10.6.2024 | 19:08
Sunnudagur sem hvarf, tepruleysi og draumfarir
Veikindum var hrundið harkalega með góðum og miklum svefni, C-vítamíni, ColdZyme (fæst í apótekum) og óþolinmæði gegn slappheitum ... og það virkaði svona líka vel. Held líka að sterki maturinn frá sýrlensku vinum mínum í næsta húsi hafi gert mikið gagn. Chili er allra meina bót. Flensutöflurnar (í þann veginn útrunnar Tylenol cold+flu) tóku óþægindin að mestu svo ég missti bara einn sunnudag úr tilverunni, en kvarta ekki.
Fór að hlusta á ástarsögu milli meðvitunarleysiskafla í gær, til að minnka álag á ónæmiskerfið sem glæpa- og spennusögur valda örugglega. Að elska Jason Thorn, heitir sagan. Sárasaklaus í upphafi en svo skellur á svona líka erótík sem er vissulega holl fyrir piparjúnkur - en það er ömurlegt samt að detta í flensumeðvitundarleysi í miðjum lýsingum (og þurfa að spóla til baka). Ég hætti reyndar að vera tepra eftir að hafa þurft að útskýra allt um blóm og býflugur fyrir þrettán ára strák sem var byrjaður í kynfræðslu í skólanum og þurfti betri útskýringar. Þá þýðir ekkert að vera tepra.
Heilmiklar draumfarir fylgdu lasleikanum. Ég var kölluð á vakt hjá Aðalstöðinni til að sjá um útvarpsþátt en var ekki nógu vel undirbúin, þetta bara svo brátt að, og það komu stundum þagnir á meðan ég var að leita að músík (músíkin var nú samt komin í tölvur á meðan ég var í útvarpi) en draumar fylgjast ekki nógu vel með svo ég leitaði að geisladiskum ... en ég fékk útborgað í stórum pakka af úrvalskaffi ... og vitneskju um að ég yrði ekki kölluð út á fleiri vaktir út af öllum mistökunum. Svo í fyrrinótt heimsótti ég vinkonu mína til Berlínar (hún vann um hríð í Hamborg), í alveg ótrúlega lélegt húsnæði sem var þó mun betra að innan en utan, aðallega furðuleg aðkoman miðað við fínt fyrirtækið í raunveruleikanum.
Meira bullið. Veit ekki hvort flensulyfin orsaka drauma en þegar ég tók inn hættuaðreykja-lyfin árið 2020 hófust ofsafengnar draumfarir ... og því miður bara eitthvað svona bull.
Mynd: Keli á trefli. Myndin á veggnum er úr himnaríki, eftir Bjarna Þór listamann, sýnir einmitt Kela til vinstri og Krumma til hægri - skopmynd af ykkar einlægri, í afmælisgjöf eitt árið. Hún var gerð áður en Mosi kom til sögunnar.
Elsku dásamlega Bogga vinkona á afmæli í dag, en við kynntumst þegar við vorum fimm ára, bjuggum báðar í Nýju blokkinni á Akranesi. Himnaríki tilheyrir Gömlu blokkinni sem var fyrsta blokkin byggð hér, Nýja blokkin var sú næsta sem kom og nánast við hliðina á þeirri gömlu. Engan skugga hefur borið á vináttuna og þótt líði mánuðir á milli símtala og hittinga, skiptir það engu máli. Alltaf eins og við höfum hist í gær.
Eldum rétt mætti stundvíslega einhvern tíma eftir hádegi í dag. Ég var enn í svörtu náttfötunum sem gætu misskilist sem kósíföt og skellti peysu yfir - og ungi sendillinn sjokkeraðist ekki neitt. Eftir að ég sagði einu sinni við einn: Vá, eins gott að ég var búin í sturtu! ég búin að gleyma að ER var væntanlegt, og hann setti upp skelfingarsvip, hef ég ekki minnst á náttföt, baðfarir eða neitt slíkt, það fyrirfinnast greinilega svokallaðar horní hás-væfs (er að reyna að dulbúa ef börn lesa þetta blogg) og blaðrið í mér stundum hefur án efa hrætt suma. Ég fæ ekki lengur votta eða biblíusölumenn, hef ekki séð stefnuvotta áratugum saman og handrukkarar leggja ekki í mig, vissulega engin þörf ... en samt! Jú, ég fékk einu sinni stefnuvott þegar var farið í mál við mig vegna viðtals sem ég bar ábyrgð á þótt ég hefði ekki skrifað það - og óvinalögfræðingurinn hótaði (með stefnuvotti) að taka af mér himnaríki, án þess að nokkur málflutningur væri hafinn, og fékk fyrir það ákúrur frá dómara ... sem hataði mig samt því hann dæmdi mig nánast til dauða sem hæstiréttur gerði ögn manneskjulegra. Lengi vel var ég kölluð glæpakvendi af einum ættingja mínum. Sannanir fyrir því að allt hefði verið rétt í viðtalinu komu fram EFTIR réttarhöld og dóm sem fékk lögmann minn næstum til að gráta. Enn finnst mér furðulegt að hafa dómstólinn í Borgarnesi (2.000 íbúar) en ekki á Akranesi (8.000 íbúar). Sennilega af því að Skagamenn gera nánast aldrei neitt af sér - Borgarnes er auðvitað meira miðsvæðis sem þýðir þó samt að fleira fólk sem þarf að fara langt - eða færra fólk sem þarf að fara lengra ef yrði flutt á Skagann ... Allt breyttist reyndar þegar Friðrik Ómar flutti til Borgarness. Ég fylgi Friðriki á Instagram og hann er næstum því með flottara útsýni en ég, og þá er mikið sagt.
Mynd: Fína eldhúsið mitt í himnaríki, þar sem himneskar máltíðir verða til með aðstoð Eldum rétt. Vaninn er svo sterkur að ég sker allt grænmeti niður á pínulitla plássinu við hliðina á ísskápnum, þar sem örbylgjuofninn er núna, vinstra megin við vaskinn.
Já, ég var víst að tala um Eldum rétt þegar ég fór út í annað. Hér verður eldaður lúxusplokkfiskur í kvöld og svo á miðvikudag Tortilla-turn (mexíkóskt lasagne) ... hef prófað báða rétti og get svo sannarlega mælt með þeim.
Evrópukeppnin í fótbolta hefst á föstudaginn og nú eru sumir fúlir yfir því að RÚV ætli að færa aðalfréttatímann til kl. 21. Þegar ég bjó í London (au pair-stúlka) var aðalfréttatíminn á BBC alltaf kl. 21 sem var ansi fínn tími. Matartíminn og uppvaskið að baki og börnin komin í rúmið. Held að hann sé enn á þessum tíma. Ég er hissa á Kollu minni Bergþórs sem segja má að hafi komið mér upp á að fara að horfa á fótbolta fyrir ótalmörgum árum. Plataði mig m.a. með sér á Glaumbar þar sem úrslitakeppnin var á milli Brasilíu og Ítalíu ... Kolla sagði að við ættum að halda með Brössum svo ég gerði það auðvitað. Þetta fór út í vítaspyrnukeppni ... og Baggio klúðraði sinni spyrnu fyrir Ítalíu og þar með unnum "við". Gleymi aldrei ítalska parinu sem kom sér fyrir þarna við eitt borð með ítalskan fána og annað til að skapa stemningu og hafði óvart rambað inn á bar þar sem ALLIR hinir héldu með Brasilíu. Þau voru voða ljúf og allir góðir við þau. Nú er Kolla, samkvæmt nýjasta pistlinum, orðin nánast andstæðingur fótbolta ... nema það sé vegna breytinga á fréttatíma RÚV? Hún talar um íþróttaofríki en hlýtur bara að meina Ólympíuleikana, það skil ég betur.
Þessi nýi tími á fréttum verður til þess að fréttafólk þarf að mæta tveimur tímum seinna til vinnu og vinna tveimur tímum lengur sem er auðvitað hundleiðinlegt. En þessu lýkur 11. ágúst, daginn fyrir afmælið mitt.
Líf mitt snerist einu sinni um fréttir kl. 18.30 og svo aftur kl. 19, svo kl. 22 ... og á klukkutímafresti allan daginn í útvarpinu ... en ég nenni ekki lengur að festa mig yfir slíku, mögulega aukinn eða minnkandi þroski sem veldur því, alla vega breyttar áherslur - en að sjálfsögðu fylgist ég með fréttum, er bara ekki lengur fréttafíkill. Allt í einu fékk ég bara nóg og á sama tíma minnkaði sjónvarpsgláp niður í næstum ekkert. Mun bæta það upp með látum þegar ástkær fótboltinn byrjar á föstudaginn og stendur í mánuð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2024 | 23:17
Allt gefið í botn, heimsóknir og hótun um kvef
Gestagangur hefur heldur betur lýst upp helgina. Eins og það er gott að vera ein er líka rosalega gaman að vera það ekki. Stórasystir kíkti í gær með eitt af sætu barnabörnunum, fyrirvari það góður að ég hafði náð að kaupa brauð, salat og eplaköku sem gladdi ömmgurnar mikið. Það var allt rosalega fínt, eiginlega eins og enginn byggi í himnaríki en það var ástæða fyrir því. Ég var búin að undirbúa bloggaðdáendur mína, um að í stað þess að bíða um hríð með sölu, sem var einn möguleikinn, ætlaði ég að gefa allt í botn varðandi höfuðborgardrauminn, fá "hákarl" í bænum (hákarl er hrósyrði) til að sjá um húsnæðismál mín frá A til Ö, selja himnaríki og finna nýtt ... og fyrsti hluti þess gerðist um morguninn þegar ljósmyndari mætti hingað vel græjaður af tækjum og hæfileikum. Sjá mynd (og fleiri hjá Lind). Það verður opið hús í himnaríki á miðvikudaginn (12.6.) kl. 18. Vissulega nánast tvíbókun, að vanda, en hár mitt verður klippt fyrr þennan sama dag ... en ég næ heim í tíma af því að fegrunaraðgerðin verður svo umfangsmikil að hana verður að taka í tveimur skrefum. Fyrst klipp (þann 12.) og svo lit (síðar). Aldurinn?
Ég bað sérstaklega um að opna húsið yrði ekki á föstudaginn því þá hefst EM í fótbolta. Sennilega skreppum við litlasystir austur (á Suðurland) daginn eftir, geymum okkur Norðurland þar til seinna í sumar. Maður fórnar án hiks þremur fótboltaleikjum fyrir bestu ferðafélagana.
Í dag kom einmitt ferðafélaginn besti í heimsókn ásamt Herkúlesi og Golíat, frændhundum mínum knáu sem óttast ekkert ... nema Krumma, svarta og hvíta óargakött himnaríkis sem reynir með kinnhestum (engar klær samt) að þagga niður í hressum hundum sem gelta stundum af gleði einni saman. Mér sýnist samt að ætlunarverk hans sé eiginlega frekar að vernda okkur mannfólkið fyrir þessum hvítu, hættulegu og háværu dýrum sem H og G eru, að hans mati. Keli og Mosi elska hvítu hundkrúttin og sennilega finnst Krumma það furðulegt háttalag katta um hábjartan dag. Svo kíkti elskan hún Hjördís (mömmur.is) og prufukeyrði ofboðslega góðan heitan brauðrétt á okkur systrum. Hjá mér fékk hún nýþiðnaða súkkulaðibananatertu til að smakka (sjá uppskrift í síðasta bloggi). Síðan héldum vér systur í fyrirhugaðan ísbíltúr með stráksa sem fékk nú bara heimsendan jarðarberjasjeik vegna annríkis hans og hrifningar á grilluðum hamborgurum, löng saga (allt of góður matur þar sem hann býr). Ég drakk þennan fína latte í ísbúðinni og Hilda fékk sér pínkulítinn bragðaref. Nýr eigandi Frystihússins kann að velja starfsfólk, strákarnir tveir sem voru að vinna í dag, voru ferlega fínir og annar þeirra gerði hinn fullkomna latte handa mér. Nóg að gera, og kaffihússviðbótin við ísinn er ansi fín, ekki mikið af bakkelsi kannski, en alveg nóg, finnst mér. Gott kaffi er aðalatriðið.
Hálsbólga herjar svolítið frekjulega á nú í kvöld svo það verður skriðið upp í rúm (bók: Svört dögun, búin með 9 klst. og 20 mín ... eftir eru 3 klst. og 10 mín. Mjög fínar bækur eftir Cillu og Rolf Börjlind). Er búin að spreyja hálsinn með ColdZymé sem er markaðssett gegn algengum kvefveirum og fólk segir að það virki. Minnir að það hafi virkað vel síðast þegar ég fékk hótun um komandi kvef því ekkert varð úr neinu. Tók að auki amerískt flensulyf áðan sem læknar ekki eitt eða neitt en líðanin verður svo miklu, miklu betri. Bandaríkjamönnum (330 millj.) er treyst til að óverdósa ekki á flensulyfjum en Íslendingum (380 þús. plús) er ekki treyst. Blessuð hjartans forsjárhyggjan - nema auðvitað yfirvöld í USA séu markvisst að reyna að fækka fólki á svona lymskulegan hátt.
Yfir og út í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2024 | 20:34
Klikkaðar kenningar og uppskrift að dásemdarköku
Eldsnemma í morgun, alveg um tíuleytið, stökk ég á fætur, hress eins og kornfleksauglýsing, og tók þá skynsamlegu ákvörðun að snúa mér ekki á hina hliðina til að lúra bara í klukkutíma í viðbót. Mér hættir til að taka unglinginn á þetta þegar ég þarf ekki að mæta neins staðar snemma á morgnana. Það var auðvitað dýrleg sturta, síðan sett í þvottavél og sitt af hverju sem ákveðið hafði verið ... en svo fór allt í rugling. Ég setti dropa í hægra eyrað þar sem ég sat við skrifborðið og tók eftir því að lyklaborðið var orðin ansi rykugt, sem og tölvuskjárinn, svo ég fór fram til að sækja bæði ryksugu og hreina tusku. Þegar ég kom inn í eldhús tók ég eftir því að bananarnir fjórir voru orðnir vel dökkir allt of þroskaðir. Væri ekki snjallt að baka bananaköku úr þeim? Ég hafði fundið brilljant uppskrift á netinu í gær, dökka, silkimjúka formköku, og skrifaði uppskriftina niður. Ég hófst handa við það, stökk þó fram á bað til að setja í þurrkarann og mundi þá eftir því að ég var ekki enn búin að ryksuga lyklaborðið en vildi klára fyrst að setja kökuna inn í ofn ... Rétt á meðan ég man áður en ég rýk í annað, hér er uppskriftin:
Súkkulaði-bananakaka
3-4 vel þroskaðir bananar (300 g)
200 g sykur
2 stór egg
125 ml olía
1 tsk. vanilludropar (ég átti bara vanillusykur)
190 g hveiti
50 g kakó
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. natron
1 tsk. salt
240 ml heitt vatn (1 bolli)
Stappið bananana og setjið í skál. Bætið sykri út í, eggjum, olíu og vanilludropum. Hrærið vel saman (í höndunum, ekki í hrærivél) Setjið í aðra skál þurrefnin; hveiti, kakó, lyftiduft, natron og salt og sigtið yfir bananablönduna. Blandið vel saman og setjið að síðustu heita vatnið út í. (Þetta er ansi þunnt deig og ég hélt að vatnsmagnið væri of mikið, minnkaði það oggulítið ...) Hellið deiginu í smurt form (frekar stórt) og bakið við 170°C í 40-45 mín. Eftir 43 mínútur var kakan langt frá því bökuð, prjónninn kom löðrandi út, svo ég setti á blástur og bakaði í 10-15 mín. í viðbót, þá varð hún líka æðisleg. Látið kökuna kólna alveg og búið til "kremið" á meðan ...
Ganache ofan á
160 g súkkulaðidropar (ég notaði Síríus-suðusúkkulaði, skar í bita)
120 ml heitur rjómi
Setjið súkkulaðidropana í skál, hitið rjómann í potti og hellið honum heitum yfir súkkulaðið og bíðið í þrjár mínútur. Hrærið síðan saman þar til súkkulaðið hefur allt bráðnað. Geymið í ísskápnum þar til kakan er orðin köld.
Mynd: Eins og sjá má heppnaðist kakan virkilega vel. Ganassið varð mun mattara hjá mér, eftir ísskápsveruna, enda kólnaði kakan sjálf mjög hægt, ég þurfti að skella henni út í norðurglugga, alveg við opnu rifuna svo norðankuldinn sæi um verkið. En góð er hún, virkilega góð.
- - - - - - - - - - -
Kakan fór inn í ofn, ég þreif eftir atganginn, mundi eftir að fara með ryksuguna inn í herbergi til að þrífa lyklaborðið, gerði það og setti síðan dropa í vinstra eyrað. Fór fram í eldhús til að sækja tusku til að þrífa skjáinn og strjúka yfir ryksugað lyklaborðið en rak augun í smádót inni í stofu sem þurfti að taka ...
Ég er ekki með athyglisbrest þótt ég taki alveg eftir gulum bílum, en ansi oft sé ég eitthvað sem þarf að gera og ræðst í það þótt eitthvað annað sé hálfklárað. Síðan, eftir einhvern tíma, er allt komið á sinn stað í öllum herbergjum íbúðarinnar og skrefafjöldinn mun meiri en hann hefði þurft að vera, sem er auðvitað ekkert annað en stórgott, finnst mér. Eins og ég get samt verið skipulögð. Það er kannski meira þegar kemur að vinnu.
Í nokkur ár hef ég verið með veglega kattaklóru í skotinu í fatahenginu, þar sem sópur, skúringarkústur, moppa og ruslafata undir flöskur og dósir hafa haft einnig haft aðsetur (svolítið í felum) en kettirnir líta ekki við klórunni, finnst sófar og rúm mun betri staðir til að brýna klærnar á. Hvað er þetta þá að gera hérna og það í nokkur ár? spurði ég sjálfa mig, pirruð og örg, ein lengi að fatta.
Ég er vinkona Villikatta Vesturlands, þess dásamlega félags, og spurði konuna sem varð fyrir svörum á fb-síðu félagsins hvort hún vildi klóruna og einnig mjög fínt og nánast ónotað bæli sem kattarassgötin mín líta ekki við, sennilega of háir "veggirnir" - sést ekkert þaðan nema standa upp ... og kannski missa af öllu fjörinu, svo Villikettir fengu það líka, enda eflaust einhverjir kettir hjá þeim sem kunna vel við meira prívat. Svo kom Inga darling áðan og sótti kringlótta borðið sem er eiginlega dottið í sundur, við efuðumst báðar um að Búkolla nytjamarkaður vildi það í gáminn ... Borðið þarf ekki bara ást og umhyggju, heldur smíðakunnáttu, gott lím og alls konar tæki og tól, held ég. En það hefur þjónað mér vel í áratugi.
Myndin sýnir kattaklóruna, bælið og borðið samankomið á ganginum í himnaríki. Þarna má sjá Krumma sem er skítsama um þetta allt saman.
Eins og sumir vita er ég mjög veik fyrir samsæriskenningum þótt ég hafi svo sem aldrei nennt að kafa mjög djúpt í þær. Ögn betri enskukunnátta myndi kannski breyta því eitthvað ... en á Facebook mátti sjá spurninguna:
Hver er klikkaðasta samsæriskenning sem þú hefur heyrt og veist að sumir trúa samt? Svörin voru nokkuð amerísk, enda fb-síðan svo sem þaðan, en bráðskemmtileg sem er það sem skiptir máli. Mjög mörg svör tengd Trump bárust, bæði með og á móti honum, og þá um að Biden hefði unnið kosningarnar síðast ... en hérna eru alla vega nokkur svör og örfá ættuð annars staðar frá:
- Að Trump muni vinna kosningarnar (úr fangelsi?)
- Að jörðin sé flöt.
- Að covid-bóluefnið hafi drepið fleiri en það bjargaði.
- Að vindorka og rafbílar séu góð fyrir umhverfið.
- Að flokkun rusls sé aðferð stjórnvalda til að stjórna fólki.
- Að bílstjóri J.F. Kennedys hafi skotið hann.
- Að breska konungsfjölskyldan sé í rauninni eðlufólk.
- Að Rússar hafi hjálpað Trump til að sigra 2016.
- Að Elvis sé enn á lífi og búi í Kentucky.
- Að við séum í raun bara tölvuleikur inni í tölvu.
- Að J.F. Kennedy sé enn á lífi.
- Að Jesú hafi verið hvítur.
- Að geimurinn sé ekki til.
- Að Bandaríkjastjórn hafi staðið fyrir árásunum 11.9 2001.
- Að ný sól hafi tekið við eftir síðasta sólmyrkva.
- Að Michelle Obama sé karlmaður.
- Að karlar vilji verða transkonur til að sigra í íþróttum.
Ef við gefum okkur að þeir tveir séu enn á lífi, þá verður Elvis Presley níræður í janúar á næsta ári og J.F. Kennedy er nýorðinn 107 ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2024 | 15:57
Spennandi óvissuferð og besta ryksugutónlistin
Æðisgengin vinkvennaferð verður farin núna í lok október, til að stytta veturinn, eins og vinkona mín orðaði það í símanum í gærkvöldi - og ég hoppaði á þetta. Við förum á hlýrri slóðir - í vel planaða vikuferð, með nýrri og víst mjög frumlegri og sniðugri ferðaskrifstofu, sagði hún. Þetta er eiginlega óvissuferð sem æsandi tilhugsun, og mér líst ágætlega á dagskrána eftir samtalið við vinkonuna. Rúta fer með okkur frá BSÍ og svo verður bundið fyrir augun á okkur áður en við stígum inn á Leifsstöð til að auka á spennuna, flugið tekur 8-28 tíma, er það eina sem var gefið upp, við fáum ekki að vita meira um áfangastaðinn. Stundum verður bara að fara út fyrir þægindarammann til að staðna ekki og hvaða kona vill vera kölluð gömul og huglaus?
Ég er að reyna að hlaða niður appi ferðaskrifstofunnar, eins og vinkonan ráðlagði mér, til að sjá betur dagskrá vikunnar okkar, 30. okt. til 5. nóv. en í símtalinu í gærköldi sagði hún mér af þessu sem mér líst mjög vel á:
-Geitaskoðun fyrsta heila daginn - sennilega hægt að kaupa sér geitaullarpeysur og klappa kiðlingum. Hljómar unaðslega.
-Nasahlaup, veit ekki hvað það er, en vinkonan hélt að það gæti verið skyndi-hraðheimsókn í geimferðasafn sem er geggjað! Mögulega er óvissuferðin til Bandaríkjanna. En ég tími ekki að giska.
-Búðaferð, ég lifi það af og það er alveg gaman í sumum búðum þar sem hægt er að sitja í loftkælingu og hanga í símanum. Væri samt auðvitað alveg hægt að kaupa nokkrar jólagjafir.
....
Ég er eiginlega búin að þríbóka föstudaginn en ekki allt á sama tíma, eins og mér hættir stundum til. Heimsókn til mín kl. 10, ég fer sjálf í heimsókn út í bæ að henni lokinni og svo önnur heimsókn í himnaríki kannski um tvöleytið. Svo ætlar stráksi mögulega að kíkja líka nema hann komi á morgun. Ég er í grisjunarskapi í dag, veit samt varla hvar skal byrja og íhuga hvort ég eigi að hlusta á háværa og hressa ryksugutónlist eða spennandi Ann Cleeves-sögu (Eldhiti) sem ég á rúma fimm klukkutíma eftir af. Ég spæni í mig bækur þessa dagana.
Nýlega sá ég á Facebook (erlendri síðu) spurninguna: Hvaða ryksugutónlist er best? Ágætis svör bárust. Það íslenska væri vitanlega hið stórgóða og hressa lag: Ryksugan á fullu. Svo eru líka lög á borð við Livin´La Vida Loca (Ricky Martin), Uprising (Muse), Luftgitar (Sykurmolarnir), Stun Gun (Quarashi), Cleaning out my Closet (Eminem), Smells like Teen Spirit (Nirvana), No One Knows (Queens of the Stone Ages) og fleiri og fleiri ... en hér er útlenski listinn, frekar stuttur, en svo margir sögðu það sama:
- Allt með Zeppelin og Metallica
- Another one bites the dust
- I want to break free
- 80s
- Salsa, latin, cumbia
- Chuck Berry
- 90s
- Abba-lög
- Dust in the wind
Ef maður er í vafa er kannski best að gera bæði, eins og strákurinn orðaði það um árið. Ég ætti að búa til hressan lagalista úr mínum eigin lista sem heitir Ýmis lög og inniheldur alls konar lög, róleg, hress, klassík, rapp, rokk, popp ... og vera svo með gemsann í vasanum, svolítið hátt stilltan og hlusta á sögu líka. Það gæti tvöfaldað afköstin. Ef ég þykist ætla að flytja einn góðan veðurdag myndi það auðvelda til muna að flytja færri hluti. Elsku Inga ætlar að taka fína kringlótta skákborðið og nokkra kassa fyrir mig á morgun upp á hauga, svo tekur elsku Hilda mín alltaf það sem ég þarf að losna við, hún er dugleg að fara í Sorpu.
VIÐBÓT. Vó! Ég komst inn á app ferðaskrifstofunnar núna rétt áðan, og þetta verður svolítið öðruvísi ferðalag en vinkona mín hélt.
Geitaskoðunin er víst geitungaskoðun ...??? Nasahlaupið virðist vera hlaup undan nashyrningum (svipað og nautahlaupið í Paloma). Ég finn ekki með gúgli hversu hratt nashyrningar geta hlaupið en þeir hlaupa varla hraðar en ég (fer þó eftir ástandi hægri hásinar). Búðaferðin virðist vera löng gönguferð í gegnum þéttan regnskóg að tjaldbúðum, eða rjóðri þar sem við þurfum að tjalda sjálfar úr efni sem við spinnum og heklum tjald úr, og veiða okkur til matar - með vopnum sem við búum til úr einhverju í náttúrunni! Mér finnst ég ekki geta hætt við ferðina þótt hún sé ekki alveg sú ferð sem ég borgaði stórfé fyrir í gærkvöldi og samkvæmt appinu er ekki hægt að fá endurgreitt. Að veiða sér vopnlaus til matar í frumskógi í 50 stiga hita er auðvitað meira ögrandi en t.d. Costco-ferð.
VIÐBÓT 2: Hver vill kaupa einn miða á besta stað í Hörpu, á Skálmaldartónleika 1. nóv?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2024 | 16:42
Að ýta Harry Potter til hliðar ... stutt í EM og séður stráksi
Bloggvinir mínir hafa ráð undir rifi hverju og það er fátt sem þeir ekki vita, eins og hefur margoft komið í ljós. Ég fékk skilaboð, alla leið frá Spáni, frá dásemdunum sem aka um á húsbíl og sýna okkur frá daglegu lífi sínu. Þau eiga alla mína samúð vegna hitans sem er að fara með þau. Þá er Ísland nú betra. Stóra Storytel-málið minnkaði hratt í kjölfarið á skilaboðunum og nú er svo komið að ég veit hvernig ég finn nýjar bækur og væntanlegar bækur. Eða allra, allra neðst þegar maður skrollar, og það þarf að ýta til hliðar.
Neðst hjá mér stóð Harry Potter (sjá lýsandi mynd) sem eru bækur sem ég hef margoft lesið og kannski frekar langt í enn einn endurlesturinn, EN þegar ég ýtti þeim ferningi til vinstri fann ég það sem ég þráði. Mér finnst ég svo heimsk, auðvitað hefði ég getað sagt sjálfri mér að ýta Harry Potter til hliðar, til að töfrarnir gerðust. Ég hef aldrei þorað á Tinder-stefnumótaappið, svo ég hef enga æfingu í að ýta til hliðar, sem mér skilst að þurfi að gera þar. Það nægir mér alfarið að fá Sælinú annað slagið á Facebook frá villtum, ævintýragjörnum, áhættusæknum, ókunnugum aðdáendum, þykjustuofurstum eða hjartaskurðlæknum á virðulegum aldri. Ég þarf engu að ýta til hliðar þegar ég eyði þeim án nokkurrar miskunnar.
Ég var líka að verða vitlaus á Eldum rétt fyrst (áður en mér var sagt til), það átti ekki að ýta á Matseðlar, heldur Veldu rétt, og síðan Þú getur Veldu rétti ... og svo mátti alls ekki taka mark á því þegar kom að engin heimsendingarþjónusta væri í mínu póstnúmeri. Auðvitað! Mjög fínn matur en nokkuð mikil hrifning á hnetum hjá kokkunum. Einu sinni datt mér í hug að panta hátíðarpakka og bjóða góðu fólki til mín á Skagann einhvern páskadaginn, en svo var einhver jarðhnetueftirréttur. Jarðhnetur eru annar mesti og hættulegasti ofnæmisvaldur heims, ef marka má gúggl og nú verð ég að vita hver er mesti ofnæmisvaldurinn ... ég giska á gróður ... bíðið aðeins.
Hlé ...
Sko ... sem ofnæmisvaldur er það mjólkin sem er algengust!!! Kúamjólk! En gróðurofnæmi er ansi víðtækt líka. Engin leið fyrir mig að finna almennilegan lista yfir allt ofnæmi í hætturöð, enda mætti ég vera betri í ensku til að geta leitað almennilega. Munið, ég er manneskjan sem hélt hálfa ævina að það væru mjög margir dýralæknar í hernum ... Ég les reyndar mjög, mjög hratt.
Veteran: uppgjafahermaður, stytting: vet
Veterinarian: dýralæknir, stytting: vet
Evrópukeppni karla í fótbolta, EM 2024, stendur frá 14. júní til 14. júlí. Ég hafði einsett mér að gera nákvæmlega EKKERT á þessum tíma nema horfa á fótbolta, eða þannig. Stóð ég við það, eða ætlum við systur kannski að skreppa dagsferð norður á land (innan NV-kjördæmis) þann 15. júní? Mundi ég eftir EM þegar ég sagðist auðvitað vilja koma? Nei. Verða mikilvægir leikir þarna á laugardeginum? Ja ...
Kl. 13: Ungverjaland - Sviss
Kl. 16: Spánn - Króatía
Kl. 19: Ítalía og Albanía
Verð bara að muna að þegar líður á keppnina að svara hvorki síma né netspjalli, en ef næst í mig: gera mér upp veikindi sem halda mér heima. Gubbupest, Covid, matareitrun, bráðsmitandi kvef, þursabit. Eitthvað samt sem kemur mér strax á fætur eftir leik og fram að þeim næsta. Hugmyndir vel þegnar.
Mynd: Frá HM 2018 þegar Hannes varði víti frá Messi!!! Þá var ég pottþétt stödd í Stykkishólmi og bara heppni að það hafi verið sjónvarp þar.
Ég er líka smeyk við að ég ákveði kannski í bríaríi að skreppa til útlanda í helgarferð í vetur. Vera búin að borga ferðina og hótelið og komin út á flugvöll, kannski 31. október, jafnvel sest inn í flugvélina þegar ég man eftir því að ég á miða á Skálmöld, tónleika í Hörpu 1. nóvember. Ég veit að það er gáfumerki að vera utan við sig og gleymin ... en samt. Að vera vel á verði, hafa ákveðið eitthvað löngu fyrirfram, setja það í rafrænu dagbókina ætti að vera nóg.
Ég er viss um að fótboltaleikirnir þarna laugardaginn 14. júní verða verulega óspennandi, þeim jafnvel frestað vegna leiðinlegheita ... Ekki gaman að að horfa á þá eftir á - frekar þátt á eftir með því besta úr leikjunum, ég lifi það alveg af. Og hver vill ekki skreppa norður í góðum félagsskap í góðan félagsskap?
Mynd: Mínir allra bestu menn.
Stráksi er kominn heim úr sumarbúðunum í Reykjadal, kom við í himnaríki núna rétt áðan á heimleið, bara rétt til að knúsa Gurrí sína og kettina. Ohh, hvað ég vildi að ég hefði mátt vera viku lengur, sagði hann. Það var svooooo gaman! Hann lofaði að hringja í kvöld og segja mér allt um dvölina. Ég er enn skráður greiðandi fyrir síma og net hjá honum, skv. þakklæti þjónustugjafa fyrir greiðsluna, þrátt fyrir að við höfum farið og látið breyta því í apríl. Honum finnst þetta eiginlega mjög hentugt og algjör óþarfi að vesenast eitthvað í þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2024 | 18:19
Storytel-breytingar, ástarsvör og batnandi sýn
Transistorútvarp, tékk - vatnsbirgðir, tékk - niðursuðumatur, tékk ... hér er reyndar enn mjög gott gluggaveður, enda aðeins ASA 6 m/sek núna en á eftir að aukast í dag og næstu daga, eins og alþjóð veit vonandi. Eldum rétt mætti stundvíslega upp úr kl. tvö og engan fokskaða var að sjá á léttfættum bílstjóranum. Þegar ég tók máltíðirnar tvær (fyrir tvo, dugar í fimm daga) upp úr kassanum horfði ég á bláa pokann sem fylgdi og var hálffrosinn eftir ferðina úr bænum, hann hefur það hlutverk að kæla matvælin. Svo fór ég að hugsa um hásinina sem hefur haft mig hálfhalta og hreyfingarlausa rosalega lengi.
Skyldi ég geta notað þennan poka á hásin hægri fótar? hugsaði ég. Eiginlega þurfti ég ekki að kíkja í spegil til að vita að greindin skein úr augum mínum en ég hoppaði nú samt fram á bað á annarri til að fullvissa mig um það.
Á meðan ég var að skrifa bloggið hafði frænka mín (í föðurætt) samband, með áhyggjur af hásin ykkar einlægrar, eins og þið öll auðvitað. Nú veit ég að þetta stafar ekki endilega af gömlum íþróttameiðslum sem tóku sig upp eða óvæntum hlaupum út á strætóstoppistöð ... hásinar geta verið ólíkindatól og frænkan þurfti í uppskurð á báðum um árið, sjúkraþjálfun á eftir og er orðin góð. Ég tékka á þessu. Frænkur eru frænkum bestar.
Myndin samsetta er vissulega átakanleg, enda tókst mér ekki að hafa rétta röð á myndunum, reyndi það samt. Fyrri myndin sýnir MJÖG bólgna hásin ... en myndin ætti að vera sú seinni, og sýnir fótinn eftir að ég tróð ískalda pokanum ofan í sokkinn. Jú, það sést í bert hold (afsakið) og ég er svolítið eins og undanrenna á litinn, brúnkukrem keypt í hittiðfyrra en enn óopnað, er það alveg í lagi?
Hvar er klíkan þegar mest er þörfin? Það er rúmur mánuður í að ég geti fengið allsherjaryfirhalningu á hárgreiðslustofunni minni. Ég þarf alltaf að bíða þangað til karlar hætta að stara á mig með vonarblik í augum og verða flóttalegir til augnanna, þá panta ég tíma og þarf oft að bíða og bíða. Og buffin að komast úr tísku og fínir silkiklútar um hálsinn komnir í staðinn SEM HENTAR MÉR MJÖG ILLA núna. Mín hár-kona veit hvers konar umhverfisskaða ég er farin að valda og bauð upp á drög að fegurðarauka ... eða klippingu án litar og einnig andlitsframköllun (augabrúnir og augnhár lituð). Eftir rúma viku ... sem er miklu betra en allsherjar sem ég gæti annars fengið 12. júlí. Svo leggjum við á ráðin með restina í næstu viku.
Í dag sést eldgosið handan Faxaflóa mun betur en áður (sjá mynd) - hingað til hefur útsýnið á gosstöðvarnar ekki verið sérlega gott. Ekki einu sinni á kvöldin. Sjórinn er líka mjög flottur - þegar blæs að norðan stækka öldurnar stundum og verða voða fínar og tærar sem er ekki síður æðislegt en brimið. Það verður erfitt að slíta sig frá himnaríki og sjónum mínum þegar ég flyt í bæinn. Kannski ég biðji tæknisnjallan frænda minn um að búa til samhangandi sjódagskrá úr öllum myndböndunum mínum frá Langasandi sem ég gæti látið ganga í lúppu í sjónvarpinu þegar söknuðurinn sækir að.
Ég nota Storytel mjög mikið. Nýlega urðu ákaflega fúlar breytingar þar. Eða búið að gera flóknara (ómögulegt?) að finna VÆNTANLEGAR BÆKUR og NÝÚTKOMNAR BÆKUR sem ég notaði allra, allra mest. Ég fór minnst vikulega í fyrrnefnda flokkinn og skellti stjörnu á þær bækur sem vöktu áhuga minn og svo var ég látin vita þegar þær mættu á vettvang, volgar og safaríkar úr upptökuklefanum. Of mikilvægir flokkar til að gera þá að undirflokkum sem flókið er að finna. Núna sé ég bara Haltu áfram að hlusta, Mælt með fyrir þig, Af því að þú last, Bara á Storytel, Topp 50 bækurnar á Íslandi í dag!, Nýjar fyrir þig, Glæpasögur, Bækur sem leitað er að, Bókagull mælir með, Vegna þess að þú settir í bókahilluna, Vinsælar glæpasögur, Uppgötvaðu eitthvað nýtt, Hlustaðu eða lestu, Af því að þú last.
Svo þegar farið er inn í Seríur, einhvers staðar þarna í miðjunni, koma Nýjar og Væntanlegar. Og í Væntanlegar-flokknum eru bara erlendar bækur, lesnar á ensku. Ef þessir mikilvægu flokkar fyrirfinnst einhvers staðar, vill þá einhver láta mig vita hvernig ég finn þá. Þetta eru skelfilegar breytingar ... fyrir manneskju sem notar langmest Væntanlegar-flokkinn - til að geta hlakkað til einhvers í þessari voluðu veröld ...
Fannst á Facebook:
Misskilningur í gangi hjá sumum fjölmiðlum ... Eins gott að ég get leiðrétt þetta. Þau voru alls ekki að eignast 26. stúlkuna, heldur þá þriðju. Minnir á langalangafa minn (Jónas frá Hróarsdal, Skagafirði) sem átti einmitt 26 börn, bæði stráka og stelpur, innan hjónabands, börnin hans urðu alls 32, nokkur fæddust milli hjónabanda hans. Jósteinn langafi, pabbi hennar Mínervu ömmu var einn af þeim.
Þjóðin stendur frammi fyrir stóru vandamáli núna. Hvað köllum við manninn hennar Höllu, tilvonandi forseta? Hann er fyrsti karlkynsmakinn á Bessastöðum. Nú er hefð fyrir því að kalla konur herra, sbr. ráðherra, svo kannski gætum við haldið okkur við forsetafrú? Bragi Þór, stórfeisbúkkvinur minn, veltir þessu fyrir sér og segir í lok hugleiðinga sinna: Ef ekki getur orðið sátt um "forsetafrú" er ég kominn með frábæra lausn sem er sú sama og noruð var um breytinguna á titlinum "hjúkrunarkona". Hér með verður maki forseta (og þetta gengur fyrir bæði kyn) kallaður "forsetafræðingur"!
Myndin tengist umfjöllunarefninu óbeint, en hún fannst nú samt á Facebook ...
Hvaða svar við Ég elska þig veldur mestum vonbrigðum?
Takk.
Ást er ekki nóg.
Mér finnst þú sérstök/sérstakur.
Við ættum að hitta annað fólk.
Ég elska mig líka.
Ég veit.
- Þögn
- Hlátur
Hver er þetta?
Mér þykir vænt um þig.
Bíddu, ert þú ekki í nálgunarbanni?
Vó, þú ert þriðja manneskjan sem segir þetta við mig í dag.
Viltu gjöra svo vel að sýna mér ökuskírteinið þitt!
Þú ert ekki svo slæm/ur!
Má bjóða þér að panta núna?
Hver ertu og hver opnaði fyrir þér?
Þú líka?
Sömuleiðis.
Og?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2024 | 15:04
Klístrað óhapp og útgöngulagið loks fundið
Vaknaði fyrir allar aldir í morgun um níuleytið. Nú skyldi gengið til kosninga, ekki þó gengið, heldur farið á hvítri drossíu, Teslu ... Reyndar ekki með riddaranum á hvíta, heldur dásamlegri vinafjölskyldu. Þau komu stundvíslega kl. 10.35 eins og samið hafði verið um, svo ég kaus í fyrsta sinn á ævinni fyrir hádegi. Nýr kjörstaður að þessu sinni, kosið í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Yfirleitt hefur það verið gamli skólinn minn, Brekkubæjarskóli, en síðast reyndar, eða í alþingiskosningunum, var íþróttahúsið hér á hlaði himnaríkis notað.
Kjördeild 2 var vingjarnleg - og setti ekki út á að í vegabréfi mínu stóð bara Guðríður Haraldsdóttir, ekki millinafnið Hrefna en svo stutt er síðan ég fékk millinafnið að kjörgögn eru sennilega enn með gamla nafnið mitt, sjúkk. Til öryggis var ég reiðubúin að heimta að tala við kjörstjórn og sýna henni bréfið frá Þjóðskrá um nýja millinafnið. Fagmannlega fólkið sem gætti þess að allt færi rétt fram, leit á ófalsað vegabréf mitt, leit svo upp og horfði á fegurðina sem hafði lítt dvínað frá því vegabréfsmyndin var tekin - en eina fölsunin var að ég hafði skellt farða í andlit mitt - svo ég leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en svona 45 ára, fannst mér svipur fólksins segja. Ég var auðvitað búin að ákveða mig og setti X-ið á þann stað sem mér fannst réttur. Ekkert taktískt en ég vona að minn frambjóðandi hljóti góða kosningu sem hann á skilið. Það verður svo sirka óhætt að fara á feisbúkk á þriðjudag, miðvikudag - og þá getum við farið að tala um ketti, kaffi og annað skemmtilegt.
Myndin: Það á ekki að bakka á myndum, heldur eins og taka skref áfram, beina sér fram á við, ekki aftur á bak, sagði eitt sinn klár atvinnuljósmyndari sem var að mynda viðmælanda minn (Katrínu Fjeldsted lækni) fyrir nokkrum árum. Þessi mynd er framávið-mynd - sem var betri en þær fyrri og þarna var ég að reyna að stilla mig um að hlaupa ekki til sætu hundanna hægra megin, uppstillt eins og fyrirsæta. Samt í fk. Cartman-jakkanum sem er 10-15 cm of stuttur ...
Ættum við ekki að kíkja í Kallabakarí og halda aðeins upp á þetta, spurði vinkona mín, maður hennar og sonur kinkuðu kolli og ég auðvitað líka. Hafði lagt svo mikið upp úr fegurðinni að ég borðaði bara mína súrmjólk, kornfleks og púðursykur, og gleymdi kaffibollanum. Lagði þó bara í kakóbolla í bakarínu þótt kaffið þar sé ekkert vont. Það átti eftir að reynast örlagaríkt. Ég er ekki vön því að hella niður eða detta og fá á mig gat (á 40 ára fresti) og slíkt, en á meðan við vorum að tala um hótelið sem kemur kannski við hliðina á himnaríki, og ég var að tala um andstöðu margra Skagamanna við það, þegar ég rak mig í kakóbollann sem skvettist yfir mig, töskuna mína í stæinu við hliðina og bjó til stóran kakópoll á gólfið. Kaffi hefði aldrei gert þetta óhapp svona klístrað því ég nota aldrei sykur eða bragðsíróp ... en elskuleg stúlka kom og bjargaði mér, þreif allt mjög vel. Við drifum okkur út áður en hún skellti mér í bað ... Þetta gerði einhver hóteldraugur, sagði ég spámannslega, þetta var fyrir því að annaðhvort komi hótel þarna eða ekki, bætti ég greindarlega við.
- - - - - - - -
Facebook er full af kosningaáróðri núna en Halldór fjandi skrifaði áðan: Ætli fólk sem skrifar kostningar stundi samtfarir?
Ég kveð frábæra forsetann okkar, Guðna Th., með miklu þakklæti (hann dýrkar og dáir Skálmöld) og óska nýjum forseta alls hins besta frá og með morgundeginum.
- - - - - - -
Eftir að hafa sest á rökstóla, aðallega með sjálfri mér, ákvað ég að halda áfram að reyna að selja himnaríki og sóttist eftir aðstoð fasteignasala úr bænum sem þarf þá að finna íbúð við hæfi handa mér í staðinn. Hún ætlar að kíkja á mig í næstu viku og henni finnst himnaríki gjörsamlega geggjað! Ekkert rosalegar kröfur sem ég geri um nýtt himnaríki í bænum, ég vil vera þar sem er líf og fjör, góð en "ódýr" íbúð, stutt í allt og sem minnst af gróðri í kring. Við erum nokkur sem teljum lífshamingju okkar ekki ógnað með steinsteypu.
Einstaklega falleg tónlist hljómar undir auglýsingu frá RÚV um menningarþátt ... og ég hef ekki munað eftir eða kannski ekki kunnað við að opinbera vanþekkingu mína en lengi langað til að vita hvaða tónlist þetta er. Var í tónlistarskóla í þrjú ár, þá sjö, átta og níu ára, og ætti að vita eitthvað. Lærði t.d. að það ætti að bera Chopin fram sem Sjópeng, ekki Tjópin, eins og einn lesarinn hjá Storytel gerir. Fannst aðeins of langt gengið að hringja í RÚV og spyrja, gerði það nú samt einu sinni fyrir langalöngu, upp úr tvítugu, minnir mig, og með góðum árangri, þá var það Ófullgerða sinfónían (nr. 8) eftir Schubert, og keypti mér plötuna í kjölfarið. Nú er ég minni óhemja og vonaði bara að þessa tónlist ræki á fjörur mínar einhvern daginn. Ég var búin að vígbúast með appi í símann minn, appi sem ber kennsl á alla tónlist, þarf ekki að heyra nema smáhluta úr lagi. Svo var ég að hlusta á Krýningarmessu Mozarts, eins og maður gerir annað slagið, og leyfði svo YouTube-veitunni að velja eitthvað svipað þegar henni var lokið ... og þannig fann ég þessa dýrð. Myndbandið er mjög áhrifamikið líka. Spurning um að biðja ættingja mína um að hafa þetta frekar útgöngulagið í útför minni, í staðinn fyrir Hel með Skálmöld, eins og ég var búin að fá samþykkt. Spila Hel frekar í erfidrykkjunni ...
Þetta er verk eftir Christopher Tin (f. 1976) og heitir Sogno di Volari (The Dream of Flight). Ég læt lagið fylgja með til að þíð fáið notið, elsku bloggvinir, þið sem ekki hafið nú þegar uppgötvað þessa snilld. Þetta hristir upp og hrærir í tilfinningum. Nú langar mig í kór aftur og fá að syngja þetta og fleira eftir þetta stórkostlega tónskáld. Um leið og ég hætti að reykja varð röddin svo miklu hreinni.
Bloggar | Breytt 3.6.2024 kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2024 | 00:11
Einnar konu kosningavaka - kókosbollur og allt
Þátturinn með efstu 6 er búinn, sá síðasti fyrir kosningar og sá fyrsti sem ég hef séð. Ég nenni nánast ekki lengur inn á Facebook vegna leiðinda þar. Vá, hvað ég er fegin að þessu er að ljúka. Seinni þátturinn með hinum sexmenningunum hófst með látum, veit ekki hvort Ástþór hefði getað stillt sig um ólæti ef þau hefðu verið öll 12 saman. Annars er ég sammála honum, við eigum að vera hlutlaus þjóð - sem er kannski flókið fyrst við erum í NATO ... Viktor er sniðugur - á köflum, en hann snýr of mikið út úr og er með stæla ... dáðist að spyrlunum að láta sem ekkert væri. Seinni þátturinn var talsvert fjörugri en sá fyrri, þó gaman að hlusta á þau öll.
Ég er búin að redda mér fari á kjörstað á morgun. Hásinin enn stokkbólgin þrátt fyrir góða og planaða hvíld undanfarið, engar skrefatalningar. Frekar stutt að ganga þessa leið í Fjölbrautaskólann en til hvers að leggja á sig sársaukafullt ferðalag fótgangandi þegar maður getur fengið FAR MEÐ TESLU! Til öryggis hef ég gætt þess að gefa ekki upp hvern ég kýs (með hjartanu - ekki taktískt) til að styggja ekki farið mitt ... sem væri samt alveg nákvæmlega sama, er ég viss um, kýs mögulega það sama og ég. Svo annað kvöld verð ég með einnar konu kosningavöku. Búin að kaupa kókosbollur og allt. Lenti í því að klára rommkúlupokann í algjöru ógáti yfir kosningaþættinum á RÚV.
Rammstolin mynd af frambjóðendum, henni var meira að segja nappað frá leikskóla ...
Bakaraofninn er enn skellóttur en virkar fínt, þorði að prófa í kvöld, ætla að fá fagmanneskju til að aðstoða mig við að þrífa hann - ef hægt er. Ég eldaði frekar vondan mat í kvöld, kjötbollur frá ER sem ég keypti í Hagkaup um daginn, og var svo upptekin eða utan við mig eitthvað að sósan klúðraðist. Maturinn í gærkvöldi var miklu betri. Tók þrjár sneiðar af hrökkbrauði, setti góða pestóið ofan á, rifinn ost, tómata (fyrirgefðu, Hilda) og ferskan mozzarella-ost, síðan rifinn aftur og smávegis pipar ofan á og hitaði, síðan pínku pestó. Gjörsamlega dýrlegt.
Leksands surdeig-hrökkbrauð er algjör snilld í pítsugerð. Hægt að raða því í hring og þarf ekki að skera ... Þrjár voru meira en nóg í kvöldmat. Holl drög að pítsum, myndi ég segja OG rosalega gott. Þetta pestó (sést á myndinni til vinstri, líka hrökkbrauðið) frá Önnu Mörtu er engu líkt. Maturinn hét: Að bjarga sér (með ónýtan ofn, sem var svo ekki ónýtur).
Gömul æskuvinkona af Skaganum skildi eftir ofnahreinsi við dyrnar hjá mér í morgun, einhver misskilningur en örugglega vel meint og algjör óþarfi ... ég á mjög góðan ofnahreinsi sem ég keypti í Omnis og hefði betur notað hann en þetta glæra stórhættulega gums sem er sennilega ætlað fyrir iðnaðarofna. Takk samt, kærlega. Fallega hugsað en harðbannað að mæta með meira handa mér. Ég er gjörsamlega að kafna í dóti.
Þarf að semja við einhvern sem á kerru að fara ferð upp á hauga eftir helgi. Vantar að losna við skjöktandi kringlótta borðið sem ég hef átt í áratugi, hægt að setja það í Búkollugáminn en ég efast samt um að þau nenni að bjóða upp á svona dót sem þarf virkilega að dedúa við. Ég má eiginlega ekkert vera að þessu kosningavökudæmi fyrir grisjunarþörf sem er að hellast yfir mig. Svo á ein systir mín afmæli á sunnudaginn og það væri gaman að kíkja ... en það er ekkert til sem heitir að kíkja þegar maður er háður eigi svo tíðum strætóferðum. Ég reiknaði einu sinni út að það tæki mig sex og hálfan tíma að skreppa í brjóstaskimun í Reykjavík eftir að Krabbameinsfélagið hætti að nenna að skima á Skaganum og heilsugæslan í bænum hélt sig við þá aumu ákvörðun. Væri snjallt hjá bæjarstjórninni að beita þrýstingi til að fá þetta aftur - og þá miklu meiri mætingu í kjölfarið. Fékk einmitt greiðslubeiðni í heimabankann frá Krabbameinsfélaginu í dag og eyddi henni, að vanda. Allt í lagi að vera langrækin þegar kemur að einhverju svona.
Kláraði Stephen King-bókina í dag, já, rólegur dagur og eina sem rauf spennuna þarna í bókarlok var koma Einarsbúðar með vörur, skyr, kókosbollur og slíkt. Nenni ég að horfa á Villibráð? Nei, ekkert fyrir fyllirís-, leyndarmála- og trúnó-myndir (hún mallar undir bloggskrifum), verð að fara snemma að sofa, kjörstaðarskutlaragengi mitt kemur fyrir allar aldir, eða kl. 10.30! Ég hef aldrei í lífinu kosið fyrir hádegi áður. Hef reynt að sofa lengi til að geta vakað fram á nótt en ég held ég láti bara tíufréttir á sunnudagsmorgun segja mér allt af létta. Nema auðvitað verði rímur og glíma, hagyrðingar hittast-innskot í kosningasjónvarpinu, jafnvel Sirkus Billy Smart ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2024 | 22:32
Að bíða eða ekki bíða ...
Dagurinn í dag hefði hér áður fyrr farið í að fylgjast með nýjasta eldgosinu en ég held að ég sé að verða eins og dóttir vinkonu minnar sem sagði ung að aldri og að gefnu tilefni: Ég nenni ekki eldgos! Fyrstu eldgosin handan hafs voru mjög spennandi, hægt að ganga að þeim (fyrir masókista, 8 klst. hvora leið, minnir mig). En þessi síðustu gos eru ekki jafnskemmtileg, ég get ekki ímyndað mér hvernig er að vera í sporum Grindvíkinga og sjá helv. hraunið reyna að hremma bæinn þeirra. Ég vann eitt sumar í Grindavík, þá bara 14 að verða 15 ára. Bjó á verbúð og kynntist skemmtilegu fólki, bæði innfæddum grindjánum og auðvitað aðkomufólkinu sem bjó í verbúðinni. Vinsælasta lagið þetta sumar var Dyer Maker með Led Zeppelin, svo gott að það er á aðallagalistanum mínum öllum þessum árum seinna. Við vorum tvær þarna í vinnu sem áttum afmæli 12. ágúst og þá bakaði matráðskonan vöfflur. Fyrirtækið hét Hraðfrystihús Grindavíkur en það virðist ekki vera til lengur, ég reyndi að gúgla. Sennilega of langt síðan ég var þarna því ég reyndi eitt sinn með google-maps að bera kennsl á húsið (sem var mjög auðvelt með Ísfélagið í Vestmannaeyjum í fyrrasumar sem hýsir nú íbúðir, held ég), en án árangurs. Besta kaffihúsið í Eyjum er þar við hliðina, við bryggjuna, og býður upp á mjög gott kaffi.
Myndin hér efst er frá Grindavík og húsið gæti mögulega verið Hraðfrystihús Grindavíkur ... Myndin var tekin stuttu áður en ég fór að vinna þar.
Sem minnir mig á að það er kominn nýr "staður" á Akranesi. Hann heitir Malíbó og er á Aggapalli við Langasand (fyrir aftan fótboltastúkuna, sjá mynd en vantar Aggapall þarna til hægri fjær) og í tveggja mínútna göngufæri við himnaríki. Þar verður eitthvað hollt og gott á boðstólum; búst, skálar, beyglur ... kaffi auðvitað og svaladrykkir/gosdrykkir.
Ung kona (Rakel Mirra Njálsdóttir) rekur Malíbó og vonandi verða Skagamenn og gestir duglegir að mæta. Ég ætla að minnsta kosti að gera það. Þetta lítur mjög vel út. (Það er alltaf hægt að ná mér ef avókadó er í boði, kannski eru slíkar beyglur í boði). Skessuhorn segir að það sé opið frá þri.-fös. kl. 10-17 en lau og sun 11-17. Lokað á mánudögum.
Áhyggjur mínar síðustu daga hafa mestmegnis snúist um bakaraofn himnaríkis. Hvort ég hafi mögulega eyðilagt hann með því að nota of sterkt hreinsiefni, ætandi mögulega, ég fékk efnið gefins í ómerktri glerklukku og átti að bera á með tusku og hafa gúmmíhanska á höndunum, láta liggja yfir nótt og þrífa svo af ... Nú eru hvít ský víða í ofninum sem fara ekki sama hvað ég þríf oft. Ef ég ætla að selja himnaríki, sem ég geri einn daginn, verð ég að kaupa nýjan ofn, nema ég gefi afslátt upp á c.a. verð ofns og leyfi nýjum eigendum að velja. Margir fínir á innan við 100 þús. hjá Elko, sýnist mér. Þá á svipuðu verði hér á Skaganum.
Ef ég hefði áhyggjurnar yðar, frú Guðríður Hrefna, myndi kannski einhver hugsa, en ég get verið voða viðkvæmt blóm stundum, það verður að viðurkennast. Eitt dæmi: Ég fékk vinnutengt símtal frá mjög indælli konu sem gaman var að spjalla við. Í lok símtalsins, þegar við vorum að kveðjast var hún orðið ofboðslega kuldaleg. Svo kuldaleg að ég notaði daginn og kvöldið til að fara aftur og aftur yfir símtalið í huganum, hvað sagði ég, getur verið að ég hafi móðgað hana eða sært og þá algjörlega óvart? Mér hefur reyndar skilist að ég hafi stundum móðgað (án ásetnings) nokkra með bloggskrifum mínum, þegar ég breyti kannski samtölum þannig að þau henti betur sjúkum húmor mínum, hef smávegis sannleikskorn til að gera það trúlegra, eins og samsæriskenningasmiðir, því ég plata, skrökva og ýki hér frekar oft. Ég á til dæmis ekki rosalega marga fyrrverandi eiginmenn, ég man ekki hversu marga en þeir eru ekki óteljandi, eins og ég hef oft gefið í skyn. Kannski bara einn, ég bara man það ekki.
Svo hringdi konan aftur nokkrum dögum seinna og var þá orðin svakalega elskuleg og ég lét á engu bera. Þegar við kvöddumst varð hún aftur svona rosalega kuldaleg og ég áttaði mig á því að hún var farin í næsta verkefni/símtal í huganum, hún var bara fjarlæg, ekki fjandsamleg. Ég barði mig nokkrum sinum í andlitið með blautu handklæði í refsingarskyni fyrir þetta rugl í mér.
Ertu hætt við að flytja í bæinn? hef ég verið spurð um. Nei, alls ekki en himnaríki var á sölu í tvo mánuði án árangurs og þá fannst mér rétt að hugsa mitt ráð. Ég á ráðagóða að og er auðvitað ansi snjöll sjálf, enda úr Þingeyjarsýslu.
Einn möguleikinn er að bíða átekta, jafnvel fram á næsta ár, og gera þá ný vinnuplön miðað við það. Annar möguleiki er að fá einhvern algjöran hákarl í borginni til að bæði selja himnaríki OG finna draumaíbúð handa mér. Mig langar í þriggja herbergja íbúð, á stað þar sem er mikið líf (og stutt í strætó), miðborgin kemur því miður ekki til greina því ég hefði bara efni á einhverju algjöru greni fyrir 54,9 milljónirnar sem eru settar á himnaríki.
Virðuleg frú á mínum aldri nennir ekki að skuldsetja sig og borga í framtíðinni allan ellilífeyrinn sinn í lán í staðinn fyrir brennivín og karlmenn! Ég var búin að finna mjög fína íbúð, á góðu verði, á draumastað með smá útsýni og allt, en missti hana af því að mín seldist ekki. Í raun liggur mér ekkert á núna, ég elska himnaríkið mitt og góða fólkið mitt hér á Akranesi, en ég sakna líka vina og vandamanna í bænum.
Allir Skagamenn vita að leiðin frá Reykjavík og upp á Akranes er svo miklu, miklu lengri en leiðin frá Akranesi í bæinn ... og það er bölvað vesen stundum, finnst mér, (sérstaklega á hátíðum) að vera strætóandi og upp á aðra komin með skutl þegar strætó gengur ekki.
Bíddu, bíddu, ertu ekki með þyrlupall á hlaðinu hjá þér? hugsa eflaust allir ... en þyrlur hafa bara hækkað of mikið í verði til að það sé forsvaranlegt að nota þann ferðamáta, líka skortur á þyrluskýlum á Skaganum, oft svo mikill vindur á Íslandi og það versta; Ásdís Rán, hirðþyrluflugmaðurinn minn, gæti endað á Bessastöðum og nennir þá tæplega að skutla mér á milli.
Er að hlusta á ansi skemmtilega bók eftir Stephen King og Richard Chizmar ... hún heitir Gwendy og er nýkomin inn á Storytel, lesin af Sigríði Lárettu Jónsdóttur sem er súperfínn lesari. King er á svipuðum slóðum og alltaf, ekki svo mikill hryllingur samt, alls ekki eins og er t.d. í Pet Semetery (fyrsta SK-bókin sem ég las og treysti mér ekki til að horfa á myndina). Þessi er hófstilltari og fyrir þau sem vilja langar bækur: hún er 16 klst. og 30 mín. Ég er með stillt á hraðann 1,2 sem styttir talsvert. Er búin með tæpa níu tíma og á fjóra tíma og 50 mín. eftir. Enda er allt afar fínt í himnaríki núna (nema bakaraofninn) og svo hefur heklaða teppið handa stolna barnabarninu í næsta húsi líka lengst nokkuð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2024 | 17:48
Stórviðburðir í þrennum ...
Hver stórviðburðurinn rekur annan og spurning hvað er orsök og hvað afleiðing. Ég ákvað í gærkvöldi að taka himnaríki úr sölu, hvort sem það er til lengri eða styttri tíma. Þarf að ákveða næstu skref. Það var svo eins og við manninn mælt um tíuleytið í morgun að Langisandur hlaut enn einn bláfánann - sem er alþjóðleg viðurkenning fyrir hreina og ómengaða strönd. Ekki bara montflagg, heldur nýtist hann einstaklega vel sem vindhani fyrir okkur íbúana við hafið.
Alltaf hálfgerður fúlheitadagur þegar fáninn er tekinn niður í sumarlok, þótt viðurkenningin tengist alls ekki bara sumrinu og sandurinn fái bæði innlenda og erlenda gesti allan ársins hring. Hér er allt of oft logn við Langasand á sumrin og ekki jafnmikil þörf á vindhana, frekar þegar lægðirnar dásamlegu koma og gera sjóinn sjúklega flottan en fyrstu árin fengum við notið fánans langt fram eftir vetri. Einhver sem stjórnar bláfánadæminu núna sviptir mig þeim möguleika að kíkja út um gluggann til að gá til áttar, svo ég neyðist til að nota gemsann sem síðan skammar mig í sífellu fyrir allt of mikla notkun. Það er talið með þegar ég nota símann til að hlusta á sögu - við húsverkin þannig að ég er algjör gemsabófi.
Ekki löngu eftir að bláfáninn fór að blakta byrjaði að gjósa handan við Faxaflóann. Ekki endilega tilviljun. Stórviðburðir koma oft í þrennum. Ég átti að vera úti í bæ í kaffi milli 11 og 12 en því var óvænt frestað. Það er greinilega passað upp á okkur nördana, líka óvart.
Þrír fjórðu af þeim sem hér búa sátu við tölvuna og fylgdust með - eftir að skjálftahrinan hófst og farið var að rýma. Sjá lýsandi mynd hérna efst. Keli og Mosi gáfust fjótlega upp og lögðu sig. Ég sat á vaktinni allt þar til fór að gjósa, vonaði nú samt að þetta yrði bara kvikuhlaup sem kæmist ekki upp. Myndin hægra megin á samsettu myndinni (sem sýnir tímaröðina) var tekin þegar sex mínútur voru liðnar af gosinu og strax nokkuð myndarlegur bólstur kominn, hann átti eftir að stækka en skýin fóru fljótlega að blanda sér í keppnina um athygli svo ég einbeitti mér að vefmyndavélum og RÚV2. Einhver þarf að fylgjast með þessu, eins og ég segi við áhugalausa ættingja mína sem láta sér nægja að horfa á fréttirnar í kvöld! Döh!
Í fjórum orðum ... hvernig eyðileggur maður stefnumót?
Svörin sem bárust voru sum byggð á reynslu!
Níu börn, fimm mæður! (sönn saga, fyrsta og eina stefnumótið)
Ég elska Jesú Krist.
Við mamma búum saman.
Minn fyrrverandi gerði vanalega ...
Tæknilega er ég gift/ur.
Sálfræðingurinn minn sagði að ...
Ég gleymdi veskinu mínu.
Ég kýs Arnar Þór! (djók, þetta var Trump)
Meðan ég sat inni ...
Giftur tvisvar, skilinn tvisvar!
Ég þoli ekki fótbolta!
Ég tók pabba með.
Ég tók mömmu með.
Ég er á skilorði.
Hef fylgst með þér ...
Mamma skutlaði mér hingað.
Hlauptu, frúin er hérna!
Ég þoli ekki hunda/ketti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 21
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 173
- Frá upphafi: 1529795
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 154
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni