Skafandi og skutlandi nágrannar frá Himnaríki ...

MyndFrá jarðsögu-, eldgosa- og hamfaralegu tilliti er mjög gott að búa á Akranesi, skilst mér, þekki eina sem á eintóma ættingja í jarð-, veðurfræðinga- og eldgosakreðsunni, möguleg flóð kannski hér en sérlega litlar líkur á eldgosi við bæjarfótinn. En við finnum vel fyrir stærri skjálftunum á Reykjanesskaga. Ég vorkenni mér nú samt ekkert mikið, hugsa bara til elsku Grindvíkinga, þetta hlýtur að vera ansi óþægilegt, svo vægt sé til orða tekið. Svefnlaus fyrrinótt hjá þeim eins og mér, mér tókst þó að halda mér vakandi við íslenskuítroðið í gær. Þvílíkur munur var svo að vakna í morgun eftir nægan svefn sl. nótt. Svo hófust lætin. Nú hef ég ekki tölu á jarðskjálftum sem hafa tröllriðið öllu hér í Himnaríki og hrætt kettina mína, brotið glerið á innrammaðri mynd af Kór Langholtskirkju og fylgifiskum þar sem við vorum stödd í Flórens í júní 1985, ef ég man rétt. Myndinni hafði ég tyllt upp á hillu í stofu og hún hrundi niður við einn stóran. Í einhverjum af þeim fyrri datt pakki með tepokum á gólfið í eldhúsinu. Óþægilegt en ekkert miðað við það sem er í gangi hinum megin við hafið, í 56 kílómetra fjarlægð í beinni línu. Elsku Grindvíkingar, ég væri orðin ansi strekkt á taugum í þeirra sporum (varlega orðað). "Kristallarnir" á lampanum mínum úti í glugga hafa dinglað nánast látlaust í dag og kvöld, eins og ljósakrónurnar þarna hinum megin. Áður en stráksi fór í helgargistingu spurði hann mig til öryggis hvort við myndum deyja, hann náði nokkrum stórum hér heima, en var samt ekki sérlega áhyggjufullur. Hann er í sundi í þessum skrifuðum orðum, og nýtur lífsins. Ég er komin með jarðskjálftariðu, kíki reglulega á lampann þegar ég hristist, hann er ekki alltaf á sama máli.    

 

Valur að skafaNágrannakona mín frá Úkraínu, kattahvíslari með meiru, vinnur ekki langt frá mínum vinnustað og hefur skutlað mér undanfarna morgna í vinnuna. Í morgun biðum við í frosnum bílnum eftir því að miðstöðin hitaði rúðurnar svo sæist út, en allt í einu birtist sjálfur Valur nágranni sem skóf rúðurnar með ljóshraða, eða á innan við hálfri mínútu. 

Ef ég flyt í bæinn, sem gæti alveg orðið, svona ef ég tími ... þá ætla ég að taka hvern einasta nágranna hússins með mér (og Hekls Angels og Ingu og fleiri). Þeir vita ekki af því en mér tekst einhvern veginn að sannfæra þá um nauðsyn þess að við höldum áfram að búa öll saman. Það hlýtur að hækka fasteignaverð til muna að geta auglýst svona góða nágranna.

 

Myndin (þessi gula) sýnir hinn frábæra Val (að skafa) sem flýtti för okkar til muna í morgunsárið.

 

Það var hroðalega hált í morgun og ekki hafði það skánað í hádeginu. Ég hét því eiginlega að ef ég slyppi óbrotin heim myndi ég halda mig inni þar til í vor. Svo sá ég að spáð er hlýrra veðri næstu daga svo ég endurskoða það. Strætó ók ofboðslega hægt (næstum 10 mínútum á eftir áætlun) sem er hið eina rétta í svona ástandi, það var eins og ísfilma yfir öllum götum og gangstéttum. Sem betur fer er nokkuð um gras hérna sem óhætt er að ganga á, en ég kveið bara fyrir því að ganga yfir hlaðið, bílaplanið fyrir utan himnaríki. En ... sennilega var Valur búinn að salta því þar var nákvæmlega engin hálka! Eða kraftaverk, auðvitað.

 

Facebook-fréttir:

Ansi hreint margir hafa deilt tíu ára gömlum flökkustatus á íslensku í dag um að þeir gefi Facebook alls ekki leyfi til að nota myndir þeirra ... o.s.frv. Færri brandarar fyrir vikið.  


Bloggfærslur 10. nóvember 2023

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 104
  • Sl. viku: 666
  • Frá upphafi: 1525559

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 593
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband