10.8.2024 | 15:53
Stressandi veðurspár - gagnsókn virkjuð
Veðrið á mánudaginn næstkomandi hefur valdið mér ómældum áhyggjum um hríð. Undanfarna daga hef ég horft með vantrú og hryllingi á spána á yr.no og séð bæði sól og 11-12 gráðu hita sem táknar óbærilegheit í himnaríki, að minnsta kosti fyrir tertur og afmælisbarn. En ... óskir mínar, vonir og þrár, eru ótrúlega oft teknar til greina, hef ég upplifað í gegnum tíðina, og bæði í dag og gær er eins og yr-ið, norska veðursíðan, vilji að ég hljóti draumaveðrið mitt, eða smávegis norðlægan vind og smárigningu og þar með verður lífvænlegt fyrir gesti og gangandi.
Í fyrra var 12. ágúst næstheitasti dagur ársins, sól og steikjandi hiti, mögulega í kringum 16 eða 17 gráður. Hitinn gerir marga kærulausa og Helga Olivers lagði frá sér disk með brauðtertu á svalahandriðið ... sem Jónatan IX, sérlegur mávur himnaríkis, leit á sem boð og fékk sér, auðvitað. Tertur, hvort sem eru brauðkyns eða marens, smakkast ekkert ógurlega vel með "svita" síns andlits ... Íslenska veðurstofan er orðin nokkuð sammála þeirri norsku, nema engin bleyta enn sem komið er. Ef þetta tekur U-beygju að hita og mollu hef ég þó ýmis ráð í pokahorninu, eins og að setja litla hrífu með gaddana upp út í glugga (það hefur virkað) ... og jafnvel regndans. Veit einhver hvaða lög eru best til að dansa við? Luftgitar er alltaf í uppáhaldi sem danslag en þarf ekki textinn að passa við galdur?
En, ég hef líka lært ýmislegt, varð sennilega fullnuma í fyrra, til að vera ekki í svitabaði: Til dæmis að fara í sturtu um morguninn (ekki t.d. kl. 14) og ekkert endilega hafa vatnið í sturtunni mjög heitt, já, og drekka kalt vatn annað slagið, ekki bara kaffi, hlaupa alls ekki of hratt til dyra þegar bjallan hringir (uppvakningagönguhraði fínn) OG ... það besta: nota jólagjöfina (jól, 2023) frá Hildu systur, viftu sem maður setur utan um hálsinn á sér og hún blæs köldu lofti. Ég hef prófað viftuna mína, hún virkar en ég gæti þurft að hlaða hana fyrir mánudaginn, bara til öryggis, ef sólin dirfist að láta sjá sig á milli kl. 15 og 20.
Ég hefði aldrei vogað mér að viðurkenna ósk mína um smárok og regn ef um helgi hefði verið að ræða, það hefðu verið talin landráð og ég réttdræp. Í fyrra börðust bæði Gleðigangan og Fiskidagurinn mikli við mig um gesti.
Mér tókst að láta leggja Fiskidaginn niður, sjúkk, og í dag, 10. ágúst, daginn sem ég hefði átt að fæðast, skv. lækni mömmu, og á afmælisdegi Guðríðar ömmu og Ians Anderson úr Jethro Tull, hef ég verið að fylgjast með gleðigöngunni í gegnum livefromiceland.is, Reykjavíkurtjörn. Einn af kostunum við að flytja í bæinn er að geta farið í eigin persónu í bæinn á svona dögum og verið með.
Neðsta myndin er einmitt frá Gleðigöngunni í ár, rammstolin af snappi Ingu vinkonu.
Himnaríki er orðið afmælisfínt - það verða innkaup á morgun (önnur sýrlenska fjölskyldan mín heimtar að skutla mér í búð og hjálpa mér að bera allt upp, svo kemur litháíska vinkonan færandi hendi með nýbakaða bestu marensrúllutertu heims, sem verður hópi kræsinga. Er ekki fjölmenningin dásamleg?) Hilda frá Íslandi hjálpar mér síðan með rest og kemur færandi hendi með ýmislegt gott, svo verið ekki að þvælast mikið að óþarfa á Kjalarnesinu upp úr hádegi á mánudaginn, elskurnar.
... afsakið hvað ég tala mikið um afmælið ... en þetta er eina partíið sem ég held á ári, fyrir utan mjög, mjög lítið hangikjötspartí á jóladag. Þess á milli ríkja leiðindin ein svo ekki nema von að þetta sé ofarlega í huga ... fyrir utan auðvitað komandi eldgos. Fékk skilaboð áðan: Gerir þú þér grein fyrir því að það er fræðilegur möguleiki á því að þú fáir bæði Kötlu- og Sundhnúkagígagos í afmælisgjöf?
Talandi um afmælisgjafir: Frændi minn átti von á barni á afmælisdaginn minn, en litli krúttmolinn valdi að koma 7. ágúst sl.. Flott hjá honum og höfðingleg ákvörðun, það er nógu erfitt fyrir mig að eiga afmæli sama dag og Ásdís Rán og Sveinn Andri ... já, og Krossinn. Hvar er samkeppniseftirlitið í svona tilfellum?
Með allan þennan lærdóm og tæki til hitalækkunar á heimili í farteskinu gæti ég meira að segja íhugað að vera förðuð sem ég hef ekki getað veitt mér vegna hita. Alltaf notalegt að heyra aðdáunaröskur vina og vandamanna. Ég er orðin svo vön kulda heima hjá mér (viljandi, lána hlýjar peysur og teppi í sumum tilfellum) að það sem langflestum finnst notalegur stofuhiti finnst mér ansi hreint ólífvænlegt. Vinafólk mitt frá heitari löndum veit að það þarf helst að hafa úti- og svaladyr opnar ef ég á að haldast innandyra í heimsókn hjá því.
Ég hef sagt frá þessu áður, en ég var stödd í Búdapest í október 2000 í árshátíðarferð fyrirtækisins og mátti varla hreyfa mig án þess að svitna og verða eldrauð í framan, það var nefnilega hitabylgja í gangi. Eftir tvo, þrjá daga slysaðist ég til að fá mér jarðarberjasjeik frá McDonald's - og það var eins og við manninn mælt, eitthvað gerðist innra með mér í kjölfarið og hitastig líkamans komst í jafnvægi, vandist 20 stiga hitanum. Ég gat hreyft mig að vild, gengið langar leiðir án þess að verða of heitt. Kalt vatn eða gos hefur sömu virkni svo það þarf auðvitað ekki mín vegna að opna McDonald's aftur hér á landi. Ég kýs að fara varlega með óskir mínar, velja rétt.
Hvað er í gangi á Facebook?
Hvað er það skelfilegasta sem þú getur hugsað þér í heimi hér?
Hér eru helstu svörin, ansi margir nefndu Trump og Harris sem það skelfilegasta:
- Þriðja heimstyrjöldin.
- Fljúgandi kóngulær.
- Þögn í herberginu þar sem börnin mín eru að leika sér ...
- Hafið.
- Loftslagsbreytingar; veðurhörmungar, flóð, eldar.
- Seinna kjörtímabil Trumps.
- Að Kamala Harris verði forseti.
- Samkvæmt gervigreindinni erum við mannfólkið vandamálið.
- Trúarbrögð.
- Að fæðast brúnn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2024 | 23:19
Svikin af bók, tertupælingar og góð grannaskipti
Flamingo er svakalega góður veitingastaður hér á Akranesi, og við stráksi fórum þangað í gær! Verði er stillt í hóf svo það er hægt að kíkja þangað oftar en á ýmsa aðra staði. Ég fæ mér yfirleitt rétt nr. 10, af númeruðum réttum fyrir ofan afgreiðsluborðið, kjúkling með hrísgrjónum, bita af sætri kartöflu og salati (mæli hástöfum með). Stráksi fær sér það sama, eftir að ég kom honum upp á bragðið. Svo í kvöld var það bara mexíkósk ýsa, að hætti hússins (Eldum rétt), rest hituð upp á morgun. Vinkona mín kíkti í heimsókn fyrr í dag og dáðist að mér fyrir að nenna að elda handa mér einni en það er æði að vera með hollar fjórar máltíðir í viku (tveir réttir fyrir tvo á viku, elda og hita upp til skiptis), annars færi ég bara út í endalaust snarl. Án þess að vera í megrun er ég óðum að verða eins og fyrir hætt-að-reykja gjörninginn góða 2020, finn það best á sífellt minna magni sem ég þarf af sturtusápu ...
Mér datt nákvæmlega ekkert í hug sem áletrun á afmælistertuna sem var pöntuð í dag. Viss fjandi kom með góðar hugmyndir að vanda en ég sá að ég myndi svekkja og móðga miklu fleiri en sjálfa mig ef ég færi eftir þeim. Kannski breytist maður í heigul með árunum. Mig langaði eitt augnablik í smáblekkingu: Allt er fertugum fært (Er Gurrí ekki eldri? myndu gestir hugsa en ekki þora að segja) en það er svo klisjulegt. Sjaldan fellur eggið langt frá eikinni, væri snjallt (fékk þá tillögu eitt árið frá vinkonu) ef ég væri eggjabóndi eða í trjárækt ... kattahvíslarinn minn er vissulega skógfræðingur en langsótt samt.
Tertan verður alla vega með jarðarberjafrómas, sem er huggun í sjálfu sér. Það var ansi fátt í gangi sem bauð upp á Ég-fékk-hana-ódýrt ... eins og Til hamingju með nýja starfið, Runólfur (fyrir löngu) svo kom Láttu þér batna, elsku Þrúða - Dofri Hvannberg, til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið, 10. ágúst ... Myndin sýnir að bakarar geta gert mistök ... 12. ágúst er alþjóðlegur dagur UNGA fólksins!
Vinkona mín, amman snjalla með sniðugustu gjafir í heimi handa barnabörnunum, bauð einum stráknum í kajaksiglingu í flottri ævintýraferð nýlega, hann var alsæll á eftir. Ömmur mínar voru æði, en þeim hefði varla þótt viðeigandi að príla upp um fjöll og firnindi með mér. Önnur þeirra hafði gaman af því að spila Manna og lesa bækur eftir Elínborgu Lárusdóttur, man ég. Hefði viljað kynnast þeim báðum svo miklu betur.
Þú lifir ótrúlega spennandi lífi í gegnum Storytel, fékk ég að heyra um daginn ... þá var mjög nýlegt (22 tíma) næturævintýri mitt ekki meðtalið. En á miðnætti 6. að hoppa yfir í 7. ágúst opnaðist fyrir bókina Atlas, saga Pa Salt, þá síðustu í flokknum um systurnar sjö. Ég hafði hlakkað til, eins og fleiri aðdáendur bókanna. Ég byrjaði auðvitað að hlusta þarna strax á miðnætti og líka eitthvað í gærdag yfir þvottastandi og einnig leti, og svo sl. nótt þegar ég lét í sakleysi mínu bókina malla til að svæfa mig, með stillt á að lestur hætti eftir hálftíma. Allt í einu, eftir kannski korter og í miðri setningu, gerðist eitthvað, lesturinn þagnaði og eldri bók úr flokknum birtist á skjánum (ég reis upp úr kómanu og kíkti) eins og hún væri ólesin ... Atlas-bókin hvarf en með fádæma snilli fann ég út að útkomu hennar hafði verið frestað til 28. ágúst, en gleymst að sleppa því að opna fyrir hlustun þann 7. ágúst. Hver sýnir svona grimmd af sér? Hvernig á ég að gera afmælisfínt í himnaríki ef ég hef ekki bók sem setur mig á sjálfstýringu? Hver er ábyrgð Storytel í svona málum? Skaðabætur? Háar? Kemur teymi sem gerir allt extra-fínt hjá sviknum lesendum? Þetta var ekki martröð, ég kíkti í morgun. Vissulega er þetta 27 klukkutíma löng bók og rúmlega það, og tekur sinn tíma að lesa hana inn ... en alveg sama. Fresta ég afmælinu? Nei, ég býð heldur ekki fólki og leyfi því að smakka eina brauðtertusneið og rek það svo út, eins og tíðkast greinilega að gera á sumum bæjum ... Átakanleg myndin sýnir að enn eru 20 klst. eftir af bókinni sem verður ekki aðgengileg fyrr en í lok ágúst!!!
Facebook-minningar dagsins:
Fyrir 14 árum, og enn á sama máli:
Er sérlega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa skipt út nágrönnum árið 2006 og fengið máva í stað geitunga.
Fyrir 15 árum. Ábyggilega Lærlingurinn:
Donald Trump var með í verðlaun fyrir sigurlið þáttarins heimsókn á Playboy-setrið þar sem margar af fallegustu konum heims ganga um hálfberar, sagði hann. Konurnar í sigurliðinu urðu örugglega rosaglaðar, enda stórkostlegur heiður að hitta Hugh Hefner og kærusturnar hans; Bridget, Holly og Kendru. Jamm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2024 | 16:48
Alveg óvæntar fyrirsætur ...
Kettirnir fögnuðu mér mátulega vel þegar ég kom þreytt en samt dásamlega endurnærð eftir dvöl í sumarbústað. Þeir höfðu haft það verulega gott, eins og myndir sem ég fékk sendar bera vott um. Mosi er betri fyrirsæta en ég hélt og Keli kemur líka rosalega á óvart (kossamyndin). Ég get farið að mokgræða á að bjóða þá fram í hin ýmsu verkefni í auglýsingageiranum. Kela líður svo greinilega miklu betur og farinn að daðra við úkraínska kattahvíslarann sinn. Blautmatur og verkjalyf gera greinilega kraftaverk á gigtveikum.
-------
Þreyta mín í gær stafaði af nokkuð langri setu í bíl í bæinn og svo fljótlega strætóferð í mestu rigningu sem ég hef upplifað (við Esjurætur), en mér tókst einhvern veginn eftir sýrlenskt kvöldmatarboð að búa til fb-síðu til að bjóða í afmælið á mánudaginn. Það vantar örugglega helminginn af þeim sem ég þekki og vil fá ... ég reyndi samt að draga úr fjöldanum ... ja, þessum er alltaf boðið en ekki mætt í tíu ár, gefa honum einn séns enn? Jaaaa ... eða hvað? Þreytan og syfjan sáu til þess að ég varð að fara aðra umferð og í kvöld fer ég þá þriðju yfir fb-vinahópinn. Held að ég hafi í einhverjum tilfellum bara boðið öðru hjóna, jafnvel því sem ég þekki minna ... Það er alveg hægt að móðga og svekkja fólk þótt maður ætli sér það ekki. Svo eru auðvitað ekki allir á fb ... og ekki næstum því allir sem sjá svona boð þótt það berist ... og enn er fólk á ferð og flugi, sérstaklega í útlöndum, held ég. Það væri mun hentugra að eiga afmæli til dæmis í september.
Mosi kom aftur við fyrirsætusögu eftir að ég kom heim, ég heyrði óhljóðin í frænda mínum sem hringdi frá útlöndum og Mosi stal senunni, ég hafði tyllt gemsanum þannig á borðið, upp við risabolla með pennum, að það var athyglissjúka kettinum í vil. Frændi kvartaði yfir því á eigin fb-síðu með því að taka skjáskot af símtalinu ... ef þetta er ekki lýsandi mynd fyrir kött sem þráir heitast að myrða vissan frænda.
Sumarbústaðaferðin var ekkert annað en brilljant, við vorum bara þrjú, stráksi, ég og systir mín. Rólegt og ljúft. Það var ekkert verið að stressa sig á að elda endalaust mat, grilla og slíkt, heldur fórum við út að borða (tvisvar), einu sinni á Mika í Reykholti og svo á stað á Flúðum þar sem mjög vel var fylgst með ÓL 2024, sýnt á tveimur tjöldum og hljóðið á hæsta ... sem fældi alla vega tvo ferðamenn frá. En kjúklingaborgarinn var fínn þarna. Svo skruppum við stráksi í kjörbúðina og ég gaf honum spilastokk ... og varð fyrir ferðamannaráni, það var mynd af eldgosi framan á pakkanum sem stýrði verðlagningunni. Hefði drengurinn ekki verið með sársaukafullan bambasvip hefði ég skilað stokknum sem kostaði yfir 3.000 krónur (venjuleg spil). Mér tókst að bjarga þremur bandarískum konum úr New York-ríki frá því að kaupa áfengislausan bjór í einhverri búð þarna og við tókum spjall saman. Ég sagði þeim að í fyrstu ferð minni til New York-borgar hefði sjálfur Dustin Hoffman gengið fram hjá kaffihúsinu þar sem ég var.
Sjúkk, gott að þú sagðir ekki Donald Trump, sagði ein konan, greinilega ekki aðdáandi annars forsetaframbjóðandans westra. Stöllur hennar voru sammála henni og sögðust vongóðar um að Kamala næði sigri. Þær ferðuðust ódýrt, virtist vera, gistu á tjaldstæðum og borðuðu mat sem þær keyptu í sem ódýrustum matvöruverslunum og elduðu í tjaldinu. Þær höfðu þó borðað í Mika og voru ánægðar með matinn þar, og hrósuðu líka einhverjum veitingastað í Vík í Mýrdal. Þeim fannst verst að vera að fara heim aftur fljótlega og missa þannig af eldgosi. Hvernig ætli mér hafi þá liðið ... að vera í sumarbústað á Suðurlandi og geta ekki fylgst með Reykjanesskaga frá höfuðstöðvunum í himnaríki, séð út um gluggann minn hvort væri komið gos eða ekki ... Mér leið alveg ágætlega reyndar og mjög hefur dregið úr sumarbústaðaandúð minni og -fordómum eftir þessa ljúfu daga. Rigningin sá til þess að lúsmýið lagði ekki í okkur sem var af hinu góða. Ég veit ekki hvort ég hef sætt blóð sem lokkar þær að, því ég hef hreinlega aldrei gefið færi á mér.
Facebook:
- Víst er hún karlmaður. (ÓL 2024)
- Víst var þetta hælisleitandi. (Bretland)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2024 | 16:21
Pönnukökur mikilvægari en fjölskyldan ...eða hvað ...
Samfélagsmiðlar voru ótrúlegir í gær, margir hneykslaðir á því að trans kona hafi fengið að boxa við konu. Þetta var leiðrétt, enda er þetta ekki trans kona (reyndar tekur hormónameðferð trans kvenna frá þeim allt líkamlegt forskot, að mig minnir, á átta mánuðum). Konan, sem ýmsir sögðu hreinlega vera karl, hefur tapað í níu bardögum gegn konum í sínum þyngdarflokki. Þau allra æstustu neita að trúa sannleikanum, segja að þetta sé fölsun og lygi. Auðvitað fúlt ef eitthvað sem maður vill trúa reynist ekki vera satt. Mér datt satt að segja ekki í hug að fordómarnir út í trans fólk væru svona útbreiddir og kannski gott að það kom upp á yfirborðið svo hægt verði að gera eitthvað í því.
Ég er ógeðslega svekkt út í J.K. Rowling, hún má hafa sínar skoðanir en af því að hún er hún, hefur hún miklu, miklu sterkari rödd en flest annað fólk ... og sama má segja um Helga vararíkis, það halda ábyggilega allir (ég geri það svo sannarlega) með honum í baráttunni við siðlausa glæpamanninn, en Helgi, í þessu starfi, ætti ekki að heimfæra brot eins manns yfir á hóp fólks sem hefur nákvæmlega ekkert með málið að gera, hann hvetur bara til fordóma með því. Í hans embætti og öðrum álíka verður að fara varlega og alltaf sýna hlutleysi.
Hnefaleikakonan alsírska er kannski ekki sérlega kvenleg í útliti á þessum myndum sem hafa fylgt "fréttunum", miðað við staðalímyndina, heldur er hún hávaxin og kraftaleg. Sumir segja að með aldrinum fari kynin að líkjast hvert öðru, konur verði karlalegri, karlar konulegri. Fólk segir við mig að ég sé alveg eins og pabbi, á meðan Hilda systir er oft sögð líkjast mömmu sífellt meira?
Aðalfréttin alls staðar í gær var innsetning Höllu Tómasdóttur í embætti forseta Íslands, bein útsending og allt, flott viðtal við hana um kvöldið, en af því að "fréttin" um það var ekki fyrsta frétt RÚV klukkan níu í gærkvöldi, fauk í einhverja og sumir segja að RÚV hafi viljað Katrínu í embætti forseta og sé í fýlu út af því að Halla hreppti hnossið ... Dæs!
Mér finnst reyndar sumir fjölmiðlar gera út á að setja fram efni til þess eingöngu að æsa upp fólk. Einu sinni sá ég fb-vinkonu deila enskri æsifrétt um Subway, að múslimar væru svo frekir í vissu hverfi í ákveðinni borg á Englandi, minnir að það hafi ekki verið London, að sumir staðirnir væru hættir að bjóða upp á svínakjöt, þyrðu það hreinlega ekki. Ég gúglaði og fann að þetta var satt upp að vissu marki ... Í hverfi þar sem margir múslimar búa ákvað markaðsfólk hjá Subway að gera þetta og það sló í gegn. Allir unnu - nema auðvitað rasistarnir.
Það eru sennilega svona falsfréttir sem Facebook reynir af öllu afli að forðast og blokka, sem bitnar á fleirum, t.d. þannig að ég get stundum ekki deilt blogginu mínu, saklausa sæta Moggablogginu mínu, ekki sett beint hlekk á það á fb-síðuna mína, heldur þarf ég stundum að skrifa eitthvað og setja svo hlekkinn í fyrsta komment, eins og fréttamiðlar gera reyndar gjarnan vegna þessa vandamáls.
Jú, ég plata stundum og ýki á blogginu mínu, það tengist aðallega meintum ástamálum mínum, og Facebook kannski að bregðast við því?!? Mikið vildi ég að það væri tekið jafnalvarlega á alvörufalsfréttum sem dynja stöðugt á okkur, það er jú reynt að klaga og kæra þær, en fb neitar samt að fjarlægja. Eða gervimennið sem sér engan mun á gríni og alvöru og aðvaraði mig alvarlega um daginn vegna myndbands sem ég birti á fb af því hvernig loftsteinn rakst á tunglið (svo greinilega tilbúningur) ... og ég deildi með orðum um að þannig hefðu risaeðlurnar á tunglinu dáið út ... Mér var hótað öllu illu og ég eyddi færslunni.
Það er svo miklu skemmtilegra að blogga um eitthvað allt annað en mál málanna ... en ég gat ekki stillt mig núna, þetta hefur verið svo yfirgengilegt og erfitt að fylgjast með þessu.
Mynd 3: Þetta er kannski ekki beint falsfrétt en þetta eru afskaplega villandi skilaboð ... ég var farin að sjá fyrir mér að ef ég gæti ekki flutt í bæinn þar sem vel rúmlega helftin af ættingjum, vinum og öðrum vandamönnum býr, ætlaði ég að snúa mér að pönnukökum. Með tímanum hefði ég eðlilega ekki komist út úr himnaríki svo það hefði verið sjálfhætt við flutninga.
Kattahvíslarinn minn knái mætir í dag svo við stráksi látum vaða í bæinn á eftir með strætó, á föstudegi um verslunarmannahelgi, og ef það er ekki hetjudáð, veit ég ekki hvað. Það gæti seinkað okkur eitthvað en ekki mikið, ef ég miða við síðustu átján ár - hef sennilega setið í strætó fímmtán föstudaga um versló, svo ég hef reynsluna. Veðurspáin er ekki sérlega "góð" fyrir helgina (rok og rigning víða) en veður er eins og aldur, bara tala (vindstig, hitastig, hviðustig, háþrýstingur, millibör og hvað sem þetta heitir allt).
Ég kann ekki að blogga í gegnum gemsann þannig að ég safna bara saman ævintýrum af Suðurlandi og flyt sérvaldar sögur þaðan á bloggi í helgarlok. Ég er vissulega ekki mikið fyrir sumarbústaðarferðir, eins og allir sem þekkja mig vita, finnst bara vesen að færa mig á milli staða og gera mig jafnvel að fæðuuppsprettu lúsmýs ... EN það getur ekki orðið annað en gaman með því skemmtilega úrvals- og uppáhaldsfólki sem ég fer með. Lítil þörfin fyrir hvíld í sveitasælu skýrist kannski af því að mér finnst ég svo nálægt náttúrunni hvern dag hér við tölvuna í himnaríki, þar sem ég hef sjóinn minn fallega, á kvöldin ljósin í borginni ... og stöku eldgos á Reykjanesskaga.
Óska ykkur öllum gleðilegrar, skemmtilegrar og slysalausrar verslunarmannahelgar. Og verið dugleg að hleypa strætó nr. 57 inn á þjóðveginn á Kjalarnesi í dag, elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2024 | 00:00
Faðmlag í ísbúð og brúsavél óskast
Eftir að stráksi flutti að heiman, í apríl, varð mataræðið nokkuð sérstakt - oft bara skyr og stöku tilbúinn réttur til að hita - og tilgangsleysið ríkti í þeim málum. Tveggja ára fínasta hollusta í boði Eldum rétt hafði gert mig kröfuharðari á hollt og gott svo eftir smátíma hélt ég áfram, nema panta bara tveggja daga skammt sem dugir í fjóra til fimm daga. Í kvöld eldaði ég mér auðveldan og fljótlegan pastarétt með hvítlauksbrauði ... afsakið formálann, mér hættir til að hafa allar mínar sögur allt of langar og stundum neimdroppa ég óþarflega, svo ég kem illa út en ... þar sem ég sat og naut þess að borða aðeins of lítið soðið pastað (al dente grande) fann ég snöggan hristing, sennilega jarðskjálfta, þann fyrsta sem ég hef fundið fyrir síðan 10. nóvember í fyrra, þegar ljósmynd datt úr hillu hjá mér og ramminn brotnaði (Ljósmyndin var af Kór Langholtskirkju að túra í Flórens 1985).
Þetta stenst nú ekki, hugsaði ég greindarlega, við bíðum eftir eldgosi, ekki jarðskjálfum. Hristi þetta af mér sem rugl og ímyndun. Tíu sekúndum síðar heyrðist bling í gemsanum mínum. Ég stóð upp og sótti hann.
Jarðskjálfti? spurði vinkona mín úr Kópavogi.
Já, ég fann eitthvað, svaraði ég.
Við ræddum þetta á Messenger, ég sagði henni að ég fyndi sjaldnast skjálfta frá Reykjanesskaga nema þeir væru fjórir eða meira. Þessi hefði verið örstuttur en samt finnanlegur. Ekki ein einasta hræða á Facebook virtist hafa fundið skjálftann, yfirleitt hikar fólk ekki við að tjá sig um skjálfta þar.
Hálftíma seinna mundi ég eftir þessu og kíkti á vedur.is. Ef ég fæ ekki tölulega upplifun af atburðum, líður mér illa. Þar var nákvæmlega ekkert að finna um skjálfta yfir þrjá, nær fjórum sem kona í Kópavogi og kona á Akranesi fundu fyrir á sama tíma ... Ég spurði einka-jarðskjálfta- og eldgosahópinn minn klára sem veit þúsund sinnum meira en ég um jarðfræði og það allt. Ekkert þeirra hafði orðið vart við neitt um hálfáttaleytið í kvöld. Mjög, mjög dularfullt. Mér líður eins og geimveru, alla vega á annarri tíðni, mögulega með heilanotkun á hærra stigi en sótsvartur almúginn (sjá ýmsar skerí bíómyndir) ... ásamt vinkonu minni (líkur sækir líkan heim) ... Þetta segir mér að svona næmar konur ættu betur heima á Veðurstofu Íslands en á öllum öðrum vinnustöðum, næmur rass alltaf betri en einhverjir skjálftamælar. Svo er vinkonan ansi klár að prjóna og gæti eflaust fengið uppskriftir að öllum flottu peysunum sem eldgosafræðingarnir okkar sýna reglulega í sjónvarpinu, og skúbbað í Handóðum prjónurum (vinsæll fb-hópur). Ég hef alltaf verið veik fyrir veðurfræðingum og myndi vera óð í að tala við þá um til dæmis gott kaffi, spennandi bækur, nýjustu uppátæki kattanna minna, götuheiti sem ergja útlendinga (Rósarimi, Kalkofnsvegur) því fátt finnst veðurfræðingum leiðinlegra, grunar mig, en að tala sífellt um veðrið - sem er uppáhald Íslendinga.
Ég mun hugleiða vandlega hvort ég nenni að kaupa mat í Prís, nýjustu lágvöruversluninni sem opnar í Smáratorgi í ágúst ... Þar verður bara tekið við kortum sem greiðslumáta og fólk á að afgreiða sig sjálft ... sem er léleg þjónusta, að mínu mati. Oft er þetta auglýst sem tækniframfarir, en framfarir fyrir hvern þá? Sennilega bara fínt fyrir þá sem eru á hraðferð og þurfa ekki nótu á kennitölu. Walmart úti í USA hætti með sjálfsafgreiðslu vegna gríðarlega mikils þjófnaðar, ágóðinn af starfsfólkssparnaði hvarf algjörlega og rúmlega það. Skil ögn betur þetta með reiðufé, hver vill leyfa mafíuglæpónum að þvætta beinharða peninga í búðinni sinni? Hmmm. Þegar Bónus hóf reksturinn (já, ég er orðin þetta gömul) var ekki tekið við kortum, bara reiðufé. Svo gafst Bónus upp á því og viðskiptin blómstuðu enn meira. Dominos vill að fólk panti í gegnum app og gerir önnur fjarkaup (heimsent) ómöguleg, svo þau geta bara hoppað upp í óliðlegheitin í sér. Ég hef alla vega ekki keypt pítsu af þeim síðan í kóvíd þegar fyrirtækið neitaði að leyfa mér þrælsprittaðri og með grímu að borga með korti í posa hjá sendlinum (eins og Galito gerði hiklaust) og vísaði til persónuverndar þegar ég mátti ekki gefa upp kortanúmerið mitt í síma. Ég er kannski gamall þrjóskupúki, svo ég hætti bara að versla við Dominos.
Ég ætla að skreppa í stutta bústaðarferð um komandi helgi, og elsku dásamlega Svitlana mín, kattahvíslari frá Úkraínu, ætlar að flytja inn í himnaríki, eða því sem næst, kettirnir fá svo mikla ást og góða umönnun frá henni og syninum sem þeir dá líka, að þeir verða nánast spældir þegar ég kem aftur heim. Það væri alveg eftir öllu að það byrjaði eldgos akkúrat á meðan og ég ekki á vaktinni ... ekki í fyrsta sinn. Svitlana lofaði mér því að taka myndir ef svo færi. Svo er ég með ýmsar vefmyndavélar aðgengilegar í gemsanum.
Keli (14) varð frekar skyndilega gigtarsjúklingur í fyrra, hætti að geta stokkið upp á bekki og gluggakistur, reyndi án árangurs um tíma og er þakklátur fyrir lága stóla og kolla við mikilvæga staði eins og skrifborðið mitt sem hann notar til að komast út í glugga en áhyggjur mínar snerust mest um það hvað hann grenntist hratt. Ég fékk góð ráð hjá dýralækninum í Kópavogi, verkjalyf næst þegar ég keypti urinary-matinn ofan í hann (sem hinir verða að fá líka). Svo datt mér í hug að gefa Kela oftar blautmat (Royal Canin, eins og þurrmaturinn) en svo prófaði ég Hill-eitthvað-matinn þar sem er enn meiri sósa og þá fór Keli heldur betur að braggast. Hann verður eflaust aldrei feitur, hann hefur aldrei verið það, en er ekki lengur svona rosalega horaður. Kettir sem finna til hætta að borða ... sagði dýralæknirinn, Keli borðaði meira eftir að hann fékk verkjalyfin og núna enn meira sem gleður mig mjög. Hinir njóta góðs af. Krummi (13) horfir mjög sár á mig ef hann fær ekki smávegis blautmat og Mosi (10) hreinlega veinar en hann hefur alltaf verið dramatískur. Þeir tveir eru ágætlega vænir á skrokkinn. Það sem heldur Mosa frá algjörri offitu er að þeir Keli (gigtarsjúklingur) leika sér oft og hlaupa þá eins og brjálæðingar um himnaríki ... Elsku grannarnir á hæðinni fyrir neðan, sverja að þeir heyri aldrei neitt hljóð úr himnaríki, ekki einu sinni Skálmöld á hæsta, en ég ryksuga stundum pallinn þeirra í þakklætisskyni fyrir að vera svona góðir og þolinmóðir nágrannar.
Það er mikil eftirsjá að Guðna Th. forseta og Elizu Reid. Þau eru alveg einstök og Guðni sérlega góður forseti. Ég hef fulla trú á því að nýi forsetinn okkar, hún Halla, eigi eftir að standa sig í starfi. Ég kaus reyndar eina frambjóðandann sem faðmaði mig og það í ísbúð á Akranesi, svo ég er til í hvað sem er á meðan ég fæ eitt faðmlag en það verður að vera í ísbúð. Fannst þau mörg mjög frambærileg en vildi ekki ógilda kjörseðilinn með að kjósa fleiri en einn. Við stráksi kolféllum fyrir Jóni Gnarr, auðvitað, húmorinn er það sem mestu máli skiptir í lífinu, fyrir utan tölur, auðvitað. Bílasalinn var klaufskur en ég nenni ekki að hneykslast á því, líklega orðin svo meyr af því að hlusta á bókina Vatn á blómin eftir Valérie Perrin í frábærri þýðingu Kristínar Jónsdóttur Parísardömu. Þetta er bók sem er svo margt; hrífandi, svo sorgleg að það er hægt að hágráta yfir henni (ég gerði það), óvænt og margslungin, og sögur margra sagðar.
Ég næ að klára hana í kvöld og svo tekur bara tómið og tilgangsleysið við, eða þar til 2. ágúst rennur upp og bókin Vistaskipti dettur í bókahilluna. Mikið vona ég að þetta sé ekki enn ein grafíska kynlífsbókin en miðað við fyrri bók höfundar, Meðleigjandann, er þetta bara eitthvað krúttlegt. Svo þann sjöunda ágúst kemur síðasta bókin um systurnar sjö og fjallar um pabba þeirra, heitir Atlas: Saga Pa Salt. Ég á vinkonu sem hefur margoft reynt að detta ofan í þessar bækur en getur það ekki ... ég féll strax fyrir þeim, og ef ég dæmi bækur eftir dáleiðsluhæfileikum þeirra til að fara viljandi að brjóta saman þvott þá fá þessar bækur hæstu einkunn hjá mér, alveg fimm þvottakörfur. Ef ég hraða ekki lestrinum upp í 1,2 sem ég geri oft, mun sú nýja duga mér í 27 klukkutíma og 26 mínútur. Veisla, krakkar mínir. Talandi um veislu ... vona að vini og vandamenn verði ekki í ógeðshita í útlöndum eða óþægilegri útilegu þann 12. ágúst, þá verður haldin vegleg skírnarveisla með afmælisívafi og mögulega kveðjutengingu ef íbúðamál ganga upp ... reyni að stofna einhvers konar afmælisboðssíðu en bara helmingurinn tekur eftir slíkri boðssíðu, er reynsla mín, vonandi sá helmingur sem les þetta blogg ... og annað: á einhver stóra kaffikönnu, svona brúsavél, til að lána mér, þyrfti þá tvo til þrjá brúsa líka ... sjá mynd.
Væntanlegar á Storytel eru bækur Colins Dexters um Morse og einnig bækur Kens Follett, Lykillinn að Rebekku og Nálarauga ... minnir að þær hafi komið út í öfugri röð á sínum tíma. Nálarauga var æði, fannst mér, man ekki eftir Rebekku. Virkilega gaman að rifja upp gamlar bækur, sumar hafa elst ágætlega, vonandi þessar líka. Svo skilst mér á Bókagulli á Facebook að ég hafi misst af miklu með að hafa ekki hlustað á bækur eftir Torill Thorup, eða bókaflokkinn hennar; Skuggar fortíðar, Rætur, Vængstýfð ... og svo Í þjónustu hins illa sem kemur ekki fyrr en 9. okt., sá langi biðtími angrar suma spennta lesendur. Kannski prófa ég ... en ekki fyrr en í október.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring: 90
- Sl. viku: 696
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 563
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni