Flutningar, netháski, geymslugleði og undarlegar tilviljanir ...

Allt að komaNetvesenistíma lokið ... það dugði ekkert minna en lan-snúra til að tengja tölvuna við netið ... allt annað sem ég prófaði virkaði ekki. Maðurinn frá Mílu ráðlagði mér, þegar hann tengdi mig fyrir tíu dögum, að vera þráðlaus sem ég gerði með aðstoð (kostaði fimmþúsundkall). Það dugði nú samt ekki, heldur ekki lán á "magnara" nágrannans góða sem er vinur vinkonu minnar á Akranesi. Síminn þarf kannski að gyrða sig í brók varðandi netmál sín, eða er þetta bara svona ef maður dirfist að hafa tölvuna sína of mörgum metrum frá ráder? Fyrri íbúi var með sína tölvu (og tvo skjái) nákvæmlega á sama stað, greinilega tölvukarl. Davíð frændi mætti með margra metra snúru áðan sem verður notuð aðeins á meðan ég vinn og blogga. Þess á milli uppvafin á bak við píanóið til að sjokkera ekki gesti og gangandi. Snúra sem flækist um fætur og lækkar fegurðarstuðul heimilisins stórlega. „En ... Gurrí, þú verður að geta bloggað og hlustað á þungarokk,“ sagði frændi svo innilega réttilega. „Geturðu íhugað að fá þér Makka?“ spurði hann mjög varlega. „Sannarlega ekki,“ svaraði ég önug, snúðug og grautfúl. Hnusssss! Elska iPhoninn minn samt.

 

Myndin sýnir stofuna eftir blóð, svita og tár, fyrir nokkrum dögum, fékk æðislega hjálp þá, og núna á fimmtudaginn verða svo hengdar upp myndir og málverk og þá kemst lokamynd á allt. 

 

Maður bjargar sérFlutningarnir, hvernig gengu þeir og hvernig er nýja húsið, hvernig líður kisum og er nokkuð spanhella í nýja eldhúsinu? eru spurningar sem ég veit að ásækja margan bloggvininn ...

 

Á föstudeginum (4. okt) fórum við nokkur saman á tveimur bílum með "eldhús" himnaríkis og brothætt punt í margnota pokum frá t.d. bónus og krónu, eitthvað sem hafði verið safnað um hríð og er miklu þægilegra að burðast með en kassar. Þarna voru Hilda, Inga, stráksi og Júlíana. Það gekk allt saman ljómandi vel og svo fengum við stráksi bílfar heim í kringum kvöldmat. Ég var allt of þreytt til að geta farið með honum eitthvað út að borða og líka of seint að panta frá Galito eins og ég hafði lofað. Fékk nú samt snilldarlega góða hugmynd, eða að hita skyndirétt frá Bónus, kjötdæmi sem ég vissi að stráksa myndi líka. Hitaði hann þessar lögbundnu þrjár eða fjórar mínútur og þegar ég tók hann út úr örbylgjuofninum mundi ég eftir því að öll hnífapör voru komin á Kleppsveginn ... Ég hljóp á milli herbergja, nánast allt komið í kassa nema úti í glugga sá ég þennan fína gráðuboga sem ég tók og þvoði með heitu vatni og sápu, mjög vandlega og rétti stráksa. Þrátt fyrir að ég minnti hann á að seinna meir myndum við skellihlæja að þessu hafði þetta neikvæð áhrif á matarlystina, enda hafði hann búist við einhverju mun betra en skyndirétti sem þyrfti að snæða með einhverju af ætt reglustika. Sjá átakanlega mynd ...

 

Flutt frá HimnaríkiRéttilega kaus ég að fara snemma að sofa um kvöldið og klára að pakka í þessa þrjá kassa og fimm svörtu ruslapoka við fyrsta hanagal. Ég rauk á fætur um hálfsjö og á skömmum tíma varð allt tilbúið fyrir fyrstu burðardýrðirnar mínar. Íslenska deildin (4), eða Mömmur.is, elsku Hjördís ásamt eiginmanni, móður og syni, riðu á vaðið fyrir klukkan níu, en flutningabíllinn mætti með fyrra falli, kom korter í sem var bara fínt.

Þá var ég búin að setja Mosa og Krumma í búrin og þegar litháíska deildin (2) mætti tók vinkona mín þaðan við stjórninni sem flutningastýra og sýrlenska klanið mitt (1) skutlaði okkur kisunum í bæinn. Þá var úkraínska gengið (3) mætt í öllu sínu veldi í himnaríki og mér sýndist ég sjá tár á hvarmi bílstjórans (íslenskur en samt ágætur) ... (djók) - því allt gekk svo hratt og vel. Mun hraðar en ég bjóst við. Fyrst voru stóru hlutirnir teknir, síðan kassar og annað smádót sem er snjallt þangað til komið er á nýja staðinn, þá er kössum og smádóti hent inn og svo þarf að koma stóru hlutunum fyrir en það reddaðist allt saman, auðvitað. Ég svaf þó á skrítnum stað fyrstu nóttina, rúmið í réttu herbergi en við rangan vegg, en náði að laga það daginn eftir. 

 

Elsku BasselVið Bassel drifum okkur í bæinn með Krumma og Mosa, hrædda og vælandi, komum örsnöggt við í matvörubúð í Holtagörðum, og rétt náðum í skottið á flutningabílnum ... í alvöru, hann var kominn. Eins og við vissum þurfti að bera svarta speglaskápinn alla leið upp á sjöttu hæð ... og líka rúmið mitt og rauða antíksófann. Þar tóku Úkraína, Litháen og Ísland höndum saman og það var ekki einu sinni kvartað! Þvílík heppni að eiga svona gott fólk að. Geymt en ekki gleymt!

 

Nýi eigandi himnaríkis (annar tveggja) trúði ekki sínum eigin eyrum þegar ég hringdi um hálfþrjúleytið og sagði að hann gæti flutt inn ... þá var búið að þrífa himnaríki hátt og lágt. Hann spurði mig hvort hann gæti fengið lánað eitthvað af fólkinu mínu þegar hann flytti sjálfur. Hérna syðra var klukkan varla orðin tvö þegar flutningabíllinn var orðinn tómur og ofsaglaður bílstjórinn komst í síðbúinn hádegismat með samstarfsmönnum sínum. Hann var mjög hjálplegur, skapgóður og skemmtilegur, mæli hástöfum með þessu fyrirtæki, Flutningaþjónustunni. Fann það með léttu gúgli snemma í september og pantaði bílinn þá. Allt gekk eins og lofað var, fékk meira að segja símtal þann fjórða, eða daginn fyrir flutninga, til að staðfesta að bíllinn kæmi, mikið sem ég kann vel við svona fagmennsku.

 

Nýja lífiðKrummi og Mosi voru ansi hreint stressaðir fyrst í stað, enda lokaðir inni í pínulitlu herbergi (vinnuherbergi mínu) með mat, vatn, kattasand og mjúkt teppi. Það var ekki fyrr en elskan hún Júlíana fór inn til þeirra og klappaði þeim að þeir róuðust. Hirðsmiðurinn minn var búinn að "skítmixa" gluggana, eins og hann kallaði það, eða festa keðju þannig að gluggar gætu ekki opnast nema takmarkað. Mosi slapp ómeiddur eftir fall (stökk?) af fjórðu hæð um árið, en ég veit ekki með sjöttu hæð. Við tökum enga sénsa hér. Þeir urðu stressaðir aftur á mánudeginum þegar ég fékk góða hjálp við að taka upp úr kössum og lætin voru svo mikil að þeir héldu sennilega að ég væri að flytja aftur, en þeim líður samt afskaplega vel á nýja heimilinu, það er eins og þeir sofi fastar, betur og lengur en áður, algjör slökun. Eins og sést kannski á samsettu myndinni er Mosi búinn að helga sér efri skápinn hægra megin inni í svefnherberginu mínu, ég bíð um tíma með að koma fyrir meira dóti þar en er komið. Krummi situr  á gluggakistunni inni í stofu, þar er suðurgluggi og mikil sól, hvítu gardínurnar úr himnaríki eru í síkkun, og út um gluggana í hina áttina, eða norður, sést friðarsúlan. Hvað annað? Annaðhvort eldgos eða friðarsúla ... sætti mig ekki við neitt minna.

Mér fannst svolítið sjokkerandi að finna hvergi geymsluna mína. Vissulega 32 íbúðir í stigaganginum en samt, númerið mitt var hvergi finnanlegt ... en svo er annar geymslugangur sem ég vissi ekki af, inn af hjólageymslunni. Þar fann ég elskuna mína og mun heldur betur njóta þess að hafa geymslu sem ég hafði ekki í himnaríki. Ferðatöskurnar farnar niður, og afgangsmálningin á leiðinni. Svo geggjað!

 

Villa eða villaÉg prófaði þvottahúsið niðri í gær og fékk góða hjálp við þurrkarabaráttu frá húsverðinum sem er afskaplega flott og töff listakona, bráðskemmtileg í þokkabót. Hef líka hitt húsfélagsformanninn sem er frábær líka. Svo býr gömul samstarfskona á fyrstu hæð ásamt dóttur sinni. Hún færði mér bók og kex í innflutningsgjöf, þessi elska, og við höfum farið saman í matvörubúð tvisvar. Gott fyrir hásinina sem varð fyrir smáhnjaski í látunum og hreyfingunni í kringum flutningana.

Varðandi þvottahúsið sem er afar snyrtilegt, tvær þvottavélar, önnur stór, hin venjuleg, og stærðarinnar þurrkari, held ég samt að ég muni kaupa mér þvottavél til að hafa hér uppi, mögulega þessa flottu með bestu meðmælin frá Electrolux, með innbyggðum þurrkara, ég er orðin of góðu vön eftir 18 ár ... svo held ég að ég hafi haft þurrkarann niðri á of háum hita í gær, sumt er hræðilega krumpað ... en ég á svo sem straubretti og -járn. 

 

Ég náði, með aðstoð fb-vina að skipta um lögheimili. Gúglaði og fann hvar ætti að gera það, en það var samt röng slóð svo ég spurði bara á feisbúkk og fékk svar að vanda. Ég er svo vön að gera allt í tölvunni minni (ekki gemsanum) og hún ekki nettengd. Svo þjáðist ég ógurlega á sunnudaginn yfir því að geta ekki kosið til Alþingis í mínu nýja kjördæmi en ... það er víst ekki lengur miðað við lögheimili 1. des., ég rétt slapp inn á kjörskrá í bænum. 

 

 

MYND: En ef netið átti nú við flotta óskilgreinda villu til að búa í, t.d. flott einbýlishús við hafið með spennandi leyniheimilisfangi, en ekki mistakatengda villu ...  

 

Lítið eldhúsborðÉg er enginn samsæriskenningasmiður en sumt af þessu veseni mínu getur ekki við tilviljun ... að fá ekki nettengingu fyrr en núna fimmtánda, tíu dögum eftir flutninga, er ekki eðlilegt, ég sá meira að segja, í lok sept., löggubíl sem var lagt Akranesmegin, eða við Garðabraut, akkúrat þannig að ég gæti ekki flutt þann daginn ... og að fá upp villu þegar ég reyndi að skipta um lögheimili ... eitthvað furðulegt í gangi. Ég skildi þetta auðvitað um leið og stjórnin féll ... en í fyrstu hélt ég að Akranes væri að stríða mér, þér var nær að flytja, Gurrí, því menningarstrætó mun ganga á milli listviðburða á Vökudögum, AKKÚRAT ÞEGAR ÉG ER FLUTT, og eitthvað fleira flott í gangi. Samt, mjög seint á sunnudagskvöldið fékk ég upphringingu frá stráksa um að það væri rafmagnslaust á Akranesi. Eftir stutt spjall og blíðlega áminningu um að það væri ekki sérlega sniðugt að hringja svona rosalega seint, það væri eiginlega tilviljun að ég væri enn vakandi, kvöddumst við með kærleikum, eins og alltaf. Tæpum klukkutíma seinna hringdi hann svo aftur til að láta mig vita að rafmagnið væri komið aftur á ... Mér fannst það mjög sætt - og ég var ekki sofnuð, bara ofurspennt í Millenium-þríleiknum sem hefur bjargað mér í netleysinu.

 

Varla tilviljun ... í hvaða bíl (félagsskap) haldið þið að ég hafi verið á sunnudaginn þegar ríkisstjórnin féll og ég í búð að leita að litlu einföldu eldhúsborði? Jú, í bíl þeirrar sömu og ég var með 11. september 2001 á leið til Borgarness. Fyrsti stafurinn í nafninu er ... Hilda systir. Við erum greinilega magnaðar. Þar sem systurnar sætu eru ferð, gerast hlutirnir!

 

Já, og ég held að þetta séu ekki spanhellur, ég hef ekki enn þorað að prófa eldavélina sem virkar ógeðslega flókin ... hef bara borðað til skiptis á Argentínu steikhúsi og Grillinu á Hótel Sögu. Auðvitað frítt, sem áhrifavaldur. 

 

Myndin (fannst á netinu, ekki mitt eldhús) sýnir svipað borð og ég leita að, svona tveggja manna borð, rétt fyrir súrmjólkina á morgnana og kaffisopa með vinkonu. Fannst litla borðið í Jysk fínt, en of áberandi/afgerandi, svart og viðarlitað, til að það gæti fallið vel inn í allt hérna, en held áfram leit. Tillögur vel þegnar.  


Bloggfærslur 15. október 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.10.): 82
  • Sl. sólarhring: 243
  • Sl. viku: 728
  • Frá upphafi: 1499327

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 402
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Lítið eldhúsborð
  • Villa eða villa
  • Nýja lífið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband