Af afmælum og megrunarkúrum sem virka

Eitt afmælið á HringbrautSíminn hringdi fyrir allar aldir í morgun, klukkan var alla vega ekki orðin hálfellefu, og símtalið tengdist verkefni, framkvæmd þess og fleira. Maðurinn í símanum hafði komið í afmælið mitt í fyrra lífi, vel fyrir aldamót, og á Hringbraut sem þá var í 107 Reykjavík en breytt í 101 um leið og ég var flutt þaðan (mynd frá afmæli á Hringbraut). Við höfðum unnið saman í smátíma og það þarf yfirleitt ekki meira en það til að fá boð í afmæli á þessu heimili. Þá, eins og nú, færðu gestir dýrar gjafir og ég man enn, aldarfjórðungi síðar, hvað hann kom með ... Þetta er voða fín olía til að gera seigt kjöt meyrt, hafði hann sagt. „Ahhh, svona baðolía,“ sagði Borghildur vinkona hjálpleg. Margir hlógu, þeim var ekki boðið aftur. Ég rifjaði þessa minningu upp í símanum.

Löng þögn. Hann ræskti sig: „Ég kalla þig minnisgóða,“ sagði hann og röddin titraði svolítið. Sennilega af hrifningu. Það var líka eitthvað afsakandi í rómi hans, eitthvað sem ég lærði að greina á yfirheyrslunámskeiði í denn. (Það sem ég lærði þar kom sér óvænt sérlega vel í þriðja og áttunda hjónabandinu).

Ég svaraði sannleikanum samkvæmt: „Mér hefur liðið eins og seigu kjöti síðan.“ Ég reyndi að láta það ekki hljóma beiskjublandið. Vissulega hef ég meyrnað með árunum en ég þagði um það. Símtalið varð ekki mikið lengra, hann þurfti að flýta sér. Svona geta nú símtöl á fastandi maga hljómað. Jamm, ég borða ekki fyrr en í hádeginu og hætti strax eftir kvöldmat. Hefur engan árangur borið, enda svo sem ekki mikil breyting frá því sem áður var.

 

MegrunVinkona mín sagðist hafa prófað þessa 16:8-föstu um nokkurt skeið. Að borða frá kl. 12 á hádegi og til kl. 20 á kvöldin, ekki þó samfleytt, bara eins og venjulega. Fasta svo í sextán tíma, eða frá 20-12. Hún sagðist hafa þyngst þótt hún hafi farið samviskusamlega eftir þessu, meira að segja fært vítamínin fram yfir hádegið. Hún er í fullri vinnu frá níu svo hún þjáist mun meira en ég sem get skriðið undir sæng þegar stráksi er farinn í skólann. Ég veit svo sem hvar ég klikka. Ég get ekki beðið til hádegis með að fá mér kaffi með kaffirjóma út í. Mér skilst að það heiti „dirty fasting“ sem hljómar svo spennandi að ég reyni ekki að þýða það. Báðar borðum við hollan mat og gerum okkar besta til að eiga ekki sælgæti í húsinu, það klárast annars hratt. Er ég þá búin með allt afmælissælgætið? Nei, reyndar ekki, enn eru til trufflur en það saxast á þær.

Ókei, ókei, ókei ... meiri hreyfing, meiri útivist? Það á að vera allra meina bót. Ég tók eitt sinn viðtal við konu sem fór á Atkins-kúrinn og grenntist hratt. Hún laug í viðtalinu að hún hefði jafnframt verið dugleg að hreyfa sig, til að vera góð fyrirmynd, en í reyndinni hafði hún verið mjög upptekin og gaf sér lítinn eða engan tíma til gönguferða ... en samt grenntist hún. Henni fannst ómögulegt að segja frá því opinberlega, eins og hún væri að mæra leti og ómennsku sem gönguferðahatur þykir vera.

AydsÞegar ég var au pair í London hvarf allt hvolpaspikið af mér nokkuð hratt því ég þurfti að ganga í þrjá tíma á dag, virku dagana. Fara með börnin í skólann hinum megin við Gunnersbury Park: Á morgnana, bæði börnin, ganga til baka heim. Fara í hádeginu og sækja yngra barnið, ganga til baka. Fara með yngra barnið með mér um þrjúleytið og sækja eldra barnið, ganga til baka ... 30 mín. sinnum 6 ferðir, samasem 3 tímar. Það var engin undankomuleið; strætó, lest eða nokkuð annað sem hefði gert þetta bærilegra. Ég lærði reyndar nokkra ensku af mömmunum sem biðu við skólann eftir krökkunum, eins og að maður segir ekki orange kitten, en Mammakisa eignaðist einn slíkan kettling, maður segir ginger. Til að flýta fyrir grennslu borðaði ég lengi vel bara soðin egg og appelsínur í morgun- og hádegisverð og svo venjulegan kvöldmat.

Ég varð ansi hreint mjó á skömmum tíma. Myndi ég nenna þessu aftur? Well. Það er enginn hálftímagöngugarður hér á Akranesi með mikilvægt erindi hinum megin við hann þrisvar á dag, svo nei. Frændi minn, þekktur fyrir illgirnishúmor en samt ágætur, stundum, ráðleggur fólki að borða kjúklinga-sushi vilji það grennast hratt. Ég held að það sé langbest og ódýrast að ganga bara (ekki bókstaflega) með dökk sólgleraugu, líka inni, banna myndatökur og fleygja speglum. Eða byrja að vinna aftur í Reykjavík og fara gangandi, alla vega aðra leiðina, gæti hlaupið í gegnum Hvalfjarðargöng til að löggan taki mig ekki. Þá myndi ég aldeilis leggja af, eins og það hét þegar til siðs var að tyggja Ayds-karamellur til að grennast.         


Bloggfærslur 21. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 204
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1746
  • Frá upphafi: 1460679

Annað

  • Innlit í dag: 189
  • Innlit sl. viku: 1413
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband