Helgarsukk í komandi stormi og ögrandi vinnuaðstaða

Hata gönguferðirDagurinn fyrir storm. Hlakka ég virkilega svona til? Ég veit það eiginlega ekki, rigningin skemmir þetta svolítið, eða útsýnið. Austan- og suðaustanhvassviðri eru algengari en önnur og ég þarf eiginlega helst að skipta um hurð að litlu svölunum sem snúa í austur og þétta betur eldhúsgluggann sem snýr í sömu átt. Alltaf hreinustu gluggarnir. 

Stráksi þurfti að erindast smávegis í bankanum um þrjúleytið og bað mig að koma með, held að hann hafi séð á mér að ég þurfti á viðrun að halda. Þótt ég hati gönguferðir veit ég að þær eru nauðsyn annað slagið. Ég gekk löturhægt, reyndar að drepast í maganum, en hádegisverður samanstóð af flatköku með osti og skyri. Mögulega einhvers konar óþol fyrir mjólkurvörum sem ég tek samt ekki í mál því ég get ekki drukkið kaffi mjólkurlaust. Með því að setjast niður smástund í bankanum minnkaði pínan. Kannski var þetta bara svekkelsi sem braust svona út vegna komandi "kval"veiða.  

 

Bók eða bíóAð sjálfsögðu kíktum við í bókabúðina bestu í leiðinni og keyptum þar afmælisgjöf handa ungri vinkonu, en stráksa er boðið í afmælisveisluna hennar um helgina. Svo óstjórnlega heppilega vildi svo til að elskan hún Peta var á ferðinni þarna í einni miðju alheimsins (Krónuplanið) og heimtaði hreinlega að fá að skutla okkur stráksa heim. Þar fór svo sem viðrunin fyrir lítið, en 50% er betra en ekkert (sjúklega vel sloppið fyrir gönguhatara).

Stráksi fer í helgargistingu fram á mánudag sem táknar auðvitað ekkert nema sukk og svall í himnaríki. Ég á enn eftir aðra pínulitlu freyðivínsflöskuna sem ég fékk í afmælisgjöf og ef ég man eftir því verður henni kálað en mig grunar að það verði bara kaffi. Svona getur nú vaninn komið í veg fyrir slark og svínarí. Það var fullt af girnilegum bókum í bókabúðinni en þar sem stórt verkefni er fram undan til að lesa yfir og sem helgin fer í þorði ég ekki að horfa (slefa) mikið. Mig langar rosalega í Holly, nýjustu bókina eftir Stephen King (fæst bara í Rvík, sjúkk) þar sem Holly var ein persónan í þríleiknum um Mr. Mercedes. Ég þarf að rifja upp kynnin við þær bækur en margir eru eflaust búnir að sjá þættina, minnir að þeir hafi verið ágætir. Voru þeir ekki á Stöð 2, og núna Viaplay? Þótt ég sé almennt hrifnari af bókunum en myndunum eftir þeim er það ekkert algilt. Það var gaman að bæði horfa á myndina og lesa bókina The Shining eftir King, en það þarf svo sem alltaf að minna sig á að hvort um sig er sjálfstætt verk sem ætti helst ekki að bera saman. Ég sá myndina á undan. Það var æðislegt að horfa á Harry Potter-myndirnar, Karlar sem hata konur-þríleikinn og Hringadróttinssögu ... OG lesa bækurnar en ég vona að í vetur detti ég ofan í stemninguna við að horfa á góðar mynd annað slagið, ég er hætt að nenna að horfa á fréttir, hvað þá þætti eða myndir, þótt ég sé með flest sem í boði er, nema kannski Viaplay, (Netflix, Sjónvarp Símans premium, Stöð 2 og S2-plús, Disney plús og Amazon). Þegar ég get farið að horfa aftur á ég heilu þáttaraðirnar og myndirnar óséðar og það er ekki fúlt.

Eldhús til vinstriStráksi er frekar duglegur að horfa en kvartaði nýverið yfir því að við værum allt of löt við að horfa saman á myndir. En alltaf þegar við förum til Hildu og gistum eigum við kósíkvöld og horfum á mynd. Hún á klakavél og ég er nánast háð því að drekka heilu stóru glösin af vatni með klaka ... bestu nammikvöldin. Kannski er vatnið í Kópavogi svona gott. Ég vildi stundum að eldhúsið mitt væri stærra, þá ætti ég klakavél. Mér leiðast bekkir fullir af dóti á borð við: brauðrist, hrærivél, örbylgjuofni, kaffivél, hraðsuðukatli, matvinnsluvél ... er sjálf bara með kaffivél og örbylgjuofn uppi við - af tækjum sko.

Mér finnst vinnusvæðið vinstra megin við vaskinn best (sjá mynd) og það virðist vera ákveðin áskorun, hreinlega ögrandi að skera grænmeti og slíkt á nokkrum sentimetrum þar sem örbylgjuofninn tekur eiginlega allt plássið - en það er ekkert mál. Svæðið hægra megin er talsvert stærra, og það sem er vinstra megin við helluborðið fyrir aftan (sést ekki) er miklu stærra. Svona er nú vaninn sterkur. Og maturinn sjúklega góður þrátt fyrir að valin sé langminnsta vinnuaðstaðan á heimilinu.        

Myndin: Skrapp fram og tók mynd núna. Tók ekki til eða sjænaði, sorrí. Þarna sést örlitla vinnusvæðið mitt. Klukkan á örbylgjuofninum er ekki rétt, ég þarf bara að halda mér vakandi til kl. eitt einhverja nóttina (sem er lítið mál fyrir B-manneskju sem er hvort eð er sjaldnast sofnuð þá), taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Klukkan á ofninum hefst þá handa kl. 01.01 við að telja tímann og helst rétt þangað til næst. Færði nefnilega og faldi ofninn (og kaffivélina) frammi í fatahengi á afmælinu mínu og síðan eru engar klukkur réttar nema í gemsum og einu armbandsúri. Að við skulum fúnkera ... 


Bloggfærslur 31. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 185
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 1727
  • Frá upphafi: 1460660

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 1395
  • Gestir í dag: 167
  • IP-tölur í dag: 167

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband