Hirðslúðrið, möguleikar og skemmtialmanak

Myllan bollurMikið verður lífið auðveldara og skemmtilegra þegar hálkan er  horfin. Stráksi kom heim í kvöld eftir mikla dekurhelgi og gladdist innilega yfir því að þurfa ekki að skríða í skólann. Vissulega tekur hann strætó í skólann og hefur aldrei þurft að skríða en annað er rétt hjá mér (gladdist-hlutinn). Öll næsta vika virðist hlýr vindur (5-8°C) verða ríkjandi og stöku regn. Ég frestaði tannlæknatíma 4. jan. til 11. jan. og sparaði mér þannig leigubíl, ég tók bíl báðar leiðir síðast sem segir mér að janúar sé svell-kaldur. Eða óbærilega langur mánudagur (janúar sko)eins og ég sá á netinu í dag og er sannarlega ekki sammála því. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi. Bollumyndin ... sjá febrúar í skemmtialmanakinu hér ögn neðar sem sannar mál mitt.  

Ég er orðin svo svakalega gömul að ég man vel eftir því þegar verið var að ræða um mergjuð leiðindin á Íslandi alltaf hreint og hvernig hægt væri að gera eitthvað skemmtilegt í hverjum mánuði ársins. Þannig urðu til jól, páskar, brim og alls konar. Þótt þetta sé farið að ryðga svolítið í kollinum á mér eftir öll þessi ár og aldir kemur hér skemmtialmanakið eins og ég man það:

SKEMMTIALMANAK

AlmanakJanúar: Þrettándabrenna og þorrablót. Lægðir og brim. Hálka.

Febrúar: Bolludagur (12. feb.) sjá mynd efst, vindur, snjór.

Mars: Mottumars, stundum páskar, spennandi veður.

Apríl: Páskar, páskahret og slíkar dásemdir.

Maí: Kröfuganga, alltaf rigning.

Júní: Þjóðhátíðardagur, stundum forsetakosningar, stundum, sól.

Júlí: Írskir dagar, alltaf sól.

Ágúst: Afmælið, gleðiganga, menningarnótt, óbærilegur hiti.

September: Allir enn glaðir eftir ágúst. Veður æsast.

Október: Jólabókaflóðið hefst. Lægðir í hópum.

Nóvember: Börn sníkja nammi. Veður býr sig undir meira vesen. 

Desember: Jólin, rauð eða hvít.

 

ATH. Þetta með veðrið var nú bara gert fyrir okkur örfáu sem líta á fjölbreytileika veðurs sem forréttindi okkar Íslendinga. Hugsið ykkur viðbjóðinn að afplána alltaf sama veður dag eftir dag, eins og í heitu löndunum. Skemmtialmanakið á að vera fyrir alla, líka veðuráhugafólk.

 

Forsetaframbjóðendur sem ég veit af 7. janÞótt ég hafi nýlega ákveðið að hætta alfarið að vinna til að geta fylgst með framboðum til forseta Íslands og þar með bloggað um frambjóðendur, er ég orðin ansi hreint ringluð. Ég þarf sennilega aðstoðarfólk. Miklar breytingar daglega og ný framboð spretta upp.

Hvað ef sá/sú sem fær næstflest atkvæðin verði varaforseti, til að nýta allan þennan mannauð? Held þó að Dóri DNA verði ekki með fyrst ekki gaus í gær, eða var það í dag? Honum var alla vega ekki full alvara, sýndist mér. Svo var einhver sem stakk upp á Bergþóri og Albert (þeir eru æði), skilst að þeir liggi ekki einu sinni undir feldi ... enda feldirnir í Costco uppseldir.

 

Friðrik x eða twitterEinhver kom reyndar með þá tillögu að Jóakim prins af Danmörku yrði konungur Íslands, svona til að bæta honum upp að Margrét svipti börn hans prinsa- og prinsessutitlum sem fór rosalega í taugarnar á honum. Börnin fengju þá titlana aftur og það elsta tæki við þegar Jóakim hættir eða deyr og við landsmenn losnum við rándýrar kosningar, jafnvel á fjögurra ára fresti.   

Það styttist í að Friðrik taki við veldissprotanum í Danmörku, er það ekki 14. janúar? Daginn áður en Sólarsystirin kemur út á Storytel. Hann er með myndarlegri prinsum og kannski gerði Margrét Þórhildur þetta ekki af því að henni var svo illt í bakinu, heldur til þess að hann hætti að heimsækja "vinkonu" sína á Spáni sem er nú kannski bara samt góð vinkona. Ég hafði ekki hugmynd um allt fjaðrafokið yfir þessu í Danmörku. Hann fær þó enga krýningarathöfn (hefð eða kannski refsing?) en eitthvað hlýtur þó að vera gert af þessu tilefni því ég heyrði í fréttum í dag að það væri næstum uppselt í danskar lestir og rútur til Köben þann fjórtanda. Skyldi verða bein útsending á RÚV ... en frá hverju ef engin athöfn?

 

Anna María og KonstantínMér finnst eins og hirðfréttir frá Danmörku berist mjög hægt og illa hingað til lands. Við vitum allt um breska slektið, Karl og Kamillu, Vilhjálm og Katrínu, Harry og Meghan (nema hvernig börn H og M líta út), en sáralítið um annað kóngafólk í Evrópu (í lagi mín vegna). Sem lítil stelpa fannst mér hefðardúllurnar mjög spennandi, einhver Fabiola voða flott (af Hollandi) og svo auðvitað hin danska Anna María (litla systir Margrétar) sem giftist flottum kóngi í Grikklandi (Konstantín) og þegar hjónabandið hafði staðið í áratug var honum steypt af stóli og herinn tók völdin. Þau voru svipt ríkisborgararétti og eignir þeirra gerðar upptækar. Þau flúðu til Rómar og settust síðan að í London en eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi þeim í vil, fluttu þau aftur til Grikklands (2013). Wikipedía er með þetta.

Viljum við kóng á Íslandi eða bara forseta áfram? Væri ekki gaman að geta gælt við þá hugmynd að komast á hirðdansleik á Bessastöðum svona einu sinni í lífinu? Læra almennilega kurteisi (hirðsiði/borðsiði) en spurning hvort bakið á mér þyldi eilífar hneigingar. Það kom í ljós í síðustu blóðprufu (2015) að ég er með blátt blóð í æðum svo mögulega þyrfti ég ekki að hneigja mig djúpt.

 

Stórfréttir: Svo komst ég að skyldleika mínum við söngvarann í Skálmöld. Við erum sjömenningar, segir Íslendingabók. Ein blogg- og margt fleira-vinkona er náskyld honum og manaði mig í spjalli í gær til að athuga þetta. Orðin svo þroskuð og lítil grúppía vissi ég ekki einu sinni hvað hann heitir ... Ég er nú samt viti mínu fjær af monti yfir þessu. Skyldleikinn er Þingeyingamegin ættbogans.


Bloggfærslur 8. janúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 201
  • Sl. sólarhring: 592
  • Sl. viku: 2575
  • Frá upphafi: 1461670

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 2123
  • Gestir í dag: 168
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sérdeilis flott terta
  • Jón Gnarr og stráksi
  • Jörgen Klopp

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband