TheresuCharles-sjokkið og marglesinn spítalarómans

Kattakrútt HimnaríkisHaustlegra verður það með hverri lægðinni og nú er ein að koma að strönd Himnaríkis um helgina. Hún kemur einmitt þegar ég þarf að skreppa í bæinn til að sinna einu erindi, reyndar tveimur, það er orðið lítið eftir af kattamat, fína urinary-sjúkrafæðinu hans Kela sem Krummi og Mosi njóta góðs af. Dýralæknirinn í Hamraborg verður sem sagt heimsóttur líka, þessi ljúfi maður sem elskar dýr. Samkvæmt systur minni táknar koma mín í bæinn bara enn eitt dekrið. Það verða sennilega bröns-dýrlegheit á Apóteki, en þangað hef ég ekki komið árum saman. Gæti þurft að gista í bænum vegna veðurs, eða óhagstæðrar vindáttar, láréttrar SA-rigningar sem fer svo hratt yfir að strætó treystir sér ekki til að skutla mér heim. Þá flytur bara granninn góði inn til kattanna á meðan. Þegar ég kom heim eftir eftir síðasta sukk (sumarbústaðsferðina) horfðu þeir á mig nánast með vonbrigðasvip: Nú, nú, ert þetta þú? Enginn til að leika með leiser eða klappa í klessu ... Þegar ég bauðst til þess sneru þeir upp á sig og héldu áfram að sofa. Þeir flytja kannski bara niður á aðra hæð. Hrmpf ... djók.

 

Vinur minn, prófessorinnNú hlusta ég á bækur sem ég hélt mikið upp á í denn, og hef lesið þær flestar. Kláraði Berlínaraspirnar í gær og er byrjuð á Kuðungakröbbunum. Frábærar bækur eftir Anne B. Radge. Ágætt að hvíla sig frá morðum og drykkfelldum löggum (í bókum) og einhenda sér í svona sögur. Gamli maðurinn á heimilinu þarna í fyrstu sögunni kemur með óvænta bombu yfir óvænta jólamatnum með óvæntu komu yngsta bróðurins og dóttur þess elsta sem ekki allir vissu að væri til, og sú bomba talar alveg inn í samtímann og þann ljótleika sem samfélagsmiðlar hafa verið fullir af síðustu daga. Einn helsti kosturinn við að vera hraðlesari er sá að efnið og atburðir festast ekki svo glatt í minni, alla vega ekki til margra ára, svo auðvelt er að lesa bækur aftur. Sumar les ég viljandi aftur á örfárra ára fresti til að fá stemninguna, hitta gamla vini (söguhetjurnar). Eitt sinn skrifaði ég grein um Theresu Charles og bækur hennar og var í hálfgerðu sjokki á eftir. Theresa reyndist vera gervinafn og hjón sem skrifuðu. Ég endurlas og nýlas einhverjar bækurnar, meðal annars um Patrick skurðlækni sem mér fannst svo æðislegur. Dularfullur, þögull og spennandi ... Þegar ég endurlas bækurnar um hann varð ég fyrir svo miklum vonbrigðum, að Inez skyldi ekki leyfa Úrsúlu, leiðindafrekjunni með fullkomnunaráráttuna, að hirða frekjuhundinn og leiðindapúkann Patrik. Bækurnar höfðu auðvitað ekkert breyst, bara lesandinn ... og samtíminn. Mig langar samt að endurlesa bækur sem ég held að ég hafi látið frá mér í grimmdarlegu grisjuninni 2020, Hulin fortíð og Sárt er að unna. Mögulega sömu vonbrigðin en mikið sem ég hélt upp á þær hér áður fyrr. Ég les bókina Vinur minn prófessorinn á u.þ.b. fimm ára fresti. Hún segir frá ungri konu sem er að læra hjúkrun á fínu sjúkrahúsi ... þar má alls ekki tala við læknana (allir karlkyns) nema vinnutengt en í gönguferð skellur á þrumuveður og hún rétt sleppur inn í lítið hús uppi á hæðinni þar sem fyrir er indæll maður. Þau fara í kjölfarið að skrifast á og hann veitir henni ómetanleg ráð sem nýtast henni vel í náminu.

 

Mynd: Kaffibollinn minn með til að búa til meiri stemningu. En forsíðumyndin er villandi, Frances og prófessorinn hittust aldrei á þeim deildum sem hún vann, til að daðra svona eins og gefið er í skyn. Hún hefði verið rekin úr námi - nema þetta sé ríka vinkonan (Estella) sem vinur Frances, læknaneminn, elskaði, nei, Estella var alltaf svo vond við hann þótt hún elskaði hann á móti, af ótta við að ríki afi hennar leyfði henni ekki að halda áfram hjúkrunarnáminu en prófessorinn hélt að Frances elskaði læknanemann ... Ekkert nema misskilningur. Líklega hefur kápuhönnuðurinn ekki lesið bókina, bara fengið að vita að þetta væri spítalarómans. 

 

Facebook leggur tilÉg átti tvö eintök af henni en gaf annað í fyrra konu sem hafði elskað hana og endurlesið  frá barnæsku en langaði til að eiga hana. Sé enn á bókasíðum að auglýst er eftir henni. Hér áður hefði ég bent á nytjamarkaðinn Búkollu (Akranesi) sem hætti einhverra hluta vegna að bjóða upp á gamlar bækur. Eina ástæðan fyrir heimsóknum mínum þangað var að finna gamla og góða gullmola, en sumir sjá ekki fjársjóðinn í gömlum bókum. Því miður. Ég fékk til dæmis Alfræðiorðabókina frá Erni og Örlygi (í 3 bindum) í Búkollu á 300 kr. áður en þessu var breytt. Þá voru innbundnar bækur á 100 kall og kiljur á 50 kall. Svo var verðið hækkað til muna og bækur hættu að seljast eins vel, og líklega þá var hætt að taka við gömlum bókum af því að enginn vildi þær ... Dæs. Þess vegna fóru heilu kassarnir af bókum frá mér, bæði nýlegum og eldri, til Reykjavíkur í grisjuninni grimmu og Davíð frændi skipti þeim á milli markaðanna, þar sem þeim var alltaf afskaplega vel tekið. Góði hirðirinn tekur ekki við bókum og virðist hafa breyst í fokdýra verslun með notaða hönnunarhluti og -húsgögn á uppsprengdu verði, auk þess flutti þessi fyrrum fíni markaður þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi (nálægt Sundahöfn) eða fólk á bíl. Eins og Strætó gerði til að losna við ónæði af viðskiptavinunum. 

 

MYND:

Hvað er að gerast á Facebook?

Jú, það er tekist á um kristinfræðikennslu í skólum, áfram um meinta kynfræðslu, spurt um gagnsemi húsflugunnar, frétt um verkfall fanga, birt mynd sem sýnir fegurð Akraness úr lofti og skv. myndinni hér fyrir ofan er Facebook loksins farin að ota að mér almennilegum hópum. Ég sem fer aldrei í sund væri til í að vera í þessum hópi - enda elska ég allt við V-Hún., fólkið þar, kaupfélagið á Hvammstanga, minningar frá réttarböllum og fleira og fleira.      


Bloggfærslur 15. september 2023

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 361
  • Frá upphafi: 1527018

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 301
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband