30.8.2025 | 00:04
Hjálpsemi, óvæntur aðdáandi, kaffifréttir, DV í denn ...
Flutningar á vinnuaðstöðu standa nú yfir og allt í kringum það er svo ótrúlega miklu meiri vinna en mig hefði grunað. Stóll úr dyngju minni, hægra horninu, flytur niður í kjallara, skrifborðið kemur í það horn. Rúm kemur í vinnuherbergið, nýkeypt kommóða úr Góða hirðinum (5.500) og bókahillur þaðan bætast við í stofunni. Heimilið ekki nærri því eins smart og áður en það verður bara að hafa það. Það fjölgar um einn á heimilinu sem er tilhlökkunarefni. Þá eru komin mín vanalegu þrjú störf og jafnvægi kemst á. Djók! En ekki djók samt. Finnst mjög eðlilegt að vera í þremur störfum. Vissulega eru þau ekki öll frá 9 til 5. Sjúkk.
Ævintýrablokkin mín er alltaf jafnfrábær. Íbúi á fyrstu hæð (kvk) aðstoðaði mig í gær við að færa bækur og hillur, í dag kom annar íbúi (kvk af 2. hæð) og dröslaði stólnum úr horninu og fram á gang með mér. (Ég tel víst að einhver þriðji íbúinn (kk) aðstoði mig við að færa hann niður í geymslu á morgun.) Síðan skruppum við (sú af 2. hæð) á pínulitlum Hopp-bíl í Góða hirðinn þar sem var sko múgur og margmenni. Í leit minni að kommóðu sá ég t.d. tvo voða fína mánaðarbolla, ekki þessa venjulegu, báðir mars-bollar, en ég á þúsund bolla og vantar ekki fleiri, en þeir voru auglýstir skömmu seinna á bollaáhugafólks-fbsíðu á nokkuð hærra verði. Ég sem hélt að Góði væri með verðið á slíkum vörum í hæstu hæðum, stundum hærra. Furukommóðan sem ég fann var þó alls ekki dýr, kostaði 5.500 kr. og er í fínu lagi, há og grönn. Fimm rúmgóðar skúffur. Akkúrat eins og hún átti að vera. Smámisskilingur varð vegna lánsrúms sem ég hélt að væri venjulegt rúm en er samanbrjótanlegt gestarúm. Ég kíkti á netið og þar er verið að selja frekar ódýrt rúm, nýlegt og akkúrat það sem ég þarf. Þetta er ekki af nísku, heldur held ég að ég sé að breytast í vissa Gretu ... sem er bara af hinu góða. Ég þrái heitt að breyta eldhúsinu mínu þannig að hægt verði að hafa borðkrókinn undir glugganum. Ég komst að því að ég get nýtt fínu inniréttinguna sem er, jú, vissulega orðin nokkuð gömul en samt í mjög fínu lagi. Get fært skápana og bætt við langþráðri uppþvottavél og skipti út eldavél fyrir helluborð og bakaraofn í betri hæð ... Spara mér eflaust milljón með þessu. Nóg af parketleifum í geymslunni, svo það komi fram. En enn er þetta á draumastigi. Pípari ævintýrablokkarinnar segir mjög lítið mál að færa vaskinn (sem er undir glugganum, auðvitað). Til að forða stórslysi ætla ég að biðja mína kláru Guðnýju sem skipulagði hið nýja himnaríki á sínum tíma að aðstoða mig með skipulagninguna. Hún er verulega klár og góð í sínu.
Frekar ungur maður, sætur og greindarlegur með stafla af bókum í fanginu, aðstoðaði okkur við að ná tökum á hjólatrillu undir kommóðunni þarna í Góða. Á meðan grannkona mín sótti bílinn, borgaði ég og gat án aðstoðar flutt kommóðuna út og niður rampinn ... en þá kom annar karlkrúttmoli, nú á mínum aldri (50 plús, plús, plús, plús, plús) og bauð fram aðstoð. Ég hélt að svipur minn hefði lýst stolti þar sem ég trillaði kommóðunni frá húsinu en sennilega sá maðurinn ótta þarna einhvers staðar og að ég byggi ekki yfir ökuleikni af nokkru tagi. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég ók kommóðu á svona trillu. Þrátt fyrir aðra höndina nánast í fatla (alla vega umbúðir um handlegg) skutlaði þessi elska kommóðunni upp í pínulitla bílinn (aftursætin lögð niður) og það var meira að segja hægt að loka skottinu. Allt á hreinu-samkomuhúsið, munið? Þetta var slíkur bíll. Það er ekkert langt síðan ég missti trúna á mannkynið en upp á síðkastið hefur hún aukist nokkuð.
Við ókum sem leið lá heim, grannkonan hringdi í manninn sinn sem nánast vippaði kommóðunni upp úr bílnum með annarri og það hefði ekki komið mér á óvart þótt hann hefði sett hana á bakið og hlaupið upp stigana. Við tókum nú samt lyftuna. Þegar ég kvaddi þessi frábæru hjón bað ég þau í guðanna bænum sagði ég: Ef þið þurfið einhvern tímann hjálp við að flytja kommóðu, endilega talið við mig. Þau lofuðu því ...
Maðurinn með umbúðirnar og hjálpsemi hans sýndi mér að ég er enn "meðða" ... eða get fengið hjörtu síðmiðaldra karla til að slá svolítið hraðar sem er kannski ekki svo hollt ef út í það er farið. Samt gleðilegt fyrir mig. Það varð til þess að ég skipti um prófílmynd á Facebook, setti splunkunýja af mér ófarðaðri í afmælinu núna í ágúst. Hrukkur eru þrælflottar sko.
Myndin af mér hér fyrir ofan er sú allra nýjasta, tekin á afmælinu núna í ágúst.
Það hefur fjölgað í fjölskyldunni, alveg um tvo í þessum mánuði. Annar kom í heiminn fyrir nokkrum dögum og við systur ætlum í frænkuheimsókn til hans um helgina. Hinn er ferfættur af tegundinni maltese og líka ógurlega sætur. Hann heitir Moli Seifur, er rétt rúmlega tveggja mánaða og býr í Kópavogi hjá systur minni.
Í kvöld kúrðu Moli og Golíat saman í fyrsta sinn. Golíat er mjög góður og þolinmóður en stundum pínku pirraður á hvolpalátunum í honum en þetta er nú allt í rétta átt og ekki komin vika síðan hann flutti alkominn. Moli er mini-maltese (Golíat er venjulegur maltese).
Draumaveðrið mitt brast á í dag. Hellirigning og norðanátt - nema norðanáttin var bara einn metri á sekúndu. Það komu ekki einu sinni tíu dropar á norður-gluggarúðurnar mínar, það féll bara gjörsamlega lóðrétt regn sem ég vissi varla að væri til hér á landi. Ég ætla mér samt að vonast eftir hressandi roki og rigningu. Bara í nokkra klukkutíma, yfir nótt bara!
Stundum spila ég kapal eða eitthvað í símanum. Ókeypis leikir þýða að maður þarf að afplána auglýsingar inn á milli, stundum ferlega háværar sem virkar aldrei vel! Ein mjög leiðinleg gengur út á að reyna að selja forrit sem tekur til í símanum manns. "Þegar þú þarft meira pláss í símann, ekki gera eins og gamla fólkið sem eyðir bara einni mynd í einu!" Það er sölupunkturinn, enginn vill vera eins og gamla fólkið, og alls ekki gamla fólkið sjálft ... eða hvað? (Þetta er sko kaldhæðni) Ég eyði alltaf handvirkt - því ég myndi aldrei treysta einhverju appi til að velja bestu myndina þegar maður hefur tekið nokkrar af því sama, og fleygja hinum.
Þessir samfélagsmiðlar eru nú frekar spes stundum ... eins og Snapchat sem minnir mig stöðugt á eina mynd, eina dagsetningu, en um það bil vikulega dúkkar upp eins og af þráhyggju og hvað sem ég er að gera í símanum, í kapli, á feisbúkk, spjallinu: Manstu eftir 16. janúar 2018? Jú, þann dag var sonur minn jarðaður. Ég tók eina snappmynd þá og það er sú mynd sem Snapchat virðist óttast að ég gleymi og ýtir að mér að deila henni. Frekar hallærislegt. Ég er svo sem nánast hætt á snappinu, fór yfir á Instagram þar sem fjörið er. Þessi vikulega áminning Snapchat freistar mín ekki til að koma aftur.
Já, og svo er "óvinakaffihúsið" mitt í Hafnarfirði (sjá síðasta blogg) víst með Illy-kaffi sem er ljómandi gott og óskiljanleg þessi vandræðalegheit að halda því leyndu. Jú, einhver hefur ætlað mér eitthvað illt ... vitneskja er vopn! ... en alltaf óþolandi þegar er verið að gera manni upp skoðanir eða tilfinningar.
Ég fann gamla og góða mynd af skrifstofuliðinu á DV síðan við fluttum í nýja húsið að Þverholti 11 og það gamla var rifið. Svo er nýja húsið farið og bara nýbyggðar íbúðir, enda flott staðsetning. Það rifjaðist upp fyrir mér minning frá þessum tíma þegar myndin var tekin: Starfsemin varð að halda áfram þrátt fyrir stólaburð og slíkt, og ég hafði hlaupið út á pósthús til að sækja póst fyrirtækisins, ég þurfti gíróseðla til að geta gert upp á innheimtudeild smáauglýsinga. Það var líka dásamlegt að geta hoppað út og fengið frískt loft í nokkrar mínútur. Við reyktum við skrifborðin ... hugsa sér! Yfirleitt sóttu sendlar póstinn en þegar þeir voru ekki tiltækir hljóp ég, og elskan hann Ólafur skrifstofustjóri fór hratt í gegnum póstinn (yfirleitt kúffullur plastpoki) og lét mig fá gíróseðlana mína sem voru eins konar ávísanir fyrir greiðslu ... en hvað um það, einn daginn þarna í flutningunum bilaði lyftan og ég festist á milli hæða. Ég var með póstinn og þarna voru til dæmis landsbyggðablöð og ég hafði engar áhyggjur, mér myndi ekki leiðast á meðan viðgerð stæði yfir. En allir í húsinu voru vissir um að ég væri gjörsamlega skelfingu lostin, föst í lyftu. Nærstaddir höfðu eflaust heyrt minnst á bókina Lokast inni í lyftu eftir Snjólaugu Bragadóttur og haldið að það væri hryllingsbók sem hún var alls ekki, heldur rómantísk bók um ástir og örlög. Eitthvert karlmennið spennti lyftudyrnar upp og tveir aðrir drógu mig hreinlega upp, sem mér fannst frekar vandræðalegt - en það var bara búið að ákveða að ég væri viti mínu fjær af ótta ... Sætt af þeim samt.
Mynd: Hluti af skrifstofugenginu á DV á níunda áratug síðustu aldar. Eins og sjá má vorum við ráðin vegna útlitsins. Skemmtilegir tímar, frábær þessi sjö ár, 1982-1989.
Aftari röð f.v.: Elli Már, Ólafur, Þráinn, Sibba, Ásdís og Herdís.
Fremri röð f.v.: Steingerður, Svava, Gurrí, Helga og Björk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2025 | 00:55
Raunir þeirra þriflegu og sjónvarpsþættir satans
Sumarleyfi stendur enn yfir í einni vinnunni minni og vinnualkinn kvelst örlítið yfir því. Vissulega var farið í búðarferð í dag sem var svo mikil innspýting inn í hagkerfið að vextir lækka sennilega strax í fyrramálið.
Varð margs vísari á menningarnótt, eða hvert hún teygir sig, alveg strax um morguninn þegar mikil öskur heyrðust inn um gluggann hjá mér. Ég gladdist nú fljótt þegar ég sá að Reykjavíkurmaraþonið var nánast á hlaðinu hjá mér og öskrin voru ekki vegna skelfingar, heldur til hvatningar. Ég ákvað að blunda ögn lengur og svaf óvart alveg til eitt, sem hefur ekki gerst síðan ég var unglingur. Hafði ætlað mér að vera stödd á Hlemmi kl. 13 og kíkja á sérsveitina, vini mína síðan í desember þegar þeir kíktu hingað, sællar minningar. Það var einhvern veginn úr mér allur vindur, mér fannst dagurinn búinn, steingleymdi því auðvitað að hann var nótt, og ákvað að gera ekki neitt. Þótt ég telji mig vera intróvert á margan hátt, einrænan snilling í að muna póstnúmer, svo fátt eitt sé talið, fannst mér asnalegt að fara ein niður í bæ.
Ég náttúrlega bjó á Akranesi í næstum 20 ár og á meðan þurftu vinir mínir og vandamenn að venjast breyttu landslagi. Ég prófaði reyndar að hringja í einn ættingja ... Ha nei, sérsveitin kl. 13? Ég er að fara að hitta vinkonur mínar þá! Og þarna uppgötvaði ég að ýmislegt (allt) hafði breyst í fjarveru minni - vinirnir orðnir að ömmum og öfum, sumir (flestir) búnir að missa áhugann á djammi (miðborgarrölt á menningarnótt) og ýmsar fyrningar átt sér stað. Að ári mun ég sennilega vera búin að finna einhvern (fyrirvari er svo vanmetinn) sem nennir með mér að skoða aðstöðu sérsveitar Ríkislögreglustjóra, ganga niður Laugaveginn, kíkja jafnvel í vöfflukaffi einhvers staðar og taka svo strætó heim. Ég var að vinna nánast allan daginn (nóttina, afsakið), og lét vekjarann í gemsanum hringja kl. 22. Var spennt að vita hvort ég sæi flugeldasýninguna ... og já, ég gerði það, út um gluggann á dyngju minni. Þvílík heppni að hafa keypt íbúð á þessum stað. Óttaðist mest að stóra blokkin rétt hjá byrgði mér sýn, en ég slapp við að upphugsa ráð til að losa mig við hana, hún kemur reyndar í veg fyrir að ég sjái upp á Skaga. Akrafjallið er ágætis sárabót en það er þó fallegra frá Akranesi séð, alveg eins og Esjan er fallegri frá mér séð en frá Skaganum, finnst mér. Svo held ég reyndar að sérsveitin sé með aðstöðu einhvers staðar í Sundahöfn, sem er nánast hér á hlaðinu, það væri eftir öllu. Það koma grunsamlega oft dularfullir svartir jeppar á fullri ferð og með lögguljós þaðan og upp á Sæbraut, stundum nokkrir í einu og þá veit ég að einhver hefur stolið hraðbanka.
Samsetta myndin hér að ofan sýnir að báðir stórviðburðir menningarnætur sjást héðan. Ég horfi bara á verðið á íbúðinni minni hækka!
Ég hangi stundum á Instagram fyrir svefninn og í sumum tilfellum er það nokkuð svæfandi, róandi og notalegt. Ekki þó alltaf. Ein sem ég fylgist með þar mælti með heilsueflandi Insta-reikningi, höfuð, herðar, toppur, tær, eitthvað slíkt heitir það. Mér leist aldeilis vel á, enda áhugakona um góða heilsu, og gerðist fylgjandi. Gott væri að sjá hvaða olíur væru heilsuspillandi og annað slíkt. Mikil urðu vonbrigði mín og svekkelsið algjört þegar ég sá að stjórnendur þar telja að covid-bóluefni séu hættulegur þáttur í meintri versnandi heilsu okkar. Það væri sannað! Nefndu aukna tíðni banvænna krabbameina. Að við þekktum eflaust öll einhvern á besta aldri sem hefði dáið skyndilega úr því meini. Ég veit reyndar um þrjá sem hafa farið á síðustu misserum, EN tvö þeirra létu ekki bólusetja sig og töluðu gegn covid-bólusetningum á samfélagsmiðlum. Það pirraði mig líka að sjá þarna að covid hafi verið frekar ómerkileg sótt, nánast bara kvef, og það hafi verið sannað (sá engar sannanir fyrir þessu) að bara þau sem voru veik fyrir hafi dáið úr covid. Ég, vissulega margbólusett og samt enn á lífi, afvinaði þessa síðu og taldi upp á fimmtíu og tvær milljónir áður en pirringurinn loksins hvarf.
Heimur versnandi fer, ekki einu sinni þéttvaxnir flugfarþegar fá að vera í friði! ;) Nú ætlar visst flugfélag að neyða þriflegt fólk til að kaupa tvö sæti. Sem væri í lagi ef flugfélögin væru ekki þekkt fyrir að svíkja fólk sem keypti sér sæti hlið við hlið, t.d. foreldri og barn saman eða hjón saman, borgaði sér fyrir það en fengi svo ekki.
Hvað ef þéttvaxin manneskja myndi borga fyrir tvö sæti en lenti svo í því að annað væri 14B og hitt 33F?
Við systur skruppum í IKEA í dag. Ef ég kemst til læknis til að fá vottorð um heilbrigði, gæti fjölgað um einn á heimilinu. Læknirinn aflýsti tímanum sem ég hef beðið eftir í tvo mánuði svo ég þarf nýjan. Panta á morgun, þarf vonandi ekki að bíða í aðra tvo mánuði. Ég fjárfesti í ýmsu svefnherbergisvænu ... skoðaði kommóður og rúm - svona ef ég finn ekki notað. Fæ lánað rúm til að byrja með, 90 x 200, og langar að leita í Góða hirðinum að notaðri kommóðu sem lítið fer fyrir en með ágætt geymslupláss samt. Ég tók með mér tommustokk og mældi sitt af hverju ... ekkert að marka þessar mælingar hjá þessu Ikea-fólki (djók). Þarna fer nú aldeilis kona með konum, hvíslaði mannfjöldinn þegar ég mældi.
Þarf að hrósa IKEA fyrir góðan prófarkalestur á skiltum og miðum.
Langt síðan ég hef kíkt á kannanir á fb ... hér er ein:
Sjónvarpsþáttur sem þú ert neydd/ur til að horfa á í helvíti!
Það komu mörg, mörg, mörgþúsund svör en langsamlega flestir völdu efstu tvo þættina ... ég fór ekki yfir allt svo sem og ég sá bara Star Trek nefnt einu sinni ... en það er auðvitað nóg til að komast á listann.
Lærlingurinn (The Apprentice)
The Kardashians
Dr. Phil Show
Friends
Love Island
Star Trek
The Nanny
Real Housewives
How I meeet your Mother
The Walking Dead
Homeland
Jerry Springer
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2025 | 21:01
Allt þegar þrennt er, kaffistríð og dularfulla sjalið
Afmælisveisla var haldin hér með pomp og prakt þann tólfta, þar sem 150 allra nánustu var boðið í tertur og almennilegt kaffi. Um það bil helmingur sá sér fært að mæta sem þykja fínar heimtur á þessum árstíma. Ekki stórafmæli en samt ákveðin tímamót. Set alltaf réttan aldur minn á afmælistertuna (sjá mynd) en lýg um aldur þess á milli, sem táknar að það koma alltaf ótrúlega margir í afmælið til að vita ... Gjafir, sérstaklega blóm (vegna kattanna), stranglega bannaðar. Ég bjó til hóp á fb í stað viðburðar (gleymissualltaf) og var eilífðartíma að fara í gegnum vinaskarann á fb, og gaf mér svo aldrei tíma til að fara aftur í gegnum hann ef einhver hefði gleymst, ég var þreytt og syfjuð, reyndi bara að senda öllum velkomnum sterkt hugskeyti en sennilega án árangurs ... Það komu talsvert fleiri Reykvíkingar núna en síðustu 18 árin, og meira að segja fólk úr Keflavík sem hafði aldrei nennt á Skagann, svo með tilliti til afmælis var rétt af mér að flytja ... Samt var ég búin að fá því framgengt fyrir nokkrum árum að gestir mínir yrðu aldrei framar rukkaðir í Hvalfjarðargöngunum! Ég veit núna að ég hefði frekar átt að leggja áherslu á bensínverðið - halda því lágu.
Mynd af tertunni (úr Bernhöftsbakaríi).
Ég uppgötvaði í afmælinu, mér til gleði og furðu að ég er ansi vel tengd - sem er sjúklega gott á þessum síðustu og verstu. Í afmælið mætti fólk með sterka tengingu við meðal annars: Geislavarnir ríkisins, fréttastofu RÚV, Staðlaráð Íslands, Oz, gamla DV, Albaníu, Litlu KMS, Sólheima og almættið, svo fátt sé talið. Er fjúkandi reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið með gestabókina uppi við eða duglegri að taka myndir, en þetta var svo mikil klikkun* - sérstaklega þarna fyrst - að ég hafði ekki einu sinni tíma til að mála mig. Segi kannski ekki að ég hafi verið eins og vélsagarmorðingi útlits ... en litlu mátti muna.
Forsagan:
Elsku systir mín og allsherjar bjargvættur, sótti fyrir mig aðkeyptu veitingarnar upp í sveit (takk, Myllan) og kom með, ásamt því sem hún hafði sjálf útbúið (peruterta og marens), en hófið átti að hefjast kl. 14, ótrúlega snemma í fyrsta sinn, og á þriðjudegi. Sá fyrir mér að gestir gætu þá flestir fengið sæti ef dreift væri vel úr komu þeirra ... íbúðin mín mun minni en himnaríki. Kvöldið áður hafði ég fengið heimsenda kaffivél og þrjá brúsa sem fyrirtæki handan götunnar mátti sjá af.
*KLIKKUNIN:
Klukkan hálftvö fékk systir mín, þá nýkomin með veitingarnar, símtal og var óvænt kölluð út í vinnu. Ég var þar með ein eftir til að ganga frá kökum, hella upp á þrjá brúsa, mála mig og ... sem sagt ekkert sem ég gæti ekki ráðið við. Nema kaffivélin virkaði ekki. Ég hringdi í vin minn handan Sæbrautar sem lofaði að koma fljótlega með aðra vél. Svo hringdi konan sem gerði rækjubrauðtertu afmælisins, alveg í rusli því hún hafði misst tertuna í gólfið heima hjá sér! Ok, allt er þegar þrennt er, hugsaði ég með mér ... hjálparkonan tekin úr leik, kaffivélin svo sem líka og rækjubrauðtertan ... þetta hlyti að vita á skemmtilegustu veislu ársins - sem reyndist vera rétt. Svo komu mömmur.is með brauðmeti og fleira gómsætt sem bjargaði miklu, elsku dúllurnar. Það komu svo margir ... og allir með pakka þótt það væri bannað. Reyndar allt mjög nytsamlegt; sokkar, bíómiðar, bröns fyrir tvo, rauðvín, ruggustóll, handáburður, hanskar, bækur og annað algjörlega sjúklega dásamlegt. Vinir mínir sem ég hef valið og bauð bara vegna útlits eru einnig mjög, mjög smekklegir. Eina sem ég er í vandræðum með er mjög fallegt prjónað sjal sem ég veit ekki frá hverjum er. Enginn merkimiði.
Ég hef tiltölulega nýlega beygt reglurnar fyrir vini mína sem máttu aldrei taka börnin sín með í afmælið ... en aðeins ein vinkona þorði í ár, með dóttur og tengdason á fimmtugsaldri.
Alltaf þegar nýtt kaffihús opnar fyllist ég forvitni og ein spurning kviknar: Hvaða kaffitegund verður í boði? Þá á ég ekki við latte, cappuccino eða slíkt, heldur hvort það verður kaffi frá t.d. Te og kaffi, Kaffitári, Kaffibrugghúsinu, Valeria eða Vífilfelli ... Nýtt kaffihús opnaði nýlega í Hafnarfirði í sama húsnæði og dásamlegt kaffihús var áður. Gladdist yfir því að kaffihússmenningin héldi áfram þar og ákvað að fylgja nýja kaffihúsinu á Instagram, allt var tekið í gegn og gaman að fylgjast með flottum endurbótunum. Ég sendi fyrirspurn fljótlega: Hvaða kaffitegund ætlið þið að bjóða upp á? en fékk ekki svar ... heldur ekki þótt ég spyrði aftur, mjög kurteislega. Svo var boðið upp á að spyrja spurninga um kaffihúsið og ég endurtók mína ... en enn ekkert svar. Nú er búið að opna og allt virðist svo flott og fínt, girnilegt meðlæti, vín og alles, en ekkert um kaffið. Það var eins og haldið væri að ég ætlaði að vera með dólg ... oj, ætlið þið að vera með þetta, ömurlegt ... bla bla, sem ég hefði aldrei gert. Mér fannst þetta eðlileg spurning og sama hvert svarið hefði verið Jamaica Blue Mountain (dýrasta kaffið en allt of milt fyrir plebbann mig) eða Gevalia (strangheiðarlegt heimiliskaffi) og allt þar á milli, hefði ég þakkað fyrir svarið. Ég hef alltaf gert þetta, eða spurt hvaða kaffi sé í boði hvar sem ég kem, og ef það er ekki að mínum smekk er það bara allt í lagi. Þessi skortur á svari hefur orðið til þess að mig langar ekki lengur á nýja kaffihúsið. Hvort sem þau eru með gott eða ekki svo gott kaffi ... Mér líður eins og ég hafi lent í styrjöld við kaffihús og báðir aðilar tapað. Þau missa mig sem viðskiptavin og ég missi kannski af geggjuðu kaffi ... afsakið dramað.
Var einmitt á frábæru kaffihúsi í dag með ástkærri vinkonu, Te og kaffi í Borgartúni. Við förum eiginlega til skiptis þangað og á Kaffi Vest. Held að Kaffi Vest sé með Kaffibrugghúss-kaffi sem er mjög gott, Kólumbíukaffið 2018 frá þeim er eitt besta kaffi sem ég hef smakkað ... fékk það í Rjúkanda á Snæfellsnesi og bíð spennt eftir næsta svona góðum árgangi. Annars þrái ég mest af öllu að Valeria (Grundarfirði) fari að selja kaffið sitt í Reykjavík.
Myndin er af okkur Kela, en núna 19. ágúst er liðið ár síðan þessi frábæri, dásamlegi köttur yfirgaf sviðið og er enn sárt saknað af öðru heimilisfólki hér. Myndin var tekin 2016 þegar ég sat við að hekla veðráttuteppi með góðri hjálp elsku Kela.
Stráksi kom auðvitað í afmælið á þriðjudaginn fyrir viku og stoppaði í nokkra daga sem var mjög gaman. Hann fór ekki heim fyrr en á sunnudagskvöldið. Elskan hún Tinna Royal (sem gerir flottasta skraut í heimi á jólatré) er með sýningu hjá Gallerí Fold við Rauðarárstíg og við fórum að sjálfsögðu á opnunina á laugardaginn.
Tókum leið 12 og ætlunin var að fara út á Hverfisgötu við Barónsstíg og kíkja á kaffihús þar í grennd, en framkvæmdir þar einhvers staðar urðu til þess að við fórum beinustu leið niður á Lækjartorg frá gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún. Sem var ekkert nema skemmtilegt.
Ég veit eiginlega ekki hvað hefur orðið af gömlu Gurrí sem hataði fátt meira en gönguferðir en sá þarna fínasta tækifæri til að fjölga skrefum sem hafa verið sorglega fá í sumarleyfinu.
Við sem sagt gengum frá Lækjartorgi upp á Hlemm sem var ógurlega gaman. Skref laugardagsins urðu 4.377 og miðað við rúmlega 557 skref dagsins í dag er það skrambi gott.
Mér finnst miðbærinn svo mikið æði núna, lífið og litirnir, fólkið og gleðin, miðað við tilveruna þarna t.d. á áttunda áratugnum þegar ég var unglingur og allt var frekar grátt og harðbannað. Hefði maður ekki átt bækur til að lesa og plötur til að spila ... Það var nú margt æðislegt líka þá - en miklu litríkara núna.
Mynd: Ruggustóllinn ægifagri sem vinafólk (sem vissi hvað ég hef alla tíð þráð slíkan stól) og flotta dularfulla bleika sjalið sem ég veit ekki hver gaf mér. Hvar eru Finnur og Dísa, Jonni, Júlli og Anna litla, eða Georg og jafnvel Kíkí? Þau hefðu nú ekki verið lengi að leysa þessa ráðgátu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.10.): 16
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 218
- Frá upphafi: 1534286
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 171
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni