Frelsi eða uppgjöf, klökkur smiður og íslenskir Pútínistar

Diddi smiðurDiddi smiður mætti eftir hádegi í dag og tók út austurhlið Himnaríkis, eldhúsgluggann og litlusvalahurðina - eða þetta sem lekur. Hann fölnaði af hrifningu og nánast klökknaði þegar hann sá svarta ruslapokann sem ég hafði vafið utan um neðanverða svalahurðina sem fór alveg niður fyrir, til að verja sem best heimilið gegn þessu kraftmikla regni í eldrauðri viðvörun. Hann sagði alla vega að þetta hefði verið sniðugt.

 

Hann kom með til bráðabirgða svona áldæmi sem hann skrúfaði neðst á hurðina - en ál-maðurinn hans var ekki við. „Hún er nú orðin svolítið lúin,“ sagði Diddi um hurðina og ég var svo fegin að hann var ekki að tala um mig, kinkaði bara kolli og fagnaði villt innra með mér. Það þarf ekki meira. Ég lokaði Didda úti á svölum, að hans beiðni, og hélt áfram að vinna. Loks var bankað og þá hafði hann víst reynt heillengi að gera vart við sig. Himnaríki er 99 fermetrar og hann eins langt í austur og hægt var og ég í vestur. „Ahh, muna handfang á hurðina utanverða,“ tautaði hann, ekkert fúll. En á föstudaginn reynir svo á bráðabirgðalagfæringarnar í þriðja rennblauta logn-á-hraðferð veðrinu á stuttum tíma.

 

SérfræðingarHvað gera hörðustu andstæðingar bólusetninga nú þegar allt hefur verið gefið frjálst frá og með miðnætti á morgun og fátt að frétta í vörubílstjóradeilunni á landamærum Kanada og Bandaríkjanna? hugsaði ég með sjálfri mér þegar ég kíkti á Facebook í dag. Svarið blasti við mér innan þriggja mínútna. Jú, þeir halda með Pútín og stríðsbrölti hans - gegn hinum „snarklikkaða“ Biden sem reynir þvílíkt að sverta orðstír Pútíns í augum alheimsins. Ég er ekki að grínast, Pútínistar á Íslandi!

 

Þetta frelsi frá höftum sem við öðlumst senn táknar að nú eigum við enn frekar á hættu að smitast af veiru sem enginn veit hvaða áhrif hefur á hvern og einn. Sumir finna varla fyrir smiti, aðrir verða fárveikir og eiga lengi í veikindunum. Ég er bjartsýn, tek D-vítamín, er almennt frísk og hress og þríbólusett, vona það besta. En mér leið samt eins og gefið hefði verið út skotleyfi á ungan frænda minn sem ég held að tækli ekki sérlega vel að fá kvikindið vegna undirliggjandi.

Það hljómar svo miklu betur að kalla þetta frelsi en uppgjöf, takmarkanir og sóttvarnaraðgerðir hefta veiruna ekki lengur, við getum alveg eins gefið henni frelsi til að vaða yfir allt, því fyrr sem hjarðónæmi næst - því betra. Orðalag er mikilvægt þótt það sé nú stundum notað í blekkingarskyni og gegn okkur. Eins og þegar yfirvöld (allir flokkar) kynntu eitt sinn sem jöfnuð og réttlæti það að niðurgreiða milljarði minna í lyfjakostnað og velta þeim kostnaði yfir á veika fólkið.

 

Mig langar stundum að verða einræðisfrú ... gera geggjaðar breytingar á þjóðfélaginu, landsmönnum til heilla og hamingju, en númer eitt væri, ja, nr. 2 á eftir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu, að banna að nota hnetur í konudagskökur. Væri líka alveg til í borgaralaun. Ef þetta gengur eftir hjá  mér og ég verð myrt myndi  ég skjóta á hnetu- og núggatsjúkan bakara sem líklegan killer ...


Bloggfærslur 23. febrúar 2022

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 1529916

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 124
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband