Endurgoldin ást og veistu hver ég var ...

Við MosiGengið í vinnuna-átakið var prófað í dag í annað sinn á nokkrum vikum. Nógu svalt var í veðri til að svitna ekki og nógu blautt til að geitungar réðust ekki á mig. Það var svo heitt (maí-hitabylgjan) í fyrra skiptið að ég settist mjög reglulega á bekk á leiðinni til að svitna ekki (ég var að fara að kenna og engin sturta á staðnum).

Geitungamál ... Mér til varnar: ég er ekki jafnsturlað skelkuð við kvikindin og hann Júlí Heiðar söngvari. Sem sagt, þetta var geggjað sumarveður til skrefasöfnunar. Ég var innan við 25 mínútur á leiðinni - með stoppi í bakaríi þar sem ég keypti smávegis nesti fyrir seinnipartinn. Ein skyrdolla ekki nóg fyrir næstu níu klukkutímana. Æðislegt bakarí þarna í Álfheimum. Ég hefði ekki átt auðvelt með þessa gönguferð fyrir nokkrum mánuðum, orðin algjör sófakartafla sem var þó orðin örmagna uppi á fimmtu hæð (4,5. hæð) og tók lyftuna rest í kvöld, eða upp á 6,5. Skref yfir 5.000, ef marka má símann minn sem er alltaf ansi hreint nískur á viðurkenningu í minn garð.

 

Efsta myndin tengist færslunni þráðbeint og sýnir velheppnaðar strípur, augabrúnir, sætan kött og drög að útsýni núna undir miðnættið.

 

Kennslan í kvöld hefði verið afar ögrandi og baðstofuleg EF það væri vetur. Það er verið að gera við ýmislegt í skólanum, aðallega utanhúss hjá okkur, en stofan mín var rafmagnslaus í kvöld - sem gerði samt lítið til. Er með 18 nemendur af tólf þjóðernum og alveg ótrúlega gaman að vera með svona marga. Dáist að þessum duglegu elskum sem eru flest, ef ekki öll, að vinna á daginn og koma svo og læra íslensku á kvöldin.

 

Skálmöld knúsarÁst mín og aðdáun á ofurrokksveitinni Skálmöld hefur ekki leynst nokkurri manneskju og nú hefur ástin loksins verið endurgoldin - með eins konar rafrænu knúsi á Facebook. Þetta gladdi gamalt rokkarahjarta mig ósegjanlega. Ég þyrfti að koma mér upp æstum þungarokksvinum sem væru til í að koma með mér á tónleika - til viðbótar við annars músíkelskandi fólk í umhverfi mínu. Vinir og vandamenn eru meira í: Frank Zappa, Björk, Leningrad Cowboys, Elly Vilhjálms, Bach, Eminem og Hnetusmjöri, svo fátt sé nefnt.    

 

Svo lenti ég í nokkurs konar veistu-hver-ég-var-atviki í gær þegar þegar ég beið eftir strætó hér við Sæbraut. Maður nokkur, á óræðum aldri en greinilega mikill smekkmaður vatt sér að mér: Ert þú ekki stundum með pistla í Morgunblaðinu?“

Það var enginn tími til að útskýra muninn á bloggi og blaðagreinum, svo ég kinkaði bara stolt kolli. Svona hlyti Hollywood-stjörnum að líða þegar einhver bar kennsl á þær.

„Heitirðu ekki Jóhanna? Eða Ingibjörg?“ Þarna skemmdi hann þessa annars hugljúfu viðurkenningarstund.

„Nei, ég heiti Gurrí,“ sagði ég snúðugt en reyndi að fela beiskjuna sem vall upp.

„Guðríður?“ 

„Já.“

 

Köttur í HárhorniÞetta eyðilagði samt ekki daginn, enda fín nöfnin Ingibjörg og Jóhanna. Ég hafði líka hugann við máv óttans í Skeifunni. Var með þiðnað brauð úr frysti handa honum ofan í tösku. Mér leið mögulega eins og Þorgerði K. og Kristrúnu þegar þær hittu Trump ... betra að halda sumum góðum ... Þegar ég kom í Skeifuna stoppaði ég hjá sama ruslagámi og síðast (fjarri allri mannabyggð), reif niður brauðið, horfði annað slagið á illfyglið uppi á þaki sem fylgdist með mér, reyndi að hneigja mig svolítið líka en nú brá svo við að flaug ekki að brauðinu þegar ég var komin í hæfilega fjarlægð. Hefði ég átt að dreypa truffluolíu yfir það eða strá á það gullflögum? Þetta var vissulega ekki eldbakað súrdeigsbrauð, heldur meira svona dvergvaxið baguette-brauð frá Eldum rétt, eitthvað sem ég hafði fryst fyrir einhverjum mánuðum. Svo laust því niður ... ég hef breyst mjög í útliti síðan í síðustu viku. Bæði fór ég í litun á augabrúnir og augnhár OG svo í strípur á mánudaginn. Ég var gjörbreytt manneskja og þurfti ekki að færa neinar fórnir lengur úr frystinum. Sennilegast var þetta þó bara annar mávur, þeir hljóta að hafa vaktaskipti.

Mér finnst þó ansi gott að geta tekið úr frysti það sem ég veit að ég á ekki eftir að borða - og einhver sísvangur njóti góðs af. En brauðið var pottþétt étið, engin hætta á öðru. 

 

Á mánudaginn, þegar Eldum rétt var búið að koma (kl. 13.30) hringdi ég í Hárhornið á Hlemmi. Þar er hægt að ganga inn án þess að panta tíma. Ég gerði það fljótlega eftir áramót og fékk ljómandi fína klippingu hjá manni sem býr í næsta húsi við mig, sem kom óvænt í ljós. Lilja, eigandinn, er þó strípudrottningin á staðnum en nánast ómögulegt að fá tíma í slíku. Ég prófaði að spyrja þarna þegar ég hringi og það hafði opnast einhver glufa heppninnar og ég þaut út, 7 mín. bið eftir strætó, aðeins of langt að hlaupa niður á Hlemm, en ég var komin eftir kannski 20 mín. Þessar strípur, ljósar og brúnar til skiptis, voru hugmynd Önnu Júlíu á Akranesi eftir taugaáfallið sem ég fékk þegar ég sá fyrir tilviljun ljósmynd þar sem sást í mig aftan frá ... og það var eins og ég væri með stóran skallablett á hnakkanum. Sumir grána smekklega, ég geri það greinilega ekki. Þetta voru fyrstu strípurnar síðan á Skaganum í fyrra.

Það voru samt ekki strípurnar og skemmtilega starfsfólkið sem heillaði ... heldur köttur (sjá mynd) sem hafði gert sig heimakominn þarna, eða mætt reglulega í heimsókn. Rauðhærður riddari, mögulega vergangsköttur, yfirgefinn, eitthvað sorglegt, en hafði átt skjól hjá Lilju og kó í tvær vikur, fengið mat, vatn og stað til að leggja sig á, við mikla ánægju gesta og gangandi. Hann gæti verið kominn upp í Kattholt núna, Lilja ætlaði að láta skanna hann til að fullvissa sig um að hann ætti ekki heimili áður en hún gerði nokkuð. Hann var víst mjög var um sig til að byrja með, skaust út við minnsta hávaða en lá og hvíldi sig sallarólegur á meðan ég var þarna. Vona að allt fari vel, og að kisi fái nýtt heimili.


Menningin í borginni, vont kaffi, eggjaatvik ...

Nína og AnnaFlutningurinn í bæinn var ekki bara tregafullur (sakn á Skagann) heldur hefur hann haft góð áhrif á samkvæmislífið. Eins og bloggvinir vita var ég sennilega eina fullorðna manneskjan á Akranesi sem átti ekki bíl, strætó innanbæjar gekk bara virka daga til klukkan sex og rosalega langt labb t.d. í Bíóhöllina - þar sem tónleikar, bíósýningar og margt skemmtilegt fór fram. Það hefði verið mun auðveldara (minna labb) fyrir mig að taka leið 57 til Reykjavíkur og fara í hina Bíóhöllina, sunnan rörs, til að sjá mynd. Reyndar voru bæði Tónberg og bókasafnið í göngufjarlægð frá himnaríki og þar var ýmislegt í boði. Ég var líka með stráksa hjá mér og valdi þá viðburði þar sem hann gat komið með mér.

 

Það var afskaplega gaman að fara á listsýningu í dag með tveimur vinkonum mínum, systrum, og síðan á kaffihús því við búum allar hér á höfuðborgarsvæðinu: 104, 108 og 225, og önnur þeirra greip mig með í leiðinni. Gleymi seint þegar við sonurinn fórum á Engla og djöfla (Tom Hanks) í Háskólabíói í Rvík og það tók fáránlega marga klukkutíma, strætó milli 300 Akraness og 170 Mosó gekk frekar stopult þarna í denn. Fórum frá Akranesi um hádegi, þurftum að koma okkur frá Mosó yfir í Vesturbæ Reykjavíkur og svo heim aftur. Rétt misstum af strætó þarna seinnipartinn og þurftum að bíða í nokkra klukkutíma og vorum ekki komin heim fyrr en um kvöldið. Myndin var síðan ekkert meistaraverk, minnti mig helst á tölvuleik, Tom Hanks fór eftir vísbendingum en tapaði hverju borðinu af öðru (og prestur dó í hvert sinn, ef ég man rétt) þar til Tom náði að vinna eitt borð í lokin og sigra leikinn. 

 

Eggjahneyksli í KrónunniVið fórum í Krónuna, Borgartúni, á heimleiðinni. Þekki þessa búð ekki neitt og ákvað á vissum punkti þegar ég var komin vel inn að beygja til hægri - grunaði að eggin væru geymd í kæli sem grillti í. Uppi í "stiga" í hægra horninu stóð starfsmaður sem varð eiginlega kjaftstopp þegar ég strunsaði að honum og spurði kurteislega: „Geturðu sagt mér hvar eggin eru, eða bent mér í rétta átt?“ Hann svaraði eftir vandræðalega þögn: „Þau eru nú hér, nákvæmlega hér,“ og benti niður fyrir sig. Þar í kælinum voru verulega litríkir og áberandi eggjabakkar. Sjá mynd sem ég laumaðist til að taka eftir atvikið.

 

Anna vinkona varð vitni að þessum niðurlægjandi hallærislegheitum ... en indæli starfsmaðurinn steig bara niður rétt á meðan ég nældi mér í bakka. Ég er reyndar svolítið sjónlaus í búðum og kaupi oft lítið sem er auðvitað hið besta mál, nema þegar eitthvað vantar heima. En þegar ég fer t.d. með Hildu systur í Costco, hlekkja ég mig við hana því hún finnur alltaf allt, eins og sniðugar jólagjafir og slíkt. Ég enda annars með eina vöru í Costco-körfunni, sítrónuköku, af því að ég veit nákvæmlega hvar hún er staðsett! Það er frekar sorglegt að lenda í langri biðröð til að kaupa eina sítrónuköku.

 

CatalínusautjándiFleira menningarlegt hefur gerst að undanförnu. Varð svo fræg að fara á Catalínu í Hamraborg í fyrsta sinn. Ekki til að hella í mig áfengi eða fara í spilakassa í kjallaranum (sem ég frétti nýlega af), heldur var þarna ansi hreint þjóðlegt brauðtertuhlaðborð á 17. júní. Við systur, ásamt dóttur hennar og tengdasyni og tengdamömmu dótturinnar, héngum nánast á hurðarhúninum í grenjandi rigningu kl. 13 þegar opnað var, og vorum sannarlega ekki ein um að fá þessa snilldarlegu hugmynd að mæta. Kostaði ekki mikið, innan við 3.000 kall á mann, sem mikil ánægja var með, heyrðist mér. Það var orðið troðfullt korteri seinna, bæði hjá barnum og í salnum hjá hlaðborðinu.

Guðrún vinkona sá Instagram-myndband mitt frá Catalínu, og lét mig vita að hún hefði verið þarna líka og á sama tíma en í hinum salnum þannig að við sáumst ekki. Einstaklega vel heppnað hjá Catalínu. Ég lét fólkið við borðið um að smakka kaffið því ef það félli í öngvit og hryndi í gólfið ætlaði ég ekki að smakka það - en tengdamóðir systurdóttur minnar þorði að segja það sem allir hugsuðu: „Vont kaffi, frábært bakkelsi!“ Það er svo sem ekki hægt að ætlast til þess að bar bjóði upp á svakagott kaffi þegar flestir kúnnarnir vilja bara bjór eða vín. Reyndar Kaffibarinn ... þegar við vinkonurnar hittumst alltaf eftir vinnu á föstudögum í lok tíunda áratugarins, fékk ég mér iðulega ljómandi gott kaffi þar (frá Te og kaffi). Alvörukaffivél og starfsfólk sem kunni á hana . Kaffibarinn stóð undir nafni ... þótt hann væri annars vinsæll djammstaður. 

 

Herkúles bestiElsku Herkúles, fallegi frændhundur minn, dó fyrir skömmu, aðeins sex ára gamall. Hafði verið veikur en það voru góðar vonir um bata. Það var mikið áfall þegar hann dó óvænt, ljúfi, blíði og góði Herkúles.

Golíat, hálfbróðir hans og besti vinur, var ansi vængbrotinn á eftir og er enn. Dýrin syrgja svo sannarlega. Mínir kettir eru eiginlega núna fyrst farnir að líta glaðan dag eftir að Keli dó í ágúst í fyrra.

 

Myndin var tekin í himnaríki eitt árið, og sennilega fljótlega eftir að Krummi uppgötvaði fyrir alvöru þessi "skaðræðiskvikindi" sem voguðu sér að gelta annað slagið og virtist einsetja sér að bjarga okkur hinum frá þeim með því að slá þá með loppunni. Það tókst nú bara einu sinni. Þeir Golíat héldu sig uppi í sófa eftir það og við mannfólkið í grennd vorum vel á verði svo Krummi kæmist ekki að þeim.

Bæði Mosi og Keli tóku hundunum þó fagnandi, leiðinda-rasismi í Krumma, eða bara ótti við það sem hann þekkir ekki. Þegar Golíat kom í heimsókn hingað fyrir skömmu sleikti hann Mosa í framan, kannski bara svona óstjórnlega feginn því að hann var ekki Krummi ... Mjög krúttlegt sem varð til þess að nú verð ég alltaf að vera tilbúin með gemsann til að ná að fanga svona falleg augnablik.       


Móðgaður mávur ... óvænt ólétta ...

Fb grúppur Gamla fólkiðFarin að vinna eðlilega, eða kenna bara einum bekk og að kvöldi til, kenndi líka á dagtíma þar til í gær, svo nú myndast möguleikar á því að gera meira, eins og að blogga. Stórmóðgaður mávur kemur við sögu í bloggi dagsins, og stórmóðgandi gemsi, svo fátt eitt sé nefnt.

 

Fyrir örfáum nóttum fór ég á fæðingardeildina komin 9 mánuði á leið, með hríðir og beið spennt eftir að eignast barnið sem Karl, gamall skólafélagi úr landsprófi og fæðingalæknir í raunheimum, ætlaði að taka á móti. Allt var eðlilegt við að kona á ömmualdri væri að fara að fæða barn. Ég vaknaði áður en nokkuð varð af þessu, takk, næturbirta. Held að svona draumur viti á gott, að hugmynd sé við það að fæðast ... Kíkti áðan á draumur.is og undir Ófrísk stendur m.a. að það sé góðs viti að vera ólétt í draumi, það tákni upphaf að einhverju nýju og spennandi í lífinu, jákvæðar breytingar í nánd.

Sjáum til, sjáum til. Ég hef alla vega von um að ég geti bætt úr vissu karlmannsleysi, sjá mynd af áhugaverðum fb-hópi fyrir aldraða ...   

 

Ég komst í hann krappan í Skeifunni á miðvikudaginn. Hoppaði að vanda út úr fimmunni við Glæsibæ og gekk sem leið lá á vinnustaðinn. Hálfnuð yfir Skeifuna sá ég mávinn minn sem situr iðulega uppi á þaki á gönguleið minni og gargar á mig. Ég tók Instagram-mynd af honum gargandi á þakinu og þau hljómuðu frá símanum mínum áður en mér tókst að ýta á "your stories". Einhverjum sekúndum eftir að ég ýtti, þá farin að nálgast Bónus, heyrði ég vængjaþyt mikinn og áttaði mig á því að mávurinn hafði snöggreiðst við mávahljóðin frá mér, steypt sér niður að mér ... og haldið ykkur, hafði hægðir á nýþvegið hár mitt. Sem betur fer bjargaði röskleg ganga mín mér frá því að fá allt ullabjakkið yfir mig, fékk bara smávegis sem ég gat þvegið úr hárinu við komu í vinnuna. Ég var sjokkeruð, alltaf verið góði gæinn með matinn í augum mávanna og því með algjörlega óákúkað hár fram að þessu, hafði meira að segja einsett mér nokkrum sekúndum áður að stökkva inn í Bónus og kaupa loksins samloku handa sínöldrandi fuglinum. Hann missti af samlokunni á miðvikudaginn vegna ótta míns við frekari árásir en ég fyrirgaf honum auðvitað. Hann hafði eflaust verið að æpa ókvæðisorðum að mér fyrir að vera ekki með mat og heyrði mig svo svara í sömu mynt, og brjálaðist yfir því.

Mávur óttansÉg átti fínasta brauð í frysti, eldbakað súrdeigsbrauð, eitthvað voða fínt úr Hagkaup ... en ef ég ætti að geta gengið í friði þarna í gegn yrði ég að færa honum eitthvað almennilegt. Til öryggis, svo hann þekkti mig ekki aftur (mávar þekkja andlit), hafði ég farið í lýtaaðgerð hjá Snyrtistofu Ágústu (lét lita augnhár og augabrúnir daginn eftir atvikið) og mætti svo í Skeifuna í gær, föstudag, með friðþægingarbrauðið.

Ég sá hann úr nokkurri fjarlægð og hann sá mig, en áður en eitthvað skítkast fór í gang, byrjaði ég að dingla pokanum með nýþiðnuðu og dúnmjúku brauðinu, reif það niður hjá stórum ruslagámi við bakhlið einhvers verkstæðis. Engir bílar í grennd og fátt fótgangandi fólk sem gæti truflað þessa athöfn. Þegar ég var búin að dreifa brauðinu við gáminn og lögð af stað aftur, flaug mávur óttans á móti mér en hafði greinilega fyrirgefið mér af heilum hug því hann flaug beint að brauðinu. Mig grunar að við séum orðnir vinir ... svo framarlega sem ég færi honum reglulega (alltaf) eitthvað gott í gogginn. Verst að dagkennslan er búin en vonandi er hann þarna líka um kl. 16.30 á daginn.

 

Í dag var dagur húsverkja og allt orðið glimrandi glansandi og fínt. Tók meira að segja til í körfunni sem geymir dagblöð en þar kenndi þó ýmissa annarra grasa. Ég fann þar tímarit, þrjá innkaupa-taupoka, sérlega flotta, þ.á m. einn með mynd af elsku Skálmöld. Annar var keyptur í Liverpool með mynd af Bítlunum og sá þriðji ótrúlega flottur, unninn upp úr flottu handverki, hann var keyptur á markaði á Akranesi. 

GemsinnEftir að hafa flokkað, tekið plast utan af sumum blöðum og sett í plastpoka og tekið ýmsa bæklinga síðan fyrir jól í bréfpoka, hugsaði ég mér gott til glóðarinnar, hreyfingarlega séð, að ganga niður allar hæðirnar með pappa- og plastdæmið og setja í tunnurnar, og síðan ganga úr kjallaranum upp sjö hæðir til að vaxa í áliti hjá gemsanum mínum sem mælir og skrásetur hverja mína hreyfingu. Þrátt fyrir tiltekt og ýmis læti um helgar næ ég aldrei virkudaga-skrefafjöldanum. Í gær (tvöfaldur kennsludagur) voru skrefin 5.580 þrátt fyrir bílfar heim, en tölt út á strætóstoppistöð, síðan frá stoppistöð í vinnuna, og kennsla tvisvar í tvo klukkutíma með tilheyrandi hoppi og skoppi gefur þetta mörg skref.

 

 

Ég kíkti í símann klukkutíma eftir stigahetjudáðina og bjóst svo sannarlega við að sjá þar eitthvað ögn meira en ÞRJÁR HÆÐIR, skrefin núna, þegar þetta er skrifað, komin upp í tæp 1200 þrátt fyrir að gemsinn hafi legið á ýmsum borðum í dag og úr honum hljómað spennusaga sem er svo gott að hlusta á við húsverkin - en telur ekki skrefin á meðan. En síminn minn gerir mér þetta reglulega. Kannski má ég ekki blása mæðinni í fimm sekúndur á fjórðu hæð áður en ég held áfram, þarf sennilega að taka þetta í einni lotu, helst hlaupandi.

 

Ég er orðin alvöruáhrifavaldur. Ég henti konu út af Facebook hjá mér og létti einhver ósköp við það, sjá síðasta blogg, og það var eins og við manninn mælt, sjálf Ingibjörg Sólrún fleygði sömu manneskju út hjá sér um það bil viku seinna! Nú má aldeilis fara að senda mér skyr og snyrtivörur! 


Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 168
  • Frá upphafi: 1529754

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 146
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júní 2025
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband