Bollugaldur og blússa Birgittu

Á leið í ReykjadalUm miðjan dag í gær kvaddi stráksi og hoppaði niður stigana með nesti og nýja skó ofan í Glasgow-ættuðum poka. Hans beið ævintýrahelgi í Reykjadal sem hann hafði hlakkað svo til. Letidagurinn sem ég hafði planað í dag gekk að óskum nema ég setti í eina þvottavél, bara af því að það var orðið lítið eftir af handklæðum. Að öðru leyti slökun.

 

 

Auðvitað gætti ég þess vandlega að taka ekki úr uppþvottavélinni sem fór í gang í gærkvöldi, heldur kláraði hroðalega spennandi Joona Linna-bókina Sandmanninn og er rétt svo nýbyrjuð á Hrellinum. Spennt að vita hvort Erlendur hinn finnsk-sænsk-finnski hafi lifað af (hvarf í lokin á Sandmanninum) eða er endanlega horfinn. Spurning hvort Metallica hafi gert lag um hann, Enter Sandman, en ég hlusta svo sem aldrei á texta svoi það gagnast mér ekki. Mig grunar að hann hafi reynt að leita að hryllingsglæpamanninum sem Saga lögga skaut mörgum sinnum áður en hann lenti undir ís á fljóti, en vont fólk á borð við hann er ódrepandi, eins og við vitum svo sem.

 

Klára Hrellinn á morgun, hlusta á meðan ég raða leirtaui úr uppþvottavél í skápa og baka svo kannski vatnsdeigsbollur eftir geggjaðri uppskrift sem ég fann á mommur.is. Mér skilst að galdurinn að velheppnuðum bollum sé að ná hitanum úr deiginu áður en eggin eru sett í (eitt í einu). Hitinn fer ef maður hrærir deigið um hríð á miðlungshraða í hrærivél. Ef maður passar ekki upp á hitann, eða að kæla, verða bollurnar bara sléttar og samanklesstar.

Ef bakarinn hlustar á hroðalega glæpasögu á meðan bakað er - getur það haft slæm áhrif á bragðið? (Er að spyrja fyrir mig) 

- - - - - 

Blússan hennar BirgittuÍ gær horfðum við Inga saman á Idolið. Annan föstudaginn í röð, hún er ekki með Stöð 2 og á þarna eitthvað fallegt í þáttunum sem hún vill sjá - og ég líka. Ég hafði ekki enn horft á þessa þætti, ætlaði alltaf en á bara frekar erfitt með að festa mig yfir sjónvarpi. Það var auðvelt að fyllast spennu, dást að þessum flottu krökkum sem syngja svo vel. Fyrir rúmri viku, eða í fyrra skiptið sem ég horfði, datt út ljóshærð stelpa sem ég hafði nánast veðjað við Ingu að myndi taka þetta ... en hún fékk ekki nógu mörg atkvæði. Þrjú eru eftir, þar af tvö frá Akranesi. Sem gleður gamla Skagahjartað. Mikið ætla ég að horfa á úrslitin á föstudaginn.

 

 

Dómararnir voru ekki síður spenntir, hrósuðu öllum í hástert og Bríet er orðin ástfangin af báðum stelpunum sem eru komnar í úrslit. Ég er enn hamingjusamlega gagnkynhneigð en fylltist þó skyndilegri ást við fyrstu sýn á glitrandi blússu, eða hvað sem þetta er, sem Birgitta klæddist. (Veit einhver hvar svona flíkur fást?) Ég gæti þurft að safna hári til að hún fari mér jafn vel og Birgittu en við Birgitta erum báðar í ljónsmerkinu, nema hún er ögn yngri. Oft hefur verið sagt um ljónin að þau séu glysgjörn. Ég get ekki verið meira ósammála því bulli, en þetta er samt ein allra flottasta blússa sem ég hef séð. Ég færi kannski að horfa meira á sjónvarp, t.d. veðurfréttirnar, eins og prjónafólkið, ef veðurfræðingarnir glitruðu meira. Það verður alltaf allt brjálað þegar veðurfræðingur birtist í prjónaflík. Ég veit ekki af hverju ég er meðlimur á prjónasíðu á Facebook, ég kann ekki að prjóna, ég er líka meðlimur á brauðsíðu, bandalag þeirra sem baka eigið brauð, ég baka ekki brauð, kaupi það ekki heldur, nema við einstök tilefni. Eina síðan sem passar mér virkilega er Stuðningshópur fólks sem labbar hallærislega í hálku


Bloggfærslur 3. febrúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 259
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 2700
  • Frá upphafi: 1458767

Annað

  • Innlit í dag: 213
  • Innlit sl. viku: 2231
  • Gestir í dag: 202
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband