Gosið, tilviljanir, bæjarferð og fleira ...

Eldgos 14. jan 2024Ótrúlegur morgunn. Eldgosahópurinn minn á Facebook var á vaktinni og bling-hljóðin í gemsanum urðu til þess að ekki var sofið út á þessu heimili, klukkan hafði verið stillt á ellefu en fótaferðartími var upp úr átta, kannski 20 mínútum eftir að gosið hófst. Stráksi rumskaði ekki við almennan fótaferðarhávaða, eins og tannburstun, læti í kaffivél og slíkt.

 

Eins og það var spennandi að fylgjast með fyrstu gosunum (þremur) á Reykjanesskaga fer spenningurinn ört minnkandi, svona þegar þetta er ekki lengur í öruggri fjarlægð. Vissulega er þetta alltaf magnað sjónarspil, svo magnað að ýmsir fara að leggja í hann gangandi, vilja komast að gosinu til að sjá betur. Það er komið frost, þetta er gríðarlega löng leið, frekar ruglað að reyna þetta. Gosið sést líka mjög vel í gegnum vefmyndavélar. Elsku, elsku Grindvíkingar. Þetta er orðið enn verra en þau allra svartsýnustu bjuggust við, held ég. 

 

Efstu myndina tók ég út um einn stofugluggann um kl. 9.30 í morgun, eitthvað dæmi í símanum mínum kann að vinna myndir svo hún er bjartari en raunveruleikinn sýndi. Þegar varð alvörubjart sást ekki næstum því eins vel í strókinn.

 

Heimsókn til HilduVið stráksi skruppum í bæinn (til Kópavogs) í gærmorgun en gistum ekki sem þýddi að hægt var að taka þessa ljósmynd af gosinu í morgun. Síðast, eða 18. des., myndaði elskan hún Svitlana gosið fyrir mig. Í morgun myndaði hún frá flugvél, sá ég á Fb. Út um gluggana hjá Hildu systur sé ég bara Esjuna (mjög kúl) og heyri í þyrlum. Við stráksi vorum sótt í Mjódd og í Grænatúninu beið okkar ekkert annað en veisla, ansi hreint glæsilegur bröns (árdegisverður?) og fleiri gestir á leiðinni. Ég hef ekki tölu á hversu margar litlar pönnsur með nutella stráksi borðaði en efa ekki að fötin hans hafi þrengst til muna ... Svo þegar veislu lauk tók systir mín til við að skemmta okkur og við hófum ferðina í Sorpu, eins og oft áður. Sáum sterkan mann fleygja einu stykki sófa í ruslið á meðan systir mín fleygði pappa hinum megin á rampinum. Partíið var sannarlega ekki búið því næst var haldið að dælu níu við bensínafgreiðslu Costco. Lítrinn meira en hundraðkalli ódýrari en á sumum öðrum bensínstöðvum ... Kíktum í Costco í leiðinni og ég keypti bunka af fínum bréfpokum til að nota undir pappa og lífrænt (þegar kemur að því). Til öryggis, því ég man yfirleitt eftir því núorðið að taka fjölnota poka með í búðir svo brúnir bréfpokar hlaðast ekki svo glatt upp hér. Fyrst má nota hvaða bréfpoka sem er, nánast, get ég notað slíkan poka undir lífrænt, þegar að því kemur hér. Ekki svo auðvelt fyrir bíllausa að nálgast löglegu pokana, alveg væri ég til í að kaupa poka ... en þeir fást ekki, nema hjá Sorpu. Lét undan stráksa og keypti undarlegan hlut í Costco ... fullan poka af súkkulaðihúðuðu poppkorni. Við höfum samt ekki lagt í að smakka. Ég hef keypt eitthvað sérstakt ammrískt sælgæti (M&M með saltstangafyllingu) sem bragðast illa, framandi og hræðilegt.

 

Neðri myndin er í raun þrjár myndir sem eru samansettar af mér. Efsta af Hildu að baka ammrískar pönnsur, stráksi fylgist með, fullur aðdáunar, þá kraftatröllið með sófann í Sorpu og síðast heimsókn að dælu níu.    

 

P.s. Við stráksi smökkuðum súkkulaðipoppið, það var ágætt. 

 

Facebook dagsins

„Sagan segir að til Íslands hafi komið ISIS-maður til að skipuleggja massíf hryðjuverk á öllum innviðum, t.d. sorphirðu, póstþjónustu og jafnvel að rústa heilbrigðiskerfinu. Þegar hann sá að íslensk yfirvöld voru búin að afkasta allri eyðileggingu sem hann hann planaði og meira til, gafst hann upp og gerðist fjölskyldufaðir á Akureyri.“ 

Komment frá Akureyringi:AA-maður (aðfluttur andskoti).“

... ... ... ... ... ... ... 

Ein og ein manneskja talar um Friðrik X. en fær sáralitlar undirtektir. Á Vísi var minnst á skrítna tilviljun, en síðast þegar skipt var um konungborna hefðardúllu á Norðurlöndunum gaus líka. Haraldur Noregskonungur tók við þann 17. janúar 1991, eftir að Ólafur, faðir hans, lést. Daginn eftir fór að gjósa í Heklu.       


Bloggfærslur 14. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 110
  • Sl. sólarhring: 636
  • Sl. viku: 2484
  • Frá upphafi: 1461579

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 2048
  • Gestir í dag: 95
  • IP-tölur í dag: 95

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband