Móðgandi listi, súpergóð slökunarhelgi og frjósamur september

Elsku stráksiSkemmtileg og ljúf helgi að baki, elsku stráksi minn kom í heimsókn og gisti eina nótt. Hún var ekki þétt dagskráin ... letin yfirtók allt. Í gær fórum við nú samt í skemmtilegt afmæli hjá nágrönnum mínum (myndin af honum tekin í afmælinu) og héngum svo í sófanum og hægindastólnum þar til hungrið svarf að, horfðum á mjög sæta jólamynd, við erum bæði nokkuð hrifin af jólunum og svo var kvöldið bara búið. Við ætluðum í rannsóknarferð um hverfið, ganga niður í Holtagarða, kíkja á Minigarðinn eða eitthvað en letin var svo yfirgengileg að við fórum ekkert. Svo kom vinkona okkar um þrjúleytið í dag og bjargaði okkur á kaffihús í Borgartúni. Ég kvartaði við hana yfir því að orðaforði minn yrði einhæfari og fátæklegri með árunum, einhverra hluta vegna (konur tala ekki bara um barnauppeldi og mataruppskriftir) og hún ráðlagði mér að lesa Þórberg ... Það ætla ég að gera og ég á ýmislegt í bókahillunum líka sem gneistar af orðsnilld. Átti bæði Þórberg og Laxness en glataði þeim fyrir um aldarfjórðungi. Vinkonan stakk upp á í framhaldinu að endurnýta orðið forpokuð/forpokaður og nota það yfir þau sem taka margnota poka með sér í búðir. Því er hér með komið á framfæri.

 

Hagkaup í Skeifunni var næsti skemmtistaður (það þarf ekki mikið til að gleðja okkur stráksa) og eftir smávegis innkaup (græna, venjulega ÖnnuMörtu-pestóið var búið!!!) var það bílabiðröð við KFC, uppáhald stráksa sem fékk sér vefju og franskar. Held að hann hafi farið ansi hreint sáttur og saddur heim með 19.59-strætó á Skagann. Eins gott að ég fylgdi honum alla leið að vagninum því leið 57 stóð þar sem Selfoss-strætó (leið 51) er vanalega, því stór og tómur vagn var í plássi leiðar 57 (eins og köttur í bóli bjarnar). Ég sagði við ungan mann sem stóð og beið við tóma vagninn að ef hann ætlaði á Skagann væri það fremri vagninn. Sá ungi maður þakkaði kærlega fyrir, ætlaði svo sannarlega upp á Skaga, eins og allt almennilegt fólk. Svona get ég nú verið afskiptasöm. 

 

Ofurslökun með KrummaÍbúðin er orðin svo ótrúlega fín, þakka mér það þó ekki, heldur þeirri frábæru aðstoð sem ég hef fengið. Finn líka hvað orkan eykst með hverjum deginum og þarf ekki lengur að hlaða mig með því að leggja mig - sem ég hef aldrei á ævinni þurft að gera fyrr en nú seinnipart sumars. Hvaða pestir voru þetta eiginlega sem ég nældi mér í?

 

Ég hef nú lokað efri skápnum í svefnherberginu, ekki við mikla gleði Mosa (10) en Krummi (13) missteig sig þegar hann stökk niður fyrir nokkrum dögum og meiddi sig, ekki samt alvarlega, virtist vera. Hann nánast haltraði í u.þ.b. einn og hálfan dag og ég var alveg á nippinu með að redda mér bílfari með hann til dýralæknis, hann haltrar ekki lengur og er bara mjög sáttur við að liggja á extramjúku og góðu teppi (fyrir kettina) ofan á rúmteppinu á rúminu mínu. Ég hef misstigið mig sjálf og jafna mig yfirleitt mjög hratt, sama virðist gilda um ketti. Hann er auðvitað kominn á virðulegan aldur og mætti svo sem vera ögn léttari sem skýrir kannski af hverju hann sveif ekki mjúklega niður, eins og eðlilegt telst hjá köttum.

 

Fannst á Facebook

 

Alla tíð hef ég verið ótrúlega veik fyrir fjölbreytilegum listum yfir ýmsa hluti ... mest lesnu glæpasögur allra tíma ... ríkustu lönd heims ... og allt þar á milli. Nýlega rak á fjörur mínar listi yfir löndin 25 sem eiga myndarlegustu karla heims. Þarna hlaut Ísland að skora hátt. Mjög hátt! En ... spennið beltin og takið róandi áður en þið lesið þennan fáránlega asnalega lista, pottþétt að löndin á honum hafi borgað sig inn á hann:

1. Spánn, 2. Svíþjóð, 3. Frakkland, 4. Brasilía, 5. Ítalía, 6. Tyrkland, 7. Indland, 8. Bandaríkin, 9. Japan, 10. Þýskaland, 11. Saudi-Arabía, 12. Bretland, 13. Kanada, 14. Danmörk. 15. Suður-Afríka, 16. Kína, 17. Noregur, 18. Líbanon, 19. Pakistan, 20. Tékkland, 21. Vensúela, 22. Víetnam, 23. Sómalía, 24. Angóla, 25. Suður-Kórea.

 

Þarna komst Ísland ekki á blað (hefði ekki sætt mig við 26. sætið ef við hefðum lent þar), þrátt fyrir mikla fegurð og myndarlegheit hérlendra karla, t.d. af Skaganum, svo ég nefni nú einn kaupstað á Fróni af handahófi. Insidemonkey er heimildin.

 

Við Mosi að horfa á Gísla MarteinVið Íslendingar náum þó 20. sæti yfir ríkustu þjóðir heims árið 2024, erum ofar en t.d. Austurríki, Svíþjóð og Þýskaland, Kanada og Bretland, já, og Frakkland ... Ríkasta landið skv. þessum lista er Lúxemborg, þá Liechtenstein ... og þarna eru líka Sviss, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Holland á undan okkur, við þurfum að gyrða okkur í brók. Heimild þarna er CeoWorld.

 

Myndin sem er af Mosa að horfa með mér á Gísla Martein a föstudaginn, tengist listunum ekki neitt. Við skemmtum okkur bara svo vel.

 

Enn einn listinn birtist mér svo um helgina en hann vill meina að aðventan og jólin séu nú ekki bara hátíð barnanna, heldur líka foreldranna, hmmmm ...

 

Tíu algengustu afmælisdagar fólks:

1) 9. sept.

2) 19. sept.

3) 12. sept.

4) 17. sept.

5) 10. sept.

6) 7. júlí

7) 20. sept.

8) 15. sept.

9) 16. sept.

10) 18. sept.

 

ÞvottamerkiSjötta sætið! Hvað hefur október fram að færa sem rekur fólk í rúmið í unnvörpum? Eru það Vökudagar á Akranesi, fyrsti vetrardagur eða bara næturfrostatíminn að hefjast? Ef er þá nokkuð að marka þetta. Að sjálfsögðu leitaði ég ráða hjá Vísindavefnum og kom sannarlega ekki að tómum kofanum þar.

Fyrst í stað hló ég því við Íslendingar skárum okkur svo úr ... Sko, miðað við áramótin 2002-2003 og afmælisdaga allra þálifandi með íslenska kennitölu (líka útlendinga og fólks sem var búsett erlendis) þá var 23. júní 1966 dagurinn sem flestir fæddust á, eða 31 einstaklingur. Næst 15. des. 1959 og 30 fæddir þann dag. Ef ártalinu er alfarið sleppt er dagurinn 28. apríl með 1.010 fædda og næsti á eftir reyndar 25. sept. en þá hafa fæðst 1.003.

 

Svo las ég áfram ... um að sumarmánuðirnir væru heldur vinsælli til barneigna en hinir, flestir eiga afmæli í júlí, 28.964 (eða 934 á dag)), nánast jafnmargir í ágúst, eða 28.816 (930 á dag). Svo kemur: September, með sína þrjátíu daga, á hins vegar vinninginn því að meðaltali eiga 943 manneskjur afmæli á dag þann mánuð, desember er óvinsælastur til að hlaða niður barni, en einungis 832 eiga að meðaltali afmæli á dag í þeim mánuði. Ég hef því miður ekki nýrri upplýsingar en þetta ... enda léleg í gúgli. Mér finnst þetta samt spennandi. Og allir listar nema kannski kjánalistar sem gefa í skyn að íslenskir karlar séu ófríðir.

 

Neðsta myndin tengist færslunni ekki beint ... en aldrei nógu oft minnst á Pink Floyd.        


Bloggfærslur 27. október 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband