Brokkólísalat Beelzebubs og safaríkt fb-slúður

Fiskréttur með rúsínumGardínuofbeldi var til umfjöllunar í bloggi gærdagsins og ég tek allt aftur sem ég sagði þar, eða að það væri sennilega nauðsynlegt að draga stundum fyrir glugga til að mögulegir raðmorðingjar ættu ekki of auðvelt með að fremja glæpi sína. Í ljós kom að í bókinni sem ég kláraði í dag (við húsverkina) var ekki um að ræða karlmann, heldur afbrýðisama konu sem fækkaði miskunnarlaust meintum keppinautum sínum. Konur hafa aldrei sýnt mér ástreitni, nema ein á Óðali 1985 þegar sá staður var venjulegur skemmtistaður. Ég mun því halda áfram að hafa þunnar, gegnsæar eða engar gardínur ... a.m.k. á meðan ég bý á efstu hæð og hef hafið sem næsta nágranna og Nýju blokkina en þar býr ekki gægjusamt fólk.

 

Ég klúðraði matarpöntuninni hjá Eldabuskunni, merkti óvart við að ég myndi sækja matinn sem er algjör ómöguleiki fyrir bíllausa, hjálparvana prinsessu á bauninni. Þetta var leyst snarlega af ljúfri konu sem svaraði í símann í morgun og maturinn kom upp að dyrum. Matarsjokk dagsins var þó að á brokkólísalatinu voru rúsínur, á ... ekki í. Sjúkk. Mér tókst mjög laumulega að troða þeim á disk stráksa, hann borðar allt nema svið, munið, EN HANN LEIFÐI nú samt salatinu sem sannfærir mig enn frekar um satanískan uppruna rúsína. Ég fór beinustu leið á heimasíðu Eldabuskunnar og í innihaldslýsingarnar, hvort mér væri sjálfrátt fyrst ég pantaði eitthvað með rúsínum ... Ekkert var minnst á rúsínur þar sem innihald. Þá flaug að mér sú hryllingshugmynd að rúsínukvalari minn til áratuga væri kannski farin að vinna hjá vissu matarfyrirtæki, að alvöruvinnan væri bara fyrirsláttur eða hún rekin þaðan fyrir hrekki. Sú hefur hlegið tryllingslega þegar hún stráði þessum beelzebubska (skrattans) hryllingi yfir matinn minn. Bara salatið reyndar, ekki yfir þorskréttinn með heitpaprikusósunni eða hasselbakk-kartöflurnar. Maturinn var ágætur en kjúklingaréttur síðustu viku á enn vinninginn fyrir sturluð bragðgæði. Matarmyndin er af diskinum mínum, engar rúsínur.

 

Hef ekki enn fundið (ekkert leitað) pínulitla rúsínupakkann sem hefur gengið á milli okkar systra, en eins og þið kannski munið fannst mér ég hroðalega snjöll á síðasta ári þegar ég laumaði honum ofan í veskið hennar ... og þegar ég hreykti mér af því nokkru síðar, sagði hún mjög kuldalega: „Ég tók eftir því áður en ég fór í bæinn og faldi hann heima hjá þér!“ Þá búin að þiggja stórkostlegar veitingar og geggjað gott kaffi hjá mér! Kannski ég drífi mig í að finna pakkann og strái svo rúsínum reglulega yfir matinn hennar. Eða eitthvað álíka hræðilegt þar til hún skilur þjáningar mínar. 

 

Stráksi á stoppistöðHáaldraður fóstursonur ásamt nokkuð eldri fósturmóður skoðuðu í dag litla stúdíóíbúð sem gæti mögulega orðið heimili þess fyrrnefnda síðar. Okkur leist mjög vel á íbúðina og sjáum marga möguleika til að gera hana kósí og flotta. Þar sem við stóðum á Garðabrautinni, á leið í skoðunarferðina, og biðum eftir ögn seinum vagninum (illfærð sums staðar) stoppaði Bassel vinur okkar og bauð okkur far þangað. Eftir æðislega skoðunarferðina héldum við á Lighthouse café á Kirkjubraut og snæddum ansi hreint góðan hádegisverð þar. Gengum svo að stoppistöðinni við gamla Landsbankahúsið (sem sumir vilja að verði ráðhús, aðrir ekki, enn aðrir menningarhús) og biðum eftir strætó (sjá mynd). Kom þá ekki næsti hirðbílstjóri (bílstjóri sem hirðir okkur upp í), eða Smári kokkur sem eldaði eitt sinn besta fiskrétt sem ég hef á ævi minni smakkað (sem matgæðingur Vikunnar). Hann fór létt með að skutla okkur heim og bjargaði okkur sennilega, eins og sá fyrri, frá því að þurfa að skjálfa okkur til hita. Svona er nú gott að búa á Akranesi.   

 

Helga BragaFréttir af Facebook

 

Skúli Sigurðsson rithöfundur hefur skrifað undir nýjan útgáfusamning við Drápu. Þriðja bók hans kemur út fyrir næstu jól.

 

Helga Braga leikkona (sjá mynd) setti á fb-síðu sína að hún hefði hafið leiklistarferil sinn í Bíóhöllinni á Akranesi þar sem hún lék Línu Langsokk í samnefndu leikriti! Hver ætli svo hafi leikið kennara Línu í nákvæmlega því leikriti þarna árið 1979? Jú, ykkar einlæg.

Af því að innanbæjarstrætó gengur ekki eftir kl. 18 og fer hvort eð er ekki svona langt í eftirhádegi-ferðunum, slepptum við stráksi því að fara í bíó. En þessa kvikmynd ætla ég samt að sjá, hvernig sem ég fer að því.  

 

Fúsi frændi í Englandi skellti í status um veikindi Karls III sem voru kunngjörð í dag. Hér er hluti hans, innan gæsalappa, kann ekki við að birta hann allan:

„Breska þjóðin er í sjokki, eins og sjá má á fréttamönnum BBC sem eru allir á barmi taugaáfalls.“

Karl hefur sem sagt verið konungur í 17 mánuði og voru nokkrar opinberar heimsóknir og fleiri skylduverk fram undan, en allt er í uppnámi núna.

Aðrir fjölskyldumeðlimir, í þessari röð, munu taka að sér skyldur hans, samkvæmt hefðinni: 

„1. Kamilla drottning. 2. Vilhjálmur prins. 3. Harry prins. 4. Andrés prins. 5. Beatrice prisessa, eldri dóttir Andrésar. (Innskot GH: Hvað um Játvarð prins?)

Búist er við að Kamilla biðjist undan flestum verkefnum hér eftir sem hingað til, mætir í besta falli á ársfundi hjá betri kvenfélögum og þvílíkum stofnunum. 

Harry prins er í ónáð og Andrés prins líka. Þá eru það bara Vilhjálmur og Beatrice sem verða að skipta með sér skyldumætingum konungsfjölskyldunnar. 

... mesta athygli vekur skyndileg ábyrgð Beatrice prinsessu, sem nú hoppar upp úr að vera nánast núll og nix innan þeirrar fjölskyldu í að verða næstæðsti fulltrúi bresku þjóðarinnar.“  

Vona að Fúsi frændi fyrirgefi mér stuldinn. Minni á þá sterku hefð að við skrifum ætíð nöfn kóngafólks upp á íslensku. Fúsi skrifaði reyndar Andrew en ég gat ekki stillt mig um að samræma ...  


Bloggfærslur 5. febrúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 185
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 2626
  • Frá upphafi: 1458693

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 2172
  • Gestir í dag: 149
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband