Áhrifarík listform og ómetanleg áhrif Jack Reacher á niðurpakk

3. feb 2022Íbúðin er verulega fín eftir að ég bar bunkann af útifötunum sem lá á gólfinu við fatahengið yfir á rúm drengsins svo væntanlegur smiður héldi ekki að það væri alltaf drasl. Stráksi sefur ekki þar um helgina en ... koma dagar, koma ráð, hugsaði ég. Eitt seinlegasta verkefni lífs míns bíður mín í tölvunni, að ég vinni það og klári um helgina svo það er harðbannað að koma með tillögur að einhverju á borð við þyrluferð til Hvammstanga að snæða gómsætan kvöldverð á Sjávarborg, hvað þá gönguferð upp á Akrafjall sem ég væri svo sannarlega til í ef ég væri ekki svona upptekin ...

Svo kom drengurinn heim kl. 16 og færði fatabunkann af rúmi sínu yfir á gólfið í kósíhorninu þannig að bunkinn er nú nánast á þröskuldi baðherbergisins þar sem þvottavélin stendur. Allt hjálpast svo að í lífinu. Heppin. Og smiðurinn farinn þá.  

 

Já, hirðsmiður minn mætti eftir hádegi og gerði eitthvað hviss bang-fljótlegt en flott, við opnanlegu gluggana sunnanmegin sem mæðir á í vondum vetrarveðrum, og nú lokast þeir svo svakalega fast að rigningin (?) sem kemur eftir helgi getur bara hoppað upp í rosalegu mánudagslægðina á sér. Samkvæmt heimildum mínum (yr.no) verður úrkoman frekar sem snjór en regn sem er ekki alveg víst, ég tek mest mark á sjónvarpsveðurfréttum RÚV.

 

Diddi hirðsmiðurDiddi kemur seinna og kíkir á litlu svaladyrnar, þarf fyrst að blikka blikkara og slíkt. Á meðan hann dvaldi hér í dag vann ég við tölvuna, pikkaði taktfast og róandi, þvottavélin mallaði og kettirnir möluðu á milli þess sem þeir (Krummi) reyndu ekki að knúsa hann, svo það er eiginlega ótrúlegt að hann hafi ekki sofnað hreinlega við vinnu sína. Sennilega stoppaði hann ekki nógu lengi til að rólegheitin svæfðu hann.

 

Þurrkarinn kláraði sitt svo áðan og ég lauk við að pakka niður. Sumir lýstu því yfir í morgun hvað þeir vildu frekar taka með fatakyns í Reykjadal svo það þurfti óvænt að þvo í dag. Tvær nætur er samt svo lítilvægt niðurpakkirí að ég er sallaróleg, mæting hjá honum ekki fyrr en kl. 19 í kvöld og hann er á leiðinni suður með dásamlegri manneskju.

 

Af og til á svona niðurpakk-stundum minnist ég þess þegar ég pakkaði niður fyrir þriggja vikna kórferðalagið 1985 og tók öll mín föt, ásamt lánsfötum, í þremur töskum, mamma lánaði mér smart töskusett - ekki á hjólum. Svo skelfileg uppgötvunin að vera með allar þessar töskur og bara tvær hendur. Svo þurfti auðvitað að kaupa gjafir handa öllum sem ég þekkti svo ekki léttust töskurnar. Eftir þetta ferðast ég eins og Jack Reacher. Með tannbursta og hreinar nærbuxur í vasanum, kaupi mér svo ný föt annað slagið og hendi þeim óhreinu í ruslakörfuna í mátunarklefanum.

 

 

ChagallBækur Lee Child hafa breytt lífi mínu á svo margan hátt. Ég lyfti lóðum til að geta kýlt þá sem þarf að kýla, eins og Reacher gerir, hef eflt til muna athyglisgáfuna, legg t.d. bílnúmer á minnið (sem er auðvelt) klæðaburð fólks og bara allt sem ég get í umhverfinu til að vera alltaf viðbúin sem vitni lögreglu - eða leysi málin bara sjálf ef eitthvað kemur upp, og ferðast ætíð létt, eins og áður hefur komið fram. Svona eru nú bókmenntirnar stórkostleg list sem breytir lífi manns, eins og myndlist, tónlist og það allt.

 

Til dæmis falleg verk listmálarans Chagalls af svífandi elskendum kenndu mér að ástin er bara frekar kúl og getur alveg enst, í sumum tilfellum. Og tónlist Eminem hefur heldur betur hvatt  mig til að taka skápana í gegn með reglulegu millibili.

 

Efsta myndin er tekin við eldhúsgluggann, sést í Akrafjall og Nýju blokkina. Lengst til vinstri grillir í gras sem ég er að rækta ...

 

Myndin fyrir miðju sýnir Didda smið laga gluggann í herbergi drengsins fyrr í dag. Það verður heldur betur spennandi að sjá hvort erfiði hans virkar gegn lægðinni sem á víst að herja á okkur aðfaranótt mánudagsins.

 

Neðsta myndin er af verki eftir Marc Chagall. Niels, gamall vinur frá Þýskalandi, sem kom einmitt með í kórferðalagið 1985, gaf mér mjög flott plakat, eftirprentum af verki Chagalls sem hann vissi að ég héldi mikið upp á. Hafði meira að segja keypt, þá skítblönk, tvö lítil málverk sem minntu á verk MC en voru eftir annan snilling, Jón Þór Gíslason, og fékk að borga þau með geymsluávísunum. Hef aldrei séð eftir þeim kaupum.  


Litrík og gerði heiminn betri

AnnaNú verður hin litríka og bráðskemmtilega Anna Kristine Magnúsdóttir jarðsungin í dag. Við hittumst ekki oft en þekktumst samt ágætlega sem kollegar og kisuvinir og vorum í góðu sambandi þegar elsti kötturinn, Keli af Kattholti, var ættleiddur hingað í Himnaríki. Ég hafði ekki almennilega áttað mig á því að hann ætti bróður/vin þarna, Sokka, en aðeins þeir tveir lifðu af þegar eitthvert ómennið fleygði poka með níu kettlingum í holu í Heiðmörk skömmu fyrir jól árið 2010. Keli og Sokki bjuggu síðan í Kattholti næstu átta mánuðina og var hjúkrað af alúð og ást til heilsu en Anna var formaður Kattavinafélagsins á þessum tíma. Sennilega hefðum við Einar tekið þá báða ef við hefðum áttað okkur strax. Sama dag og Keli kom til okkar tók Anna Kristine til sinna ráða varðandi Sokka og dóttir hennar, Lízella, tók hann að sér. Þegar við Einar áttuðum okkur var það orðið of seint, en elsku Krummi, miðköttur Himnaríkis, fékk þá sitt tækifæri í lífinu.

Þegar Einar dó 2018, sendu mæðgurnar afar fallegt og langt samúðarskeyti sem hlýjaði um hjartarætur. Falleg orð græða.

 

Ef það er líf eftir þetta líf vona ég að Anna Kristine geti horft að vild á Bold and the Beautiful, hún var svo ánægð þegar ég skellti söguþræðinum og ýmsum bollaleggingum um þættina, hingað á bloggið, en allt of sjaldan. Ég þakka elsku Önnu Kristine fyrir að hafa gert heiminn betri og skemmtilegri og votta ástvinum hennar mína dýpstu samúð. Kl. 15 í dag verður hægt að fylgjast með útför hennar í streymi í gegnum mbl.is/andlat/minningar/utfarastreymi.        


Bloggfærslur 4. febrúar 2022

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 1529916

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 124
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband