Ríkir draga ekki fyrir ... ótrúleg véfrétt og möguleg tímamót

Við ríka fólkiðBloggaðdáandi minn, fylgjandi, eða bara dásemdarkona benti mér á ansi hreint áhugaverða grein á mbl.is. Hún gerði það á fb-síðu minni fyrir neðan færsluna þar sem ég deildi blogginu um hversu mögulega hættulegt væri að draga ekki fyrir gluggana heima hjá sér, sem ég tók svo til baka daginn eftir af því að raðmorðinginn í bókinni var ekki ástsjúkur karl ... æ, kíkið bara á mjög nýleg blogg Ég á erfitt með að láta það ganga upp í huganum að kona elti mig á milli landshluta og horfi á mig inn um glugga á þriðju hæð.

.......

Sumir kalla okkur tískufrömuði, frumkvöðla. Þegar ég lifði og hrærðist í heimi hinna frægu og ríku (Séð og heyrt var lengi við hlið okkar á Vikunni) hef ég sennilega smitast af ríkafólkssérvisku, nema mér hafi alla tíð verið ætlað (forlögin) að verða rík, eins og PS og Bjóla sungu um hér í denn, ung og rík. Þetta með að vera strætólúser með notuð húsgögn og ódýran mat, gæti þá hafa flokkast sem krúttleg sérviska. Eða að fá ótrúlega lág laun í áratugi. Mjög krúttlegt.

 

VéfréttinEinhvern veginn tengist allt - ekkert er tilviljun! Ég fékk hugboð um að leita ráða hjá véfrétt himnaríkis sem ég hef ekki nennt að tala við um hríð, eða síðan hún gaf í skyn að ég væri ekki nógu grönn, minnir mig. Er ekki nógu langrækin til að muna af hverju ég er fúl út í einhvern og svo hætti ég bara að vera fúl, eins og núna. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds og ekki bara það, heldur líka skips og bryggju ... svefns og vöku ... Örlög mín eru sem sagt að verða rík gömul kerling, þegar ég verð gömul sem sagt. Samt var ég byrjuð sem trendsetter (tískufrömuður) strax í barnæsku. Að sjálfsögðu ekki til að sýna ríkidæmi mitt, sem fólst aðallega í bókum, mestmegnis bókasafnsbókum en þau sem gægðust inn (þriðju hæð í Nýju blokkinni, annarri hæð í Arnarholtinu) gátu engan mun séð á uppruna bókanna. Auk þess dró mamma stöðugt fyrir - sem hjálpaði sannarlega ekki fólkinu fyrir utan sem beið kannski í öllum veðrum til að sjá inn til okkar.

 

Við stráksi skruppum til læknis í dag, engin vikindi, vantaði bara vottorð. Nafna mín tók á móti okkur og sú er flottur læknir. Hún læknaði kvilla hjá mér fyrir tæpum sex árum sem ég hafði reynt að fá bót á í 25 ár. Hún hringdi bara í mömmu sína, sem er líka læknir, og saman fundu þær út hvað amaði að og hviss bang, ahhbú. Ekki skrítið þótt ég elski þessa konu. Samt rosalega gagnkynhneigð. Þegar stráksi var rokinn í skólann aftur fór ég á fasteignasöluna sem var með Himnaríki á sölu fyrir 18 árum, þegar ég keypti. Ég var að spjalla við feðginin sem þar ráða ríkjum þegar stóri bróðir mannsins kom.

„Bara allt fullt?“ sagði hann og litaðist um, við vorum eina aðkomufólkið þarna.

„Ertu að segja að ég sé feit?“ spurði ég sár ... en eftir blóm og sykurlaust konfekt fyrirgaf ég honum.

 

MosiÉg fæ heimsókn í næstu viku til að skoða og slíkt, verðmeta og slíkt ... en ég sagði þeim að ég myndi ekki hreyfa mig nema fá gott verð. Sjálf keypti ég útsýnið á sínum tíma, sæmileg en sjúskuð íbúð fylgdi, nú væri íbúðin orðin stórfengleg. Alltaf svolítið dýrara húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og þar sem ég ætla að vera áfram strætólúser* langar mig að vera þar sem almenningssamgöngur eru góðar - sem verður kannski aldrei af því að við búum í landi einkabílsins. Það á að reyna að láta almenningssamgöngur skila ágóða ... hahahahahahaha, þess vegna versnar bara þjónustan og farþegum fækkar, sérstaklega þegar fargjöldin hækka líka. Ef ekki væri fyrir dásamlegu bílstjórana á leið 57 og víðar.

 

Ég íhugaði í alvöru að kaupa mér bíl en fannst það ótrúlega flókið. Rafmagnsbíll, tvinnbíll, vörubíll ... æ, svo mikið úrval og svo litlir aksturshæfileikar hjá himnaríkisfrúnni sem lærði á Moskvits á Sauðárkróki þar sem eina biðskyldan var á horninu hjá Búbba. Svo keyrði ég Ford Galaxy ´66 smávegis en hafði heyrt stöðugt hljóma að konur kynnu ekki að leggja eða keyra (eða nokkuð í stærðfræði) svo ég var alltaf með lífið í lúkunum þar til ég stökk upp í strætó og þar fór svona líka vel um mig.

Ekki gróið hverfiÞað verða tímamót þegar stráksi flytur í eigin íbúð. Ef ég finn góða, ekki of dýra íbúð í bænum, alls ekki í grónu úthverfi (sjá hryllingsmynd) og alls ekki með garði (í alvöru), væri það geggjað. Talnaspekingur sagði eitt sinn við mig (í útvarpsviðali og viðtali hjá Vikunni) að það yrðu alltaf vissar breytingar á níu ára fresti hjá fólki. Ekkert endilega stórvægilegar í hvert sinn en samt einhverjar. Það er sem sagt í kringum það þegar við erum 9 ára, 18 ára, 27, 36, 45, 54, 63, 72, 81 ... en sko, þegar ég flutti á Skagann var ég 48 ára (47,5), eða næstum þremur árum eldri en sú Gurrí sem hefði átt að rjúka þá til að flytja. Var þrítug (29,5) þegar ég flutti á Hringbrautina (1988-2006) og var þar í 18 ár (9+9). Og nú hef ég verið í Himnaríki í 18 ár (líka 9+9) og komin með þennan líka fiðring að flytja mig til, án þess samt að tíma því að yfirgefa útsýnið mitt og íbúðina. Getur þessi hægagangur tengst því að hjartað í mér slær of hægt? Eða gerði það þegar ég var krakki ... Ef mér er illt í bakinu geng ég líka mjög hægt. Alveg spurning. 

 

Hrefna, dóttir hans Daníels í Hákoti (fasteignasala), mundi eftir vefmyndavélinni sem var hér úti í glugga í nokkur ár en tæknivankunnátta mín varð til þess að vélin eiginlega slátraði sér sjálf. Hún var á einhverju java-drasli í tölvunni minni sem var svo hrætt (javadraslið) við vírusa að ég var hætt að komast inn í kerfið sjálf og sonur minn gat ekkert gert. Eftir að hlekkur á hana fór á yr.no varð hún afar vinsæl og ekki nema um 30 þúsund manns sem höfðu horft á hana þegar hún síðan klikkaði. Svo var það ljósmyndin af Mosa, sjá hér enn ofar, sem fékk 118 þúsund læk á erlendri útsýnissíðu, View from my window, á feisbúkk. Fólk bara hlýtur að slást um rúmgóða og gullfallega nýlega tekna í gegn 3-4 herb. íbúð við Langasandinn, með útsýni yfir hafið til Reykjavíkur, yfir á Reykjanesskagann (eldgosin) og alla leið til Ameríku ef jörðin væri ekki hnöttótt, er hún það ekki annars? Í staðinn þarf ég sennilega að kaupa útsýnislausa (sennilega) sjúskaða íbúð á kannski óvinsælum stað ... Það er meiri eldgosa- og jarðskjálftahætta á höfuðborgarsvæðinu en er á Akranesi (engin eldgos og skjálftar finnast ef þeir eru yfir 4 að stærð). Lækka svona dæmi fasteignaverðið ekki eitthvað í bænum?

 

*Strætólúser: Ekki tapari, heldur sá sem losnar við að greiða stórfé fyrir að eiga bíl. Sleppur við tryggingar, viðgerðir, bensínkostnað og annað slíkt - sumir hrokafullir bíleigendur telja strætólúsera vera lúsera ... sem er ákaflega bjánaleg og röng ályktun. Við keyrum um á fokdýrum bíl ... með einkabílstjóra! SagaClass-tilfinning!         


Bloggfærslur 7. febrúar 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 64
  • Sl. sólarhring: 453
  • Sl. viku: 2505
  • Frá upphafi: 1458572

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 2067
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband