Fjörugt samkvæmislíf, ruggustóll í bið og kosningaráð

Himnaríkið mitt gamlaElskurnar hjá Elkó settu svo sem ekkert drengjamet í hraðþjónustu, fá samt tíu fyrir kurteisi, en um eittleytið ætlar elskulegur nágranni minn að klára að tengja þvottavélina. Slangan kom með dropp-sendli í gærkvöldi, svo stór að hún hefði aldrei farið fram hjá okkur hirðsendibílstjóranum (eitthvað sem bæði ég og Elkó höfðum áhyggjur af) ... Vélin keypt á mánudegi ... og kemst í notkun á ... þegar ég er búin að gúgla hvernig eigi að nota hana. Ekki halda að þetta séu elliglöp (það fyrsta sem mörgum dettur í hug hjá fólki yfir 50 ára) að geta ekki notað erlendar leiðbeiningar, ég er bara mjög fúl yfir áberandi minnkandi þjónustu í svo mörgu. Ef gervigreindin getur talað íslensku, geta sumir druslast til að láta þýða (og bara ljósrita þess vegna) leiðbeiningar fyrir fokdýru vélarnar sem þau selja. Ég veit að sumir kaffihúsa- og búðaeigendur áttu erfitt eftir covid-lokanir og slíkt, en núorðið fer ég ekki lengur í búðir sem loka kl. 17 eða kaffihús sem loka í kringum kl. 16. Það sparast auðvitað við að þurfa ekki að borga fólki eftirvinnu - en ég man bara allt of vel eftir kapphlaupinu um kúnnana, þegar keppst var við að bjóða sem bestu þjónustuna. Landsbyggðastrætó er gott dæmi um versnandi þjónustu sem, ótrúlegt en satt, dregur samt ekki fleiri farþega að ... döh

Jæja, frú Guðríður, hættu þessu nöldri ... þú gerir þitt með því að sniðganga ... jamm.

 

Regnboga-KrummiÝmsar jákvæðar breytingar hafa fylgt flutningum mínum til höfuðborgarinnar, vissulega meira fjör, enda er rólegheitalíf svo innilega ofmetið ... til lengdar. Í kvöld ætlum við Ólöf að hlusta á upplestur úr nýjum jólabókum úti á Granda og í næstu viku fer ég í síðbúinn hádegisverð með tveimur vinkonum. Aðrar tvær ætla að koma í heimsókn mjög fljótlega, sennilega samt í næstu viku. Þetta er bara rétt byrjunin á yfirmáta fjörugu samkvæmislífi vetrarins. Er hætt við að finna mér ruggustól, í bili. Það er eins og ég hafi aldrei flutt á Skagann, það er að komast inn í kerfið hjá vinum og vandamönnum að ég sitji ekki lengur dáleidd við gluggann minn að horfa á brimið ... vá, samt, hvað ég sakna þess. Það hlýtur að vera mjög flott í dag, suðvestanhvassviðri og dásemd. Nú vantar mig einhvern við Jaðarsbraut sem tekur myndir af briminu mínu ... ég gætti þess vandlega að selja ekki neitt af landhelgi minni, bara himnaríki sjálft, svo ég á marga, marga lítra af sjó þarna fyrir framan.

 

Facebook rifjar alltaf reglulega upp minningar dagsins, fyrir visst mörgum árum og fyrir nákvæmlega tíu árum skrifaði ég: 

"Himinglöð og alsæl eftir tveggja tíma dásemdarstund með 50 myndarlegum körlum."

 

Hvað ætli hafi verið í gangi hjá mér þarna? Einn nægir mér nú alveg svo þetta með fimmtíu vekur mér eiginlega óhug ... nema mögulega þetta hafi verið kórtónleikar, Fimmtíu fóstbræður úr Skagafirði, eitthvað slíkt. Ég fer ekki bara á Skálmaldartónleika ... en ég ætla að rembast við að rifja þetta upp. Þetta var alla vega skemmtilegt ...

 

Sá annað á fb í gær sem mér fannst merkilegt. 

"Berðu virðingu fyrir fólki sem gengur með gleraugu. Það borgaði fyrir að að sjá þig!" Algjörlega rétt. :)

 

Fann líka góða staðhæfingu á erlendri fb-síðu:

Ég hata þegar einhver fleygir í mig ísskáp þegar ég er úti að ganga. 

Svo átti fólk að bæta við, og þetta kom:

... þegar Voldemort notar sjampóið mitt

... þegar ég er að synda og hákarl gleypir mig.

En svo voru flest önnur komment um að fólk fleygði ekki ísskápum út um hvippinn og hvappinn ... hvers konar bull væri þetta og fljótlega hætti ég að lesa svörin. 

 

Línan og TrumpÉg fann kosningageðheilsufærslu, ammríska auðvitað:

Hvað hefur þú gert í dag (í fyrradag) til að halda geðheilsunni? (í bið eftir úrslitum kosninganna í USA). Nýtist okkur Íslendingum núna 30. nóvember. Hvort sem við bíðum eftir ískrandi íhaldsstjórn eða krassandi kommastjórn ... 

 

- Við tókum að okkur heimilislausan hund og það hefur haldið okkur uppteknum.

- Hef fengið mörg góð ráð frá röddunum í höfðinu á mér.

- Hlustað á Willie Nelson-tónleikaútgáfur á hæsta.

- Horft á gamlar bíómyndir og prjónað.

- Gekk í rigningunni með barnabarnið.

- Eldaði sérlega góðan mat í kvöld.

- Tók flensupillur og fór snemma í rúmið með hundunum mínum.

- Hef horft á fréttalausa sjónvarpsstöð.

- Haldið upp á afmælið mitt. Ef hann sigrar, breyti ég um afmælisdag.

- Spilað Jimi Hendrix, það gerir allt betra.

- Tók til í bakgarðinuim og þreif innkeyrsluna.

- Hlustað á bók í upplestri Stehens Fry og saumað út. 

 

P.s. Granninn búinn að tengja. Nýtt vandamál ... leki úr krananum, svo ég þarf pípara. Vatnsslönguvöntunin var bara fyrirboði um meira vesen ... en ef ég lendi nú á stórhuggulegum pípara ... hvernig verður þá fb-minningin eftir tíu ár? Spennandi líf. 


Bloggfærslur 7. nóvember 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband