernduðu dýr í útrýmingarhættu. Hann nærði í sér flughræðsluna með því að horfa á þætti um flugslys og hafði líka gaman af því að fylgjast með spennuþáttum og Tottenham spila í enska en ég ætla að velja einhverja slíka þáttaröð. Ég get ekki horft á náttúrulífsþætti því það er alltaf einhver saklaus sem deyr í þeim og svo segir Attenborough þegar ljónið rífur í sig sæta bamba: Svona er hringrás lífsins ...
Nú eru kattahatarar* farnir af stað á Facebook vegna hreiðurgerðar fuglanna. Ef mínir kettir væru útikettir myndi ég auðvitað halda þeim inni á varptíma en bæði hrafninn og mávurinn eru ungum hættulegri en heimiliskettir. Ég hef bjargað fugli lifandi úr kattarkjafti og Míró var í fýlu við mig í heilan klukkutíma á eftir ...
*Kattahatrið sem ég tala um felst alls ekki í umhyggju fólks fyrir fuglum, heldur í orðum á borð við: Þá eru þessi ógeðslegu kvikindi (kettir) komnir á kreik ... bla bla ... gott að ég náði ekki ógeðinu sem reyndi að ná fuglinum ... osfrv.
Sumir sem hata ketti og elska fugla hata samt máva (ég var alin upp við að maður ætti að hata þá en sonur minn breytti þeirri skoðun minni algjörlega), borða kjúkling, önd og rjúpu ...
Samsettu myndirnar sýna ungan Krumma, Hrafnkel Einarsson, á öxl dýravinarins Einars sem fór aldrei í "dýr-greinarálit", og hin sýnir sama kött í fanginu (andlitinu) á mér fyrr í dag, en Krummi nálgast nú ört fermingaraldurinn (14 ára). Ég skellti þessum myndum á Facebook í dag en gat því miður ekki notað fleiri tölustafi og þannig birt aldur minn. Veit ekki hvað Musk og Trump eru að hugsa með því að breyta Fb svona ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2025 | 16:10
Fyndnir vinir, fundvísir fuglar og óvænt hámhorf
Uppistandið í Sykursalnum á morgun verður að veruleika í lífi mínu og mikil tilhlökkkun ríkir. Ég hef um nokkra hríð minnst á þetta við nokkra aðila, jafnóðum og ég hitti þá, svona nánast. Það er gríðarlega ögrandi og talsvert mikil áskorun að eiga svona upptekna vini og vandamenn (suma jafnvel með flensu) sem var ábyggilega raunin núna - en svo var þó alls ekki þegar ég keypti miða á tónleika Skálmaldar með næstum ársfyrirvara, engan langaði mér með nema unga konu með góðan tónlistarsmekk - þungarokk engin fyrirstaða.
Á uppstandið langaði þó ábyggilega allt mitt fólk en komst ekki þrátt fyrir að ég hefði í einu blogginu nýlega talað um hvað ég hefði mikinn áhuga á að fara og ýjaði að því að mig vantaði einhvern með mér. Foreldrar uppistandarans létu mig vita á Fb að þau yrðu þarna sem var mikill bónus. Ég sá lengi vel fyrir mér að við færum saman fimmtán eða tuttugu allra nánustu vinir og vandamenn en það er svo ótrúlega erfitt að sópa saman þessum villiköttum mínum - nema einum í einu. Það verður samt vonandi einhvern daginn.
Ég hefði að sjálfsögðu átt að skipuleggja þetta betur og með lengri fyrirvara.
Mér tókst með herkjum en tókst það samt að redda sólmyrkva í afmælinu mínu á næsta ári, geri aðrir betur ... gúglið bara 12. ágúst 2026.
... og Simpsons-þættirnir spá andláti Donalds Trump á laugardaginn, á afmælisdegi sonar míns sem verður / hefði þá orðið ... 45 ára!
Jæja, en í gærkvöldi áttaði ég mig á því að það þýddi lítt að ýja bara að einhverju, heldur sendi einni vinkonunni sem kom með mér á Bókakonfekt Forlagsins fyrir síðustu jól, ákveðinn tölvupóst sem hljóðaði svona:
Mætti halda að ég eigi mér það eina áhugamál að draga þig á djammið ... nennir þú á uppistand á fimmtudaginn?
og bætti svo við: Bókmenntir, uppistand, hvað næst?
Hún svaraði:
Þú ert bara lóðrétt á leið í sollinn! Er engin kirkja í hverfinu?
Við Ólöf erum sem sagt á leiðinni á djamm / uppistand annað kvöld og hlökkum til að hlæja okkur til óbóta. Já, ég kaupi mig inn á fyndna viðburði þótt ég eigi svona skemmtilega vini.
Ég skrapp með einni vinkonunni á kaffihús í fyrradag. Þetta var hálfgerður fundur í leiðinni og hún var með lyklaborð á sér ef þyrfti að skrá eitthvað ... ekki stórt lyklaborð og hún er tölvunarfræðingur, samt svo brilljant að eiga vinkonu sem gengur með lyklaborð í vasanum!
Önnur skemmtileg vinkona átti þátt í því að ég rauf nokkurra ára sjónvarpsbindindi mitt (nema örstutt kíkk á fréttir, Gísla Martein eða fótboltaleik) þegar hún heimsótti mig nýlega og sagði frá þáttaröðinni Ludwig á RÚV. Mér tókst að finna þættina skömmu eftir að Guðrún fór og horfði á þá alla sex í einni beit og bíð spennt eftir framhaldinu. Aldeilis komin á bragðið.
Allt sem tengist eineggja tvíburum finnst mér spennandi. Söguþráður í byrjun: Áhyggjufull kona hefur samband við mág sinn (jebb, tvíburabróður manns síns), einrænan gátuhöfund, og biður hann um að sækja minnisbók eiginmannsins á lögreglustöðina, en þar kynni eitthvað að leynast sem skýrði hvarf eiginmannsins (hann skildi eftir dularfullt bréf).
Nema mágurinn fer, sveittur af kvíða, hatar fólk, þykist vera löggan, nema hann er gripinn glóðvolgur ... eða tekinn með á morðstað þar sem hann leysir málið á undraverðum hraða og líka það næsta ... Hún sagði mér ekki meira en þetta dugði til að ég stykki á vagninn og nú hreinlega auglýsi ég eftir meira fjöri, einhverju sem er pínku spennandi og kannski líka fyndið. Ekkert skrítið þótt það sé alltaf fínt í stofunni hjá mér ... ég hangi aldrei þar yfir sjónvarpinu og drasla í leiðinni. Svo er ég líka miklu minni draslari en áður ... eftir að húsgögnum og munum fækkaði ... til muna. Hohoho. Aukin vítamíninntaka skiptir eflaust máli líka, ég er ekki lengur örþreytt eftir ekkert.
Myndin fyrir ofan er af Mosa sem hefur komið sér vel fyrir á undurmjúku og fögru sjali vinkonunnar sem sagði mér frá Ludwig og prjónaði sjalið.
Stráksi verður glaður yfir meiri sjónvarpsáhuga mínum, hann kemur og gistir yfir páskana og við getum þá horft á eitthvað saman. Við ætlum með elskunni henni Steingerði að skoða álfaslóðir á skírdag.
Hún er lærður leiðsögumaður með meiru og þar fyrir utan sannur sagnabrunnur, hann sérlegur áhugamaður um álfa og ég ... fylgi bara með. Tek með mér bók til öryggis ef þau verða óþolandi. (Djók! Ég hlakka virkilega mikið til.)
Það væri gaman að finna einhverja frábæra þætti til að horfa á með stráksa, til dæmis um álfa, ævintýri, galdra og slíkt sem við höfum bæði gaman af að sjá. Kannski eru einhverjar jólamyndir í boði þrátt fyrir árstímann, en með hverjum deginum styttist í jólin.
Þigg allar tillögur - ég á eftir að sjá allar seríur síðustu fjögurra, fimm ára nema Ludwig. Er samt með Netflix, Amason Prime og Disney plús (kann ekki (gleymi) að segja því upp ... á ég kannski erindi í þáttinn Viltu finna milljón? sem ég veit að kennir fólki að spara ... ég lifi samt frekar spart miðað við marga; á ekki bíl, fer ekki til útlanda osfrv.)
Býst við að þegar ég fæ endurgreitt frá skattinum (sem hirti nánast helminginn af séreignarsparnaði mínum í fyrra af því ég hafði ekki efni á því að láta það allt renna inn á lánið mitt, ég var að kaupa dýrari íbúð) til að kaupa sérstakt úr sem mælir hreyfingu, svefn og alls konar. Held að þau ráði drauma manns líka.
Gemsinn minn, gaslýsandi gemsinn minn, sem klífur með mér hæstu og lægstu tinda lífsins vill samt ekki viðurkenna nema í örfáum tilfellum að ég gangi frekar oft upp á sjöttu hæð. Hvíli mig vissulega í einhverjar sekúndur á þeirri fjórðu til að freistast ekki í lyftuna, en það getur varla skipt máli.
Hér á myndinni má sjá raunverulegt dæmi um sex hæða klifur mitt, sextán tröppur á milli hæða, eða átta tröppur í norður og átta í suður, en gemsinn (lygasjúki bjáninn) viðurkennir þessar sex hæðir bara sem þrjár. Ég get hoppað upp þrjár hæðir tíu sinnum á dag og fengið eina ferð skráða. Ég skal hlíta því en ekki þegar hann falsar sannar ferðir mínar.
Eini gallinn við svona úr er sá að ef ég færi í matvörubúð og hvíldi höndina á innkaupakörfunni allan tímann myndu skrefin ekki teljast með og þau eru svoooo mörg. Ég þarf nánast engin stigahlaup (gang) eftir búðapyntingar. Eins og átakanleg myndin sýnir viðurkennir gemsinn minn bara dag og tíma dags sem ég fór upp þessar sex hæðir ... ekki raunverulega hækkun á sextán þrepa fresti, og þarna einn laugardaginn nýlega þegar ég fór tvisvar upp og tvisvar niður, fékk ég viðurkenningu - en bara fyrir aðra ferðina upp.
Mávarnir mínir fundu mig hérna í höfuðborginni og fögnuðu ofsafengið í gær þegar ég mætti með poka fullan af ýmsum afgöngum, meðal annars frekar vondu brauði sem ég tók úr frysti og þíddi með aðstoð brauðristar, ég tróð útrunnum smjörva með og ýmsu öðru góðgæti sem gladdi vini mína mjög. Nú, ef þetta eru nýir vinir, held ég að Inga vinkona sjái Skagafuglum áfram fyrir fæði allan ársins hring. Hér hef ég fóðrað hvæsandi og vanþakklátar gæsir og stygga hrafna síðustu mánuði og finnst gaman að hópurinn hafi stækkað eftir að Jónatanarnir mínir komu frá Afríku til sumarvistar. Fer ekki í fuglgreinarálit ... svangir fuglar eru bara svangir fuglar og mávar eru flottir og gáfaðir, eiga jafnmikið skilið að vera gefið og öðrum. Minni á að hinir fögru svanir geta verið svakalega grimmir og éta líka andarunga á Tjörninni. Gleymi aldrei forsíðu Moggans um árið þar sem slík átveisla fór fram ... Hef ekki treyst mér til að lesa Dimmalimm síðan.
Fannst á Facebook:
Denverslun (sem er svo sannarlega til á FB, birt orðrétt):
afsakið séum að trufla en hvað þíðir ef manni dreimir að það sé heill heimur og önnur þjóð neðanjarðar undir síðumúla???? er samt ekki að missa tennur líka í draumnum.
minnum líka á að fóttbrottnir viðskiftavinir fá enga sérmeðferð.
- - - - - - - - - -
FB minnti mig nýlega á Herbert Hnausdal sem bauð sig fram til forseta eitt árið, reyndar bara á Facebook, ýmsum til mikillar gleði. Fyrir nokkrum árum skrifaði ég:
Get ekki annað en mælt með þessum forsetaframbjóðanda: Herbert ætlar m.a. að hafa Dorrit áfram á Bessastöðum, hækka kjörþyngd fólks, hafa kvenkynsbílstjóra, þýskar vinnukonur og fleira flott. Ekki láta flekkað mannorð hans og dóma vegna landabruggunar skemma fyrir ykkur. Herbert er spennandi valkostur.
- - - - - - - - - - - - - - -
Ég: Ég er enn hálfdauð eftir allt þetta crossfit í morgun.
Samstarfsmaður: Það er borið fram croissant og þú borðaðir fjögur!
- - - - - -
Áttundi kaflinn úr Stabat Mater eftir Pergolesi hefur verið uppáhaldið mitt síðan ég var átta ára, eða í rúm tuttugu ár. Ekkert að þakka.
(Ok, mamma æfði þetta verk með Kór Akraneskirkju um árið, Haukur Guðlaugsson stjórnaði, og ég fór með á flestar æfingarnar og tónleikana líka, minnir mig. Það þurfti ekki meira til að ég hrifist af þessari dásemd. Mæli með að hlusta á allt verkið, alla tólf kaflana (mamma hélt mest upp á þann tólfta, amenið) ... en þessi útgáfa er mjög góð - söngkonurnar algjört æði. Hef svo sem ekki leitað að plötu þar sem kór kemur við sögu, held að verkið sé samið fyrir sópran, alt og hljómsveit en það er voða flott með kór líka í sumum köflunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2025 | 16:43
Loksins skimun og grimma stafavíxlvélin virkjuð
Tæplega mánuður er liðinn síðan ég fékk bréf frá Landspítalnum um að mæta í skimun og loks herti ég mig upp og hringdi. Vissi að það yrði erfitt að finna réttan tíma, jafnvel langt fram í tímann, sem hafði tafið mig frá því að hringja. Veit t.d. ekki enn hvenær (kl. hvað) ég kenni í apríl/maí og svo versnar í því þegar nær dregur sumarfríum starfsmanna sem er allt í lagi nema þegar þarf að ákveða að fara eitthvað klukkan eitthvað ákveðið. Fannst ólíklegt að ég fengi skimun á laugardagskvöldi sem myndi henta mér vel en það mátti samt vona.
Kemstu klukkan 13.40 í dag? spurði ljúfa konan sem svaraði í símann. Uuuujáts! svaraði ég og trúði vart heppni minni, einhver hafði greinilega afpantað sem kom mér svona líka vel, enda var mæting til vinnu klukkan fimm og nægur tími.
Ég mætti niður á Eiríksgötu, lét vita af komu minni (skimun í fyrsta sinn í mörg ár) og held að það hafi ekki verið ljúfa konan sem hreytti pirruð út úr sér: Þú þarft að skrá þig þarna, og benti á nokkra skjái á veggnum á móti. Það sem alkabarnið heyrði var: Fávitinn þinn, það er árið 2025, reyndu að uppfæra þig og láta mig í friði! En auðvitað meinti hún það ekki þannig. Ég þakkaði henni kurteislega fyrir, skráði mig og borgaði (posi hjá skjánum) en þurfti því miður að fá að vita hvar stiginn upp á þriðju hæð eða lyfturnar væru ... og alveg jafnhress yfir trufluninni urraði konan mér í rétta átt.
Allt annað viðmót mætti mér uppi ... eða þögull en vinalegur skápur sem reyndist vera búningsklefi ... með tvennar dyr svo ég gat læst almenningsmegin. Klæddi mig úr að ofan og beið svo þar til rauða ljósið yfir innri dyrunum breyttist í grænt, þá mátti ég fara inn til elskulegu kvennanna sem þar biðu spenntar eftir því að fá að mynda mig. Tók örfáar mínútur, svo var það klefinn aftur, ég klæddi mig og gekk niður stigana. Þá tók nú aldeilis ævintýrið við. Ég hélt í áttina að Landspítalanum, (Eiríksstaðir eru við hliðina á Vörðuskóla og fyrir aftan Hallgrímskirkju) og minnti að það væri stoppistöð þar - sem var rétt - en strætó birtist bara allt í einu svo ég tók til fótanna og hljóp eins og vindurinn á móti honum. Komst auðveldlega yfir götuna því umferð var nánast engin.
Þú hefðir ekki þurft að hlaupa, sagði vingjarnlegi bílstjórinn. Næsti vagn kemur eftir átta mínútur, bætti hann við. Hvernig átti ég að vita það? hugsaði ég en sagði bara: Takk fyrir að bíða.
Hásinarnar? veit ég að allir mínir bloggvinir hugsa. Hvernig fór fyrir þeim, greyjunum sem hafa verið að jafna sigm hálfslitnar eftir strætóhlaup fyrir nokkrum árum?
Sko, eftir að hafa skokkað niður margar hæðir hér heima (sjá mynd úr stigaganginum, hún var tekin á fyrstu hæð og upp) fyrr um daginn, þrjár hæðir á Eiríksstöðum (sem húsið heitir) og almennt séð hreyft mig miklu meira á þessu ári en þeim síðustu, tekið inn B1-vítamín, verið með hælahækkun í skónum ... og ef gemsanum mínum skjátlast ekki, hafa hásinar ykkar einlægrar verið í ágætri þjálfun. Ég gæti farið að skokka, grunar mig ... en ég set mörkin þar. Stigahlaup og strætóhlaup, það er meira en nóg.
Ég var ekki með neitt vesen í skimuninni, enda stjórnar starfsfólk á plani því ekki hversu illa er farið með Skagakonur. Myndavélar eru m.a. sendar til Selfoss og Keflavíkur svo konur þar þurfa ekki að taka sér frí úr vinnu nema í kannski korter, en konurnar á Akranesi mega gjöra svo vel að mæta til Reykjavíkur sem þýddi að ég fór aldrei, reiknaði út að ef ég hefði átt tíma þar kl. 10 að morgni myndi það taka mig um sex klukkutíma að komast þetta fram og til baka með strætó. Það var mjög letjandi, ekki síst eftir að hægt var að fara í skimun á spítalnum á Akranesi lengst af, eða þar til Krabbameinsfélagið hætti að nenna að koma.
Reyndi alveg að fá að sitja í með vinkonum en þær voru jafnvel nýbúnar að fara í skimun þegar ég hringdi í þær eða ætluðu ekki að fara. Svo er Vegagerðin að draga enn frekar úr þjónustu landsbyggðarstrætó á Akranesi, fækka stoppistöðvum niður í þrjár, þannig að nú munu sko ALLIR flykkjast í strætó ... vonandi muna þau eftir að hækka fargjaldið líka. Bíllinn til Akureyrar og frá Akureyri, mun ekki lengur koma við á Akranesi (það "tafði" víst um 20 mínútur). Getur verið að ungi en forni maðurinn í Miðflokknum, vonarstjarnan Snorri, hafi náð að valda skaða með fáránlegum fréttaflutningi sínum um árið (Stöð 2) þegar hann vildi meina að allt of margar stoppistöðvar á milli Reykjavíkur og Akureyrar væru ástæða þess að farþegum hefði fækkað, sem sagt líklegra en covid-tíminn, fargjaldahækkun og fækkun ferða? Nú vill þessi sama mannvitsbrekka meina (ræða á Alþingi) að kynjafræði búi til femínista sem hati karla. Ég er femínisti og ég elska karla, hvað er þá að mér, eða er Snorri kannski bara með uppistand á þingi og segir bráðum: bara djók!?
Náði að knúsa kettina í tvo tíma eftir brjóstaskimun og áður en ég fór í vinnuna, og sá mér til gleði að ljúfi sýrlenski bílstjórinn keyrði vagninn minn sem er með stoppistöð hér á hlaðinu. Þessi sem býður alltaf góðan daginn, stoppar brosandi fyrir óléttum konum með barnavagn og halarófu af krökkum á gangbraut ... hann lítur út fyrir að vera fyrrum bóndi úr Skagafirði (móðurættin mín er þaðan) en ég veit að hann þekkir sýrlenskt vinafólk mitt á Skaganum, annars hefði ég haldið mig við Skagafjörðinn. Eina sem hann kvartar yfir er að samstarfsfólkið talar allt saman á ensku, ekki íslensku, hann langar svo til að verða betri í íslenskunni. Ekki sá fyrsti sem ég hef hitt sem segir það. Ég ráðlagði honum að fara á námskeið í skólanum mínum, þar er nú ekki töluð enskan.
Tíminn sem ég kenndi í gærkvöldi var sá síðasti þar sem almenn kennsla fór fram, því nú á föstudagskvöldið verður útskriftarathöfn. Mér tókst að klára aðalkennslubókina, gefa þeim öllum pínkuponsulítið páskaegg (úr mjólkursúkkulaði frá Nóa, namm) með málshætti (skyndihugdetta þegar ég keypti mér snemmbúinn kvöldmat í Hagkaup, sushi). Páskaeggin vöktu mikla lukku og líka málshættirnir. Ó, hvað ég á eftir að sakna þeirra. Dásamleg öll.
Ég vældi aðeins undan því um daginn hvað viðreynsluaðferðir sumra karla virkuðu illa og væru árangurslausar þegar þeir halda til dæmis að spjall í gegnum Messenger á fb væri málið. Ég hef síðan hugsað svolítið út í hvað geti virkað ... Mögulega að rekast "óvænt" aftur og aftur á sama sæta manninn úti í búð og svo myndi hann kannski segja glettnislega: Hvað er svona falleg kona eins og þú að gera á stað eins og þessum? Ég gæti mögulega fallið fyrir þessu en man þó eftir gaurnum sem ég hitti á Gauk á Stöng (eða Dubliner) einu sinni, kannaðist við hann og spurði í gríni hvað svona huggulegur maður væri að gera á stað eins og þessum. Hann varð ógeðslega fúll og rauk í burtu. Þetta var ekki einu sinni pikköpptilraun hjá mér, bara grín. Einhver bauð mér upp í dans eitt sinn og ég sagðist fyrst vilja sjá skattaskýrslu föður hans ... sá varð alveg brjálaður líka og fór í fússi. Átti víst forríka foreldra en ég hafði ekki haft hugmynd um það. Húmor þarf víst að vera góður til að hann virki á alla, ég er farin að gera mér grein fyrir því.
Það væri mjög notalegt (ef ég hefði ekki hrakið þessa menn og miklu fleiri frá mér) að vera vakin á páskadag við ilmandi góðan kaffibolla og Fabergé-páskaegg ... sem næst varla úr þessu, svo stutt er til páska. Sé varla fyrir mér heldur að nokkur karl myndi nenna að keyra alla leið til Grundarfjarðar og kaupa þar baunir af Valeria-kaffi (espressóbrenndar) til að gleðja mig sérstaklega. Væri gaman að vita hvort Valeria-kaffið fáist í bænum, t.d. Melabúðinni. Þar kennir ýmissa kaffigrasa.
Nýlega kíkti ég á gamlan uppáhaldsvef með stafavíxlvélinni góðu. Ég gleymdi eftir síðustu kosningar að skella inn nýju stjórnarflokkunum ... sem ég er reyndar ansi hreint fúl út í fyrir að hafa látið viðgangast að senda tvær konur (sú yngri, unglingur á leið í próf) út í óvissuna í dag, á meðan erlendar mafíur og glæpaklíkur fá að vaða hér uppi og hættulegur ofbeldismaður þurfti fimm löggur til að gæta sín í dómsal (reyndar kominn með vernd).
Útlendingarnir okkar (flóttamenn og innflytjendur) vinna störfin sem við nennum ekki að vinna, þau kaupa ódýru bíldruslurnar sem við keyrum ekki lengur, halda uppi strætó, bæði sem farþegar og bílstjórar, eru ómetanleg fyrir góðgerðasamtök á borð við Samhjálp og Hjálpræðisherinn með sjálfboðavinnu (óháð trú) og fleira og fleira. Heimurinn er bara orðinn þannig að við getum ekki litið undan og látið sem það komi okkur ekki við.
Jæja, stafavíxlið ... Ég vel bara það andstyggilegasta sem kemur:
Flokkur fólksins: Loksins KFUK-flór.
Samfylkingin: Fylgsni minka eða Fiskinn mygla ...
Viðreisn: Sviðin er ... (allt of fáir stafir til að fá fútt í þetta)
Hinir flokkarnir:
Miðflokkurinn: Lokkum inn frið (ég er ekki að grínast)
Sjálfstæðisflokkurinn: Skjákort fulls fæðis.
Framsóknarflokkur: Karlakór forns KFUM.
Vinstri græn: Svitinn grær.
Náði ekki Lýðræðisflokknum sem bauð sig fram síðast, eða Sósíalistum, hvað þá Pírötum, prófaði meira að segja að setja Píratapartý (það er samt ekki Ý í partí, krakkar) en vélin treysti sér ekki til að finna eitt einasta útíhött-orð hjá þeim. Takk samt, Elías!
Sjálf er ég: Aldraður hrísguð, eða Draugur sarð hlíð ...
Nokkrar konur eru næstar (ekki svona hræddur, Snorri) og hér leita ég ekki að því andstyggilegasta, það má hlæja að flokkum á þennan hátt en síður fólki, finnst mér.
Sama hvað ég reyndi að setja Þorgerði Katrínu inn, vélin náði ekki að búa til ný orð fyrr en ég setti inn Katrín Gunnarsd og þá komu tillögur á færibandi. Svo þurfti ég að finna nafnið á föður Ingu Snæland (althingi.is) sem er Ástvaldur, til að fá eitthvað út úr hennar nafni, það kom ekkert bara með Ingu Snæland einni. Hér eru sem sagt formenn stjórnarflokkanna, rektor HÍ, lögreglustjórinn, forsetinn og biskupinn, sumar fá eina merkingu, aðrar fleiri ef ég gat ekki gert upp á milli:
Inga Sæland Ástvald: Ágæta vald landsins, Ágæta vill dans dans, Ásældist vagnaland.
Kristrún Frostad: Kúrdi snart frost (sem passar alveg ef Mette fær að ráða útlendingamálum hér) ... Dúfnakorr strits.
Katrín Gunnarsd: Danskur tanngír ... Andríkt garn uns ...
Silja Bára: Sjáir bala.
Sigríður Björk: Kjurr bíði grös.
Halla Tómasdóttir: Dómstólar hitta al ... Matarsódi hló latt.
Guðrún Karls Helgud: Garðhús und gullker.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 2
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 669
- Frá upphafi: 1524363
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 567
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni