Kökuhneyksli í Danaveldi

TannsiFramúrskrönglið í morgun var með því erfiðara því það var ekki nokkur leið að fara á fætur um miðja nótt (birtustig), klukkan tíu í morgun. Snjór og hálka ekki í miklu uppáhaldi hér en það er nú samt miklu bjartara þegar umhverfið er hvítt, ég viðurkenni það. En ... ég þurfti til tannlæknis klukkan hálftvö! Vanalega geng ég þessa frekar stuttu leið frá Himnaríki en ég verð pínku verri þótt ég vökni þegar blæs líka, finnst mér. Strætó varð það, heillin, en þannig stendur á ferðum strætó að annaðhvort er að mæta fimm mínútum of seint eða tuttugu og fimm mínútum of snemma. Ég kaus að vera fyrr á ferðinni og dundaði mér við að lesa gömul tímarit á meðan ég beið. Sjúklega stundvís? Já, ég reyni það.

Í fyrsta sinn í nokkur ár vill tannlæknirinn gera meira en taka myndir, gera við hluta úr jaxli, svona áður en hann fer að skemmast að ráði, svo ég fer aftur í þarnæstu viku. Hann hrósaði mér fyrir að bursta vel, vera hætt að reykja og fyrir almenna fegurð (tanna) en ég fékk engin verðlaun. Kvartaði í stráksa þegar ég kom heim og honum fannst það bráðfyndið, samt fær hann alltaf verðlaun.

 

Myndin er svo lýsandi fyrir tannlæknaferðir mínar - nema í dag var bara skoðun og myndataka. Svona verð ég eftir hálfan mánuð á meðan ég fæ deyfingu.

 

Fór svo með vini mínum og nýkominni dóttur hans í Brekkubæjarskóla þar sem hún var innrituð. Móttökur voru sérdeilis dásamlegar í gamla skólanum mínum og stressið í tilvonandi áttundabekkingnum minnkaði með hverri mínútunni. Aldeilis sem skólinn hefur stækkað og breyst. Til hins betra, myndi ég segja, það ríkir einhvern veginn frjálslegur og afslappaður andi þarna, fagmannlegur líka, flottar myndir eftir nemendur á veggjum, engir svipusmellir í fjarska eða brotin kennaraprik á gólfum ... Það var vissulega strangari agi í gamla daga, ótrúlega fátt sem braut upp daginn, nema kannski mismikið frosið á manni hárið eftir sund og leikfimi.

 

Friðrik og MargrétÉg verð að lýsa yfir hneykslan minni yfir "karlmannlegu konungskökunni" sem á að bjóða Dönum upp á í tilefni þess að Friðrik verður kóngur og tekur við af elskunni henni Margréti Þórhildi. Hráefnin í kökunni eiga að þola ferð með pósti svo "allir" landsmenn geti fengið að smakka, það er pælingin. Í Friðrikskökunni (þeirri til vinstri á mynd) er meðal annars heslihnetupralín! Það þarf ekki að gúgla lengi til að komast að því að 2% mannkyns okkar megin í heiminum, þjást af ofnæmi fyrir hnetum. (Ekki nema sex milljón manns í USA!)

Hátt í 60 þúsund Danir myndu sennilega deyja eða veikjast eða verða slappir eða finna fyrir kláða í hálsinum ef þá langar rosalega til að smakka kökuna. Algjörlega sambærilegt gerist á Íslandi þegar konudagskakan fer á markað ár hvert, endalaust hnetudót sem er óborðanlegt fyrir hátt í fjögur þúsund landsmenn. Setjum upp reikningsdæmi: Ef konudagskakan kostar 5.000 kr. og við gefum okkur að tvö þúsund manns, eða helmingurinn af ofnæmisgemlingum landsins sleppi því að kaupa kökuna er þetta beint tap upp á tíu milljón krónur fyrir bakarí landsins. Ég hef ekki keypt konudagsköku síðan Siggi í Bernhöfts var með hvíta dásemdarköku eitt árið fyrir löngu, algjörlega hnetu-, möndlu-, döðlu- og rúsínulausa. Ekkert núggatpralínhnetuhryllings-neitt. Verum eins og Siggi!  

 

Dönum er nákvæmlega ekkert heilagt! Ég gúglaði að gamni mínu Margrétarkökuna sem var gerð til að halda upp á daginn þegar Margrét tók við krúnunni 1972 ... fór að hugsa um að ég gæti fengið mér hana sem skaðabætur í staðinn fyrir Friðrikskökuna ef ég væri á ferðinni í Köben einhvern daginn. Viti menn, Margrétarkakan er troðfull af einhverjum hryllingi líka! Mjúkt núggatkrem kom fyrst upp ... Jæks! Ég ætla ekki einu sinni að ganga fram hjá La Glace-konditoríinu, ég er svo hissa og sjokkeruð. Við erum kannski bara réttdræp, við sem hötum hnetur?

Þetta óþol mitt fyrir hnetum var lengi vel og er kannski enn kallað matvendni og hlegið að mér, sagt að ég hafi nú borðað smákökur með hnetum án þess að finna fyrir því ... (þær hafa vissulega nokkrar smákökurnar endað í vasa mínum eða veskinu eftir lítinn bita, stundum bitinn líka ef servíetta er í grennd). Snilld mín við að láta kökur hverfa hratt hefðu komið mér í galdamannasamfélagið eða jafnvel samtök búðaþjófa ef ég hefði kært mig um - en ég læt bara nægja að bjarga mér frá hálskláða eða einhverju verra. 


Bloggfærslur 11. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 137
  • Sl. sólarhring: 625
  • Sl. viku: 2511
  • Frá upphafi: 1461606

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 2073
  • Gestir í dag: 120
  • IP-tölur í dag: 120

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband