Bráðum of háöldruð fyrir myndatöku

1900Muna ekki hjartkærir blogglesendur mínir eftir því þegar Krabbameinsfélagið fórnaði okkur Skagakonum fyrir kannski tíu árum og vildi fá okkur til borgarinnar í brjóstamyndatöku? Einhverjar ástæður voru taldar upp, þær héldu ekki vatni, en þetta fækkaði Skagakonum sem mættu í myndatöku sem virðist hafa verið ætlunin. Getur orðið dýrkeyptur sparnaður ... Ég gladdist innilega þegar Heilsugæslan tók við þessu í fyrra en sama ruglið virðist vera í gangi þar og vér Skagakonur ekkert of góðar til að skutlast í bæinn. Frekar mikið vont fyrir bíllausar skvísur og tekur aldrei minna en rúma fjóra tíma, ef miðað er við mætingu kl. 10 og að allt gangi upp, veður, stundvísi strætó og lítil bið á Lansa. Ég hélt að sólin væri farin að skína á mig í þessum málum þegar elsku frábæra Jóhanna Harðar, fyrrum ritstjórinn minn með miklu meiru, aumkaði sig yfir mig nýlega og bauð mér far til Reykjavíkur þegar hún færi næst ... hún hafði séð mig spyrjast fyrir um þetta á netinu - en heilsugæslan á Facebook virti mig ekki svars.

 

Myndin er bara til að gleðja ... tengist ekki umræðuefninu.

 

Úps! Í ljós kom að Jóhanna má éta það sem úti frýs, ekki svo dýrmæt lengur, hún er víst orðin sjötug og það „tekur því ekki að mynda svo "háaldrað" kvenfólk“, skildist mér á henni nema hún notaði mun sterkari orð. Þá á ég ekkert of mörg ár eftir í að naga þröskuldinn ... Ég hef spurt vinkonur hér á Skaga af og til ... en þær hafa þá verið búnar að fara suður eða ætla að sjá til, ég spyr yfirleitt þegar ég fæ boðun. Það er sérstaklega eitt sem veldur því að ég á erfitt með að vera lengi að heiman - en því styttri tími sem ferðin tekur, því betra og minna stresssandi fyrir mig ... og aðra manneskju.

Er það bæjarstjórnin hér á Akranesi eða Heilsugæslan sem getur mótmælt þessu fyrir hönd Skagakvenna? Eða skiptir engu að ná upp góðri mætingu aftur? „Skreppirí“ í bæinn er ekki til í minni orðabók, ekki  með strætó, veðrið þarf að vera gott, eða strætófært og það tekur alltaf einhverja klukkutíma. Fór einu sinni í bíó með syni mínum - á laugardegi, minnir mig, og við vorum í sjö tíma í bænum - misstum reyndar af einum vagni. Myndin var ekki þess virði sem var verst. Það var ekki Da Vinci code, heldur sú sem kom á eftir, Tom Hanks og fornir leyndardómar-eitthvað, mér leið eins og ég væri að horfa á tölvuleik ... leysa þetta borð, svo næsta, og næsta ... 

Er ég virkilega eina manneskjan sem er svekkt yfir þessu myndatökurugli? Ég mætti eins og klukka á tveggja ára fresti frá því ég varð fertug og alveg þangað til þessi furðulega ákvörðun var tekin. Regína bæjarstjóri mótmælti þessu harðlega á sínum tíma en án árangurs. Þá hét ég því að Krabbameinsfélagið fengi aldrei krónu frá mér, eða nokkra velvild nokkurn tíma og hef staðið við það.

Nú þarf ég að skreppa á fund ... mér liggur samt margt á hjarta, eins og fáránlegar bækur ... ég hef komið mér upp skelfilegum bókmenntasmekk á síðustu árum ... og sitthvað fleira. Meira á morgun. 


Bloggfærslur 6. mars 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 40
  • Sl. sólarhring: 304
  • Sl. viku: 2367
  • Frá upphafi: 1457637

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1961
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband