20.11.2024 | 18:35
Snobbað lúsmý, glaður intróvert og hnausþykk ferilskrá
Elsku dagbók, fyrirgefðu að ég hef ekkert skrifað í marga daga en ég fékk enn eina leikskólaflensuna eftir rúmlega mánaðarpásu. Keypti loksins C-vítamín. Mjög kalt úti. Það mátti búast við þessu, hitti svo miklu fleira fólk eftir að ég flutti til höfuðborgarinnar og það er alltaf þessi eini sem hnerrar og smitar ...
Hvernig er svo fyrir yfirlýstan intróvert (sem fann engan mun á lífi sínu í samkomubanni) að umgangast svo miklu fleiri en undanfarin ár? Jú, takk, það er bara allt í lagi, eiginlega bara rosalega gaman þótt ég sakni Akraness stundum alveg brjálæðislega mikið.
Afmælisfrænka mín (13) færði sunnudagsveisluna til laugardags og ég fékk bílfar með góðu frændfólki vestur í bæ þann dag eftir að árangurslaust reyndist að setja upp fatahengið góða úr Jysk, tvær skrúfur, 4 eða 5 mm. EN ... veggirnir eru ekki bara þykkir hér á Klepps, sem kemur í veg fyrir almennilegt wifi, heldur einstaklega grjótharðir því borvélin (lánsvél, afar léleg og eldgömul) bara emjaði og gat ekki neitt, ein skrúfan brotnaði líka og er föst í veggnum. Þarna var þaulvanur og laghentur (og einstaklega elskulegur) þroskaþjálfi að verki en sennilega þarf ég að leita til barnasálfræðingsins (sem er líka afar elskuleg og á súperfína borvél, eða maðurinn hennar) til að koma kvikindinu upp á vegg. Þurfum við smiði í fjölskylduna? Ónei! Í allri spælingunni vegna fatahengisins gleymist hreinlega að setja upp rúllugardínuna í svefnherberginu. Kannski bíður hún bara píparans í ættinni, heheheh, ef hann kemur með borvél með sér í bæjarferð fyrir jólin.
En algjörlega óháð fatahengjum og borvélum, það er svo innilega dásamlegt að hitta ættingjana svona miklu, miklu oftar en áður, ekki bara einu sinni til þrisvar á ári, eins og í allt of mörgum tilfellum.
Afmælið var algjör dásemd. Ég hafði styrkt unga Vesturbæjarstúlku með kaupum á nýbökuðum skinkuhornum sem voru einmitt afhent á laugardaginn. Stúlkan var svo sæt að mæta með þau í hús afmælisbarnsins (í Vesturbænum) þar sem þau voru samstundis gerð upptæk og snædd af bestu lyst af okkur afmælisgestunum. Auðvitað með mínu samþykki, fannst bara frábært að þau nýttust þarna, svona nýbökuð og góð. Annars hefðu þau mögulega gleymst um ókomin ár í frystinum heima hjá mér.
Myndin af Chuck Norris tengist færslunni óbeint. Það er talað um aldur - afmæli tengjast aldri.
Í afmælinu fór að bera á leiðindahálsbólgu ykkar einlægrar sem varð til þess að ég leyfði engin kveðjuknús og reyndi að anda ekki. Það var samt svo gaman og skemmtilegir gestirnir. Móðir afmælisbarnsins sagði okkur m.a. frá furðulegri háttsemi lúsmýs í garði hennar undanfarin sumur ... lúsmýið píndi og beit sem sagt bara þá vini hennar (íslenska) sem bera ættarnöfn. Ein viðstödd sem hefur rétt á að bera tvö ættarnöfn en notar bara eitt staðfesti þetta. Nú er ég loksins sátt við, eiginlega þakklát fyrir, að vera bara Haraldsdóttir. Var meira að segja farin að sjá svolítið eftir því (alls ekki lengur) að hafa hafnað bandarískum vini vinkonu minnar af því að hann ber ættarnafnið Mattrass. Vinkonan skilur enn ekkert í því hvers vegna ég harðneitaði að hafa rass í ættarnafni mínu. Bind samt enn vonir við að finna Filippus Angantý (sem guð sagði mér (12 ára gamalli) í draumi að ég myndi giftast ... og að ég myndi eignast tvíbura og deyja í hárri elli 38 ára). Filippus A. er ekki til í þjóðskrá. Nema ... það er alltaf sá möguleiki að stórhuggulegur Skoti, Phillip McIntyre (er hægt að komast nær Filippusi Angantý en það?) að nafni, fyrirfinnist og finni mig hér í 104 Reykjavík eða ég hann í næstu Glasgow-ferð. Er yfir mig hrifin af Glasgow ... og er alls ekki að tala um verslanirnar, held að innkaupaferðir heyri nánast sögunni til, veit alla vega ekki um neinn sem fer staðfastlega og eingöngu þangað til að gera góð kaup.
Við Hilda fórum samferða heim úr afmælinu (hún skutlaði mér) og fljótlegasta leiðin til að fá áríðandi hvítlauk í blóðið (drepur vampírur OG kvef) er að kaupa hvítlaukspítsu og á 107-pítsustaðnum hans Páls Óskars fékk ég eina slíka sem var ansi hreint bragðgóð. Í stað þess að bíða kyrrar eftir pítsugerðinni kíktum við í Melabúðina á meðan en hún er alltaf jafnskemmtileg. Þarna fékkst kaffi frá ýmsum íslenskum kaffibrennslum (m.a. Kvörn, Te og kaffi, Kaffitári og Kaffibrugghúsinu) ... mig minnti að Valeríukaffi (350 Grundarfjörður) fengist þar og spurði, því það er svooo gott og erfitt að nálgast það fyrir bíllausa kerlu. Konan sem ég talaði við var áhugasöm og ætlaði, held ég, að panta það því það var hvergi að finna þar. Kannski þarf ég bara að flytja í 107 nema Holtagarðar fari að gyrða sig í brók (ókei, ég er ekki enn búin að fara þangað í vettvangsferð, nema rétt til að kaupa kaffirjóma og kattamat) og komi með geggjað kaffihús, bókasafn, apótek og fleira ... Það er t.d. mjög flókið fyrir mig að taka strætó í Skeifuna eftir ýmsum nauðsynjum, skv. Klappinu (gangið í 17 mínútur bla bla hryllingur). Einfaldast er að taka tólfuna héðan í Mjódd og svo vagn þaðan á Grensásveg, ég "fattaði upp á því" sjálf en er kannski ekki fljótlegasta leiðin. Samt, ég nenni ekki að ganga í 17 mínútur í hálku og alls konar óveðri, þannig að langt á milli stoppistöðva mun FÆKKA farþegum, þið sem eruð að skapa Borgarlínuna takið það vonandi til greina. Borgarlínan mun ekki fara Sæbraut, ég var svo viss um það en efast þó um að stoppistöðin næst mér verði tekin. Svo ótrúlega margt fólk býr hér á þessum bletti. Yfir 100 íbúðir bara í tveimur háu blokkunum. Sem minnir mig á, veit einhver hvernig maður losnar við átta hæða blokk sem er fyrir annarri átta hæða blokk, svo maður sjái upp á Akranes?
Sunnudagurinn fór í bráðskemmtilegt Bókamessurölt í Hörpu, jú, ég tók flensulyf og kenndi mér því ekki meins en sparaði samt faðmlög og blauta kossa til að smita engan.
Hitti fyrst elsku Ása í Drápu sem bauð mig velkomna til borgarinnar og staðfesti af festu að 104 Reykjavík væri hverfi fallega fólksins. Hann býr ekki svo langt frá mér. Ella var þarna líka og svo hitti ég Skúla Sigurðsson rithöfund. Hef lesið tvær bækur eftir hann og er yfir mig hrifin af honum. Fékk þá nýju, Slóð sporðdrekans, og hlakka ótrúlega mikið til að lesa hana. Er komin með fínt safn nýrra jólabóka í hús. Elsku Eva frænka gaf mér sína nýju bók, Í skugga trjánna, sem er víst algjör dásemd, segja þau sem hafa lesið hana. Svo hlustaði ég á Nönnu Rögnvaldardóttur lesa upp úr sinni nýju, Þegar sannleikurinn sefur, og get ekki beðið eftir að lesa hana, Nanna kíkti nefnilega í heimsókn til mín á mánudagskvöldið, borðaði hjá mér (Eldum rétt-fisk) og færði mér eintak, eins og hún hefur eiginlega alltaf gert með sínar bækur, öll árin, en við kynntumst á Króknum þegar við vorum 16 og 17 ára. Það var sérlega gaman að fá Nönnu og það er alls engin hetjudáð að bjóða matgæðingum á borð við hana í mat, hún var sátt við matinn og er ekki matvönd. Sumir þora varla að bjóða mér kaffi, af því að ég er kaffikerling... en játa fúslega að frekar vildi ég uppáhellt ódýrt heimiliskaffi en t.d. Jamaica Blue Mountain-kaffið sem ég fékk eitt sinn á kaffihúsi hér á landi (hætt), sennilega í kringum 1995. Þá kostaði lítil pressukanna af því aðeins 1.100 krónur ... Olían í kaffinu farin að þrána og mikið geymslubragð af því.
Keypti ljóðabók eftir eitt uppáhaldsljóðskáldið mitt, Þórdísi Gísladóttur, Aðlögun heitir hún. Hef ég andlegt þrek til að geyma bækurnar til jóla eða hvað? Er komin með fjórar af þeim sem mig langar mest í - en þær eru auðvitað fleiri. Þegar ég vann á Vikunni var ég oft búin að lesa tugi jólabóka áður en jólin runnu upp og gat sjaldnast sparað mér neina til að lesa á jólanótt. Fólkið mitt gaf mér að sjálfsögðu aldrei bækur í jólagjöf, nema mamma, hún gaf iðulega bækur, og ég fékk bókina Sumarlandið frá henni eitt árið, óvænta metsölubók um blómabrekkur og annan hrylling (í mínum huga, geitungar og of mikill hiti, mætti ég frekar vakna í Vetrarvondalandi í 101 Rvík ... útgefandinn hafði hitt mig á Vikunni og laumað að mér eintaki, elsku karlinn, svo það var kát Fjóla í bókabúðinni á Akranesi sem tók við eintakinu frá mömmu sem ég skilaði milli jóla og nýárs, því það var langur biðlisti eftir bókinni. Ég held alveg örugglega að hún hafi heitið Sumarlandið.
Djammið sem átti að vera á föstudeginum breyttist svolítið. Ein vinkonan afboðaði sig svo við Lalla fórum bara tvær á kaffihús niðri í bæ. Það var sjúklega gaman að koma í miðbæinn og vonda veðrið sem spáð hafði verið hélt sig á mottunni, alla vega í 101 og 104. Við fórum í hið nýja kaffihús Kokku á Laugavegi (á horni Frakkarstígs) og vá, hvað það var æðislegt. Ég var spennt að smakka kaffið, spyr vanalega hvaða kaffitegund (frá hvaða fyrirtæki) sé notuð. Var ansi hreint sátt þegar ég heyrði að það væri Kvörn á 755 Stöðvarfirði. Ég er reyndar það mikill plebbi að mér finnst kaffið þeirra aðeins of lítið brennt, svona yfirleitt, en aldrei vont. Fékk tvöfaldan latte sem var einstaklega góður svo ég mæli hástöfum með þessu kaffihúsi. Meðlætið var líka gott. Og í búðinni á neðri hæðinni fékk ég ansi góðan tímamæli (bakið kartöflurnar í 25 mín.) sem ég nota mikið þegar ég er að elda. Hann var kominn í gang í fyrsta sinn á mánudaginn þegar ég fann þann bláa sem ég hafði leitað að árangurslaust frá því ég flutti.
Atvinnuleit er í fullum gangi, svona þannig, hef eiginlega ekki nennu til að senda inn eina umsókn og bíða svo, ekki svona vinnualki, heldur dæli á nokkra staði og bíð svo svara. Áskil mér rétt til að taka öllum eða hafna öllum ... það væri alla vega gaman að geta verið í tveimur til þremur, eins og núna síðustu árin. Ferilskráin sem ég gerði á síðustu öld fyrirfinnst hvergi (hef ekki þurft að sækja um starf síðan undir aldamót) svo ég bjó til nýja í fyrradag og hún er ansi mikilfengleg þó að ég segi sjálf frá. Hver vill ekki konu sem hefur unnið í fiski, verið innheimtufulltrúi, símastúlka, fulltrúi, skrifstofustjóri, einkaritari forstjóra, verslunarstjóri, útvarpskona, blaðakona, rekið kýr og rakað með hrífu upp á gamla mátann í sveitinni, au pair í London, skrifað bækur (gleymdi því reyndar í ferilskránni), leiðbeinandi, fósturmóðir og man líka flestöll póstnúmer landsins síðan hún vann við að senda út reikninga á níunda áratug síðustu aldar. Já, og svo hefði IKEA ekki getað flutt í Holtagarða úr Kringlunni án minnar aðstoðar, svo það komi nú fram ... Þar hitti ég elskuna hann Hjört Howser og saman sóttum við um að sjá um morgunþátt á Aðalstöðinni, Drög að degi, sem við gerðum um veturinn. Æ, hvað ég sakna hans.
Ég fletti í gegnum Alfreð (alfred.is), ekki alla leið samt, og sá nokkur áhugaverð störf. Skellti þó upp úr þegar ég sá að hlunnindin við eitt þeirra voru að komast ókeypis í sund í bæjarfélaginu. Þau sem þekkja mig vita að ég fer aldrei í sund, hata allt blautt (nema kaffi og rigningu), hef ekki farið í sund síðan 1986 (ja, einu sinni í Reykjaskóla eftir það reyndar) og skil hreinlega ekki af hverju spa er skilgreint sem dekur. Hef farið tvisvar eða þrisvar á ævinni í heitan pott. Finnst yndislegt að fara í sturtu svo það komi nú fram.
Myndin úr Ísfélaginu sannar, svo ekki verður um villst, að ég var send, aðeins 15 ára gömul, til Eyja til að vinna fyrir heimilinu; foreldrum mínum og 17 svöngum systkinum árið 1974. Hvar var umboðsmaður barna? Veit/man ekki hver það er sem horfir á mig með vandlætingu (til hægri), sennilega af því að það stendur Gurrí með ý-i framan á svuntunni minni.
Að vinna í bókabúð í Leifsstöð heillaði mig reyndar mjög ... held að strætóleysi á nóttunni komi í veg fyrir það. Ritari (ekki læknaritari) á einni deild á Landspítalanum í afleysingum hljómaði líka vel. Sem hjúkkudóttir hef ég ekki skilið af hverju ég hef aldrei unnið á spítala, starfsævin er auðvitað ekki búin - spítalar hafa aldrei hrætt mig, frekar hið gagnstæða.
Núna rétt áðan kom sendill frá gæludýr.is í fyrsta sinn með kattasand upp að dyrum hjá mér (frítt að fá heimsent á höfuðborgarsvæðinu, nema 116 Rvík sem er Kjalarnes og 271 Mosó dreifbýli). Kassinn er tíu kíló að þyngd og helst til of þungur að bera frá Holtagörðum (yndisleg dýrabúð þar) þótt þangað sé ekki langt að fara. Hef verið heppin að fá far hingað til.
Heimilið er nánast í rúst vegna undanfarins og hverfandi slappelsis, lækningamáttur hvíldar og svefns ásamt C-vítamíni og hvítlauk, er sannarlega ekki ofmetinn. Ætlaði að gera allt í dag en þá komu nokkur frekar fljótleg verkefni til að lesa yfir og svo langaði mig líka að dusta rykið af blogginu ... Heita vatnið er kraftlaust í dag svo uppvaskið síðan á mánudagskvöld verður að bíða enn lengur (búin að skola allt). Á morgun, segir sá lati eða slappi, þá mun ég ryksuga, brjóta saman þvott, vaska upp (sýð bara vatn í katlinum ef heita vatnið er með vesen) og gera allt súperfínt. Svo þarf ég að gera samning við einhvern sem fer reglulega í Sorpu að taka mig með (ef það er ekki hræðilega úr leið) því fráflæðivandinn er alltaf sá sami á heimilinu. Hef ekki enn losnað við umbúðirnar utan af þvottavélinni (of fyrirferðamiklar til að ég geri grönnum mínum það að troða þeim í ætíð of fullar tunnurnar hérna úti, sem eru of fáar fyrir 32 íbúðir). Það eru samt fjölmargir kostir við að vera bíllaus.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 20. nóvember 2024
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 38
- Sl. viku: 832
- Frá upphafi: 1515927
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 705
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni