Fyrir neðan allar hillur ...

Jason-StathamEin af ótalmörgum frænkum mínum hringdi í mig í morgun og hnussaði fúl yfir hinu splunkunýja millinafni mínu, hún ávítaði mig líka fyrir að hafa ekki sagt henni, svo hún gæti varað mig við, frá þessu áður en ég birti þetta í málgagninu, eins og hún kallar mitt heilaga blogg. 

„Er ég eina manneskjan sem sé í gegnum þetta útspil þitt? sagði hún hæðnislega.

Hjartað herti á sér. „Hvað áttu við?“

„Það getur ekki verið tilviljun að dóttir fasteignasalans þíns heiti Hrefna, er það? Hvað heldurðu að þú fáir út úr þessu smjaðri? Nafnbreyting er nú, væna mín, eins og tattú sem þú losnar aldrei við? Hefurðu ekki kynnt þér grjótharðar reglur Þjóðskrár?“ 

„Þú ert viti þínu fjær,“ sagði ég.

„Spegill,“ sagði hún róandi og bætti við: „Heldurðu virkilega að hann hækki verðið á himnaríki fyrir þig? Eða láti breyta brunabótamatinu, það er reyndar of lágt miðað við endurbæturnar um árið? Að hann bjóði kannski sellebrittís á Opið hús hjá þér? Býr ekki Skálmöld á Skaganum? Uppáhaldsöskuraparnir þínir? Alla vega einn þeirra? Það væri árangursríkara að láta leka út að Jason Statham sé á leiðinni til landsins og renni hýru auga til himnaríkis, eitthvað slíkt,“ hélt Þrúða frænka áfram og áhugi minn kviknaði. Ég hef verið skotin í Jason í mörg ár. Hann er í ljónsmerkinu, eins og ég, og ekkert svo mörg ár á milli okkar. Við gætum fengið okkur hraðbát fyrir framan (ég myndi auðvitað ekki flytja út þegar hann flytti inn), ég keypti aukalega landhelgi með himnaríki þarna 2006, bygging bryggju og bátaskýlis leyfileg, en mögulega þyrftum við að flytja íþróttavöllinn. Og af því að við Jason yrðum svo umsetin gæti ég þurft að takmarka aðgang fólks að Langasandi, ja, eða kannski ekki. Jason virkar mjög alþýðlegur og hann myndi kolfalla fyrir Skagamönnum eins og svo margir. Honum fyndist örugglega áhugavert að Fast8 (Fast and the furious 8) hafi verið tekin upp hér á hlaðinu. Þetta getur bara ekki klikkað.

 

DollyPartonFréttir af Facebook:

Einn fb-vinur heitir God og kemur oft með krefjandi spurningar til okkar aðdáendanna.

Ein nýleg er:

„Geimverur lenda á jörðinni. Hvaða persóna ætti, að þínu mati, að hitta þær fyrir hönd mannkyns?“

Svörin voru mörg og vinsælustu persónurnar voru þessar:

 

Jack Black

Dolly Parton, auðvitað

Keanu Reeves

Sir David Attenborought

Trump (myndu verja degi með honum og aldrei koma aftur)

Dalai Lama

Chuck Norris, til öryggis

Jimmy Carter og Willie Nelson.

- - - - - - - 

 

Svo var einhver að rifja upp fyndin og bjöguð orðatiltæki með aðstoð þeirra sem skrifuðu komment - og ég stal miskunnarlaust nokkrum góðum fyrir þau sem eru ekki á Facebook en búa yfir þeim þroska að lesa blogg:

 

- Mér er ekkert að landbúnaði.

- Mér rann kalt vatn milli þils og veggjar.

- Eins og skrattinn úr sauðalæknum. 

- Sjaldan launar kálfur ofbeldi.

- Það veit ég sem allt veit. 

- Að vera á undan sinni framtíð. 

- Margur er ríkari en hann er. 

- Ég biðst fyrirlitningar.

- Get bara ekki brotið odd af ofbeldi mínu. 

- Eins og naut á mannvirki. 

- Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur (svo rétttt).

- Fyrir neðan allar hillur.

- Eins og draugur úr heiðskíru lofti. 


Bloggfærslur 14. maí 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 25
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 721
  • Frá upphafi: 1517301

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 582
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband