Minningar, hristingur ... og Skálmaldarmiðar í höfn

Sara og AuðurHvunndagshetjan eftir Auði Haralds var mikil uppáhaldsbók hjá mér og ekkert langt síðan ég endurlas hana síðast, ásamt Læknamafíunni og Hvað er drottinn að drolla (hlustaði á hana). Ég var ein af barnfóstrunum hennar Auðar. Þá var ég 13 ára og nokkrum árum seinna lúslas ég það sem hún skrifaði um skrautlegu barnapíurnar í Hvunndagshetjunni en fann mig ekki í lýsingunum, sjúkkitt. Þegar ég flutti í bæinn eftir örfá milliár á Akranesi (1978-1982), byrjuðum við að heilsast og spjalla saman og að sjálfsögðu fór ég að bjóða henni í afmælin mín. Hún vakti auðvitað mikla lukku, skemmtileg og sérlega orðheppin. Hún neitaði alltaf að sitja í stofunni. Eldhúsið var best, sagði hún, gott að sitja á gamla bekknum þar sem hún náði niður á gólf með fæturna, svo gat hún líka talið brauðtertu- og kökuferðirnar hjá hinum gestunum og að sjálfsögðu daðrað við sætustu karlana ...  

 

Skyldleiki eða langur vinskapur hefur aldrei aldrei verið skilyrði fyrir því að fá afmælisboð. Til dæmis nóg að hafa haft mig í vinnu í nokkra mánuði ... Mamma vildi að ég hætti hjá Auði því henni fannst pössunin bitna á náminu og ég hlýddi án þess þó endilega að bæta mig í náminu (aldrei flytja með unglinga á milli landshluta). Þetta var góður tími hjá Auði og hún var frábær mamma, eins og ég hef eflaust sagt frá áður hér á blogginu. 

Ég fór í ljómandi fínt jólakvennaboð til hennar um mitt sumar eitt árið og þar ríkti mikið fjör. Sambandið minnkaði smám saman niður í ekki neitt eftir að ég flutti upp á Skaga, held þó að hún hafi mætt einu sinni í afmæli hér, þá með Halldóri fjanda, en hún kom oft til mín í afmæli á Hringbrautina. Oftast kom Sara, frábæra dóttir hennar með henni og reyndist vera með sama beitta húmorinn og mamman, þegar ég fór að kynnast henni en hún fæddist ekki fyrr en löngu eftir að ég hætti að passa. Ég hafði ekki hugmynd um að Sara hefði látist fyrir nokkrum árum fyrr en ég sá það í fjölmiðlum í dag.

 

Nærmynd bruniAuður kom inn í líf einnar systur minnar þegar hún flutti í sama hús og systa fyrir nokkrum misserum. Eina nóttina kviknaði í íbúð Auðar og mikil heppni að unglingar áttu leið fram hjá og sáu eldinn. Einn þeirra hringdi dyrabjöllunum á hinum íbúðunum stanslaust og hinir björguðu Auði út.

Systir mín varð ekki vör við neitt en aldrei þessu vant voru allir gluggar lokaðir hjá henni, nema í herberginu sem frænka okkar gisti í en hún var næturgestur ... og vaknaði við reykjarlyktina. Þær voru rétt komnar fram þegar dyrabjallan fór að hringja á fullu.

 

Systir mín hefur aldrei á ævinni fundið lykt sem getur verið mjög hættulegt og bruninn varð til þess að hún er nú með sjö reykskynjara í íbúðinni. Ég veit að hana langar mikið til að hitta unglingana knáu og þakka þeim fyrir skjót og góð viðbrögð.

Ég sendi ástvinum Auðar innilegar samúðarkveðjur. 

 

Mamma og EinarÍ dag eru sex ár síðan sonur minn dó í bílslysi. Ég hef ekki gert þessum degi hátt undir höfði, bara reynt að lifa hann af með hjálp hversdagsleikans og passa að gera hann ekki að kvíðvænlegu skrímsli, það hefur gengið vel og sífellt betur með hverju árinu. Tíminn hjálpar.

 

Á morgun á yndisleg ung kona þrítugsafmæli, og í dag keypti ég tvo miða á Skálmaldartónleikana 1. nóv. nk., annan í afmælisgjöf fyrir hana, og hinn fyrir mig.

 

Tix.is úthlutaði mér miðum á 18. bekk, upp við hljóðfólkið, eflaust góðum miðum, en mig langaði að vera nær sviðinu þótt hljómburður sé eflaust betri aftar, ég fæ líka hálfgerða innilokunarkennd ef ég sit í miðjunni á bekk. Sviðið í Hörpu jafnbreitt og áhorfendabekkirnir svo maður sér ágætlega úr flestum sætum. Ég kunni ekki að velja sjálf, enda aldrei áður keypt miða á netinu í Hörpu (þarf samt að læra það því mig langar að verða miklu duglegri að sækja tónleika). Fb-vinkona benti mér á að hringja í miðasöluna og eftir spjall við eina dásemdina þar er ég verulega sátt við tíunda bekk, ögn til hliðar. Þegar ég fór á Töfraflautuna með mömmu og syni mínum, (sjá eldgamla mynd af þeim, síðan um jólin 1981) sátum við á sjötta bekk og það var ljómandi fínt, minnir mig. Auðvitað hefði ég átt að tékka fyrst á því hvort vantaði í kórinn hjá Skálmöld, ég er með reynslu sko (Kór Langholtskirkju (fullt af dásemd), Mótettukórinn (Eliah eftir Mendelson) og Fílharmonía (Krýningarmessa Mozarts) ... einnig brilleraði ég í Kór Barnaskóla Akraness, hlýtur að vera.

  

Kl. 16.30 í dagTil öryggis ætla ég að vera með eyrnatappa í töskunni ... þegar ég fór á tónleika með Dúndurfréttum á Gamla kaupfélaginu um árið, var hljóðið mjög bjagað ... og eitt andartak datt mér í hug að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hversu falskt þeir hljómuðu ... en svo horfði ég á alsæla tónleikagestina í kring sem gátu ekki allir verið með slæmt tóneyra. Mikil vonbrigði en þarna voru eyrun í mér eitthvað að stríða mér (nei, ég hef ekki enn farið til HNE-læknis). Ég tók upp hálft lag á símann minn til að sannfæra mig um eigin eyrnavesen og það hljómaði alls ekki falskt þegar ég spilaði það svo í tölvunni minni. Skilst að eyrnatappar geti hjálpað í svona tilfellum, annars verður bara að hafa það, ég skal á þessa tónleika.

 

Ég var vöknuð en lá í leti uppi í rúmi og hékk í símanum þegar allt fór að hristast og skjálfa í Himnaríki og ég nærri sofnuð aftur við ruggið ... djók. Ahh, 4,1, kannski 4,2, hugsaði ég, komin úr æfingu eftir hlé í tvo mánuði. Hann reyndist svo vera mun stærri, eða 4,5. Vér Skagamenn finnum bara þá sem eru fjórir eða stærri, nema hún Gunna, Hekls Angels-vinkona af Sunnubraut. Hún finnur nánast enga skjálfta, er á sérsamningi við þann í neðra, grunar mig. Þetta var víst bara harður gikkskjálfti sem tengist ekki jarðveseninu, eða svo segir fólk sem hefur vit á þessu.

 

Akraneskaupstaður kom og saltaði hlaðið hjá mér fyrr í dag, Langasandsmegin. Held að það hafi ekkert gagn gert, sjá mjög átakanlega mynd sem ég tók rétt áðan, það þarf sprengiefni á svona svell. Grófa saltið í kassanum niðri í stigaganginum hjá mér er búið, svo ég fer sennilega ekkert út fyrr en byrjar að vora. Nema ég láti hússtjórnina vita, ég er reyndar riddari húsfélagsins en frekar gagnslaus - þar sem ég fékk ekki að vera í saltnefndinni.         


Bloggfærslur 3. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 185
  • Sl. sólarhring: 617
  • Sl. viku: 2559
  • Frá upphafi: 1461654

Annað

  • Innlit í dag: 161
  • Innlit sl. viku: 2113
  • Gestir í dag: 159
  • IP-tölur í dag: 159

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband