Innihátíð, vinnuófriður og ... sprækir taki eftir

Landsbankahúsið- Tötrughypja verður þú seint, sæta mín, sagði ég við spegilmyndina í morgun. Fallegi græni bolurinn frá Systrum og mökum, flottu buxurnar úr Nínu og doppóttu sokkarnir frá Liverpool. Fullkomið.

Í Himnaríki gengur senn í garð innihátíðin Ein með engu, eins og svo oft áður um verslunarmannahelgina. Tiltekt (spes vönduð) fyrir afmælið eftir viku, sem léttir á jólaþrifum með grisjun á bókum og öðru. Jei, gaman. Stráksi verður fjarri "óðu gamni" fram á sunnudag svo ég reyni að tína til það sem þarf að fara í ruslið fyrir brottför hans. Eldgosið virðist ætla að lognast út af fyrir afmælið mitt en sem betur fer komst Davíð frændi þangað í fyrradag á meðan það var enn í hálffullu fjöri, ég bað svo sem ekki mikið meira en það þegar ég ákallaði veðurguðina síðast.

Mynd: Gamla Landsbankahúsið.

 

Hluti af húsinu sem m.a. bæjarskrifstofurnar á Akranesi voru í virðast hafa orðið myglu að bráð, eða einhverju álíka, og miklar umræður eru nú í gangi um framtíðarstað skrifstofanna. Marga langar til að sjá þær í gamla Landsbankahúsinu á Akratorgi (sjá mynd) og það væri virkilega gaman, kostar minna að gera upp en byggja nýtt, en auðvitað þarf starfsemin líka að passa inn. Vonandi kemur eitthvað gott þarna í húsið til að lífga upp á miðbæinn. Ég hef komið inn í núverandi bæjarskrifstofur á stað sem er til bráðabirgða og vona að senn finnist góð lausn. Viðkvæm starfsemi nánast í opnu rými.

 

LandmælingarÍ sama stigagangi og bæjarskrifstofurnar voru áður voru Landmælingar líka, sem nú hafa flutt í nýtt framtíðarhúsnæði. Það nýja er rúmlega helmingi minna og hönnunin byggist á hugmyndum um verkefnamiðaða vinnuaðstöðu, skv. fréttatilkynningu! Er það ekki svipað og kennarar hafa verið að mótmæla í HÍ? Hljómar hræðilega, ef satt er, enginn með fasta aðstöðu og allt saman opið, sem sagt enginn vinnufriður. Vonandi er starfsfólkið ánægt þótt ég sé með hroll, og þetta vonandi unnið í samráði við það. Held að einhver þar hafi gert þetta skemmtilega landakort sem hér sést. 

Ég tel nokkuð víst að svona opin rými hafi haft ansi neikvæð áhrif á líf mitt frá árinu 2000 - því ég gat illa einbeitt mér á opnu svæði í annars frábæru vinnunni minni sem flutti þrisvar og skrifaði því ansi mörg viðtöl og greinar heima. Sem gæti meðal annars hafa orsakað núverandi hjúskaparstöðu mína. Hver hefur tíma til að hlaupa uppi sæta karla þegar þarf að skrifa flest kvöld og helgar líka? Ég er ekki fljót að skrifa, sem gæti auðvitað skýrt eitthvað en fann að einkalíf og vinnustaður uxu hratt saman. 

Ég hefði í staðinn getað verið í fjallgöngum, bókabúðum að skoða háfleygar bækur, í grænmetisdeildinni í Hagkaup og fleiri vænlegum veiðistöðum ... en það tók alveg 20 ár að átta sig. Fegurðin náði ekki alveg öll að hverfa á þeim tíma, sjúkk, en nú nenni ég ekki í fjallgöngur, vel mér lesefni í gemsanum heima og panta grænmeti í Einarsbúð. Allar leiðir lokaðar. Svo eru karlmenn orðnir svo varkárir, koma alltaf tveir saman frá Einarsbúð, vottum Jehóva, að rukka fyrir Moggann og það allt sem ég þreytist ekki á að kvarta yfir. Langar mig svona svakalega mikið í karl? Nei, eiginlega ekki, nema hann sé ansi sprækur og svakalega skotinn í mér, sætur, greindur, húshreinn, góður kokkur, stórmunasamur, með góðan húmor, dýravinur og ekki of mikill áhugamaður um útivist. Áhugasamir geta sótt um í athugasemdakerfinu. Meðmæli minnst tveggja fyrrverandi eiginkvenna verða að fylgja.    


Bloggfærslur 4. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 191
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1733
  • Frá upphafi: 1460666

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 1401
  • Gestir í dag: 172
  • IP-tölur í dag: 172

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband