14.12.2024 | 23:19
Þú ert samt feit - og ýmsar jólajátningar
Gærdagurinn hófst með hálfgerðu áfalli. Vinkona hafði sent mér skilaboðin: Geturðu sent mér símanúmerið þitt! sem er öruggt dæmi um að feisbúkksíða viðkomandi hafði verið hökkuð. Ég hringdi strax í hana:
Vissirðu að það er búið að hakka þig? spurði ég döpur.
Ha, nei, af hverju dettur þér það í hug?
Hakkarinn bað um símanúmerið mitt í messenger. Algengasta gabbið á fb og hefur verið lengi.
Nei, þetta var nú bara ég, sagði hún. Áttaði mig á að ég er með rangt númer en nú er ég komin með það fyrst þú hringdir, sagði vinkonan alsæl. Hún er nýflutt aftur til Íslands og samskipti okkar hafa iðulega verið í gegnum messenger en alltaf gott að vera með rétt símanúmer.
Við ákváðum að bregða undir okkur betri fætinum og fara í Kringluna. Mig vantaði strætókort, hana vantaði sundhettu og andlitskrem. Kortið fékkst á upplýsingaborði Kringlunnar sem var svo vel falið á 2. hæð að það þurfti að ganga alla Kringluna, báðar hæðir, til að finna það. Hefði þurft annað upplýsingaborð til að spyrja um staðsetningu þess. Leiðbeiningar á íslensku fylgdu með kortinu, takk, strætó. Ég þarf sem sagt að skrá mig inn á Klappið til að fá að kaupa miða og látið þá á kortið. Þetta var öðruvísi í gamla daga: Fá fullorðinsmiða, takk (eða mánaðarkort). Já, gjörsovel, það gera mörgþúsundkrónur. Og ég hoppa upp í strætó, borga með einum miða af miðakorti sem dugar í mánuð, og ekkert vesen. En auðvitað er ég sjúklega þakklát fyrir þessi tækniundur öll sem auðvelda lífið til muna ... Ég er alla vega sérlega þakklát fyrir að Strætó skyldi hafa fyrir því að vera með leiðbeiningar á íslensku, ekki gerir Elko það þótt maður kaupi fordýra þvottavél hjá þeim. Það var ekki troðfullt í Kringlunni, enda klukkan bara rétt um hálftvö, svo löngunin til að hlaupa út kviknaði ekki. Náði meira að segja að kaupa jólahandsápu (með sítrónugrasi, sjúklega góð lykt) fyrir heimilið af elskunum í Sólheimum sem voru þarna með flottu vörurnar sínar.
Mynd 1: Í gær endursýndi RÚV Útsvarsþátt - ég fékk skilaboð um það þar sem ég sat í vinkonukaffi, búin að steingleyma sjónvarpsstjörnuferlinum, sem er ólíkt okkur Þingeyingum að gera. Við höfum leyfi til að monta okkur, neimdroppa og hvaðeina, hefur mér skilist af ættingjum mínum. Ég þorði ekki að horfa nema rétt á byrjunina en held að þetta sé þátturinn sem ég brilleraði í Oliver Twist-spurningunum þremur, nema var aðeins of stressuð að muna að Oliver vann ekki hjá líkkistusmiði, heldur útfararstjóra. Dómarinn svo grjótharður ... en við unnum nú samt, minnir mig. Sigrún vissi allt um Indland, Bjarni allt um landafræði.
Sé á myndinni að ég var ekki offitusjúklingur þarna, eins og mér fannst ég vera (oftast). Hvernig hef ég nennt að eyða stórum hluta af lífinu í áhyggjur af aukakílóum sem gerðu mér ekkert slæmt heilsufarslega? Skilst reyndar að heilbrigðiskerfið geti verið slæmt í fitufordómum, ég var t.d. skömmuð fyrir að hafa bætt of miklu á mig þegar ég var komin níu mánuði á leið árið 1980, samt var ekki arða af aukaspiki á mér og ekki mikill bjúgur ... Ég var alveg miður mín yfir því. Ég lét ekki tékka á stórum fæðingarbletti því ég óttaðist skammir fyrir offitu, bletturinn reyndist svo vera skaðlaus þegar ég loksins þorði ... þá hvort eð er á leið í eina uppskurð lífs míns (teratoma) en enginn skammaði mig. Ég bætti á mig eftir að ég hætti að reykja fyrir bráðum fimm árum en þau kíló eru að mestu farin núna. Ég fann vel fyrir þeim (erfiðara að ganga upp stigana) og vildi losna við þau.
Ég fylgist með Kötlu (Systur&makar) á Instragram og hún sýnir oft fötin sem hún hannar og selur á hinum ýmsu samfélagsmiðlum. Nýlega setti hún inn auglýsingamynd af sér á Facebook, í fallegum kjól sem hún sagði vera klæðilegan, klæddi af ... eitthvað slíkt. Einhver fyndinn karl setti athugasemd: "Þú ert samt feit!" Hún var komin næstum sjö mánuði á leið á myndinni og hann tók eflaust ekkert eftir því vegna þess líklega að kjóllinn var svo klæðilegur, honum fannst hún bara ekki nógu mjó og fann sig knúinn til að benda henni á það.
Þetta er svolítið íslenskt ... vinkona mín, búsett í USA, vill meina það. Hún fór í matarboð ytra þar sem önnur íslensk kona var viðstödd og þeirri konu fannst hún knúin til að benda bandarískum manni sem hún þekkti ekkert, á að hann yrði að gera eitthvað í sínum málum, hann væri allt of feitur. Kanar eru mjög kurteisir, hann lét þetta yfir sig ganga án þess að drepa hana, en bandarísk vinkona vinkonu minnar, var stórhneyksluð á þessum dónaskap ... eins og maðurinn vissi ekki af þessu sjálfur. Ég get varla ímyndað mér að hann hafi drifið sig í megrun við þetta.
Ef einhver gefur mér óumbeðin ráð (þú myndir virka grennri ef þú létir minnka á þér brjóstin, þú ættir að gera þetta, gera hitt, bla bla) finnst mér það bara pirrandi en ekki hvetjandi. Ráð eins og: Ég hef heyrt að B1-vítamín sé gott við hásinarveseni, er aftur á móti mjög gagnlegt og virkilega vel þegið. Hef kíkt eftir B1-vítamíni síðan ég heyrði þetta en ekki fundið. Mér myndi t.d. ekki þykja það vera dónaleg afskiptasemi ef einhver segði mér hvar það fengist.
Í bók sem ég hlustaði nýlega á, kom fram að flestir karlar óttist mest af öllu þegar þeir fara á Tinder-stefnumót, að konan reynist vera feit. Þeim finnst víst skipta minna máli hvernig þeir líta út ... Í Jurassic Park, fyrstu myndinni, var bara "útlitsgallað" fólk étið af risaeðlum. Þybbinn karl (of kors) og svo strákur sem gekk með gleraugu. Ekki skrítið þótt þetta síist inn í mann, þetta er svo víða! Gjörsamlega óþolandi.
Nú eru víst börn og barnafjölskyldur að fara yfir um af jólastressi því það er svo mikið að gera áður en jólin koma. Ef börnin eru í tómstundum, skóla, tónlistarskóla, íþróttum er brjálað að gera. Ekki bara tónleikar, jólastund, jólaföndur, heldur bara jóla-allt í tengslum við þær! Það þarf líka að fara út í skóg og höggva niður jólatréð. Það eru litlu jólin, stóru jólin, jólahlaðborðin, jólaglögg ... Mikið skil ég að þetta sé stressandi. Og mikið hefur allt breyst á ekkert svo rosalega mörgum árum ...
Þegar ég var lítil þurfti sko að hafa fyrir því að finna einhverja oggulitla jólastemningu á aðventunni. Í desember beið ég í örvæntingu (koma jól?) eftir því að upplýst risastór stjarna kæmi upp á þak á síldarturni við Akraneshöfn. Þegar hún kom upp, kæmu sennilega jól. Samt komu þau ekki fyrr en eftir óbærilega langan tíma, alveg tvær eða þrjár vikur. Það tíðkaðist ekki að gera neitt jólalegt fyrr en nánast á Þorláksmessu og varla það!!! Það var vissulega bakað fyrir jólin en það mátti ekki smakka neitt fyrr en jólin komu og þá var svo mikill matur alltaf og ekkert pláss fyrir eldgamlar smákökur þá. Svo voru ótrúlega oft bein (lærisneiðar?) í jólamatnum og hræðilega erfitt að skera í kringum það fyrir sjö ára krakka sem fannst matartíminn og uppvaskið á eftir bara tefja jólin (gjafirnar) frá því að koma. Maður slapp oftast við að skræla brúnuðu kartöflurnar, til að sýna smájákvæðni.
Það þurfti að fara ógeðslega snemma að sofa frá 11. desember svo jólasveinninn gæfi manni eitthvað í skóinn, sem var samt aðallega eitthvað drasl (innflutningshöft) eins og mandarínur og minnsti skammtur sem hugsast getur af súkkulaði (þarna voru lögð drög að súkkulaðifíkn fullorðinsáranna). Svo fékk bara mamma að skreyta og stofan var harðlæst þangað til klukkan sló sex á aðfangadagskvöld. Þá fyrst mátti kveikja á jólatrénu og þá varð allt rosalega heilagt. Held að fáir hafi áttað sig á einu ... en hún er engin tilviljun þessi tíska að hafa stofur nútímans alveg galopnar og tengdar eldhúsi og borðstofu, og ekki nokkur möguleiki að loka hana af eða læsa ... Arkitektar nútímans eru fyrrverandi svekktir krakkar sem fengu ekki jól fyrr en kl. 18 á aðfangadag.
Að opna eina gjöf fyrir mat? Nei, þessi börn mættu ekki vera ofdekruð, það gerði þau bæði óþæg og vanþakklát. Við systkinin getum samt þakkað fyrir hvað mamma var mikið jólabarn, annars hefði bernska okkar verið enn hroðalegri.
Ekki bara jólin voru skelfileg í gamla daga ... Ég get varla minnst á það ógrátandi enn þann dag í dag hvað það var lífshættulegt að fara út, komast í skólann. Ég reyndi að fela mig undir rúmi með bók til að lifa af en var dregin undan því og hent út. Á unglingsárunum var það í raun bara áskorun að komast lifandi yfir Snorrabraut, frá Norðurmýri að Austurbæjarskóla. Á Akranesi man ég eftir djúpum síkjum (ekki allar götur voru steyptar þá) sem þurfti að stökkva yfir, ísbjörnum sem átu lötu börnin sem voru léleg í leikfimi, hagléli sem gat handleggsbrotið mann ...
Því var börnum ekki bara skutlað í skólann? Sko, ekki allir áttu bíla og það var álitið gera okkur svo gott að takast á við hætturnar, lífið sem biði okkar væri ekki dans á rósum ... Þetta var allt síðan þaggað niður (fréttafölsun) með ýmsum ráðum til að heilu kynslóðirnar færu ekki fram á skaðabætur frá ríkinu. Mín kynslóð er búin að vera á fullu við að passa að börn nútímans lendi ekki í þessu sama og hviss bang - þannig varð bílaþjóðin Ísland til.
Næsta kynslóð á eftir minni, foreldrar nútímans, tók jólin skrefinu lengra og nú er bara of gaman, of mikið við að vera, of mikið stress.
Í dag er Reynum að gera allt vitlaust-dagurinn. Tveir menn, annar kenndur við frost og hinn við eld, fengu sömu snilldarhugmyndina - að tæta og trylla smávegis í lýðnum. Held að sá fyrrnefndi eigi vinninginn, með því að draga upp á dekk Indverja, búsettan á Íslandi sem hefur sterkar skoðanir á íslenskum konum. Þær indversku vita að þeirra staður er á bak við eldavélina. Þarna átti aldeilis að berja á fjandans femínistunum (kerlingum almennt) og í leiðinni blása í elda hatursbáls rassistanna. Tvær flugur í einu höggi! Sá "heiti" óskaði svo síonistum gleðilegra jóla á fb-síðu Sósíalistaflokksins, ekki við mikla gleði þar, en kaus samt pottþétt Arnar "lýðræðis" í kosningunum um daginn.
Það vantaði bara skáldið, kennt við fjörð skerjanna, til að toppa fjörið ... sem samt misheppnaðist, það varð ekki allt vitlaust, nefnilega, flest fólk orðið vant svona rugli og skilur tilganginn, oft pjúra illgirni, sem liggur að baki.
Þar sem ég sat í rólegheitum og snæddi síðbúinn hádegisverð (Eldum rétt) hringdi dyrabjallan. Frammi var sölumaður sem reyndi að fá mig til að styrkja Krabbameinsfélagið. Ég lét ekki bitna á honum "langrækni" mína í garð félagsins sem lagði niður brjóstaskimum fyrir Skagakonur, eða skerti þjónustuna þannig að konur þurftu að fara til Reykjavíkur til þess, og sumar hættu alveg að fara, eins og lagt var upp með, hlýtur að vera. Það vantaði lækna til að lesa í myndirnar (sem þeir gerðu fyrir framan tölvu í Rvík) og því varð með öllum ráðum að fækka konum.
Vegagerðin er í sömu vegferð, ætlar að draga mjög úr strætóþjónustu við Akranes, leið 57 mun svo á endanum pottþétt hætta að stoppa á Skaganum ... til að hjólkoppunum verði ekki stolið ... (Vegagerðin svaraði aldrei bréfinu frá mér þótt það væri skrifað á kurteislegu, hálfgerðu stofnanamáli, en þar komu fram skoðanir farþega sem benti á að eðli strætó væri að stoppa oft til að taka farþega upp í. Það væri afturför að breyta í rútusamgöngur þar sem fólki var skutlað í veg fyrir rútuna. Missti við þetta allt álit á Vegagerðinni. Hefur Akraneskaupstaður getu og vilja til þess að láta innanbæjarstrætó ganga langt fram á kvöld og allar helgar, eyði stórfé til að Vegagerðin geti sparað?
Ég sagði manninum frá Krabbó að allir mínir styrkir væru í gegnum netið. Hann brosti fallega, sennilega með samviskubit yfir því að trufla fólk svona á laugardegi, og spurði svo: En ... ertu nokkuð vildarvinur félagsins? Eins og það væri ofboðslega eftirsóknarvert. Þá sagðist ég vera vildarvinur svo margra, sem er rétt, að ég gæti alls ekki bætt við mig, sem er líka rétt. Svo kvaddi ég og óskaði honum alls hins besta í huganum. Ég er ekki langrækin að eðlisfari, en hét því bara þarna í denn að styrkja aldrei framar félag sem gerði fólki erfiðara fyrir, viljandi.
Ætlunin var að byrja að jólaskreyta í dag en hver nennir því þegar Liverpool og Fulham keppa í fótbolta (og heilum níu mínútum bætt við)? Annars hékk ég í símanum í sófanum og fékk alltaf skilaboð í gegnum FotMob-appið: um rauða spjaldið, skoruðu mörkin og það allt nokkrum sekúndum ÁÐUR en sjónvarpið sýndi það, svo ég gat risið upp og horft ... Sem betur fer unnum við frækilegan varnarsigur (3-3), einum manni færri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 14. desember 2024
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.12.): 76
- Sl. sólarhring: 308
- Sl. viku: 1947
- Frá upphafi: 1512239
Annað
- Innlit í dag: 72
- Innlit sl. viku: 1682
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 71
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni