Að stela barnabörnum, þjást yfir statusi og flissa yfir pokum

Gamalt fólk í fangelsiÓlíklegasta fólk deilir nú "voða sniðugum" status um hversu snjallt það væri að setja gamla fólkið í fangelsi og fanga á elliheimili. Kannski sama fólkið sem brjálast ef á að setja morðingja á réttargeðdeild því viðkomandi eigi slíkan lúxus ekki skilið, heldur beint með hann í fangelsi ... einmitt. Þarna gefur fólk sér að það sé lúxuslíf að sitja inni og jafnframt hroðalegt að búa á dvalarheimili. Í raun er það þannig að fangar fá t.d. ekki tilbúinn heitan mat, þeir þurfa að kaupa sjálfir matinn ofan í sig og elda hann. Er nánast viss um að þeir væru allir sem einn tilbúnir til að svissa, fá frelsi í staðinn - og heitan eldaðan mat. Við etjum endalaust saman hópum (vinsælt er: öryrkjar vs hælisleitendur, eitt sinn var það: gamla fólkið gegn öryrkjum) í stað þess að kalla á réttlæti fyrir alla.

Það fór virkilega vel um mömmu á Eir, hef bara heyrt hrós um Höfða hér á Akranesi og vinkona mín var alsæl með hvernig aðbúnaður mömmu hennar var á Grund. Ég veit að dvalarheimili eru misjöfn og ég veit líka að aðbúnaður fanga á Íslendi er talsvert betri en í sumum öðrum löndum. En það getur varla verið eftirsóknarvert að missa frelsi sitt.

 

AmmaÍ gær fékk vinur minn fjölskyldu sína til sín (loksins, eftir rúmt ár), konu og dætur frá Sýrlandi, en hann kom á undan til að sækja um hæli hér fyrir þau. Konan hans er sennilega komin með vinnu nú þegar sem hún getur byrjað í þegar hún fær kennitölu. Íbúðin sem þau leigja er lítil en þau eru alsæl með hana, það munar líka um hvern tíuþúsund kall sem þau borga minna. Þau fá húsaleigubætur eins og aðrir en verða að standa sjálf skil á öllu öðru fyrir launin sín, leigu, leikskólagjöldum og slíku. Aðeins öðruvísi en sumir vilja meina, eða að fólk komi aðeins hingað til að lifa á kerfinu og fá allt fyrir ekkert. Þekki ekkert slíkt fólk og hef þó kynnst fjölda hælisleitenda.

 

Þau buðu mér í kaffi í dag og ég kunni ekki við að kenna stelpunum að kalla mig ömmu. Ekki strax alla vega en það er samt auðveldara að segja amma en Gurrí ... Ég á tvo „ömmugutta“ í næsta húsi, sá eldri kallar mig ömmu, hinn kann ekki enn að tala, og svo er hálfrússneskur dásemdarpiltur sem lætur vonandi bráðum undan og viðurkennir mig sem ömmu, hann er enn svolítið feiminn. Maður reddar sér. Þeir eru örlagaríkir þessir matarhittingar hjá Rauða krossinum. Mæli með þeim fyrir þær sem vantar ömmubörn ... Nú þarf bara að finna þvottavél ... og miðað við dugnaðinn í vini mínum að fylla íbúðina af nauðsynjum á skömmum tíma, verður þess ekki langt að bíða.

 

Dýrari en gullFólk er frekar fúlt (brjálað!) yfir því að þurfa að sækja bréfpokana til Sorpu, ef marka má samfélagsmiðla. Bíllaus lífsstíll hvað! Það er svo ótrúlegt að biðja okkur að flokka, umhverfisins vegna, en senda tugþúsundir bílandi til að sækja lífrænu pokana. Hver tekur svona klikkaðar ákvarðanir? Við erum frekar sein í því að innleiða sams konar hérna á Akranesi, enn með pappa og plast saman og fuglarnir fá þetta lífræna (alla vega frá okkur Ingu) sem mun vissulega halda áfram. Ekki skynsamleg breyting hjá Sorpu og sannarlega ekki umhverfisvæn. Þetta er alla vega ekki leiðin til að fá fólk til að flokka. Sumir halda því fram að nú sé verið að fá almenning til að vinna vinnuna fyrir Sorpu og það komi ekki til greina. Við þekkjum slíkt svo sem frá öðrum fyrirtækjum, það er víða gert í nafni tækniframfara. 

 

Facebook:

„Getur einhver addað mér í grúppuna "Bréfpokar" á Telegram? Er með reiðufé.“

--- --- --- --- --- --- --- ---

„Ég bíð eftir fréttinni þar sem kemur í ljós að þetta sé allt e-ð plott ... og heilu gámarnir af endurvinnslubréfpokum hafi verið sendir úr landi og seldir í endurvinnslu í útlandinu.“

Komment: Gætum við ekki haft það enn meira krassandi, að pokarnir hafi allir farið í að vera utan um mútufé frá sorpfyrirtækjum til pólitíkusa? :)


Bloggfærslur 10. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 201
  • Sl. sólarhring: 592
  • Sl. viku: 2575
  • Frá upphafi: 1461670

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 2123
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband