Óvænt innihátíð í sveit og vanmetin sagnalist

SveitasælanStundum fara hlutirnir ekki alveg eins og planað var. Hér átti að vinna í gær, ásamt því að gera afmælistiltekt en svo breyttist allt. Vinkona mín, dönsk en samtalveg stórfín, hafði samband. Hún var að klára vinnulotu í Reykjavík og á leið í bústaðinn með karlinum sínum hollenska þegar henni datt í hug að fá mig og stráksa með, og standa við gamalt loforð um að sýna honum álfabyggð nálægt Grunnafirði. Stráksi að heiman til sunnudags, eins og lesendur bloggsins vissu, en hva, vildi ég ekki kíkja með og kannski gista og fá svo skutl heim á morgun, laugardag? 

Ekkert Ein með engu, hugsaði ég glöð, heldur Þrjú hress á palli, jess, jess, og ákvað að slá til, fara út fyrir þægindarammann í annað sinn á einni viku sem hefur aldrei gerst áður. Ég sá alveg fyrir mér að þurfa að sitja úti á pallinum umvafin grimmum geðillum geitungum og risastórum kóngulóm, en það er ekki að spyrja að hetjulundinni. Þetta fór þó ekki þannig. Þau sögðu mér frá lúsmýi þarna í sveitasælunni, sem væri ansi gráðugt í að bíta fólk, þau eru nú farin að kalla það mini-mý, að minni áeggjan. Því var ekki hægt að tala um okkur á pallinum, því við vorum inni allan tímann og allir gluggar harðlokaðir, þeir höfðu víst verið lokaðir í heilan mánuð eftir að vinkona mín var bitin af gríðarlegri ákefð af miklum fjölda lúsmýa (maðurinn hennar hefur ekkert verið bitinn en mítlarnir í Danmörku eru víst óðir í hann).

 

Svæfði þauVið borðuðum þetta fína sveppapasta í kvöldmat og sátum nokkuð lengi yfir matnum, margt að spjalla, orðið svo langt síðan við fórum saman á Ölver á tónleika, í sama sal og brúðkaupsveislan mín var haldin þegar ég giftist einum af mínum fyrstu eiginmönnum. Vinkonan stakk upp á því að við myndum spila borðspil en hætti við þegar hún mundi að það þyrfti að skrifa einhver svör í spilinu á dönsku og ég væri varla talandi á því annars ágæta tungumáli.

 

 

Við settumst inn í stofu eftir uppvask og nutum þess að horfa á útsýnið yfir trén og vatnið fyrir neðan (sjá efri mynd). Mjög fallegt. Ég var í miðri mjög áhugaverðri sögu sem ég var að segja þeim um drauma mína síðustu vikurnar og hvernig þeir fyrir tilviljun tengdust því hvernig eigi að búa til vegan-kindakæfu og varna geimverum aðgang að raftækjaverslunum þegar ég tók eftir því að þau voru bæði steinsofnuð (sjá neðri mynd sem gefur í skyn hvernig þetta var). Ég hafði reyndar stungið upp á því að fara snemma að sofa, því ég vissi að þau hefðu bæði verið á fullu síðan fyrir klukkan sjö um morguninn en þeim fannst það ekki hægt, kommon, það væri föstudagskvöld! Ég kláraði nú samt söguna mína og klukkutíma seinna, eða um hálfellefu, ræskti ég mig hátt, og við ákváðum að það væri líklega sniðugast að fara bara að sofa - þótt það væri föstudagskvöld.

 

 

Kaffið eftir matinn hélt mér vakandi í nokkra klukkutíma í viðbót sem þýddi að ég gat lesið lengi, lengi sem var dásemd. Kyrrðin umlukti allt, engir gargandi djammarar í grennd. Bíllaust fólk eins og ég elskar að fara í bíltúra svo ég fékk heilmikið út úr því að ferðast um fallega sveit í góðum félagsskap þótt vegalengdirnar væru nú ekki miklar og samveran helst til stutt. Svo þegar við fórum heim á Skagann, fljótlega eftir hádegi í dag, ókum við í gegnum Svínadal sem ég held að ég hafi aldrei séð áður. En kannski er auðvelt að rugla saman trjám, klettum, fjöllum og háspennumöstrum ef líður langur tími á milli ... Ég fékk óvænt og ljúft ferðalag, fínustu innihátíð að mínu skapi, þakka líka ógeðs-lúsmýinu fyrir að hafa ekki verið dregin í gönguferð úti í guðsgrænni eða út á pallinn, og gat að auki í fyrsta sinn klárað að segja löngu og fróðlegu söguna mína um kæfu og furðudrauma. Hilda systir þykist alltaf sofna og slefa þegar ég reyni, eða segist þurfa að skreppa áríðandi eitthvað - sumir kunna bara ekki að meta góða frásagnarlist.

 

Eldgosið var sprellfjörugt í gærkvöldi / nótt en það er ekki mikið líf í því núna. Ég sem ætlaði að setja í afmælisboðskortið: Kökur, kaffi og eldgos en þarf sennilega að breyta í Kökur, kaffi og gos. Það eru engin svik því ég kaupi pottþétt kók og appelsín en vonandi halda einhverjir að þeir geti gengið að eldgosi vísu út um glugga Himnaríkis.

 

Það hefur ekki einn einasti sprækur karl (55-65 ára) sótt um hjá mér (sjá síðustu færslu) en ég held í þá von að einhverjir eigi mæður sem þrái almennilega tengdadóttur og grípi því til sinna ráða. Ein vinkona mín sagði mig vera allt of kröfuharða, konum á okkar aldri nægði að gaurinn andaði. Æ, ég veit það ekki. Veit einhver hvort James Hetfield (úr Metaliccu) sé á lausu? Hann virkar sprækur og hefur fínan tónlistarsmekk. Held að Skálmaldargaurarnir séu of ungir.    


Bloggfærslur 5. ágúst 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 182
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 1724
  • Frá upphafi: 1460657

Annað

  • Innlit í dag: 168
  • Innlit sl. viku: 1392
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband