Góð bæjarferð, frændi kvaddur og unglingar með viti

JyskBæjarferð farin í morgun og þótt mér finnist ég ekkert hafa hreyft mig er skrefafjöldinn í dag kominn í fjórfalt meira magn en meðaltalið sýnir. Ég skammast mín of mikið fyrir hreyfingarleysið, svo tölur, þótt þær skipti öllu máli í öllu, verða ekki birtar að svo stöddu. Fór með systur minni í Jysk til að kaupa rúm, sængurföt og rúmteppi fyrir snáðann, drengsa, pottorminn, piltunginn, guttann(þessi nöfn eru komin í pottinn, takk, elskurnar). Keypti ljómandi fínt rúm sem þarf ekkert að gera við nema skrúfa fætur undir, á frábæru verði þar að auki. Ekki séns að ég geti sett nokkuð saman, hef reynt með slæmum árangri, lífið of stutt fyrir slíkt helvíti, og hirðsamsetjarinn minn er staddur úti í Litháen núna! Búin að redda góðum karli til að sækja fyrir mig rúmið, koma með það og skrúfa fæturna undir það. 

 

Elsku Geiri frændiAðalerindi bæjarferðarinnar var nú samt að fylgja elsku Geira (Þorgeiri) frænda sem lést óvænt fyrir nokkru og var jarðsunginn í dag. Við þekktumst ekki mikið en alla ævi hefur mér líkað einstaklega vel við hann og allt hans fólk. Hjalti pabbi hans var föðurbróðir minn. Geiri kom nánast árlega í afmælið mitt upp á Skaga, rétti mér pakka, fékk sér eina sneið af brauðtertu, eða svo með kaffinu og svo var hann farinn. Eitthvað sem mér fannst afskaplega kunnuglegt og ekkert athugavert við. Pabbi tolldi aldrei í neinum veislum nema í allra mesta lagi hálftíma, oftast svona korter. Svo frétti ég í dag að Hjalti, pabbi Geira, hefði verið svona líka. Guðríður amma kannski alið þá bræður upp við að gestir ættu ekki að vera þaulsætnir - enda var svo sem nóg að gera þarna úti í Flatey (á Skjálfanda) og lítill tími til að stjana við þaulseta ...

 

Geiri vissi auðvitað hversu mikil kattakerling ég er og skellti annað slagið kattabröndurum á vegginn minn á Facebook. Þeir voru vel valdir og skemmtilegir. Mér brá illa þegar kom fram í ræðu prestsins - og minningarorðum systur hans á fb í dag, að hann hafi orðið fyrir heiftarlegu einelti, ekki bara í grunnskóla, heldur líka af hendi einhvers eða einhverra í Vélskólanum. Í þá daga var þetta kallað stríðni en nú þætti það bara ofbeldi. Hann var stór og mikill um sig frá fæðingu, fékk seinna gleraugu ... og það þurfti ekki meira til að leyfa sér að ráðast á þetta stórgáfaða ljúfmenni. 

 

Það var ekki spurning um að mæta í útförina ... reyndar þá fyrstu sem ég treysti mér í eftir dauða sonar míns, fyrir utan jarðarför mömmu 2022. Held að það hljóti að vera erfitt að festast of lengi í einhverju sem kemur í veg fyrir að maður geti gert eitthvað, en ég var virkilega ánægð með að hafa komist yfir þennan hjalla og kvatt góðan frænda sem mér þótti vænt um, í leiðinni hitta stóran hóp af yndislega frændfólkinu sem ég er svo heppin að eiga.

 

„Frú Guðríður, klukkan er að verða fimm, ætlaðir þú ekki að ná strætó heim klukkan hálfsex?“ sagði rödd skynseminnar (systir). Við brunuðum af stað og ekki að spyrja að reykvísku umferðinni, hún tafði okkur það mikið (Hótel Loftleiðir-Mjódd) að ég lagði til að ég tæki bara næsta vagn á eftir, hálfsexvagninn væri líka Akureyrarferðin og oft alveg fullur strætó. Við hefðum sennilega náð, ég hefði kannski haft tvær mínútur frá bíl að vagni, sem nægir, en mig langaði að taka smávegis með af Jysk-dótinu úr skottinu á Hildubíl. Þvo sængurfötin og svona sem er fínt að vera búin að gera. Þarf að vera ansi hreint dugleg á morgun - og hinn. Fæ aðstoð á fimmtudaginn, sjúkk. 

 

 

Útlitið í Mjódd í dagÁ leiðinni í Mjódd til að ná hálfsjöferðinni fór ég að hugsa um næsta eldgos, eða kvikuhlaupið sem verður kannski að eldgosi í kvöld eða á morgun (sem Jón Frímann efast þó um að komi svo fljótt) það hefði nú samt verið dæmigert ef það hefði hafist í dag og ég ekki á vaktinni heima með aðgang að myndavélum í beinni. Þetta er áhugamál hjá mér og hefur verið árum saman.

Er enn hvekkt eftir að hafa verið stödd í bænum þegar eitt einsdagsgosið hófst. En úkraínski hirðljósmyndarinn minn hér í neðra, tók þessa fínu mynd út um gluggann hjá sér. Get ekki ímyndað mér að hún tími nokkurn tíma að flytja héðan. Af hverju gerðist ég ekki jarðfræðingur?

 

Þar sem við stóðum nokkur og biðum eftir leið 57 sagði unglingsstúlka við mig, alveg upp úr þurru: „Mikið ertu með flott um hálsinn.“ Hún átti við túrkísbláa trefilinn minn og bætti svo við: „Þau gera augun í þér svo fallega blá.“

(Sjá mynd af  mér eins og leit sennilega út á stoppistöðinni kl. hálfsjö í kvöld. Fölsun Lagfæring gerð með aðstoð Snapchat)

 

Sko, ef ég hef einhvern tímann efast um unga fólkið á Akranesi ... sem ég hef auðvitað alls ekki gert, aldrei nokkurn tímann, það er upp til hópa vel uppalið, smekklegt, hefur auga fyrir fegurð, er gáfað og dásamlegt. Auðvitað hefði verið afar gaman ef sætur karl hefði sagt þetta - það er orðið allt of langt síðan ég hef hitt menn með viti.     


Bloggfærslur 30. apríl 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 244
  • Sl. sólarhring: 310
  • Sl. viku: 2539
  • Frá upphafi: 1462071

Annað

  • Innlit í dag: 215
  • Innlit sl. viku: 2155
  • Gestir í dag: 204
  • IP-tölur í dag: 200

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Garðyrkja og útivera
  • Veðrið á miðvikudaginn
  • Há og grönn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband