Þar sem kaffið er gott ...

ViðbrögðVeit um unga konu sem fór á sóttkvíarhótel í fimm daga. Eitthvað var hún ósátt við þessa „fangavist“ fyrirfram en ákvað svo að taka jákvæðnina á þetta. Líta á þetta sem ljúft frí, fara í stöku göngutúra og njóta þess svo að slaka á, liggja í freyðibaði með reyfara í hönd, horfa á Netflix og gera það sem hún hafði sjaldan haft samvisku til að gera, eða að liggja í algjörri leti.

 

Henni fannst maturinn á hótelinu virkilega góður svo hún skrifaði sæt þakkarskilaboð til eldhússins eftir hverja máltíð ... og viti menn, síðustu tvo dagana fékk hún alltaf tvo eftirrétti í stað eins, sem þakklætisvott fyrir falleg orð. Hún sagði að þetta hefði verið frábær tími sem endurnærði hana á sál og líkama. Þetta var ekki útdráttur úr nýrri bók um Pollýönnu - en viðhorfið skiptir greinilega heilmiklu máli.

 

Ég er enn að reyna að upphugsa leið til að komast í fimm daga vist á svona hóteli ... en kem ekki auga á neinn möguleika í stöðunni. Við Hilda systir erum reyndar að hugsa um að skreppa norður yfir langa helgi nú í sumar, föstudag til mánudags, sem yrði sennilega eina alvöruferðalag sumarsins, nóg við að vera hér á Akranesi og í bænum. Eða á Flúðum jafnvel.

 

 

Hvar er gott að gista þar sem fæst líka gott kaffi - er þá líka að meina kaupstað, kauptún? Við fundum ágætt kaffi víða á sjálfri Akureyri, í Listasafninu í Gilinu, í Hofi, Sykurverki en það allra, allra besta var á Siglufirði, í súkkulaðigerðinni sem ég man ekki hvað heitir ... Fríða? Við vorum á hraðferð í gegnum Krókinn í fyrra og fundum bara vont kaffi þar (sömu sortina á fjórum stöðum, ég er Skagfirðingur, má skammast!) en ég veit ekki hvað hefur eiginlega gerst þar, eða þá við Þjóðveg 1 á leið norður, kaffibreytingar eins og eldur í sinu.

 

Hótel RjúkandiKannski ættum vér systur bara að fara á Snæfellsnesið - það er svoooo gott kaffi á Rjúkanda (áður Vegamót) og þess virði að fara sérferð bara fyrir einn lattem, jafnvel með strætó bara þótt það kosti að sofa úti eða eitthvað eða ganga heim.

 

 

Kaffið þar er frá Kaffibrugghúsinu úti á Granda í Reykjavík. Fann það út eftir rannsóknarvinnu ... eða fyrirspurn á Facebook-síðu Rjúkanda. Mig minnir að maturinn hafi verið mjög góður en ég man samt miklu, miklu betur eftir kaffinu ... 


Bloggfærslur 4. maí 2021

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 138
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 121
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband