Jólakúlublæti, fúlar gæsir og óvænt jólavinna

Nóg að geraSíðasti fáránlega rólegi dagurinn í bili ... ég hef kvartað stöðugt yfir því að hafa ekki nóg að gera, eða að fá ekki fasta vinnu (tvær) fyrr en EFTIR áramót. Ég var orðin sæmilega sátt við rólegheitin, að skreyta og jólast í (drepleiðinlegum) hægagangi þegar ég fékk símtal undir hádegi í dag. Heljarinnar yfirlestur fram undan, svipað og sl. haust þegar ég átti að vera að pakka niður og var að auki með leikskólakvef. Alveg dæmigert, hugsaði ég, akkúrat þegar ég ætti að fara að skreyta jólatréð og svona ... en hló nú samt ofsaglöð innra með mér, hrikalega ánægð með að geta unnið eitthvað spennandi.

Á morgun berst mér fyrra handritið svo ég verð meira og minna föst yfir því á næstunni. Það síðara kemur svo á milli jóla og nýárs og því verður skilað áður en önnur vinnan af tveimur hefst snemma í janúar. Gleði, gleði.

 

Þessi "önnur vinnan" er eftir hádegi í u.þ.b. mánuð sem þýðir að ég get ekki pantað frá Eldum rétt á meðan. Bílstjórinn kemur iðulega um kl. 13.30 á mánudögum. Það verður gífurleg áskorun því ég er ekki sérlega góð í að elda nema með sérvöldu hráefni og uppskrift (sem sagt Eldum rétt) - spurning um að ganga smáspöl eftir vinnu og kaupa eitthvað tilbúið; sushi, Lemon eða slíkt. Veit ekki um gott kaffihús í grennd, þyrfti samt að kanna það, oft hægt að fá súpu á slíkum stöðum. Gæti reyndar búið til fullt af lasagne, grænmetissúpu og annað í þeim dúr sem ég kann án uppskriftar, fryst og hitað, nenni ég því? Það er eiginlega allt núna sem beinir mér út á hjónabandsmarkaðinn aftur, ég sem hélt að ég væri hætt þessu strákaveseni. Vissulega algjör dýrð að koma heim úr vinnunni og einhver búinn að elda. Ef þið vitið um einhvern myndi það spara mér mikinn tíma sem ég myndi annars eyða í bakaríum og bókabúðum, sérstaklega í Skotlandi.

 

Fann ljómandi fína lausn fyrir jóladag, fyrir hangikjötshatandi fólkið (já, það er til, svo fer hangikjöt líka illa í suma), pantaði tvöfaldan skammt af ljómandi góðum kjúklingarétti sem ég elda á jóladag, spennandi meðlæti líka. Frá Eldum rétt, sem sagt, kemur á Þorláksmessu. Kvöldmatur fyrir okkur stráksa og svo stór skammtur fyrir jóladag.

 

GæsirFór út í garð í dag, bak við hús, með heilan helling af matarleifum til að gefa svöngu gæsunum sem halda hér til. Þegar ég var búin að stappa niður snjóinn í smáparti af garðinum og byrjuð að dreifa kræsingum þar, tók ég fyrst eftir gæsahópnum sem var við Sæbrautarenda blokkarinnar, ég var garðmegin. Ég kallaði á þær en eitthvað vandamál með traust virtist hamla þeim frá því að koma hlaupandi. Til að sýna að ég væri sauðmeinlaus fór ég að fleygja smávegis mat í áttina til þeirra sem virtist ætla að virka. Alfa-gæsin í hópnum virtist ánægð í fyrstu en þegar hún nálgaðist enn meira fór hún að hvæsa grimmdarlega á mig, sennilegast af vanþakklæti. Gæsir nútímans eru ekki jafnljúfar og þessar sem voru við Tjörnina í denn. Algjörar frekjur, eflaust að skammast yfir því að brauðið hafi ekki verið nógu nýtt eða ekki nógu mikið krem á kökunni, of mikið kolvetni, e-efni, kakó á kostnað súkkulaðis ... 

Þótt ég sé brjáluð út í gæsirnar, aðallega alfa-kvikindið, sleppa þær ekkert við mig. Mér finnst að afgangar eigi að fara í gæsir og aðra fugla yfir vetrartímann og máva og fleiri á sumrin. Ég er rosalega glöð yfir því að hafa fundið fínan fuglamatarstað fyrir matarleifarnar, eins og ég átti á Akranesi. Elsku krumminn sem ég sá uppi á þaki í blokkinni í dag, lagði eflaust ekkert í hvæsandi gæsir eða kýs bara vegan og ketó.

 

Fór fyrst með rusl í tunnurnar niðri/úti. Er búin að finna út að það fer meira plast frá mér en pappi og ansi lítið fer í það óflokkanlega sem er það eina sem við getum fleygt beint í sorplúgu á hverri hæð. Skagamenn eru nýkomnir í "nýja" kerfið svo ég byrjaði ekki að flokka almennilega og rétt fyrr en við flutningana í bæinn í október. Þetta var mjög þægilegt á Akranesi ... pappi og plast saman í stórar tunnur, allt hitt í minni tunnurnar. Kerfið venst mjög fljótt og ég keypti nýlega í Bónus bunka af bréfpokum undir matarúrgang. Fæst frítt hjá Sorpu, skilst mér, en mun seint nenna að taka strætó í Sorpu til að fá ókeypis poka.

 

DavidBorgarlífið er ljómandi fínt - og alveg frábært að hitta fólkið mitt svona miklu, miklu oftar - en ég fæ nú samt reglulega sting í magannn af söknuði eftir Skaganum - bara öllu þar. Er meira að segja enn meðlimur í sérstökum Skagahópum á fb (sem gerir aðskilnaðinn léttbærarari) þótt ég skipti mér lítið af sem brottflutt.

Er byrjuð að skreyta örlítið fyrir jólin, það var svo hárrétt ákvörðun hjá mér að geyma jólaskrautið í skápum hér uppi í stað þess að fara með það niður í geymslu.

 

Ein jólakúla lifði ekki af flutningana í bæinn ... nokkuð gömul sú, með málaðri mynd af Akraneskirkju og ártalinu 2006, ég fékk hana í jólagjöf það sama ár. Ég er ekki vanþakklát gæs svo í staðinn fyrir að gráta þá kúlu gleðst ég frekar yfir því að eiga margar ótrúlega flottar kúlur, m.a. eftir listakonuna Tinnu Royal. Eins og þessa með elskunni honum Hasselhoff. Sjá mynd.

 

 

Enn er jólakúlan með Donald Trump í sérstöku uppáhaldi en hana keypti ég 2018 í jólabúð úti í Flórída ... af því að mér fannst hún svo hræðileg. Þá var Trump forseti og myndin af honum með fágætt jólabros á vör. Svo held ég líka rosalega mikið upp á kúlurnar eftir Tinnu - bláan ópalpakka, dós með Orabaunum, malt-og-appelsín, kókosbollu, Die Hard-kúluna og bara alls konar. Fæ stráksa til að skreyta jólatréð með mér á Þorláksmessu og þá fá allar þessar skemmtilegu jólakúlur að njóta sín.    


Bloggfærslur 16. desember 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.12.): 83
  • Sl. sólarhring: 303
  • Sl. viku: 1954
  • Frá upphafi: 1512246

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1689
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Hnetusmjör
  • Frétt 17. desember
  • Frétt 17. desember

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband