Sigrar og sorgir tæknitrölls í Himnaríki

Síðasti laxinnHamingjuríkum viðskiptum mínum er nú lokið við Eldum rétt. Ég er greinilega móðgunargjarnari en ég hélt eða þessi tími mánaðarins hjá mér; fyrsti til tuttugasti og áttundi, eða kannski röng manneskja í réttum síma sem svaraði. Ég gleymdi nú um helgina að biðja Ellen frænku um að sýna mér hvernig ég gæti pantað mat hjá ER á netinu án þess að þurfa að setja inn greiðsluupplýsingar í hvert skipti. Ég kemst ekki fram hjá því, sama hvað ég reyni og eftir að hafa fengið að hringja og panta einu sinni og verið sagt þá að það væri minnsta mál í heimi að hringja alltaf, hef ég gert það undanfarnar vikur. Þetta með að þurfa í hvert sinn að setja inn greiðsluupplýsingar, dregur úr gleðinni við að panta, eins og símtalið áðan: 

„Eldum rétt, góðan dag.“

„Já, góðan dag, ég ætla að panta mat fyrir næstu viku.“

„Það er gert á netinu, þú þarft að gera það þar.“

„Ég kann það ekki nógu vel, ég hef fengið að panta í gegnum síma síðustu vikur, eins og fleiri, skilst mér, af hverju er það ekki hægt núna?“ 

„Þú hefur þá fyrir einhverja tilviljun hitt á fólk sem getur tekið við pöntuninni.“

„Mér var sagt að ég mætti alltaf hringja og ég hef fram að þessu fengið ljúft viðmót, hvað hefur breyst?“

„Ég get svo sem reynt að finna einhvern til að hri-“

„Nei, veistu, sleppum þessu bara,“ sagði ég og lagði á. Reif síðan fína miðann með girnilegu réttunum sem hægt var að panta fyrir næstu viku og henti honum í endurvinnslupokann. Var virkilega svona erfitt að segja: „Ég get ekki tekið við pöntuninni en ég skal láta einhvern sem getur það, hringja í þig.“ Þess í stað leið mér eins og algjörum fávita fyrir að kunna ekki að panta á netinu. Svo drengurinn verður að þola mína eldamennsku framvegis en ég hef vissulega lært sitt af hverju á þessum vikum, aðallega varðandi ofnbakaðar kartöflur, og á líka nokkrar dásamlegar matreiðslubækur sem ættu heldur betur að gefa mér hugmyndir. Netið er sniðugt og veit uppskriftina en þá þarf að vera á hreinu hvað maður ætlar að elda. Skemmtilegra að fletta matreiðslubók upp á hugmyndir að gera.

Það hlýtur samt að vera vont fyrir fyrirtæki að missa fastakúnna sem borgar yfir 40 þúsund kall á mánuði. Já, það er ýmislegt hægt að veita sér þegar búið er að drepa í, ég á tveggja ára reykingaleysisafmæli í apríl.

 

Myndin að ofan sýnir aldeilis gómsætan ER-lax gærkvöldsins.

 

Fb-iðnaðarkonan égUppi í rúmi í gær kíkti ég á Facebook sem ég geri iðulega á kvöldin og eins og svo oft áður var ákveðið þema í gangi, stutt vídjó inn á milli færslna fb-vinanna. Núna endurbætur, DIY (do it youself) á alls konar.

Nú kann ég að flísaleggja gólf og veggi, leggja hitaleiðslur í gólf og flota yfir, byggja kofa frá grunni úti í skógi og taka baðherbergi í nefið.

 

 

Hefði nú verið gott og verulega hentugt að kunna þetta áður en ég lét taka Himnaríki í gegn fyrir tveimur árum. Vissulega voru þessar stuttu myndir sýndar mjög hratt svo ég verð sennilega að fara á YouTube til að læra listina enn betur.

 

 

Þetta er sko ekkert mál, sýnist mér. Bara tímasóun að hanga í skóla í einhver ár þegar allt fyrirfinnst á netinu ... Held meira að segja að ég gæti skipt um glugga hér ein og hjálparlaust og myndi gera það til að sanna það fyrir bloggvinunum ef ekki væri búið að því. Verst að ekkert er að Himnaríki eftir að Diddi smiður lagaði opnanlegu fögin svo þau lokuðust almennilega og hann er búinn að panta blikk-dæmi eitthvað til að vernda litlusvaladyrnar svo eigi geti lekið þar inn í verstu lægðunum hér við hafið - en kannski þiggur hann hjálp mína þegar hann fer í að gera þetta.

Svo ... ef ykkur vantar fb-menntaða iðnaðarkonu ... 


Bloggfærslur 16. febrúar 2022

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 1529916

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 124
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband