Ef ég nenni ...

BlómakötturLetidagar eru algjör nauðsyn annað slagið, og hér fór einn slíkur fram í dag. Vifturnar fóru í gang aftur eftir næstum vikalanga hvíld, ég hélt að ég gæti farið að fagna hausti og svala en svo var nú aldeilis ekki ... Gætti þess bara að hreyfa mig ekki neitt.

Sendi auðvitað hamingjuóskir til allra þeirra sem nenntu að hreyfa sig í morgun í maraþoninu. Sá að Team Tinna sem ég styrkti í ár safnaði heilmiklu fé. Ég man eftir maraþoni þar sem hlaupið var fram hjá heimili mínu við Hringbraut (1988-2006) og ég varð ekki vör við neitt, aðeins einfalt gler á milli mín og þúsunda sem másuðu og blésu í örfárra metra fjarlægð. Segir kannski allt um mýktina á hlaupaskóm þess tíma eða hve bókin sem ég var líklega að lesa var skemmtileg.

 

Myndin er af ámátlegum Krumma sem getur ekki látið blómvendi í friði ... hann er verstur kattanna. Tveir vendir sluppu í gegn á afmælinu og ég hélt hreinlega að kettirnir hefðu ekki tekið eftir þeim, óskhyggja ... Veit ekki hvort þessar gulu freknur framan í Krumma verði þar til eilífðar. 

 

Alltaf eitthvað að gerast á samfélagsmiðlunum. Á hundasíðu á Fb skrifar manneskja um mann sem passar hunda og tekur þá með sér út í bílskúr á kvöldin og reykir þar gras. Fólk er ótrúlega rólegt yfir því og segir það allt í lagi, ekki skaðlegra hundum en skötufýla! Mjög margir eru staddir niðri í bæ og svolgra í sig menningu, einhverjir njóta þess að sitja heima, eins og ég. Miðað við skyggnið núna ætti að sjást mjög vel í flugeldasýninguna frá Akranesi kl. 23, ef ég nenni. Ein á Instagram býr í Þýskalandi og hlakkar ekki til hitans fram undan, eða yfir 30 gráður næstu daga. Svo er það vinurinn sem vil meina að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fái alræðisvald yfir líkama okkar og haldi áfram að fremja fjöldamorð á okkur, ríkisstjórn Íslands að lauma þessu í gegn. Það eru týndir kettir og fundnir kettir, prjóna- og heklfólk að sýna afurðir sínar, fólk að deila fréttum og segja álit sitt í leiðinni. Það eru myndir frá ýmsum fallegum stöðum í heiminum, fólki á ferðalögum, fólki að borða, ég setti t.d. mynd af kexi, osti og freyðivíni (afmælisgjafir) á Snapchat hjá mér. Hugsa að allir þar haldi að ég sé algjör lúxusgella að borða svona kvöldmat, og gruni síst að ég sé bara að klára þetta áður en þetta skemmist og nenni ekki að elda fyrr en á morgun, stráksi að heiman núna. 

Jack ReacherÓtrúlega stutt síðan glugginn minn út í heim, fyrir utan bækurnar, var sjónvarpið sem ég nenni ekki kveikja á núorðið og hef varla gert í lengri tíma, kannski of mikið áreiti alls staðar. Er með Sjónvarp Símans Premium, Netflix, Amazon og Disney plús ... en stráksi hefur gaman af því að horfa stundum, annars væri ég hætt með þetta. Jú, ég myndi stökkva til og horfa ef kæmi önnur þáttaröð um Jack Reacher (Amazon), frábær leikarinn þar og greinilega um tveir metrar á hæð eins og sögupersónan á að vera (sjá mynd af honum), Tom Cruise er flottur í mörgum myndum en við sem höfum lesið bækur Lee Child eigum erfitt með að horfa á Tom sem Jack. Svo er systir mín búin að lofa að láta mig vita þegar allir þættirnir eru komnir af The Lincoln Lawyer, sá reyndar fyrri seríuna og vil geta horft á alla þættina þegar mig langar, ekki bíða. Maður er orðinn svo frekur eftir að dagskrárstjórar sjónvarpsstöðva hættu að stjórna lífi manns.

Þegar Lincoln L. kemur, eða allir þættirnir, verður sennilega poppað. Kannski mun ég sjá eftir því að hafa keypt svona lítinn örbylgjuofn (hætta á að pokinn brenni) en ég þoli ekki stærðarinnar tæki á bekkjum og borðum í eldhúsinu. Það sem ég nöldra oftast yfir við stráksa er þegar hann gleymir að ganga frá hraðsuðukatlinum inn í skáp. Drengurinn er með einhver bresk gen, held ég, er alltaf að fá sér te. Og hefur það sterkt, notar hverja einustu teögn úr tepokanum,. Jæks. Ég rétt bleyti tepokann í heita vatninu, blæs síðan á það í hálftíma til að geta mögulega drukkið það. Við erum te-plebbar hér í himnaríki, vissulega ólíkir te-plebbar en þegar ég bauð einu sinni enskumælandi konu í heimsókn sagðist ég eiga gott kaffi en vont te. Þegar hún kom sagðist hún gjarnan vilja kaffi.


Bloggfærslur 19. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 170
  • Sl. sólarhring: 275
  • Sl. viku: 1712
  • Frá upphafi: 1460645

Annað

  • Innlit í dag: 156
  • Innlit sl. viku: 1380
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband