Möguleg Gnarr-styrjöld og nauðungarhlaup yfir hálfan Skagann ...

Georg BjarnfreðarsonBæjarferðin sem var farin á laugardag var dásamleg á ýmsan hátt en nokkuð óvænt líka þarna strax í byrjun. Þegar maður heldur að maður þekki einhvern ... Hilda systir sótti okkur í Mjódd og við héldum beinustu leið í Kaffitár á Höfða. Létum dásemdar-kaffið kólna ögn í bílnum á meðan við skutumst inn í Húsgagnahöll þar sem litlasystir hafði áður keypt sófa og borð, glimrandi flott og fínt. Nú átti að bæta við glimrandi fínu hliðarborði í stíl.

 

Á leiðinni upp rúllustigann heyrðist kallað: „HÆ, GURRÍ!“

Stráksi hnippti í mig þar sem ég litaðist um, til að benda mér á hvar kallandi maðurinn væri. Ég kallaði fagnandi  á móti og sendi meira að segja fingurkoss, eins og maður gerir. Þessi samskipti tóku um þrjá sekúndur. 

„Hvaða maður var þetta?“ spurði stráksi.

„Við unnum saman á Aðalstöðinni í gamla daga,“ svaraði ég en bætti svo við: „Heyrðu, þú og hinir krakkarnir á starfsbraut hafið verið að horfa á Vaktirnar (Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin ...), þetta er maðurinn sem lék Georg Bjarnfreðarson,“

Drengurinn stökk næstum hæð sína í fullum herklæðum. „VAR ÞETTA Jón Gnarr? En hann var svo glaður ... og alveg venjulegur!“ Eftir smáræðu um vissa leiksigra, muninn á því að vera í vinnunni og ekki í vinnunni, héldum við áfram að aðstoða Hildu við að festa kaup á hliðarborðinu sem kemur til landsins vel fyrir jól og var á góðu verði, eins og hitt, á tilboði, með kynþokkaafslætti og alls konar. Hittum Petu og Grímar (mömmur.is-foreldrarnir) en mig grunar að helgarnar þeirra fari margar í að fagna sigrum með efnilegu körfubolta-barnabörnum sínum.

 

Sögunni var alls ekki lokið. Halldór fjandi hringdi í mig þegar við vorum nýkomin út í Hildubíl og sátum enn fyrir framan Húsgagnahöllina. Þetta var myndsímtal og rannsakandi augnaráð frænda míns olli mér engum óþægindum til að byrja með. „Þú virðist hress?“ sagði hann í spurnartón og ég kvað svo vera, enda með gott kaffi í annarri og að smella á mig bílbeltinu með hinni. 

„Varstu í Húsgagnahöllinni?“ spurði hann sakleysislega en ég sá í gegnum hann í hvelli og fannst þetta grunsamlegt, hann er búsettur lengst úti í Evrópu, frekar svalt á morgun, 13°C, en fer upp í 19°C á miðvikudag og 22°C á fimmtudag (ég er með veðurapp í gemsanum). Eftir talsvert þref og þras komst ég að því að fyrrum samstarfsmaður minn sendi frænda mínum ekki bara fréttir af ferðum mínum, heldur FALSFRÉTTIR! 

 

Skilaboð Jóns til fjanda voru svohljóðandi:

„sá Gurrí áðan veltast um í stiganum í Húsgagnahöllinni. ég skal ekki sverja fyrir það en mér sýndist hún drukkin. sem er auðvitað skrítið rétt uppúr hádegi. hún var amk illa áttuð. ég kallaði á hana en hún virtist annaðhvort ekki heyra það eða skilja. þá hnippti einn drykkjufélagi hennar í hana og  hristi hana til. þá var eins og hún rankaði aðeins við sér og brosti sínu breiðasta og vinkaði til mín. ég veit samt ekki hvort hún þekkti mig eða vissi hvar hún væri.“

 

Meintur drykkjufélagi minn var stráksi!

Fjandi var hliðhollur mér í u.þ.b. fjórar mínútur (ættarböndin) sem var tíminn til að ná skilaboðunum út úr honum, en svo tók karlameðvirknin, strákasamsærið, Ken-hollustan yfir og hann sagði Gnarr að hann óttaðist að ég ætlaði að nota textann gegn honum, mögulega níða af honum skóinn.

„Drykkjufólk þróar alltaf með sér gremju,“ svaraði Gnarr!!! Mögulega og vonandi bara var hann að stytta orðið kaffi-drykkjufólk ... ég hef vissulega þróað með mér gremju yfir ódrekkandi kaffi sem boðið er upp á allt of víða. 

 

Lögmenn mínir hafa samt þaullesið textann í þeirri von að finna refsiverðar móðganir. Nákvæmlega svona verða sögurnar til! 

 

GarðabrautÉg held reyndar að ég sé að detta í sundur (líkaminn) en slagaði samt alls EKKI eins og drukkin í rúllustiganum í Húsgagnahöllinni. Eins gott að ég pantaði tíma hjá nýjum kírópraktor hér á Skaga í lok október.

 

Nokkrum klukkutímum fyrir þessa atburði stóð ég virðuleg og beið eftir strætó 57 á leið í bæinn þegar grannkona mín, sem einnig ætlaði í bæinn, sýndi mér skilaboð frá Vegagerðinni um að Garðabraut væri lokuð og strætó færi aðra leið. Ég sá ekkert sem gæti mögulega orsakað lokun en treysti skilaboðum Vegagerðarinnar - í síðasta sinn.

Þegar ég sit sem oftar í biðskýlinu mínu við Garðabraut, sé ég í fjarlægð stoppistöðina á undan minni, Bæjarskrifstofur, heitir hún, er við Stillholt, rétt hjá Galito. Í raun eina von okkar til að ná strætó á laugardaginn var að spretta úr spori. Ég sem hef varla hlaupið að nokkru ráði í mörg ár tók til fótanna. Bílstjórinn beið sallarólegur, virtist eiginlega njóta þess að sjá virðulegar frúr á besta aldri, þjóta þessa óbærilega löngu leið, þetta var alveg hálf Garðabrautin, yfir hringtorgið stóra (það var lítil umferð), fram hjá bensínstöðinni á vinstri hönd og Landsbankanum, Flamingo og Dýrabæ á hægri hönd. Ég gekk virðulega síðustu metrana til að æla ekki blóði og sá mér til gleði að þessi örlitla strætóseinkun vegna hlaupa okkar, hafði orðið til þess að vinir okkar stráksa, Keli og Gaur, náðu strætó. Gaur er svartur labrador og með þeim allra, allra fallegustu. Við Keli spjölluðum saman alla leiðina og þar sem Gaur var ekki í vinnunni á meðan við vorum í strætó, fékk ég að klappa honum að vild. Ég þakka það reykleysi mínu til bráðum fjögurra ára að ég gat yfirhöfuð talað, ég var svo ótrúlega fljót að ná andanum. Ég hefði ábyggilega orðið vör við ef ég hefði rifið hásin - en verkirnir benda þó til einhverra áverka.

 

Mynd, samsett úr fjórum - til að útskýra hlaupin:

1. uppi t.v.: Tekin frá enda Garðabrautar, þegar ég var komin langleiðina, það sést í strætó á stoppistöðinni við Stillholt. Ég þaut yfir umferðareyjuna.

2. uppi t.h. Eldgömul hálkumynd sem sýnir leiðina að stoppistöðinni við Garðabraut, ég er farin að ganga með salt á mér. Græna blokkin stendur sem sagt við Garðabraut en skýlið mitt er vinstra megin og sést ekki fyrir bílskúrunum fjær. 

3. niðri t.v.: Biðskýlið, gat ekki setið því vindurinn kom svo kaldur í bakið, ekki svona vel þrifið, heldur brotið.

4. niðri t.h.: Kort af leiðinni sem ég neyddist til að hlaupa, leiðin merkt með bláu, teiknuðu myndirnar af strætó sýna stoppistöðina mína, Garðabraut, lengst til hægri og sú við Stillholt er lengst til vinstri.

 

Það hræðilegasta var að bílstjórinn (frá Litháen) sem beið sallarólegur í Stillholtinu, flissaði góðlátlega og sagði að akkúrat þennan dag færi hann Garðabrautina eins og venjulega svo við hefðum ekki þurft að hlaupa. Ætti ég að fara í sjúkranudd og -þjálfun og senda Vegagerðinni reikninginn? Eða jafnar þetta sig ef ég ligg í rúminu í viku? Fundur hjá Hekls Angels á miðvikudag svo það gengur ekki. Eða á ég að láta lögmenn mína sjá um stóra hlaupamálið líka?

 

Nanna og ValskanDónabókin kláraðist á laugardagskvöld og var bara orðin mjög kjút í lokin. Það gerðist visulega fátt bitastætt fyrstu ellefu klukkutímana (hljóðbók) en svo varð allt vitlaust og ég þurfti að laumast til að hlusta undir sæng um tíma, munið.

 

Fór reyndar í bókabúð í gær og keypti nýju bókina hennar Nönnu Rögnvaldardóttur. Hafði frétt frá mjög áreiðanlegum heimildum að þetta væri harðkjarna torfbæjaklám. Mér fannst ég þurfa að tékka á því, er samt alls ekki orðin vitlaus í djarfar bækur. Byrjaði samt að lesa krimma sem ég keypti í leiðinni, hann fór vel í veski á meðan ég erindaðist í dag og ég gat lesið aðeins á biðstofu meðal annars. Valskan verður nú samt lesin fljótlega. Hef heyrt svo gott um hana.


Bloggfærslur 9. október 2023

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 122
  • Sl. sólarhring: 135
  • Sl. viku: 760
  • Frá upphafi: 1525653

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 680
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband