Fólkið með frasana og Ölver minnir á sig

Himnaríki 6. mars 2023Skagamær hef ég verið í 17 ár í þessari þriðju umferð búsetu hér síðan 1961 og nú hefur fóstursonurinn búið hjá mér í 6 ár, upp á dag. Á þessum 17 árum hef ég gert margt skemmtilegt en ansi hreint lítið um djamm hérna. Pöbbinn sem ég man ekki hvað heitir var á horni Skólabrautar og Vesturgötu sem allir vita að er ekki í göngufjarlægð fyrir t.d. mig í 170 Akranes, hvað þá 210 Akranes uppi í Grundum og enn nýrri hverfum. Barinn var rétt hjá kirkjunni en staðsetningin skýrir eflaust arfalélega kirkjusókn þeirra bíllausu af því að innanbæjarstrætó tekur ekki bara síestu um miðjan morgun virka daga, heldur ekur hann hvorki á kvöldin né um helgar. Vínbúðin er aftur á móti lengst austur í rassgati, rétt hjá Húsasmiðjunni og þar, þannig að ég gerðist bara bindindiskona og einbeitti mér að kaffidrykkju. Það er eitthvað sjoppulegt við að burðast með bokkur í bónuspoka í strætó. Hælaskór, varalitur, pels og Benz, eða sleppa því.

Vissulega einir rokktónleikar með Dúndurfréttum rétt fyrir covid, nokkrum sinnum í bíó, upplestur á jólabókum í bókasafninu í nóvember, afmælisveislur, málverkasýningar. Allt skemmtilegt og án sukks. Svo fór doktor Kamilla að vinna á Akranesi. Hún er dönsk og við kynntumst yfir úkraínskri máltíð hjá Rauða krossinum. Hún er nánast altalandi á íslensku eftir átta mánaða búsetu hér, hef ekki tölu á því hve mörg tungumál hún talar ... en það er ekki málið. Var það ekki einmitt í desember á síðasta ári sem ég datt kylliflöt í sollinn, glötunina, djammið, sukkið, eftir að hafa verið stillt og prúð í áratugi, þegar hún dró mig með á pöbbkviss á Útgerðinni? Ansi hrædd um það. Hún bætti svo um betur síðasta föstudag. Sendi mér skilaboð: „Viltu koma með á blústónleika í Reykjavík?“ Ég er alltaf að reyna að tosa mig út úr þægindahringnum (án þess þó að samþykkja að fara með nokkrum í sund) svo ég sagði bara já. Enda er ég mjög hrifin af blústónlist. 

Ölver í dagsbirtuÉg rak samt upp stór augu þegar ég kíkti í símann minn í bílnum á leiðinni í bæinn, hún hafði sent mér allt um viðburðinn á meðan ég var í sturtu. Ég spurði hana og hollenska manninn hennar sem er listamaður og heldur með Ajax, samt ágætur:

„Ha! Farið þið stundum í Ölver? Hafið þið kannski áður farið á blústónleika þar?“

„Nei, við höfum aldrei gert það, er þetta ekki allt í lagi staður?“ 

„Þetta er eða var karaókíbar, held ég, eða sportbar, hann er í kjallara í verslunarmiðstöð. Ég vissi ekki að það væru haldnir tónleikar þar,“ sagði ég og eldgamlar minningar fóru að rifjast upp.

 

Ölver í myrkriÞau hjónin höfðu haldið að þetta væri einn af þessum stöðum í miðborginni en þau hafa sótt tónleika nokkuð grimmt, blús og jazz. Þótt ég fengi örfá minningarleiftur frá fornri tíð þegar við ráfuðum um í kringum Glæsibæ í leit að innganginum að Ölveri, tókst okkur að skunda fram hjá innganginum. Ef ekki hefði verið fyrir hjálplegan fastagest sem gargaði á okkur: „Þið eruð komin fram hjá. Dyrnar eru hérna!“ hefðum við eflaust lent í vandræðum og værum kannski enn ráfandi um Heima-Sund. Fjöldi fólks var inni á staðnum, samt var klukkan bara átta og tónleikarnir ekki byrjaðir. Ekki reyndist mögulegt að fá almennileg sæti því sumir voru búnir að taka bestu borðin frá fyrir vini sem voru á leiðinni. Við enduðum á því að setjast við fremsta borðið í salnum, við hlið sviðsins, og sáum hljómsveitina mest á hlið (sjá mynd) en bara bakið á sumum. Þetta var skemmtileg lífsreynsla, ágæt músík en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Þarna voru tveir sem ég þekkti, báðir nokkuð tengdir bandinu, held ég, og þarna gerði ég játningu:

 

Fyndið að vera hér,“ sagði ég. „Síðast kom ég hingað 26. júlí 1980.“ Þau störðu hissa á mig. Við höfum svo sem ekki þekkst lengi en ég efast um að þau hafi átt von á einhverju svona frá mér. „Sko, ég giftist einum af fyrstu eiginmönnum mínum heima hjá mömmu á Rauðalæk og hún heimtaði að halda veisluna hérna í Ölveri,“ játaði ég og roðnaði glettnislega. „Ég held að það hafi ekki verið svona dimmt þá,“ bætti ég greindarlega við. Þvílíkt minni eftir alla vega 15 ár og jafnvel rúmlega það, hugsaði ég með sjálfri mér, ég man samt ekki hvort kaffið var drekkandi sem mér finnst lykilatriði í dag, enda ógift í augnablikinu. „Við erum sko fínir vinir, ég og allir mínir fyrrverandi,“ tók ég fram. Hjónunum létti stórlega. 

Ég drakk tvo bjóra sem er meira en ég hef gert í mörg, mörg, mörg ár, nema í desember og með þessari sömu manneskju. Tilviljun? Held ekki. Ef ég verð alki veit ég hverjum ég get kennt um það. En samt ... ég held að sökin sé í rauninni hjá fólkinu með frasana, sjá sérstaklega nr. 2:

1. Þú ert nóg ...

2. Drífðu þig út úr þægindahringnum ...

3. Lifðu lífinu lifandi ...

4. Vertu þú sjálf og láttu allt flakka ...

5. Morgunstund gefur gull í mund ...

 

Ég reyni svooo mikið til að enginn geti sagt við mig að ég sé vanaföst (gömul) og þoli ekki breytingar (feit). En þau hjónin gætu þó ALDREI í lífinu platað mig með í sund þannig að minn eigin vilji fyrirfinnst þarna einhvers staðar.

- - -  - - - - - - - - - - - - - -


Bloggfærslur 7. mars 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 113
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 2440
  • Frá upphafi: 1457710

Annað

  • Innlit í dag: 102
  • Innlit sl. viku: 2027
  • Gestir í dag: 100
  • IP-tölur í dag: 100

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband