30.9.2024 | 22:47
Skilningsleysi yfir harmsögu og ferlegar flutningaáhyggur
Aumingjaskapurinn var allsráðandi þegar ég mætti stundvíslega til tannsa í dag. Hélt að gönguferðin þangað myndi verða hressandi og bætandi en aldeilis ekki. Hóstinn hefur lagast en ekki nóg, flökurleiki bætti ekki úr heldur og hvern langar að gubba á tannlækninn sinn eftir æsilegt hóstakast í miðri tanntöku? Ekki mig. Svo ég borgaði bara skrópsektina og dreif mig heim með strætó. Næsti tími tuttugasta og eitthvað október, eins gott að hviður á Kjalarnesi hleypti mér á Skagann með strætó. Maður slítur sig ekki svo auðveldlega frá tannlækninum sínum, hárgreiðslumeistaranum og öðru góðu hér í þessum dæmalaust yndislega bæ ... Var að hugsa um að kveðja kaupmannshjónin í Einarsbúð á heimleiðinni en var svo skynsöm að hringja fyrst og veit núna hvaða tími dagsins er bestur til að hitta á þau og knúsa í ræmur.
Leið síðan ögn betur eftir að hafa lagt mig með æsispennandi bók til að hlusta á: Síðasti hlekkurinn heitir hún, eftir Fredrik T. Olsson. Búin með tíu klukkutíma, bara átta eftir. Var reyndar byrjuð á algjörri dásemd: Þessir djöfulsins karlar en ætla að geyma mér hana þar til líf mitt er orðið stresslaust, ekkert: Næ ég að pakka öllu fyrir laugardag? Næ ég að kaupa ísskáp og fá á Kleppsveginn fyrir laugardag? Kemur flutningabíllinn örugglega? Sofa burðarmennirnir yfir sig? Verður pínulitla lyftan biluð? Er möguleiki á því að Skálmöld aflýsi tónleikunum 1. nóv.? Er eldavélin með spanhellum? Plís, ekki span!
Ég hefði getað fengið nýju íbúðina afhenta í dag, degi fyrr sem sagt, en sagði seljanda sem hafði samband í gærkvöldi að það væri því miður of seint að aflýsa tannlæknatímanum í dag og allt væri miðað við fyrsta október. Stráksi kíkti svo í heimsókn eftir vinnu og borðaði upphitaðan skyndirétt á meðan ég snæddi dásamlegan sýrlenskan mat frá elsku Fatimu minni. Fyrir hádegi hafði fulltrúi hinnar sýrlensku fjölskyldunnar minnar mætt og aðstoðað mig við að pakka. Hún tók niður gardínurnar í stofunni sem nýttust sérdeilis vel til að vefja utan um gömlu eldhúsklukkurnar en ég hætti við að þvo gardínurnar hér á Skaga. Held að ég nýti frekar iðnaðarvélarnar í nýja húsinu. Ég á allt of mikið dót, allt of mikið af öllu, samt búin að losa mig við heilan helling.
Facebook, ó, Facebook
Facebook rifjaði upp í dag að fyrir nákvæmlega 14 árum opnaði ég mig og sagði strætóvini mínum harmsögu lífs míns á leiðinni frá Mosó til Reykjavíkur. Kaldur og staðinn hafragrautur og súrtunna með næstum ársgömlu slátri komu við sögu. Ég hefði haldið að ég fengi stuðning vina og vandamanna á Facebook þar sem ég sagði frá þessu en aldeilis ekki:
Óli: Það losar um munnvatn.
Nanna: Alveg væri ég til í ársgamalt súrt slátur núna. En hafragrauturinn þyrfti helst að vera nýr.
Einar strætóvinur: Já, ég er enn með tárin í augunum eftir að hafa hlustað á Harmsögu ævi minnar, eftir Gurrí í strætó í morgun. Annars táraðist ég líka vegna þess að þetta var sennilega síðasta strætóferðin mín með henni. Ég á eftir að sakna allra strætófélaganna.
Borghildur: Þetta er herramannsmatur og ekki orð um það meir.
Hulda Björk: Vildi óska þess að ég ætti ársgamla tunnu. Mmmm
Hilda: Tja, misjafn er smekkur manna, súrt slátur er viðbjóður ... (smekkkona hún systir mín)
Guðrún: Súrmeti er góðmeti .. æi, nú fer ég að hlakka svo til þorrans, nú á mig eftir að dreyma súrmeti í alla nótt!
Ekki furða þótt dvalarheimilin breytist lítið í matarmálum, þegar tiltölulega ungt fólk hefur svona ... fornan smekk. ;)
Góður íslenskur gamaldags matur: Hangikjöt, uppstúf, laufabrauð, flatkökur, pönnukökur, kjötsúpa, slátur (ekki súrt), rófustappa, kleinur ... (ég borða kannski ekki hrátt hakk eins og sumir þjóðernismenn en er alls ekki landráðakona)
Ef þú gætir fjarlægt eitthvað eitt úr heiminum til að gera hann betri, hvað yrði það?
Græðgi.
Mannkynið.
Sjálfselsku.
Moskítóflugur.
Pedófíla.
Trump.
Harris.
MAGA.
Vinnustaðinn minn.
Hvar á ég að byrja?
Glæpi.
Sjúkdóma.
Hatur.
Kóngulær.
Kynþáttahatur.
Síonisma.
Alkóhól.
Hungur.
Stríð.
Pólitík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2024 | 22:28
Elskulegheit, augnableyta og Titanic-svindlið
Mikið vorkenni ég burðarmönnunum þínum, sagði Inga og horfði á bókakassana sem eru nokkuð fyrirferðarmiklir í litla herberginu.
Þetta er ekkert, svaraði ég, líklega bara fjórðungur af því sem ég átti þegar ég flutti á Skagann.
Þeir grétu nú pínkupons þarna 10. febrúar 2006 yfir að skoppa niður af annarri hæð á Hringbraut með bévítans bókakassana og það eina sem huggaði þá var að um það bil fimm eða sex Fjölbrautaskólastrákar hér á Skaga báru bækurnar upp á fjórðu hæð. Allt í gegnum elsku Kolbein frænda. Ég skulda þeim enn pítsuveislu. Með eðlilegri verðbólgu og vöxtum ætti hún að vera orðin að utanlandsferð fyrir þá núna. Ég minntist nokkrum sinnum á það en það var einhvern veginn aldrei tími hjá strákunum svo það datt upp fyrir en þakklæti mitt er nú samt ómælt. Nú fæ ég minnst fimm sterka karla til að hoppa upp og niður stigana með kassa og mig grunar að þeir þurfi ekki að fara í ræktina í svona þrjá mánuði á eftir.
Langflestar bækur heimilisins fóru sem sagt í kassa í gær. Þetta var ótrúlegur dagur. Ég var vöknuð fyrir allar aldir upp úr níu þegar Ólöf, gamla góða samstarfskonan síðan á síðustu öld og bjargaði mér þegar ég smitaðist ekki af Covid í ræktinni en þurfti samt að fara í bæinn ... mátti ekki fá far og mátti ekki taka strætó en átti samt að mæta til Reykjavíkur. Með þetta fína sjúkrahús á Akranesi sem mátti þó ekki sjá um okkur. Jæja, hún var með hugsanlega smitaða unglingsdóttur sem átti að mæta líka í sýnatöku þennan dag, svo hún skutlaðist úr Mosó upp á Skaga, fór með mig á sýnatökustað, beið og skutlaði mér svo heim. Þess ber að geta að við höfðum ekki sést og heyrst í ansi mörg ár. Hún fór svo með dótturina seinnipartinn. Þetta var svo fúlt ástand að ef dóttirin hefði greinst jákvæð hefði það þýtt allt upp á nýtt fyrir mig, og öfugt. En hvorug okkar þurfti að súpa seyðið af gjörðum okkar. Sem sagt, Ólöf spurði hvort mig vantaði eitthvað og ég sagði að litlir kassar væru eina ögrunin - það var eins og við manninn mælt, að um leið og kötturinn hennar var búinn með fegurðarblundinn ofan á bringunni á henni, dreif hún sig af stað og færði mér nokkra litla kassa, ásamt því að setja saman nokkra afar flókna kassa af stærri gerðinni (ekki úr IKEA þó). Dásamleg!
Myndin er af tekkskrifborðinu mínu sem ég ætla að selja mjög ódýrt (10 þús. eða besta boð), fann svipað hjá Kristbjörgu í antíkskúrnum, nema hátt í helmingi minna, sem er æði því ég flyt í minni íbúð og MIKLU minna vinnuherbergi (2,10 x 1,80). Krummi tekur sig aldeilis vel út á myndinni og honum er ætlað að taka athygli frá draslinu ... bara einn sentimetri til hægri i glugganum og þá myndi sjást í pappírsdraslið sem ég ætla að flokka í kvöld.
Síðan komu óvænt skilaboð, systurdóttir og kærasti heimtuðu að fá að koma og pakka niður fyrir mig. Móðir frænkunnar á leiðinni með hunda sína svo senn yrði allt fullt af aðstoð. Inga nýbúin að vera að aðstoða mig, einnig Rahaf mín og svo ætlar Fatima líka eitthvað að koma, báðar úr sýrlensku hjálpardeildinni.
Það kom eitthvað blautt í augun á mér út af allri þessari góðmennsku, óverdós af elskulegheitum, myndu sumir kalla það, en mér þótti þetta þó verulega hallærislegt af mér þar sem ég hef gefið mig út fyrir að vera harðskeyttur ofurtöffari sem grenjaði ekki einu sinni yfir endinum á Titanic-myndinni ... bara pirraðist yfir því hve löng hún var og ég vissi auðvitað alveg að Jack yrði fórnað, þótt hann væri alls ekki útlitsgallaður á nokkurn hátt. (Í Jurassic Park var t.d. öllu þybbnu fólki með gleraugu fórnað, minnir mig).
Augun voru löngu orðin þurr og töff þegar systir mín mætti og síðan dóttir hennar og tengdasonur - það urðu fagnaðarfundir því þetta var víst ekki samsæri. Það er ekki allt samsæri alltaf sko.
Mér finnst ég enn, öllum þessum vikum seinna, vera að flokka og flokka og flokka, gleymdi t.d. skápnum hægra megin í tekkskrifborðinu mínu fagra, búin með skúffurnar vinstra megin, og þar leyndist aldeilis mikið af pappír! Mikið verður tunnan sem tekur pappa og plast ánægð með allt sem hún fær frá mér á morgun. Ég lét pakka niður sjónvarpinu og öllu tilheyrandi sem hjálparhellum fannst frekar skrítið en það er miklu betra að flokka hluti og pakka niður með góða sögu í símanum en eitthvað í sjónvarpinu. Pásur eru illa séðar á þessu heimili.
Fljótlega eftir hádegið á morgun fer ég svo til tannlæknisins og mun þar skilja eftir eitt stykki jaxl sem tannsi vildi endilega fá til minningar um mig fyrir Skagamenn, held ég. Maður verður að skilja eitthvað eftir sig ... Held að ég verði ekki mjög til stórræðanna við heimkomu eftir tanndráttinn - og svo næsta dag er það bara 13.15-strætó í bæinn og fá afhenta lyklana að nýju íbúðinni. Allt að skella á!
Inn á milli þegar ég hef verið ein heima hef ég verið að hlusta á söguna Það sem við komumst ekki yfir ... og sú kom á óvart! Svolítið óforskömmuð bók og ansi fyndin á köflum. Jú, ástarsaga og allt eftir Lucy nokkra Score. Ég sofna oft við upplestur, stilli Storytel kannski á hálftíma eða tímann til að klára kaflann ef hann er sæmilega langur, en hló upphátt tvisvar í gærkvöldi þegar ég átti að vera að koma mér í draumalandið. Var ekki sérlega hrifin allra fyrst en svo náði hún mér. Alveg mátulega rómantísk, ótrúverðug og allt það sem prýðir svona bækur, meira að segja erótík (jibbí) í henni, sem sagt dásamleg í gefa, eiga, henda-starfinu hér. Hún var líka fín við flokkunina bókin Mikaela eftir Önnu Bågstam (lögfræðikrimmi).
Ljósmyndin hér á síðunni sannar að það er lítið að marka bíómyndir. Jack bjargaðist greinilega! Sjúkk, hvað ég var framsýn að hafa ekki grenjað yfir endinum á Titanic.
Var boðið í úkraínska kjötsúpu í dag og sú var góð - kattahvíslarinn minn sem bar ábyrgð á því góða boði tók svo tvo kassa sem eiga að fara í Búkollu, svo ég væli ekki lengur um fráflæðivanda. Vona bara að einhver falli fyrir skrifborðinu. Annars tek ég það bara með í bæinn og held áfram að reyna að koma því út. Ljósakrónurnar fögru og góðu sem hafa prýtt himnaríki eru farnar í antíkskúrinn og fá vonandi ástríkt heimili, en mér sýnist á öllu að á Kleppsvegi sé lítil þörf á að mæta með ljósakrónur. Kemur bara í ljós ... fliss.
Fyrsta og eina óhappið sem hefur orðið hér við þessa flutninga átti sér stað þegar verið var að pakka niður bókum - sem hefur verið tekið í nokkrum hollum síðustu daga. Fokkjústyttan bleika sem ég fékk í jólagjöf eitt árið frá vinkonu, skall í gólfið og langatöng brotnaði af. Brotnaði samt "vel", en viðkomandi "brjótari" tók hana með sér og ætlar að redda sér góðu lími þannig að ekki nokkur leið verði að sjá misfellu. Svo verður mætt í heimsókn og mér færð límd og fullkomin styttan. Aðeins ég, "brjótarinn" og bloggvinir mínir munu vita af þessu óhappi.
Hér á Akranesi hafa jarðskjálftar á Reykjanesskaga varla fundist nema ef þeir eru yfir fjóra að stærð. Í kvöld sá ég að ég er aldeilis á leið í meira fjör ... en íbúi í 104 Reykjavík, bráðum mínu póstnúmeri, fann vel fyrir þessum sem komu í kvöld, eigi svo langt frá Keili, hristist þrátt fyrir að þeir væru "bara" 3,3 og 3,6 sem finnst aldrei hér. Og ég fer á sjöttu hæð sem gerir þetta enn meira spennandi ... Mamma var alltaf mjög jarðskjálftahrædd og nötraði vel á sinni sjöundu hæð í Asparfelli en eftir að hún flutti á Eir fann hún aldrei fyrir neinu.
Veit einhver hvernig hægt er að losna við fastan takka í lyklaborðinu? Einn takkinn festist alltaf, urrr. Það er stafurinn I-i sem er mikið notaður á þessu heimili, og ég er að verða brjáluð! Hann helst niðri og er eiginlega hættur hrökkva upp eftir smástund. Ég get skrifað á sama hraða og venjulega svo það truflar ekki þannig en ... bara að hann sé fastur þarna gengur ekki. Missti dropa af einhvers konar hreinsidæmi, röngu, en hélt að ég hefði náð að þurrka allt upp - greinilega ekki.
- - - - - - - - - - - - - -
Ég hef oft skrifað um slæma sjón ungu útlensku strætóbílstjóranna sem hafa nokkrum sinnum reynt að gefa mér afslátt (vissulega unglinga-, öryrkja- eða elliafslátt en ...).
Myndin er sönnun síðan þetta gerðist í fyrsta skiptið! Sjáið bara þessa átakanlegu mynd sem er skjáskot af Snapchat-færslu minni. Greinilegur skortur á klipp og lit og framköllun í andliti - sem afsakar eitthvað - öskureiðin og beiskjan leka af andlitinu en ... bílstjórinn keyrir enn sem er einungis miskunnsemi minni og skorti á langrækni og hefndarfýsn að þakka.
Árangursríkasta svindl allra tíma?
Flestir (frá USA) sem svöruðu nefndu skipulögð trúarbrögð en tryggingar fylgdu fast á eftir!
- Þegar McDonalds takmarkaði fjölda sósubréfa með borgaranum.
- Skattar og tryggingar.
- Hvernig skattar eru notaðir í öllum löndum, hluti fjárins aldrei notaður fyrir almenning.
- Skipulögð trúarbrögð, hjónabandið fylgir fast á eftir.
- Kreditkort.
- Pólitík.
- Að kántrítónlist sé sögð góð.
- Að konur verði að vera giftar og eiga börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2024 | 23:36
Augnaráð í Bónus, skeyti frá Baggalút og heilaleikfimi framtíðar
Minningar fylla nú heilan kassa þrjátt fyrir grimma grisjun, handrit, ritgerðir síðan í HÍ sem væri gaman að lesa en ekki núna. Ekki tími. Búin með hillusamstæðuna en bæði í skúffum þar og skápum leynist sitt af hverju skemmtilegt. Eins og heillaóska-símskeyti frá Baggalúti sem komst ekki í afmælið mitt, heilu bunkarnir af orðaleit (word search) sem ég klippti út úr ensku blaði sem ég hafði aðgang að lengi vel - og margt, margt fleira. Þetta síðarnefnda á að halda kollinum í lagi þegar ég fer að eldast (mamma notaði krossgátur sem þjálfun fyrir heilann).
Ég var búin að steingleyma þessu með Baggalút en ég tók viðtal við þessar elskur þegar enginn vissi hverjir stæðu á bak við Baggalútsnafnið og fréttasíðan þeirra, baggalutur.is, viðhélt heilmikilli gleði í samfélaginu á þessum tíma. Ein minnisstæðasta fréttin: Kona nær bílprófi en sá fáheyrði atburður átti sér stað ... osfrv. Enn gleðja þeir Íslendinga og nú með jólatónleikum og sem fjölmiðlamenn. Það þurfti nú ekki meira en þetta viðtal (í Vikuna) við þessa bráðskemmtilegu menn til að bjóða þeim í afmæli. Svo urðu þeir svo frægir að ég kunni ekki lengur við að bjóða þeim. Sniðugt hjá þeim að senda þetta skeyti - sem 19 árum seinna gleður sorterandi skvísu á Skaganum. Og ... skeytið fór að sjálfsögðu í minningakassann.
Um fimmleytið fékk ég far með Svitlönu í apótekið í útjaðri bæjarins (úti í rassgati). Ég hafði safnað úr ýmsum skápum og krukkum, aðallega efstu hillum, kössum sem höfðu verið í hvarfi, ýmsum lyfjum sem þurfti að eyða á réttan hátt. Lét verkjalyfin hans Kela fylgja líka. Það voru ekki beint svipugöng sem ég var látin ganga, en ég var með kassa utan um þrenns konar lyf, sem ég hefði nú alveg getað sett sjálf í "pappaplast" (við flokkum það enn saman). Ég leyfði þeim að fylgja, svona ef apótekið vildi vita hvaða lyf ég hefði verið að "hamstra". Þarna var t.d. plastpoki með hvítum pillum í, sennilega íbúfeni en ég tek aldrei sénsa með lyf. Þarna voru líka gömul vítamín ... sem sagt lyfjadótarí margra ára. Ég hef verið dugleg að kaupa vítamín í gegnum árin en er léleg í því að taka pillur svo inntakan á t.d. D-vítamíni varð ekki regluleg fyrr en spreyin góðu komu til sögunnar. Ekki fullur poki sem fór, en nógu mikið samt. Frábær þjónusta hjá apótekum að taka við þessu til eyðingar. Notaði tækifærið og keypti hóstamixtúru, nú skal kvefið hroðalega og langdregna sem hófst 29. ágúst, sigrað! Er eiginlega viss um að svona álag, eins og fylgir flutningum, hafi lengt kvefið og dýpkað ...
Jú, stráksi kom með - valdi að borða hjá mér í staðinn fyrir heima hjá sér, svo ég keypti pítsu hjá Dominos sem er við hliðina á apótekinu. Ætlaði að kaupa mína vanalegu síðan í denn - eða með tómötum, lauk og gráðosti en þá eru víst komin einhver ár síðan fyrirtækið hætti alfarið með tómata. Mig rámar nú eitthvað í að hafa fengið sólþurrkaða tómata sem var verra en flest annað. Held að viss systir mín hljóti að hafa haft hönd í bagga með því, enda er hún með lífshættulegt ofnæmi fyrir tómötum. Svo ég keypti bara með sveppum, lauk, papriku og einhverju slíku sem var mjög gott. Kostaði í kringum 2.000 kall, eitthvað afmælistilboð í gangi. Við stráksi borðuðum okkur til óbóta en ég á samt tvær sneiðar eftir í hádegisverð á morgun. Svo stökk ég inn í Bónus og keypti litla Bónus-rétti, alls konar rétti sem ætti að duga mér út næstu viku til áts ... ekki séns, svona á barmi flutninga að ég nenni að elda ... og óhreinka bakaraofninn sem er nánast tandurhreinn. Alla vega lítið mál fyrir flutningsþrifin mín að gera hann skínandi. Ég fékk augnaráð í Bónus, fyrir að taka sjö til átta svona rétti og fátt annað, þeir eru ótrúlega góðir en ég hlakka samt til að elda mér mat á Kleppsveginum. Held að það hafi verið útlendingar (næpuhvítir eins og Íslendingar) sem horfðu hneykslaðir og með hálfgerðu ógeði ofan í innkaupakörfuna mína svo mér er skapi næst að ganga í Miðflokkinn. Ég sagði eins hátt og ég gat þegar ég var komin á kassann: ÉG ER AÐ FARA AÐ FLYTJA EFTIR VIKU, NENNI BARA ALLS EKKI AÐ ELDA! ÞESS VEGNA KAUPI ÉG ÞESSA SKYNDIRÉTTI. Stúlkan sem afgreiddi mig var mjög kurteis en ég fann samt að fólkið í kring var mjög hneykslað. Svo ég setti á mig hettuna þegar ég laumaðist til að sækja pítsuna í nokkurra skrefa fjarlægð frá búðinni ...
Inni í Dominos spurði ég undrandi og forvitin, sem mikill unnandi tónlistar: Hvort er þetta tónlist eða læti í vélum? (Bara taktur, nákvæmlega ekkert annað). Ungi maðurinn svaraði eldgömlu kerlingunni: Bæði. Hann virtist vera í ótrúlega miklu jafnvægi og þess vegna stakk ég ekki upp á t.d. Skálmöld sem hefði eflaust gert meira fyrir geðið og vinnugleðina en taktfast eitthvað stórfurðudæmi. Sem sagt svona tónlist, sumt kántrí og sálartónlist er á algjörum bannlista í himnaríki.
Neðsta myndin er líka dásemdarminning ... frænka sonar míns (þau eru bræðrabörn) fékk hana senda rafrænt í gær - hún var tekin í sveitinni sem hann fór svo oft í með afa og ömmu í föðurætt, á Nýjabæ, rétt við Kirkjubæjarklaustur. Einar var alla tíð mikill sveitastrákur og dýravinur, hefur eflaust notið þess að fá að gefa heimalningnum. Mikið gaman að sjá þessa mynd.
Facebook ...
Sextán ár upp á dag síðan ég byrjaði á Facebook ... Minnir að það hafi verið Anna Kristjáns von Tenerife sjálf sem ýtti mér þangað, eða var það á Moggabloggið?
Það skrítnasta og ótrúlegasta sem fjölmargt fólk trúir samt?
Það komu mörg svör og auðvitað eitthvað á borð við ... að Trump geri Bandaríkin betri ... og annað í þeim dúr en það er svo stutt í kosningar westra ...
- Mikil vinna færir þér velgengni.
- Núna verður þetta öðruvísi.
- Fólk sem kláraði varla skylduna veit samt meira um vísindaleg málefni en fólkið sem hefur helgað líf sitt vísindum.
- Föstudagurinn þrettándi er óheilladagur.
- Það lenti enginn á tunglinu.
- Pólíester getur andað.
- Annað barn lagar hjónabandið.
- Jörðin er flöt.
- Það er líf eftir dauðann
- Það þarf ekki að nota svitalyktareyði.
Bloggar | Breytt 28.9.2024 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2024 | 19:02
Eins og nýsleginn túnfiskur ... og tungumál ungbarna
Kláraði yfirlesturinn um tíuleytið í morgun og ætti þá að geta einbeitt mér alfarið að flutningum. Vissulega verður haldinn húsfundur hjá mér í dag varðandi fyrirhugað verk svo ég neyðist til að laga til og ryksuga ... sem ég ætlaði hvort eð er að gera. Það verður síðasta skiptið sem ég get kallað mig riddara húsfélagsins með sanni. Held að í nýja húsinu mínu sé ekki venjuleg hússtjórn, visst fyrirtæki úti í bæ sér um allt þar.
Ég hafði setið sveitt við yfirlestur í gær þegar elskan hún Inga hafði samband, búin að fara í ríkið og fá almennilega bókakassa handa mér. Hún fékk að sjálfsögðu kaffi sem var svo hressandi að hún gat ekki stoppað sig fyrr en hún var búin að fylla alla nýkomnu kassana af bókum úr stofunni. Svona gersemar eru ekki á hverju strái. Í huganum greindi ég hana með mikinn skort á ADHD ... en það var kannski orðum aukið hjá mér í síðasta bloggi að hún hefði greint mig, hún sagði að þetta að vaða svona úr einu í annað í tiltekt líktist fólki með ADHD ... en himnaríkisskáldið lætur svo sem sannleikann ekki þvælast fyrir sér, frekar en sum önnur skáld ...
Svo ætlar ástkær litla systir að kíkja um helgina og hjálpa ... Ég þurfti að fresta tannlæknatímanum í gær og fer í tanntökuna á mánudaginn, tek svo við íbúðinni í bænum á þriðjudaginn og stóri F-dagurinn verður á laugardeginum. ... Held að það verði lítið hægt að blogga fyrr en á mánudag, ef Síminn kemst, þar að segja, til að tengja allt. Ekki skrítið þó að ónæmiskerfið sé í skralli þessa dagana. Ég nota þetta ColdZyme óspart og held að það hafi heldur betur haldið stórveikindum í skefjum núna upp á síðkastið.
Himnaríkiskettirnir eru svolítið órólegir og vita greinilega að eitthvað stendur til.
Nú sé ég eftir því að hafa ekki fylgst betur með í tímum þegar var verið að kenna kattamál. Ég man nú samt alveg ungbarnamálið sem nýfædd börn nota til að lýsa líðaninni:
Eh: Ég þarf að ropa.
Neh: Ég er svöng/svangur.
Heh: Mér líður ekki vel.
Owh: Ég er þreytt/ur.
Eairh: Loft í maganum í mér.
Svona í alvöru ... þetta kallast Dunstan-barnamál og ein nýbökuð móðir var að segja frá því á Instagram í gær, hún vildi meina að þetta passaði ótrúlega vel. Ef börnin væru að kvarta ætti að hlusta vel á þau og reyna að greina orðin ...
Ég kann auðvitað aðeins í kattamáli, eins og ítölsku, pólsku, arabísku og finnsku.
Uppsperrt skott með smálykkju efst táknar: Ertu komin heim, hæ, gaman að sjá þig.
Að lygna aftur augunum nokkrum sinnum: Hér er allt í góðu standi, ást og friður.
Og svo framvegis.
Mig grunar að þá dreymi æsispennandi drauma (sjá mynd 2), alla vega stundum, þeir eru ekki rosalega hræddir við ryksuguna (sjá mynd) en ganga virðulega út úr þeim herbergjum sem er verið að ryksuga. Mosi var trylltur af ótta við ryksuguna þegar hann flutti í himnaríki 2018 en þegar hann sá að Keli og Krummi létu sér fátt um finnast ákvað hann að taka ryksuguna í sátt. Þannig.
Smáhlé ...
Klukkan rúmlega fjögur fylltist himnaríki af sætum smiðum sem ætla að klára verkið sem aðrir smiðir höfðu byrjað á og ekki lokið við (story of our house). Synd að þurfa að flytja ... eða kannski ekki. Sjálf fæ ég reyndar fína heimsókn strax á mánudeginum eftir F-daginn þegar menn frá Símanum mæta til að tengja mig við umheiminn. Virkilega hress maður hringdi í mig upp úr hádegi í dag og kvaðst mæta til mín:
Sjáumst klukkan hálfníu á mánudeginum, sagði hann.
Ó, ég skal reyna að sýna hugprýði og vakna, tautaði ég örvæntingarfull en maðurinn hló bara grimmdarlega. Engin miskunn. Mjög fínt samt að vakna svona snemma og halda áfram að taka upp úr kössum. Þeim mun fyrr klárast þetta!
Ó, Facebook ...
Ein á fésinu tók að sér að betrumbæta nokkur algeng orðatiltæki og fékk önnur lánuð. Hún á fyndna og skemmilega fb-vini sem lögðu í púkkið. Hér eru nokkur góð dæmi:
Frá henni
Ekki hundar í ættinni. (Ekki hundrað í hættunni)
Flýgur fiskisúpan. (Flýgur fiskisagan)
Enginn er verri þótt hann vakni. (... þótt hann vökni)
Og fb-vinirnir:
Að vera eins og nýsleginn túnfiskur.
Sá vægir sem vitið hefur heima.
Rósin í pylsuendanum.
Að naga sig í handarkrikana.
Betra en seint en kannski.
Eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Að vera sleginn með blautri tösku í andlitið.
Stormur í mýflugu.
Að gera úlfalda úr vatnsglasi.
Ekki beittasta peran í skúffunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2024 | 22:44
Spennandi greining, svikult app og þáttaraðir sem enda illa
Dagurinn fór að mestu í yfirlestur en til að hvíla andann var aðeins flokkað inn á milli ... Inga mætti í kaffi og eiginlega kom, sá og sigraði, losaði kósíhornið með því að pakka bókunum þar ofan í marga litla kassa svo hægt yrði að sækja bókahillurnar í kvöld.
Hún greindi mig líka með ADHD. Ég hafði sagt: Skrítið, það er allt í rúst hérna, ég veð úr einu í annað, flokka úr þessum skúffum, nema einni eða tveimur, fer svo í annað herbergi, flokka þar heilan helling. Bara alveg eins og þegar allt er að drukkna í drasli í himnaríki (sjaldan eftir 2020-grisjunina), ég veð herbergi úr herbergi, fer með glas inn í eldhús, set í uppþvottavélina í leiðinni, tek svo tuskur og fer inn í bað og skelli í þvottavél, sé eitthvað sem á að vera inni í stofu, færi það ... svo bara allt í einu er íbúðin orðin sjúklega fín! Ég hef verið svona alla tíð! Augnaráð Ingu var greindarlega geðlæknislegt þegar hún lét dóminn falla. Sjálf er ég vön að sjúkdómsgreina mig og fæ stöku sinnum aðstoð Facebook-vina ef þarf, og ákvað strax að ég vildi engu breyta, það væri miklu skemmtilegra að taka til á þennan hátt í stað þess að taka hvert herbergi fyrir sig og klára það. Hrollur!
MYND: Hluti kassanna sem Inga pakkaði niður í. Bókahillan vinstra megin er farin eftir um 15 ára búsetu við himnaríki.
Sá myndband áðan með lagi frá áttunda áratugnum, How do you do, og fannst mjög gaman að rifja lagið upp, hafði aldrei séð myndbandið, það ríktu lengi höft á Íslandi, gleðihöft. En ... ég þjáðist virkilega mikið yfir því að fólkið í myndbandinu hreyfði sig ekki eða klappaði í takt ... skánaði þó eftir því sem leið á. Þarf að spyrja Ingu hvað svona þjáning táknar. Treysti alfarið á hana í þessum málum, enda hefur hún mikið unnið á spítala.
Kommóðuskrímslið sem sagt farið með hillunum, aukarúmið flutti niður á aðra hæð í kvöld þar sem níu ára gutti mun sofa í því í nótt og næstu árin ... og í raun er litla herbergið þá nánast tilbúið til að verða kassaherbergið. Þá breytist kannski greining frú Ingibjargar, eða þegar ég fer að klára að fylla kassana, einn í einu, og fara með þá þangað inn merkta og tilbúna til flutnings. Það er farið að vanta bókakassa (stofan alveg eftir), ég treysti svolítið á Vínbúðina, þótt ég sé ekki kúnni þar, stóru kassarnir þar eru mjög svo mátulegir undir bækur, eða nógu litlir.
Eftir að Elfa vinkona "spillti mér" úti í Bandaríkjunum og dró mig inn á spilavíti ákvað ég í leiðindum mínum þar sem ég beið á flugvelli í Seattle fyrir ansi mörgum árum, á heimleið eftir stórkostlega dvöl ytra, að hlaða niður leikjaappi, svona spilavítisappi þar sem hægt væri að leika ýmsa leiki með himinháum gervi-vinningum. Ég hefði getað keypt mér spilapeninga en var ekki nógu spennt til þess. Varð bara sífellt snjallari með árunum og lifði í raun lífi hinna efnuðu í símanum mínum þar til leikjaappskvikindið heimtaði að ég skráði mig inn í gegnum Facebook, einhverra hluta vegna. Mér fannst það asnalegt, fór í fýlu í hálft ár en skráði mig svo aftur inn, í einhverjum leiðindum ... og þá í gegnum Facebook. Ég átti jú tugi milljóna (dollara) þarna inni. Þetta gerðist svo aftur, sennilega ári seinna, að ég þurfti að skrá mig inn í gegnum fb og ég varð fúl. Svo ætlaði ég að játa mig sigraða en þá hafði hið hræðilega gerst. Ég átti vissulega mínar 50 milljónir (dollara) í spilapeningum (sjá mynd) EN LEIKURINN MINN (sjá mynd) var horfinn! Hættur, farinn ... og aðrir leikir þarna hræðilega leiðinlegir. Þannig að ég mun henda út Double Down Casino-appinu, samt með ábyggilega 30 M eftir. Ég lærði samt aðgæslu í fjármálum þarna, ég fór aldrei niður fyrir 20 milljónir dollara í hreinni eign og hætti á meðan ég var í gróða. Það var svakalega auðvelt að samsama sig með Samherjagenginu, eigendum Bláa lónsins og fleiri auðjöfrum, enda jafningi þeirra um hríð - en nú er það bara hversdagurinn og allur alvörupeningur staddur í steinsteypu við Kleppsveg. Dæs.
Á Facebook
Fb minnti mig á að viss frændi sem gengur oft undir nafninu fjandi, yfirgaf landið fyrir nákvæmlega tíu árum. Ég fylgdist þá með Norrænu sigla með hann út í heim en á þeim tíma var Seyðisfjörður mun tæknivæddari en hann er í dag því það virðist ekki nokkur leið að fylgjast með ferðum Norrænu í beinni útsendingu lengur. Fyrir alvörunörda sem lifa lífinu stundum í gegnum vefmyndavélar (allir Íslendingar þegar koma eldgos) er þetta mikil afturför. Þetta er eiginlega grátlegt því nú get ég aðeins fylgst með ferðum Norrænu í gegnum MarineTraffic-síðuna og það krefst ofurmannlegs ímyndunarafls.
Myndin sýnir hið fagra færeyska skip Norrænu sigla hratt út úr Seyðisfirði með fjanda innanborðs en nú er ekki nokkur leið að fá að sjá svona fegurð (skipið, kaupstaðinn, fjanda) í beinni útsendingu. Hrmpf ...
Fb um sjónvarpsþætti:
Þáttaröð sem endaði svo illa ... að þú dauðsérð eftir því að hafa eytt svona miklum tíma í að horfa á hana ...
Ansi mörg nefndu Game of Thrones sem gerir mig enn glaðari yfir því að hafa hætt að horfa eftir fyrsta þátt. Ég hætti hreinlega að horfa þegar farið er að teygja lopann í svona þáttum. Hafði gaman af því að horfa á Prison Break, fyrstu þáttaröðina, og Dexter sömuleiðis, eða kannski rúmlega það, líka Lost-bullið. Nú horfi ég bara á Gísla Martein (verð að drífa mig í að horfa á síðasta þátt áður en sá næsti brestur á).
- Game of Thrones.
- The Walking Dead.
- The Crosby Show ...
- How I met your Mother.
- Dallas.
- The Umbrella Academy.
- Designed Survivor.
- Lost.
- Dexter.
- House of Cards.
- Orange is the new Black.
- True Blood.
- Sopranos.
Hér er svo umrætt myndband, góða skemmtun:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2024 | 00:07
Bítlahneisa, bullsögur og meintur bókaplebbi
Heilsan svo miklu betri í dag og ýmislegt afrekað. Stráksi kom í mat (bara snarl) og fór út með ruslið sem var nú aðallega pappírsdót í pappaogplast-tunnuna. Svo þurfti ég að losna við annan Ikea-kassann, eða skúffuna sem hýsti fatið með kattasandinum, hef bara pláss fyrir annan þeirra. Ekki víst að þetta nýtist Villiköttum en vonandi þá einhverjum sjálfboðaliðanum heima því hver vill ekki dulbúa kattasandinn á heimilinu? Sterkur karl og sterkur strákur mættu rétt áðan og þessar elskur ætla að koma aftur og taka kommóðuna sem ég hélt að yrði óviðlosnanlega skrímslið í himnaríki ... og tvær bókahillur sem eiga að fara í Búkollu. Held að kommóðan sé alveg nothæf en skúffurnar eru svolítið stífar. Minnir nú samt á sum húsgögnin sem ég átti á fyrstu árum fyrsta hjónabands míns og var bara fínt.
Mynd: Fínasti dótakassi fyrir börn en nýttur sem einkasalerni fyrir ketti himnaríkis, búið að skera úr á hliðinni til að kisi komist inn. Ætla að taka annan kassann með í bæinn, hef ekki pláss fyrir báða.
Ég sá skrítna frásögn í morgun sem sumt fólk deildi nú samt á feisbúkk um meint sældarlíf hælisleitanda. Einn þeirra vildi læra ritlist hjá Skerjafjarðarskáldinu góða, þeim sem sagði söguna, og tvöfaldaði tilboð sitt þegar skáldið baðst undan því, enda búsettur erlendis.
Hælisleitandinn stefndi á meistaranám í ritlist og að verða rithöfundur. Hann á að hafa búið um nokkra hríð á Íslandi og vitanlega haft ókeypis lögfræðiþjónustu, ókeypis fæði, húsnæði og svo auðvitað vasapeninga frá ríkinu, svo þakklátur fyrir að hafa ekki þurft að greiða fyrir læknisþjónustu eða sálfræðiþjónustu, ókeypis lyf og hann hafði látið gera við allar sínar tennur ókeypis ... það kom líka fram í frásögninni að maðurinn ætti erfitt með að (vildi ekki?) læra málið. Sagan endaði svo á: Helvíti væri gott ef íslenskir ellilífeyrisþegar hefðu sömu kjör og hælisleitendur.
Þetta gæti auðvitað hafa verið skáldleg frásögn af því sem viðkomandi skáld vill meina að sé í gangi, en fólk deilir þessu sem sannleika þótt þetta séu rangfærslur. Sjá hér ögn neðar. Ég færi oft í stílinn sjálf en reyni að níðast ekki á minnihlutahópum í leiðinni.
Samkvæmt Vinnumálastofnun (2023) fær einstaklingur (hælisleitandi) 8.000 kr. á viku, hjón 13.000, fjölskylda með börn aldrei meira en 28.000 á viku. Ekki sérlega há framfærsla í einu dýrasta landi heims. Fólkið fær frítt húsnæði á meðan það bíður afgreiðslu umsóknar sinnar og það þarf að deila herbergi eða íbúð með öðrum, það fær strætókort, læknisþjónustu og börnin fá að ganga í skóla.
Ókeypis tannlæknaþjónustan inniheldur tvo kosti: verkjalyf eða láta draga tönnina úr. Engar viðgerðir leyfðar nema fyrir börn með alvarleg tannvandamál, svo hælisleitandinn laug blákalt að skáldinu.
Saga skáldsins og eldri færsla (sjá mynd) fóru báðar af stað í dag. Ég svaraði á nokkrum stöðum, þótt ég nenni yfirleitt ekki að taka þátt í fb-leiðindum, og fékk þetta svar frá einhverjum Einari Gíslasyni: Þetta rasistaþvaður er barn síns tíma. Þjóðin er að vakna. Jamm, sjálf orðin leið á rasista-orðinu, langar að breyta því í t.d. rassista. Auðvelt að breyta á bréfsefninu. Eins og þegar vinnan mín flutti úr Lynghálsi í Lyngás ... þurfti bara smávegis tippex.
Ef þetta væri þannig að fólk sem leitar hælis hefði það svona miklu betra en við hin, er samt ekki við það að sakast, heldur stjórnvöld sem létu slíkt viðgangast. Það kostaði svo sannarlega mikið fé að taka almennilega á móti Úkraínufólki í þúsundatali en það virðist nú samt heldur betur farið að borga til baka með vinnu og þátttöku í samfélaginu, enda fékk það, ólíkt öðrum hælisleitendum, að fara strax að vinna. Úkraínsk grannkona mín, mikil dugnaðarkona, ætlar að hjálpa mér að flytja, þetta dásemdarkrúsídúlluyndi.
Ég er alls ekki að segja að vinir mínir og vandamenn séu orðnir gamlir og slitnir, bara alls ekki ... ég miða við bakið á mér, eða hvað ég gæti burðast með, þannig að ungir og sprækir útlendingar verða í meirihluta þeirra sem aðstoða við búferlaflutningana eftir 11 daga ... og koma frá Litháen og Úkraínu (og Íslandi) - sá sem ekur mér og hefðarköttunum til Reykjavíkur á flutningsdaginn er frá Sýrlandi. Koma svo, hvar eru Bretar, Grikkir, Pólverjar, Ítalir?
Fimmtíu mest seldu plötur í heimi
Hefði í alvöru haldið að Bítlarnir væru ofar á svona lista, eða Stones, eða Radiohead eða Skálmöld!!! Gaman þó að sjá Nirvana og Eminem.
1. Thriller - Michael Jackson
2. The Dark Side of the Moon - Pink Floyd
3. The Bodyguard - Whitney Houston
4. Grease - Ýmsir flytjendur
5. Led Zeppelin IV - Led Zeppelin
Vó, nr. 2 og 5 ... mæli með!
Bítlarnir eru í 27. sæti með Abbey Road en þar á milli eru Pink Floyd með Vegginn, Dire Straits, Nirvana- EN HEI, ég ákvað að birta bara listann sem er líka miklu skemmtilegra fyrir fólk. Alla vega vil ég skoða mína lista sjálf og velta þeim fyrir mér.
Er mjög hrifin af listum almennt og t.d. í bókaþætti mínum á Aðalstöðinni í gamla daga, þegar Kolla Bergþórs var gagnrífandi þáttarins (og mjög góð), mætti hún oft með skemmtilega lista yfir alls konar bækur sem við gátum svo rætt fram og til baka.
Ég er ekki sérlega góð í gúgli á fjölbreytilegum vinsældalistum en hér er allavega nýjasti Storytel-vinsældalistinn, beint upp úr símanum mínum:
1. Dimma eftir Ragnar Jónasson
2. Atlas: Saga Pa Salt eftir Harry Whittaker og Lucindu Riley
3. Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur
4. Í hennar skóm eftir Jojo Moyes
5. Tengdamamman eftir Moa Herngren
6. Fótspor hins illa eftir Birgittu H. Halldórsdóttur
7. Mamma, pabbi, barn eftir Carin Gerhardsen
8. Blóðmjólk eftir Ragnheiði Jónsdóttur
9. Drungi eftir Ragnar Jónasson
10. Utan garðs eftir Unni Lilju Aradóttur
Þetta er ekki beint venjulegur vinsældalisti, heldur sýnir bara hvaða bækur eru nýjastar inn um þessar mundir og þykja girnilegar til lesturs ... held að í árslok komi listi yfir þær bækur sem fengu mesta lesturinn árið 2024. Ég á Tengdamömmuna alveg eftir af þessum lista ...
Fékk heilmiklar skammir (og eflaust verðskuldaðar í huga einhverra) fyrir að mæla með bók (Mýrastúlkunni) sem ég var að lesa og kláraði svo í dag. Að höfundur væri ofmetinn og persónur í bókinni ósympatískar og siðferðilega gjaldþrota ... Æ, þegar mig vantar afþreyingu á meðan ég pakka niður og flokka og alls konar, geri ég þær kröfur að sagan gangi upp, sé spennandi og grípandi og lesarinn góður (bara ekki segja UNGAbarn). Nýt þess alveg að hlusta á alls konar bækur ... ég kvaldist ekki undir Mýrarstúlkunni, miklu frekar yfir framburði lesara í Colin Dexter-bókinni á undan (um Morse), þar sagði lesarinn ekki Oxford upp á íslensku, heldur Oxfuuoooöördt ... sem var bæði kvalafullt og tilgerðarlegt og yfirmáta breski framburðurinn smitaðist stundum yfir á íslensku orðin ... Sú sem er lesari Mýrarstúlkunnar, Elva Ósk, er frábær - góður lesari gerir allar bækur enn betri. Líka þær sem innihalda persónur sem eru siðferðilega gjaldþrota ... Ég er t.d. mikil kaffikerling en í kaffiheiminum þyki ég eflaust vera algjör plebbi því mér þykir vel brennt kaffi mjög gott en er ekkert sérstaklega mikið fyrir lítið brennt - finnst það oft súrt. Eitt allra besta kaffi sem ég hef fengið er þó frá Sonju Grant, 2018-uppskeran af Kólumbíukaffinu ... svo er kaffið frá Valeríu á Grundarfirði rosagott ... mikið bragð og alveg sýrni en samt svo fullkomið ... Í gamla daga: Mokka Sidamo frá Te og kaffi ... og ég man ekki árgerðina, en Kólumbíukaffi frá Kaffitári var algjör dásemd. Man bara að það var prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum og Katrín Fjeldsted í framboði og ég aðstoðaði hana á skrifstofunni, hellti m.a. upp á þetta svakalega góða kaffi. Afsakið, missti mig út í kaffispjall.
Þannig að ég er kannski líka bókaplebbi ... Bíð samt spennt eftir fleiri bókum eftir höfund Mýró, en ef hún fer að pirra mig, hætti ég bara að nenna að lesa hana og læt þá sem skammaðist í gær strax vita. Það hefur alveg komið fyrir að ég steinhætti að lesa suma höfunda, þá alveg búin að fá nóg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2024 | 22:10
Vér intróvertar, konan sem skaut JR og bara 12 dagar ...
Getur verið að búferlaflutningar hafi áhrif á ónæmiskerfið? Heilsan nánast hrundi daginn sem ég fann íbúðina mína á Kleppsvegi. Þetta er auðvitað líka væl í mér og aumingjaskapur, svo það komi nú fram. En dagurinn hefur farið í hvíld, svefn og örlitla sjálfsvorkunn. Eins og ég ætlaði að vera dugleg! Gat rétt smakkað nokkra bita af sýrlenska matnum sem ég fékk sendan til mín, restin fór í ísskápinn og verður að bíða morgundagsins.
Ég hef verið að hlusta með hléum á Morse lögreglufulltrúa síðustu daga (bók á Storytel) og haft nokkuð gaman af en vá, hvað hlutirnir hafa breyst. Morse lögreglufulltrúi leysir ekki bara flókin glæpamál, heldur reynir hann að höfða til siðferðiskenndar fólks, hann skammaði unga skrifstofustúlku og kallaði hana lauslætisdrós. Hún hélt náttúrlega við giftan mann sem Morse kallaði auðvitað flagara í yfirheyrslu. Siðferðiskennd fólks hefur hrakað síðan þetta var og ég hef á tilfinningunni að Morse myndi hreinlega ekki hafa tíma til að leysa glæpamál í dag, svo mjög þyrfti hann að siða fólk til. Gátan var fín og lærdómurinn sá að maður skyldi aldrei svindla í neinu sem tengist prófum! Svo fór ég að hlusta á bók sem heitir Mýrarstúlkan (eftir Elly Griffiths) og sú er virkilega fín. Aðalsöguhetjan er fornleifafræðingur um fertugt sem býr í gömlu steinkoti við ströndina í Norfolk á Englandi, ásamt tveimur köttum. Fornleifafræði er æsispennandi, kettir eru æði svo ég gat strax samsamað mig við söguhetjuna. Þarna er nokkuð geðvondur en myndarlegur rannsóknarlögreglumaður (slef) sem fær hana til að aðstoða sig, og í nágrenninu býr fuglaáhugamaður sem náði að bjarga lífi hennar þegar hún villtist myrkri í saltmýri í grennd. Mér finnst skrambi gott að eiga sjö klukkutíma eftir af henni og hún virðist vera fyrsta bókin í nýjum bókaflokki, það stendur allavega Part 1 in Ruth Galoway ... Húrra!
Ætla að reyna að sofa þessi nýjustu veikindi ... eða frekar viðbótarslappheit á brott, úða fyrst í mig vítamínum - gott að margir kassar eru enn opnir, eins og sá með vítamínunum. Á morgun fer ég nú samt að loka kössum, bara 12 dagar í flutninga - EF VEÐUR LEYFIR, tólf heilir dagar og svo við vakn á þeim þrettánda mætir flutningabíllinn. Ég hef kíkt á spár langt fram í tímann og sé ekkert nema almennilegt flutningaveður, alla vega til 1. okt. svo ég hef eiginlega ákveðið að það verði þannig minnst út árið. Ég þekki kannski ekki veðurfræðinga en ég hef það oft horft á veðurfréttir að ég leyfi mér að spá þessu. Kannski verður október eini snjólausi mánuður ársins 2024. Það snjóaði víst í fjöll í júlímánuði, sem ég hélt að væri eini snjólausi sumarmánuðurinn!
Svo hringdi hirðmálarinn í mig í dag og bíður spenntur eftir að geta hafist handa (1. okt.). Segir gott að Slippfélagið sé í grennd, hundfúlt að fara langar leiðir ef eitthvað smotterí vantar. Ég er hvíta týpan, langar að hafa sem flesta veggina hvíta, í alvöru, tek birtu alltaf fram yfir "kósíheit" og rökkur, ég er manneskjan sem dreg öskrandi gardínurnar frá ef ég kem inn á dimma staði. Enda er ég ekki lengur velkomin á marga bari og matsölustaði landsins yfir sumartímann ... OG fyrrum eiginmenn mínir hafa sumir, alls ekki allir, kveinað yfir skorti á rómantík hjá mér - eins og birta eða skortur á birtu geri útslagið! Veit fólk ekki að það er t.d. eldhætta af kertaljósum? Svo maður leyfi sér ögn að gagnrýna rómansklisjurnar.
Málarinn minn hefur nokkra daga í verkið, hann er mjög snöggur OG vandvirkur. Svo ætlar hann að aðstoða mig við að loka svölunum ... ekki á venjulega mátann, heldur með ósýnilegu, kattheldu neti, svo það komast áfram flugur þangað, jei. Ég er ekki svalatýpan svo Krummi og Mosi fá að eiga svalirnar (á efri myndinni sést í þær). Myndi vilja geta sest hjá þeim í góðu veðri, jafnvel hengt þvott á þurrkgrind líka ...
Stofan á nýja heimilinu er alveg ágætlega stór, virkar minni á myndinni vegna sófans stóra sem er þar (og fylgir ekki með) en ég verð bara með rauða antíksófann þarna einhvers staðar, hillusamstæðu og annað slíkt, og svo langar mig að fá mér góðan sófa (ekki tungu- eða horn-) undir gluggann (sjá fasteignamynd úr íbúðinni). Mikið væri gaman að geta fundið t.d. notaðan Chesterfield-sófa, eiginlega í hvaða lit sem er, bara í sæmilegu standi, það er gamall draumur en með sífellt "lengri" lífsreynslu hef ég komist að því að draumar rætast ekki alltaf og það er bara allt í lagi. Báðar fasteignasölurnar gáfu mér afsláttarkort sem virka á nokkrum stöðum, m.a. í Dorma, en þar eru frekar sætir sófar, held ég. Þarf að kaupa ísskáp áður en ég flyt inn, svo ég vona að afsláttur bjóðist líka í þannig búðum.
Ég gerðist nýlega félagi í hópi á feisbúkk sem heldur utan um svokallaða intróverta ... það sem ég hef séð í hópnum líst mér ekkert voðalega vel á, þetta er meira fólk sem lokar sig af, líður illa innan um aðra og hefur jafnvel lent í áföllum sem fær það til að loka sig enn ákafar af. Ég er einhvers konar intróvert, jafnvel algjör, þótt ég elski fólk, og fleygi mér sennilega út úr þessum hópi sem ég hélt að yrði á léttari nótum, ég er manneskjan sem fann engan mun á lífi mínu í covid þegar samkomubann skall á. Ekki nokkurn einasta mun og ég er ekki að ýkja. Ég hélt að fólk væri að grínast þegar það nánast grét á feisbúkk yfir því að geta ekki hitt vini og vandamenn Á HVERJUM DEGI ... en ég veit auðvitað að sumir voru mjög einmana og þessi innilokun hafði slæm áhrif á þá. Það var á þessum tíma sem ég lærði orðin intróvert og extróvert og áttaði mig á því hvorum megin ég stend. Myndin af kattamanninum er nú samt ekki lýsandi fyrir mig, ég fæ aldrei óvænta gesti - ef einhver hringir óvænt bjöllunni, er það einhver íbúi hússins sem hefur gleymt útidyralyklinum og veit ... að ... ég ... er ... eiginlega ... alltaf ... heima ...
Á Facebook
Vissuð þið að Kanaríeyjar hafa í sjálfu sér ekkert með kanarífugla að gera, engir kanarífuglar þar. Sama með Jómfrúareyjar, engir kanarífuglar þar heldur.
Mary Crosby, dóttir Bing Crosby og Kathryn Grant, lék Kristinu Shepard í Dallas, konuna sem skaut J.R. Ewing eins og frægt er orðið. Það voru víst um 90 milljón manns sem settust niður við sjónvarpið þann 21. nóvember 1980 til að komast að því hver það var sem skaut ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2024 | 16:17
Borðvél, kveðjuhófin og mögulegt skrímsli ...
Áhyggjur sumra af uppþvottavélarleysi mínu í nýja húsinu (Í efra, eða sem Vogadíva í skýjahöll, Sögur af sjöttu hæð ... og fleira gott) eru miklar á meðan öðrum er alveg sama. Mér þykir vænt um þessar áhyggjur þriggja vina en ríflega helmingurinn hefur mælt með lítilli vél sem hægt er að hafa uppi á borði og fylla með fimm lítrum af vatni í hvert skipti eða láta tengja við kranann. Tæplega helmingurinn leggur til pípara og smið sem er talsvert flóknara og dýrara.
Ég fékk gesti í gær, nokkrar konur á leið í sumarbústað í Borgarfirði og þurfti að taka út úr uppþvottavélinni skolaða bolla sem biðu þvottar, og tókst bara nokkuð vel til við að þvo þá upp úr sápu og sjóðandi vatni í vaskinum, svei mér þá ... Sko, ég veit um konu sem hvatti vinkonu sína mikið til að koma til sín í kaffi og fór svo að rukka hana um að borga í kaffinu - en ég hef aldrei heyrt um konu sem hvetur vini og vandamenn til að koma í kaffi til sín og segir svo öllum að þvo upp eftir sig. Maður gerir ekki slíkt ... en ég á fína gúmmíhanska, bursta og hendur, svo hafið engar áhyggjur. Kannski kaupi ég borðuppþvottavél, kannski venjulega ... kannski næ ég mér í karl. Þeir geta verið mjög gagnlegir, þessar elskur.
Tvær frábærar kveðjuveislur voru haldnar á Galito í gær og fyrradag. Í fyrradag með miklum uppáhaldskonum, Helgu og Ingu.
Það gerðist svolítið átakanlegur atburður þarna, eiginlega óskiljanlegur. Það koma vanalega stórir hópar af sérlega flottum körlum úr hinum ýmsu starfstéttum og borða þarna í hádeginu. Einn afar sætur var langsamlega seinastur að koma sér í mat og það var ekki pláss fyrir hann við borðið hjá samstarfsmönnum hans. Í stað þess að vísa honum hreinlega til sætis hjá okkur Ingu og Helgu, það var sorglega áberandi lausi stóllinn við fjögurra manna hringborðið hjá okkur og nánast ekkert laust í salnum, var hann látinn setjast aleinn við borð! Mér sýndist hann horfa hryggur yfir á lausa stólinn hjá okkur, annað slagið. Ég fékk ekkert sérlega skýr svör þegar ég bað um að þetta gerðist ekki aftur, heldur sagði þjónninn að það væri nú biðlisti eftir því að fá sæta menn við borðið hjá sér! Furðulegt alveg ... en þorskurinn var góður, virkilega góður. Takk fyrir mig, elsku Helga mín Olivers. Hún tók myndina af okkur Ingu.
Gærkvöldið var svo notað til að fara út að borða á Galito. Í þetta sinn með hjartkærum úkraínskum kattahvíslurum himnaríkis, Svitlönu og Rostyk (kattaguði) og svo auðvitað stráksa. Geggjað sushi á mínum diski, glaðasti þjónn í heimi fékk áfall því ég fæ mér alltaf þorskinn ... (eins gott að hann vissi ekki hvað ég fékk í hádeginu daginn áður), sá yngsti fékk pítsu en stráksi og Svitlana steikarsamlokuna góðu ... með salati í stað franskra. Nokkur ár síðan við stráksi áttuðum okkur á því hvað það var miklu betra að hafa salat en franskar. Svitlana ætlar aldeilis að hjálpa mér við flutningana og það munar um það.
Önnur sýrlenska fjölskyldan mín kom svo í hádeginu í dag á bíl og aðstoðaði mig við að fara með nokkra kassa í Búkollu ... meðal annars lítið sjónvarp (stráksi notaði það með PS5) og ágæta brauðrist sem ég notaði í síðasta sinn í morgun til að rista tvær frosnar vöfflur (verkefnið: klára úr frystinum) til morgunverðar (ég smurði með hvítu súkkulaðimauki, hnetu- og sykurlausu, guð, það er svo gott, frá Good Good og sneiddi banana ofan á ... Ég kaupi eiginlega aldrei brauð svo brauðristin er hreinlega ónotuð, vona að einhver geti nýtt sér hana, hún er í fínu lagi. Þarna voru líka nokkur gömul og góð kökuform, það nægir að eiga tvö fyrir bananabrauð, óþarfi að eiga fimm ... Svo fórum við með eitthvað smávegis í Frískápinn góða á móti Búkollu sem er svo frábær hugmynd, kemur í veg fyrir matarsóun. Ég hef verið sérlega ánægð með að geta gefið svöngum fuglum (mávum ofl. á sumrin, krummum ofl. á veturna) mat hérna við sjávarsíðuna. Held að við Inga séum nánast þær einu - hitt fólkið fer þá vonandi í Frískápinn með matvöru.
En að hugsa sér ... þegar ég fer fyrir alvöru að pakka niður, þarf ég engu að velta fyrir mér, get pakkað öllu niður umhugsunarlaust því ég er búin að fara yfir allt (eða flest).
Við fengum dásamlegar móttökur í Búkollu en ég hætti mér ekki alla leiðina þangað inn ... gerði tilraun til að láta setja bann á mig þar svo ég fái ekki að kaupa neitt (gamlar bækur, slef), en fékk bara svarið: Kannski vantar þig eitthvað til að flytja með þér! Sjúr, einmitt ... ef ég sé það ekki, kaupi ég það ekki, eins og með sælgæti, ef það er ekki til í himnaríki þá borða ég það ekki ... en því miður skildu konurnar sem heimsóttu mig í gær HEIL TVÖ APPELSÍNUSÚKKULAÐISTYKKI eftir ... og ég er búin með hálft. Við erum að tala um 200 grömm, núna 150 ... Ávaxtadeildin samt alltaf góð. Bananabombur líka góðar.
Þessi kommóða sem stráksi þurfti ekki að taka með sér, sjónvarpið var ofan á henni og alls konar dót í skúffunum, virðist ætla að verða skrímslið í himnaríki ... það þarf tvo karlmenn til að bera hana niður ... svo er ég með tvær fínar bókahillur. Systir mín var að ráðleggja mér að auglýsa þetta á síðunni Brask og brall, sumir ættu kerru og myndu eflaust koma brunandi úr bænum eða Borgarnesi eftir góssinu ... mér þykir hún bjartsýn ... en sakar ekki að prófa.
Eina manneskjan sem svaraði kommóðuauglýsingunni sagðist ætla að leita að einhverjum til að aðstoða sig við að sækja hana en svo hef ég ekkert meira heyrt. Ég ætti kannski að finna fleira girnilegt til að gefa og láta það fylgja kommóðunni? Óopnuð Kalúha-bokka (á óræðum aldri samt) ... ég kann ekki listina við þetta en systir mín selur/gefur nánast hvað sem er í gegnum Brask og brall, segir hún.
Ég er líka með fullt af MJÖG girnilegum DVD-myndum til að gefa: Stella í orlofi, Kill Bill, ein Harry Potter-mynd, Mission Impossible, Paycheck, Eragon, Die Hard 4 ... svo fátt eitt sé talið, og eitthvað af hljóðbókum á CD ... Hausaveiðararnir eftir Nesbö (ein hans allra mest spennandi bók (bíómynd gerð líka) en ekki um Harry Hole), Hvernig ég kynntist fiskunum, Dalalíf ... Þetta var allt til hérna og ég samt ekki farin að hlusta á bækur þá, og núna nánast löngu hætt að horfa á sjónvarp.
Talandi um alls konar sellebrittís: ætla samt að horfa á Gísla Martein á eftir, þátt gærkvöldsins. Ánægð með tæknina. Er nefnilega enn í algjöru losti eftir að hafa misst af lokaþættinum af Löðri (Soap) 1982 af því að ég kunni ekki að segja nei á þeim tíma ... fór annað þótt mig langaði ekki, myndbandstæknin enn mjög ný og aðeins á færi þeirra efnameiri að eignast slíkt tæki, mér tókst það nú samt sjö árum síðar með vísa-rað. Ef einhver brask- og brallari tekur þetta ekki með kommóðunni athuga ég að fara með til Búkollu eftir viku. Þetta gætu verið bíómyndir sem sonur minn átti, og hljóðbækur sem ég fékk gefins fyrir löngu og beið of lengi með að nenna að hlusta á ... sem ég er afar hrifin af hljóðbókum núna en nota bara Storytel.
Jæja, farin að flokka í hirslum meyjarskemmunnar ... tvær kommóður, einn skápur, stór fataskápur ... sjúklega gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2024 | 22:15
Fráflæðivandi, kveðjuveislur og stuðvís rafvirki
Matarklúbburinn var dásemd að vanda eftir sumarfrí og skrítið til þess að hugsa að þegar Inga vinkona eldar kjúklingasúpu eða annað gott í næsta mánuði, verði ég víðsfjarri góðu gamni (í 46 km akstursfjarlægð (45 mín, með bíl) eða 23 km í beinni loftlínu (2 mín. með flugvél)). Kannski sjálf með eitthvað Eldum rétt-gómsæti í 104. Það var greinilega hárrétt hugsað hjá mér að panta ekki Eldum rétt þessa vikuna, fer næst út að borða í hádeginu á morgun (afmælisgjöf), svo aftur með stráksa út að borða á föstudagskvöld! Ég hef frest til miðnættis að panta fyrir næstu viku - líklega er snjallara að klára úr frystinum. Alveg spurning um rabarbaragraut daglega í nokkra daga? Hef smakkað mun verri mat en það. Slurp! Alla vega verður eitt lasagna eldað (500 g af nautahakki í frystinum) sem dugir í nokkrar máltíðir og mögulega fer frosna restin beinustu leið í Frískápinn.
Sýrlenska vinkonan djöflaði mér þvílíkt áfram í dag þar til ég baðst vægðar! Hún pakkaði niður öllum myndum í bókakósíhorninu, við tæmdum kommóðuna hans stráksa (hann tók bara það sem hann vildi með) og flokkuðum í henda og gefa ... ekkert eiga. Svo verður hún auglýst gefins fljótlega, ásamt fínustu bókahillum ... Fráflæðivandi himnaríkis er mitt helsta áhyggjuefni en ég losna allavega við kassana á ganginum núna á laugardaginn og kannski kommóðuna og hillurnar, ef mér tekst að setja auglýsingu - hringi kannski í Búkollu og tékka. Fínar hillur og ágæt kommóða.
Hirðrafvirki himnaríkis mætti stuðvíslega og sótti tvo kassa af sjúklega girnilegum glæpasögum, heilu bókaflokkana sem hann gladdist mikið yfir, og í leiðinni tók hann niður ljósakrónur heimilisins og gerði við innstungu í stofunni sem frekar þung mynd hafði dottið ofan á og rústað, myndin hafði verið innrömmuð 1985 og bandið sem hékk á naglanum gaf sig með þessum hroðalegu afleiðingum ... ekki nema 39 ára ending sem ég furða mig á. Ekki nema von að heimurinn sé að fara fjandans til ...
Loftljósin fögru fara ekki með í borgina ... held ég sé búin með langömmustílinn, ekki þó alveg hætt með antík. Fínt að blanda saman gömlu og nýrra en mér sýndist að væru ljós alls staðar á Klepps sem fylgja væntanlega ... annars kaupi ég bara. Nú eru rússneskar ljósaperur í öllum herbergjum himnaríkis og það er rosalega bjart hérna. Ef nýir eigendur mála (sem er mjög líklegt) ætti aldeilis að vera góð vinnubirta. Nýja íbúðin mín verður einmitt máluð hviss bang, áður en ég flyt inn. Fljótlegt að mála hana tóma, vildi elsku málarinn minn meina.
Það er hellingsspenningur í gangi og vonandi elta verkefnin mig áfram. Ég er allt of ung til að setjast í helgan stein, enda spræk með eindæmum.
Ég er enn mjög spennt fyrir að vinna hjá Bankasýslu ríkisins og er meira en til í að hjálpa við að selja banka, helst sem flesta, ég yrði komin út á Arnarnes í risastórt einbýlishús strax á næsta ári ef það væri það sem ég vildi.
Svo er líka inn í myndinni að elta æskudrauma mína ... verða söngkona, leikkona, dansmær eða ljósmóðir. En reyndar hef ég sungið í kórum (Langholts, Mótettu og Fílharmóníu) svo ég get hakað við það X, lék bláu öxlina í Heilsubælinu í Gervahverfi X, var viðstödd fæðingu systursonar míns, X - og ef vetur í Dansskóla Sigvalda telst með hef ég í raun uppfyllt vonir mínar og þrár í gegnum tíðina.
Hvað er eiginlega eftir sem gaman væri að sýsla við?
--- --- --- --- --- --- --- --- --- ---
Facebook rokkar
Hver er uppáhaldsskáldsagnapersónan þín? (Bókagull á fb)
- Karítas.
- Góði dátinn Svejk.
- Jón á Nautaflötum og Þóra í Hvammi.
- Hörður Grímsson.
- Lína Langsokkur.
- Steinríkur.
- Kalmann.
- Anna í Grænuhlíð.
- Greifinn af Monte Cristo.
- Snúður og Snælda.
- Egill Skallagrímsson.
- Janína úr Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu.
- Emil Svenson í Kattholti.
- Bilbo Baggins.
- Ólafur Fíólín.
- Maddit.
- Kristín Lafransdóttir.
- Woland í Meistaranum og Margarítu, og auðvitað kötturinn í sama verki.
- Ronja.
- Edda í Vesturbænum (á Birkimel).
- Salka Valka.
- Ótugtin hún Ketilríður.
- Pollýanna.
- Korka Þórólfsdóttir.
- Mía í Múmínálfunum.
- Kíkí í Ævintýrabókunum.
- Nancy Drew.
- Hercule Poirot.
- Gengið í Tinnabókunum
og fleiri og fleiri ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2024 | 23:24
Alveg óvæntur nágranni og dagsannar samsæriskenningar
Flutningsundirbúningur gengur sérdeilis vel, eða eftir að önnur sýrlenska vinkonan mætti með svipuna upp úr hádegi í dag. Við fórum yfir alla eldhússkápana þar sem við tókum gefa-hlutina og settum í kassa. Maðurinn hennar kemur svo og sækir þá. Get varla ímyndað mér annað en að Búkolla gleðjist yfir mörgu eigulegu fyrir búsáhaldadeildina, og Frískápurinn gleðst líka því það er ekki séns að ég nenni að taka allan búrskápinn með, held ég hafi talsvert minna skápapláss á Kleppsvegi en hér.
Ansi hreint frábær fyrrum samstarfskona sem mætti í afmælið mitt í ár, og það í fyrsta sinn, sendi mér einkaskilaboð í gær, kvaðst búa á Kleppsvegi númer XX og spurði mig hvar nýja íbúðin mín væri. Í ljós kom að við verðum í nákvæmlega eins íbúðum í sama húsi og sama stigagangi, nema hennar íbúð er nokkrum hæðum neðar í húsinu. Hún er hrifin af sameiginlega þvottahúsinu í kjallaranum svo ég sé núna nákvæmlega ekkert eftir því að hafa ætlað að taka sénsinn á því að notast við það. Hún lætur vel af því að búa þarna sem róaði mig mikið. Ég var nefnilega flutt inn í Hamraborg í huganum og það hefur verið svolítið skrítin tilhugsun að setjast svo að við sundin blá.
Ég fékk símtal í gær á meðan ég var að klára verkefnið góða, það síðasta af þremur ... Beðin um að lesa yfir 500 síðna doðrant, spennubók. Ég fór að hlæja og sagðist sjaldan hafa haft meira að gera en einmitt núna þegar ég stæði í niðurpökkun vegna flutninga. En ... ef hann lofaði að segja ekki ónefndri systur minni frá því, hún gladdist nefnilega svo mikið fyrir mína hönd að ég væri farin að sjá fyrir endann á verkefnum og gæti einbeitt mér að flutningunum. Hann lofaði því. Núna mun ég verja átta tímum á sólarhring í flutningavesen, átta tímum í yfirlestur (þegar búin með 100 síður) og átta tímum í svefn. Stel einhvers staðar tíma til að blogga. Þetta þýðir að ég hef engu og mun engu sambandi ná við bókina sem ég er að reyna að hlusta á, Blóðmjólk heitir hún, hefur fengið góða dóma og mér líst vel á hana, en ég rugla saman persónum, nokkrar vinkonur segja söguna til skiptis og hver þeirra hefur sinn lesara sem almennt pirrar mig (að hafa fleiri en einn lesara) en ég held að það sleppi í þessari. Hugsa að ég byrji á henni upp á nýtt þegar ég verð flutt í 104. Vona bara að kosningar til alþingis verði eftir að ég hef skipt um lögheimili (miðast reyndar við 1. des.) svo ég nái að kjósa rétt í bænum, en það verður kraftaverk ef stjórnin lifir af að senda fárveikt, fatlað barn úr landi.
Á morgun verður svo síðasta kvöldmáltíðin með matarklúbbi Rauða krossins, allavega sem íbúi á Akranesi. Það er svo margt í síðasta sinn þessa dagana. Klipp og lit, reyndar ekki tannlæknirinn því hann (hún) vill ólm draga úr mér ólukkans tönnina sem kvaldi mig í síðustu viku svo ég fer einu sinni enn þangað. Elsku hjartans sendillinn hjá Einarsbúð kvaddi mig fyrr í dag, bar sig reyndar ótrúlega vel en hlýtur að hafa verið tárvotur, en sagði bless til öryggis ef hann sæi mig ekki aftur. Ég tjáði honum að ég ætlaði að koma í búðina innan tíðar og kyssa og knúsa kaupmannshjónin sem ég hef þekkt frá því ég var barn og montrassaðist um búðina þeirra. Erna hlær enn að því sem ég sagði við hana þegar ég sá hana vera að skúra búðina, eða að ég ætlaði alls ekki að verða skúringarkona þegar ég yrði stór, heldur dansmær eða leikkona (ég las óhemjumikið, gæti hafa verið komin í Cartland strax þá) en ég hef mögulega skúrað milljón sinnum síðan ég sagði þetta. Ég bið hana afsökunar á þessu minnst árlega en hún hlær bara. Ég pantaði klósettpappír í dag, æ, hafðu það góðan pappír, eins og Lamba eða þennan frá Costco, sagði ég. Mikið þarf ég að vera dugleg að pissa ... því ég fékk ábyggilega tíu rúllur sendar í risapakka, eitthvað sem ég hefði áður glaðst yfir ... ef ég væri ekki að pakka heimilinu niður. Ég gargaði t.d. tryllt um helgina þegar ónefnd systir mín rétti mér vítamín sem ég hafði beðið hana um að panta fyrir mig, og hún skilaði mér að auki litlum plastdunki sem hafði borið tertur eftir afmælið mitt ... allt sem þyngir flutningabílinn er eins og eitur í beinum mínum (röng þýðing úr þýsku, eiter in beinen þýðir nefnilega gröftur í fótum).
Svo reyni ég að plata Ingu tölvusnillinginn minn til að skella Ikea-kommóðu og -hillum á gefins-síðu, mögulega þarf ég líka að losa mig við fallega tekkskrifborðið mitt, vinnuherbergið er alveg ferlega lítið. Það fundust svo heilu bokkurnar í búrskápnum ... hvað geymist Beilís í mörg ár í lokuðum skáp ef flaskan hefur aldrei verið opnuð? En sérrí? Spyr fyrir vin.
- - - - - - -
Fleiri hugmyndir að nýju nafni á bloggið:
- Sögur úr efra
- Grubblan (samansett úr Gurrí bloggar)
- Lífsreynslusögur Gurríhar
- VogaDívan
Svo fékk mín hugmynd, Sætaspæta við sundin blá, eitt atkvæði frá frænku minni. Mér verður samt illt í hógværðinni því ég er alin upp við að ég eigi ekki að þykjast vera eitthvað. Allt tal mitt um eigin fegurð er í gríni, því miður. Samfélagsmiðlastjörnur og áhrifavaldar verða að bera sig vel og þess vegna má greina eilítið þingeyskt mont annað slagið. Ég verð, ekki að ég vilji þetta.
Algjörlega sannar samsæriskenningar sem þú dregur ekki í efa
- Trump er antikristur
- Uppáhaldssamsæriskenningin mín er sú að allt eigi eftir að verða í himnalagi.
- Geimverur eru á meðal okkar.
- Kurt Cobain var myrtur. Courtney Love veit allt um það.
- Eyrað á Trump greri á tveimur dögum. Einmitt.
- Kolkrabbar eru geimverur.
- Dauði Natalie Wood var mjög grunsamlegur.
- Jeffrey Epstein stytti sér ekki aldur, hann fékk hjálp.
- Áætlun 2025 (myndi færa okkur meira en 100 ár til baka).
- Díana var myrt (af Fjölskyldunni)
- Marilyn Monroe var ráðin af dögum.
- Ég trúi á kraftaverkasögur um eyra og golf ...
- Bítlarnir bjuggu aldrei í gulum kafbáti.
- Elvis er í vitnavernd.
- Við fórum aldrei til tunglsins, höfðum ekki tæknina til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 22
- Sl. sólarhring: 46
- Sl. viku: 849
- Frá upphafi: 1515944
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 711
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni