Upplyfting, heldur betur

AmmmmiliPlötuspilari, jesss, æðislegt, hugsaði ég, svo innilega ánægð með nýju plötuna mína með Upplyftingu (og að geta spilað King Crimson-plöturnar mínar líka). Ég hafði vart náð að setja inn nýjustu bloggfærsluna á fésbókina (annars les enginn) í gær þegar ég fékk komment um að víst væri Kveðjustund inni á YouTube, því til sönnunar fékk ég hlekk á alla plötuna. Ég hafði leitað reglulega að laginu í áratugi (alla vega frá 14. febrúar 2005 þegar YouTube var fundið upp) en platan kom út 1980, og fannst furðulegt að finna það hvorki á Spotify né YouTube. Svo fór afar tónlistarlega vinveittur mér maður að norðan á stúfana og fann það í fyrstu tilraun. Ég var í sjokki, eiginlega gráti næst, þar til skynsemin tók yfir og ég athugaði hvenær þessi plata, þetta lag, var sett inn. Sjúkk, fyrir aðeins tveimur mánuðum. Sennilega tuttugu mínútum eftir að ég leitaði síðast. Ég er ekki alveg kolklikkuð svo ég leita ekki daglega ... en geri það nokkrum sinnum á ári. Ég er nánast ekkert á Spotify, heldur á tónlistarveitu YouTube og get fengið myndböndin með lögunum sem ég vel, ef ég vil, og er búin að bæta Kveðjustund við. Nú er ég með 93 lög á listanum Ýmis lög. Set alltaf á shuffle (stokka lögin eins og spil) og það kemur mér alltaf jafnskemmtilega á óvart hvað ég hef góðan tónlistarsmekk. Gömul lög, nýleg lög, klassík, væmni, þungarokk, rapp. YouTube á samt svolítið erfitt með að búa til lista handa mér, velur svo oft B-hliðar-lög sem oft eru hundleiðinleg ... fordómar hjá YouTube-veitunni. Auðvitað kíkti ég á Spotify líka og haldið að lagið sé ekki komið inn þar líka? Það er einhver í Upplyftingu sem elskar mig. (Einhver meðvirkur mér talaði við vin sinn hjá Upplyftingu fyrir nokkrum árum og án árangurs, hélt ég, það var alla vega eitthvað vesen sem nú er búið að leysa ... takk, elskan)

 

BaneitraðÉg var að ljúka við ansi skemmtilega og drepfyndna bók á Storytel. Gamla uppáhalds þótt ég hafi verið aðeins meira en unglingur þegar ég las hana. Baneitrað samband á Njálsgötunni, auðvitað eftir Auði Haralds.

Þegar maður fær hláturskast hljómar maður stundum eins og verið sé að pynta mann, vein og læti. Ég fékk kast í gær og stráksa brá og eiginlega skammaði mig fyrir að hlæja (emja) svona mikið.

Ég þurfti að slökkva í miðri setningu frábæra lesarans og stökkva út eldhúsinu og inn á salerni til að pissa ekki í buxurnar.

 

Þegar ég sagði að það hefði hlýnað í Víti í gær, í stíl við Himnaríki, var víst átt við að Askja búi sig undir eldgos - og svo er ekkert svo ólíklegt að við fáum neðanjarðargos á Reykjaneshrygg á svipuðum tíma. Það mætti halda að þetta land væri ekki fullskapað ... dæs. 

 

Hér fyrir neðan er svo LAGIÐ. Hefur elst prýðilega og ég er búin að hlusta á það fjórum sinnum í dag, öskursyngja með viðlaginu (aumingja nágrannarnir) í hvert sinn og er bara voða sátt. En ég ætla samt að kaupa plötuspilara. Það slökknar ekki svo auðveldlega neistinn af tilhlökkun sem ég fann til á laugardaginn við tilhugsunina um hann. Ég er meira að segja komin með stað fyrir hann inni í stofu. Hann Óli hennar Önnu er með svakalega flottan plötumarkað á Háaleitisbraut og síðast þegar hann birti mynd af plötum á góðu verði eða ókeypis, sá ég glitta í þessa plötu ... ef elsku Kristbjörg hefði ekki gefið mér hana, hefði ég fengið hana hjá Óla, þessari plötu var ætlað að komast til mín ... þótt það tæki óratíma. 

 

  


Bloggfærslur 14. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 199
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 1741
  • Frá upphafi: 1460674

Annað

  • Innlit í dag: 184
  • Innlit sl. viku: 1408
  • Gestir í dag: 177
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband