Spennandi símtal ...

Sætti mig við það sem ég get ekki breytt ...Dagurinn í dag var einn allra mesti letidagur lífs míns, ég las tvær bækur, drakk tvo kaffibolla, eldaði ágætis ER-kvöldmat fyrir tvo, helmingur etinn á morgun, blundaði í sófanum eftir mat og tók svo á móti óvæntu símtali. (ER=Eldum rétt)

-Er þetta Guðríður, áhrifavaldur á Moggabloggi? spurði ísmeygileg karlmannsrödd en þó mátti greina ógnandi undirtón í rödd hans.

-Heldur betur, og kölluð Gurrí - með einföldu, svaraði ég eldhress. Eftir ár mín í kókosbolluverksmiðjunni með Kidda kuta sem verkstjóra er ég öllu vön. Hann hikaði ekki við að hóta okkur rispum, jafnvel fingurmissi ef við kláruðum ekki 10 þúsund kókosbollur fyrir kaffi. Morgunkaffi.

-Ég hringi fyrir hönd L.S.D., hélt maðurinn áfram ógnandi. Alveg greinilega einn af þeim sem vildi hafa ý í Gurrí.

-Ha, er það ekki eiturlyf? spurði ég lífsreynd eftir að hafa alist upp á hippatímabilinu og enn öskureið yfir því að hafa hvorki komist á tónleikana með Led Zeppelin né Deep Purple vegna þess að ég var of ung, heldur varð að gera mér að góðu að hlusta bara á Sound of Music og Three Dog Night, nánast einu plöturnar á heimilinu.

-Hefurðu ekki heyrt talað um Landsamband saklausra dópsala? spurði hann gáttaður og hélt svo áfram: -Okkur líst ekki á bullskrif þín um okkar mann sem leggur sig allan fram við sölumennsku á Facebook, ekki laust við að það hafi fokið í okkur, ekki síst yfirmann Reykjavíkurdeildar BULL, og áður en þú spyrð stendur það fyrir: Bandalag ungra lurkanotenda og lemjara, svo gættu þín, ekki langt að skutlast til þín og mölva á þér hnén. Þá kemstu nú ekki í gönguferðir, gamla mín. Hann hló hryssingslega.

Gönguferðir, hnussaði ég í hljóði, það var þá missirinn - en að fara fram í eldhús og fá mér kaffi krafðist göngugetu svo ég ákvað að sýna honum í tvo heimana.

-Hmmm, hefur þú heyrt um L.A.R.F., væni minn? spurði ég og það var farið að síga í mig, maður skyldi aldrei vekja konu af fegurðarblundi og á milli bóka, þar að auki eftir bara tvo kaffibolla þann daginn.

-Er það eitthvað hönnunarmerki? hló dóninn en ég greindi samt örlítinn skjálfta í rödd hans. 

-NEI, það er Leitin að ríkri fyrirvinnu, félag sem ég hef verið í árum saman, bara vegna félagsskaparins, en það er fullt af brjáluðum desperat konum sem víla ekkert fyrir sér, við svífumst einskis. Dótturfélag okkar B.H. h/f ... sem þýðir Brotnir handleggir h/f sem þú hefur sennilega ekki heyrt um, við reynum að láta lítið fyrir okkur fara en LSH borgar okkur prósentur, svona ef þú vilt vita það. Einkennislag okkar er: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Svo, hvað ertu að pæla?

Di, di, di, di ...


Bloggfærslur 24. júlí 2022

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 126
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 116
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DV í denn
  • DV í denn
  • DV í denn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband