Góð uppfinning, erfiður karlamarkaður og tákn um snilli

Í HafnarfirðiLanglokan sem ég skrifaði áðan hvarf út í veður og vind þegar tölvan vildi endilega endurræsa sig í miðjum bloggskrifum mínum. Samsæri, segi ég nú bara, því það gerðist þegar ég var að bera saman mál Jóns Gunn og Sophie, mágkonu Karls konungs þriðja af Bretlandi. Sophie lét sig hverfa í alla vega áratug eftir hneykslið og kom svo hress til baka og allir búnir að gleyma nema ég, en konungsfjölskyldan hótaði ekki lögreglurannsókn eins og tíðkast hér á landi þegar eitthvað óþægilegt kemur upp. Skyldi Jón láta sig hverfa eða verður kannski hægt að kenna hælisleitendum um?

 

Stórskemmtileg skírnarveisla var hluti af samkvæmislífi síðustu helgar, en lítill frændi fékk nafn, reyndar tvö mjög flott þótt í mínum huga verði hann aldrei annað en Gurrí frændi. Upphafsstafirnir eru LVK ... ég mæli alltaf með að upphafsstafir allra myndi orð! Hefðu foreldrarnir bara haft vit á því að hafa t.d. Arnar sem millinafn, ættu þau LAK ... Örn, LÖK, bara dæmi. Sigurjón Örn ... SÖK, sem væri kúl því pabbinn var einu sinni lögga og þá myndi sonurinn feta í þau fótspor og sanna sök glæpamanna ... eða auðvitað sakleysi. Ég er svo sem að fleygja hér stórgrýti úr gróðurhúsi, sjálf með upphafsstafina GHH en sé samt varla hvaða miðnafn hefði gert sæmilegt orð úr G og H með sérhljóða á milli. Davíð frændi nánast lofaði að láta framtíðardóttur sína heita t.d. Lísu Svanhildi ... bara svo frænka gæti skemmt sér.

 

Efsta myndin var tekin í skírnarveislunni, heima hjá afa og ömmu litla barnsins, ég kolféll auðvitað fyrir útsýninu.

 

Epli og appelsínurÞað fór rúmur mánuður í að herða upp hugann til að þrífa ofnplöturnar sem gleymdist að gera hjá fyrri íbúa. Ákvað að gera spennandi leik úr þrifunum, hafði vissulega góða sögu í eyrunum en tveimur dögum fyrir þrifin spreyjaði ég tveimur mismunandi hreinsiefnum á plöturnar. Sú til vinstri fékk efni sem heitir Collo og ég keypti í Omnis á Akranesi (fæst í Ormsson, held ég) og á hina fór Pink Stuff sem er æðislegt efni en svo sem ekki gert sem ofnahreinsir, en alltaf gaman að bera saman epli og appelsínur. Platan með Collo-efninu varð eins og ný þegar ég þreif hana en hin nokkuð hreinni en ekkert á við hina svo ég skellti á hana Collo-inu, dugði ekki einn sólarhringur, svo skítugar voru þessar plötur.

Myndin var tekin EFTIR þrif. Svo verður þessi til hægri jafnhrein og hin eftir tveggja daga Collo-meðferð.

 

Mér datt ekki í hug að gera veður út af þessu, sjálf skildi ég ruslaskápinn ógurlega á Hringbraut eftir óhreinan þarna 2006, eða unga konan sem fékk borgað fyrir flutningsþrifin en steingleymdi að þrífa hann. Nú er ég að launa konunni sem keypti af mér Hringbrautina með því að þrífa sjálf ógeðsplöturnar fyrir konuna sem seldi mér Kleppsveginn. Virkar karma ekki þannig? Íbúðin á Hringbraut er svo sem ónýt núna eftir að einhver eigandinn málaði gullfallegu og upprunalegu innidyrnar rauðar! Húsið var byggt á árunum 1931-1937 og virkilega vandað til verka.

 

Hlussur„Frú Gurrí, af hverju ertu ekki búin að ná þér í mann, kominn rúmur mánuður síðan þú fluttir í þetta gósenland (104 Reykjavík) af flottum körlum?“ spurði vinkona mín, þessi sem er vitlaus í kransakökur og hefur mætt í öll mín brúðkaup nema þau sem fóru fram í kyrrþey. Hún minnti mig á að ég hefði áður fyrr verið miklu betri í þessum málum.

 

Ég hugsaði mig lengi um og varð að viðurkenna fyrir henni að markaðurinn væri fremur erfiður núna. Samfélagsmiðlar hjálpuðu lítið sem er algjörlega öfugt við það sem margir halda. En sjáum bara til. Það er ljómandi fín hverfissíða hérna í hundrað og fjórum og kannski eitthvað flott í boði þar og þá losna ég við að fara í bomsurnar og hafa eitthvað fyrir þessu.

Samt er sennilega of mikið að gera í menningarlífinu til að tími gefist í eitthvað annað en bara það. Mig langar á viðburði á bæði miðvikudag og fimmtudag, viðburði sem tengjast bókum. 

 

ÞvottaráðNýja þvottavélin er æði en ég hef ekki enn prófað þvo og þurrk-prógrammið, bara þvæ og læt þvottinn svo þorna á þvottagrind. Engar leiðbeiningar hvort hægt sé að bara þurrka ... spurði eina sem á svona vél og hún var ekki viss. Mér hugkvæmdist þarna við fyrsta þvott að láta viftuna mína (sem bjargar mér á sólríkum dögum við suðurgluggann) blása á þvottinn. Það er gjörsamlega æðislegt, allt þornar miklu fyrr en ella og t.d. föt af mér sem sjást á myndinni eru fáránlega slétt og mjúk, eins og nýstaujuð, inni í skáp hjá  mér. Á bara eftir að prófa rúmfatavél ... erfitt að setja sængurver og lök til þerris á svona grind en spennandi samt að prófa - kannski með tveimur viftum? Ég á þrjár! Án efa ódýrara en að setja í þurrkara.

 

Á myndinni sést því miður ekki í viftuna, hún var staðsett til vinstri, stóð á stól og blés og blés og þurrkaði, þessi elska.

 

Um daginn birti ég lista yfir algengustu afmælisdaga fólks (sem upplýsti að tíminn til að búa til börn rennur fljótlega upp, eða dagarnir í kringum jólin).

 

Hér koma sjaldgæfustu afmælisdagarnir. Í stað þess að byrja á tíu og telja niður, kýs ég íslensku leiðina, að halda fólki ekki of lengi æsispenntu, heldur fara beint í þann sjaldgæfasta sem, ótrúlegt en satt, er:

1) 29. febrúar!

2) 25. desember

3) 1. janúar

4) 24. desember

5) 2. janúar

6) 4. júlí

7. 26. desember

8) 28. nóvember

9) 27. nóvember

10) 26. nóvember

 

Dark knightEf þið eruð jafnvitlaus í lista og ég, getið þið glaðst því hér kemur annar sem er yfir bestu framhaldsmyndaflokka allra tíma (hef ekki hugmynd um hvernig þetta var fundið út, sennilega með einhvers konar kosningu - en smekkur er misjafn, samt ekki tryllast).

Ath. Ekki búið að finna upp konur þegar listinn var gerður.

 

1) Godfather.

2) Star Wars.

3) Lord of the Rings.

4) Indiana Jones.

5) Harry Potter.

6) The Dark Knight.

7) James Bond.

8) Toy Story.

9) Pirates of the Caribbean.

10) Marvel. 

 

Síðasti listinn bjargaði gjörsamlega sjálfstrausti mínu og jók á þingeyskt montið sem aldrei er nóg af. Ég bara vissi það ...

 

Tíu algeng tákn um að þú sért snillingur!

Er með alla vega sjö af tíu, en alin upp á tímum Hvað heldurðu að þú sért? svo ég myndi t.d. aldrei segja nr. 1. Það er annarra að dæma um það, hugsa ég hógvær.

 

Þú ...

- ert skapandi.

- ert forvitin/n.

- nýtur einveru.

- hlustar meira en þú talar.

- ert einbeitt/ur.

- þarft að berjast við freistingar.

- ert nátthrafn.

- ert dagdraumamanneskja.

- hefur mjög gott minni.

- talar við sjálfa/n þig.  


Bloggfærslur 11. nóvember 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband