21.1.2024 | 17:43
Sjokkeruð tepra ... og þó
Tepruskapurinn í mér fékk svolítið áfall á föstudagskvöldið þegar Hugleikur Dagsson var með uppistand í sjónvarpinu, á ensku, þetta var upptaka frá Finnlandi þar sem hann skemmti þarlendum. Ég held og hef lengi haldið að Finnar séu með dásamlegri þjóðum. Ein heimsókn þangað (kórferðalag) á síðustu öld, kynnin við Ritvu, Matta, Leningrad Cowboys (finnsk hljómsveit), Lordi og ótal margt fleira. Já, uppistandið ... sko, ég er yfirleitt ekki sérlega hrifin af neðanbeltishúmor, finnst hann oft ansi þunnur og leiðinlegur, gerir lítið úr bæði körlum og konum ... en ... Nokkrum sinnum á meðan ég horfði hugsaði ég: Hulli þó! Oftast var nú alveg hægt að glotta út í annað og jafnvel flissa ... sumum tekst ágætlega að fara illilega yfir línuna, en þegar hann fór að segja prumpbrandara missti ég mig gjörsamlega úr hlátri í stofusófanum. Púðinn við hliðina á mér, sem ég tróð upp í mig, kom í veg fyrir að nágrannar mínir, Jaðarsbraut, Höfðabraut, Garðabraut, hringdu í lögregluna, þvílík voru lætin. Gott að stráksi var ekki heima, hann hefði ekki skilið þessi vein mín yfir lýsingum á glútenóþoli og hljóðunum og vandræðaganginum sem orsakast af því ... Finnsku áhorfendurnir skemmtu sér konunglega allan tímann. Ég er endalaust þakklát RÚV fyrir að sýna þessa uppistandsþætti. Hef séð þrjá síðan undir áramót, en ansi lítið sjónvarpsgláp mitt gæti mögulega hafa komið í veg fyrir að ég hafi séð fleiri, ef hafa verið. Best að kíkja á ruv.is við tækifæri hvort svo sé.
Mynd: Hjónin í næsta húsi settu enn eitt stúlkna- og drengjametið í elskulegheitum núna áðan með matarsendingu. Enn og aftur. Dugar í þrjár himneskar máltíðir.
Um þessar mundir eru fjögur ár síðan endurbætur hófust í Himnaríki. Ég fékk nýtt bað og nýtt eldhús, ný gólfefni og fataskápa. Allt var málað og tekið í gegn. Í leiðinni losaði ég mig við hátt í helminginn af eigum mínum, bækur, húsgögn, húsmuni og reyni enn í dag að hemja mig svo ég fari ekki að safna að mér dóti aftur. Gengur frekar illa þegar kemur að bókum. Þær hafa svolítið safnast upp. Reyni að losa mig við eitthvað af þeim jafnóðum, og svo dót í staðinn fyrir annað dót ... En mikið rosalega er skemmtilegra og fljótlegra að taka til. Enn hugsa ég með þakklæti til Didda og kó (Trésmiðja Akraness), Guðnýjar og allra frábæru mannanna sem komu að endurgerð þessarar glæstu íbúðar. Að fá þvottahúsið inn á bað var bara æði, miklu skemmtilegra að þvo og vera komin með fatahengi og hol í stað pínulitla þvottaherbergisins sem var áður. Ótrúlegt samt að það séu komin fjögur ár! Baðljósið sem lífgaði áður upp á veggina er nú komið inní eldhús og stendur sig ágætlega við að lýsa mér við eldamennskuna.
Hvernig í ósköpunum getur það truflað nokkurn mann að fólk sem á ættingja og vini í lífsháska tjaldi á túnbletti um hávetur? Myndi maður ekki aðallega hafa áhyggjur af því að því sé kalt? Heyr, heyr, Egill Helgason.
Svokallaðir Burner Accounts í Bandaríkjunum hafa verið notaðir til að senda ógeðsleg skilaboð á trans fólk. Trans kona segir: Eftir 7. október sl. hef ég ekki fengið nein skilaboð af þessu tagi. Af því að þetta er sama fólkið, öfgakenndir trúarofstækismenn í USA og Bretlandi, sem keppist nú við að koma óorði á stuðningsfólk Palestínu.
Skyldi það vera? Sá nýlega ljóð eftir skáldið sem hefur vissulega fært athygli sína og sinna frá trans fólki að tjöldunum á Austurvelli.
Jón Frímann:
Jarðskjálftavirknin er núna orðin sú sama og fyrir eldgosið þann 14. janúar 2024. Þetta er eins og rúmlega 10 klst. fyrir eldgos. Hvort ég hef rétt fyrir mér verður að koma í ljós. Þetta eru spennuskjálftar í Krýsuvík og við Kleifarvatn vegna þenslu í Svartsengi og annarra færslna á svæðinu við Grindavík og Svartsengi.
Jón Frímann (leikmaður í fræðunum, afar fróður og sannspár) var spurður hvort hann hefði tilfinningu fyrir því hvar næsta gos komi: Því miður er líklegt að næsta eldgos komi sunnan við eldgosið sem varð þann 14. janúar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2024 | 15:27
Allt vitlaust í kjölfarið ...
Rafræn dagbók var tekin upp á þessu heimili undir áramót og það var eins og við manninn mælt, allt varð vitlaust í kjölfarið. Næsta vika er eiginlega troðfullbókuð ... Mánudagur: stjórnarfundur í húsfélagi Himnaríkis þar sem ég er riddari. Þriðjudagur: Hekls Angels-hittingur. Miðvikudagur: Tannlæknir. Fimmtudagur: Fundur. Föstudagur: Enn laust, ótrúlegt. Ég er manneskjan sem fann engan mun á lífi mínu eftir að samkomubann skall á um árið. Nú er ég lafmóð upp á hvern einasta dag, svo mikið er annríkið. Mér finnst ég líka eitthvað svo tæknileg þegar ég kíki í símann minn til að athuga hvort ég eigi lausan tíma ... hvort ég komist í orðuveitinguna á Bessastöðum, í Höfða í kokteildraugapartí, hluthafafund hjá Samherja, afmælisveislur hjá Fokkerliðinu og slíkt. Ég skelli öllu mjög áríðandi inn í rafdagbókina, það er ekki eingöngu djamm með fína fólkinu (sjá mynd, Hugh Grant er einmitt að tala við mig þarna, ráðleggja mér að gerast ekki bakrödd í Oasis, eins og munaði minnstu), heldur vil ég láta minna mig á þegar koma út girnilegar bækur (bók, hef bara gert það einu sinni og það var óþarfi) á Storytel. Bók upp á 25 klukkutíma í lestri, við erum ekki einu sinni að tala um gönguhraða ... en hún veldur mér reyndar hálfgerðum vonbrigðum, líklega voru væntingar of miklar. Húsverkin ganga samt vel á meðan ég hlusta. Finnst stefna í frekar leiðinlega framtíð hjá söguhetjunni, í karlamálum, tek þetta samt aftur ef breytist þennan síðasta klukkutíma sem ég á eftir. Svo er varla talað við kvenpersónuí bókinni án þess að hún sé kölluð sæta ... (nú vita þúsundir hvaða bók ég á við).
Svo er ég að prófarkalesa spennubók, sú er aldeilis ekki leiðinleg, og klára um helgina, vonandi bara á morgun, ef ég fæ frið, ja, hvað segir rafdagbókin sem ræður lífi mínu? Útgefandinn er svo mikið yndi að hann verður með næstu bók (sama höfundar) til yfirlestrar eftir kannski tvær vikur. Það má ekki láta líða langt á milli þeirra, játaði hann, fyrri bókin endar þannig. Sérlega skilningsríkur, bæði í minn garð og annarra spenntra lesenda sem hata óbærilega spennandi endi á sögum og langa bið eftir framhaldinu. Ég prófarkalas Hausaveiðarana á sínum tíma, og þurfti eitt skiptið að standa upp og ganga um gólf, reyna að að draga úr óbærileika trylltrar spennu í kafla þar sem eitthvað hræðilegt gat svo auðveldlega gerst en gerðist svo ekki. Léttirinn stóð samt ekki lengi - þegar söguhetjan gat ekki verið öruggari, staddur í lögreglubíl á ferð, á milli tveggja þéttvaxinna lögreglumanna, þegar hið óhugsandi gerðist allt í einu. Fáránlega vanmetin bók eftir Jo Nesbö, kannski af því að hún var ekki um Harry Hole. Ég sá bíómyndina eftir henni á sínum tíma, útgáfan bauð á frumsýninguna. Þarna var gamall vinur sem hélt utan um hljóðbókaútgáfuupptökuna (ekki Storytel) og sagði mér að hann hefði verið óður af spennu á meðan hann hlustaði á upplesturinn. Eina skiptið sem ég hef staðið upp og þurft að róa mig niður í yfirlestri. Þetta er líka í eina skiptið sem ég hef gengið um gólf, fyrir utan auðvitað þátttöku í Jólasveinar ganga um gólf á jólaböllum æsku minnar. Endilega tékkið á Hausaveiðurunum í næsta bókasafni. Hausaveiðari er sá sem vinnur við að finna bestu forstjórana fyrir risastóru fyrirtækin ... svona eins konar Hagvangur milljarðafyrirtækjanna. Marel? Samherji?
Það ætti að vera óþarfi nú til dags að þurfa að bíða, hvort sem er eftir næstu bókum, eða framhaldsþáttum í sjónvarpi. Ég treysti mér til dæmis ekki til að horfa á aðra Jack Reacher-þáttaröðina á Prime fyrr en allir þættirnir eru komnir. Fyrri þáttaröðin var algjört æði - og ég hef heyrt á fólkinu í kringum mig að það hafi verið martröð að bíða í viku eftir næsta ... ég get slíkt ekki lengur. Svo dekruð er ég orðin en eitt af því fáa sem ég horfi á í línulegri dagskrá er þáttur Gísla Marteins. Það koma alltaf skemmtilegir gestir til hans (mér er alveg sama þótt sumir komi árlega, ef þeir eru skemmtilegir), Berglind Festival er mjög fyndin og ég er líka ánægð með tónlistina, nauðsynlegt fyrir bíllausa kerlingu af Skaganum að fylgjast með nýjustu straumunum í tónlist, ekki kemst hún á tónleika um allt eins og á Reykjavíkurárunum. Úff, henni líður núna alveg eins og forsetaframbjóðanda að tala svona um sig í þriðju persónu ...
Ég kíkti: Nú eru komnir átta þættir af Reacher II, eða allir, held ég, svo kannski, ef ég næ að klára að lesa yfir bókina á morgun gæti ég þá notað sunnudaginn í þættina. Jú, stráksi fer í helgarfjör hjá elsku Möttu svo ég þarf ekki einu sinni að elda. Auðvitað ætti ég að nota helgina í brennivín og karlmenn en ég drekk ekki brennivín og sjáum til með hitt - ef viðkomandi nennir að glápa á Reacher með mér. Ef Einarsbúð sendi nú fleira heim en matvörur ...
Það komu sérdeilis góðir gestir í gær, ljúfa fjölskyldan frá Sýrlandi, nýlega sameinuð. Færðu mér blóm og mandarínukassa, fengu ekki einu sinni heimabakað í staðinn, bara súkkulaðiköku úr Kallabakaríi, sem var reyndar alveg dúndurgóð og kláraðist næstum (stráksi lá svo í henni í gærkvöldi og kláraði alveg). Inga vinkona kom líka, því fleiri, því betra. Hún er vinkonan sem heimsækir nánast bara lönd þar sem ríkir óbærilegur hiti og óbærilega mikið er af skordýrum. Víetnam, Indland, Mið-Austurlönd ... bara nefna það. Það nánast leið yfir mig í fyrra þegar hún fór bara til Parísar í sumarfríinu!
Facebook:
Frosti segir þriðju vaktina vera kjaftæði.
Komment: Hetjan okkar ... ef hann hefur ekki upplifað það, er það auðvitað ekki til.
Komment: Hann er með screenshot sem sannar þetta, ég allavega trúi honum.
Við sem erum með hlaðvarp eða blogg, þurfum auðvitað að grípa til spennandi fyrirsagna og koma okkur jafnvel upp umdeildum skoðunum til að fólk lesi eða hlusti ... kvenhatur virðist virka vel en sjitturinn, ég dýrka konur ... og líka karla. Er líka búin að gefast endanlega upp á því að reyna að verða áhrifavaldur. Bless, draumur um frítt skyr og fríar snyrtivörur. Samt ... kannski þegar ég býst ekki við neinu, kemur tækifærið. Sigling um Karíbahafið yrði vel þegin í þessum skítakulda. Eða bara lopapeysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2024 | 22:54
Mikið þakklæti, Skálmaldarvinkonur og möguleikar glútens
Íbúafundurinn, það sem ég sá af honum, var mjög áhrifaríkur og Grindvíkingar magnaðir, spurðu krefjandi spurninga og sættu sig ekki við loðin svör. Margt kom fram sem fæstir hafa kannski hugsað út í, að fólk sé enn að borga rafmagn og hita af eignum sínum í Grindavík og líka nýja "heimilinu", að margir þurfi að keyra miklar vegalengdir til að láta lífið ganga upp ... ein sem hefur hreingert þrjú eldhús síðan 10. nóv. og svo framvegis. Þegar ein talaði um að það væri lítil stemning fyrir eldamennsku um þessar mundir og frekar eitthvað skyndidæmi keypt, veit ég af eigin reynslu hversu erfitt er að hafa sig í að elda mat eftir áfall - hjá mér í marga mánuði 2018. Jóhanna Leópolds, yndisleg vinkona, mætti óvænt þrisvar sinnum alla leið frá Búðardal með tilbúinn heitan mat handa okkur stráksa og það gladdi okkur mikið. Í eitt skiptið var það rabarbaragrautur ... sem ég hafði ekki smakkað í áratugi, gleymdi einhvern veginn að hann væri til. Með rjóma er hann eins og allra besti eftirréttur. Ég hef eldað hann nokkrum sinnum síðan. Við borðuðum auðvitað mat öll kvöld (hann fékk hádegismat í skólanum) en kannski engin tímafrek glæsilegheit, þetta hefði ekki fengið einn tíunda úr Bridgestone-stjörnu. Kannski var keyptur eldaður kjúklingur, hrísgrjón soðin með og góð sósa, eitthvað slíkt, fljótlegt og fín redding til að fylla magann án þess að vera mikil óhollusta. Svo fórum við oft í bæinn til Hildu um helgar og vorum dekruð þar í klessu.
Gosmyndirnar eru eftir Ragnar Th. Sigurðsson (einn allra besta ljósmyndara landsins, Artic-Images) sem vann með mér fyrir langa löngu og var mjög skemmtilegur samstarfsmaður. Hann kom eitt sinn inn á kaffistofu (þá vann ég á DV 1982-1989 og hann á Vikunni) og spurði: Vitið þið hvað er svona svipað og búmmerang en kemur ekki til baka? Hausar hristust í takt, enginn vissi það og enginn giskaði. Spýta! sagði Raggi.
Það eru liðin sex ár í dag síðan útför Einars fór fram. Ekkert sárt eða erfitt fylgir þessum degi hjá mér og hefur ekki gert þessi ár, bara þakklætistilfinning til allra sem hjálpuðu og gerðu þennan dag eins góðan og hægt var. Veðrið var vissulega ömurlegt; ískalt og hvasst, eins og reyndar var í dag, nema verra, einhverjir komust ekki vegna ófærðar eða treystu sér ekki til að keyra. Skil varla hvernig fyrrverandi mágur minn komst frá Borðeyri og yfir Holtavörðuheiði sem þá var orðin ófær. Allir sem bökuðu kökur fyrir erfidrykkjuna, Sigrún Ósk, dóttir Ingu vinkonu, hélt utan um baksturinn og verkstýrði svo sjálfri erfidrykkjunni með Hlédísi. Ég gæti talið upp svo marga sem buðu fram krafta sína eins og t.d. Palla og Moniku sem sáu um tónlistina.
Minningin frá þessum degi tengist fyrst og fremst þakklæti og minnir mig á hversu fólk er gott og hve góða ég á að, fæ ýmsum seint fullþakkað. Í dag er líka dagurinn þegar snjóflóðin féllu í Súðavík árið 1995. Risaknús til allra Súðvíkinga.
Myndin er af stráksa og Palla á þrettándanum 2018 þegar rætt var um tónlistina í útförinni. Palli hefur nákvæmlega ekkert breyst (það borgar sig greinilega að sleppa því að reykja og drekka) en stráksi aftur á móti stækkað einhver ósköp og svo hefur himnaríki líka gjörbreyst til hins betra.
Þegar við stráksi skruppum í vikulegu skemmtiferðina okkar út í bókabúð og nærbúðir hennar síðasta föstudag, hittum við tvær bekkjarsystur mínar úr grunnskóla (mér finnst ég yngri ef ég nota ekki orðið barnaskóli). Þær heilsuðu og önnur þeirra, Magný, fór að tala um sameiginlega ást okkar á Skálmöld. Hin, Laufey (annar bekkur reyndar, sami árgangur) tók undir bilað hrós okkar í garð þessarar flottu hljómsveitar og sagðist hafa tekið texta sveitarinnar fyrir í íslenskutímum, krufið þá og rætt, en hún kennir sjöunda bekk í gamla skólanum okkar. Frábær kennari, heppnir nemendur. Við ræddum um sérlega velheppnaðan árgangshitting seint á síðasta ári, ekkert fyllirí og vesen, bara skemmtilegheit, byrjaði snemma (kl. 18) og endaði snemma (man ekki alveg hvenær, ég lagði af stað til Reykjavíkur upp úr kl. 21 vegna upplestrar á Bókamessu í Hörpu daginn eftir, munið, úr bókinni okkar Möggu Blöndal, Þá breyttist allt, sem ég treysti að þið hafið öll með tölu keypt og lesið).
Ég er búin að sjá nokkra svipaða statusa á Facebook:
Úff, fyrsti leikurinn sem ég horfi á og strákarnir skíttapa! (Viljið þið vinsamlegast hætta að horfa!)
--- --- --- --- --- --- ---
Fólkið í Los Angeles er dauðhrætt við glúten. Ég sver það, það væri hægt að ræna vínbúð með beyglu í þessari borg. Ryan Reynolds leikari, sjá mynd.
--- --- --- --- --- --- ---
Fólk nær ekki andanum yfir Grindavík og það er vel. En hjá mörgum nær samkennd bara að landamærunum, sérstakt! Mummi Týr
--- --- --- --- --- --- ---
Roberto MANCini þjálfar MANChester City og ARSENe Wenger ARSENal. Kannski bráðsniðugt að ráða eftir nöfnum. Óska eftir þjálfara með upphafsstafinu ÍA fyrir sumarið! Ég sjálf þennan dag árið 2010. Man að ég skellti þessu inn í heitar umræður um enska boltann, til að létta andrúmsloftið, en engum fannst þetta merkilegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2024 | 19:26
Hollustusystirin góða og margir gulir bílar
Fjölbreytnin í systkinahóp mínum er mikil, enda erum við fjölmörg ... við erum ólík og lík og allt þar á milli en öll falleg. Ein af systrum mínum, sérlega hrifin af hollustu, fékk þá hugmynd nýlega að kaupa tvöfaldan skammt af hollustukúr, endurræsingarkúr, eitthvað slíkt, og var svo yndisleg þegar hún sá grilla í öfundarglampa (ég er líka hrifin af hollustu) í augum mínum, að hún gaf mér heilan dag af kúrnum, síðasta daginn hennar sem hefði átt að vera í gær eða dag. Nema, hún sleppti því að gefa mér hráefni í morgunmatinn, því hafragrautur breytist í steypu í maganum á mér. Glútenfrítt haframjöl gæti virkað öðruvísi og betur á þig, stakk hún upp á en ég hristi hausinn. Ekkert fær mig til að borða hafragraut eftir hryllingshafragraut æsku minnar. EKKERT.
Ég drakk kaffibolla í morgunmat, átti að vera með laktósalausri mjólk (ekki til). Svo kom að hádegisverðinum þegar klukkan var langt gengin í tvö, ég get verið frestari stundum. Ég bjó mér fyrst til sérstakt te til að sötra allan daginn, drakk sopa af sterku seyði og hófst svo handa við að hita matinn. Bræddi skírt smjör á pönnu, hitaði fræbyggtrefjakássu-eitthvað þar og setti ögn meira skírt smjör í lokin. Mér tókst með herkjum, hugrekki og hugprýði að borða skammtinn og skildi þá loks af hverju holla systir hafði viljað sleppa síðasta deginum. Bara grunsemdir samt, hún er hetja að geta þetta í fimm daga. Þetta var svolítið eins og kartöfluhýði og roð fræheimsins, því maður bruddi eitthvað sem maður var sennilega vanur að taka utan af einhverju skárra ... Margvíslegt hýði - bragðbætt með skírðu smjöri?
Rétt í þann mund og ég lauk máltíðinni kom Eldum rétt með vikulega kassann, svona eins og til að núa salti í sárin, ég hafði fyrirfram ákveðið að elda ER í kvöld en geyma minn hluta til hádegis á morgun. Þetta hljómar svo miklu verr en það gerði í gær. Í dag tók ég bara einn klukkutíma í senn. Er búin að slökkva á kaffivélinni og holli fiskrétturinn með melónusalatinu verður ábyggilega næstum jafngóður upphitaður á morgun. Þú getur þetta, frú Guðríður! Engum sögum mun þó fara af því hvort þetta tókst hjá mér ...
Þegar við stráksi vorum á leiðinni í Mjódd á laugardaginn, til að taka strætó heim kl. 20, stoppuðum við í Nettó til að kaupa kvöldmat sunnudagsins. Ég sagði honum að ég væri búin að elda svo oft og mikið að ég þyrfti frí. Annaðhvort sæi hann um kvöldmatinn eða við hefðum eitthvað svakalega þægilegt. Ég benti honum á ýmsan girnilegan (og hollan) mat til að hita upp en hann hristi hausinn og stoppaði svo fyrir framan kælinn með 1944-mat sem ég hafði heitið mér að hvíla vel og lengi eftir endurbæturnar 2020 þegar eldhúsið var í lamasessi, eða ekkert eldhús í Himnaríki um hríð. Drengurinn benti á mat sem var honum að skapi ... Kjöt í karrí. Slæmar æskuminningar um kjöt í karrí (áður en ég smakkaði alvörukarrí löngu seinna), skræla sjálf kartöflur og leiðindi flaug í gegnum hugann:
Já, góð hugmynd, elskan! Örugglega voða gott, sagði ég og bætti við: Hvað ætti ég að velja mér? Það hafa bæst við fjölmargar tegundir af réttum og erfitt að velja.
Mangókjúklingurinn er fínn, sagði hljómfögur rödd fyrir aftan okkur. Ég leit við að sá að sjálf Guðrún Bergmann heilsugúrú stóð þarna í eigin persónu. Ég hélt að hún væri svo mikil hollustulögga að hún léti bara sjá sig í Heilsuhúsinu og Gló en greinilega ekki. Hún sagði að barnabörnin stödd í heimsókn hjá henni væru búin að heimta bjúgu í matinn og hún væri að reyna að finna þau. Ég þakkaði Guðrúnu kærlega fyrir og greip pakka af Mangókjúklingi. (Á myndinni hér ofar var ég búin að hræra hrísgrjónunum saman við, annars hefði diskurinn minn líkst myndinni á pakkanum meira, eða kannski ekki. Mangókjúklingurinn reyndist alveg ágætur, takk, Guðrún, og stráksi var líka mjög sáttur við kjötið sitt í karríi, enda fullviss um að hann hefði valið betri réttinn.
Hann sá til mín við matarbrasið skrítna upp úr hádegi og spurði ögn stressaður: Hvað verður í matinn í kvöld? (eins og hann fengi kannski ekkert).
Fiskur, svaraði ég.
Vei, það var líka fiskur í skólanum í hádeginu, sagði hann glaður ...
Það rifjaðist svo upp fyrir okkur þar sem við stóðum í Mjóddinni að fyrr þennan sama dag, þegar við brunuðum einmitt í Mjóddina, sagði einhver í strætisvagninum okkar: Gulur bíll, gulur bíll,, gulur bí- sem okkur fannst sérlega fyndið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2024 | 15:42
Gosið, tilviljanir, bæjarferð og fleira ...
Ótrúlegur morgunn. Eldgosahópurinn minn á Facebook var á vaktinni og bling-hljóðin í gemsanum urðu til þess að ekki var sofið út á þessu heimili, klukkan hafði verið stillt á ellefu en fótaferðartími var upp úr átta, kannski 20 mínútum eftir að gosið hófst. Stráksi rumskaði ekki við almennan fótaferðarhávaða, eins og tannburstun, læti í kaffivél og slíkt.
Eins og það var spennandi að fylgjast með fyrstu gosunum (þremur) á Reykjanesskaga fer spenningurinn ört minnkandi, svona þegar þetta er ekki lengur í öruggri fjarlægð. Vissulega er þetta alltaf magnað sjónarspil, svo magnað að ýmsir fara að leggja í hann gangandi, vilja komast að gosinu til að sjá betur. Það er komið frost, þetta er gríðarlega löng leið, frekar ruglað að reyna þetta. Gosið sést líka mjög vel í gegnum vefmyndavélar. Elsku, elsku Grindvíkingar. Þetta er orðið enn verra en þau allra svartsýnustu bjuggust við, held ég.
Efstu myndina tók ég út um einn stofugluggann um kl. 9.30 í morgun, eitthvað dæmi í símanum mínum kann að vinna myndir svo hún er bjartari en raunveruleikinn sýndi. Þegar varð alvörubjart sást ekki næstum því eins vel í strókinn.
Við stráksi skruppum í bæinn (til Kópavogs) í gærmorgun en gistum ekki sem þýddi að hægt var að taka þessa ljósmynd af gosinu í morgun. Síðast, eða 18. des., myndaði elskan hún Svitlana gosið fyrir mig. Í morgun myndaði hún frá flugvél, sá ég á Fb. Út um gluggana hjá Hildu systur sé ég bara Esjuna (mjög kúl) og heyri í þyrlum. Við stráksi vorum sótt í Mjódd og í Grænatúninu beið okkar ekkert annað en veisla, ansi hreint glæsilegur bröns (árdegisverður?) og fleiri gestir á leiðinni. Ég hef ekki tölu á hversu margar litlar pönnsur með nutella stráksi borðaði en efa ekki að fötin hans hafi þrengst til muna ... Svo þegar veislu lauk tók systir mín til við að skemmta okkur og við hófum ferðina í Sorpu, eins og oft áður. Sáum sterkan mann fleygja einu stykki sófa í ruslið á meðan systir mín fleygði pappa hinum megin á rampinum. Partíið var sannarlega ekki búið því næst var haldið að dælu níu við bensínafgreiðslu Costco. Lítrinn meira en hundraðkalli ódýrari en á sumum öðrum bensínstöðvum ... Kíktum í Costco í leiðinni og ég keypti bunka af fínum bréfpokum til að nota undir pappa og lífrænt (þegar kemur að því). Til öryggis, því ég man yfirleitt eftir því núorðið að taka fjölnota poka með í búðir svo brúnir bréfpokar hlaðast ekki svo glatt upp hér. Fyrst má nota hvaða bréfpoka sem er, nánast, get ég notað slíkan poka undir lífrænt, þegar að því kemur hér. Ekki svo auðvelt fyrir bíllausa að nálgast löglegu pokana, alveg væri ég til í að kaupa poka ... en þeir fást ekki, nema hjá Sorpu. Lét undan stráksa og keypti undarlegan hlut í Costco ... fullan poka af súkkulaðihúðuðu poppkorni. Við höfum samt ekki lagt í að smakka. Ég hef keypt eitthvað sérstakt ammrískt sælgæti (M&M með saltstangafyllingu) sem bragðast illa, framandi og hræðilegt.
Neðri myndin er í raun þrjár myndir sem eru samansettar af mér. Efsta af Hildu að baka ammrískar pönnsur, stráksi fylgist með, fullur aðdáunar, þá kraftatröllið með sófann í Sorpu og síðast heimsókn að dælu níu.
P.s. Við stráksi smökkuðum súkkulaðipoppið, það var ágætt.
Facebook dagsins:
Sagan segir að til Íslands hafi komið ISIS-maður til að skipuleggja massíf hryðjuverk á öllum innviðum, t.d. sorphirðu, póstþjónustu og jafnvel að rústa heilbrigðiskerfinu. Þegar hann sá að íslensk yfirvöld voru búin að afkasta allri eyðileggingu sem hann hann planaði og meira til, gafst hann upp og gerðist fjölskyldufaðir á Akureyri.
Komment frá Akureyringi: AA-maður (aðfluttur andskoti).
... ... ... ... ... ... ...
Ein og ein manneskja talar um Friðrik X. en fær sáralitlar undirtektir. Á Vísi var minnst á skrítna tilviljun, en síðast þegar skipt var um konungborna hefðardúllu á Norðurlöndunum gaus líka. Haraldur Noregskonungur tók við þann 17. janúar 1991, eftir að Ólafur, faðir hans, lést. Daginn eftir fór að gjósa í Heklu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2024 | 14:24
Glæpsamlegur sparnaður ...
Fólkið sem ákvað fund klukkan níu í morgun ber ábyrgð á því að eldhúsið hjá mér er orðið fáránlega fínt, eða var orðið það undir hádegi. Virkar stærra eftir að All bran-pakkarnir voru tæmdir ofan í Tupperware- morgunverðarplastdunkinn og líka kornflexið mitt og allt annað var sett á sinn stað inn í skápa, búið að vera lengi á leiðinni þangað. Morgunstund ... og allt það.
Nýja skólastúlkan er orðin einstaklega spennt að byrja í Brekkó eftir svo ljúfar móttökur sem við fengum bæði í gær og á fundinum í morgun. Ég væri til í að vinna í skólanum, meðal annars út af spennandi tækninýjung ... vissuð þið að til eru blöndunartæki með hnappi sem maður ýtir á og ... kolsýrt vatn rennur í glasið? (Fæst í BYKO, ég gúglaði) Og vissuð þið að það eru ekki lengur til kennarastofur? Nú er það bara kaffistofa starfsfólks. Nema Skaginn sé svona brjálæðislega framúrstefnulegur.
Hef ekki séð nýja þáttinn, Kennarastofan (úrelt nafn?), er enn með einhvers konar ofnæmi fyrir stöðugu glápi á sjónvarp. Nema fréttir fá oft undanþágu. Svo finnst mér Gísli Marteinn með skemmtilega þætti, áhugavert fólk og flotta tónlist, Berglindi Festival hef ég dáð síðan hún var með umfjöllun um vín í matvörubúðum og talaði m.a. við barn á Hvolsvelli (minnir mig) sem viðurkenndi að það drykki óhóflega af því að Vínbúðin væri í sama húsi og matvörubúðin, meira að segja opið á milli. Mjög fyndið innslag. Það þarf ekki meira til að gleðja mig en barn sem skrökvar til um drykkju ...
Þegar kreppan skall á árið 2008 tók ég þá ákvörðun að spara enn meira en áður, eiginlega í öllu ... nema kaffi. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vill meina, skv. nýlegri frétt, að hægt sé að spara stórfé á því að hætta með Nespresso-kaffi á opinberum stofnunum, og gera frekar eins og hans skrifstofa sem hefur yfir að ráða gamalli baunavél, og nota baunir frá Te og kaffi (sem hann kaupir í Bónus) ... sem sagt, alveg eins vél og kaffi og ég. Iðulega kaupi ég Espresso Roma frá Te og kaffi, sem er sjúklega gott úr baunavélinni minni ... og með kaffirjóma.
Þegar koma gestir á stærri fundi hjá FA er hellt upp á BKI-kaffi. Ég segi kannski ekki að það sé morðtilræði en það er talsverður munur á gæðum, að mínu mati. Ef fólk gætir þess að geyma kaffi í lokuðum umbúðum og ekki út í það óendanlega, helst það gott (minna vont) lengur. Það var undarleg reynsla að heimsækja gamla vinkonu mína eitt árið. Hún drekkur ekki kaffi sjálf en átti þó sjálfvirka kaffikönnu og kaffi í bauk sem var til skrauts uppi á hillu og hafði verið þar svo lengi sem elstu menn muna. Alla vega tvö ár. Þegar undarleg lykt fyllti íbúðina hennar (eldgamalt Bragakaffi að hellast upp á) baðst ég vægðar og fékk kók eða pepsí. Sumir segja að Nespresso sé ekki alvörugæðakaffi en miðað við vinnsluna að baki því, að troða kaffi í lítið hylki hef ég nú alveg smakkað verra kaffi en það. Nespressovélar eru einfaldar að gerð og hægt að fá flóara með þeim svo það er auðvelt að gera cappuccino og latte. Mæli með g-mjólk eða laktósalausri mjólk til að gera froðu ... ég er reyndar ekki hrifin af froðu svo ég nota venjulega nýmjólk í slíkum flóurum.
Það eru annars gífurlegar framfarir að bjóða starfsfólki hins opinbera upp á betra kaffi en áður var. Ekki bara gleður það starfsfólkið heldur það eykur afköst þess og almenna vinnugleði að auki. Ég man þegar ég færði Grensásdeild, þar sem mamma lá um tíma, pakka af Kosta Ríka-kaffi frá Kaffitári - og óstjórnlega gleði starfsfólksins yfir því að fá gott kaffi í staðinn fyrir horbjóðinn í glæru plastpokunum. Innkaupadeild Landspítalans hefur án efa ekki viljað láta starfsfólk sitt sjá merkimiðann þar sem á stóð: ATH, uppsóp, notist aðeins við kertagerð. Ég hef fínt bragðskyn og þegar ég smakkaði það í einni heimsókninni til mömmu, fann ég nú samt í gegn sterkan keim af óþverranum sem hafði runnið í gegnum þessa kaffivél í mörg ár.
Stundum var gott kaffi í vinnunni minni, stundum vont sem varð þá til þess að við skruppum oft frá (einu sinni til tvisvar á dag) og keyptum okkur latte, bara til að lifa daginn af. Ég kom síðar með pressukönnu að heiman sem ég fékk að geyma í Gestgjafaeldhúsinu og reglulega með kaffipakka af gæðakaffi ... það hélt lífinu í mér og heppnu samstarfsfólki sem mættis snemma í vinnuna.
Ég gerði könnun fyrir Gestgjafann skömmu eftir aldamótin. Komst að því að dýrara kaffið, var í raun ekki svo mikið dýrara þegar bollinn af því var borinn saman við bollann af því ódýrasta, verðmunurinn náði ekki einni krónu! Sjálfsagt eru það krónur í dag, og fer kannski 50 kall nema einhver nái að stöðva Seðlabankastjóra, þið vitið! Að spara í kaffi sem er ætlað starfsfólki sínu er eiginlega glæpsamlegt. Það kom dýrara kaffi í vinnuna mína um tíma eftir að karlkynssamstarfsmaður hafði bent karlkynsframkvæmdastjóra á svo "gott" (ofmetið, súrt) kaffi sem hefur því miður nánast yfirtekið sjoppurnar við Þjóðveg 1 svo latte-skreppferðirnar héldu enn um sinn áfram. Held að ég hafi gleymt könnunni minni þegar ég fór að vinna heiman frá mér.
Þegar ég heimsótti Elfu vinkonu til Seattle (eða öllu heldur La Conner í klst.fjarlægð) í fyrsta sinn, starfaði Tom hennar sem yfirmaður hjá Slökkviliði Seattle (hann er nýhættur eða við það að hætta núna). Hann var svo góður að bjóða mér í heimsókn í vinnuna og ég lenti á rólegum degi. Það vakti einna mesta athygli mína að á þeim slökkvistöðvum sem við heimsóttum var aðeins í boði gott kaffi ... og hrikalega sætir slökkviliðsmenn. Seattle er vagga kaffimenningar í Bandaríkjunum og fyrsti Starbucks-staðurinn opnaði einmitt þar. Við Elfa vorum á ferðinni þar daginn áður en Bill Clinton, mætti í opinbera heimsókn þangað. Hann hlýtur að hafa verið hættur sem forseti (hætti 2001) því ég fór fyrst til Elfu 2002 og var svo hrikalega stressuð um að ég segði óviðeigandi sprengjubrandara alveg óvart (vinkona mín gerði það einu sinni, ekki óvart) og fengi ekki inngöngu inn í landið. Þetta var bara fjórum mánuðum eftir árásirnar 11. sept. og allir á taugum. Hjá Elfu fékk ég ótrúlega gott kaffi (ekki Starbucks, hún er ekki hrifin af því), í La Conner, gamla heimabænum hennar, er kaffihús sem bauð upp á eitt besta kaffi sem ég hef smakkað en svo urðu eigendaskipti og kaffið er svo sannarlega ekki gott lengur. Mikil vonbrigði þarna 2019.
Hjá Bean around the World í Vancouver í Kanada (sjá mynd), er líka sjúklega gott kaffi. Frá litla bænum sem Elfa býr í núna, einnig í Washington-ríki, (Conway) er stutt til Kanada.
Ég hef heimsótt Elfu og Tom nokkrum sinnum, síðast yfir jólin 2019, og er komin með heilmikla heimþrá þangað aftur. Svo þarf að heimsækja frænda til Búdapest, Kamillu til Danmerkur ... sjáum til hvað ég verð dugleg að drífa mig. Þarf bara að muna að endurnýja vegabréfið, það rennur út núna 2024.
Jæja, best að halda áfram að vera dugleg, kattasandurinn bíður ... og stráksi er nokkuð snjall á ryksuguna og fær að sýna það á eftir!
Best á Facebook í dag:
Þessi mynd hérna fyrir ofan er skemmtileg þegar farið er að rýna í hana og lesa. Ég skrollaði svo sem ekki lengi, frekar mikið af auglýsingum alltaf, alls konar síður sem renna niður vegginn manns þótt maður hafi ekki lækað eða nokkuð, en sjást samt. Stundum er það fínt, stundum ekki. Og Facebook sýnir manni bara takmarkað frá fb-vinum. Nýjasta síðan sem ég lækaði heitir Free photoshopping ... hélt að þetta væri grínsíða en hún er það ekki í raun. Ég leita grimmt að mynd af konu í brúnum leggings en vesalings konan bað um að fótósjoppa eitthvað í burtu en fékk bara fyndnar myndir. Ég flissaði yfir þessu eitt kvöldið, reyndi að leggja á minnið hvar ég sá þetta en gleymdi ... ekki hægt að gúgla. Var þetta Fyndna frænka, Fyndi femminn ...? Þetta rekur aftur á fb-fjörurnar einn góðan veðurdag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2024 | 18:41
Kökuhneyksli í Danaveldi
Framúrskrönglið í morgun var með því erfiðara því það var ekki nokkur leið að fara á fætur um miðja nótt (birtustig), klukkan tíu í morgun. Snjór og hálka ekki í miklu uppáhaldi hér en það er nú samt miklu bjartara þegar umhverfið er hvítt, ég viðurkenni það. En ... ég þurfti til tannlæknis klukkan hálftvö! Vanalega geng ég þessa frekar stuttu leið frá Himnaríki en ég verð pínku verri þótt ég vökni þegar blæs líka, finnst mér. Strætó varð það, heillin, en þannig stendur á ferðum strætó að annaðhvort er að mæta fimm mínútum of seint eða tuttugu og fimm mínútum of snemma. Ég kaus að vera fyrr á ferðinni og dundaði mér við að lesa gömul tímarit á meðan ég beið. Sjúklega stundvís? Já, ég reyni það.
Í fyrsta sinn í nokkur ár vill tannlæknirinn gera meira en taka myndir, gera við hluta úr jaxli, svona áður en hann fer að skemmast að ráði, svo ég fer aftur í þarnæstu viku. Hann hrósaði mér fyrir að bursta vel, vera hætt að reykja og fyrir almenna fegurð (tanna) en ég fékk engin verðlaun. Kvartaði í stráksa þegar ég kom heim og honum fannst það bráðfyndið, samt fær hann alltaf verðlaun.
Myndin er svo lýsandi fyrir tannlæknaferðir mínar - nema í dag var bara skoðun og myndataka. Svona verð ég eftir hálfan mánuð á meðan ég fæ deyfingu.
Fór svo með vini mínum og nýkominni dóttur hans í Brekkubæjarskóla þar sem hún var innrituð. Móttökur voru sérdeilis dásamlegar í gamla skólanum mínum og stressið í tilvonandi áttundabekkingnum minnkaði með hverri mínútunni. Aldeilis sem skólinn hefur stækkað og breyst. Til hins betra, myndi ég segja, það ríkir einhvern veginn frjálslegur og afslappaður andi þarna, fagmannlegur líka, flottar myndir eftir nemendur á veggjum, engir svipusmellir í fjarska eða brotin kennaraprik á gólfum ... Það var vissulega strangari agi í gamla daga, ótrúlega fátt sem braut upp daginn, nema kannski mismikið frosið á manni hárið eftir sund og leikfimi.
Ég verð að lýsa yfir hneykslan minni yfir "karlmannlegu konungskökunni" sem á að bjóða Dönum upp á í tilefni þess að Friðrik verður kóngur og tekur við af elskunni henni Margréti Þórhildi. Hráefnin í kökunni eiga að þola ferð með pósti svo "allir" landsmenn geti fengið að smakka, það er pælingin. Í Friðrikskökunni (þeirri til vinstri á mynd) er meðal annars heslihnetupralín! Það þarf ekki að gúgla lengi til að komast að því að 2% mannkyns okkar megin í heiminum, þjást af ofnæmi fyrir hnetum. (Ekki nema sex milljón manns í USA!)
Hátt í 60 þúsund Danir myndu sennilega deyja eða veikjast eða verða slappir eða finna fyrir kláða í hálsinum ef þá langar rosalega til að smakka kökuna. Algjörlega sambærilegt gerist á Íslandi þegar konudagskakan fer á markað ár hvert, endalaust hnetudót sem er óborðanlegt fyrir hátt í fjögur þúsund landsmenn. Setjum upp reikningsdæmi: Ef konudagskakan kostar 5.000 kr. og við gefum okkur að tvö þúsund manns, eða helmingurinn af ofnæmisgemlingum landsins sleppi því að kaupa kökuna er þetta beint tap upp á tíu milljón krónur fyrir bakarí landsins. Ég hef ekki keypt konudagsköku síðan Siggi í Bernhöfts var með hvíta dásemdarköku eitt árið fyrir löngu, algjörlega hnetu-, möndlu-, döðlu- og rúsínulausa. Ekkert núggatpralínhnetuhryllings-neitt. Verum eins og Siggi!
Dönum er nákvæmlega ekkert heilagt! Ég gúglaði að gamni mínu Margrétarkökuna sem var gerð til að halda upp á daginn þegar Margrét tók við krúnunni 1972 ... fór að hugsa um að ég gæti fengið mér hana sem skaðabætur í staðinn fyrir Friðrikskökuna ef ég væri á ferðinni í Köben einhvern daginn. Viti menn, Margrétarkakan er troðfull af einhverjum hryllingi líka! Mjúkt núggatkrem kom fyrst upp ... Jæks! Ég ætla ekki einu sinni að ganga fram hjá La Glace-konditoríinu, ég er svo hissa og sjokkeruð. Við erum kannski bara réttdræp, við sem hötum hnetur?
Þetta óþol mitt fyrir hnetum var lengi vel og er kannski enn kallað matvendni og hlegið að mér, sagt að ég hafi nú borðað smákökur með hnetum án þess að finna fyrir því ... (þær hafa vissulega nokkrar smákökurnar endað í vasa mínum eða veskinu eftir lítinn bita, stundum bitinn líka ef servíetta er í grennd). Snilld mín við að láta kökur hverfa hratt hefðu komið mér í galdamannasamfélagið eða jafnvel samtök búðaþjófa ef ég hefði kært mig um - en ég læt bara nægja að bjarga mér frá hálskláða eða einhverju verra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2024 | 18:35
Að stela barnabörnum, þjást yfir statusi og flissa yfir pokum
Ólíklegasta fólk deilir nú "voða sniðugum" status um hversu snjallt það væri að setja gamla fólkið í fangelsi og fanga á elliheimili. Kannski sama fólkið sem brjálast ef á að setja morðingja á réttargeðdeild því viðkomandi eigi slíkan lúxus ekki skilið, heldur beint með hann í fangelsi ... einmitt. Þarna gefur fólk sér að það sé lúxuslíf að sitja inni og jafnframt hroðalegt að búa á dvalarheimili. Í raun er það þannig að fangar fá t.d. ekki tilbúinn heitan mat, þeir þurfa að kaupa sjálfir matinn ofan í sig og elda hann. Er nánast viss um að þeir væru allir sem einn tilbúnir til að svissa, fá frelsi í staðinn - og heitan eldaðan mat. Við etjum endalaust saman hópum (vinsælt er: öryrkjar vs hælisleitendur, eitt sinn var það: gamla fólkið gegn öryrkjum) í stað þess að kalla á réttlæti fyrir alla.
Það fór virkilega vel um mömmu á Eir, hef bara heyrt hrós um Höfða hér á Akranesi og vinkona mín var alsæl með hvernig aðbúnaður mömmu hennar var á Grund. Ég veit að dvalarheimili eru misjöfn og ég veit líka að aðbúnaður fanga á Íslendi er talsvert betri en í sumum öðrum löndum. En það getur varla verið eftirsóknarvert að missa frelsi sitt.
Í gær fékk vinur minn fjölskyldu sína til sín (loksins, eftir rúmt ár), konu og dætur frá Sýrlandi, en hann kom á undan til að sækja um hæli hér fyrir þau. Konan hans er sennilega komin með vinnu nú þegar sem hún getur byrjað í þegar hún fær kennitölu. Íbúðin sem þau leigja er lítil en þau eru alsæl með hana, það munar líka um hvern tíuþúsund kall sem þau borga minna. Þau fá húsaleigubætur eins og aðrir en verða að standa sjálf skil á öllu öðru fyrir launin sín, leigu, leikskólagjöldum og slíku. Aðeins öðruvísi en sumir vilja meina, eða að fólk komi aðeins hingað til að lifa á kerfinu og fá allt fyrir ekkert. Þekki ekkert slíkt fólk og hef þó kynnst fjölda hælisleitenda.
Þau buðu mér í kaffi í dag og ég kunni ekki við að kenna stelpunum að kalla mig ömmu. Ekki strax alla vega en það er samt auðveldara að segja amma en Gurrí ... Ég á tvo ömmugutta í næsta húsi, sá eldri kallar mig ömmu, hinn kann ekki enn að tala, og svo er hálfrússneskur dásemdarpiltur sem lætur vonandi bráðum undan og viðurkennir mig sem ömmu, hann er enn svolítið feiminn. Maður reddar sér. Þeir eru örlagaríkir þessir matarhittingar hjá Rauða krossinum. Mæli með þeim fyrir þær sem vantar ömmubörn ... Nú þarf bara að finna þvottavél ... og miðað við dugnaðinn í vini mínum að fylla íbúðina af nauðsynjum á skömmum tíma, verður þess ekki langt að bíða.
Fólk er frekar fúlt (brjálað!) yfir því að þurfa að sækja bréfpokana til Sorpu, ef marka má samfélagsmiðla. Bíllaus lífsstíll hvað! Það er svo ótrúlegt að biðja okkur að flokka, umhverfisins vegna, en senda tugþúsundir bílandi til að sækja lífrænu pokana. Hver tekur svona klikkaðar ákvarðanir? Við erum frekar sein í því að innleiða sams konar hérna á Akranesi, enn með pappa og plast saman og fuglarnir fá þetta lífræna (alla vega frá okkur Ingu) sem mun vissulega halda áfram. Ekki skynsamleg breyting hjá Sorpu og sannarlega ekki umhverfisvæn. Þetta er alla vega ekki leiðin til að fá fólk til að flokka. Sumir halda því fram að nú sé verið að fá almenning til að vinna vinnuna fyrir Sorpu og það komi ekki til greina. Við þekkjum slíkt svo sem frá öðrum fyrirtækjum, það er víða gert í nafni tækniframfara.
Facebook:
Getur einhver addað mér í grúppuna "Bréfpokar" á Telegram? Er með reiðufé.
--- --- --- --- --- --- --- ---
Ég bíð eftir fréttinni þar sem kemur í ljós að þetta sé allt e-ð plott ... og heilu gámarnir af endurvinnslubréfpokum hafi verið sendir úr landi og seldir í endurvinnslu í útlandinu.
Komment: Gætum við ekki haft það enn meira krassandi, að pokarnir hafi allir farið í að vera utan um mútufé frá sorpfyrirtækjum til pólitíkusa? :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2024 | 00:44
Hirðslúðrið, möguleikar og skemmtialmanak
Mikið verður lífið auðveldara og skemmtilegra þegar hálkan er horfin. Stráksi kom heim í kvöld eftir mikla dekurhelgi og gladdist innilega yfir því að þurfa ekki að skríða í skólann. Vissulega tekur hann strætó í skólann og hefur aldrei þurft að skríða en annað er rétt hjá mér (gladdist-hlutinn). Öll næsta vika virðist hlýr vindur (5-8°C) verða ríkjandi og stöku regn. Ég frestaði tannlæknatíma 4. jan. til 11. jan. og sparaði mér þannig leigubíl, ég tók bíl báðar leiðir síðast sem segir mér að janúar sé svell-kaldur. Eða óbærilega langur mánudagur (janúar sko)eins og ég sá á netinu í dag og er sannarlega ekki sammála því. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Bollumyndin ... sjá febrúar í skemmtialmanakinu hér ögn neðar sem sannar mál mitt.
Ég er orðin svo svakalega gömul að ég man vel eftir því þegar verið var að ræða um mergjuð leiðindin á Íslandi alltaf hreint og hvernig hægt væri að gera eitthvað skemmtilegt í hverjum mánuði ársins. Þannig urðu til jól, páskar, brim og alls konar. Þótt þetta sé farið að ryðga svolítið í kollinum á mér eftir öll þessi ár og aldir kemur hér skemmtialmanakið eins og ég man það:
SKEMMTIALMANAK
Janúar: Þrettándabrenna og þorrablót. Lægðir og brim. Hálka.
Febrúar: Bolludagur (12. feb.) sjá mynd efst, vindur, snjór.
Mars: Mottumars, stundum páskar, spennandi veður.
Apríl: Páskar, páskahret og slíkar dásemdir.
Maí: Kröfuganga, alltaf rigning.
Júní: Þjóðhátíðardagur, stundum forsetakosningar, stundum, sól.
Júlí: Írskir dagar, alltaf sól.
Ágúst: Afmælið, gleðiganga, menningarnótt, óbærilegur hiti.
September: Allir enn glaðir eftir ágúst. Veður æsast.
Október: Jólabókaflóðið hefst. Lægðir í hópum.
Nóvember: Börn sníkja nammi. Veður býr sig undir meira vesen.
Desember: Jólin, rauð eða hvít.
ATH. Þetta með veðrið var nú bara gert fyrir okkur örfáu sem líta á fjölbreytileika veðurs sem forréttindi okkar Íslendinga. Hugsið ykkur viðbjóðinn að afplána alltaf sama veður dag eftir dag, eins og í heitu löndunum. Skemmtialmanakið á að vera fyrir alla, líka veðuráhugafólk.
Þótt ég hafi nýlega ákveðið að hætta alfarið að vinna til að geta fylgst með framboðum til forseta Íslands og þar með bloggað um frambjóðendur, er ég orðin ansi hreint ringluð. Ég þarf sennilega aðstoðarfólk. Miklar breytingar daglega og ný framboð spretta upp.
Hvað ef sá/sú sem fær næstflest atkvæðin verði varaforseti, til að nýta allan þennan mannauð? Held þó að Dóri DNA verði ekki með fyrst ekki gaus í gær, eða var það í dag? Honum var alla vega ekki full alvara, sýndist mér. Svo var einhver sem stakk upp á Bergþóri og Albert (þeir eru æði), skilst að þeir liggi ekki einu sinni undir feldi ... enda feldirnir í Costco uppseldir.
Einhver kom reyndar með þá tillögu að Jóakim prins af Danmörku yrði konungur Íslands, svona til að bæta honum upp að Margrét svipti börn hans prinsa- og prinsessutitlum sem fór rosalega í taugarnar á honum. Börnin fengju þá titlana aftur og það elsta tæki við þegar Jóakim hættir eða deyr og við landsmenn losnum við rándýrar kosningar, jafnvel á fjögurra ára fresti.
Það styttist í að Friðrik taki við veldissprotanum í Danmörku, er það ekki 14. janúar? Daginn áður en Sólarsystirin kemur út á Storytel. Hann er með myndarlegri prinsum og kannski gerði Margrét Þórhildur þetta ekki af því að henni var svo illt í bakinu, heldur til þess að hann hætti að heimsækja "vinkonu" sína á Spáni sem er nú kannski bara samt góð vinkona. Ég hafði ekki hugmynd um allt fjaðrafokið yfir þessu í Danmörku. Hann fær þó enga krýningarathöfn (hefð eða kannski refsing?) en eitthvað hlýtur þó að vera gert af þessu tilefni því ég heyrði í fréttum í dag að það væri næstum uppselt í danskar lestir og rútur til Köben þann fjórtanda. Skyldi verða bein útsending á RÚV ... en frá hverju ef engin athöfn?
Mér finnst eins og hirðfréttir frá Danmörku berist mjög hægt og illa hingað til lands. Við vitum allt um breska slektið, Karl og Kamillu, Vilhjálm og Katrínu, Harry og Meghan (nema hvernig börn H og M líta út), en sáralítið um annað kóngafólk í Evrópu (í lagi mín vegna). Sem lítil stelpa fannst mér hefðardúllurnar mjög spennandi, einhver Fabiola voða flott (af Hollandi) og svo auðvitað hin danska Anna María (litla systir Margrétar) sem giftist flottum kóngi í Grikklandi (Konstantín) og þegar hjónabandið hafði staðið í áratug var honum steypt af stóli og herinn tók völdin. Þau voru svipt ríkisborgararétti og eignir þeirra gerðar upptækar. Þau flúðu til Rómar og settust síðan að í London en eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi þeim í vil, fluttu þau aftur til Grikklands (2013). Wikipedía er með þetta.
Viljum við kóng á Íslandi eða bara forseta áfram? Væri ekki gaman að geta gælt við þá hugmynd að komast á hirðdansleik á Bessastöðum svona einu sinni í lífinu? Læra almennilega kurteisi (hirðsiði/borðsiði) en spurning hvort bakið á mér þyldi eilífar hneigingar. Það kom í ljós í síðustu blóðprufu (2015) að ég er með blátt blóð í æðum svo mögulega þyrfti ég ekki að hneigja mig djúpt.
Stórfréttir: Svo komst ég að skyldleika mínum við söngvarann í Skálmöld. Við erum sjömenningar, segir Íslendingabók. Ein blogg- og margt fleira-vinkona er náskyld honum og manaði mig í spjalli í gær til að athuga þetta. Orðin svo þroskuð og lítil grúppía vissi ég ekki einu sinni hvað hann heitir ... Ég er nú samt viti mínu fjær af monti yfir þessu. Skyldleikinn er Þingeyingamegin ættbogans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2024 | 21:20
Forsetaframboð í garnbúð og svakalegur systramisskilningur
Þrettándinn er alltaf flottur á Skaganum en þá er brenna, álfaganga, blys, söngur og flugeldasýning sem var sú flottasta sem ég hef séð hér á hlaðinu. Bara vá! Ég sat á stólnum við eldhúsgluggann og naut, of hált úti til að ég nennti að fara nær, og svo kom Krummi ljónshjarta og við horfðum saman á restina. Hinir voru ekki smeykir heldur, en virtust áhugalausir. Svona getur nú gott uppeldi, ekki of mikið kattanammi og þrotlaus húslestur upp úr Íslendingasögunum gert ketti sterka.
Sú sem sá um fjöldasönginn var Nína, gamla barnapían mín frá 1982, keiludrottning og fleira. Barnapían sem kom á eftir henni, þá í Reykjavík, var Sigga Guðna, einnig söngkona (Freedom með Jet Black Joe, ég legg ekki meira á ykkur). Það þarf að velja hæft fólk í öll störf og til að syngja fyrir börn velur maður bara alvörusöngvara, eða fólk sem maður heldur að verði söngvarar í framtíðinni. Ég segi ekki að ég hefði viljað giftast Gordon Ramsey, ekki beint, en nokkrir af mínum fyrrverandi voru súpergóðir eiginmenn þegar kom að eldhúsverkum. Og ættingjar mínir og vinir kunna til dæmis allir að velja flottar jólagjafir sem er líka mikilvægt. (Er enn í gleðivímu eftir jólin)
Myndin var tekin fyrr í kvöld, útsýni úr eldhúsinu.
Hlusta nú á nýju bókina eftir Stefán Mána ... sú byrjar vel. Óttast að hún verði of spennandi, svona miðað við atburðarásina. Stundum höndla ég bara væmnar og krúttlegar bækur þar sem mest spennandi atriðið tengist kaupum á brúðarkjól (alls ekki á útsölu samt) en stundum þarf að fara út fyrir þægindarammann og ögra sér, vera besta útgáfan af sjá- æ, djók, ojbjakk. Ég get auðvitað haldið fyrir eyrun í æsilegustu köflunum. Stráksi er í helgargistingu þannig að ég hef bara öryggi af köttunum hugumstóru en það nægir.
Systir mín, ein af mjög mörgum, hringdi í dag.
Nú eru komin þrettán ár, sagði hún mæðulega.
Þrettán ár? spurði ég greindarlega.
Jamm, síðan þú komst næstum á séns, dæsti hún. Þú giftist út í eitt á árum áður en eftir að þú fluttir á Skagann hefurðu verið eins og nunna!
Veistu virkilega ekki hvað ég hef verið að gera á Akranesi síðustu bráðum átján árin? Ferðu aldrei í bókabúðir, hlustar þú aldrei á fréttir, eða löggubylgjuna? spurði ég reiðilega og jafnframt undrandi. Þegar ég hef sagst hata gönguferðir á það ekkert skylt við að ganga út, að ganga úti er allt annað. Þú hefur ekki hugmynd um hvað ég hef verið upptekin ... og vaðið í körl-. ... Ég hef enga tilfinningaskyldu gagnvart systrum mínum þótt ég hlaupi ekki alltaf ein, já, og af hverju heldur þú að ekkert hafi verið í gangi?
Ja, til dæmis þetta með manninn sem reyndi opinskátt við þig á Facebook? (Sjá mynd, og nánar í bókinni Veiðisögur Guðríðar, kaflann Aflahæst Einarsbúð, Facebook bara hálfdrættingur) Hann var í raun gefin veiði, ekki bara sýnd en þú gerðir ekkert, sagði hún mæðulega.
Ég hef alltaf verið meira fyrir þessa dularfullu, hógværu, þöglu og interisant manngerð sem horfir meiningarfullu augnaráði á mig, t.d. úti í búð, sagði ég og bætti sorgmædd við: Mikið sakna ég grímuskyldunnar, grímur gerðu veiðar með augunum svo miklu meira spennandi.
Ég sakna þeirra líka, sagði hún.
Ég hélt áfram: Svo sagðist hann vera skotin í mér, ekki skotinn, og þar dreg ég mörkin. N-reglan er mér sérlega mikilvæg, alveg síðan ég lærði íslensku hjá Jóni Marteins í Austurbæjarskóla, viðurkenndi ég. Fólk má ruglast á y-i, þýða eða þíða ísskáp, (nema ekki ruglast þegar kemur að Gurrí með einföldu), það má vera haldið þágufallssýki og segja víst í staðinn fyrir fyrst en N-villur skera mig alltaf í hjartað, ég var orðin klökk. Ég get ekki annað en haldið mig við það þótt það hafi á þeim tíma (2011) kostað mig fjórtánda hjónabandið.
Þú hefur lög að mæla, systir góð, eins og ætíð. Nú held ég til baðstofu og les svolítið fyrir Snata litla og Lappa. Við erum hálfnuð í Njálu, hvað ert þú að lesa? Undarleg harka var allt í einu komin í rödd hennar. Ég varð að hugsa hratt, hún hatar glæpasögur og líður engum ættingja sínum að lesa slíkar bækur.
Stríð og frið, flýtti ég mér að segja. (Hörður Grímsson á í stríði við glæpamenn þar til hann nær þeim og þá kemst líka friður á. Næstum því satt hjá mér.)
Gott val, sagði systir mín og harkan hvarf. Sjúkk. Hún aðhyllist kenninguna um að það geti gert hvern mann að glæpamanni að lesa glæpasögur. En svo fór ég að hugsa eftir að við höfðum kvaðst: Vill hún virkilega að ég komi stríði af stað? Kannski þá í húsfélginu - eða jafnvel á samfélagsmiðlum? Ónei, mín kæra.
Elskan hún Guðrún vinkona kíkti á Skagann í gær. Hún hafði séð auglýsingu um að garnbúðin okkar góða, Gallerí Snotra, væri að hætta (nýr eigandi kemur) og ákvað að nota tækifærið, heimsækja mig og kaupa sér garn í peysu í flottustu hannyrðabúð landsins. Ég fór auðvitað með henni í búðina, þó nánast ofbirg af plötulopa svo ég keypti ekkert. Þar hitti ég konu sem íhugaði að fara í forsetaframboð.
Ég tikka í öll boxin, sagði hún full sjálfstrausts. Er íslenskur ríkisborgari, orðin 35 ára og á erlendan maka, en þetta síðastnefnda er hefð sem erfitt er að brjóta. Georgia, Dorrit, Eliza ...
En ég er samt ekki viss um að Íslendingar séu tilbúnir fyrir múslima sem forsetafrú, bætti hún hugsandi við.
Þessi dásemdarkona (fer sennilega ekki í framboð) tengdist því þegar Össur Skarphéðinsson gaf mér hangikjöt (þannig séð) fyrir nokkrum árum. Hann var þá utanríkisráðherra og hún vann í ráðuneytinu, er stjórnmálafræðingur, minnir mig. Í strætó, nokkrum dögum fyrir jól, sátum við hlið við hlið og ég kvartaði yfir því að vinnan mín væri hætt að gefa okkur hangikjöt í jólagjöf, bara hamborgarhrygg sem ég væri ekki hrifin af ... samt var ég auðvitað ógeðslega þakklát fyrir helvítis hamborgarhrygginn.
Ja, hérna, sagði hún. Það var óvart keyptur tvöfaldur skammtur af hangikjöti fyrir jóladagsboðið á mínu heimili (hún bjó þá í foreldrahúsum), svo fékk ég hangikjöt í jólagjöf frá ráðuneytinu í dag ... viltu gera mér þann greiða að eiga það? Hún dró upp væna rúllu af fínasta hangikjöti.
Viltu þá ekki fá hamborgarhrygginn minn í staðinn? spurði ég en hún þáði það ekki, allt of mikill matur til, vildi hún meina. Og þannig fékk ég hangikjöt í jólagjöf frá Össuri. Hryggurinn fór á góðan stað, í gegnum Gunnu vinkonu, til fólks sem kunni gott að meta.
Eftir garnkaup héldum við Guðrún á bensínstöð þar sem við snæddum dýrindis kvöldverð. Báðar erum við afar hrifnar af Lemon, litla útibúinu með fjórum tegundum af samlokum og fjórum drykkjartegundum, ég vel alltaf avókadósamloku og avókadódrykk, vil ekki breyta, langar ekki að prófa annað.
Mynd 3 er skjáskot ... þetta er gangan að þrettándabrennunni, sjá má Himnaríki í baksýn, eins og það sé ofan á göngunni. Ef myndin prentast vel má sjá mig í eldhúsglugganum á gaflinum efst. Kraninn fyrir aftan (á Garðabraut) er nánast eins og geislabaugur. Mynd 4 sýnir Krumma njóta flugeldasýningarinnar með mér.
Facebook:
Maður nokkur hótaði tímariti öllu illu vegna þess að það notaði mynd af honum með grein um hipstera og að þeir væru allir eins útlits. Svo kom í ljós að myndin var alls ekki af honum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 15
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 159
- Frá upphafi: 1529816
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 143
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni