30.7.2024 | 23:05
Leitin að rétta húsinu víkkuð út
Klukkutíma eftir að ég hafði ýtt á vista og birta á síðasta bloggi þar sem óvissan í fasteignamálum var tíunduð, hringdi fasteignasalinn. Hún er komin úr fríi og búin að setja allt á fullt. Möguleg sala á einni íbúð í keðjunni og annar áhugasamur kaupandi að himnaríki á kantinum. Ég sem var búin að sameina Akranes og Reykjavík í huganum við tilkomu Sundabrautar, og að það tæki því ekki að flytja ...
Ég hafði einsett mér að finna þriggja herbergja íbúð, helst í Kópavogi (nálægt Hildu og kó) og var sem bíllaus lúser spennt fyrir að komast nálægt t.d. Hamraborginni (Katalinu!) þar sem stutt er í alla þjónustu (tattústofu, bókasafn, dýralækni, kaffihús, matvörubúð og fleira áríðandi) en ekki svo mikið framboð af réttum íbúðum. Tíminn hafði þó af mér skemmtilega íbúð þar sem nú er seld öðrum eftir að tilboð mitt rann út, en önnur girnileg var þó til staðar, hafði verið mánuðum saman á sölu og frekar hátt verðlögð. Ég skoðaði hana aftur nýlega (í vor í fyrra skiptið), eftir að verðið var lækkað, en af því að ég var með smið með mér og rósrauðu gleraugun skilin eftir heima, sá ég mér til skelfingar að það þyrfti að taka hana algjörlega í gegn ... Verðið allt of hátt miðað við það þrátt fyrir lækkun.
Svo ég fór að kíkja betur í kringum mig, en ekki fyrr en í gærkvöldi. Það kom eiginlega allt til greina nema vel gróið úthverfi - ég skrollaði öskrandi fram hjá öllum slíkum íbúðum, ég setti líka 2 herbergja íbúðir sem möguleika, hafði verið föst í ósk um stærri, og fullt af fínustu íbúðum komu upp, meira að segja frekar nýjar (takk, þétting byggðar).
Ég fann eina í leitinni, ekki svo langt frá Hlemmi, hún er lítil en falleg, nýleg og með svalir sem snúa að götunni (og lífinu, ekki öðrum gluggum). Ég sá líka eina á Laugaveginum, hún var áður í útleigu til ferðamanna, en hún er kannski einum of miðsvæðis, svona upp á heimsóknir til mín, hvar gæti fólkið mitt lagt bifreiðum sínum? Það þarf að hugsa fyrir öllu. Ég sakna miðborgarinnar, það er mögulega í blóðinu, frumunum, að vera borgarstúlka, mamma ólst upp á Laugavegi 91. Unglingsárunum varði ég á Bollagötu, stutt niður í bæ, líka frekar stutt að burðast með 25 bækur frá bókasafninu við Þingholtsstræti. Svo bjó ég rétt fyrir ofan Hlemm, sirka 1982-1983, fín staðsetning og gott að hafa stutt í strætó, þurfti að skutlast með stráksa í pössun. Miðað við allar bæturnar sem sumt fólk hélt að ég fengi (þessar einstæðu mæður) hefði ég auðvitað getað tekið leigubíl á leikskólann og svo til baka í vinnuna, jafnvel þyrlu, og fengið mér styrjuhrogn í seinni morgunverð ... bara til að nota þessi gullhnífapör, áður en ég hélt til vinnu.
Myndirnar tengjast óbeint innihaldi þessa bloggs. Úr þessu í þetta væri jafnvel hægt að láta þær heita ... sjáum til.
Þetta kemur allt í ljós fyrr eða síðar. Mögulega fór ég í þetta brálaða fasteignastuð við að horfa á heimildamynd um forsetann okkar, bráðum fyrrverandi (snökt), á þungarokkshátíð í Þýskalandi ... svakalega skemmtileg mynd og ... ég sem hef ekki farið á útihátíð síðan ég veit ekki hvenær, er sjúk í að fara á Wacken, næsta ár eða þarnæsta. Ég Facebook-vingaðist við mann sem skipuleggur ferðirnar þangað og þar með er verkið hálfnað. Þangað til ... elsku Skálmöld núna 1. nóv. í Hörpu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2024 | 16:12
Skuggapenni skandalíserar og óglaðir sumarsinnar
Stundum þarf ekki að fara út fyrir hússins dyr til að næla sér í reynslu, bæði jákvæða og neikvæða, jafnvel átakanlega. Það nægir jafnvel að hlusta á þríleik á Storytel eftir þekktan sænskan kvenkynsrithöfund (CL) sem mjög sennilega lánaði nafn sitt í því skyni að hækka sölutölur ... ég held að frekar óreyndur skuggapenni hafi skrifað megnið.
Sko ... Sérlega gáfuð kona kynnist sérlega myndarlegum og metnaðarfullum manni og þau fara að vera saman. Nánast frá upphafi er konan heimavinnandi skraut sem bætir því miður á sig nokkrum aukakílóum sem fallegi maðurinn hennar líður fyrir, hann verður svo vondur að hann bannar henni að hugga litla barnið sem vaknar í miðju fínu kvöldverðarboði ... já, og svo fleygir hann mæðgunum út þegar okkar kona kemur að honum með annarri en það var nú samt bara tímaspursmál hvenær það myndi gerast. Einn ríkasti maður Svíþjóðar á allar eigurnar aleinn (kaupmáli til að róa hluthafana í fyrirtækinu) en klára og bláfátæka konan fyllist hefndarhug og hættir ekki fyrr en hún hefur unnið sig upp úr engu (byrjar á launuðum gönguferðum með hunda), keypt fyrirtæki fyrrum manns síns, rekið hann og komið honum síðan í fangelsi fyrir morð á dóttur þeirra sem er nú samt sprelllifandi í felum. Þetta á að vera valdeflandi femínískt lesefni (þriggja binda ritröð)!!! Hjákonan flytur inn, eignast son með fyrri eiginmanni aðal og virðist byrja að visna smám saman í þóknunarhlutverkinu, alveg eins og okkar kona gerði. Pabbi aðal fór í fangelsi á unglingsárum hennar, fyrir að drepa mömmu hennar sem er nú samt sprelllifandi úti á Ítalíu og passar sprelllifandi barnabarn sitt.
Svo hroðalega vill til að þeir sleppa úr fangelsinu ... saman, fyrrum eiginmaðurinn og ofbeldisfulli faðir hennar sem báðir ætla að drepa hana. Sá síðarnefndi varð svo ofboðslega klár allt í einu, áður drykkfelldur og latur bjáni, að hann náði að finna fyrrum eiginkonu sína og óséð barnabarnið í litlum bæ á Ítalíu þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni vitað í hvaða landi þær voru, honum tekst meira að segja að fjar-aftengja öryggiskerfið, það besta fáanlega, yfirbuga fjóra snjalla lífverði og myrða þá (ég vil aðeins þitt allra besta fólk til að vernda þær, sagði okkar kona við sænska öryggisfyrirtækið). Honum (fanga á flótta) tekst að auki að flytja ömmgurnar nauðugar frá Ítalíu til Svíþjóðar á æskuheimili aðal (hún hafði keypt það) sem stóð autt, heppilegt fyrir hefndarþorsta vonda pabbans! Aðalsöguhetjan varð að strjúka sjálf úr öryggisfangelsi til að geta bjargað dótturinni og múttu, en hún var dæmd fyrir morðið á fyrrum eiginmanni sínum þótt hálsnistið hennar hefði ekki fundist á vettvangi við fyrstu leit lögreglu, heldur síðar og komið fyrir þar, og var því dæmd á líkum (ef löggan hefði bara vitað hversu mörgum "líkum") ... Hún myrti hann reyndar en skildi ekkert eftir á vettvangi ... hún drap líka grimman bróður sinn og tvo vini hans á unglingsárunum, fyrsta alvörukærastann sinn sem las dagbókina hennar, gamlan (en vondan) mann á dvalarheimili ... ég er örugglega að gleyma einhverjum ...
Ókei, það sem hélt mér við efnið var að sagan var spennandi á köflum og ekkert annað sem beið mín, fyrr en í morgun. Ég gúglaði bækurnar og sá að höfundur (CL) hafði verið sökuð um að lána nafn sitt ... en harðneitað fyrir það, nýr stíll og allt það. Ég hef lesið yfir bækur þar sem persónur skipta um nöfn í miðri bók en að litli bróðir breytist í litlu systur er auðvitað ekkert annað en kraftaverk ... (er 95% viss um þetta, erfitt að spóla fram og til baka til að staðfesta). Svo benti ég systur minni á að lesa þessar bækur, þá var ég nýbyrjuð á númer tvö en ekki búin með allt eins og núna, sagðist reyndar vera pirruð á sumu en ... sorrí, systa, ég reyni að bæta þér þetta upp með stórum peningagjöfum, bifreiðum eða utanlandsferðum ...
Ég sé líka fyrir mér excel-skjal höfundar þar sem djörfum kynlífssenum er dreift mjög svo reglulega, ég beið "spennt" eftir að vita hvernig það yrði leyst þegar okkar kona var komin í fangelsi, en það var auðvitað annar fangi, bráðhugguleg kona sem gat meira að segja reddað titrara (gmg). Okkar kona tók skömmu áður fasteignasalann sinn á löpp eftir að hún hafði fróað sér í fína húsinu sem hún var að spá í að kaupa og keypti, og svo hina ýmsa þjóna á veitingahúsum, kom fram við þá eins og karlrembur koma stundum fram ... hún var sem sagt bara ruddaleg við ungu mennina og hvað er femínískt við að haga sér eins og karlarnir sem hún reynir að hefna sín á? Hmmm. Kynlíf er æði en vá, hvað það er hægt að gera það óspennandi í sumum bókum. Hún tók ungt par á löpp líka en ég var farin að hraðspóla yfir senurnar sem áttu að vera svo ögrandi um svo frjálsa konu sem vissi hvað hún vildi og tók það ... afsakið á meðan ég hraðspóla.
Áhugavert líka að vita að einhverjum (höfundi) þyki femínískt að hefna sín og drepa ... og að svona klár kona, sem hún átti að vera, skyldi svo kolfalla fyrir öðrum manni í miðbókinni og ætlaði að fara að búa með honum eftir aðeins mánuð, keypti fokdýrt úr handa honum (ég sé enn eftir því), hafði aðeins hans orð fyrir því að hann ætti klikkaða konu sem vildi ekki skilja við hann og héldi dætrunum frá honum ... sem var allt lygi. Allar þessar konur; ástkonan sem eignaðist son sem breyttist í dóttur, þessi klikkaða þarna og mun fleiri konur, tóku höndum saman og hjálpuðust að við að klekkja á þessum ömurlegu karlmönnum. Dæs. Hef hvergi séð hrós/umfjöllun um þessar bækur, eiginlega ekkert nema fréttagrein á íslensku, þar haft eftir Guardian að um meintan skuggapenna væri að ræða en þessar bækur seldust víst eins og heitar lummur í Svíþjóð. Ég bara svona vanþakklát.
Strákar/karlar! Ég er femínisti en ekki vera hræddir, mér dettur ekki í hug að myrða ykkur! Þið sem segið VINAN eða DÖMUR MÍNAR, farið samt varlega.
Í morgun mætti ný bók í bókahilluna, frönsk, og ég er aðeins byrjuð að hlusta. Vatn á blómin, heitir hún og trú mín á lífið hefur strax vaxið til muna.
- - - - - - - - -
Það er enn júlí en sjáanleg veður-örvænting hefur gripið um sig á Facebook og víðar. Matgæðingar elda kjötsúpu og annað vetrarlegt og ég verð að viðurkenna að þótt ég kjósi svona svala miklu frekar en kæfandi hita (13°C plús) er þetta farið að bitna frekar leiðinlega á okkur kúl fólkinu, ég sé til dæmis fram á verri mætingu í afmælið mitt um miðjan ágúst, því allir verða annars staðar að elta sólina. Sjórinn minn er meira að segja frekar grár í dag (en flottur, alltaf flottur) ... eiginlega þrútið loft og þungur sjór. Þetta sparar vifturnar mínar og þar með rafmagn, alltaf hægt að finna jákvæðar hliðar.
Sjó- og kisumynd: Haustlegt hvað? Sjáið bara hvað grasið er grænt, og fólkið sumarlegt sem situr við borð og drekkur kaffi fyrir aftan rauða bílinn vinstra megin ... en rykfallna viftan gæti útskýrt örvæntingu sumra.
P.S. Það er svo sem ekkert að frétta í fasteignamálum, sumarfrí í fullum gangi hjá öllum og ég veit ekki neitt. Þannig að mögulega breytist nafnið á afmælisveislunni minni í afmælis- og skírnarveislu (nýja millinafninu þarf að fagna) en átti að vera afmælis-, skírnar- og kveðjuveisla. Þegar Sundabrautin kemur verður Akranes sennilega innlimað í höfuðborgina (ódýrara í strætó, húrra) og þá tekur því varla að flytja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2024 | 23:55
Bitur reynsla brjóstgóðra og óvænt sálnaflakk á Suðurlandi
Ferðalagið okkar vinkvenna í dag var ótrúlega skemmtilegt þrátt fyrir mögulega hættulega kónguló, kurteislegar móðganir og eitt stykki erindisleysu. Við gerðum allt til að forðast Hveragerði, mætti halda það, ... engin meining að baki þó. Fórum Þrengslin og komum þannig Selfossi gjörsamlega á óvart þegar við mættum skyndilega inn í miðjan bæinn. Við byrjuðum á því að kíkja á markað ... úti í garði í rigningunni ... Tryggvagarði. Keypti þennan fína handáburð frá Eistlandi en veðrið var sannarlega ekki sniðugt fyrir útimarkað. Steikjandi sól og geitungar svo sem ekki heldur. Kýs frekar rigningu og svala en er pottþétt ein um það.
Aðalspenningurinn var nú samt að sýna vinkonu minni flottu handverksbúðina á milli apóteks og KFC, þarna á aðalgötunni, þar sem ég keypti Ferfuglinn minn fyrir nokkrum vikum, og hálsmenið með fleygri setningu úr Andrésblaði. Ætlunin var að kaupa nokkrar jólagjafir jafnvel ... En nei, það var lokað, fulltrúar búðarinnar víst í tjaldi í Tryggvagarði, sem við vorum nýkomnar úr. Sá enga fugla (úr eggjabökkum) neins staðar þar - við ákváðum að drekkja sorgum okkar í fiski dagsins á Kaffi krús. Þar ríkti sannarlega ekki túristaverðið ... eiginlega var of vel útilátið fyrir manneskju sem er með minna magamál eftir að stráksi flutti út. Ég misskildi bendingu (hefnd?) og hljóp niður til að pissa þar en óttasleginn kokkur lokaði öllum pottum á ljóshraða ... mér var nær að hafa sagt, góðlátlega samt í afgreiðslunni, að það ætti ekki að vera fimm sentimetra mjólkurfroða ofan á latte, bara aldrei ... Að öðru leyti var allt fullkomið á kaffi krús. Snyrtingin reyndist vera uppi á lofti.
Við heimsóttum líka uppáhaldsbúð vinkonunnar sem er fatabúð, heimilisbúð og íþróttafatabúð í splunkunýja miðbænum ... með langsamlega hreinlegustu snyrtingu sem ég hef séð á ferðum mínum um landið og útlönd líka. Sumir míga í saltan sjó, ég pissa þar sem ég get (ekki úti samt), enda með frekar lélega samkvæmisblöðru. Við kíktum líka í aðra búð þar sem mikið úrval var af fallegum peysum. Ég bað um að fá að máta tvær eða þrjár og fékk nokkrar á herðatré í réttri stærð, að mati afgreiðslukonunnar ... og var reyndar alls ekki mín stærð, heldur ansi víðar og óklæðilegar á mér. Brjóstgóðar konur lenda víst nokkuð oft í þessu, að vera álitnar miklu meiri feitabollur en þær eru ... sumar eru ekki einu sinni bollur. Ég fékk rétta stærð og var svo hrifin af sjálfri mér í réttu stærðinni að ég festi kaup á einni peysunni ... þær eru ansi hreint að verða sjúskaðar sumar mínar, svo gamlar að elstu menn muna ekki annað eins, mál til komið að gefa þær í einangrun húsa úti í heimi ... eða sneiða þær niður í ábreiður og gefa fátækum* ... (*stolið frá Auði Haralds). Konan indæla sagði þegar hún mætti með réttu stærðina: -Uss, maður á aldrei að klæða yfir sig. Veit ekki almennilega hvað það þýðir en er samt alveg sammála henni. Nú er ég orðin ögn minna móðguð út í konuna hjá Krabbameinsfélaginu (Rvík) um árið, þegar ég fór í brjóstaskimun og hún benti mér á "gult tjald" til að vefja utan um mig: Taktu gulan slopp, sagði hún frekar góðlega. Sá guli komst alla vega tvisvar utan um mig og samkvæmt litakóða félagsins var gulur ansi mikið stærri en sá sem passaði mér. Svo voru skriflegar leiðbeiningar inni í sloppaklefanum, á íslensku, ensku og pólsku, svo ég skil ekki enn þessi óþörfu og móðgandi afskipti. Ég mundi líka eftir konunni í Lífstykkjabúðinni (aðrir eigendur þá) sem reyndi að selja mér brjóstahaldara, svona tvíburahúfu á alla vega fertuga stórgerða og svíradigra menn.
Ég úr klefanum: Er eðlilegt að koma krepptum hnefa með í skálina, jafnvel tveimur hnefum? (Get verið kvikindisleg þegar mér misbýður). Konan, enn móðgaðri: Konur bara kunna ekki að velja sér haldara í réttri stærð ... Ég endaði reyndar með einn í minni réttu stærð og steig ekki fæti inn fyrir dyr á búðinni fyrr en dásamleg Skagakona hafði eignast hana, sú hreinlega kann ekki að móðga kúnnana. En nóg af beiskjublöndnum minningum sem rifjuðust upp í dag ...
... næsti viðkomustaður var Sólheimar í Grímsnesi. Alltaf gaman að koma þangað og ekki skemmir gott kaffi fyrir. Það var fullt út úr dyrum en vinkona mín mundi eftir að hafa séð að það væru alltaf tónleikar þarna á laugardögum. Eftir ítarlegt gúgl sáum við að Björn Thoroddsen gítarleikari var tónlistargaur dagsins.
Ég held að hann hafi gert samning við Satan, sagði ég samsærislega við vinkonu mína.
Bíddu nú við, sagði hún hissa.
Ja, það eða hann geymir málverk af sér uppi á háalofti sem eldist á meðan hann er alltaf sami strákurinn.
Aha, Dorian Gray, sagði vinkonan alveg sammála.
Við kíktum á listaverkasýninguna í hægri hluta hússins á meðan við sendum vöffluétandi gestunum hugskeyti um að drífa sig nú ... sem tókst fyrir rest. Vöfflurnar voru búnar svo við sættum okkur við perutertusneið (með ljósum botni, sem er þúsund sinnum betri en brúnn botn). Ég sat þarna glöð, umkringd hressu fólki, ýmist með hunda eða börn. Ég get varla gert upp á milli krúttlegheitanna. Guðrún vinkona horfði stundum yfir öxlina á mér, ekki á stressandi máta, sem varð til þess að ég hélt kúlinu þegar hún fór að tala um mjög stóra kónguló fyrir aftan mig ...
Nú loksins trúi ég á sálna- og líkamsflakk, allt í einu, eins og ég hefði teleportað mig, var ég komin að útidyrunum. Vinkonan starði, þögn skall á, hundur ýlfraði, tunglið kom fram úr skýjunum.
Ég bíð úti, sagði ég stillilega.
Já, en kóngulóin er langt frá-
Hvaða andskotans kónguló? Það er bara allt of heitt hérna inni, sagði ég ákveðinni röddu og gekk út í sumarið 2024 sem lét ekki að sér hæða nú í júlí frekar en í júní. Úlpan mín inni í bíl en hjartslátturinn sá til þess að mér var ekki kalt.
Móðir mín hefði í mínum sporum ekki komið framar í þetta póstnúmer (805), varla í þennan landshluta, svo mikil var kóngulóarhræðsla hennar - sem ég ólst upp við en læt auðvitað ekki trufla líf mitt. Ég stóð sallaróleg fyrir utan húsið - í ekkert svo mikilli rigningu.
Þarna um fimmleytið vorum við búnar að njóta alls sem Suðurland hafði upp á að bjóða og okkur langaði að sjá, og mál til komið að halda heim. Vinkona mín lifir þvílíkt á brúninni ... datt ekki í hug að fara fram hjá Hveragerði, frekar en í hádeginu, og beygði út á ansi ótroðnar slóðir*, eitthvað Grafnings, m.a. fram hjá Þingvallavatni, virkjun (Búrfells?), og einhvern veginn komumst við inn í Mosfellsdal, beygðum til hægri og svo beinustu leið á Skagann. Ég var komin heim einum og hálfum klukkutíma ÁÐUR en strætóinn minn fór frá Mjódd. Guðrún hefur mögulega mætt honum á leið sinni heim í Kópavoginn.
* Tek fram að ég hef lítið ferðast í gegnum tíðina, mamma alltaf bíllaus, svo tók ég við með bílleysið. Ólst ekki upp við sunnudagsbíltúra, eins og svo margir vinir mínir. Kom til Þingvalla í fyrsta sinn á þrítugsafmælinu fyrir nokkrum árum.
- - - - - - - - -
Efri myndin er þrjár myndir, samansettar, ein sýnir stórskemmtilegar forsetamyndir af listaverkasýningunni á Sólheimum, önnur hvað það getur verið erfitt í strætó þegar kemur óvænt djarft atriði í spennubókinni sem er verið að hlusta á ... sú þriðja sýnir fína og góða matinn (steinbíturinn var sérstaklega góður) á Kaffi krús.
- - - - - - - - -
Neðri myndin er af okkur Mosa ... ég í tölvunni, hann að horfa á sjónvarpið, við bæði að njóta þess í tætlur að hlusta á Gildruna ... takk, Bræðslan, takk, RÚV.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2024 | 22:48
Heimsendir í afmælisgjöf og besta lykt í heimi
Þónokkrar bloggskammir hafa dunið á mér síðustu daga og samt er ég nánast sárasaklaus. Ekki í síðasta, heldur þarsíðasta bloggi birti ég lista yfir lélegar bíómyndir (að mati ýmissa útlendinga) þar sem rökstuðningur fylgdi - og voru alls ekki mín orð.
Ein frænkan: Eins og þú ert nú smekkleg, kæra fagra frænka, þá er ég þér svo innilega ósammála varðandi The Piano og The Room, hún var með grátstafinn í kverkunum.
Einn frændinn: Svona stórgreind kona eins og þú, ég dýrkaði Natural Born Killers, sem og flestir, hvað er að þér?
Nokkrir á fb hjá mér höfðu skoðun á bíómyndum svo hér eru alíslenskar skoðanir líka:
Green Slime. Hún var svo slæm að það var fyndið.
Eina myndin sem ég hef gengið út af er Síðasti tangó í París, það var þegar Marlon Brando teygði sig í smjörstykkið og ...
Eat, Pray, Sleep er ein allra versta mynd sem ég hef séð. Jesús minn ... ég gekk reyndar ekki út, en hjálpi mér hvað mér leiddist hún.
Komment: Afsakið á meðan ég æli.
Svar við kommenti: Akkúrat þannig. Ég hefði gengið út en ég var með hópi samstarfsmanna.
Annað svar: Reyndar skemmtilegt þetta freudíska mismæli mitt en lýsandi fyrir hugaástand mitt og afstöðu til myndarinnar sem heitir víst Eat, Pray, Love, en ég hef greinilega verið að sofna yfir ...
Ein byrjaði að skrifa en gleymdi nöfnum myndanna hræðilegu á meðan hún var að skrifa ... sjálfsvarnarviðbrögð.
Ég hugsaði og hugsaði og hugsaði ... hvaða mynd er verst? Man að ég var alls ekki hrifin af einni dýrustu bíómynd kvikmyndasögunnar á þeim tíma: Vatnaveröld með Kevin Costner. Framtíðarmynd þar sem allir bjuggu úti á sjó og skálmöld ríkti ... vondu karlarnir voru svooo vondir að þeir voru með plaköt uppi við þar sem stóð Kill the Whales! ... og þeir reyktu að auki, þetta tvennt var það versta sem til var á þeim tíma og er jafnvel enn. Mér fannst líka í einhverri risaeðlumyndinni að aðeins útlitsgallað fólk væri étið af risaeðlum, feitur karl, unglingur með gleraugu ... fannst það asnalegt þótt ég sé ekki feitur karl.
En daginn eftir Pálínupartíið góða kom eftirfarandi athugasemd við síðasta blogg, eða myndbirtingu þar, á fb-síðu minni:
Kærar þakkir fyrir að velja þessa mynd (af þeim 719 sem voru teknar). Móðir mín hringdi í mig að farast úr áhyggjum yfir að ég væri andsetinn. Ég reyndi að benbda henni á að ljósmyndarinn hefði beðið um grettur, en hún trúði því auðvitað ekki.
Ég steingleymdi að skoða alla á myndinni, athugaði bara hvort ég, bloggarinn sjálfur, væri þannig útlits að ég myndi ekki hræða frá mér aðdáendur ... ljósmyndarinn bað fólk um að gretta sig, sumir héldu grettunni það lengi að hún náðist líka á góðu myndirnar ... en ég mun borga skaðabætur.
- - - - - - - - - - - - - -
Nennti ómögulega að fylgjast með setningu Ólympíuleikanna, frekar en nokkurn tímann áður, finnst yfirleitt allar svona sýningar drepleiðinlegar, var hvort eð er með fréttirnar í beinni hér á hlaðinu, sjá mynd ... en vesalings Frakkar að þessi íþróttahátíð skuli vera notuð til að eyðileggja og skemma ... kannski er almenningur þarna bara allt of frekur og dekraður (kaldhæðni) ... smávegis mótmæli húsmæðra og hætt er við að hækka mjólkurverð, hér á Íslandi yrði fólk bara gasað ... (líka kaldhæðni) ...
Guðrún vinkona stefnir að því að viðra mig á morgun. Okkur líst best á að skreppa austur fyrir Fjall ... á Selfoss og kannski eitthvað í kring. Ég verð á svipuðum slóðum viku seinna ... en eins gott að nýta veðrið (það verður ekki slagveður) því næsta lægð skellur á strax á sunnudaginn. Yfirleitt er gott skyggni þegar gýs á Reykjanesskaga, svo gosið kemur sennilega ekki í slagviðri. Sko, systir mín fékk eldgos í afmælisgjöf 18. desember sl. en í boðinu um daginn frétti ég að von væri á heimsendi á afmælisdaginn minn (12. ágúst) eftir eitt eða tvö ár. Sumt fólk blandar vissulega saman sólmyrkva og heimsendi en mér finnst þetta eiginlega toppa eldgos. Meira að segja strax á þessu ári verður æsispennandi atburður á afmælisdaginn minn, en þá hefjast sjónvarpsfréttir aftur á gamla tímanum, eða klukkan 19. Þannig að nú fáum við fréttir áfram í einni kássu, klukkan sex hjá útvarpinu, hálftíma seinna hjá Stöð 2 og svo hálftíma eftir það á RÚV, og allt sömu fréttirnar. Húrra! Margir hafa tekið þessari breytingu á fréttatíma nú í sumar sem persónulegri móðgun og eru brjálaðir. Ég kýs frekar að vera brjáluð yfir verðbólgu, háum vöxtum og almennu okri.
Facebook-fréttir
Viss frændi:
Ef Bessastaðir poppa allt í einu upp á Airbnb á næstunni verð ég hneykslaður en ekki hissa ...
Hvar er Anne Hidalgo, við höfum ekkert séð hana? Svar: Fólk sem syndir í Signu sést ekki aftur.
Allra, allra besta lykt í heimi ...
Vissulega nefndu margir kaffi, enda margt ægismekklegt fólk til í heiminum en hér eru nokkur svör ... ekki eftir mig þótt ég geti tekið undir margt þarna, eins kaffi, vanilla ... en hér er upptalningin:
- Fyrsti kaffibollinn á morgnana.
- Sunnudagssteikin hennar mömmu.
- Magnolíutré í blóma.
- Vanilla eða lavander.
- Lyktin úti eftir rigningu.
- Brauð að bakast inni í ofni.
- Gamlar og nýjar bækur.
- Nýslegið gras.
- Maðurinn minn, vildi að lyktin af honum fengist í flöskum.
- Að grilla /steikja lauk og hvítlauk.
- Nýbakaðir kanilsnúðar.
- Lím.
- Gras, þú veist, þannig gras.
- Varðeldur.
- Lyktin af hestunum mínum.
- Þvottur, nýkominn úr þurrkaranum.
- Kaffi og ristað brauð á morgnana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2024 | 00:01
Gleði og sorgir
Frændfólkshittingur var í dag, ótrúlega skemmtilegur. Vissulega mættu ekki allir í ættinni (hefðum þurft Hörpu) en eins margir og rúmuðust í húsinu hennar systur minnar. Einn kom alla leið frá Hawaii ... Mitchell frændi, barnabarn Möggu, móðursystur minnar, sem átti heima nánast allt sitt líf í Kaliforníu, með Steina sínum.
Hluti móðurættarinnar mætti sem sagt, og við ræddum m.a. um hversu við söknuðum mávahlátursins, ættargaggsins sem heyrðist svo oft í boðum hjá kynslóðinni á undan okkur, mömmu og systkinum hennar. Við sem eftir sitjum/lifum hlæjum eiginlega allt of rólega. Allir búandi westan-megin hafs og hafa þar kosningarétt halda af alefli með Kamölu Harris. Vona að það dugi.
Þetta var svokallað Pálínuboð, þar sem allir komu með eitthvað. Ég fékk þá klikkuðu hugmynd, þar sem systir mín var hvort eð er að fara í Costco, að biðja hana að kaupa fyrir mína hönd kornflekskökurnar, munið ... og nú sit ég uppi með helminginn (35 kökur) og strax búin með tíu ... Þarna voru gómsætar flatkökur með hangikjöti, brauð með reyktum silungi, hnallþórur, grænmeti og hummus, pönnukökur, makkintoss, hjónabandssæla og margt fleira, sem sagt alvörupartí. Nokkrir lágu veikir heima með slæmt kvef (ekki covid), ég var bara heppin að vera á lokasentimetrunum í mínu kvefi svo ég komst. Tvær í fjölskyldunni eru kasóléttar og treystu sér ekki, önnur við það að eiga, hin er sett 12. ágúst, haldið ykkur. Ég sagði við væntanlegan föður að ég skyldi, af einskærri góðmennsku, aflétta þeirri ströngu og ófrávíkjanlegu hefð að barnið þyrfti að heita Guðríður eða Guðröður ef það fæddist á afmælisdaginn minn og hann viknaði af þakklæti.
Ég verð nú eiginlega að kvarta/væla örlítið. Hef lengi skammast, svona hálfpartinn, yfir skorti á pípurum, læknum, lögfræðingum og slíku nothæfu fólki í ættinni, frændum sem frænkum ... það er vissulega snilldarpípari ... sem býr á Siglufirði ... jú, jú, læknir, en hann býr á Hawaii í 16 klukkutíma flugfjarlægð frá Íslandi (hvað ef ég fæ flís í fingur eða illt í maga?). Ég ræddi þetta þó ekkert við hann. Samt er ég mjög þakklát fyrir alla sálfræðingina sem halda okkur öllum réttum megin við strikið ... ein þeirra smíðaði meira að segja flotta kattasandskassann í himnaríki (hver þarf smið?) ... og þroskaþjálfann sem er svo flinkur að setja saman Ikea-skápa (hver þarf smið?) ... jú, það væri flott að fá smið í fjölskylduna. Mikið vill alltaf meira.
---- ---- ---- ---- ---- ---- ----
Tveir menn sem ég þekkti hafa kvatt þetta jarðlíf á síðustu dögum, báðir á besta aldri.
Annar var í miklu uppáhaldi sem strætóbílstjórinn minn, hitti oft á hann í ferðinni kl. 23 frá Mjódd þegar ég var að slóra eitthvað í Reykjavík. Eitt sinn sagði ég honum að mig langaði til að gera himnaríki upp og þá benti hann mér á að fá Trésmiðju Akraness, Didda og co, í verkiðþ Það reyndist vera eitt besta ráð sem mér hefur verið gefið; fagmennska, vandvirkni og heiðarleiki fram í fingurgóma. Ég frétti að hann hefði veikst, fengið krabbamein, og hef ekkert séð hann lengi, en átti alltaf von á að rekast á frábæra ljúfa Óla sem elskaði gott rokk eins og allt almennilegt fólk, á ferðinni á Skaganum en það varð því miður aldrei. Við vorum Facebook-vinir en hann var ekki sérlega virkur þar svo ekki var hægt að fylgjast með honum en ég vonaði innilega að hann yrði einn þeirra sem sigraðist á meininu og færi að keyra aftur strætó á milli Akraness og Reykjavíkur.
Hinn var góður vinur sem ég umgekkst mikið um hríð (bara vinir), hann leikstýrði verki sem Skagaleikflokkurinn setti upp og í kringum þann tíma kynntumst við. Ég fór oft í leikhús með honum í bænum og í nokkur ferðalög. Hann starfaði aðallega sem leiðsögumaður og bauð mér með, fannst algjör óhæfa að ég hefði t.d. aldrei farið í norðurljósaferð og í raun skammarlega lítið ferðast um landið. Hann bauð mér m.a. í gullna hringinn og austur að Jökulsárlóni í ferð með erlendum ferðamönnum. Svo fórum við um Snæfellsnesið á hans bíl ásamt yngri dóttur hans, Ástu-Maríu, sem var búsett í Svíþjóð og lést þar fyrir örfáum árum, var öllum mikill harmdauði. Jakob (Jónsson) var í viðtali hjá mbl.is fyrir rúmri viku þar sem hann ræddi líf sitt, gleði og sorgir, og að allt væri á mikilli uppleið hjá honum. Hann var afskaplega góður sögumaður og ferðamenn sem voru svo heppnir að fá hann sem leiðsögumann, nutu þess greinilega, eins og ég, að fá að heyra sögurnar hans um landnámsmenn, söguleg eldgos og bara ýmsa merka atburði sem honum tókst að gera ljóslifandi í hugum okkar. Jakob varð bráðkvaddur á heimili sínu nýlega.
Myndin er af honum og dóttur hans, Ástu-Maríu, sem ég tók 28. mars 2015, í bráðskemmtilegu ferðalaginu um Snæfellsnes.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2024 | 17:04
Versta bíómyndin, besta afmælið og óvænt seinkun
Hvað gera konur þegar Eldum rétt kemur ekki á réttum tíma og stefnumót hafði verið ráðgert í höfuðborginni um fjögurleytið? Jú, þær blogga og vona heitt að þær nái 17.28-vagninum frá Garðabraut. Samkvæmt SMS-i frá ER mun það nást. Það varð bilun í sendibíl sem orsakaði seinkunina en ... það að komast ekki á stefnumót á réttum tíma gerir mig bara enn meira spennandi. Vona alla vega að systur minni finnist það líka. Á morgun verður hittingur ættfólks sem hittist í allra mesta lagi árlega, svona allt í einni kös, enda tæplega helmingurinn búsettur fyrir westan haf.
Það verður gaman að æfa enskuna (frændfólkið af þeirri kynslóð að það var talið rangt og ruglandi að láta það tala bæði ensku OG ÍSLENSKU í nýja landinu) og elsta frændfólkið íslenskuna, ræða um forsetamálin ytra og sitt af hverju fleira. Flest í hópnum eru fædd ytra og þótt þau upplifi Íslendinginn sterkt í sér eru þau auðvitað búsett þarna og hafa sínar skoðanir sem ég er spennt að heyra.
Myndin hér að ofan heitir: Alltaf sól á Akranesi. Ég er svo hrifin af síbreytilegum litunum. Keli líka.
Hin fjölskylda mín, þessi á Akranesi, hélt upp á fimm ára afmæli miðdótturinnar í gær með kökum, söng, blöðrum og gleði. Ég ákvað að bíða með gjöfina frá mér þar til í dag þegar ég rændi stelpuskottinu með mér í Lindex þar sem við völdum aldeilis fínt pils og bol, reyndar einnig fallega sokka í stíl og sólgleraugu til að mana fram sólina.
Svakalega skemmtilegt afmæli með mörgum gestum og frábærum kökum. Það vakti athygli mína þegar faðirinn kom og sótti mig (fín þjónusta) að hann var í stuttermabol. Þetta er nú meira sumarið, sagði ég, meira að segja mér blöskrar ... mögulega er þetta samt meðvirkni með sólaraðdáendum því ég get dregið fyrir heima og sett viftur í gang en hinir hafa þurft að klæða af sér kuldann. Þetta er ljómandi fínt veður, sagði hann bara og brosti. Miðstöðin í bílnum mallaði reyndar og hélt hitastiginu í 20°C þegar við ókum þessar fimm mínútur eða svo í veisluna.
Á myndinni má sjá sætu og kláru afmælisstelpuna í nýju fötunum. Svo átti hún þetta fína hárband í stíl.
Ég sá í gær á Facebook spurninguna Hver er versta bíómynd sem þú hefur nokkurn tímann séð?
Verð að viðurkenna að sum svörin komu mér virkilega á óvart. Ég man reyndar að gamall vinur sagði mér að þegar hann kom út úr bíóinu eftir að hafa séð Natural Born Killers, hafi hann verið uppnuminn og nánast tilbúinn til að fara að drepa ... en það entist bara í þrjár mínútur í viðbót. Og hann var að grínast, held ég.
Hér eru nokkrar, þangað til ég verð að hoppa í strætó:
- Cosmopolis með Rob Pattison. Hann er fínn leikari, ég bara hata myndina, ungur, sálarlaus milljarðamæringur, hryllileg mynd.
- Pulp Fiction, hataði hana.
- Battlefield Earth.
- Gladiator.
- Get nefnt Magnolia og Natural Born Killers. Líka Glitter.
- The Piano. Ég gekk út.
- The Room. Fæ aldrei til baka tímann sem ég eyddi í þetta rusl.
- Vanilla Sky.
- Allar m eð Adam Sandler.
- Endurgerðin af Ghostbusters.
- Hot tub time machine.
- Eyes Wide Shut.
- The Happening. Sá allra versti leikur sem ég hef séð. Hún er í raun ein allra fyndnasta mynd sem ég hef nokkurn tíma séð.
- Zoolander. Sú eina sem ég hef gengið út af.
- The English Patient. Ég sofnaði áður en ég náði að ganga út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2024 | 02:55
Kveflok, björgun í bröns og óvænt glæpatengsl
Kvefsóttin reyndist hundleiðinleg og stóð yfir allt of lengi og sá ekki fyrir endann á henni fyrr en bara akkúrat núna. Allt of gömul og löngu útrunnin flensulyfin gerðu þó sitt gagn, þannig séð, en ég átti mun nýlegra í duftformi (fékk það gefins) sem ég tók loksins á föstudaginn. Strangar reglur giltu varðandi það, eitthvað um að drekka brennandi heita vatnið með duftinu í innan tíu mínútna, engar skaðabætur fyrir brennda tungu ... svo ég setti þrjá plasthúðaða ísmola út í kvikindið. Svo hófst hryllingsdrykkjan og eldgamlar minningar rifu sér allt í einu leið upp á yfirborðið. Ég á sannarlega ekki margar þynnkur að baki í lífinu, enda ekki mikill vínþambari en eitt sinn, ég man ekki hvar en minnir að mögulega hafi þá ríkt tíð fyrsta, annars eða þriðja eiginmanns míns. Jú, ég fann fyrir þynnku og einhver miskunnsamur mágurinn eða frændinn átti til algjört töframeðal við því, eitthvað sem hét Alkasetzer, ég hélt þá (og mjög lengi) að þetta væri daginneftir-lyf fyrir drykkfellda, ja, alka ... fannst þetta mjög hreinskilið lyfjaheiti, og er ekki frá því að margir landsmenn hafi haldið það líka. Og þetta var duft til að setja út í vatn, kalt, minnir mig. Viðkomandi maður átti greinilega bara mjög stór glös, fyllti eitt slíkt af vatni og setti alkameðalið út í - sagði mér síðan að drekka þetta. Það tók mig sennilega tvo klukkutíma og ég náði samt að hella rúmlega helmingnum niður þegar enginn sá til. Mig grunar að þarna hafi ég, mögulega án þess að átta mig á því, ákveðið að fá aldrei aftur þynnku.
Ég náði að klára flensulyfshrylling föstudagsins á svona korteri, með algjörum herkjum og ópum og ... ég hét mér því þegar ég tók síðasta ógeðssopann að fá hreinlega aldrei aftur kvef! Að minnsta kosti ekki fyrr en einhver sem ég þekki fer til Ameríku, kíkir í Walmart eða Costco eða nánast hvaða búð sem er og færir mér cold and flu-meðal, helst day and night-dæmið ... Borga að sjálfsögðu fyrir.
Myndin samsetta hér fyrir ofan sýnir það sem ég hef þurft að þola í auglýsingamálum frá 1. júlí, annaðhvort hlerar gemsinn mig til að geta otað að mér "réttum" auglýsingum, eða kóvitarnir höfðu rétt fyrir sér allan tímann og bæði hlerunartæki og staðsetningarbúnaður var fólgin í covid-bóluefnunum, til að Bill Gates geti ... jahhh, fækkað okkur, vilja nú sumir meina. En ég prófaði að segja upphátt við gemsann minn fyrr í kvöld: Ég á blóðþrýstingsmæli. Bæði á íslensku og ensku. Hvaða auglýsingar koma næst? Hef svo sem líka verið að drukkna í auglýsingum um sófaleikfimi fyrir "aldraða" og alls kyns kúrum ... og þegar ég talaði síðast um að fara í megrun var það fjarri öllum tækjum, uppi í Öskjuhlíð, í rykfrakka og með sólgleraugu, talaði mjög lágt.
Þegar systir mín ók í hlað rétt rúmlega eitt í dag/gær, laugardag, ég er að skrifa þetta aðfaranótt sunnudags, héldum við beinustu leið í Galito í bröns. Vorum búnar að lofa okkur því að prófa ... síðasti slíkur var í Apóteki í boði hennar svo nú var komið að mér. Enginn metingur samt.
Þið eruð tveimur mínútum of snemma, sagði glaðasti þjónn í heimi sem tók á móti okkur. Ég hafði látið vita af smáseinkun, að við yrðum komnar 13.10, eða tíu mínútum of seint. Bílstjóri fyrir framan systur mína ók á sextíu til sjötíu á þeim kafla sem ekki var hægt að fara fram úr en rauk svo upp í hundrað þegar akreinar voru orðnar tvær ... skilst að þetta sé alveg týpískt fyrir marga ökumenn. Hann var svoooo löghlýðinn í göngunum að hann ók á fimmtíu, hélt sig þó hægra megin svo hægt var að taka fram úr í löngu brekkunni upp norðanmegin.
Við fengum okkur eggs benedict sem var sturlað gott, og svo ábætisplatta á eftir með kaffinu. Flott skyldi það vera.
Er þetta jarðhneta? sagði ég skrækróma við systur mína og benti á eitthvað drapplitað lítið á diskinum, átti að vera til skrauts en þvílíkt skraut, var ekki alveg eins hægt að fá bara arsenik, vetnissprengju?
Baðstu ekki um hnetulausan bakka? spurði systir mín hissa. Ég gekk reyndar bara úr skugga um að benediktsegg systur minnar væru án tómata til að hún lenti ekki á spítala, en ég hlýt að vera svona rosalega óeigingjörn, eða gleymin ... fannst sennilega ólíklegt að fólk færi að troða algengum ofnæmisvaldi í svona fínheit ... megi bakarí landsins taka þetta til sín og fara að hafa konudagskökur framtíðarinnar hnetu- og núggatlausar.
Góði þjónninn kom til okkar, hafði fundið á sér að eitthvað væri á seyði þarna úti í horni vinstra megin og fór beint í skaðaminnkandi aðgerðir. Á ég ekki að láta útbúa nýjan platta fyrir ykkur? spurði hann.
Nei, alls ekki, ekkert vesen, sérðu, ég tek bara aðra lummuna þarna sem snerti ekki hneturnar og sleppi þes- færði lummuna og upp gaus grænt hneturyk ... þær leyndust víðar á diskinum og í fleiri sortum hneturnar, þjónninn brosti, tók plattann og sagði: Við viljum ekki að þú deyir, fagri fastakúnni, eitthvað slíkt, minnir mig. Til að eyðileggja ekki stemninguna sleppti ég því að segja að einkenni mín, þegar ég borðaði eitthvað sem jarðhnetur hefðu snert, væru nú bara kláði í hálsi í nokkra klukkutíma - en ekki sjúkrabíll í hvelli. Held að eymdin í gamla daga (mátti t.d. ekki flytja inn smartís stærstan hluta æsku minnar) hafi bjargað lífi mínu því ekki nokkur hræða komst upp með matvendni, eins og það hét þá.
MYND: Nýi plattinn var suddalega góður. En á myndinni sést sá fyrri, en þá hafði hneturykið sennilega sest eftir að ég hreyfði lummuna og þjónninn ekki enn búinn að fjarlægja hættuna.
Systir mín hrósaði mér fyrir fagurt hár, geggjaðar strípur, en ég hafði sett eitthvað hár-dæmi í það eftir sturtuna og reynt að hemja það svolítið að auki, renna í gegnum það með fingrunum til að það stæði ekki út í loftið þegar það þornaði. Reynsla mín í hármálum er frekar slæm því hárstíll minn (villt vísindakona) hefur ekki slegið í gegn hjá neinum nema mér. Úfið, krullað, eins og á unglingsárunum. Myndin var tekin í kvöld, þegar það hafði aflagast. Ég er alla vega sátt, og kettirnir.
Það var ekki bara ég sem gladdist yfir heimsókninni úr bænum. Við sóttum stráksa í smábíltúr, hann var voða glaður og tók svo sannarlega í mál að hlaupa upp að staur rétt við himnaríki, með stóran matarleifapoka sem systir mín hafði tekið með úr Kópavogi, handa svöngu mávafrændum sínum á Akranesi, sem urðu líka harla glaðir. Eltu sennilega bílinn hennar og hafa nú komið sér vel fyrir í Fossvogsdal þar til þeir stinga af til Tene til að hafa þar vetursetu.
Eftir góðan kaffibolla og einskæra gleði hundanna að koma heim til Gurríar frænku sem passaði þá fyrir Krumma ketti sem lítur alltaf á heimsóknir þeirra sem ógn við bæði ketti og menn, vei þeim ef þeir gelta ... Og svo þegar unga ferska systirin fór heim var sú eldgamla hreinlega búin að vera eftir allt þetta erfiði. Lagðist ofan á rúmið, hlustaði á sögu og hvíldi sig. Hin besta slökun heims því um klukkan tíu rauk ég á fætur, ekki til að hátta og sofa, heldur taka til!!! Alla vega í eldhúsinu sem var orðið ansi subbulegt, það má ekki verða veikur án þess að allt fari úrskeiðis.
Ég er pínku nefmælt en núna í kvöld (laugardag) lít ég svo á að þessu kvefi sé formlega lokið. Nenni því ekki lengur og mun ekki sýna því frekari athygli eða umhyggju.
Svolítið óhugnanlegt að lenda í því í veikindunum að hlusta á tvær íslenskar glæpasögur í sakleysi sínu og máttleysi og báðar tengjast Akranesi glæpsamlegum böndum. Önnur um morðóðan heilbrigðisstarfsmann sem hafði búið á Akranesi og myrti bara fólk sem hafði líka búið á Akranesi ... ekki byggt á sannsögulegu. Get ekki sagt meira til að skemma ekki fyrir ... Hin var meira í Borgarfirðinum en samt, eldri maður sem löggan leitaði að, hafði átt vin SEM RAK VÍDEÓLEIGU EINMITT Á AKRANESI og lögreglan á Akranesi kom líka við sögu - og samt er ég ekki einu sinni byrjuð á bók Evu B. Ægis, skilst að hún sé svo spennandi (Heim fyrir myrkur) að ég var hreinlega of lasin til að leggja í hana ... Líst ansi vel á Rót hins illa, bók sem ég byrjaði á í kvöld á meðan ég, full þakklætis fyrir að hafa endurheimt orkuna, tók eldhúsið í gegn.
Mynd 4 tengist færslunni algjörlega óbeint.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2024 | 18:08
Árangursrík læknisferð og misskilin móðgun
Júlímánuður fór af stað með offorsi, eins og elstu bloggvinir muna og í dag átti ég eftirtékk-tíma hjá elskulegum lækni. Ég hafði safnað saman nokkrum kvillum til að spyrja um, smástressuð yfir því samt að mega jafnvel bara koma með eitt erindi í einu - sá eiginlega fyrir mér eilífar læknisferðir (alla vega tvær) næstu misserin. Ég reyndi að tala mjög hratt til að þetta tæki styttri tíma og hár blóðþrýstingur varð sannarlega ekki aðalatriðið, enda hafði ég lækkað niður í góðar tölur. Ég á samt að halda áfram að taka pillurnar. Læknirinn skammaði mig ekki fyrir að hafa hangið hölt í nokkra mánuði heldur kíkti á dýrðina og ... ég reyndist vera með hálfslitna hásin en hef víst verið að gera allt svo hárrétt með aðstoð Ingu vinkonu og Apóteks Vesturlands, kæla, hvíla og slíkt.
Svo allt í einu sagði læknirinn upp úr þurru að ég yrði að fara að ganga í hælaháum skóm! (Og kannski klæðast Channel númer fimm-ilmvatni við?) Var ég þá búin að missa allan kynþokka? Ég hef aldrei getað gengið á slíkum skóm en þrátt fyrir það margoft gifst, eins og hér hefur ósjaldan komið fram. Gæti verið að eiginmenn mínir hafi allir elskað mig vegna innrætis míns, greindar og góðs minnis á póstnúmer? Andskotinn!
Ég talaði ekki bara hratt, heldur hlustaði óþarflega hratt líka, læknirinn var víst að meina að enn meiri hækkun á hægri hæl myndi gera mér gott. Apótekið reddaði því, of kors. Svo fékk ég dropa fyrir viðkæman hársvörð og þar með var allt mitt uppsafnaða vesen komið í farveg.
Tvær sýrlenskar fjölskyldur á Skaganum hafa tekið mig inn í klanið sitt ... í gær mætti Fatima mín í næsta húsi með mat handa sjúklingnum (kvef) og aftur í dag, en ég frestaði rabarbaragrautsgerðinni okkar um tvo daga, vegna kvefsins. Það fer fram á morgun. Já, kvefið ... læknirinn sagði að ég mætti alveg taka amerískt flensulyf sem hefur árum saman linað kvef mín og flensur - hvað þetta heitir nú allt - en á pakkanum sem ég tók með mér til doksa stóð: Ask your doctor if you have háan blóðþrýsting, sem ég sem sagt gerði þótt þrýstingurinn sé komin niður í OK. Henni fannst dagsetningin á flensulyfinu pínku fyndin ... eða best fyrir apríl 2016, samt virkar það, en ég á eflaust nýrri pillur ofan í baðskúffu. Vona það, ég er dugleg að gefa þær því mér finnst ömurlegt að fólk þurfi að kaupa nefdropa, hóstamixtúru, verkjalyf, strepsils og slíkt á meðan hægt er að taka tvo belgi og líða svo miklu betur. Hið íslenska ColdZyme er líka skrambi sniðugt kvefmeðal. Og virkar.
Hin fjölskyldan mín býr ögn fjær(á Akranesi er fimm mínútna aksturfjarlægð frekar langt), hafði samband í gær og gjörsamlega sjokkeraðist yfir því að ég væri með kvef ... Af hverju sagðir þú okkur ekki að þú værir veik? Ég er ekkert veik, reyndi ég að segja ... en sem sagt eiginmaðurinn skutlaði mér til læknis í dag, sem var ótrúlega vel þegið og sótti mig svo þangað og fór með mig í apótekið ... ég hef verið virkilega klökk yfir þessari miklu góðvild, það er bara gefið og gefið ... Elsku frábæra fólk.
FACEBOOK - NÝJASTA NÝTT:
Nefndu hlut sem getur breytt lífi þínu en kostar innan við tíu þúsund kall.
Þetta er bandarísk síða og ég veit að sumir hlutirnir sem eru nefndir þarna kosta gott betur en tíu þúsund kall ...
- Almennilegur koddi til að sofa á
- Rafmagnstannbursti
- Bókasafnskort
- Lykkjan
- Black Sabbath Vol 4, geisladiskur
- Bækur
- Góð margnota vatnsflaska
- Handklæðaofn
- Súkkulaði
- Cappuccino
- Brjóstahaldari sem passar
- Kvíðalyf
- Vegabréf
- Taka að sér kött
- Smokkar, fleiri ættu að nota þá
- Klósettpappír
- Taka að sér hund
- Góðir, þægilegir skór
- Svitalyktareyðir
- Seglar með hreint og óhreint til að setja á uppþvottvélina
- Getnaðarvarnir
- B-vítamín, allt í einu hætti ég að vera andvaka á nóttunni
- Brauðrist, ristað brauð er dásamlegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2024 | 00:56
Fjögurra skóga ferð, óþekkt eða góður smekkur ...
Heimaræktaða salatið var í matinn í kvöld og bragðaðist ótrúlega vel. Takk, elsku Hulda. Bætti við tómötum, agúrkum, harðsoðnum eggjum (12 mín. - þarf alltaf að gúgla) og ofnsteiktum amerískum kartöflum með olíu og hvítlaukssalti. Vinkona mín borðaði þessa dásemd með mér og samt verður nægur afgangur í hádeginu á morgun (í dag). Steingleymdi að kaupa avókadó, það hefði verið skrambi gott líka.
Vinkona mín hefur ferðast víða, bæði innanlands og utan og í kvöld sagði hún mér frá sniðugri fjögurra skóga gönguferð sem hún fer bráðum í og var hugsi yfir því að hún væri ekki þriggja skóga. Vinkona hennar ætti fínasta jeppa sem þær færu á sem væri frábært, og aðalvesenið væri að finna almennilegt nesti fyrir þessa daga sem ferðin tæi. Ég fór að telja í huganum ... Vaglaskógur, Kjarnaskógur, Hallormsstaðaskógur ... voru til fleiri skógar á landinu? Þetta yrði heilmikil keyrsla, fá suðvesturlandi og norður í skógana þar og svo austur, ef þetta væru réttu skógarnir. Af hverju væri gott að hafa fínan jeppa til að komast á milli? Hvers konar ferðalög væru eiginlega til? Ég hata svo sem gönguferðir - og skógar kæmu allra síst til greina sem tilneydd gönguleið hjá mér ... og rétt áður en ég spurði nánar út í skógana sem átti að ganga í gegnum og keyra á milli þeirra á jeppum, áttaði ég mig á að hún meinti erfiðleikastig göngunnar, hún sagði skóa-. Skór, ekki skógar. Fjögurra skóa ferð er víst erfiðari en þriggja skóa ferð (þetta segir auðvitað ekkert um fjölda skóa sem fólk mun slíta í ferðinni) en það var sem sagt lýsingin á ferðinni, tímalengd, hækkun, ófærð og slíkt sem var ekki upp á neina fjóra skó, vildi gönguglaða vinkonan meina. Ég er dauð úr þreytu bara eftir spjallið um þessa gönguferð.
Hún á alveg milljón barnabörn og sýnir mikla snilli þegar hún gefur þeim afmælisgjafir ... þau fá ömmudag frá henni og í gær fór hún ásamt einu krúttinu sínu í dagsferð í bæinn, Húsdýragarðinn og tívolí, barnið réði því hvað borðað var og fannst dagurinn ansi hreint góður. Amman var að minnsta kosti alveg í skýjunum. Held að þetta sé sniðugasta afmælisgjöf sem ég hef heyrt um frá ömmu til barnabarns. Verja tíma með barninu og gera eitthvað sem því finnst skemmtilegt. Aldur barnsins skiptir auðvitað máli og þessi ferð passaði akkúrat fyrir þetta barn. Leikhúsferð eða bíóferð hentaði öðrum. Kannski tekur hún elsta barnabarnið með á Skálmaldartónleikana núna í nóvember (þrennir), svona ef það barn hefur góðan smekk fyrir tónlist ... það myndi ég sko gera.
Á morgun kemur vinkona mín úr næstu blokk, sú sem færði mér síðbúinn ofsagóðan hádegisverð í dag, sjá mynd, í heimsókn og lærir að búa til rabarbaragraut hér í himnaríki. Hún fékk glampa í augun þegar ég sagði henni að þetta væri gamaldags íslenskur matur og er virkilega spennt að smakka - og læra að búa hann til. Vona að hún falli fyrir honum.
Mér finnst pínku asnalegt að þurfa nánast að éta ofan í mig að ég hafi andstyggð á gamaldags íslenskum mat ... en þá er ég auðvitað að tala um þverskorna ýsu, hræring, siginn fisk, súran þorramat og slíkt. Fátt er nefnilega betra en sumt í gamaldags flokknum, eins og pönnukökur, slátur (játs), hangikjöt, flatkökur og svo auðvitað rabarbaragrautur. Ég ræddi þetta ofaníát mitt nýlega við konu sem kom í heimsókn. Hún fór að segja mér frá móður sinni sem er komin yfir áttrætt og búsett á dvalarheimili, að starfsfólk þar hefði áhyggjur af því að hún borðaði ekki allan mat, t.d. sumar tegundir af fiski, en dóttirin veit fullvel hvers vegna, mamma hennar var einmitt pínd til að borða alls konar fiskhrylling í æsku sem hún hefur neitað að gera eftir að hún komst til vits og ára (lífið of stutt fyrir vondan mat). Hún eldaði fisk fyrir börn sín en var alltaf "búin að borða" þegar þau settust við matarborðið. Ég man reyndar ekki eftir því að mín eigin móðir hafi verið alveg brjáluð í gamaldags mat en hann var samt á boðstólum heima (og í sveitinni). Í gamla daga var "matvendni" (góður smekkur) skilgreind sem óþekkt.
Eftir allar þessar djörfu bækur sem hafa ofsótt mig undanfarið og ég hef kvartað yfir hér á blogginu, ákvað ég að færa mig frá þessum svokölluðu ástarsögum yfir í hinn enda rófsins, í eitthvað blóðugt og æsispennandi ... Byrjaði virkilega vongóð á bókinni Hefnd vélsagarmorðingjans en haldið ekki að aðalgaurinn þar, morðinginn sjálfur, hafi strax í öðrum kafla kynnst kynþokkafullum axarmorðingja ... Þegar fór að stefna í einhverja erótík á milli blóðbaðanna, í sirka fimmta kafla, varð mér allri lokið og fann mér aðra, gamla og góða bók um þróun fiskeldis í Téténíu síðustu hundrað árin, bara formálinn er tíu binda ritröð. Nú mega sko heyrnartólin detta úr sambandi hvar og hvenær sem er og það verður ekkert mál að sofna á kvöldin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2024 | 01:31
Í lausu lofti og meint illska fræga fólksins
Mánudagurinn var ljómandi fínn. Ég held þó að sumarfrí fólks hafi heilmikil áhrif á venjulegt líf margra ... meðal annars á fasteignamál mín því ég veit ekki hver staða mín er varðandi íbúðina sem ég er hæfilega spennt fyrir, eða staðsetningunni meira ... nálægt sundlaug og kirkju (djók). Sá íbúð auglýsta með þessum tveimur kostum í Grafarvogi, minnir mig. Fyrir manneskju sem fer ALDREI í sund og bara í jarðarfarir í kirkju, eru þetta ekki kostirnir sem ráða úrslitum um val mitt á húsnæði. Ég horfi á samgöngur, vídeóleigur og slíkt. Er sem sagt í lausu lofti en tíminn vinnur samt með mér, keðjur ganga yfirleitt upp, held ég, tekur tíma og því seinna sem ég geri tilboð, því betra, og meiri líkur á að allt verði gengið upp hér.
MYND: Leitaði ráða hjá véfréttinni til öryggis, væri ég nokkuð að breytast í sólskinsbarn? ... en sjúkkitt! Ég er kaldur fiskur ...
Stráksi ætlaði að kíkja um helgina en sem betur fer frestaði hann því ... hér var nánast dásvefn í gangi ... veður hefur lítil áhrif haft á mig, nema ég hata hálku, ég er meira fyrir vetur en sumar (sjá véfrétt) og það var október-veður í gangi um helgina, en samt ... Og svo kom sól, ég fór ekki einu sinni út á svalir, en minnti einna helst á fólk í kornfleksauglýsingu því slíkur var hressleikinn í dag.
Ég bakaði hvítu regnbogakökuna (takk, Betty) handa stráksa sem mætti svo í köku og safa eftir vinnu. Áttu flensulyf? spurði hann nefmæltur. Jú, ég átti eitthvað smávegis og gaf honum. Þú veist að þetta læknar ekkert, þér líður bara betur, minnti ég hann á. Kvefaði stráksi stoppaði bara í klukkutíma. Megnið af tertunni var skorið niður og fór í frysti, frekar fullan frysti ... Eldum rétt hafði mætt að vanda og ég hlakkaði til að borða þorsk með hrísgrjónum í kvöldmat.
Ég missti af hálfu kílói af rabarbara á síðu fb-vinkonu sem á snjallan son sem vildi fá eitthvað fyrir að tína rabarbara og skera hann. Ég varð of sein, fólk slóst um þessi tvö kíló sem voru í boði.
Elskan hún Hulda, gamla nágrannakona mín síðan í eldgamla daga, sá aumur á mér, og kom seinnipartinn færandi hendi, með rabararbara, nýja sultu sem hún hafði gert og salat sem hún hafði ræktað. Hún býr við sjóinn norðanmegin á Akranesi. Á morgun verður salatið í matinn ... með grænmeti og harðsoðnum eggjum, jafnvel sætri kartöflu. Slurp.
En þetta með rabarbarann. Ég skar hann niður í kvöld og skipti bitunum niður í sex poka, hver hálft kíló ... svo hér verður rabarbaragrautur reglulega á næstunni. Jóhanna Leópolds kom mér upp á hann, færði mér skammt af graut og rjóma, ekki löngu eftir að Einar dó, og ég ekki sú hugmyndaríkasta í eldamennsku ... svo þetta var nánast besti matur sem ég hafði fengið. Svo eldaði ég graut fyrir stáksa nokkuð löngu seinna og hann sagði: Ég veit ekki hvort mér finnst þetta gott en má ég samt fá meira?
Dásamlega sýrlenska fjölskyldan í næsta húsi fær að smakka og ef þeim líkar, þá fá þau alla vega eitt kíló og geta prófað sjálf, þau eru mjög spennt fyrir íslenskum mat og menningu, stórhrifin. Litli frystirinn minn er að springa, svo kannski dríf ég í þessu strax í vikunni.
Eins og þið vitið er ég mjög hrifin af spurningum og svörum ... svona skemmtilegheitum af Facebook. Fólk var beðið að nefna fræga manneskju sem það grunaði að væri illt hið innra.
Ekki stóð á svörum ... auðvitað nefndu langflestir Trump (þetta var eftir tilræðið við hann), margir nefndu Elon Musk og Tom Cruise, og einhverjir Móður Theresu, ég hef reyndar séð það áður. Skýringar fyrir aftan sum nöfnin eru ekki mínar, heldur fólksins sem nefndi djöflana í dulargerfunum.
Trump - en líka á almannafæri, sem sagt alltaf illur.
Keanu Reeves. Ég sver það, hann hefur blekkt okkur öll (margir broskarlar)
Ellen ... en það vita allir.
Jennifer Garner.
Justin Timberlake. Hef aldrei hitt hann en vinur minn tók eitt sinn viðtal við hann. Ölvunaraksturinn er bara byrjunin á falli hans.
Elon Musk, sá appelsínuguli, allir sjónvarpspredikarar og Ted Cruz.
Johnny Depp.
Karl III konungur.
Angelina Jolie, ekki spurning.
Oprah.
Joel Osteen, Billy Graham.
Ryan Reynolds, fínn leikari en það eru alltaf svona gaurar sem skvetta kaffinu yfir aðstoðarmanninn.
Öll ... nema Brendan Frasier og Keanu Reeves.
Keanu Reeves. Maður heyrir bara hversu góður gæi hann er því allir eru hræddir við að segja sannleikann.
Osmond-fjölskyldan, eins og hún leggur sig.
Móðir Theresa.
Beyoncé.
Tom Cruise.
Oprah. Ég hef ekki treyst henni síðan hún sagði að við ættum öll að eiga handklæði í stíl.
Elon Musk. Það er ástæða fyrir því að helmingur fjölskyldu hans talar ekki við hann.
Andrés prins. Eitthvað segir mér að hann hafi sitt af hverju að fela. (Broskarlar)
Madonna. Á einhvern skrítinn hátt.
Tom Hanks, enginn er svona indæll, ljúfur og heiðarlegur. Ó, bíddu, jú, hann er þetta allt.
Seven Seagal.
Rosie O´Donnell.
Madonna. Ég dáði hana árum saman, en allir sem hitta hana, hata hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring: 90
- Sl. viku: 696
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 563
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni