Mitt eigið moll, klár gervigreind og elskan hann Chuck Norris

HoltagarðarVettvangsferð var farin um Holtagarða í gær. Lítið stoppað, ekkert keypt en gaman að vita af þessum flottu búðum í næsta nágrenni. Ég emjaði og grét í Dorma yfir fallegum sófa sem væri allt of lágur fyrir langleggjaða dömu sem keypti sófann vegna fegurðar, sá hann á netinu, mátaði ekki ... væru til lengri sófafætur til að kippa vissri tilveru í lag? Þyrfti minnst 5 cm hærri fætur undir sófann sem gæti þó mögulega gert hann hjákátlegan í útliti en ég gæti blekkt með teppum eða dáleitt gesti mína til að taka ekki eftir því. Gamli sófinn minn úr Jysk var nefnilega keyptur með langa leggi mína í huga og var hinn girnilegasti að setjast í þótt ég sæti ekki svo oft í honum við að glápa á sjónvarpið. Langar að taka upp gláp aftur, fyrst ég fæ ekki vinnu sem jólaskraut í glugga í des.

 

Í Dorma voru til sölu lítil skilti sem á stóð: Gleðileg Jól

Jákvæða systirin: Mikið er gaman að sjá svona á íslensku. 

Neikvæða systirin: Já, sammála, en það er samt villa þarna, það á ekki að vera stórt J í jól. Hæ, vantar ykkur prófarkalesara eða eiga skiltagerðarmenn kannski bara að fá að stjórna stafsetningarmálum ykkar?

Afgreiðslustúlka: Honum hefur kannski fundist flottara-

Neikvæða systirin: Ég kaupi aldrei neitt sem inniheldur villur, kýs ekkert með stafsetningarvillu í nafninu, afber alls ekki sjónvarpsefni (munið Stundina Okkar um tíma?). Mér finnst allt annað þegar við sauðsvartur almúginn gerum villur, en fyrirtæki, fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar, opinberir aðilar verða trúverðugri þegar vinnubrögð eru vönduð. 

Jákvæða systirin: Jæja, gamla geit, eigum við að drífa okkur?

 

HoltóVið systur kusum utankjörstaðar fyrir búðaskoðunina og það var merkilega mikið að gera, röð eins og á flugvell þegar fólk bíður eftir að komast í öryggisskoðunina. Ekki séns að kjósa taktískt, fannst mér, ég kaus þann flokk sem ég vil sjá vinna góð störf á þingi. Ég gerði sama í forsetakosningum, kaus ekki taktískt þótt ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að minn maður yrði tæplega forseti. Kannski heimskulegt að kjósa með hjartanu, kannski alls ekki, en því að kjósa flokk eða forseta bara til að einhver annar komist ekki að? Iss, piss.

 

Það var nokkuð margt um manninn líka þarna í búðunum, svona miðað við fimmtudag. Partíbúðin er æðisleg, Fakó undursamleg, líka Curvy og Dorma og bara allt þarna. Svolítið falinn demantur í mínum huga, hafði ekki hugmynd um þetta litla moll, eiginlega mitt eigið moll, og svo er Bónusbúðin á neðri hæðinni ansi fín líka. Ítreka, það væri fínt að fá apótek og kaffihús þarna líka. Bakarameistarinn er bakarí og væri frekt að ætlast til þess að algjört gæðakaffi væri á boðstólum ... sem minnir mig á að hópurinn Gerum Akranes enn betra fyrst Gurrí er flutt ... er að opna kaffihús í gamla Stúkuhúsinu á Safnasvæðinu (strætó gengur ekki þangað en það er samt í lagi því það eiga allir bíl) og þar verður dýrindiskaffi frá Te og kaffi í boði og starfsfólkið búið að fara á námskeið og alles. Vá, hvað ég hlakka til að koma á Skagann næst. Í gamla stúkuhúsinu lofaði ég sjálfri mér því að reykja hvorki né drekka. Ég reykti í allt of langan tíma en hætti í apríl 2020. Drykkjan á mér er svo aumingjaleg að ég er hársbreidd frá því að koma út úr skápnum sem bindindiskona. Kaffi er bara betra ...

Alla helgina núna mun Útvarp Akranes (FM 95) hljóma, flott dagskrá en þetta er til styrktar Sundfélagi Akraness.  

 

Jack á titanicGervigreindin er ansi hreint skemmtileg. Systursonur minn spjallaði við hana, altso gervigreindina, um vandræði mín hvernig ég gæti komið word-inu mínu í lag - er með áskrift, búin að borga og allt en skjölin eru samt með stæla. Þú getur ekki hlaðið þessu niður, bjáninn yðar, eða vistað, asninn yðar - svona stælar. Gervigreindin sagði frænda að ég þyrfti að skrá mig inn ... uuuu, hvernig, hvar, hvers vegna? grét ég. Ef hægt er að hægja á skjölum mínum og gera mér lífið erfiðara, hlýtur að vera hægt að laga allt þegar sjálfvirka greiðslan frá mér hefur skilað sér - ég skulda ekkert, svo hvaða vesen er þetta? Já, búin að prófa að endurræsa ...

 

MYND: Hér sýnir gervigreindin okkur hvernig elskan hann Jack úr Titanic myndi líta út í dag ef hann væri á lífi.

 

Hún getur vissulega búið til falsfréttir, falsupplýsingar ... varla þó þessar sem ég heyrði nýlega ... vissuð þið að hælisleitendur í hundraðatali hafa lamað heilbrigðiskerfið okkar með því að vera á biðlista eftir kynleiðréttingu? Fyndið ef þetta væri ekki svona grátlegt þar sem sumir kjósa að trúa þessu. Þarna er reitt til höggs og fyrir því verða bæði hælisleitendur og trans fólk, viðkvæmir hópar sem þurfa alls ekki á svona að halda. 

 

Gleðilegt að livefromiceland.is, vefmyndavéladýrðin mín, er að rakna úr rotinu, ég get kíkt núna til Vestmannaeyja, á gosstöðvarnar og víðar sem gleður nördahjarta mitt innilega.

 

Chuck Norris 1946Facebook í þrumustuði:

 

Vitið þið hvernig dyrabjallan hjá James Bond hljómar?

- Dong, ding dong.

--------------------------

Chuck Norris:

- Hann sigraði Usain Bolt í 100 m hlaupi þótt Chuck hlypi afturábak og notaði keðjusög sem jójó á  meðan.

- Nýfæddur skutlaði hann sjálfum sér og foreldrum sínum heim af fæðingardeildinni. 

- Þegar hann segir brandara um Jödu Pinkett Smith, slær eiginmaður hennar, Will Smith, sjálfan sig utan undir.

- Þegar hann fer í sturtu verður hann ekki blautur. Vatnið blotnar.

- Þegar hann varð 18 ára fluttu foreldrar hans að heiman.

- Hann getur kveikt eld með því að núa saman tveimur ísmolum.

- Í eina skiptið sem hann hafði rangt fyrir sér var þegar hann hélt að hann hefði gert mistök. 

- Hann getur setið úti í horni í kringlóttu herbergi.

- Hann getur staðið upp á meðan hann situr.

- Í skólanum hans þurftu kennararnir að rétta upp hönd ef þeir vildu tala. 

- Þegar hann fæddist sló ljósmóðirinn á bossann á foreldrum hans.

- Hann getur búið til snjókarl úr rigningarvatni. 

- Hann finnur ilminn af sunnudagsmatnum strax á miðvikudegi.

- Þegar Bell fann upp símann var hann þegar kominn með 3 missed calls frá Chuck.


Bloggfærslur 29. nóvember 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 719
  • Frá upphafi: 1524917

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 615
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband