Gaspur eða heilaspuni og áskorun í eldhúsmálum

Uppvask nýtt trendHandvirkur uppþvottur verður hin nýja áskorun í nýju íbúðinni. Þar er ekki uppþvottavél og ekki einu sinni tengt fyrir einni slíkri. Með því að horfa út yfir vinnusvæði Eimskipa og láta hugann reika, skáskjóta öðru auganu yfir á Esjuna og hinu á Viðey gæti þetta orðið notaleg stund en samt alveg spurning hvort gestakomur verði leyfðar út í hið óendanlega. Það er ekki vistvænt að vera með pappaglös í stað bolla undir kaffið og eldhúsrúllubréf undir bakkelsið í stað diska. Of heitt að setja munninn undir kaffistútinn á baunavélinni ... þvílíkar áskoranir sem bíða mín í október. Hef ekki vaskað handvirkt upp í bráðum tvo áratugi svo það gæti orðið skemmtileg tilbreyting, mögulega með sögu í eyrunum, tónlist eða þögnina ... Alls ekki slökunartónlist, hún pirrar mig, var að hlusta á Sogne di Volare eftir Christopher Tin þegar YouTube valdi óvænt slakandi tónlist fyrir sálina og líffærin, eitthvað, og þetta var svo mikill hryllingur, meira að segja fuglasöngur með sem lokkaði Mosa upp á skrifborð, hann hélt að nú fengi hann að horfa á vídjó. Sennilega Clyderman ... flýtti mér svo að slökkva að ég gleymdi að gá. 

 

Sem gríðarmikill áhrifavaldur án gjafa, gæti ég líklega breytt viðhorfi landsmanna til uppvasks svo það verði splukunýtt og spennandi tískufyrirbæri að handvaska upp leirtauið. Það yrði sennilega léttbærara fyrir alla ef ALLIR aðrir þyrftu að vaska upp, held ég. Ég legg samt ekki í að ögra framleiðendum uppþvottavéla svo ég ber bara uppvaskskvalir mínar í hljóði. Það er nógu spennandi að hafa BÆÐI Eimskip og Samskip í grennd. Og ég með kíki ... þetta verður eitthvað.

 

SundabrautÍ gær auglýsti ég eftir nýju nafni á bloggið mitt eftir að ég flyt í 104 Reykjavík, skammt hjá Kleppi, komandi Sundabraut og í Vogahverfinu, held ég.

Fjölmargir fb-vinir notuðu tækifærið til að sýna fjörugt ímyndunarafl og dæmalausa grósku hugans. Og nei, ég er ekki móðgunargjörn þótt fyllst ástæða sé fyrir því (Gaspur Guðríðar) Hér eru nokkur dæmi:

 

- Skýjahöllin (kannski Sögur úr skýjahöllinni)

- Heilaspuni úr Hreinsunareldinum

- Gaspur Guðríðar

- Einræður alvísrar kattakonu

- Sögur úr sollinum

- Bullað í borginni

- Sögur sveitakonu

- Sögur af sjöttu hæð

- Klepparasögur

- Kjaftasögur Klepparans

- Sögur við sundin blá

- Sagnaþulur við sæinn

 

Jú, jú, allt gott og blessað en engum af þessum svokölluðu fb-vinum mínum datt í hug eitthvað fallegt sem tengist útliti, gáfum, gjörvileika eða rómantík, hvað þá Sundabraut sem verður nánast á hlaðinu hjá mér. Þessar hugmyndir bættust við, beint úr grjóthörðum huga mínum og ég píndi mig til að sleppa allri hógværð:

 

- Sætusnótarsögur við sæinn

- Hamagangur á hæð sex(í)

- Ástir í Austurbænum

- Vottðefokk í Vogunum

- Víti í Vogahverfi

- Krúttlegheit á Kleppsvegi (not)

- Stuðsögur af Sundabraut

- Hrefnukrúnk við úfið haf

- Skálmaldað í skýjahöll

- Sætaspæta við sundin blá

 

Þetta verður ekki auðvelt val, hugmyndir mínar eru enn hræðilegri ef ég á að vera hreinskilin ... ég vel eitthvað þrennt af því besta, skrifa á miða og dreg ... nema einhver fái enn fleiri hugmyndir eftir að sjá þessa snilld hér fyrir ofan.

 

Kaffi-GurríÉg lauk spennandi verkefni um miðjan dag í dag og í leiðinni kom ég nokkrum fínustu tertubökkum og -fötum í eigu félags sem heldur senn upp á stórafmæli sitt á árinu og þarf einmitt á svona fínheitum að halda undir veisluföngin. Fínheitin hafa verið inni í skáp árum saman og um að gera að koma sem flestu núna í betri hendur. Þeim mun léttara og einfaldara að flytja. Ég þarf að losna við kommóðu (úr Ikea) og fínustu bókahillur, ásamt alls konar eldhúsdóti þegar ég fer að flokka þar (næstu dagana). Miðað við djöfulganginn í mér grunar mig að það verði bergmál í nýju íbúðinni og það er stórkostlegt. Búin að gefa gráa tungusófann og aukarúmið í stráksaherbergi, skil eftir uppþvottavélina (ekki pláss), ísskápinn (kaupi nýjan), þvottavél og þurrkara (fæ fínasta þvottahús með iðnaðarvélum niðri). Það léttir mjög á flutningunum.

 

Mynd 3: Þau sem halda að ég bulli út í eitt á blogginu ... sjáið hér leynilega ljósmynd af síðu úr óútkominni bók!!! Nánari skýring hérna fyrir neðan:

 

Nokkrum mínútum eftir að ég ýtti á play eftir að hafa skrifað næstsíðasta blogg, bárust mér dulkóðaðar sannanir um notkunina á Kaffi-Gurrí í sakamálasögu. Birti hér það sem ég fékk sent en bendi á að Kaffi-Gurrí skiptist á milli lína, til að gera þetta enn dularfyllra. Ég róaðist við það sem ég sá, þetta er mjög sakleysislegt allt saman en ég þarf auðvitað að lesa alla bókina til að verða örugg um að fortíð mín ógni mér ekki ... Svo fylgdi með að bókin væri ekki enn komin út! Vonandi er bókabúð við Kleppsveg.


Helgarævintýri í borginni og nýtt nafn óskast

Rostik kisuguðHelgarferðin mikla yfirstaðin en mikið (brjálað) var að gera í samkvæmislífinu, fyrir utan sitt af hverju sem fasteignamógúlar þurfa að standa í. Úkraínski kattahvíslarinn hélt köttum himnaríkis selskap svo þeir rétt litu upp úr fegurðarblundi síðdegisins í dag, til að sýna „hún komin“-augnaráðið, áður en þeir steinsofnuðu aftur.

 

Hér var vaknað fyrir allar aldir á föstudaginn til að ná strætó í bæinn, síðan skrifað undir samþykki þess að lánið mitt flytjist á nýju íbúðina. Enn var ég fasteignamógúll á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi ... en upp úr klukkan þrjú var enn skrifað undir skjöl svo nú á ég bara eina íbúð. Ég er virkilega þakklát öllum þeim fasteignasölum og lögmönnum sem hafa komið að þessu. Daníel í Hákoti sem hóf ævintýrið ... Erlu Dröfn hjá Lind, Kristjáni hjá Gimli og gef þeim öllum mín allra bestu meðmæli fyrir fagmennsku og vingjarnlegheit. Það er virkilega stór ákvörðun að flytja búferlum eftir hátt í 20 ár og yfirgefa yndislegt samfélag sem Akranes er - en að sjálfsögðu mun ég viðhalda fullu stjórnmálasambandi við Skagann minn góða.

 

Myndin er af Rostyk kisuguði og var tekin ekki löngu eftir að þau mæðgin fluttu í himnaríkishúsið. Þarna sést hversu dáður og dýrkaður drengurinn var (og er). 

 

Brúðkaup mánaðarins

Aukapláss fyrir fæturBrúðkaupið á Siglufirði í ágúst sl. var stórkostlegt og líka brúðkaup septembermánaðar sem var haldið í gær. Brúðhjónin voru gefin saman við skemmtilega athöfn í frekar stórri kirkju á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Við borguðum fyrir aukapláss fyrir fæturna eins og sést á myndinni. Við fengum mögulega fjórfalt pláss á við aðra kirkjugesti. Mættu ýmis flugfélög taka sumar kirkjur sér til fyrirmyndar. Ég kannaðist strax við einn gestinn; stjörnulögmann sem deilir afmælisdegi með okkur Ásdísi Rán og Halldóru Geirharðsdóttur og það gaf aldeilis tóninn fyrir veisluna sem haldin var á Grand-hóteli við Sigtún. Í sama flotta salnum og brúðkaup ungu konunnar sem hefur skipulagt líf mitt á mikilvægum stundum (háskólanám 1998, íbúðaleit 2024, kannski eiginmannsleit 2025?). Þvílík fagmennska hjá starfsfólki hótelsins, hviss bang, forréttur á öll borð (ekki hlaðborð), aðalréttur og svo eftirréttur (hnetulaus). Svo var sérlega vel valið saman fólk á hvert borð. Ég fékk sjúkraþjálfara og fiðluleikara í Sinfó mér á vinstri hönd, mikið kórfólk líka, og svo systur og frænku (ömmu brúðarinnar) hægra megin, foreldra móður brúðarinnar á móti ... og þetta var víst fjörugasta og fallegasta borðið. Sú sem sat við hlið mér til vinstri var ákaflega skemmtileg og hafði eitt sinn komið í útvarpsviðtal til mín á síðustu öld vegna tónleika hjá Mótettukórnum og einhvern veginn barst svo í tal að ég byggi við sjávarsíðuna á Akranesi en væri að flytja þaðan. Í ljós kom að sonur hennar býr í sömu blokk og ég, er einn þeirra sem hefur þurft að þola heilu þungarokkstónleikana af efstu hæð án þess að kvarta. Heimurinn er svo lítill.  

 

Ég játa á mig heigulsskap og þorði ekki að smakka kaffið í veislunni. Fannst eiginlega ósmekklegt af mér að bíða eftir að liði yfir fólk af hryllingi yfir vondu kaffi svo ég horfði bara stjörf fram fyrir mig á meðan sumir fengu sér kaffi. Ótrúlegt hvað lítið er hugsað út í val á kaffi, svona almennt, og furðulegt að vilja ekki hafa kaffið fullkomið eins og allt hitt. Kannski var hið fullkomna kaffi á boðstólum á Grand hótel, það væri þá bara gott á mig að hafa ekki einu sinni lagt í að smakka en reynsla mín er frekar slæm af hótelkaffi. Maturinn var verulega góður.

 

 

HnetusmjörSitt af hverju stórmerkilegt kom fram í ræðum ... þarna voru víst alla vega tveir dómarar og fullt af löggum (brúðguminn lögga).

Okkur gestunum var ráðlagt að reyna að koma okkur vel við þetta lið, löggur og dómara, og ég lét ekki segja mér það tvisvar þótt ég vissi ekkert hvernig þeir litu út. Mér gekk nú samt mjög vel að vefja löggum um fingur mér (til að sleppa við hraðasektir) en til öryggis bræddi ég dómarana algjörlega, svo ef löggan klikkaði myndi dómstóllinn sjá um að  hlífa mér. En svo mundi ég eftir því að ég á ekki bíl og get því ekki ekið of hratt! Skrambans!

 

 

Fyndnustu og skemmtilegustu ókunnu mennirnir þarna voru þó slökkviliðsmaður og golfari, fyrstu tveir mennirnir sem ég sveif á þegar ég leitaði að löggum og dómurum. Þetta var stórkostlega dásamlega skemmtileg veisla og hver einasti gestur sem ég talaði við var ferlega skemmtilegur. Nú bíð ég spennt eftir að mér verði boðið í brúðkaup í október.  

 

Sverrir Bergmann kom, sá og sigraði, söng nokkur rómantísk og falleg lög við undirleik eins fallegasta gítarleikara landsins. Svo tók plötusnúður við. Við systur sátum frammi og spjölluðum við skemmtilegt frændfólk, farnar að huga að heimferð, þegar ég heyrði að tónlistin var orðin fáránlega skemmtileg. Og allt brjálað á dansgólfinu (ég dansa bara við lagið Luftgitar svo ég hélt mér til hlés). Haldið að einhver dýrðin og dásemdin (eiginmaðurinn?) hafi ekki komið brúðinni algjörlega á óvart og fengið Herra Hnetusmjör í veisluna. Hann fór á kostum. Vér systur stóðum til hliðar við sviðið þegar hann var búinn, hann rak augun í systur mína og réðst á hana með miklu knúsi. Hún rak sumarbúðir í denn og hann kom nokkrum sinnum þangað á barnsaldri. Ekki svo auðvelt að gleyma sumarbúðastjóranum sínum. Svo fékk ég, sem hef þekkt konuna hans frá fæðingu (hennar) og unnið með pabba hans, líka þétt faðmlag svo það verður víst ekkert farið í bað á næstunni.

 

Tunglið og taxiSvo gerðist undarlegur atburður. Upp úr kl. 22 hringdum við á leigubíl. Í kjölfarið hófst nokkur bið. Ég fór nokkrum sinnum út: „Guðríður?“ spurði ég tvívegis án þess að bílstjórarnir könnuðust við pöntun mína, en sá þriðji sagði: „Já, einmitt, Gurrí,“ eða það heyrðist okkur. Eftir að við vorum sestar inn sagði systir mín heimilisfangið í Kópavogi og bílstjórinn bætti við: „... og Akranes á eftir?“ Þetta var orðið mjög grunsamlegt og spúkí. Svo sneri hann andlitinu ögn til hliðar svo ég sá hann og þekkti: „Aha, er þetta kannski litla sæta krúttið mitt?“

Rígfullorðinn bílstjórinn kinkaði kolli ... Þegar ég var unglingur, nýflutt í borgina, passaði ég stundum á Njálsgötunni eitt fallegasta ungbarn í heimi, sem óx úr grasi og varð að fallegum leigubílstjóra sem ég var svo heppin að lenda á í gærkvöldi. Jú, jú, við erum vissulega feisbúkkvinir sem auðveldaði mér að þekkja hann aftur, og svo var hann í vinnu í Kattholti þegar ég fór í opinbera heimsókn þangað sem blaðamaður fyrir eflaust 20 árum. Frábær endir á góðu kvöldi að hitta elsku Danna.

 

Mynd: Ég reyndi að ná mynd af tunglinu sem blasti við á heimleiðinni úr leigubílnum ... það var risastórt og flott en neitaði að sýna sig almennilega á mynd. Það er fyrir miðri mynd, hvítt ... en virðist ekki vera kringlótt ...

 

Dagurinn í dag innihélt líka veislu ... en samkvæmislífið í höfuðborginni er orðið fullfjörugt fyrir utanbæjartúttuna sem ákvað þess vegna að flytja í bæinn til að auðvelda djammið. Það var sem sagt haldið fjörugt og skemmtilegt 12 ára afmælispartí í dag heima hjá góðri frænku sem svo heppilega fyrir mig á tengdaforeldra frá Akureyri sem akkúrat voru á heimleið eftir veisluna og lögðu lykkju á leið sína til að koma mér upp á Skaga. Ég var búin að ráðleggja þeim að fleygja mér út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið en Akureyringar eru öllu vanir af utanbæjarfólki, eins og við Skagamenn, og stöðvuðu bílinn fyrir utan himnaríki án þess að blikna.

 

 

Dásamleg helgi, kvefið næstum alveg búið, þriðja og síðasta verkefnið líka, sem verður klárað áður en ég dett í niðurpökkunargírinn. Það tekur ekki mjög langan tíma að pakka eftir að ég hef flokkað, gefið og hent. Þrjár vikur til stefnu ... og ég auglýsi enn og aftur eftir nýju nafni á þetta blogg. Að vísu verð ég enn hærra uppi en hér í himnaríki ... en nafnið Sögur úr himnaríki tengist eiginlega bara íbúðinni hér við hafið, finnst mér. Það væri mjög gaman að fá tillögur af nýju nafni. Kleppur-hraðferð kemur ekki til greina þótt íbúðin sé við Kleppsveg, ég sé tryggur strætófarþegi (gömul strætóleið bar þetta nafn) og mamma hafi unnið á Kleppi sem hjúkka árum saman. Takk samt fyrir þá tillögu, ónefndur ættingi.


Meintir kossar, flokkun og ... símtal

Sakní sakn bráðumFasteignaheimurinn nötrar, skilst mér, og smávegis uppnám er hjá sómakærum prófarkalesurum, frétti ég í fyrradag. Síðarnefndi hópurinn er þó öllu vanur og hefur oftar en einu sinni þurft að leiðrétta villur í umfjöllun um ilmvötn þegar ítrekað er notað orðið limur í stað ilmur, svo dæmi sé tekið. Hún-sæðisstofnun kom ítrekað fyrir á sínum tíma í alls konar skjölum, svo það þurfti að breyta nafni stofnunarinnar tímabundið í Íbúðalánasjóð. Ég var að vinna þar þá, svo ég veit þetta. Ástæðan fyrir öllu nötrinu um þessar mundir er sú að ég og fasteignasali Kleppsvegarins erum með nákvæmlega sama kvefið, vorum bæði að verða slöpp og skrítin 29. ágúst sl. þegar við hittumst fyrst, og erum rétt núna fyrst að verða sæmileg. Öllum dettur að sjálfsögðu það allra versta (skemmtilegasta) í hug ... djúpir kossar í hægfara litlu lyftunni upp á sjöundu hæð. Það er algjörlega af og frá. Það ýtir EKKI undir réttmæti sögunnar að í seinni skoðun á íbúðinni höfum við bæði borið andlitsgrímu, sagan segir, til að reyna að koma í veg fyrir stjórnlaust kyssirí fyrir framan alla ... nei, við vorum að hlífa ungbarninu á heimilinu við smiti. Annað sem virðist kannski grunsamlegt, er að enginn í kringum okkur hefur smitast af okkur, þetta einskorðast við okkur - en alveg sama, ég er kannski ekki læknismenntuð en ég er dóttir hjúkrunarfræðings og ég fullyrði að þetta er ekki mögulegt, bara enn ein tilviljunin sem virðist ætla að tengjast nýju blokkinni minni.

 

Himnaríki er frekar mikil rúst núna, enda hef ég verið að myndarskapast og flokka dót, svona þegar heilsan leyfir og hún er öll að koma. Glerhörð í flokkuninni ... nánast allir krimmarnir sem ég hef safnað í gegnum tíðina, fara beint til hirðrafvirkjans sem, ásamt vinunum, á eftir að elska mig í nokkur ár í viðbót, eða gömlu bækurnar mínar. Ég er farin að njóta þess svo vel að láta lesa fyrir mig (Storytel) og gera eitthvað að gagni á meðan, eða bara ekki neitt, að það er algjör óþarfi að hafa tvöfaldan aðgang að þeim. Nógu mikið á ég samt af bókum sem ég mun taka með mér í bæinn, mér líður best að vera með nóg af bókum í kringum mig.

 

Frábær kona sem ég þekki, er að flytja ásamt því að gera fleiri stórbreytingar í lífi sínu. Ég sendi henni kveðju í gegnum Instagram í gær og óskaði henni alls góðs, spurði í leiðinni hvort hún ætlaði að halda sig í sama bæjarfélagi. Hún ætlar að gera það og talaði um spenning og gleði en líka alls konar blendnar og miserfiðar tilfinningar. Hún sagði að búferlaflutningar skoruðu hátt á listanum yfir það sem ylli streitu, þetta væri svolítið eins og áfall - og þannig líður mér einmitt þessa dagana. Ég sé ekki eftir að hafa sett á sölu, selt elsku himnaríkið mitt, ekki þannig, en er að mörgu leyti skíthrædd við þessar breytingar. Það var ansi gott að vita að ég væri ekki að fara yfir um yfir einhverju "smávægilegu" á borð við flutninga, MÉR ÆTTI að þykja þetta frábært og spennandi, ekkert annað. Þannig hef ég skammast í sjálfri mér - en ætla að hætta því. Það er nóg að ég berji mig stundum í andlitið með blautu handklæði þegar ég finn innsláttarvillu í blogginu mínu. Eða bara villu.

 

Ég er búin að flokka allt inni á baði. Ég píndi mig til að nota heimatilbúnu aðferðina mína, velja það sem ég vildi eiga og taka með mér í bæinn, losa mig við allt hitt í gefa/henda. Nú þegar eru tveir pappakassar (ekki svo stórir) farnir á nýtt heimili, t.d. sjampó (verulega góð en hársvörðurinn á mér þolir núorðið bara þau allra mildustu) og skartgripir - og allt þar á milli. Það er ekki leiðinlegt að flokka, ekki þegar ég veit að ég hef einhvern sem losar mig við dót. Svo ætla ég að biðja þau í antíkskúrnum að taka fyrir mig eitthvað af dóti, meðal annars ljósakrónur sem hafa flestar fylgt mér í langan tíma. Þær voru yfirfarnar af hirðrafvirkjanum árið 2020. Ég ætla ekki að gera sömu mistökin og þegar ég flutti frá Hringbraut í himnaríki, og taka bara allt með mér ... það tók mig langan tíma að fara yfir það allt og sumt dagaði uppi í þvottahúsinu en hillurnar þar voru fín geymsla. Flokkunin mikla 2020 með aðstoð Ingu, Hildu systur og Davíðs frænda, mun gera þetta allt, og hefur nú þegar, svo miklu auðveldara. Að geta flutt inn og vera ekki í vandræðum með neitt dót - er takmarkið. Að sjálfsögðu geymi ég sumt sem hefur tilfinningalegt gildi.

- - - - - - - -

Nýir grannarÉg fékk símtal úr leyninúmeri áðan og svaraði þótt ég byggist allt eins við að þetta væri einhver að reyna að svindla á mér. En þetta var nú bara grjóthörð fortíðin. Hún á það til að elta mann.

 

Rödd: Er þetta Kaffi-Gurrí?

Ég: Ja, það má segja það, ég var einu sinni með útvarpsþátt sem hét það, auglýsingadeildin bjó sko til nafni- 

Rödd: Vott ever. Það má alveg lesa á milli línanna hjá þér á blogginu að þú hafir verið í Leyniþjónustu Íslands, núverandi vinnustað mínum eftir endurreisnina, þannig fann ég þig, og nú þarftu heldur betur að hysja upp um þig brækurnar. Gyrða þig í brók, blaðurskjóðan þín! 

Ég: Almáttugur, ég hélt að deildin hefði verið lögð af, sko Björn Bjarna, úff, ohh, ég get verið svo hvatví-

Rödd: Vott ever. Það er að koma út bók, frétti ég, mögulega komin út, glæpasaga, og nafn þitt kemur fram, tilvísun í þáttinn sem var okkar stærsta yfirskin þegar þú starfaðir þarna. Ertu enn hæf til að koma fólki úr jafnvægi? Eða orðin ryðguð, eins og getur gerst með aldrinum?

Ég: Ja, ekki kannski beint ryðguð, ég gæti kannski enn talað fólk í hel ef é-

Rödd: Vott ever. Þú þekkir þessa útgefendur svo vel, það var á þinni könnu að halda þeim góðum. Geturðu ímyndað þér hver gæti mögulega haft ávinning að því að koma upp um okkur? Eða hvaða rithöfundur telji sig geta, með góðri samvisku, opinberað eitt stærsta leyndarmál Íslands, Óperasjón-Kaffi?

Ég: Þetta var allt mikið sómafólk en ... ég veit auðvitað ekki hversu vel er hægt að treysta rithöfundum sem skilja eftir sig blóðuga jörð í bókum sín-

Rödd: Já, já, vott ever. Ég fékk leyniskeyti í rakvélina mína í morgun og sagt að á blaðsíðu 47 væri að finna eitthvað sem gæti opinberað allt og þá mun ekki einu sinni þessi ríkisstjórn, þótt ég hafi hana í vasanum, geta bjargað stofnuninni!

Ég: Í hvaða bók, eftir hvern?

Rödd: Það er nefnilega málið, ég er viss um að einhver bófinn hefur tekið hana úr sambandi, allar upplýsingar duttu út þegar það slökknaði á henni. Ég gleymi ALDREI að hlaða hana.  

Ég: Ertu þá að meina að ég þurfi að lesa alla jólakrimm-

Rödd: Já, þú ert vön því hvort sem er.

Ég: Ja, ég stend í flutnin-

Rödd: Vott ever. Láttu mig svo vita þegar þú finnur þetta. Ég hef Jónínu Leósdóttur sterklega grunaða. Það er ekki alltaf dyggð undir dökkum hárum, get ég sagt þér, þegar þarf að opinbera leynilegar stofnanir! Hún skrifaði grunsamlega bók, Konan í blokkinni, í ljósi þeirra tíðinda að þú ert að fara að flytja í háa blokk. Hefurðu heyrt talað um Sovétblokkina? Veistu hvar á Kleppsvegi hún er? Enginn virðist vita það en ég óttast að þú hafir lent í miðju risastóru samsæri, vinan, þar sem njósnir, kaffi og búferlaflutningar koma við sögu. Hafðu góðar gætur á nágrönnum þínum, mjög góðar! Lestu, og hafðu svo samband!

Ég: Ókei, ókei, en hvernig næ ég svo í þi-

Sambandið slitnaði ... kannski gleymst að hlaða? Ég er farin út í bókabúð. Það er ábyggilega hægt að lesa OG FLYTJA á sama tíma!  


Draumur um pínu og besta megrunin

NeyðartannlæknatímiVælubíllinn kemur sér stundum vel og ég hringdi í hann (113) í morgun því ofan á kvef sem vill ekki fara (vegna skorts á hvíld og slökun) bættist við hrikaleg tannpína ... sem gat samt ekki passað því ég á að vera með allar tennur heilar. Sennilega hafði ég gníst tönnum í svefni, svona líka harkalega að hún brotnaði í tvennt! (Þá nótt dreymdi mig að ég væri nýkomin í vinnu hjá Morgunblaðinu og sjálfur ritstjórinn kom og heilsaði mér, samt með undarlega máttlausu handabandi. Í nótt var ég flutt á Kleppsveginn og þar var ekki bara ein lyfta sem stoppaði bara á annarri hverri hæð, eins og í raunveruleikanum, heldur voru margar mismunandi lyftur þarna og ótrúlega margar hæðir á húsinu! Hvað ætli hirðdraumaráðendur himnaríkis segðu við þessu?)

 

Gat það virkilega verið að ég hafi brotið rótfylltan jaxl með gnísti - sem er ekki vani minn. Gærdagurinn leið, hlutirnar lagast voða oft, en þetta versnaði bara, ekkert borðað í gærkvöldi, ekkert í morgun eða hádeginu en kl. 14.20 í dag fékk ég neyðartíma. Tönnin reyndist ekki brotin, bara sýking, takk fyrir, og apótek, pensílín og læti. Jaxlinn verður skilinn eftir á Akranesi, fjarlægður eftir tíu daga. Og jú, gamla Arionbankahúsið hýsir nú sýslumann, skattstofu og ýmislegt fleira flott, fyrir utan tannlækninn. Núna líður mér eins og ég sé albata og það eina sem vælir og vorkennir sér á þessu heimili er Mosi, þegar hann vantar athygli. Aðaláhyggjur dagsins snerust þó um Eldum rétt-bílinn. Hann kemur voða oft á milli 14 og 15 og ég fjarri góðu gamni. Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu kom svo Eldum rétt. Í apótekinu eru allir beðnir um skilríki sem er svo innilega sjálfsagt. Eldri maður missti sig yfir því, sagði að starfsfólkið gæti bara lært að þekkja viðskiptavinina í sjón. Við erum ekki nema átta þúsund og kannski rúmlega helmingur þeirra þarf stundum að fara í apótek, pís of keik.

 

Ég pantaði nauðsynjar úr Einarsbúð og ákvað að láta tvo venjulega lauka fylgja með. Hafði heyrt það húsráð að gott væri að skera lauk í tvennt, geyma hann á skál, helst á náttborði þess kvefaða ... og laukurinn myndi soga í sig allar kvefbakteríur og veiku manneskjunni batna fyrr ... Gef skýrslu um árangurinn. 

 

 

Mér var skutlað til tannsa, svo sótt og keyrð í apótek af vini mínum sem kemur frá fjölmennu landi (22 milljónir) sama landinu og ofbeldismaðurinn sem hótaði vararíkissaksóknara en Helgi yfirfærði þá glæpi yfir á alla í því landi, og rasistarnir ofsaglaðir yfir því að loksins þyrði einhver að segja sannleikann ...  Nú hefur Helgi fengið grænt ljós á að halda áfram í embætti (ég er endanlega hætt að kaupa Kjörís) og sumir í kommentakerfinu halda í alvöru að nú eigi bara að fara að henda þessu fólki úr landi - því orðræða Helga gerir auðvitað ekkert nema auka fordóma. Mér finnst mjög mikilvægt að vera hlutlaus í svona starfi, annars missir maður traustið og ég ber ekki traust til fólks sem tjáir sig svona og sér ekkert athugavert við það. (Ég fordæmi hótanir ofbeldismannsins sem ógnaði vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans).  

 

Feng shuiEf marka má Feng Shui gætu fyrirhugaðar breytingar á heimili og þar með tilfæringar á húsgögnum verið sökudólgurinn í þessum veikindum mínum og sýkingu.

 

Tíu mínútum eftir að ég kom heim úr apótekinu með lyfin og asídófílus, hringdi dyrabjallan, Eldum rétt með matarpakkann minn. Það var auðvitað engin tilviljun, ef ég er upptekin milli tvö og þrjú, seinkar ER-bíllinn bara komu sinni ... Annars er ekki ólíklegt að hviðurnar á Kjalarnesi hafi seinkað bílnum sem var samt ekki seinn, þarna eftir þrjú, mega afhenda alveg til sex.

 

Það er kannski ekki skrítið að mér batni ekki kvefið. Þrjár ferðir í bæinn á einni viku, tvær fasteignatengdar en menningin átti hug okkar allan á laugardeginum þegar tvær vinkonur voru heimsóttar, eða myndir þeirra, á Skólavörðustíg.

 

 

Anna og vatnslitasýningin hennarÖnnur sýningin var í Gallerí Grásteini (Anna) og gjörsamlega ótrúlegt hvað hægt er að búa til mikla fegurð með vatnslitum. Hefði gjarnan viljað taka fleiri myndir, en það var einhvern veginn alltaf fólk fyrir á meðan við vorum þarna. Sýning Önnu var opnuð fyrir rúmri viku en þá komst ég ekki. Geggjaðar myndir.

 

Hin (Ellý Q) var hinum megin við götuna, í Listhúsi Ófeigs (fyrir ofan skartgripabúðina). Bæði galleríin mjög skemmtileg og sýningarnar alveg frábærar - ég hvet fólk endilega til að fara. Anna er með viðveru á laugardögum á meðan sýningin hangir uppi, en ég gleymdi að spyrja frú Elínborgu. Gaman að hitta dætur Ellýjar, svo hrikalega langt síðan eitthvað ... allar á kafi í langskólanámi eða búnar, bara ferlega flottar og klárar stelpur.

 

Ég er kannski svona hrifin og ánægð yfir þeim því sumt fólk heldur því fram að börn einstæðra foreldra eigi margfalt minni von en börn giftra, um að geta menntað sig. Mögulega átti þessi kenning betur við hér áður fyrr. Ég, dóttir einstæðrar móður, var sjálf orðin fertug þegar ég komst loksins í framhaldsnám,  í hagnýta fjölmiðlun í HÍ. Systkini mín hafa öll gengið menntaveginn, en við þurftum vissulega tilhlaup, tvær okkar, áður en við gátum látið vaða. 

 

Ellý QÞað var einstaklega gaman að koma í miðborgina, ég þekkti aðra hverja manneskju og spjallaði við ótal marga þannig að meðreiðarsveinar mínir til miðborgar þurftu á allri sinni þolinmæði að halda ... ég kíkti á Ingu Elínu en hún er með flotta galleríið sitt með leirverkum þarna á besta stað. Flottir veltibollarnir.

 

 

Við reyndum að fara á Mokkakaffi en það var alveg troðið, ansi hreint langt síðan síðast hjá okkur en við enduðum í Te og kaffi í Hamraborg í ansi góðum bolla og meðlæti. Það hefði orðið hverfiskaffihúsið mitt ef Kópavogur hefði ekki hafnað mér svona grimmdarlega ... hefði þurft að vera búin að selja himnaríki þegar girnilegar íbúðir þar voru á sölu.

 

MYND: Ellý sýnir olíumálverk og leitar í heim ævintýranna, kunnugleg andlit barna og barnabarna er að finna í sumum þeirra. 

 

Ohhh, hundurÞað verða ansi mikil "læti" um helgina, frá og með föstudeginum 13. sept. hætti ég að vera fasteignamógúll því þá verður gengið frá og skrifað undir vegna himnaríkis, þá á ég bara eina íbúð, skrambans. Svo verður enn eitt spennandi brúðkaupið á laugardeginum hjá yndisfrænku og að síðustu barnaafmæli á sunnudeginum. Samkvæmislíf vetrarins hófst svo sem með látum á afmælinu mínu í ágúst, en það hefur ekki verið svona mikið fjör um margra ára skeið. Svo er ég farin að hita upp fyrir Skálmaldartónleikana, búin að leðra mig upp og á kolsvartan hárlit inni á baði, verð með leðurblökuvængi sem eyrnalokka og alls konar fleira sem mér á eftir að detta í hug, ég ætla að vera við öllu búin.

 

Ég er búin að uppgötva besta megrunarkúr í heimi. 

1. Koma sér upp sýkingu í tönn.

2. Of sárt að borða.

3. Lystarleysi vegna verkja, t.d. í tönn eða höfði.

4. Gott er að vera líka slöpp, að drepast úr kvefi.

5. Ein skyrdolla og góð saga í Storytel, þarf ekki meira.

 

Ekkert að þakka. 

 

Jæja, ég byrjaði loksins á bókinni Atlas - sögu Pa Salt, síðustu bókinni í flokknum um systurnar sjö. Hún er ekki nema hvað ... 27,5 klukkutíma löng. Svona slappheit hægja á einbeitingu svo ég tími ekki að hraða henni, mun fúslega afplána alla þessa klukkutíma. Ég byrjaði sem sagt upp á nýtt, því hún stoppaði án skýringa í miðjum klíðum fyrir mánuði og útgáfu hennar virðist hafa verið frestað. Eins gott því ég var búin að gleyma ýmsu. Mig langaði fyrst að klára Sjöwall og Wahlöö-bækurnar sem var mjög gaman að hlusta á. Velferðarkerfið í Svíþjóð var sannarlega ekki komið til sögunnar þegar þær voru skrifaðar, mikil fátækt og eymd, miðað við það sem maður heyrir núna. Vinkona mín býr þar og er alsæl. Virkilega passað upp á að þegnar landsins hafi það gott, ekki bara kíkt á hagtölur og horft á meðaltalið sem dæmi um sérdeilis góða stöðu alls almennings, eins og í sumum nágrannalöndum ...


Ríkisbubbi í bili, of stór skápur og skrítnir söfnuðir

Svarti skápurinnKaupsamningur var undirritaður í dag svo ég á formlega tvær íbúðir í augnablikinu, himnaríki og Kleppsvegsdýrðina. Slíkt hefur aldrei gerst áður, ég hef alltaf verið sátt við að eiga bara eina. Þetta ríkidæmi stendur væntanlega fram yfir helgi svo ég ætla að njóta þess. „Já, addna, íbúðin mín í bænum ... bla, bla, en aftur á móti íbúðin mín á Akranesi, bla, bla,“ ég mun hljóma eins og sannur milli. Líka hægt að segja íbúðirnar mínar - þarf ekki að minnast á að það séu bara tvær, það væri gaman að eiga eins og eina blokk, eins og Silli eða Valdi (eða afkomandi) sem átti víst heila blokk í Hátúni, segir sagan, en stundaði alls enga okurleigu, það fylgdi líka með. Kjaftasaga kvöldsins var í boði einhvers sem sagði mér þetta fyrir áratugum. Ef þetta er bara bull, biðst ég afsökunar.

 

Pantaði flutningabíl í morgun. Hann kemur 5. október -stundvíslega klukkan níu um morguninn, ég reyndi að seinka til tíu, en sennilega vaknar venjulegt fólk fyrr en ég. Svo heppin er ég að hafa nokkra burðarmenn hér og einnig nokkra sunnan rörs. Pökkunarstarf hefst á mánudaginn. Fæ afhent 1. okt. og ætla að láta mála, kaupa eitt stykki ísskáp (mælið þið með einhverjum?) og flytja inn. Þarf að spyrja frænku hjá Smith og Norland, hún veit allt. Ég verð líka að muna að mæla hæð og breidd á lyftunni, þessari litlu fjögurra manna sem stoppar bara á annarri hverri hæð, ekki minni ... því ég óttast svolítið að svarti antíkspeglaskápurinn komist ekki inn í hana og þurfi að halda á upp á sjöttu! Jafnvel rúmið mitt líka. Annar fasteignasalinn í dag býr í grenndinni, líka í svona gamalli hárri blokk, efst þar og þar er oggulítil lyfta, eins og í minni, greinilega hátískan í lyftum á sjöunda áratug síðustu aldar. Meira að segja of gott fyrir fólk að láta þær stoppa á hverri hæð. Þetta er ekkert annað en stórfínt, nema kannski þegar maður flytur inn eða út.   

 

Stráksi í matKjúklingarétturinn lokkaði og laðaði svo stráksi kom í mat nú í kvöld. Hann hefur fundið á sér að ég nennti ekki að elda í gær sem hefði þýtt afganga í dag. Ég hafði einmitt áhyggjur af því að ef ég eldaði nú í kvöld fyrir mig eina og ætti rúmlega helminginn eftir ... og væri að fara í bæinn á morgun og borða þar ... já, þau eru svona stórvægileg vandamálin í himnaríki. Stráksi hafði samband og vandamálið leystist. Hann hafði séð bæði Eldum rétt-spjöldin (uppskrift og mynd) þegar hann kom í mat síðasta mánudag. Séður strákur. Frekar flókinn réttur í kvöld, ofnbakað brokkolí og gulrætur, hrísgrjón, nokkuð flókin sósa, kjúklingur steiktur eins og nautasteik - en ég fór létt með þetta. Samt bara með einn tímamæli, en notaði reyndar gemsann (var að hlusta á storytel við eldamennskuna) til að mæla þessar 2,5 mínútur sem þurfti að steikja kjúklinginn á hvorri hlið, svo smjördreypa seinni tvær og hálfu.    

 

Við KevinFacebook

Mynd: Hvað hef ég afrekað sem fær fb til að halda að ég deili áhugamálum með Kevin Costner?

 

Hvað hljómar eins og sértrúarsöfnuður og er það í raun?

Ansi margir nefndu skipulögð trúarbrögð, t.d. mormóna, kaþólikka og fleiri en hér eru fjölbreytileg svör. Ég er sammála sumu en öðru alls ekki, er hreinlega móðguð yfir sumu en er nógu þroskuð andlega til að láta þetta allt flakka. Hrmpf ...   

 

- Vísindakirkjan

- Keppnisíþróttir

- Byssueign

- Ilmkjarnaolíur

- Ameríski fótboltinn

- Stjórnmálaflokkar

- Crossfit

- Fox-fréttastöðin

- MAGA (Make America Great Again/Trump)

- Kardashians

- Bandaríski herinn

- Fótboltamömmur

- Kattafólk

- Hundaeigendur

- iPhone-eigendur

- Veganistar

- Friends-aðdáendur

- Íþróttir

- Disney

- Aðdáendur Grateful Dead

- Waldorf-skólar

- Trúleysi

- Star Wars-aðdáendur

- Ananas á pítsu-fólk

- Sjálfshjálpariðnaðurinn 

- Jógaiðkendur  


Kvefi frestað, eilíft skrepp og vel valin lokaorð

GlæpafárGlæpadagurinn mikli rann upp bjartur og fagur, kvefskrattinn á undanhaldi svo plan B var ekki nauðsynlegt á bókasafninu, eða að fá einhvern annan til að kynna glæpakvissið. Mig langaði ógurlega að bæta slíkum heiðri á ferilskrá mína en var svo ótrúlega stressuð ... myndi ég geta þetta skammlaust, eða myndi ég hósta út í eitt, vera viðurstyggilega rám, líða þokkafullt niður á gólf eða þurfa að snýta mér endalaust? Það er nefnilega ekki gaman að þurfa að hlusta á rótkvefað fólk og ekki hægt að bjóða þátttakendum glæpakviss upp á slíkt. En ... sú sem á útrunnin amerísk flensulyf úr Walmart þarf ekki að óttast slíkt, ég tók einn skammt klukkutíma fyrir viðburð og leið bara þokkalega vel. Inga skutlaði til bókasafns, Ásta skutlaði mér heim. Í gær bauðst mér tvisvar far, með fimm mínútna millibili, eftir klippinguna en ég beið þá einmitt eftir að vera sótt af Skagakonu. Svona er að búa hérna. Skyldu íbúar Reykjavíkur vera svona dásamlegir? Kostirnir við minni staði eru margir.

 

MYND: Hér sést hluti af góðmenninu í glæpasal dagsins, okkur var sagt að allt hefði pottþétt fyllst af glæpabókalesandi Akurnesingum ef kvissið hefði verið haldið t.d. kl. 20 - en þar sem sömu spurningar voru bornar upp á bókasöfnum um allt land þótti réttast að hafa sæmilegt samræmi á þessu. Okkar kviss hófst kl. 16.30 eins og hjá flestum hinum, en þá voru auðvitað allt of margir í vinnunni. Samt er sumt fólk sem vill frekar verja kvöldunum heima - svo maður veit ekki. Þetta var alla vega alveg rosalega skemmtilegt. Þvílíkur léttir að vera spyrill því ég hefði annars mætt á kvissið sem þátttakandi og gert mig að algjöru fífli fyrir að vita minna en ég ætti að vita ... þetta var ekkert rosalega létt.   

 

Elsku Keli og SvitlanaÉg kom við í dýrabúðinni góðu í gær sem nú er flutt úr göngufæri í strætófæri en þarna er allt rúmgott og bjart - og ég keypti kattamat handa Krumma og Mosa. Þeir hafa þurft að "sætta sig við" rándýrt sjúkrafæði sem hélt Kela frískum öll árin en nú er óhætt að slaka aðeins á því, hvorugur er lasinn. Keypti litla poka af mat, tvær tegundir og mér sýnist þeir hafa lyst á báðum tegundum sem ég blandaði þó saman við sjúkrafæðið. Ég þarf að velja vel, hollt og gott við gamlingjana mína. Ágætis rapplag hljómaði úr græjum dýrabúðarinnar, ekkert samt sem toppaði Skálmöld hjá hárstofunni, það er ekkert sem getur það!

 

MYND: Úkraínski kattahvíslarinn minn hélt svo mikið upp á Kela og hann upp á hana. Sjáið hvað þau eru sæt og flott. Myndin var tekin örfáum vikum áður en Keli kvaddi.  

 

Á morgun verður annað skrepp vikunnar til höfuðborgarinnar og þá verður skrifað undir. Þegar dásemdarfólkið hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun aðstoðaði mig við að flytja lánið mitt á nýju íbúðina, þurfti ég að sanna að ég gæti greitt mismuninn, það munaði vissulega á himnaríki og Klepps, mér í óhag þótt ég væri að fara í minni íbúð. Tók bara ljósmynd af seðlabúntunum undir dýnunni og sendi þeim. Það sparast mikið við að hætta að reykja! Ég þurfti líka að svara spurningum frá báðum fasteignasölunum, svona áreiðanleikakönnun. Nei, enginn píanókennari í ættinni, hvað þá sálfræðingur ... 

 

HamraborgVissulega reyndi ég ákaft að kaupa íbúð í Kópavogi en Kópavogur bara vildi mig ekki. Katalína ... bókasafnið, kaffihúsið, tattústofan ... bless, bless, þið missið af svo miklu! ;) Nýja blokkin mín er ljómandi vel staðsett og ég er ótrúlega sæl með valið. Komst að því að það er heilt bakarí hinum megin við götuna, svo ég get stokkið og keypt gott með kaffinu handa gestum. Kannski er bananarúllutertan farin að fást aftur! Hún var svo vinsæl að bakaríið hætti að vera með hana til sölu! Held ég.

 

Það kom smávegis viðbót við verkefnið mikla sem ég kláraði um síðustu helgi, síðan eitt pínkuponsu yfirles og að síðustu annað MIKLU stærra, útprentað og klárast vonandi á sunnudaginn. Það er ekki hægt að pakka niður á meðan verkefnin bíða, svo ég byrja bara í næstu viku. Vonandi þiggur Búkolla bókahillur frá mér, vel með farnar, og fleira dót, eins og fínustu skólatöskur sem stráksi vildi ekki taka með sér þegar hann flutti, og ég hefði auðvitað átt að fara með áður en skólarnir hófust en hér er stundum erfitt að losa sig við hluti úr húsi, nema níðast á bílandi vinum og vandamönnum. Ég er komin með einn sem segist til þjónustu reiðubúinn þegar pakkerí hefst. 

 

Þriðja bæjarferð vikunnar verður farin á laugardag, við stráksi ætlum, og það eina sem við höfum ákveðið er að heimsækja tvær ótrúlega spennandi málverkasýningar vinkvenna sem sýna báðar á Skólavörðustíg, önnur er opnun (Ellý Q) og hin er viðvera (Anna Bj) hinum megin við götuna. Mjög hentugt. Mikið hlakka ég til.

 

Spurningar og svör

Blogginu berast stundum spurningar af viti. Hef ekki tíma til að svara nema þremur í dag. Það má líka alveg spyrja mig um eitthvað annað en strákamálin.

 

- Getur verið að bílstjórarnir séu að gefa þér kynþokkaafslátt þegar þeir rukka þig um of lítið í strætó? Já, það gæti alveg verið, mér hafði ekki dottið það í hug, en þetta er brilljant spurning, svo rökrétt. Langt er síðan ég bað um slíkan afslátt síðast. Mér brá svo í Bóksölu stúdenta árið 1999 þegar maðurinn gaf mér bara 5% afslátt, það var áfall þótt Háskólinn hafi látið reka hann.

 

- Ertu að flytja frá Akranesi af því að karlarnir hérna eru ekki nógu sætir fyrir þig? Nei, alls ekki. Karlar hér á Skaganum bera af og eru á heimsmælikvarða, líka þótt Ítalía sé tekin inn í dæmið. Eftir að hásinin fór að vera með leiðindi átti ég sífellt erfiðara með að mæta í "hlaðborðið" við ávaxtastandinn í Einarsbúð á föstudögum kl. 18 og það má segja að hallarbylting hafi verið gerð í fjarveru minni. Löng og átakamikil saga sem mun birtast í jólahefti Sérstæðra sakamála.

 

- Hver er uppáhaldskaflinn þinn í Stabat Mater eftir Pergolesi? Sá áttundi. 

 

LokaorðFacebook bara gefur og gefur:

Ef þú gætir valið lokaorð þín í lífinu, hver væru þau?

 

- Mér er svo kalt, brrrrr ... eins og í bíómyndunum. 

- Hlustaðu vel, ég faldi fjársjóð á leynistað sem er-

- Mig langar að benda á einhvern og segja: Hvað hefurðu gert?

- Hei, ekki ýta á þennan takka

- Haltu á bjórnum mínum

- Leyndardómur lífsins e-

- Ég sagði þér að ég væri veikur.

- Gefðu líffærin úr mér. 

- Njóttu hússins. Gott að þurfa ekki að sjá þig aftur.

- Fjársjóðurinn er grafinn undi-

- Slappaðu af, ég hef gert þetta milljón sinnum. 

- Sjáðu um hestana mína. 

- Ég skal keyra. 

- Ég elska þig. 

- Sagði þér það. 

- Loksins frjáls. 

- Ég gerði mitt besta. 

- Fokk. 

- Úps. 

- Takk. 

- Vá. Guð er kona!

- Hvað ætli þessir takkar geri?

- Bless.


Óskalag í klippingu og minnisstæðir kennarar

Ondúlering í dag„Veikindapési ertu að verða, frú Guðríður Hrefna,“ sagði ég illskulega við sjálfa mig í morgun, eftir hóst, snýt og almenn slappheit. Reis úr rekkju eftir langa mæðu og skánaði ögn í kringum hádegið. Ekki versnaði líðanin við tvær útrunnar flensupillur undir klukkan tvö. Almenn fegrun á hári beið mín í Classic-hárstofuhúsinu sem sumir kenna við apótekið eða Bónus. Ég fékk neyðartíma í klipp og framköllun á andliti svo líklega fara ungu strætóbílstjórarnir að okra á mér, í stað þess að gefa mér afslátt ...

 

Mynd: Svona held ég að ég hafi litið út eftir framköllun á andliti og klippingu á hári með undirleik Skálmaldar undir klukkan þrjú í dag. Svona getur nú gervigreindin komist nálægt sannleikanum. Nema hún gleymdi strípunum algjörlega.

 

Þetta var síðasta klippingin mín í Classic, sem íbúi á Akranesi, og ég spurði hvort ég fengi ekki óskalag í tilefni af því. Verulega angurvær og rómantísk lög óma vanalega um hárstofuna og ég spurði lævíslega í von um að hármeistarinn héldi að ég væri að biðja um eitthvað slíkt: „Má ég kannski fá Hel með Skálmöld og Sinfó?“ Ég vissi að bara ég, mótorhjólalið og stöku smekkheitafólk á tónlist vissi hvers konar dásemd það lag væri. „Jú, auðvitað,“ sagði Anna Júlía en ég vissi að hún gæti auðvitað ekki spilað það, viðkvæm dýrabúð þarna rétt við, einnig apótek og pítsustaður, það yrði allt vitlaust.

 

svona myndast égÞegar ég var komin með fínan lit á augabrúnir og augnhár skömmu seinna, og mál til komið að klippa, heyrði ég reyndar upphafstónana í óskalaginu mínu. Hármeistarinn hlustaði eitt augnablik og setti svo stúlknamet í töffaraskap þegar hún sagði: „Það þarf að hækka þetta!“ Verslanamiðstöðin titraði svo sem ekki, það var ekki hægt að hækka nógu mikið til þess, því miður, en ég titraði þeim mun meira af gleði - ekki bara yfir tónlistinni, heldur sá ég svo sæta konu í speglinum. Nú grunar mig fastlega að ég fái afslátt á laugardaginn þegar við stráksi tökum strætó í bæinn.

 

Myndasyrpa: Annars er alveg ótrúlega misjafnt hvernig fólk myndast. Elsku Keli köttur virkaði stundum svo ótrúlega breiður á öllum myndum en var alltaf grannur og fitt. Við áttum það sameiginlegt. Ég sé gullfallega konu í speglinum og líka þegar ég tek sjálfu (eða fæ gervigreind í verkið), en ef önnur manneskja tekur myndina er ég óþekkjanleg, og finnst óþægilegt að ljósmyndarinn noti bæði víðlinsu og hrukkugerðarfilter, mjög sennilega samsæri til að brjóta mig niður, en það tekst nú samt ekki. Átakanleg myndasyrpa hér sýnir nákvæmlega hvað ég þarf að glíma við.

- - - - - - - - - - - - - -

 

Elsku frábæri Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, er látinn. Hann stjórnaði kirkjukórnum hér á Akranesi í eldgamla daga ... ég elti mömmu á kóræfingar og sem dæmi um metnað hans lét hann kórinn æfa Stabat Mater eftir Pergolesi. Það var uppáhaldstónverkið mitt þegar ég var átta eða níu ára. Kórinn tróð upp í sjálfu sjónvarpinu með verkið. Það finnst á YouTube og ansi hreint gaman að sjá mömmu svona kornunga og einbeitta. Þetta er reyndar ofboðslega hátíðlegt og trúarlegt, presturinn á Akranesi tók þátt í þessu í sjónvarpinu líka. 

Við systkinin vorum send í tónlistarnám, Mía systir, verulega hæfileikaríkur músíkant, fékk Hauk sem sinn píanókennara og í dag kennir hún sjálf tónlist og músíkþerapíu. Mínir hæfileikar lágu svo sem ekki þarna, mig dreymdi um að verða leikkona, söngkona, dansmær eða ljósmóðir. Í tónlistarskólann skyldi ég samt fara og var svo heppin að fá ljúfa og eftirláta norska konu sem kennara, hún lagði sannarlega ekki þungar tónlistarbyrðar á mig ... en þegar Haukur leysti hana af í eitt skipti sem hún var veik, lét hann mig æfa þrjú alveg hræðilega þung lög fyrir næsta tíma (og ég bara níu ára!!!). Hefði sko frekar vilja lesa bækur en æfa mig á píanó og varð sérlega þakklát fyrir að hafa eftirlátu konuna sem fasta kennarann minn. Ég kann reyndar enn lögin þrjú sem Haukur lét mig læra og eflaust miklu fleiri ef Haukur hefði kennt mér oftar því seinna sá ég heilmikið eftir letinni og væri alveg til í að geta spilað almennilega. Það kom oft fyrir að við Haukur hittumst á förnum vegi löngu síðar, bæði á Akranesi og síðar í Reykjavík og alltaf jafngaman að hitta hann og spjalla við hann. Yndislegur maður sem skilur mikið eftir sig. Blessuð sé minning hans.   

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Á Facebook:

„Ég er að spá í að gerast veðurfræðingur erlendis. Er enn að velja hvort ég mun breyta nafni mínu í Dooolittle Væta eða Steve Sunnanátt.“ (PG)

 

KennariÓgleymanleg orð sem kennarinn þinn sagði við þig ...

- Guðríður, helltu úr þinni andlegu ruslafötu og segðu okkur hvað andlag er. (Séríslensk sönn saga úr Vörðuskóla)

- Rithönd þín er óaðfinnanleg og útskýringarnar úthugsaðar. Ég vildi bara óska þess að svör þín væru rétt.

- Ég spilaði fótbolta í framhaldsskóla, var lágvaxinn og klaufskur en aldrei spilað áður fótbolta. Íþróttakennarinn kom fram við mig á sama hátt og hina leikmennina sem gaf mér mikið sjálfstraust, 25 árum seinna hugsa ég enn fallega til hans.

- Þú átt enga möguleika til þess, sagði kennarinn þegar ég talaði um hvað mig langaði að verða í framtíðinni. Tólf árum seinna er ég kominn þangað sem draumarnir báru mig og gott betur. Takk, frú S.

- Ég er með augu í hnakkanum! Hversu ógeðslega krípí.

- Þú getur orðið frábær kennari, sagði kennarinn við mig í grunnskóla. Nú hef ég starfað sem kennari í tólf ár.

- Hann reyndi að afhomma mig með því að segja: Ekki vera eins og stelpa. Þú ert fæddur til að pissa standandi!

- Freddy Mercury dó af því að hann var samkynhneigður. Guð var að refsa honum.

- Hvernig borðum við fíl? Jú, við tökum einn bita í einu. Kennarinn að segja okkur hvernig við ættum að fást við yfirþyrmandi verkefni. 

- Farðu í framhaldsnám, þú hefur aldeilis gáfurnar til þess.

- Þú ert jafnþokkafull og óléttur fíll!


Jæja, komið á hreint ... klæðileg gríma og glæpakviss

Sjáið fegurðina, kynþokkann ...Vissulega var búið að vara mig við ... eða að þegar skriðan færi af stað gerðist allt mjög hratt ... og játs, svo sannarlega. Var svo heppin að góður vinur skutlaði mér í bæinn í dag (og til baka) svo ég gæti framkvæmt seinni skoðun á nýja heimilinu. Ég tók með mér alls konar fagfólk; smið, rafvirkja, félagsráðgjafa og fasteignasala. Ég og fasteignasalinn vorum alveg örugglega afar dularfull og spennandi, eiginlega ómögulegt að ráða í svipbrigði okkar þar sem við bárum GRÍMU ... ég fann grímuleifar ofan í skúffu eftir covid-19, tímann þegar ég upplifði svo rosalega miklu meiri viðreynslu en núna. Augnagoturnar voru rómantískastar í Einarsbúð ... En á staðnum, íbúðinni sem ég er að kaupa, var nýfætt barn svo við tvö (kvefuð) vorum með grímu og öll, líka þau ókvefuðu, vel sprittuð, einn fagmaðurinn var reyndar ein systir mín og hún átti spritt í bílnum. Nýbakaða móðirin sem sýndi íbúðina og mun flytja með manni sínum og barni til útlanda um mánaðamótin var afar sátt við grímurnar, þær virka nefnilega ... en vá, hvað mig langar ekki aftur í þennan tíma - þótt grímur fækki hrukkum og séu talsvert ódýrari en andlitslyfting.

 

Mynd, efst: Ég tók ekki mynd á vettvangi grímunotkunar en skellti þessari upp eftir heimkomu til að sýna að ég hef engu gleymt. Tælandi augaráðið er þarna enn.

 

Gróið í suður, hrátt í norðurÍbúðin verður keypt - eftir þessar seinni skoðun - ekki lengur bara 99% líkur, og gengið frá öllu saman á föstudaginn, svo það eru minnst þrjár bæjarferðirnar þessa vikuna. Mikið búið að giska á hvaða staður varð fyrir valinu í 104 ... aðeins einn giskaði rétt ... og jú, Kleppsvegur var það, heillin. Fínasti staður að komast á og stutt fyrir mig að taka t.d. strætó á tónleika í Hörpu, við erum nánast við sömu götuna (Sæbraut). Ég fæ alla vega einn áhugaverðan nágranna sem var búinn að fá sér aðeins of mikið neðan í því og reyndi að hlaða símann sinn í anddyrinu, fyrir neðan póstkassana ... elsku karlinn. Ég glími við eintók lúxusvandamál ... hvort ég eigi að fjárfesta í sambyggðri þvottavél og þurrkara á baðið (pláss þar) eða nota afar snyrtilega aðstöðu í kjallaranum þar sem eru iðnaðarvélar. (Með storytel sem félagsskap er ekkert mál að dúlla sér niðri í þvottahúsi - þar er meira að segja gamaldags strauvél! Hæ, straujuðu rúmföt, eller hvad.)

 

Þrír strætisvagnar stoppa þarna, leið 3, leið 12 og leið 14 (frá Lækjartorgi), ef marka má Klappið ... jafnvel bætast við leið 11 og 18 líka (frá Hlemmi). Í eldgamla daga var það leið 4, Kleppur hraðferð, ef ég man það rétt. Bjó um tíma á Rauðalæk og hoppaði þá út á Kleppsveginum - en er sennilega of ung til að muna hraðferðina, svo var eitt sinn leikrit með þessu nafni líka. 

 

Hér á síðunni er smáinnsýn - eða tvær myndir. Önnur snýr í norður (blá), hin suður (græn). Þessi í suður vitnar um ofboðslega heppni mína að vera á endimörkum þessa gróna hverfis, en ekki inni í því miðju og myndin sem snýr í norður sýnir meiri hráslaga, eins og ég kann best við. Bak við þetta græna liggur Reykjavíkurborg en hún sést ekki fyrir trjám! Ég er kölluð landráðaherfa, drundhjassa og þaðan af verri ónefnum fyrir að vilja hafa trén úti í skógi þar sem þau geta verið frjáls og í sínu rétta umhverfi.     

 

Spennandi glæpakvissÁ morgun fer ég í klippingu og litun á augabrúnir - og á laugardaginn kemur í ljós hvort þetta dugir til að mér verði ekki boðinn afsláttur í strætó. En á laugardaginn tökum við stráksi strætó í bæinn. Ég er að hugsa um að vera með grímuna fyrir andlitinu til öryggis, klæðast jafnvel hettupeysu og láta þungarokk eða rapp heyrast úr heyrnartólunum. Þetta er líka gríðarlegt tap fyrir strætó, ef sumir unglingarnir sem keyra þar sjá ekki muninn á t.d. 66 ára og 67 ára fólki.

 

Á fimmtudaginn verður svokallað glæpakviss í bókasöfnum um allt land (sjá mynd). Auðvitað í dásamlega Bókasafni Akraness líka. Þetta er spurningakeppni um íslenskar glæpasögur og haldin í tilefni af 25 ára tilvist Hins íslenska glæpafélags. Þrjátíu spurningar verða bornar upp, alveg eins og í pöbbkvissum ... en þessir viðburðir hefjast á sama tíma um allt land og taka um það bil 90 mínútur. Ekkert má nefnilega spyrjast út. Ef þetta verður ekki glæpsamlega skemmtilegt, veit ég ekki hvað. Fimmtudaginn 5. sept. kl. hálffimm. Vona að sem allra flestir komi. 

 

Á Facebook

„Íslendingar eru fáir en Færeyingar enn færri - birtist m.a. í því að poppstjarnan og Íslandsvinurinn James Olsen er bæði búinn að skjóta upp kollinum sem tæknimaður á ráðstefnunni og sem rútubílstjóri.“ (Stefán Pálsson)

 

„Er púðrið úr flugvélunum undanfarin ár farið að virka? Auðvitað fyrst á vatnið, svo á jarðveginn. Það er rosalegt að svona skuli leyfast í boði elítunnar.“ (Komment við frétt um 50 veik skólabörn og sjö fullorða í Emstruskála Ferðafélags Íslands) 


Hraðar breytingar, Oasis-hremmingar og nafnasamkeppni

104 ReykjavíkNúna klukkan 22.12 náði ég að klára verkefnið mikla sem hélt mér heima alla helgina, og senda það. Geggjað, það lá á því sem gerði mig stressaða en það náðist að klára. Ekki glæpsamlegt verk en samt er tenging. 

 

Verð að viðurkenna að ég er enn svolítið skelfd yfir því hvað allt gerist hratt þessa dagana. Áður en ég veit af verð ég flutt í 104 Reykjavík með um það bil þrjá fjórðu af dótinu mínu, nýja íbúðin er um 75 fermetrar og ég vil alls ekki hafa ofhlaðið, þá er erfiðara að halda öllu fínu. Margir hafa giskað á Álfheima, Ljósheima og nýja Vogahverfið ... en, ef allt gengur upp verður ekki svo langt fyrir mig að fara á Klepp, fara í Sundahöfn og ... haldið ykkur, í vínbúð! Ég kom út úr skápnum sem bindindiskona fyrir nokkrum misserum af því það er svo langt fyrir mig að fara í ríkið á Akranesi. Á þó ekki von á miklum breytingum þar, kaffi er alltaf langbest. En gamli Mikligarður er þarna ekkert svo langt frá, og fullt af góðum búðum þar sem er ómetanlegt fyrir bíllausa kerlu.

 

 

Mér skilst að hússtjórn himnaríkishússins sé í losti (ýkt) yfir því að missa riddarann sinn úr stjórninni og ég er svolítið kvíðin að missa þær (formann og gjaldkera) og flytja í mun stærra hús ... og já, það er húsið með dagsetningunum (á yfirlýsingu húsfélags) sem varð fyrir valinu hjá mér, afmælisdegi mínum og afmælisdögum mæðgnanna sem komu með mér að skoða. Skemmtileg tilviljun en stjórnaði kaupunum að sjálfsögðu ekki, þetta var bara íbúðin sem hentaði mér best þótt hinar væru fínar líka.

 

Skelegg ung kona sem ég tek mikið mark á, sagði við mig í afmælinu mínu 12. ágúst sl.: „Nú þarf að taka íbúðamálin föstum tökum, Gurrí, skoða íbúðir í bænum og endilega fara út fyrir 200 Kópavog til að fjölga möguleikum á því að þú finnir réttu íbúðina.“ Ég tek mikið mark á henni og hef gert síðan hún var ákveðið barn og það jókst bara þegar ég hóf háskólanám á fertugsaldri þegar hún gaf hún mér nokkur góð ráð sem nýttust mér ótrúlega vel. „Sko, kauptu svona marglaga möppu fyrir hvert fag og þá geturðu sett alla pappíra á réttan stað,“ var eitt ráðið og ekki það sísta. Hún skipulagði nám mitt sem sagt og nú var komið að húsnæðismálunum. Ýmislegt, eins og dauði elsku Kela míns, tafði þetta aðeins, en þann 29. ágúst, á afmælisdegi Michaels Jackson, Herdísar Hallvarðs og Borghildar vinkonu, héldum við í skoðunarferðina sem bar þann árangur að ég er 99% búin að kaupa íbúð. Ég er jafnvel að hugsa um að biðja þessa ungu konu að finna handa mér góðan mann (sem kann að meta þungarokk, er góður að elda, fyndinn og skemmtilegur, ógeðslega sætur og fleira og fleira ... kannski bara nóg að hann andi. Kröfur eru bara fyrir aumingja.) 

 

Þjóðin að smitastÞað þarf ekki að ferðast mikið um lendur Internetsins til að sjá hversu mikil áhrif ég hef. Nú hef ég um hríð barist fyrir verra veðri, dásamað rigningu og rok, vegsamað kulda og garra og aðeins hatast við hálku en það er eðlilegt. Svo virðist sem þjóðin hafi tekið við sér og sér það jákvæða við gular og rauðar viðvaranir, lægðir, stórrigningar og önnur flottheit. Ég er hér með tvö dæmi, annað frá konu í Garðabæjarsýslu og hitt frá karli hér á Skaganum. Tek mark á þeim báðum og finnst dásamleg tilhugsun að ég hafi svona mikil áhrif. (Þessi bloggbútur er í boði Veðurstofu Íslands, eða ætti auðvitað að vera það).

 

Hef verið spurð um líðan kattanna minna, Krumma og Mosa, eftir að Keli dó. Þeir sofa mjög mikið og hafa ekkert sérstaklega góða matarlyst. Blautmatur sem þeir allir þrír voru brjálaðir í, þornar bara á diskunum og endar í mávsgoggi, og kisunammmi er ekkert svo sérstakt þessa dagana. Engin leið að fá þá til að elta leiserpunkt. Mosi hefur vælt voða mikið í dag. Ég vona að þeir taki gleði sína bráðum, ég sakna Kela voða mikið og þeir greinilega líka. Enda var hann dásamlegur karakter. 

 

Ónassis eða BlurpEinhverjir vinir og vandamenn hafa staðið í ströngu síðustu daga við að reyna að kaupa miða á Oasis-tónleikana á næsta ári. Ég var meira Blur en Óasis í gamla daga (kannski af því að Damon er Íslandsvinur hinn mesti) en hef færst til síðustu árin. Fannst ótrúlega skemmtileg og fróðleg heimildamyndin um Oasis sem ég sá á RÚV, minnir mig, fyrir nokkrum misserum. Er með eitt lag á einum Youtube-listanum mínum frá hvorri hljómsveit, Park Life og Don´t look back in Anger, þetta er svona best of-listi, en samt ansi hreint undarleg blanda margvíslegra laga úr öllum áttum. Meira að segja Dolly Parton er þarna en ekki kjafta í þungarokksvini mína. „Þú ert númer 376 þúsund og eitthvað í röðinni,“ er bara eðlilegt í þessari klikkuðu leit að miðum (sjá mynd). Vona bara innilega að mitt fólk fái miða, þessa fokdýru miða. Vinkona mín fór með karli og sonum til Bandaríkjanna nýlega og sá í leiðinni flotta tónleika með Smashing Pumpkins og Green Day ... hljómsveitum sem ég dáði undir aldamótin og geri alveg enn. Er með When I come around með Green Day en vantar Smashing P-lag á listann minn, Ava Adore, verður sennilega fyrir valinu, hélt svo mikið upp á það. Minnir að sonur minn hafi gefið mér plötuna (cd) í afmælis- eða jólagjöf á sínum tíma.

Næstu tónleikar: Skálmöld 1. nóv. og svo jólatónleikar rétt fyrir jól. Jafnvel tvennir jólatónleikar ... Hljómeyki og Góðir grannar saman er eitthvað sem virkar spennandi. Það verður greinilega nóg að gera eftir flutninga.

 

 

Já, og þetta blogg heitir Sögur úr himnaríki - þar sem ég flyt á 6. hæð er ekkert endilega nauðsynlegt að skipta um nafn ... en kannski gaman ... Fréttir ofanfrá, Sögur úr efra ... þigg ýmsar hugmyndir með miklum þökkum. Vegleg verðlaun? Kannski. Eða jú, finn eitthvað flott í verðlaun fyrir besta nafnið. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 832
  • Frá upphafi: 1515927

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 705
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband