Krassandi kaupgleði í kaupstaðarferð

Stefnir í þettaÉg (RF) var varla búin að sleppa síðasta orðinu í gær í blogginu, þegar ég var stigin upp í strætó og komin í bæinn, hviss, bang. Einn uppáhaldsfrændinn (34) sótti okkur stráksa (19) í Mjódd og hvert lá leiðin? Jú, auðvitað í Hamraborg, nafla alheims míns eftir að dásamlegur dýralæknir (28+) opnaði stofu þar. Ég skilaði kærri kveðju til hans frá Kela (13) sem er farinn að borða eins og almennilegur köttur aftur og leika sér - svo stuttu eftir að hann virtist vera lagstur banaleguna. Gigtarverkir, hélt dýralæknirinn, og gaf mér verkjalyf fyrir hann sem virka svona líka vel. Fjórir dropar núna þriðja til fjórða hvern dag. Sumir kettir sem finna til hætta að borða - það gerði Keli. Gaman að sjá hvað hann er orðinn sprækur aftur.

 

MYND: Svona er þetta að verða, allt í nafni „bættrar þjónustu“. Eins og Fúsi frændi í Englandi segir: „Nú er þessi tilætlunarsemi komin víða. Krafan um að kaupandi þjónustunnar vinni vinnu seljandans. Því þetta er bara það!“

 

Við vöknuðum fyrir allar aldir í morgun, ég var búin í sturtu og komin á fyrsta kaffibolla dagsins um tíuleytið sem er magnþrungið afrek hjá B-manneskju. Upp úr hádegi var ekið suður í Hafnarfjörð (115) og þar festi ég kaup á fínasta rúmi sem verður sérsmíðað fyrir mig af RB-rúmum (80). Hátt, stíft og sturlað flott. Gömul séffertík (13), ættuð af Akranesi (81) lá þarna bak við búðarborðið og dormaði og vera hennar gerði búðarferðina einhvern veginn helmingi betri. Ég tímdi ekki að fara út fyrr en ég var búin að velja mér rúm, kaupa kodda, tvö lök, yfirdýnu ... Vika í að rúmið komi og þá vonandi rétt rúmlega vika í að ég fari að svífa um Akranes, laus við bakverkina. Góð dýna er gulli betri, held ég.

 

Auðvitað skruppum við í Kost í leiðinni og ég birgði mig upp af þvottaefni og þurrkaraklútum. Sjálfsafgreiðslan þar gekk þokkalega með aðstoð Hildu, ég horfði mjög hjálpsömum augum á hana sjá um þetta. Það voru bara fjórir pakkar eftir af klútunum og ég kláraði þá, afsakið innilega, þið sem síðar mættuð. Eftir ferð í gegnum Smáralind (22) þar sem Hilda (RF) þekkti alla (hún býr í Kópavogi (68)), ég þekkti bara Gurrí með ý-i (RF)) sem bjó í Miðausturlöndum í áratugi en er flutt heim. Stúlkan sem afgreiddi okkur hjá Te og kaffi (39) talaði ansi hreint góða íslensku, ég hélt fyrst að hún væri íslensk, eða þangað til hún bað mig um að endurtaka eitthvað ... hún er frá Sýrlandi, svo ég gat notað arabískukunnáttu mína: „Sjúkran, habibti“ (takk, elskan) henni til mikillar skemmtunar. Nú þarf ég bara að fara að læra fleiri orð. Stúlkan sem þurrkaði af borðum og tók okkar í leiðinni af því að Hilda (RF) hellti niður kaffi ... er frá Grikklandi og íslenskan hennar ansi hreint góð líka. Kann því miður ekki orð í grísku. Ég veit um svo marga útlendinga sem vilja frekar að maður tali íslensku við þá í stað ensku, svo ég geri það alltaf fyrst. Vinur minn frá Líbíu kunni enga ensku þegar hann flutti hingað til lands, en vann á svo enskumælandi stöðum (veitingahúsum) að enskan varð honum miklu tamari en íslenskan lengi vel.

 

Systir mín, SinfjötlaSystir mín (sjá ljósmynd) skutlaði okkur stráksa heim á Skagann seinnipartinn, bíllinn fullur af dóti sem hefði aldrei komist í strætó; kattamat, þvottaefni og þurrkaraklútum, ásamt tveimur sokkapörum úr Hagkaup (64, eins og Barbie) og sængurgjöf (galla og smekk) til granna minna í næstu blokk. Örfáir dagar í barnið.

Auðvitað keypti ég líka gjöf handa stóra bróður (3), eða pínulítið (en hávært, held ég) rafmagnspíanó og áttaði mig ekki fyrr en á leiðinni heim að sennilega myndu foreldrar hans og hinn ófæddi litli bróðir, kála mér fyrir þetta ... svona gjöf er pottþétt verri en trommusett. Ég þarf eiginlega að lauma gjöfinni til hans og flytja svo í hvelli frá Akranesi - ef mig langar að verða eldri en rúmlega fimmtug. Samt líkar mér mjög vel við þetta fólk. Stóribróðir á eftir að verða ofsaglaður og það er fyrir öllu.

 

Við borðuðum á Galito í kvöld, gátum fengið borð um sexleytið en ögn seinna var ekkert laust. Ég tók fínustu mynd af henni systur minni (sjá ögn ofar) þar sem ég bað hana að gera sig sæta. Hún, með sinn eilífa mótþróa við stórusystur, gerði hið gagnstæða og ég fékk ljósmyndina sem ég vildi allan tímann. Hún fer beinustu leið á Instagram (13) hjá mér, og verður við hliðina á annarri mynd af henni (í fangi jólasveinsins (1.752)). Allir útlendingarnir mínir þar (flestir hjartaskurðlæknar og hershöfðingjar) sem vilja meira en vináttu en fá ekki, hafa reynt að mýkja stálhjarta mitt með því að læka MYNDINA AF HENNI í fangi jólasveins. Nú fá þeir loksins að sjá hvernig hún lítur út þegar hún gerir sig sæta. Það ætti að kenna þessum apaköttum sem halda að Instagram sé Tinder, að læka ekki myndir ... af öðrum konum!

 

P.s. Veit að sumir sakna Séðs og heyrts og vona að aldur nokkurra einstaklinga og staða og fyrirbæra í sviga fyrir aftan, sefi sárasta söknuðinn. Veit einhver hvað Hamraborg er gömul, eða Mjódd?

RF stendur auðvitað fyrir RÚMLEGA FIMMTUG.   


Bloggfærslur 26. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 189
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1731
  • Frá upphafi: 1460664

Annað

  • Innlit í dag: 175
  • Innlit sl. viku: 1399
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband