Glæpsamlegur sparnaður ...

Kolsýrt vatn BYKOFólkið sem ákvað fund klukkan níu í morgun ber ábyrgð á því að eldhúsið hjá mér er orðið fáránlega fínt, eða var orðið það undir hádegi. Virkar stærra eftir að All bran-pakkarnir voru tæmdir ofan í Tupperware- morgunverðarplastdunkinn og líka kornflexið mitt og allt annað var sett á sinn stað inn í skápa, búið að vera lengi á leiðinni þangað. Morgunstund ... og allt það.

Nýja skólastúlkan er orðin einstaklega spennt að byrja í Brekkó eftir svo ljúfar móttökur sem við fengum bæði í gær og á fundinum í morgun. Ég væri til í að vinna í skólanum, meðal annars út af spennandi tækninýjung ... vissuð þið að til eru blöndunartæki með hnappi sem maður ýtir á og ... kolsýrt vatn rennur í glasið? (Fæst í BYKO, ég gúglaði) Og vissuð þið að það eru ekki lengur til kennarastofur? Nú er það bara kaffistofa starfsfólks. Nema Skaginn sé svona brjálæðislega framúrstefnulegur.

Hef ekki séð nýja þáttinn, Kennarastofan (úrelt nafn?), er enn með einhvers konar ofnæmi fyrir stöðugu glápi á sjónvarp. Nema fréttir fá oft undanþágu. Svo finnst mér Gísli Marteinn með skemmtilega þætti, áhugavert fólk og flotta tónlist, Berglindi Festival hef ég dáð síðan hún var með umfjöllun um vín í matvörubúðum og talaði m.a. við barn á Hvolsvelli (minnir mig) sem viðurkenndi að það drykki óhóflega af því að Vínbúðin væri í sama húsi og matvörubúðin, meira að segja opið á milli. Mjög fyndið innslag. Það þarf ekki meira til að gleðja mig en barn sem skrökvar til um drykkju ...

 

Espresso RomaÞegar kreppan skall á árið 2008 tók ég þá ákvörðun að spara enn meira en áður, eiginlega í öllu ... nema kaffi. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vill meina, skv. nýlegri frétt, að hægt sé að spara stórfé á því að hætta með Nespresso-kaffi á opinberum stofnunum, og gera frekar eins og hans skrifstofa sem hefur yfir að ráða gamalli baunavél, og nota baunir frá Te og kaffi (sem hann kaupir í Bónus) ... sem sagt, alveg eins vél og kaffi og ég. Iðulega kaupi ég Espresso Roma frá Te og kaffi, sem er sjúklega gott úr baunavélinni minni ... og með kaffirjóma.

Þegar koma gestir á stærri fundi hjá FA er hellt upp á BKI-kaffi. Ég segi kannski ekki að það sé morðtilræði en það er talsverður munur á gæðum, að mínu mati. Ef fólk gætir þess að geyma kaffi í lokuðum umbúðum og ekki út í það óendanlega, helst það gott (minna vont) lengur. Það var undarleg reynsla að heimsækja gamla vinkonu mína eitt árið. Hún drekkur ekki kaffi sjálf en átti þó sjálfvirka kaffikönnu og kaffi í bauk sem var til skrauts uppi á hillu og hafði verið þar svo lengi sem elstu menn muna. Alla vega tvö ár. Þegar undarleg lykt fyllti íbúðina hennar (eldgamalt Bragakaffi að hellast upp á) baðst ég vægðar og fékk kók eða pepsí. Sumir segja að Nespresso sé ekki alvörugæðakaffi en miðað við vinnsluna að baki því, að troða kaffi í lítið hylki hef ég nú alveg smakkað verra kaffi en það. Nespressovélar eru einfaldar að gerð og hægt að fá flóara með þeim svo það er auðvelt að gera cappuccino og latte. Mæli með g-mjólk eða laktósalausri mjólk til að gera froðu ... ég er reyndar ekki hrifin af froðu svo ég nota venjulega nýmjólk í slíkum flóurum.

 

Það eru annars gífurlegar framfarir að bjóða starfsfólki hins opinbera upp á betra kaffi en áður var. Ekki bara gleður það starfsfólkið heldur það eykur afköst þess og almenna vinnugleði að auki. Ég man þegar ég færði Grensásdeild, þar sem mamma lá um tíma, pakka af Kosta Ríka-kaffi frá Kaffitári - og óstjórnlega gleði starfsfólksins yfir því að fá gott kaffi í staðinn fyrir horbjóðinn í glæru plastpokunum. Innkaupadeild Landspítalans hefur án efa ekki viljað láta starfsfólk sitt sjá merkimiðann þar sem á stóð: ATH, uppsóp, notist aðeins við kertagerð. Ég hef fínt bragðskyn og þegar ég smakkaði það í einni heimsókninni til mömmu, fann ég nú samt í gegn sterkan keim af  óþverranum sem hafði runnið í gegnum þessa kaffivél í mörg ár.

Stundum var gott kaffi í vinnunni minni, stundum vont sem varð þá til þess að við skruppum oft frá (einu sinni til tvisvar á dag) og keyptum okkur latte, bara til að lifa daginn af. Ég kom síðar með pressukönnu að heiman sem ég fékk að geyma í Gestgjafaeldhúsinu og reglulega með kaffipakka af gæðakaffi ... það hélt lífinu í mér og heppnu samstarfsfólki sem mættis snemma í vinnuna. 

 

Ég gerði könnun fyrir Gestgjafann skömmu eftir aldamótin. Komst að því að dýrara kaffið, var í raun ekki svo mikið dýrara þegar bollinn af því var borinn saman við bollann af því ódýrasta, verðmunurinn náði ekki einni krónu! Sjálfsagt eru það krónur í dag, og fer kannski 50 kall nema einhver nái að stöðva Seðlabankastjóra, þið vitið! Að spara í kaffi sem er ætlað starfsfólki sínu er eiginlega glæpsamlegt. Það kom dýrara kaffi í vinnuna mína um tíma eftir að karlkynssamstarfsmaður hafði bent karlkynsframkvæmdastjóra  á svo "gott" (ofmetið, súrt) kaffi sem hefur því miður nánast yfirtekið sjoppurnar við Þjóðveg 1 svo latte-skreppferðirnar héldu enn um sinn áfram. Held að ég hafi gleymt könnunni minni þegar ég fór að vinna heiman frá mér.

 

Bean around the worldÞegar ég heimsótti Elfu vinkonu til Seattle (eða öllu heldur La Conner í klst.fjarlægð) í fyrsta sinn, starfaði Tom hennar sem yfirmaður hjá Slökkviliði Seattle (hann er nýhættur eða við það að hætta núna). Hann var svo góður að bjóða mér í heimsókn í vinnuna og ég lenti á rólegum degi. Það vakti einna mesta athygli mína að á þeim slökkvistöðvum sem við heimsóttum var aðeins í boði gott kaffi ... og hrikalega sætir slökkviliðsmenn. Seattle er vagga kaffimenningar í Bandaríkjunum og fyrsti Starbucks-staðurinn opnaði einmitt þar. Við Elfa vorum á ferðinni þar daginn áður en Bill Clinton, mætti í opinbera heimsókn þangað. Hann hlýtur að hafa verið hættur sem forseti (hætti 2001) því ég fór fyrst til Elfu 2002 og var svo hrikalega stressuð um að ég segði óviðeigandi sprengjubrandara alveg óvart (vinkona mín gerði það einu sinni, ekki óvart) og fengi ekki inngöngu inn í landið. Þetta var bara fjórum mánuðum eftir árásirnar 11. sept. og allir á taugum. Hjá Elfu fékk ég ótrúlega gott kaffi (ekki Starbucks, hún er ekki hrifin af því), í La Conner, gamla heimabænum hennar, er kaffihús sem bauð upp á eitt besta kaffi sem ég hef smakkað en svo urðu eigendaskipti og kaffið er svo sannarlega ekki gott lengur. Mikil vonbrigði þarna 2019.

 

WelcomeHjá Bean around the World í Vancouver í Kanada (sjá mynd), er líka sjúklega gott kaffi. Frá litla bænum sem Elfa býr í núna, einnig í Washington-ríki, (Conway) er stutt til Kanada.

Ég hef heimsótt Elfu og Tom nokkrum sinnum, síðast yfir jólin 2019, og er komin með heilmikla heimþrá þangað aftur. Svo þarf að heimsækja frænda til Búdapest, Kamillu til Danmerkur ... sjáum til hvað ég verð dugleg að drífa mig. Þarf bara að muna að endurnýja vegabréfið, það rennur út núna 2024.

Jæja, best að halda áfram að vera dugleg, kattasandurinn bíður ... og  stráksi er nokkuð snjall á ryksuguna og fær að sýna það á eftir! 

 

Best á Facebook í dag

Þessi mynd hérna fyrir ofan er skemmtileg þegar farið er að rýna í hana og lesa. Ég skrollaði svo sem ekki lengi, frekar mikið af auglýsingum alltaf, alls konar síður sem renna niður vegginn manns þótt maður hafi ekki lækað eða nokkuð, en sjást samt. Stundum er það fínt, stundum ekki. Og Facebook sýnir manni bara takmarkað frá fb-vinum. Nýjasta síðan sem ég lækaði heitir Free photoshopping ... hélt að þetta væri grínsíða en hún er það ekki í raun. Ég leita grimmt að mynd af konu í brúnum leggings en vesalings konan bað um að fótósjoppa eitthvað í burtu en fékk bara fyndnar myndir. Ég flissaði yfir þessu eitt kvöldið, reyndi að leggja á minnið hvar ég sá þetta en gleymdi ... ekki hægt að gúgla. Var þetta Fyndna frænka, Fyndi femminn ...? Þetta rekur aftur á fb-fjörurnar einn góðan veðurdag.  


Bloggfærslur 12. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 164
  • Sl. sólarhring: 618
  • Sl. viku: 2538
  • Frá upphafi: 1461633

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 2096
  • Gestir í dag: 142
  • IP-tölur í dag: 142

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband