Stuð við mjólkurkælinn ...

Aldur bara orðAfmæliskveðjurnar berast enn og sumar sá ég í dag í fyrsta sinn þótt þær hafi verið skrifaðar og sendar á laugardaginn. Facebook þó! Mikið sem kveðjurnar hlýja, gleðja, kæta, bæta og hressa. Ekki er síður hressandi að fá betra veður, eða meiri svala og vind. Rigning er alveg ágæt líka, svona í hófi. Það tók nógu langan tíma að fá stráksa til að leggja vetrarúlpunni og fara að nota jakkann, skömmu fyrir þessa ógeðsheitu daga í júlí og ágúst, en í dag greip hann úlpuna svo það fer að koma vetur, sorrí, krakkar mínir. Hann finnur þetta.

Mér skilst að veðurguðirnir ætli að hafa fínasta veður í Reykjavík á laugardaginn, þegar menningu verður almennilega fagnað. Ég nenni ekki í bæinn, stráksi fer í helgargistingu svo ég get sprangað frjálslega um Himnaríki, jafnvel berleggjuð. Kettirnir kippa sér svo sem ekki upp við smávegis nekt. Gæti orðið gaman að ráðast á ætu afmælisgjafirnar, flotta ostinn, kexið, súkkulaðið ... Líka stór spurning um að standa girnileg við mjólkurkælinn milli kl. 18 og 18.30 í Einarsbúð á morgun, það hefur gefist vel. Stundum hef ég gripið lambalæri eða -hrygg og haft í körfunni til að flýta ferlinu en ef sérlega illa veiðist (mæli ekki með júlí, ágúst og desember) get ég alltaf skilað því í kælinn og keypt mér pastaréttinn góða fyrir einn og hitað í örbylgjunni.

Hef góða tilfinningu fyrir helginni þrátt fyrir hækkandi aldur. Nú eru sumir farnir að tala um að ég líti ekkert síður út en Madonna en það gæti auðvitað verið enn ein pikkupplínan. Aldurinn hefur fært mér bæði visku og ... æ, ég man ekki hvað hitt var. 

 

Strætó fyrir tággrannaEinn íbúinn hér í Himnaríki þurfti að skreppa í blóðprufu í dag og ég verð eiginlega að minnast á dásamlegu móttökurnar sem við fengum á spítalanum hér ... á elskulegheitin, fagmennskuna og svo auðvitað verðlaunin í lokin, eða spil sem virkar spennandi. Það verður sem sagt spilað lúdó hér í kvöld. Hugsa að stráksi mali mig, hann var vanur að gera það í Ólsen.

 

Við tókum strætó, fína nýja rafmagnsstrætó, því það var rigning, ég leyfði drengnum að ráða hvort við færum með honum eða fótgangandi, og hann vildi ekki ganga (getur hatur á gönguferðum erfst frá fósturmæðrum?). Við sátum hlið við hlið en létum ganginn vera á milli okkar, til öryggis ef ég færi að syngja og hann gæti látið sem hann þekkti mig ekki. Ég hef bara hótað því, aldrei staðið við það.

Stráksi er grannur en sætið rétt passaði undir hann samt! Sjá mynd. Ég þorði ekki að horfa á auða sætið við hliðina á mér, hvort ég fyllti kannski út í það líka eins og það sem ég sat á ...

 

Kettir í stuðiLitla systir (Hilda) kom óvænt á Skagann í gær ásamt vinkonu, bauð mér út að borða, talaði smávegis um daginn og veginn yfir pítsu og kjúklingi, skutlaði mér svo heim og fór síðan til baka í Kópavog.

Skilst að hún hafi verið búin að lofa hundunum (Herkúlesi og Golíat) gönguferð á Langasandi en svo kom í ljós að það var rigning og svona fínir hundar neita að óhreinka sig, jafnvel ekki á flottustu baðströnd landsins. Þetta er alið svo snobbað upp. Ef ég fer í sturtu heima hjá Hildu er ekkert stórmál ef ég ruglast og nota óvart hundasjampó í hárið á mér, það er svo fínt merki en ég verð samt alltaf ögn ljóshærðari á eftir.

 

 

Ljósmynd af fögrum köttum: Ekki svona skökk, heldur bara illa tekin í flýtinum, litla myndin virðist skakkari en hún er.

 

Hilda hafði víst trúað því sem ég sagði henni árið 2006 þegar ég flutti hingað að hér rigndi aldrei. Ég hafði gleymt að leiðrétta það en hér rignir svo sjaldan að hún hefur aldrei upplifað það. Það er svo ofboðslega langt síðan hún var barn að hún man ekki eftir veðrinu á Akranesi í æsku, það var svo sem alltaf gott veður, minnir mig. En hún er brjáluð út í mig núna og hundarnir orðnir fyrrverandi vinir mínir. Eini sem er glaður í þessu ástandi er Krummi, sá sem liggur og malar á myndinni, og hlakkar yfir misheppnuðu gönguferð hundanna. Mosi og Keli fóru að slást af hryggð yfir að hitta ekki vini sína, sætu, hvítu voffana. Ég náði sögulegri mynd af þessu.

Heimsókn Hildu og kó gekk svo hratt fyrir sig að ég er farin að efast um að hún hafi komið, að ég hafi dottað í hádeginu í gær og vaknað pakksödd, eins og ég hafi farið út að borða í hádeginu. Ég held að Hilda hafi ekki áttað sig á rigningunni fyrr en eftir matinn, þegar átti að fara í göngutúr með hundana. Kannski var gönguferðin ekki ástæðan fyrir komu þeirra hingað, mögulega átti vinkona hennar erindi hingað en mér finnst það ekki trúlegt. Hér er fátt spennandi að gerast fyrir konur á okkar aldri á þessum árstíma, nema við mjólkurkælinn í Einarsbúð á föstudögum klukkan átján.    


Bloggfærslur 17. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 216
  • Sl. sólarhring: 288
  • Sl. viku: 1758
  • Frá upphafi: 1460691

Annað

  • Innlit í dag: 198
  • Innlit sl. viku: 1422
  • Gestir í dag: 191
  • IP-tölur í dag: 191

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband